þriðjudagur, desember 26, 2006

Gleðileg jól



Höfum eitt á hreinu. Jól eru ekki kristin hátíð. Orðið „jól“ hefur verið í málinu mun lengur en kristnin í þjóðinni, það er svo fornt að uppruni þess er í raun hulin ráðgáta. Heiðnir menn héldu hátíð í tilefni af vetrarsólstöðum og kölluðu hana „jól“.
Höfum annað á hreinu. Við vitum ekki hvenær ársins Jesús fæddist. Líkurnar á að það hafi verið 24. desember eru einn á móti 365. Hafi hann fæðst þennan dag er það hrein tilviljun. Auk þess fæddist Jesús löngu áður en tímatal okkar var búið til og afar óvísindalegt er að ætla að reikna einstakar dagsetningar aftur í tímann langt aftur fyrir upphaf þess.
Höfum loks á hreinu að Jesús, sá er fæddur var af Maríu þeirri sem kölluð er „Mey“ og píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, var til. Til að trúa því að persónan Jesús Maríuson sé uppspuni frá rótum þarf mun meiri trúgirni en til þess að viðurkenna að hann hafi verið til, heimildirnar eru bara of sannfærandi. Hvað einstök æviatriði hans, ætterni í karllegg og sagnfræðilegan áreiðanleika hinna ýmsu frásagna Nýja testamentisins varðar, þá verða menn hins vegar að ákveða hver fyrir sig að trúa postullegu trúarjátningunni eða ekki – hún verður hvorki sönnuð né afsönnuð með þeim aðferðum sem við beitum hinn mælanlega raunveruleika. Í trúarsannfæringu felst nefnilega meðal annars fullvissa um að til sé sannleikur sem er dýpri og æðra eðlis en sannleikshugtak efnisheimsins. Þannig getur fjöldi manns til dæmis vitnað um áhrif bænarinnar á líf sitt þótt þau séu auðvitað ekki mælanleg með neinum þekktum aðferðum.
En þegar upp er staðið þá er ekkert skrýtið að kristið fólk skuli velja jólin til að fagna fæðingu frelsarans. Það er einfaldlega allt of gráupplagt, öll táknfræðin æpir beinlínis á það. Myrkur (fáfræðinnar, dauðans, mannvonskunnar, óttans og alls sem myrkrið getur táknað) tekur að hopa fyrir birtu (sannleikans, lífsins, kærleikans, friðarins og alls þess sem Jesús stendur fyrir).
Að þessu sögðu vil ég óska landsmönnum öllum árs, friðar og gleðilegra jóla. Ennfremur óska ég ykkur öllum til hamingju með birtuna í lífi ykkar, hvaðan sem hún er runnin.


(Bakþankar í Fréttablaðinu 24. 12. 2006)

laugardagur, desember 23, 2006

Swiss Miss ...


... er ekki svissneskt kakó heldur amerískt. Mér finnst það eiginlega hálfgert svindl. Það eyðileggur alveg fyrir mér fjallakofatengdan ævintýraljómann af því að neyta þess. En það hlaut eiginlega að vera. Ef það væri svissneskt héti það ekki Swiss Miss heldur líklega Schweizerisches Fräulein, sem hljómar auðvitað ekki næstum því eins girnilega.

þriðjudagur, desember 19, 2006

sunnudagur, desember 17, 2006

Jólatrésala, jólatréssala eða jólatrjáasala?



Mér hafa borist fyrirspurnir um hvað sé rétt heiti á þeirri þjónustu að selja fólki jólatré. Elías spyr hvort það eigi að vera eitt eða tvö S í „jólatrés(s)sala“ og Bára bætir um betur og segist hafa haldið að „jólatrjáasala“ væri hið eina rétta heiti á fyrirbærinu.
Segja má að það komi vel á vondan að ég skuli vera spurður um þetta atriði, því ekki er langt síðan það var mér einmitt sérstakt kappsmál að orðinu „jólatrés(s)sala“ væri útrýmt úr íslensku og í staðinn væri talað um „jólatrjáasölu“. Gekk þetta svo langt að árum saman beindi ég öllum mínum jólatrjáaviðskiptum að flugbjörgunarsveitinni – á málræktarlegum forsendum. Hún var eini söluaðili jólatrjáa sem auglýsti þessa fjáröflun sína sem „jólatrjáasölu“. Þess ber að geta að á þessum árum var ég eindregið fylgjandi svokallaðri „preskriftífri“ málfræði.
Síðan þá hef ég mildast talsvert í afstöðu minni og finnst núorðið frekar við hæfi að tala um „viðeigandi“ og „óviðeigandi“, „eðlilega“ og „óeðlilega“ eða jafnvel „viðurkennda“ málnotkun frekar en að setja sig í það dómarasæti að kalla meðferð annarra á móðurmáli sínu „rétta“ eða „ranga“, nema maður geti fært alveg sérstaklega góð rök fyrir því. Strangt til tekið talar maður aðeins „rangt“ mál þegar maður talar þannig að maður er annað hvort misskilinn eða ekki skilinn. Því setningar og orð hafa í sjálfu sér enga aðra merkingu en þá sem samkomulag ríkir um að þau hafi.
Auðvitað segir það sig sjálft að sá sem selur jólatré selur fleiri jólatré en eitt og því er eðlilegt að rætt sé um jólatrjáasölu. Að það geri orðið „jólatrés(s)sala“ rangt er hins vegar fráleitt. Fjölmörg dæmi eru í íslensku um samsett orð þar sem fyrri hlutinn er hafður í eintölu þótt merkingarlega sé augljóst að „réttara“ væri að hafa hann í fleirtölu. Dæmi um það gæti verið orðið „rækjusalat“. Auðvitað er ekki bara ein rækja í rækjusalati, en samt kannast ég hvorki við orðin „rækjasalat“ né „ræknasalat“. Það veldur einfaldlega engum misskilingi þótt fyrri hlutinn sé hafður í eintölu. Fyrir því eru eflaust fagurfræðilegar ástæður, ætli „rækjusalat“ þyki ekki fara betur í munni en „ræknasalat“.
En vilji maður tala um „jólatré(s)sölu“, hvort á maður þá að hafa hana með einu S-i eða tveim? Að mínu mati er hér einungis um smekksatriði að ræða. Færa má rök fyrir því að eðlilegra sé að hafa tvö S, að fyrri hlutinn sé orðið „jólatré“ í eignarfalli, þ. e. „jólatrés“ enda hér um „sölu jólatrés“ að ræða. Hins vegar er eingarfallssamsetning ekki algild regla í tungumálinu og fjölmörg dæmi til um stofnsamsetningar. Þá er fyrri hluti samsetts orð ekki eignarfallsmynd heldur stofn orðsins. Sem dæmi má nefna orðin „hestbak“ (en ekki „hestsbak“) og „húsþak“ (en ekki „hússþak“). Þar sem hér er um að ræða sölu á allmörgum jólatrjám en ekki einu jólatré má jafnvel færa gild rök fyrir því að hér sé stofnsamsetning betur við hæfi en eignarfalls, að „jólatré“ sé þá eins konar magnorð, líkt og þegar talað er um „fiskbúð“ (en hvorki „fisksbúð“, „fiskjarbúð“ né „fiskabúð“).
Það hvort fólk talar um jólatrjáasölu, jólatréssölu eða jólatrésölu lýsir því að mínu mati einungis íslenskusmekk þess – ekki íslenskukunnáttu. Sjálfur tel ég ennfremur aðrar og hættulegri ógnir steðja að móðurmálinu en þá hvert þessara þriggja orða fólk notar um þá göfugu iðju að selja fólki jólatré og að við, verndarar tungunnar, ættum frekar að beina sjónum okkar að þeim.

þriðjudagur, desember 12, 2006

Aukasetningar ...

... geta verið vandmeðfarnar í íslensku. Þannig fékk ég þessa tilkynningu netleiðis í dag: „Það má segja að engin vandamál hafi komið upp, sem við erum þakklát fyrir."
Hvað með vandamál sem þið eruð ekki þakklát fyrir?

Gagnrýnin sjálfsskoðun

Það er hollt og gott að stunda gagnrýna sjálfsskoðun. Sumir líta að vísu á hana sem veikleikamerki af því maður beinir einmitt sjónum sínum að veikleikum sínum. En í raun ber það vott um áræði og kjark að þora að finna sök hjá sjálfum sér og reyna að skilja hverju maður þarf að breyta til að vegna betur. Gagnrýnin sjálfsskoðun er í raun alger forsenda framfara.
Hins vegar er ekkert skrýtið að sumum standi stuggur af gagnrýninni sjálfsskoðun. Við hana kemur nefnilega eitt og annað í ljós sem miklu þægilegra er að vita ekki af. Það er mjög sársaukafullt að vera sviptur hinni ljúfu lífslygi. Það er til dæmis ekki næstum því jafnmikið vesen að lifa í þeirri trú að vinurinn sem fór í meðferð hafi verið miklu verr á vegi staddur en maður sjálfur, eins og að viðurkenna að maður hafi enga stjórn á lífi sínu. Auðvitað er miklu þægilegra að trúa því að maður sé rúinn trausti út af slúðri, baktali og kjaftagangi í skinhelgu pakki sem upphefur sjálft sig á manns kostnað, heldur en að horfast í augu við að manni sé einfaldlega ekki treystandi og að „skinhelga pakkið“ sé bara að ræða sín á milli um það sem öllum má vera ljóst. Það er miklu auðveldara að kenna öðrum um allt sem miður fer en að gangast við sjálfum sér.
Því er ég nú að velta þessu fyrir mér að nýlega flutti formaður Samfylkingarinnar flokksmönnum sínum ávarp sem töluvert áræði þurfti til að flytja, ávarp sem að nokkru leyti einkenndist af gagnrýninni sjálfsskoðun. Þar gerðust þau undur og stórmerki að íslenskur stjórnmálaflokkur reyndi að gangast við vandamálum sínum í stað þess að kenna ímynduðu „einelti“ um þau, eins og aðrir stjórnmálaflokkar gera um þessar mundir.
Það kom mér hins vegar ekki á óvart að heyra Sjálfstæðismenn hæða þennan kjark, enda myndu þeir lenda í miklum vandræðum ef sjálfsgagnrýni yrði lenska í hérlendri pólitík og þeir þyrftu að leika þetta eftir. Nýleg yfirlýsing formanns Sjálfstæðisflokksins um að „heppilegra“ hefði verið að míga ekki á stjórnarskrá lýðveldisins þegar innrásin í Írak var studd á forsendum sem ekki dugðu ríkisstjórn neins siðaðs ríkis í heiminum til að vera sama sinnis, er nefnilega það sem kemst næst því að flokkast undir einhvers konar sjálfsgagnrýni þar á bæ.
(Bakþankar í Fréttablaðinu 10. desember 2006)

laugardagur, desember 09, 2006

Staurfætur


Ég er alinn upp við þá orðanotkun að þegar einhver er sagður vera með staurfætur þýði það að hann sé stirður á velli. Fyrir mér er staurfótur ekki tréfótur eða frumstætt stoðtæki heldur einfaldlega fótur sem ekki beygist um hnéð, er stífur sem staur, þótt ekki þurfi að taka því bókstaflega. Sá sem er mjög stirðbusalegur, til dæmis í fótbolta eða danslist, gæti þannig verið „óttalegur staurfótur“.
Ég fletti orðinu upp í Orðabók Marðar og þar segir einmitt að staurfótur sé „liðstirður fótur sem ekki er t. d. hægt að beygja um hnéð“. Þar er að vísu einnig gefin upp merkingin „tréfótur“.
Því er ég að velta þessu fyrir mér að ég hef undanfarið séð teikningar af jólasveini sem er með tvo tréfætur og fengið staðfest að þetta eigi að vera Stekkjarstaur. Um Stekkjarstaur segir nefnilega í jólasveinavísum Jóhannesar úr Kötlum að „greyið hafði staurfætur“. Teiknarinn hefur greinilega hent það á lofti að hann hafi misst báða fætur og væri því með tréfót á báðum. Þetta þykir mér hvimleitt, því ég hafði alltaf skilið vísuna þannig að hann ætti erfitt með að beygja á sér hnén og það væri ástæða þess að erfitt væri fyrir hann að sjúga ærnar.
Einkum þykir mér þetta hvimleitt vegna þess hvernig þetta stuðlar að útvötnun tungunnar. Ef staurfótur er tréfótur, hvað á þá að kalla staurfót? Þessi skemmtilega lýsing á stirðbusa er orðin lýsing á úreltu hjálpartæki fólks sem misst hefur fót/fætur. Leiðinlegast er að þetta skuli gerast á vegum fyrirtækis sem annars gefur sig út fyrir að slá skjaldborg um tunguna.
Eða sáuð þið kannski Stekkjarstaur fyrir ykkur með tréfætur?
P. S. Heitir hann ekki ábyggilega Stekkjarstaur? Á jolamjolk.is er hann kallaður Stekkjastaur (án errs).

þriðjudagur, desember 05, 2006

Fullorðnir karlmenn eru ekki með tásur

Fullorðnir karlmenn eru ekki með tásur. Aðeins konur og börn eru með tásur, hin krúttlegustu þeirra jafnvel með táslur. Fullorðnir karlmenn eru með tær og aðeins tær. Meira að segja karlmenn sem þykja sætir, jafnvel krúttlegir, eru með tær – ekki tásur, hvað þá táslur.
Eða hvernig líst ykkur á þetta:

Konungur mælti: „Heldur vil eg því að fulltingja að eigi muni fást jafnljótur fótur og svo þótt eg skyldi veðja um.“
Þá mælti Þórarinn: „Búinn em eg að veðja um það við yður að eg mun finna í kaupstaðinum ljótara fót.“
Konungur segir: „Þá skal sá okkar kjósa bæn af öðrum er sannara hefir.“
„Svo skal vera,“ segir Þórarinn.
Hann brá þá undan klæðunum öðrum fætinum og var sá engum mun fegri og þar var af hin mesta tásan.
Þá mælti Þórarinn: „Sjá hér nú konungur annan fót og er sjá því ljótari að hér er af ein tásan og á eg veðféið.“
Konungur segir: „Er hinn fóturinn því ófegri að þar eru fimm táslur ferlegar á þeim en hér eru fjórar og á eg að kjósa bæn að þér.“
(Úr Heimskringlu (með smábreytingum))

Það sjá allir að þetta gengur ekki.

föstudagur, desember 01, 2006

Litla, gula hænan: In memoriam



Ég fékk ökuréttindi snemma í janúar 1982 þannig að bráðum hef ég verið akandi í aldarfjórðung. Þegar þessi tímamót urðu í lífi mínu átti móðir mín forláta bifreið af tegundinni Autobianchi. Hún var ljósgul og af undirtegundinni Elegant. Á hlið bílsins var lítið málmskilti sem orðið „Elegant“ var letrað á og þóttu það hálfgerð öfugmæli, ef ekki beinlínis blatant lygi, eftir að bíllinn hafði verið í minni umsjá um hríð. Eftir að ég hafði haft bílpróf í einhvern tíma varð það nefnilega úr að ég fékk Autobianchi þennan til umráða.
Í minni fjölskyldu (og víðar þykist ég vita) er það til siðs að gefa bílum nafn. Þannig var fyrsti bíll fjölskyldunnar Trabant sem hét Gagarín og var skreyttur fjólubláum blómum. Mér skilst að Inda frænka hafi gefið þeim bíl nafn eftir að hann hafði drýgt einhverja hetjudáð þegar hetja augnabliksins var einmitt hinn geðþekki, sovéski geimfari. (Þó sennilega nokkrum árum síðar, þótt vissulega sýni þetta hvað ég er orðinn hundgamall.)
Autobianchi þessi fékk fljótlega nafnið Litla, gula hænan í vinahópnum – af því að hann var lítill og gulur. Í fyrstu þótti mér það ekki nógu virðulegt nafn, en smám saman varð ég að samsinna því að auðvitað var Litla, gula hænan hetja á sinni hátt. Alltjent var meira í hana spunnið en hún bar með sér þótt auðvitað sé siðgæði hennar óþrjótandi uppspretta pólitískra þræta. Og svo sannarlega var líka meira í bílinn spunnið en útlitið gaf til kynna.
Hann komst allt. Hann var svo léttur að þegar stærri og kraftmeiri bílar sukku á kaf flaut hann eins og snjóþota yfir hindranirnar. Og þá sjaldan að hann festi sig þurfti engan her heljarmenna til að losa hann. Og svo spratt hann af stað eins og gormur þegar maður gaf inn. Ég þori ekki að hengja mig upp á það, en ég held að þessi bíll hafi verið byggður á sömu grind og smæsti Fíatinn, sem ég held að heiti því frumlega nafni 126, en verið umtalsvert léttari og snarpari sem því nemur. Hægt var að taka 180 gráðu beygju á punktinum (í minningunni). Þessum bíl var svo auðvitað hægt að leggja hvar sem var, þótt á þeim árum hafi bílastæðavandamál ekki verið komin til sögunnar, enda ekki pólitískt markmið stjórnvalda á þeim tíma að hafa hvert mannsbarn á landinu yfir 17 ára aldri skuldsett áraraðir fram í tímann við að borga af sínum splunkunýja prívat bíl.
Þjarkur var þessi bíll líka. Við fórum fimm saman á honum í útilegu í Húsafell með farangur, nesti og allt tilbehör. Að vísu er mamma enn þeirrar skoðunar að hann hafi ekki borið sitt barr eftir það. Kannski má tengja það því að ég ók honum út í skurð í bakaleiðinni. Ég hafði ekið fullgreitt af því að bensínið fór að leka niður úr honum og við vorum að flýta okkur á bensínstöð áður en það yrði búið. Vegfarendur drógu okkur aftur upp á veg og á bensínstöðina komumst við heilu og höldnu. Þar náðum við Einar að gera við lekann með gúmmíhosu og tveim hosuklemmum. Það var varanleg viðgerð sem entist allan líftíma bifreiðarinnar og ekki sást að henni hefði orðið meint af volkinu.
Reyndar tók Litla, gula hænan að drabbast niður smátt og smátt eftir að ég tók við henni. Einu sinni tókst mér til dæmis að aka í veg fyrir jeppa með kerru. Jeppinn sveigði hjá, en kerran reif frambrettið farþegamegin af bílnum í heilu lagi. Ekki sást neitt á kerrunni. Steinn Ármann sat í farþegasætinu og ég held að hann hafi aldrei á ævinni orðið eins hræddur og þegar hann sá jeppatröllið koma æðandi að okkur sitjandi þarna í boxinu.
Síðar fór rafkerfið að bila og ég man að flautan var hætt að virka þegar eitthvað í bílstjórahurðinni klikkaði með þeim afleiðingum að hún lokaðist ekki og binda varð hana aftur með bandi. Einhvern tímann stöðvaði lögreglan okkur við rútínuathugun og fann ekkert athugavert sem betur fer, því ef hún hefði beðið mig um að stíga út úr bílnum hefði ég annað hvort þurft að príla yfir Stein og fara út farþegamegin eða skríða út um gluggann. Þegar við þetta bættist að fljótlega fór að vera erfitt að koma bílnum í gír var auðvitað ekki von á góðu.
Einhvern tímann vorum við að skutla einhverjum í Sparisjóðinn uppi í Norðurbæ og sátum úti í bíl og biðum eftir að hann kæmi til baka. Ég hafði staðnæmst fyrir aftan jeppa sem var þar í stæði. Þá gerðist það að bílstjóri jeppans þurfti að bakka út úr stæðinu. Jeppinn var jafnbreiður og Litla, gula hænan var löng og á háum dekkjum þannig að ekki sá hann mig út um baksýnisspegilinn. Flautan virkaði ekki, svo ekki gat ég varað hann við, og svo notaði bíllinn auðvitað þetta tækifæri til að komast ekki gír. Við gátum því aðeins setið þarna fullkomlega hjálparvana og beðið þess sem verða vildi. Jeppinn bakkaði á okkur og hélt því áfram án þess að ég fengi rönd við reist, alveg þangað til bílstjóri hans fann að þarna væri nú einhver fyrirstaða og fór að kanna málið.
Á þessum bíl lenti ég líka einu sinni í því að ég hélt að vélin væri komin í mask. Það var á malarvegi, ábyggilega á leiðinni úr Húsafelli eða af Hvítárbökkum, þegar þessir ofboðslegu skruðningar og læti tóku að glyma framan úr bílnum. Ég stöðvaði ökutækið, opnaði vélarhlífina og bjóst við að sjá rústir einar, en þar virtist allt í lagi (upp að því marki sem ég var dómbær á það). Í þessu botnaði ég ekki neitt þangað til ég sá að önnur skrúfan sem hélt uppi bílnúmerinu að framanverðu hafði brotnað með þeim afleiðingum að númerplatan var nú lóðrétt og plægði upp veginn eins og tönn í vélskóflu. Nú var ráfað um í sveitasælunni í smástund til að finna lausn sem birtist okkur í gömlu baggabandi sem fokið hafði og sest á nálæga girðingu. Númerið var bundið upp með baggabandinu og ekið sem leið lá í bæinn án frekari málalenginga. Mig rekur ekki minni til þess að baggabandinu hafi nokkurn tímann verið skipt út fyrir öflugri festingu, þótt líklega hafi það nú verið gert.
Einu sinni um þetta leyti var bíllinn í óvenjugóðu skapi og auðvelt að koma honum í gír. Þegar þetta gerðist var töluvert síðan búið átti að vera að skoða hann og greip ég því tækifærið og fór með hann í skoðun niður á lögreglustöð sem þá var við Suðurgötuna í Hafnarfirði, gegnt Gúttó. Skoðunarmaðurinn kom út, settist upp í bílinn og kom honum ekki í bakkgír. Ég settist upp í bílinn og reyndi það, en án árangurs. Þá prófaði hann aftur og tókst það, en bíllinn tók af stað afturábak – út á Suðurgötuna í veg fyrir umferð - án þess að kúplingin virkaði þegar maðurinn steig á hana svo hann steig á bremsuna og kæfði við það vélina. Ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar, séð skoðunarmann beinlínis reiðan, enda nýsloppinn úr lífsháska. Bíllinn fékk rauðan miða með þjósti: Úr umferð – beina leið á verkstæði. Ég hef ekki heldur séð rauðan skoðunarmiða hvorki fyrr né síðar.
Það sem varð þessum undarbíl fyrir rest að aldurtila var sú frámunalega heimskulega ákvörðun mín að fara með hann í smurningu. Ég hafði heyrt talað um að svoleiðis gerðu menn með reglulegu millibili og þar sem ég átti aldrei þessu vant einhvern pening brá ég mér með hann upp á smurstöð, dældaðan, rispaðan og flekkóttan sem hann var orðinn af öllu slarkinu. Þar keyrði ég yfir gryfjuna og bað manninn að skipta um olíu á bílnum. Hann skreið ofan í gryfjuna og skrúfaði tappann neðan úr vélinni, en í stað þess að þaðan læki óhrein olía kom bara ryk svífandi. Hann skrönglaðist forviða upp úr gryfjunni og æpti á mig sárreiður: „Skipta um olíu? Það er engin olía á vélinni til að skipta um!“ Það vantaði bara að hann hnýtti við: „Það eru menn eins og þú sem gera þetta starf viðbjóðslegt! “
Þarna var ég semsagt, án þess að gera mér grein fyrir því sjálfur, búinn að finna upp eilífðarvélina, bílvélina sem ekki þurfti að smyrja. Því daginn eftir að olía var sett á bílinn brotnaði vélin í honum. Það var í Lönguhlíðinni á móts við Háteigskirkju. Bíllinn var dreginn upp í Gufunes þar sem hann er nú grafinn í jörðu.
Svo yndislegur þótti mér þessi bíll að skömmu síðar, þegar ég keypti mér minn eigin bíl í fyrsta sinn, varð einmitt annar Autobianchi fyrir valinu. Þessi var eilítið nýrri árgerð og hvítur. Hann hlaut sæmdarheitið Svanurinn. Átti nafnið að kinka kolli til forvera hans og vera vísun í annað ævintýri um lítinn fugl, andarunga í þessu tilviki. Svanurinn öðlaðist aldrei sömu sögu og sál og Litla, gula hænan, enda lenti hann aldrei í viðlíka ævintýrum, en þó dugði hann ágætlega. Eftir að hafa átt tvær Autobianchi bifreiðar get ég því ekki annað en gefið þeim mín bestu meðmæli.
Það skemmtilegasta við Litlu, gulu hænuna var þó sennilega límmiðinn sem mamma gaf mér til að setja í bakgluggann á henni. Hann var þar alla tíð og olli jafnan kátínu. Á honum stóð stórum stöfum: „PASSION WAGON“ og fyrir neðan, smærra letri: „Don't laugh, your daughter may be inside. “

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Að kippa lýðræðinu úr sambandi

Íslenskan er yndislega gegnsætt mál. Við búum í lýðveldi af því að lýðurinn hefur völdin. Hér er lýðræði af því að lýðurinn ræður. Að vísu hefur lýðurinn svo margt annað að gera að hann hefur komið sér upp fulltrúalýðræði þar sem lýðurinn velur fulltrúa til að ráða fyrir sig. Þetta væri hreint fyrirtak ef fyrirkomulagið á því hvernig lýðurinn velur fulltrúana væri ekki svona ólýðræðislegt.
Margir flokkanna hafa nefnilega komið sér upp prófkjörum. Þar raðar lítið brot af væntanlegum kjósendum flokksins upp listanum sem boðinn verður fram. Þannig getur tiltölulega fámennur hópur með samanteknum ráðum komið fullkomlega óhæfum frambjóðanda, jafnvel forhertum glæpamanni, í eitt efstu sætanna þvert á vilja alls meirihluta kjósenda.
Fjölmiðlar taka síðan þátt í því að kippa lýðræðinu úr sambandi á þennan hátt með því að hamra stögugt á því að þessi eða hinn sé í „öruggu“ sæti. Í lýðræði sem stendur undir nafni, en er ekki skrípamynd af hugtakinu, á enginn að vera „öruggur“ um eitt einasta atkvæði fyrr en það hefur verið greitt honum. Ef þjófóttur mútuþegi kemst á þing má það ekki vera af því að nokkrir siðblindingjar sem meta dugnað meira en heiðarleika komu honum í „öruggt“ sæti í prófkjöri. Það á að vera af því að kjósendur í flokksins í kjördæminu völdu hann sem fulltrúa sinn.
Prófkjör hafa einfaldlega gengið sér gjörsamlega til húðar. Það vekur manni beinlínis ugg að vongóð þingmannsefni skuli jafnvel kosta jafnmiklu til að komast á þing og þau geta vænst að fá í kaup á kjörtímabilinu. Annað hvort er það alveg himinhrópandi augljóslega vondur bisnes eða eitthvað er í gangi sem maður veit ekki um en ætti að vera á allra vitorði í lýðræðisþjóðfélagi.
Það er löngu orðið tímabært að leggja prófkjör og forvöl niður og sameina þau kosningum. Það er ekki mikið mál og auðvelt í framkvæmd að kjósendur númeri, segjum tíu manns frá einum og upp í tíu, um leið og þeir kjósa flokkinn sem þeir bjóða sig fram fyrir. Þannig ráða þeir sem sannarlega kjósa hvern flokk hverjir fulltrúar hans eru en ekki fáeinir einstaklingar sem stjórnast kunna af annarlegum forsendum.
Vonandi verður eitthvað í þessum kosningum og aðdraganda þeirra til þess að lýðræðinu verði stungið í samband aftur.
Bakþankar í Fréttablaðinu 26. nóvember 2006

mánudagur, nóvember 27, 2006

Vestmannaeyjar internetsins

Ekki skil ég þessa almennu óánægju með bloggerinn sem ég sé hist og her. Síðan ég hóf að blogga fyrir rúmu ári hefur engan skugga borið á viðmót bloggersins míns gagnvart mér og er ég þó ekki sá flinkasti á netinu, ég viðurkenni það. Hvernig er hægt að eiga í erfiðleikum með að kommentera? Þessi óskiljanlega óánægja ristir meira að segja svo djúpt að margir bloggarar eru búnir að flytjast búferlum, s. s. Sigmar, Danni bróðir og Tóta paunk. Ég get ekki séð að viðmót nýju síðnanna sé betra en þeirra gömlu - nema síður sé. Letrið er smærra og síðurnar eru lengur að hlaðast inn. Að vísu er nýja síðan hennar Tótu meintöff, það skal viðurkennt, en að henni undanskilinni eru nýju síðurnar meira að segja ljótari en þær gömlu - að mínu mati.
Og hvað er málið með bloggumhverfi þar sem maður er skikkaður til að auglýsa hinn og þennan andskotann - jafnvel frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins!?
Það tilkynnist því hér með að ég er hæstánægður með bloggerinn minn. Ég blogga í besta bloggi allra hugsanlegra blogga og er ekki að fara neitt.
Og svo legg ég til að kaninka.net verði útnefnd Vestmannaeyjar internetsins - það er bara hipsum haps hvort sé fært þangað.

sunnudagur, nóvember 19, 2006

„Kellingar töpuðu …“

… var sagt hátt og skýrt í útvarpsfréttum í gær. Ég undraðist að helsta niðurstaða nýjustu prófkjöra skyldi dregin saman í svona brútal setningu, þótt vissulega væri ekki hægt að þræta fyrir sannleiksgildi hennar. Einnig vakti það athygli mína að Hörður Magnússon skyldi vera farinn að segja fréttir af pólitík. Þó fannst mér það á ákveðinn hátt við hæfi fyrst kvenfyrirlitningin sem frá öndverðu hefur einkennt íþróttahreyfinguna skuli vera orðin jafnáberandi meðal hægra- og miðjufólks og nýyfirstaðin prófkjör bera vitni um. Mér fannst þetta þó afar slæmt, hvernig sem á það var litið.
Þá lagði ég við hlustir og komst að því að Hörður var alls ekki að fræða mig um að kellingar hefðu tapað einu né neinu heldur hefðu Keflvíkingar tapað körfuboltaleik. Það fannst mér eiginlega verra en hitt. Ef einhver vill segja að Keflvíkingar séu kellingar ætti hann að mínu mati að gera það af sannfæringu, ekki óskýrmælgi.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Sýrður rjómi, súpukjöt, strætóskýli og málkennd mín

Ég tók strætó í vinnuna í morgun. Það varð mér tilefni til þessara vangaveltna. Það er nefnilega orðið kalt.
Upp á síðkastið hef ég séð sýrðan rjóma auglýstan í sjónvarpinu. Ég efast ekki um að þetta sé ágætur sýrður rjómi, ég veit það ekki ég hef ekki smakkað hann. En hann er víst sérlega fitulítill og sá fituminnsti er 4%. Þetta finnst mér merkilegt. Á súrmjólkurfernum (sem ég les á hverjum morgni) stendur nefnilega að í hverjum hundrað grömmum af súrmjólk séu 3,9 grömm af fitu. Spurningin er því: Hvenær verður mjólk að rjóma? Ef súrmjólkin mín væri 0,1 prósenti feitari væri hún þá orðin rjómi? Samkvæmt minni málkennd er mjólkurafurð sem er 4% fita því ekki fitulítill rjómi heldur feit mjólk. Ég er auðvitað enginn mjólkurfræðingur, en sem neytanda finnst mér einhver ólykt af þessu. Það sem hlutirnir eru kallaðir verður að vera í einhverju samræmi við það hvernig þeir eru í raun, ekki hvað er best að kalla þá til að ég í fáfræði minni kaupi þá.
Sama gildir um súpukjöt. Mér finnst að til þess að leyfilegt megi vera að selja vöru sem kjöt verði að vera eitthvað lágmarksmagn af kjöti í henni. Væri súpukjöt selt sem „súpufita, -sinar og –bein“ myndi ég ekki gera neina athugasemd við það. Ég er auðvitað enginn kjötiðnaðarmaður, en sem neytanda finnst mér eitthvað athugavert við þetta.
Og þá er komið að strætóskýlinu. Ég er enginn verkfræðingur, en ég veit að orðið „skýli“ er skrifað með ufsiloni af því að það er skylt orðinu „skjól“. Þannig finnst mér strætóskýli svolítið eins og súpukjöt, það er álíka mikið skjól í strætóskýli og það er kjöt í súpukjöti. Til að hægt sé að selja og markaðssetja mannvirki sem skýli finnst mér að það verði að vera hægt að sýna fram á að eitthvað mælanlegt skjól sé af því.
Eða er ég bara að misskilja? Er málkennd mín á villigötum? Er „skýli“ í raun bara einhvers konar annars flokks eða afmyndað skjól, samanber „maður/menni“, „kona/kvendi“, „þvottur/þvætti“? Skjól/skýli? Hvað skyldi Mörður segja?

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Fjall sannleikans

Einu sinni var ég þeirrar skoðunar að sannleikurinn væri nokkuð klipptur og skorinn, hann væri aðeins einn, hann væri stór og mikill og óbreytanlegur. Ef tveir menn voru ósammála hélt ég að annar þeirra hlyti að hafa rangt fyrir sér eða að minnsta kosti rangara fyrir sér en hinn. Ég hélt að þegar maður hefði loksins höndlað sannleikann myndi enginn reyna að klekkja á manni með hárbeittum athugasemdum og rökfimi, andstæðingum manns hlytu að fallast hendur gagnvart ógnarmætti sannleikans, hann myndi slá vopnin úr höndum þeirra, rangar skoðanir út úr hausnum á þeim og gera málflutning þeirra að hjómi.
Ég hafði rangt fyrir mér ... eða að minnsta kosti ekki eins rétt og ég hélt.
Að vísu er ég enn þeirrar skoðunar að sannleikurinn sé einn, stór og mikill og óbreytanlegur. Ég er hins vegar löngu hættur að telja mér trú um að einn maður geti höndlað hann og haft með honum sigur á öðrum. Ég lít ekki lengur á sannleikann sem einhvern Suðurpól andans sem við mennirnir, heimskautafarar hugans dúðaðir í heimspekikenningar með mannbrodda rökfræðinnar undir fótum, séum að keppast um að komast á fyrstir allra. Einkum er ég þó hættur að ímynda mér að tveir ólíkir einstaklingar geti séð sannleikann sömu augum. Ég hef nefnilega kynnst mörgu ágætisfólki um dagana, flestu prýðilega vel gefnu, en enn hef ég ekki hitt neinn sem ég hef ekki getað verið ósammála um eitthvað, sem ekki hefur séð sannleikann á einhvern hátt pínulítið öðruvísi en ég, ef ekki hreinlega allverulega mikið öðruvísi.
Núorðið er ég ekki frá því að það fari algerlega eftir því hvar maður er staddur sjálfur hvernig fjall sannleikans kemur manni fyrir sjónir. Menn sem standa sitt hvorum megin við fjall eru auðvitað ekki sammála um hvernig það lítur út. Fjöll eru líka þannig í laginu að það er ekki hægt að sjá þau öll í einu. Sú mynd af fjalli, sem sá sem hreykir sér á tindi þess hefur fyrir augunum, er síðan gerólík allra annarra. Og svo ég klári nú líkinguna þá geta menn orðið úti á fjöllum.
Eflaust gerir sannleikurinn okkur frjáls. En hann frelsar okkur ekki frá öðrum og áreiti þeirra, aðeins okkur sjálfum og viðbrögðum okkar. Og svo sagði líka aldrei neinn að sannleikurinn myndi gera okkur að frelsurum.
Bakþankar í Fréttablaðinu 12. nóvember 2006

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Skoðanir mánaðarins

Um daginn hitti ég mann niðri í bæ sem ég hef alltaf borið talsverða virðingu fyrir þótt ég hafi oft staðið mig að því að vera ósammála honum. Talið barst að orðasennunni um trúmál sem ég tók þátt í fyrir rúmum mánuði og hann tjáði mér að einhvern tímann hefði honum orðið það á að bera blak af biskupi, að verja einhver umdeild ummæli hans. Maður þessi sagði mér að afleiðingar þess væru þær að ef hann gúglar nafnið sitt í dag þá er helmingur þess sem upp kemur árásir á hann því tengdar.
Þetta varð til þess að ég kannaði sjálfan mig á sama hátt og varð pínulítið niðurdreginn og upptekinn af existensíalískum efasemdum um sjálfan mig í kjölfarið. Ég komst nefnilega að því að það skiptir engu máli hvaða skoðun maður hefur, það eina sem maður getur gefið sér er að einhver verður ósammála. Hvort sem maður er með eða á móti sjálfhjálparbók, költi, tímariti, nethrottaskap eða einhverju allt, allt öðru þá er það eina sem er gefið að einhvers staðar fær maður einhvern upp á móti sér. Ég fann fólk sem er sjaldan, stundum, oft, yfirleitt og alltaf ósammála mér. Eina manneskjan sem ég fann ekki er sú sem er alltaf sammála mér.
Maður tilheyrir hópi. Svo tjáir maður skoðun og það fækkar í hópnum sem maður tilheyrir. Maður tjáir aðra skoðun og enn fækkar. Ég hef orðið uppvís að svo mörgum skoðunum að ég er fyrir löngu orðinn aleinn úti á berangri og hef því engu að tapa lengur með því að hafa skoðanir. Því ætti ég þá ekki að tjá þær fyrst þær skipta engu máli?
Hér koma því skoðanir mínar á dægur- og hitamálum síðastliðins mánaðar allar á einu bretti:

1. Stóra Hjartar Howser-málið

Ég hlusta lítið á útvarp og hefði ekki komist að því að Hjörtur Howser væri með útvarpsþátt næstum því svona fljótt ef hann hefði ekki verið rekinn. Ég hefði aldrei heyrt þessara ummæla Hjartar getið ef hann hefði ekki verið rekinn fyrir þau. Brottrekstur Hjartar er því að mínu mati annað hvort lævíst plott af hálfu doktors Sigrúnar Stefánsdóttur til að allir fái að heyra það sem hann sagði eða það heimskulegasta sem hægt var að gera í stöðunni. Þar sem ég veit ekki til þess að doktor Sigrún hafi einhverja sérstaka ástæðu til að vera í nöp við Gus Gus og vilja að allir heyri hvernig Hjörtur dissaði þá í útvarpinu hallast ég að því síðarnefnda.
Síðan er það spurning A af hverju doktor Sigrún er í þesari stöðu og B af hverju hún er norður á Akureyri. Ég er þakklátur fyrir að hún var ekki orðin dagskrárlögga ríkisins þegar ég var dagskrárgerðarmaður á RÚV, ég hefði ekki orðið langlífur í starfi. Hins vegar efast ég um að atvinnulífið í Eyjafirði sé svo illa statt að þetta hálfa stöðugildi doktors Sigrúnar reddi því. Ég veit ekki til þess að hafi gefist vel í neinu tilfelli að hafa verkstjórann í öðrum landshluta en restina af staffinu. Er það rétt skilið hjá mér að ef kona með doktorspróf sæki um starf hjá hinu opinbera sé það brot á landslögum að ráða hann ekki, óháð karakter hennar?

2. Stóra hvalveiðimálið

Við höfum rétt til að veiða hval. Það þýðir hins vegar ekki að rétt sé að veiða hval. Einu rökin gegn hvalveiðum eru hin fjölþjólega andstaða gegn þeim. Því miður eru þau bara veigameiri en öll rökin með þeim. Þetta er ekki lengur spurning um rétt og rangt heldur gáfulegt og heimskulegt. Í þessu tilviki tel ég heimskulegt að stjórnast af stolti og því sem maður hefur rétt á að gera og gáfulegt að vægja þótt maður viti betur en sefasjúki múgurinn. Testósterón er hormón, ekki stjórnmálaskoðun.
Hins vegar er ég ekki frá því að hugsanlega hafi verið gott að hefja hvalveiðar, þótt ekki sé nema til þess að fá það á hreint í eitt skipti fyrir öll að ekki sé fjárhagslegur grundvöllur fyrir þeim. Því þegar upp er staðið er þetta bara spurning um það hvort Kristján Loftsson fer hlæjandi eða grátandi í bankann. Ég neita að trúa að það eigi að fara að niðurgreiða hvalveiðar til að halda þeim gangandi.
Ég skil sjómenn vel að vilja fá að veiða. Ég legg til að þeir veiði frekar þá sem tóku af þeim réttinn til að veiða og gáfu Samherjabræðrum hann.

3. Stóra pissumálið

Ég er listnemum óendanlega þakklátur fyrir að pissa hver á annan. Ef þeir hefðu ekki gert það hefðum við aldrei fengið að sjá hina ódauðlegu sjónvarpsfrétt um persónulegar og listrænar forsendur þess að pissa á annað fólk. Þannig tel ég afleiðingar gjörningsins mun meira og merkilegra listaverk en gjörninginn sjálfan, sem ég hlýt að skilja sem einhvern symbólisma fyrir það hvernig migið er á konur (í óeiginlegri merkingu) í þjóðfélaginu.
Sorglegastur þótti mér femínistinn sem leit á þetta sem dæmi um klámvæðinguna. Jújú, eins manns þvaglát er annars manns klám og allt það, en markmið kláms hlýtur að vera kynörvun. Að það sé það fyrsta sem manni dettur í hug í þessu samhengi er bara dapurlegt.

4. Stóra Russel Crowe-málið

Æ, var ekki hægt að geyma þennan brandara fyrir árshátíð auglýsingastofunnar? Hins vegar vaknar spurningin um það hvor sé siðblindari:
A: Sá sem er dæmdur í fangelsi fyrir mútuþægni og þjófnað og neitar að skammast sín, iðrast og biðjast afsökunar heldur kýs að líta á sig sem fórnarlamb.
B: Pólitískir stuðningsmenn A.
Stjórnmálaflokkur þar sem B eru nógu margir til að koma A í annað sætið á framboðslista er síðan kapítuli út af fyrir sig.
Orðabelgurinn er opinn fyrir vangaveltum.

5. Stóra útlendingahatursmálið

Mér finnst við, þetta frjálslynda og umburðarlynda fólk, hafa verið einum snögg að æpa "rasismi, útlendingahatur" í þessari umræðu og skellt skollaeyrum við kjarna málsins. Jú, vissulega hafa allir rasistar landsins hoppað á vagninn og fimmfaldað fylgi hins ógeðfellda málshefjenda. En horfum á staðreyndir málsins og áhyggjurnar sem verið er að tjá frekar en pakkið sem vill kynda undir áhyggjunum og magna þær úr hófi.
Asnar hrína. Það er í eðli þeirra og ekki hægt að gera neitt til að koma í veg fyrir það. Við megum hins vegar ekki láta hrínið stjórna umræðunni, ráða viðbrögðum okkar. Þá höfum við leyft ösnunum að gera okkur að leiksoppum sínum.
Þar sem er hjartarúm er húsrúm. Hingað eiga allir að vera velkomnir sem reiðubúnir eru að undirgangast þær reglur sem hér gilda. Við erum aðilar að alþjóðlegum sáttmálum og verðum að axla þær skuldbindingar sem þeir leggja okkur á herðar. Og við verðum að reyna að gera það án þess að til árekstra komi.
Það þarf ekki að vera rasismi og útlendingahatur að finnast óeðlilegt að geta ekki talað móðurmál sitt þegar maður fer út í bakarí að kaupa sér brauð eða að finnast verra að þeir sem annast aldraða ömmu manns á elliheimilinu skilji hana ekki. Það þarf ekki endilega að vera rasismi að finnast uggvænlegt að um eða yfir helmingur nemenda í bekk í grunnskóla eigi sér annað móðurmál en íslensku. Maður hefur á tilfinningunni að það þýði að nýbúar séu ekki dreifðir jafnt um byggðir landsins heldur sé byggð þeirra samþjöppuð á fáum stöðum. Að vísu á þetta ekki að þurfa að vera vandamál ef rétt er brugðist við, en er þá ekki ósköp eðlilegt að spurt sé: "Hvernig er brugðist við?" og að þeirri spurningu sé svarað öðruvísi en með upphrópunum um rasisma og útlendingahatur?
Við stöndum frammi fyrir drastískum breytingum á þjóðfélaginu og breytingar vekja alltaf ugg, hvort sem þær eru til góðs eða hins verra. Ávörpum ugginn í stað þess að fordæma hann og hrekja hann í felur.
Og gleymum því aldrei að vandamálið er ekki útlendingarnir. Þeir eru upp til hópa harðduglegt fólk sem óskar aðeins eftir því að fá að virka í þjóðfélaginu.
Vandamálið er þjóðfélag sem gerir kröfu um að nýbúar læri málið, en refsar þeim samt fjárhagslega fyrir að leggja slíkt nám á sig.
Vandamálið er þjóðfélag þar sem er svo mikil þensla að þjóðin kemst ekki yfir allt sem þarf að vinna þannig að flytja þarf inn mannskap ... en bara í lægst launuðu djobbinn.
Vandamálið er þjóðfélag þar sem lægst launuðu djobbin eru umönnunar- og þjónustustörf.
Vandamálið er verkalýðshreyfing sem er of vanmáttug til að gera neitt í því að útlendingar séu fluttir inn í stórum stíl til að vinna skítverk fyrir miklu minna en lágmarkslaun.
Vandamálið er fólk sem er ekki fært um að taka ábyrgð á sínu eigin lífi heldur finnst þægilega að kenna "hinum" um allt sem miður fer og stjórnmálamenn sem eru reiðubúnir til að taka undir þau sjónarmið í skiptum fyrir atkvæði.
Verum vinir. Búum ekki til vandamál. Leysum þau.

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Átta örsamtöl við asna

(svo það fari ekki á milli mála hvað ég átti við í síðasta bloggi, jafnvel þótt með þessu sé ég að virða að vettugi gáfulegustu ráðlegginguna sem ég hef fengið á bloggferlinum)

D = ég, A = asni

1.

D: Ég stend mig stundum að því að vera haldinn fordómum gagnvart ýmsu mjög nálægu, t. d. Laugvetningum, þótt ég þykist mjög umburðarlyndur náungi. Í þessu er ég að reyna að vinna.
A: Ég hata þig fyrir að tala svona um Laugvetninga.

2.

D: Mér finnst þetta blað orðið neikvætt og leiðinlegt aflestrar.
A: Þú ert semsagt á móti prentfrelsinu?

3.

D: Mér finnst þið dónalegir.
A: Hvernig dettur þér í hug að halda því fram að þú sért yfir gagnrýni hafinn?

4.

D: Ástin, fegurðin og trúin eru handan rökhugsunar mannsins.
A: Hvaða vitleysa. Það er mjög rökrétt að biðja til Guðs ef það lætur manni líða betur, bara ef maður passar sig að trúa ekki á hann.

5.

D: Ástin, fegurðin og trúin eru handan rökhugsunar mannsins.
A: Hvernig dettur þér í hug að halda því fram að hinn mælanlegi sannleikur skipti engu máli?

6.

D: Ástin, fegurðin og trúin eru handan rökhugsunar mannsins.
A: Þú þykist semsagt yfir það hafinn að þurfa að rökstyðja nokkurn skapaðan hlut sem þú segir?

7.

D: Mikið er nú gott að geta stundum slappað af.
A: Svo þú þykist of góður til að vinna fyrir þér eins og aðrir?

8.

D: Það er gott fyrir sálina að lifa góðu kynlífi.
A: Best að loka dóttur sína inni.

P. S. Rétt er að taka fram að samtöl sjö og átta eru skáldskapur, en ég reikna fastlega með því að ég myndi fá þessi viðbrögð ef ég léti þessar skoðanir í ljós.

P. S. P. S. Öllum asnaskap verður eytt úr orðabelgnum af fullkomnu miskunnarleysi.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Mikilmennin sem sagan gleymdi 1: Thedore Q. Television

Theodore Quincy Television fæddist 23. september árið 1898 í smábænum Urbandale, skammt frá Des Moines í Iowa í Bandaríkjunum. Roger faðir hans var bifvélavirki og rak varahlutaverslun í þorpinu, en móðir hans, Shirley, var heimavinnandi eins og flestar konur á þeim tíma. Theodore átti einn bróður, Roger Jr, sem var þremur árum eldri en hann. Alla tíð var náinn vinskapur með þeim bræðrum.
Ted litli var með endemum ódæll í æsku, þótt snemma þætti ljóst að ekki væri það vegna greindarskorts. Honum gekk vel í skóla þótt ekki væri hann vinsæll meðal skólasystkina sinna, enda einfari að upplagi. Einkum þótti bagalegt hve eirðarlaus Ted litli var á samverustundum fjölskyldunnar á kvöldin, en í upphafi aldarinnar var það sem kunnugt er alsiða hjá bandarískum millistéttarfjölskyldum að sitja saman í betri stofunni og horfa á húsgögnin. Of þurfti að grípa til þess ráðs að senda Ted litla til móðurafa síns, Teds eldri, sem orðinn var ekkill og bjó einn skammt frá heimili fjölskyldunnar, til að aðrir fjölskyldumeðlmir hefðu næði til að horfa á kommóðuna, sem var langáhugaverðasta húsgagnið á heimili foreldra hans og horft var á flest síðkvöld. Til gamans má geta þess að kommóða þessi er nú álitin langverðmætasti safngripurinn á byggðasafninu í Urbandale og talið er að ár hvert leggi vel á sjöunda þúsund ferðalanga leið sína þangað, gagngert þeirra erinda að líta kommóðu þessa augum.
Næsta víst er að Ted litli varð fyrir miklum áhrifum af speki og visku móðurafa síns, sem hann hét í höfuðið á, en sá var lífsreyndur grúskari og sjálfmenntaður heimspekingur. Verk Chaucers voru í sérstöku uppáhaldi hjá honum og varð Ted yngri fljótt vel að sér í þeim. Ekki leið á löngu uns til þess var tekið sérstaklega í Urbandale og nágrenni hve sérkennilegur í háttum og orðfæri Theodore litli væri orðinn.
Sá atburður sem tvímælalaust setti mest mark á unga manninn og mótaði þá stefnu sem hann átti eftir að taka í lífinu átti sér stað í ágúst 1911, þegar hann var þrettán ára, en þá var Roger bróður hans, sem orðinn var fimmtán ára, boðið í dagsferð til Des Moines í tilefni af sextán ára afmæli skólabróður síns og nágranna, Pauls Bogles. Ted litli lét í ljós eindreginn vilja til að fá að fara með og linnti ekki látum fyrr en látið var undan þrákelkni hans. Geta má nærri um hvort ekki hafi verið mikil lífsreynsla fyrir ævintýragjarnan og öran ungling eins og Theodore Quincy Television, sem aldrei hafði séð annað af heiminum en sinn litla heimabæ og næsta nágrenni hans, að heimsækja stórborg, iðandi af mannlífi, eins og Des Moines var á þessu mikla hagvaxtarskeiði í bandarískri sögu.
Meðal þess sem gert var sér til skemmtunar í Des Moines var að fara í kvikmyndahús. Kvikmyndin var Ramona með Mae Marsh í aðalkvenhlutverkinu. Theodore Quincy sagði síðar frá því að þarna hefði heimsmynd hans breyst, þarna hefði hann ákveðið hvað hann skyldi taka sér fyrir hendur í lífinu. Kvalræðinu, sem öll börn á þeim tíma þekktu, að vera pínd til að horfa á skápa og hillur, borð og stóla, skatthol og kommóður, kvöld eftir kvöld, skyldi linna. Theodore Q. Television einsetti sér að finna upp húsgagn sem hægt væri að horfa á tímunum saman án þess að fá aðkenningu að banvænum lífsleiða.
Allir vita nú hvernig fór. Árum saman lagði Theodore nótt við dag til að fullkomna hugmynd sína, lítinn skáp með skjá þar sem síkvikar myndir myndu birtast með dáleiðandi áhrifum á nærstadda. Þótt gríðarmikil þróun hafi átt sér stað á þeim tíma sem liðinn er frá því að frumgerð húsgagnsins loks leit dagsins ljós til vorra daga byggir útfærslan enn á grunnhugmyndinni sem Ted litla flaug í hug þennan mikla örlagadag í kvikmyndahúsinu í Des Moines fyrir rétt tæpri öld.
Telvision drukknaði í sundlauginni við heimili sitt í Malibu Beach í Kaliforníu árið 1979, áttræður að aldri. Talið er að hann hafi orðið bráðkvaddur við sundiðkun. Hann var ókvæntur og barnlaus, enda að eigin sögn kvæntur ævistarfi sínu. Við útför hans minntist Edwin Clarke, samstarfsmaður hans til margra ára, lífsspeki hans og sagði meðal annars: "I seriously doubt that anyone has affected an entire hemisphere the way he did with his marvellous invention," sem útlagst gæti á íslensku: "Ég stórefa að nokkur maður hafi haft viðlíka áhrif á heilan heimshluta og hann hafði með sinni stórkostlegu uppfinningu."
Þetta eru óneitanlega orð að sönnu, enda má heita að það heyri til algerra undantekninga að vestrænar fjölskyldur eyði samverustundum sínum nú á dögum í að horfa tímunum saman á önnur húsgögn en hina mögnuðu uppfinningu Theodores Q. Televisions sem á erlendum tungum ber einmitt nafn hans og er til á nánast hverju heimili í hinum siðmenntaða heimi.

þriðjudagur, október 31, 2006

Upp um alla veggi og súlur

Fyrir nokkrum árum þýddi ég sjónvarpsþætti sem hétu Otrabörnin (PB&J Otter). Þættirnir fjölluðu um þrjú systkin sem bjuggu við Húrravatn (Lake Hoohaw) og ævintýri þeirra og vina þeirra. Þættirnir höfðu uppeldislegt gildi og í þeim var mikið sungið, tvö lög voru í hverjum þætti. Þættirnir voru 65 talsins þannig að auðvelt er að reikna það út að í þeim voru 130 sönglög sem ég þurfti að gera texta við. Sæmilegt það.
Þegar maður er á tímakaupi við að yrkja 130 söngtexta verður maður stundum að hugsa „þetta er fínt fyrir þennan pening“, rumpa þessu af og halda áfram með vinnuna. Ég hugsaði ennfremur á erfiðustu köflunum: „Ólafur Haukur myndi ekki hika við að senda þetta frá sér.“ En meðal þess ólýsanlega amböguhroða sem hann hefur látið frá sér fara má nefna: „Við steypumst beint úr lofti / eins og helekopti ...“ Í öllum þessum 130 söngtextum gerði ég aldrei neitt svona skelfilega slæmt. Ólafur hefur að vísu þann status að hjá honum heitir þetta „persónulegur stíll“.
Þessum textum mínum er ég hins vegar búinn að steingleyma öllum með tölu, nema hluta af einum þeirra. Það er af því að ég er svo óánægður með hann. Hann er við lag sem á frummálinu hét: „Blowing Bubbles“. Í þeim þætti voru börnin að blása sápukúlur. Ég orti: „Blásum saman sápukúlur / upp um alla veggi og súlur.“ – sem auðvitað er mér alls ekki samboðið. En það er bara enginn hægðarleikur að finna rímorð við „sápukúlur“. Gallinn er bara að við Húrravatn er ekki ein einasta súla til að blása sápukúlur „upp um“. Þetta myndi ekki bögga Ólaf Hauk en er enn að naga mig.
Þess vegna langar mig að biðja alla vini mína og velunnara að temja sér að segja „upp um alla veggi og súlur“ hvenær sem færi gefst. Í þarsíðasta bloggi mínu kom ég þessum orðum lævíslega fyrir í textanum þannig að þið getið séð það sjálf að þetta er ekkert mjög erfitt ef maður reynir að gera sér far um það. Næst þegar þið ætlið að segja „út um allt“, eða „í stöflum“ eða „í massavís“ gætuð þið sagt „upp um alla veggi og súlur“.
Þannig er hægt að lauma þessu inn í málið og fyrir vikið hljómar það ekki eins afkáralega þegar sagnfræðingar framtíðarinnar fara að garfa í þessu. Þeir hugsa ekki: „Rosalega er þetta klúðursleg þýðing hjá honum,“ heldur: „Þarna hefur þýðandinn haganlega komið hinu þekkta orðasambandi „upp um alla veggi og súlur“ fyrir í textanum.“ Með þessu móti geta allir sem þykir vænt um mig lagst á eitt um að bjarga mannorði mínu gagnvart komandi kynslóðum og um leið auðgað daglegt talmál sitt.
Með fyrirfram þakklæti fyrir hjálpina.

Legókubbar sálarinnar

Því eru lítil takmörk sett hvað mér drepleiðast rökræður núorðið, eins og ég hafði gaman af þeim þegar ég var yngri. Ég vil jafnvel taka svo djúpt í árinni að fullyrða að fátt sé einmitt betur til þess fallið að eyðileggja samræður en rök. Rök eru þurr og leiðinleg, fyrirsjáanleg og þarafleiðandi fullkomlega húmorslaus. Rökvillur eru fyndnar.
Rök eru legókubbar sálarinnar. Þroskaleikföng. Æfing í að hugsa skýrt fyrir stráka í Morfísleik sem halda að þau leysi lífsgátuna. Með þeim kryfja þeir heiminn eins og þeir skynja hann til að skilja hann betur. En maður vex upp úr þeim. Það býr enginn í húsi úr legókubbum.
Smám saman áttar maður sig á því að það sem skiptir raunverulegu máli, verðmætin sem mölur og ryð fá ekki grandað, byggir ekki á rökum. Ást og fegurð, hamingja og kærleikur – ekkert af þessu er niðurstaða gildrar rökleiðslu. Þetta eru tilfinningar sem eiga það til að þyrma yfir mann, algerlega upp úr þurru, án þess að hægt sé að henda nokkrar reiður á því hvaðan þær koma eða hvers vegna. Stundum eru þær hreinlega ópraktískar, en eru samt þess eðlis að ekki er hægt að leiða þær hjá sér.
Það er ekkert rökrétt við að eyða stórfé og tíma í að slá kúlur ofan í holur í jörðina eða að standa úti í á og veiða fisk sem maður sleppir og koma svo við í fiskbúð á leiðinni heim. Það er ekkert rökrétt við að hafa sérviskulegan smekk og úthella blóði, svita og tárum til að geta haft hlutina nákvæmlega eftir manns eigin höfði. Það er ekkert rökrétt við að fyllast hugarró við að lúta höfði og viðurkenna að sumt geti maður einfaldlega ekki vitað og ákveða í staðinn að treysta í blindni. Samt hafa meintar skynsemisverur staðið sig að þessu öllu og mörgu enn órökréttara og ekki bara sloppið klakklaust frá því heldur beinlínis fundist það auka lífsgæði þeirra. Dýrmætustu svið tilverunnar eru einfaldlega handan raka.
Rök eru gróf einföldun á tilverunni. Tilveran er ekki gerð úr hornréttum einingum sem smella saman á skipulegan hátt. Stundum ræður það eitt hvernig maður kýs að líta á hlutina, því hvort og hvernig þeir yfirhöfuð smella saman. Það er auðvitað þvert á öll rök.
Mesta rökvillan er þó auðvitað sú að ætla að færa rök fyrir því af hverju rök mega sín lítils.
Bakþankar í Fréttablaðinu 29. október 2006

sunnudagur, október 29, 2006

Magntilboð á menningu

Ég fór í Kolaportið í dag, en það er ár og dagur síðan ég lagði síðast leið mína á þann ágæta stað. Þar keypti ég karöflu undir matarolíu (500 kr.) og slatta af vínylplötum (100 kr. – 200 kr. stk.), m. a. hina ódauðlegu „Látum sem ekkert C“ með þeim Halla, Ladda og Gísla Rúnari. Það var bráðnauðsynlegt að fá eintak af henni í hús, því ég hef rekið mig á það að kynslóðamunurinn á heimilinu birtist einkum í því að þegar ég vitna í perlur eins og „Ó, Guðfinna“ eða „Tygg-igg-úmmí“ þá lítur mín heittelskaða á mig eins og ég sé endanlega búinn að missa vitið. Ég lék snilldina fyrir hana í dag svo nú veit hún að næst þegar ég segi: „Hvað heldurðu? – Ég held það. – Það held ég. “ ... þá er ég að vitna í menningararfinn en ekki að steypa.
Hins vegar verð ég alltaf dapur alllengi eftir að hafa gengið um ganga Kolaportsins og virt fyrir mér varninginn, því fyrir utan mat og búsáhöld samanstendur hann mestanpart af bókum, kvikmyndum og hljómplötum. Þarna er þetta í kassavís upp um alla veggi og súlur á spottprís. Þarna svigna borð á borð ofan af bókmenntum á fimmtíukall, plötum á hundraðkall og DVD-diskum á litlu meira. Ég hef nefnilega verið að garfa við það sjálfur að semja tónlist, skrifa bækur og jafnvel að leika í kvikmyndum og ég get bara ekki varist ákveðinni tilgangsleysiskennd þegar ég sé allt magnið ... allt flóðið af þessu sem þarna er í stöflum á stafla ofan.
Á bak við hverja bók eru ótal vinnustundir einstaklings, allur hans metnaður og stolt, blóð, sviti og tár ... og svo týnist afurðin í hrúgum af öðru viðlíka og ókunnugt fólk gerir einhverjum prangara greiða með að kaupa þetta af honum á fimmtíukall. Á bak við hverja plötu er enn meiri vinna, svo ekki sé minnst á hverja kvikmynd.
Til hvers að legga sig fram við að pússa og slípa eitt sandkorn svo það verði fullkomið, nákvæmlega rétt, akkúrat eins og það verður best ... til þess að það endi svo á ströndinni? Og þegar maður horfir yfir ströndina með litla, fullkomna sandkornið sitt í hendinni ... er nema von að það þyrmi yfir mann? Til hvers er maður að þessu?

þriðjudagur, október 24, 2006

Sköpun eða þróun?

Sköpun mannsins

Alfaðir í Eden fann
apa, sem um greinar rann,
ætlaði að gera úr honum mann
sem elskaði guð og náungann.

Sat hann við með sveittar brár
sextán hundruð þúsund ár.
Apinn reyndist þrjózkur, þrár,
þykkjukaldur og hyggjuflár.

Að hálfu leyti api enn,
eðlin geymir tvenn og þrenn,
lítil von hann lagist senn.
Lengi er guð að skapa menn.

Örn Arnarson

mánudagur, október 23, 2006

Öpunarkenning Davíðs Bullustamps

Glöggir lesendur hafa tekið eftir því að Davíð Bullustampur lagði í síðustu viku fram tvær kenningar um eðli og tilurð heimsins hér á þessari síðu. Ásgrímur Sverrisson, vinur minn, hefur hins vegar bent mér á að sú fyrri, skóunarkenningin svokallaða, sé í raun aðeins tilbrigði við hans kenningu um eðli alls sem er. Ég veit ekki hvað sú kenning heitir réttu nafni en við skulum kalla hana Ásgrímsku, svona til að hafa eitthvað heiti á henni.
Ásgrímskan gengur nokkurn veginn út á að heimurinn sé ekki til heldur aðeins sá hluti hans sem maður (þ. e. Ásgrímur) sér hverju sinni. Þannig er hann í stöðugri sköpun og eyðingu eftir því hvernig maður (þ. e. Ásgrímur) fer í gegn um hann. Hann verður til jafnóðum eftir því sem eitthvað nýtt ber fyrir augu manns (þ. e. Ásgríms) um leið og hann eyðist að baki manns (þ. e. Ásgríms). Það að aðrir þræti fyrir að þeir leysist upp og hætti að vera til þegar maður (þ. e. Ásgrímur) hefur þá ekki fyrir augunum gerir ekki annað en að styðja kenninguna.
Ég get ekki þrætt fyrir réttmæti þessarar aðfinnslu Ásgríms og verð að beygja höfuðið í skömm og viðurkenna að skóunarkenningin er í raun aðeins daufur endurómur eða eftiröpun Ásgrímskunnar. Sjálfsagt er Ásgrímskan síðan aðeins tilbrigði við eða bergmál af enn annarri frumspekilegri hugmynd um eðli alls sem er. Það hlýtur eiginlega að vera – í ljósi öpunarkenningarinnar.
Sömuleiðis hefur Jimy Maack nefnilega réttilega bent á að óunarkenningin, sem ég lagði líka fram í síðustu viku, er í raun aðeins tilbrigði við eða eftiröpun af S. E. P. lögmálinu (E. M. V. (Ekki mitt vandamál)?) sem Douglas Adams kynnti í skáldsögunni Life, The Universe and Everything.
Ég hef því komist að því að það sé einfaldlega ekki hægt að gera eða hugsa neitt sem ekki hefur verið gert eða hugsað áður, að það að vera frumlegur sé í raun aðeins að vera sérlega ónákvæmur í öpun sinni af því sem áður hefur verið gert eða hugsað. Þetta gildir ekki bara um mannanna verk heldur er þetta náttúrulögmál sem gildir um allt sem maður sér. Öll sköpun eða þróun er í raun aðeins léleg öpun af lélegri öpun af lélegri öpun ... og þannig endalaust. Heimurinn verður m. ö. o. til við síendurtekna öpun.
Sú staðreynd að þessi kenning er aðeins stef við athugun sem Andri Snær Magnason gerir í upphafi Draumalandsins gerir ekki annað en að renna stoðum undir hana.
Vonandi getum við þá núna hætt að vera alltaf ósammála og sífellt að þræta um það hvor hafi haft á fullkomlega réttu að standa, Darwin eða Móses, fylkt liði að baki öpunarkenningunni og gerst einaðir og einarðir öpunarsinnar.

laugardagur, október 21, 2006

Loksins, loksins! Bragðgott próteinduft!

Stundum finnst mér beinlínis sárt að sjá hvað það er augljóst að ég er í vitlausum bransa. Ég sá þetta til dæmis greinilega í morgun þegar ég flétti Séðu og heyrðu á kaffihúsi í Hafnarfirði. Fyrirsögnin: "Loksins bragðgott próteinduft" gat einhvern veginn ekki annað en fangað athygli mína, ekki síst af því að undirfyrirsögnin var: "Fengu hugmyndina á Nordica Spa." Greinin var skreytt myndum af gleiðbrosandi vaxatrræktarmönnum í faðmlögum.
Ég sé þá félaga alveg fyrir mér á Nordica Spa pína eitthvað ógeðslegt próteinduft ofan í sig þegar annar segir: "Af hverju er ekki til bragðgott próteinduft?" Og hinn segir: "Heyrðu! Þetta er brilljant hugmynd hjá þér! Af hverju skyldi engum hafa dottið þetta í hug áður?" Ég er nefnilega alveg viss um að ef ég væri próteinduftæta hefði ég fengið þessa hugmynd langt á undan þeim, hrint henni í framkvæmd, orðið ríkur og frægur og hlegið alla leið í bankann.
En svona er maður nú sjálfhverfur. Ef ég væri týpan sem hefði próteinduftát að aðaláhugamáli er alveg óvíst að ég hefði verið sá fyrsti í þeim hópi til að hafa hugmyndaflug í að láta mér detta eitthvað jafnfáránlega langsótt í hug og bragðgott próteinduft – þótt mér finnist, núna þegar ég veit að það er til, einkennilegt að það skuli ekki hafa komið fram fyrr. Auk þess er fullljóst að jafnvel þótt mér hefði tekist að hugsa svona langt út fyrir rammann, sem slíkur lífsstíll virðist af þessu að dæma sníða sér, hefði ég sennilega ekki haft döngun í mér til að gera eitthvað í málinu, heldur afgreitt þetta eins og hvert annað draumórarugl sem aðeins gæti ræst í mínum trylltustu fantasíum.
Auðvitað er ekki hægt annað en að taka ofan af fyrir svona mönnum. Málið er nefnilega ekki hvað maður getur heldur hvað maður gerir – hve óskiljanlegt sem manni kann að virðast að enginn skuli hafa gert það áður.

föstudagur, október 20, 2006

Óunarkenning Davíðs Bullustamps

Það sem snertir mann ekki og maður þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af er í raun ekki til fyrir manni. Svo dæmi sé tekið þá efast ég um að ósónlagið hafi í raun verið til í huga alls þorra almennings fyrr en honum var kennt að óa við þynningu þess.
Heimurinn verður með öðrum orðum til við óun.
Fylgist spennt með í næstu viku þegar hinn gallharði óunarsinni Davíð Bullustampur leggur fram öpunarkenninguna.

miðvikudagur, október 18, 2006

Skóunarkenning Davíðs Bullustamps

Undanfarin 147 ár, eða allt frá því að enski líffræðingurinn Charles Darwin (1809 – 1882) lagði fram kenningu sína um uppruna tegundanna, hefur nokkuð borið á ágreiningi og illindum á milli þeirra sem aðhyllast þá kenningu, svokallaðra þróunarsinna, og hinna, sem aðhyllast bókstafstrú á sköpunarsöguna eins og hún birtist í upphafi Fyrstu Mósebókar, svokallaðra sköpunarsinna.
Þar sem mér leiðast illdeilur og finnst best að allir séu vinir langar mig að leggja fram mína eigin kenningu í von um að sátt geti myndast um hana og sköpunarsinnar og þróunarsinnar geti sæst á milliveginn. Þessa kenningu bý ég til með því að sameina sköpun og þróun og út úr því fæ ég ... skóun. Þetta er með öðrum skóunarkenningin og sjálfur er ég orðinn gallharður skóunarsinni.
Einu sinni var ég nefnilega skólaus. Þá þurfti ég að hanga heima hjá mér. Ég komst ekki neitt og því var heimurinn í raun hvorki til fyrir mér né ég fyrir honum. En um leið og ég fékk skó komst ég hvert sem ég vildi og þá varð heimurinn til eins og ég skynja hann. Heimurinn varð sem sagt til fyrir skóun.
Fylgist spennt með í næstu viku þegar Davíð Bullustampur leggur fram skröpunarkenninguna.

þriðjudagur, október 17, 2006

Alvöru martröð


Mig dreymdi að ég væri einn af dvergunum sjö. En okkur fannst við engir dvergar heldur ungir, menntaðir og fluggáfaðir menn í gáfulegum samræðum. Þá sagði ég: "Mikið ég elska konuna mína nú heitt og leiðist að heyra talað illa um hana!" Við þetta varð uppi fótur og fit og hinir litu hneykslaðir hver á annan.
Síðan sagði sá fyrsti: "Hvernig ætlarðu þá að afsaka það hvað hún var ódæll og leiðinlegur krakki?"
Sá næsti sagði: "Ertu fullkomlega siðblindur? Hvernig ætlarðu að réttlæta alla glæpi og grimmdarverk kvenfólks í gegn um tíðina?"
Sá þriðji bætti um betur, varð sár á svipinn og sagði: "Gerirðu þér ekki grein fyrir því hvað það er tillitslaust af þér að segja svona upp í opið geðið á mér, náttúruleysingjanum? Þú áttar þig greinilega ekki á fordómunum í garð náttúrulausra sem þjóðfélagshóps og hvað það er erfitt að vera náttúrlaus á Íslandi. Hvert sem maður lítur á góðviðrisdögum er ástfangið fólk að kjassast og kyssast. Hvernig væri að fólk héldi þessum tilfinningum fyrir sig? Þjóðfélagið gengur út frá því að allir hafi náttúru. Ég þarf meira að segja að búa við það að börnin mín fái kynfræðslu í skólanum!"
Sá fjórði tók næst til máls og sagði: "Þú hlýtur að átta þig á að ást er bara ímyndun. Menn bjuggu til þetta bull í fornöld til að útskýra það sem vísindin eru farin að afgreiða miklu betur í dag. Þetta er bara röskun á hormónajafnvægi líkamans sem þjónar þeim tilgangi að viðhalda tegundinni. Ég trúi ekki að þú takir mark á svona kukli og kjaftæði!"
Sá fimmti bætti við: "Og hvernig geturðu verið slíkur nautshaus að fullyrða að þessi kona sem þú ímyndar þér að þú elskir sé yfirhöfuð til? Enn hafa ekki verið færð nein óhrekjanleg rök fyrir tilvist efnisheimsins!"
Loks æpti sá sjötti afmyndaður af bræði: "Svo lýgurðu því, helvískur, að ég tali illa um konuna þína!"
Þá hrökk ég upp með andfælum. Fyrst fannst mér eins og þetta væri allt satt og rétt og ég að gæti aldrei framar treyst neinu. En svo hjúfraði ég mig upp að konunni minni sem lá við hlið mér, fann ylinn frá henni, þakkaði fyrir að þetta væri raunveruleikinn og sofnaði vært.
Svona vitleysu myndi auðvitað enginn láta út úr sér í alvörunni, er það?

Bakþankar í Fréttablaðinu 15. október 2006

fimmtudagur, október 12, 2006

Þennan dag í síðustu viku ...

... fór ég á Sinfóníutónleika í tilefni Norrænna músíkdaga. Það var áhugavert. Það sem einkum vakti áhuga minn var þó ekki tónlistin, heldur það sem stóð í prógramminu um eitt verkið, Unter himlen – Intermezzi, eftir Bent Sörensen: "Nú fá íslenskir tónleikagestir smjörþefinn af meistaraverki Sörensens ..." Ég fletti þessu upp í Orðabók Marðar, af því að ég trúði ekki mínum eigin augum, en komst að því að ég var með merkingu orðasambandsins "að finna smjörþefinn af e-u" á hreinu: "kenna á e-u, þola óþægilegar afleiðingar e-s".
Ég get semsagt ekki sagt að ég hafi ekki verið varaður við.

miðvikudagur, október 11, 2006

Þennan dag í síðustu viku ...

... las ég þetta á bls. 16 í Fréttablaðinu: "Vissir þú ... að auga ostrunnar er stærra en heilinn?"

Ekki fylgir sögunni hvaða heili. Sjálfum finnst mér nógu merkileg uppgötvun að ostrur (e. oyster) hafi auga til að ekki bætist við að þær hafi líka heila, jafnvel þótt hann reynist minni en augað. Eina skepnan sem ég vissi að væri með minni heila en auga er strúturinn (e. ostrich).
Er hugsanlegt að þeir sem vinna við að þýða gagnslausar upplýsingar af ensku fyrir Fréttablaðið kunni ekki ensku?

þriðjudagur, október 10, 2006

Þ.R.A.U.K. 10: Að drepast úr ástarsorg

Einn kunningi minn er að drepast úr ástarsorg. Bókstaflega. Ég veit að ástarsorg er ekki banvæn í sjálfri sér, en skorpulifur er það.
Mig langar ekki að gera lítið úr fallegum og göfugum tilfinningum eins og sorg eftir ástvinamissi. Auðvitað er djöfullega erfitt að þurfa að endurmeta öll framtíðaráform sín á einu bretti eftir að manneskjan sem var órjúfanlegur hluti af þeim öllum ákveður að hún vilji ekki lengur taka þátt í þeim heldur vilji hún eitthvað annað, eitthvað þar sem ekki er pláss fyrir mann sjálfan. Það er eðlilegt að syrgja allt það fagra sem átti að verða og hefði getað orðið. Það er eðlilegt að vera hnugginn á meðan maður gengur í gegn um slíkt.
En þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Það er eðlilegt að ganga í gegn um slíkt. Það er ekki eðlilegt að grafa sig í því, gefast upp og neita að halda áfram með líf sitt. Og að gera sorgina að blóraböggli fyrir eigin aumingjaskap, að nota hana sem afsökun fyrir því að hætta að bera ábyrgð á lífi sínu og drekka sig í hel er beinlínis ljótt.
Það sem einkum gerir það ljótt er hrokinn sem það lýsir. Mér finnst það hreinlega móðgandi að þessi kunningi minn virðist vera þeirrar skoðunar að þótt aðrir hafi jafnað sig eftir skilnað geti það ómögulega gerst í hans tilfelli, nánast eins og hann sé fær um að elska á einhvern dýpri hátt en allir aðrir, að aldrei hafi maður elskað konu eins heitt og hann sína fyrrverandi og því sé sorg hans sárari en nokkur fær megnað að skilja. Hann virðist trúa því að sem tilfinningavera sé hann á einhverju æðra plani en restin af mannkyninu.
En hvað er svo á bak við þessa ástarsorg? Jú, hann vill að þessi kona sé frekar með honum en manninum sem hún er með núna. Auðvitað kjósa konan, nýji maðurinn hennar og allir vinir þeirra frekar núverandi ástand. Sú staðreynd að hann er eina manneskjan í heiminum sem er á bömmer yfir því hvernig málum er háttað gefur honum enga ástæðu til að reyna að breyta því sem hann vill.
Það sem í raun fyllir þennan kunningja minn sorg er semsagt að annað fólk skuli voga sér að láta tilfinningar sínar og ástarlíf snúast um annað en að gera honum til hæfis. Hann þjáist í raun aðeins af banvænni frekju og eigingirni undir þunnu lagi af bleikri málningu.
Bakþankar í Fréttablaðinu 9. 7.
Birt á "Lífið er auðvelt" 13. júlí 2006

mánudagur, október 09, 2006

Friðarsúlan

Að allir þrái alheimsfrið
er engin tímaskekkja.
En hvernig er að vinna við
að vera ekkja?

Þ.R.A.U.K. 9: Drekkjum Valgerði!

Einu sinni fékk ég morðhótun. Síminn hringdi og sallaróleg kvenmannsrödd innti mig eftir því hvort ég væri sá sem ég er. Þegar konan hafði fengið það staðfest tilkynnti hún mér að það ætti að skjóta mig í hausinn og að hún hygðist sjá til þess að það yrði gert á næstunni. Ég verð að viðurkenna að mér varð hreint ekki um sel. Ég hringdi í lögguna og kærði þetta og síðan hringdi ég í vinkonu mína, þjóðþekkta og umdeilda manneskju, og sagði henni að ég hefði fengið morðhótun. Hennar svar var: "Velkominn í klúbbinn."
Það er því miður staðreynd að á Íslandi er fullt af sjúku fólki sem fær eitthvað kikk út úr því að hringja í þekkt fólk, einkum umdeilt, og hóta því lífláti. Þess vegna eru mjög fáir þjóðþekktir, umdeildir Íslendingar í símaskránni. Þetta lasna lið finnur til sín, það fyllist einhverri valdstilfinningu og finnst það menn að meiri með því að geta komið einhverjum frægum í uppnám. Hins vegar er það staðreynd að þetta lið er heybrækur og raggeitur sem aldrei gætu mannað sig upp í að framkvæma það sem það er að hóta. Það er aðeins hugrakkt í gegn um síma og undir nafnleynd. Nú eru tíu ár síðan ég fékk þessa morðhótun og hafi mér verið sýnt morðtilræði á þeim tíma hefur það verið svo gersamlega mislukkað að ég varð þess ekki einu sinni var.
Morðhótanir sem málaðar eru á borða sem gengið er með í skrúðgöngu niður Laugaveginn án þess að borðaberar reyni að hylja andlit sín eru auðvitað engar morðhótanir heldur slagorð. Slagorð þurfa ekki alltaf að vera vel til fundin og slagorðið "Drekkjum Valgerði, ekki Íslandi" er að mínu mati handan velsæmismarka og málstaðnum ekki til framdráttar. Ennfremur er það vanhugsað því það gefur virkjunarsinnunum höggstað á okkur, þeir víkja sér undan að ræða málefnið til að ræða slagorðið – eins og raun ber vitni.
En þar sem æska og eldmóður fara saman er ekki alltaf pláss fyrir etíkettur.
Hins vegar þarf alveg gríðarlega vænisýki og veruleikabrenglun til að að taka þetta slagorð bókstaflega og halda að lífi iðnaðarráðherra sé í raun ógnað. Slíkt fólk er búið að loka sig af inni í sínum eigin heimi ásamt gagnrýnislausum jábræðrum sínum of lengi. Umhverssinnar eru í huga þess orðnir siðlausir terroristar sem ekki víla fyrir sér mannrán og morð frekar en Al Kaída. Andri Snær og Osama Bin Laden eru af sama sauðahúsi í hausnum á því. Hernaðaraæfingar miða ekki við árás fjandsamlegs ríkis heldur hryðjuverkaárás af hálfu Hörpu Arnardóttur, leikkonu, og félaga hennar. Þarf frekari vitnanna við?
Finnist Valgerður Sverrisdóttir eftir að hafa verið drekkt í baðkarinu heima hjá sér má bóka að síðasta fólkið sem líklegt er að verið hafi þar að verki er fólkið sem labbaði með orðin "Drekkjum Valgerði" á borða niður Laugaveginn skömmu áður. Mun líklegra er að morðinginn sé einhver sem sér sér hag í að freima þá aðila fyrir glæpinn. Það þarf ekki að hafa lesið margar glæpasögur eða horft á marga CSI þætti til að sjá þetta í hendi sér.
Morðingjar auglýsa nefnilega yfirleitt ekki fyrirætlanir sínar, það erfiðar þeim að ljúka verkinu. Þannig að í raun ætti maður að fagna því að fá morðhótun. Þar með er einum einstaklingi færra sem hætta er á að drepi mann.
Birt á "Lífið er auðvelt" 6. júní 2006

Þ.R.A.U.K. 8: Litlir karlar á stórum dekkjum

Fyrir mörgum árum átti ég litla, rauða Mözdu, tvennra dyra bíltík sem ég komst á allra minna ferða, hvert á land sem var í öllum veðrum. Hún klessulá á öllum vegum þegar ég sentist landshluta á milli og á henni gat ég skotist eins og rotta um öngstræti hundraðogeins og lagt henni hvar sem glufa gafst.Einu sinni þurfti ég að fara austur fyrir fjall um hávetur, átti að skemmta á Hótel Örk í Hveragerði. Það var mikill snjór og óvíst um færð á leiðinni þannig að áður en ég lagði á háheiðina kom ég við í Litlu kaffistofunni til að fræðast um akstursskilyrðin. Þar var mér sagt að verið væri að ryðja veginn og að ef ég dokaði við í 15 – 20 mínútur, fengi mér kaffi og kleinu og læsi blöðin, yrði heiðin mér enginn farartálmi þótt á smábíl væri. Og þá ég það.
Að þessum tíma liðnum, kaffinu drukknu, kleinunni étinni og blöðunum lesnum hélt ég áfram ferð minni. Það vakti athygli mína að á meðan ég staldraði þarna við bar hóp manna að garði sem mér þótti skemmtilegur söfnuður, því þeir áttu það allir sameiginlegt að vera litlir, þybbnir karlar með skalla. Fyrst hélt ég að hér væri einhver stuðningshópur lítilla, sköllóttra bumbukalla á ferð, en þegar ég kom út á planið fyrir utan sá ég hvernig í öllu lá. Á planinu voru jeppar, jafnmargir og karlarnir, allir á dekkjum jafnstórum Mözdunni minni (þ. e. a. s. bifreiðinni sjálfri, ekki dekkjunum undir henni). Ég brosti með sjálfum mér og fór yfir heiðina til Hveragerðis, gjörsamlega vandkvæðalaust, og skemmti fólkinu eins og best ég gat.
Seinna fór ég að velta þessu fyrir mér og reyna að setja það í samhengi. Þá varð mér ljóst hvað er á bak við þessa jeppaáráttu og hvað þessir karlar eru að bæta sér upp. Þessi farartæki eru greinilega fyrir lágvaxna kyrrsetumenn svo þeir komist út úr bænum sitjandi kyrrir. Þeir fara saman í hópum, einn á hverjum bíl, þannig að þeir þurfa að koma við á Litlu kaffistofunni til að fá einhvern félagsskap út úr sportinu. Ég reikna með að þeir hafi komið þar við til að spjalla saman, nema þeim hafi staðið jafnmikill stuggur af færðinni og mér á Mözdunni minni.
Hugsanaferlið á bak við þessa íþrótt er nokkurn veginn svona: "Ég er svo lítill og feitur að ég verð að fá mér eitthvað tómstundagaman til að láta mér líða betur með sjálfan mig. Ég veit! Ég kaupi mér jeppa til að komast allra minna ferða allan ársins hring, svona eins og hver maður getur gert á japönskum smábíl ef hann á annað borð kann að keyra og þarf ekki beinlínis lífsnauðsynlega á því að halda að geta anað út í hvaða ófærð og fárviðri sem er fyrirvaralaust. En ég set á hann svo stór blöðrudekk að ég kemst ekki upp í hann hjálparlaust – til þess að geta keyrt hann þar sem ekki á að keyra bíla, utan vega og uppi á jöklum og svoleiðis. Þetta get ég gert í félagsskap annarra sem vita ekkert skemmtilegra en að sitja einir í bíl. Þannig getum við dúllað okkur við að "vera í samfloti" frekar en að verða samferða og hafa félagsskap hver af öðrum. Skítt með það þótt þannig spænum við upp vegi og land á kostnað samborgaranna og mengum umhverfið margfalt á við það sem þyrfti til að komast á þessa sömu staði, til dæmis fótgangandi. Ef ég gerði það myndi ég kannski hrista af mér spikið og verða myndarlegur og í kjölfarið missa þessa knýjandi þörf fyrir að eiga stóran jeppa."
Ég ætla ekki að þræta fyrir það að þetta eru magnaðir bílar og að í verstu stormunum yfir háveturinn geta þeir verið hentugir fyrir afdalabændur, landsbyggðarlækna og sveitapresta. Aðrir hafa eiginlega ekkert við þá að gera. Jú, það er hægt að fara á þeim upp á jökul í stað þess að gera það á skíðum og þannig lágmarka útvistina og hreyfinguna sem af því fæst og um leið valda heilmiklu raski. Ég las meira að segja um það fyrir nokkrum árum að einhverjum hefði tekist að fara á svona bíl upp á Hvannadalshnjúk. Ferðin tók á annan sólarhring, en þennan spöl er hægt að labba fram og til baka á einum eftirmiðdegi ef maður sleppir því að drösla tveim tonnum af stáli með sér.
Gallinn er að þegar þessir labbakútar húrra á umhverfisslysunum sínum ofan í einhverjar holur uppi á jökli þarf að ræsa út bandaríska herinn til að bjarga lífi þeirra. Að réttlæta Íslandsdvöl þessa stolta kostunaraðila fyrirbæra á borð við Víetnamstríðið, Íraksstríðið og Guantanamo með því að annars væri enginn til að ná þessu liði ofan af jöklinum aftur er einfaldlega út í hött í mínum huga.
Auðvitað geta íbúar hinna dreifðu byggða landsins þurft á skyndilegri læknisaðstoð að halda eða sægarparnir okkar slasast við skyldustörf á hafi úti. Sömuleiðis geta þeir sem stunda heilbrigða útivist lent í hrakningum. En það ætti að mínu mati ekki að vera í verkahring Bandaríkjahers að koma þeim undir læknishendur. Lágvaxnir, gildvaxnir, tekjuháir og hégómlegir kyrrsetumenn í reykvískum úthverfum með kólestrólvandamál og tilvistarkreppu sem knýr þá til að fara sér að voða á fjöllum uppi á tilgangslausum tryllitækjum sem þeir ráða ekkert við eru því máli gjörsamlega óviðkomandi.
Birt á "Lífið er auðvelt" 22. mars 2006

sunnudagur, október 08, 2006

Þ.R.A.U.K. 7: Lítil hugleiðing um listina að sannfæra fólk um ágæti einhvers með því að segja ekkert um það

Ég er mikill aðdáandi sannfæringarkrafts. Sjálfur hef ég í gegn um tíðina öðru hverju staðið mig að því að hafa sannfært sjálfan mig um augljósustu rökleysur með sannfæringarkraftinn einan mér til fulltingis. Sannfæringarkraftur er líka mikilvægur í auglýsingum. Það er ekki nóg að segja að það sem er verið að selja sé gott, það þarf að segja það þannig að engu sé líkara en að þeim sem tali sé það mikið hjartans mál að enginn efist um að svo sé.
Nú er til dæmis verið að auglýsa ameríska bifreiðategund í sjónvarpinu. Ekki ætla ég að draga í efa að þetta sé út af fyrir sig ágætisbíll og vissulega heyrir maður ekki betur en að lesarinn sé sannfærður um að svo sé þegar hann segir: "Einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki í Bandaríkjunum!" Ég held að ég hafi þurft að heyra þessa auglýsingu tíu sinnum þegar ég hætti að heyra hvernig þetta var sagt og fór að heyra hvað var sagt. Þetta er nefnilega alveg skelfilega veik fullyrðing þegar orðin ein eru skoðuð. Hvað er í raun verið að segja mér? Í fyrsta lagi að þetta er ekki vinsælasti bíllinn neins staðar, hvorki Bandaríkjunum né annars staðar ... aðeins að þetta sé "einn vinsælasti" bíllinn. Hvað þýðir það nákvæmlega? Sjá fjórði vinsælasti? Einn af hundrað vinsælustu?
Í öðru lagi er ekki einu sinni fullyrti að þetta sé einn vinsælasti bíllinn svona almennt heldur einungis "í sínum flokki". Hvaða flokkur er það? Eru það bílar af svipaðri stærð? Bílar í svipuðum verðflokki? Bílar af svipaðri stærð í svipuðum verðflokki? Amerískir bílar í svipaðri stærð og á svipuðu verði? Í ljósi þess að þetta er frekar lítill amerískur bíll getur samkeppnin ekki verið mikil.
Í þriðja lagi er þetta ekki einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki, hver sem hann svosem er, neins staðar annars staðar en "í Bandaríkjunum" – þar sem hann er framleiddur. Þetta er ekki "einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki" ... punktur. Nei, það þarf að þrengja það niður í framleiðslulandið eitt til að þessi veika fullyrðing eigi við rök að styðjast.
Fyrirvarinn er í raun orðinn þrefaldur! Þegar að er gáð segir yfirlýsingin: "Einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki í Bandaríkjunum" nefnilega ekkert annað en: "Sumir aka um á svona bíl í landinu þar sem hann er framleiddur!" En það myndi náttúrlega enginn kaupa bíl sem ekki hefur neitt annað sér til ágætis en það, sama hvað það væri sagt af miklum sannfæringarkrafti.
Birt á "Lífið er auðvelt" 5. mars 2006

Þ.R.A.U.K. 6: Ísland

Ísland er glæsihöllin mín háa
og heim þangað glaður ég sný.
Ísland er kotið mitt kalda og lága
sem kúldrast ég dapur í.

Ísland er ferskt eins og angan úr grasi
og ylhýrt sem vorsins þeyr.
Ísland er gamall og úreltur frasi
sem enginn skilur meir.

Ísland er sigrar og ánægjustundir,
afrek og hetjudáð.
Ísland er byrði sem bogna ég undir
er brestur mig þrek og ráð.

Ísland er sanna ástin mín stóra,
ástríðna logandi bál.
Ísland er gömul og útjöskuð hóra,
örmagna á líkama og sál.

Birt á "Lífið er auðvelt" 6. febrúar 2006 (hefur verið breytt örlítið)

laugardagur, október 07, 2006

Yfirlýsing

Eyvindur Karlsson er ekki allra fremur en snjallir menn hafa nokkurn tímann verið. Einhverjum er meira að segja beinlínis í nöp við hann. Hann ætti ekki að kippa sér upp við það. Atli Heimir Sveinsson ofursnillingur orðaði ástæðuna fyrir því einna best í nýlegu viðtali þegar hann var spurður að því hvort það hefði ekki virkað niðurdrepandi á hann hve illa honum var tekið í upphafi ferils síns. Hann sagði: "Mér fannst ég ekkert vera í vondum félagsskap. Ég veit ekki betur en helstu listamönnum þjóðarinnar hafi verið illa tekið. Það var alltaf verið að segja manni að Jón Leifs gerði vonda tónlist. Hann var eini maðurinn sem gerði eitthvað sem var varið í. Það var sagt að Steinn Steinarr kynni ekki að yrkja. Hann bar af öðrum skáldum. Það var sagt að Halldór Laxness væri sérlega vondur rithöfundur, hann var langbestur."
Eyvindur er fastur pistlahöfundur á Rás 2 um þessar mundir þar sem hann gerir út á að flytja "pólitískt vitlausar" hugleiðingar um lífið og tilveruna. Í þessum pistlum sínum hefur hann m. a. líkt Magnúsi Scheving við Adolf Hitler, hæðst að kvenfólki og gefið í skyn að Gunnar í Krossinum og hans líkar séu barnamorðingjar. Aldrei hefur hann fengið nein viðbrögð við þessum pistlum sínum fyrr en núna. Í þessari viku varð honum það nefnilega á að hæðast að trúleysingjum og þá fyrst var eins og hann færi yfir strikið. Vanþóknunarbylgja mikil skók Ríkisútvarpið í kjölfarið og hávær krafa um afsökunarbeiðni kom frá sjálfum skynsemihyggjuprédíkurunum og vitsmunadýrkendunum í Vantrú. Fyrir vikið verður í framtíðinni hægt að bæta við framansögð orð Atla Heimis: "Að Evindur Karlsson væri ekki fyndinn. Hann var hillaríus." Því viðbrögð Vantrúarmanna eru auðvitað brandari vikunnar.
Þeir þykjast þess umkomnir að vaða með fúkyrðaflaumi, skítkasti og skömmum yfir það sem öðrum er kært og heilagt í skjóli þess hvað Kalli biskup, Gunnar í Krossinum og kerlingin sem skrifaði greinina í Moggann hérna um árið hafa verið vondir við þá í gegn um tíðina. Þeir mega kalla heilt trúfélag Nasistaflokk Íslands, presta annað hvort greindarskerta eða siðlausa og guðfræðimenntun nám í að tala gegn betri vitund (eða "skinhelgi" eins og ég kallaði það og er strax farinn að dauðsjá eftir að hafa kennt þeim það orð, því framvegis munu þeir sennilega nota það yfir hugsun sem þeir þurftu áður heila aukasetningu til að tjá). Þegar mér sárnar þessi aðför að akademísku gildi menntunar minnar og lífgefandi mætti trúar minnar, saka þá um dónaskap og bið þá vinsamlega að gæta orða sinna ... þá leysast þeir hins vegar upp í 14 ára stelpur í dramakasti fastar í líkama fullorðinna karlmanna, finnst að sér vegið á ómaklegan hátt og neita að hætta að grenja fyrr en maður segir "Fyrirgefðu".
Nú geng ég undir nafninu "Davíð Þór óheiðarlegi" í einhverjum glugga með bloggurum og bý við það að hafa neyðst til að vernda sálarheill mína með því að hætta að taka þátt í asnalegu samtali undir "Rökþrota! Rökþrota!" hrópum vantrúarofstækismanna – þegar öllum mátti ljóst vera að ég nennti bara ekki að eyða ævinni í að tyggja ofan í þá það sem allir nema þeir sjálfir voru löngu búnir að átta sig á. Ég benti nákvæmlega á slóðir fjölmargra yfirlýsinga sem ég taldi handan velsæmismarka. (Ég nenni ekki að linka á þær hér í þriðja eða fjórða sinn í þessari umræðu.)
(Þeir brugðust meðal annars við með því að telja það dæmi um lélegan lesskilning minn að mér þætti ósanngjarnt að fullyrða að "það yrði friðvænlegra í heiminum ef trúarbrögð legðust af," sem haft var eftir Messíasi þeirra trúleysingjanna, Dawkins. Hvað um það – það er önnur umræða sem ég ætla ekki að ýta úr vör, en sjálfsagt myndu þeir í Vantrú ekkert kippa sér upp við að fullyrt væri "að friðvænlegra væri í heiminum ef trúleysi legðist af" eða hvað?)
Þegar ég síðan var búinn að sýna fram á það með dæmum að bloggari að nafni Örvitinn og fastur penni á Vantrú væri sennlega kominn á bak við lás og slá fyrir að svívirða meiðyrðalöggjöfina (og hér er ég alls ekki að mæla með fangelsun hans) hefði hann skrifað í blöð en ekki á netið kom hin gáfulega athugasemd: "Ekki eru allir trúleysingjar Örvitinn." Því er til að svara að ég veit það vel. Enda sagði ég það aldrei. Og nú ætla ég að gefa mér leyfi til að byrsta mig aðeins:
HVERNIG VÆRI AÐ LESA HELVÍTIS HANDRITIÐ ÁÐUR EN FARIÐ ER AÐ ANDSKOTAST YFIR ÞVÍ SEM Í ÞVÍ STENDUR???
Ég sagði orðrétt: "Þeir sem trúa því að Guð sé skáldskapur virðast því miður allmargir ..." ATH. allmargir, ekki allir (hver er með lélegan lesskilning?) "... hafa gefið sjálfum sér leyfi til að míga á helstu kurteisisreglurnar sem ætlast er til þess að þeir sem trúa öðru um Guð fylgi í sínum boðskap. Vanhugsuð og heimskuleg orð sem páfi lét nýlega falla um múslima eru beinlínis vingjarnleg miðað við sumt sem guðleysingjar setja á prent ..." Eða sagði páfinn kannski að banna ætti Islam með lögum eins og Jóni Frímann Blogg finnst eðlilegasti hlutur í heimi að segja í athugasemd hér á þessari síðu? Kallaði hann Islam kannski "ómerkilega lygaþvælu" sem varða ætti við lög, orð sem Birgir Baldursson veigrar sér ekki við að viðhafa í umræðu um trúmál á vefsvæði þeirra piltanna? "... svo sem að ekki séu þeir sem eiga sér trú einasta fáfróðir, illgjarnir og skinhelgir ..." (sjá hér að ofan) "... heldur að trúin sé beinlínis orsök alls ills."
Ég get beðist afsökunar á nákvæmlega einu orði. Einu orði! Orðinu "alls". Hefði ég haft lengri tíma til að vinna þessa grein hefði ég við nánari athugun sleppt því og getað staðið fullkomlega við hvert orð. Hafi þetta gert einhvern "bitran yfir óheiðarleikanum" biðst ég afsökunar á því.
Eigum við að snúa dæminu við? Skoðum fullyrðinguna: "Allmargir kristnir menn hafa farið langt yfir öll velsæmismörk í orðum sínum um trúleysi." Ég hefði ekki einu sinni hugmyndaflug til að móðgast ef ég heyrði þetta af því að það myndi einfaldlega ekki hvarfla að mér að átt væri við mig. Sennilega myndi ég kynna mér rökstuðninginn á bak við yfirlýsinguna og enda á því að taka undir hana, enda lítill jábróðir Kalla biskups og þaðan af síður Gunnars í Krossinum. Hvers vegna eitthvað af því sem ég sagði ætti að ganga fram af þeim sem ekki vissu upp á sig skömmina er mér því fullkomlega hulin ráðgáta.
Hver getur lesið í pistlinum (sem hér er allur) að ég telji "bannað að gagnrýna trú og trúfólk" eins og hér er fullyrt, en neðar á sömu síðu er ég síðan sakaður um að gera trúleysingjum upp afstöðu.
Það er sorgleg staðreynd að ofvirkir, vefvæddir vantrúarofstækismenn hafa gert fjölmarga bloggara skíthrædda við að tjá sig um trúmál á netinu af því að það hefur margsýnt sig að þeir hópast eins og engisprettufaraldur inn á kommentakerfi þeirra sem voga sér það, með aðdróttunum um að trúi maður á Guð verði maður að verja allt frá umskurn kvenna til trúar á dauðar kerlingar í Grindavík! Halló?!? Er einhver hissa á að maður hafi annað við líf sitt að gera en að eiga svona spjall?
Um þessar mundir ríkir í bloggheimum ógnarþögn um trúmál af því að enginn vill jú kalla "engispretturnar" yfir sig. Hver sá sem er nógu fífldjarfur til að tjá sig um trúmál á netinu á annan hátt en þann sem hentar því hvernig Vantrú sér heiminn getur nefnilega á endanum aðeins valið um þrennt:
I. Varið því sem hann á eftir ólifað í að karpa um trú sína við menn sem mæta til umræðunnar með orðið "trúarnöttari" á vörunum og skilja ekki að nokkrum geti fundist það haldlítið upplegg fyrir gefandi skoðanaskipti. (Þetta er eins gáfulegt og að reyna að eiga síðasta orðið í rifrildi við bergmál.)
II. Neitað "að vera með í svona asnalegu leikriti" og látið kalla sig rökvana vitleysing. (Sem er særandi.)
III. Skipt um skoðun, viðurkennt að hann hafi verið úti að skíta í því sem honum var helgast og kærast og bjargaði jafnvel lífi hans og beðið Óla Gneista, Örvitann, Bigga Baldurs og hina strákana í klúbbnum afsökunar á því að hafa leyft sér þá heimsku að halda að raunveruleikinn væri öðruvísi en þeir halda ... nei ... TRÚA ... að hann sé.
Hvað skyldi það annars hafa gerst oft? Greinilega nógu oft til að þeir telji "engisprettumeðferðina" þjóna einhverjum tilgangi. Varla væru þeir svona iðnir við þetta ef þetta skilaði ekki árangri. Ég hef ekki það lítið álit á þeim að ég trúi því að líf þeirra sé svo innihaldslaust að þeim finnist þetta í raun og veru skemmtilegt.

Og þá er komið að yfirlýsingunni:

Ég viðurkenni vanmátt minn gagnvart mínum eigin tilfinningum. Mér gremst að vera borinn röngum sökum. Það særir stolt mitt að vera kallaður óheiðarlegur. Lái mér það hver sem vill. Gremja og sært stolt eru hins vegar tilfinningar sem ég hef ekki efni á eins og sakir standa, þær valda mér vanlíðan, trufla einbeitingu mína og koma í veg fyrir að ég sé fær um að sinna verkefnum sem skipta mig meira máli og eru meira aðkallandi, af þeirri alúð sem þau verðskulda og þarfnast.
Ég hef því ákveðið að varast samskipti sem ganga út á að sigra eða tapa, að hafa yfirhöndina eða að verða undir, samskipti þar sem mér finnst á mig ráðist persónulega þegar menn eru ósammála skoðunum mínum og við menn sem finnst á þá ráðist persónulega þegar ég leyfi mér að vera ósammála skoðunum þeirra. Rökræður og skoðanaskipti eru í lagi. Þetta helvíti er hvorugt.
Fyrst og fremst verð ég þó að forðast tvennt í mannlegum samskiptum og gildir þá einu hvort það er ég sem beiti því eða er beittur því: Hroki og píslarvætti.
Ég treysti mér því engan veginn til að halda áfram samræðum við aðstandendur Vantrúar, því ég tel reynslu mína og allra annarra sem það hafa reynt sýna berlega að það sé ógjörningur án þess að þær einkennist einmitt af öllu ofantöldu.

Ég hef því ákveðið að tjá mig ekki framar um trúmál opinberlega.

Í stað þess að auglýsa trú mína og afsaka ætla ég framvegis að einbeita mér að því að rækta hana.

Að sjálfsögðu mun ég þó áfram ræða trúarskoðanir mínar í bróðerni þegar trú ber á góma í einkasamtölum .
Í sjálfsvörn hef ég ennfremur gert kommentakerfi þessarar síðu óvirkt. Það verður opnað aftur að viku liðinni. Þangað til er ég með sjálfan mig í víkingameðferð við bráðameðvirkni. Ég vona að þetta mæti skilningi ykkar og mæti þetta honum ekki bið ég Guð um æðruleysi til að vera sama.
Guð blessi ykkur öll.

Þ.R.A.U.K. 5: Íslenskukennsla

Sérfræðingar hafa lýst yfir áhyggjum sínum af því að íslenskan sé í útrýmingarhættu og að eftir hundrað ár verðum við farin að tala frumstæða ensku. Þótt ég sé ekki reiðubúinn til að taka undir þennan bölmóð er því ekki að neita að málfræðikunnátta mætti almennt vera meiri, ekki bara meðal sauðsvarts almúgans heldur líka meðal þeirra sem fást við ritaðan og talaðan texta. Mig langar því til að leggja mitt af mörkum til viðhalds móðurmálinu með því að miðla eilítið af þekkingu minni hér á þessari síðu.
Eitt af því sem fáir ráða við að gera rétt er að nota orðasamböndin "hver annar" og "hvor annar". Gildir þá einu hvort það er í töluðu máli eða á prenti. Til dæmis er hreinlega hending að sjá þetta gert rétt í dagblöðum sem er ekkert skrýtið, enda liggur þetta alls ekki í augum uppi auk þess sem blaðamönnum er almennt margt betur til lista lagt en að fara vel með íslenskt mál. Þetta er flókið og erfitt málfræðiatriði og sjálfur var ég til að mynda kominn á þrítugsaldur þegar mér loksins varð ljóst hvernig á að gera þetta rétt.
Þannig er nánast algilt að sagt sé: "Strákunum er illa við hvorn annan." Þetta er rangt. Hér er um það að ræða að "hvorum" stráknum er illa við "annan". Rétt er því að segja: "Strákunum er illa hvorum við annan." Þá að því tilskildu að strákarnir séu aðeins tveir. Ef þeir eru fleiri er rétt að segja: "Strákunum er illa hverjum við annan," ekki: "... við hvern annan" þar sem "hverjum" er illa við "annan."
Möguleikarnir eru fjórir: hver ... annar, hvor ... annar, hverjir ... aðrir og hvorir ... aðrir. Förum yfir þetta lið fyrir lið.
1. ... hvor annar
Þegar tveir (tvær, tvö) eiga hlut að máli notar maður orðasambandið "hvor annar" ("hvort annað" eða "hvor önnur"). Einfaldast er að útskýra þetta með dæmum:
"Hundurinn og kötturinn forðast hvorn annan" er rangt. "Hvor" forðast "annan" og því er rétt að segja: "Hundurinn og kötturinn forðast hvor annan." Þegar forsetning er með í spilinu gerir hún þetta flóknara á yfirborðinu en grunnreglan er sú sama: "Hundinum og kettinum er illa við hvorn annan" er þarafleiðandi rangt. Hér er um það að ræða að "hvorum" er illa við "annan" og því rétt að segja: "Hundinum og kettinum er illa hvorum við annan." Hér gildir kyn orðanna einu. "Dýrunum er illa við hvort annað" er sem sagt rangt og ætti að vera: "Dýrunum er illa hvoru við annað" þar sem "hvoru" dýrinu er illa við "annað".
Kyn orðanna og föllin breyta ekki reglunni. "Læðan og tíkin eru andstæðingar hvor annarrar" er rétt, en ekki "hvorrar annarrar". Önnur "hvor" þeirra er nefnilega andstæðingur "annarrar" þeirra. Séu tvær skyrtur settar saman í þvottavél geta þær flækst "hvor í annarri" en ekki "í hvorri annarri".
2. ... hver annar
Þegar þrír (þrjár, þrjú) eða fleiri eiga hlut að máli notar maður "hver annar" ("hvert annað" eða "hver önnur"). Reglan er sú sama og um "hvor annar".
"Stjórnmálaflokkarnir berjast við hvern annan um atkvæði" er rangt. "Hver" berst við "annan" og því er rétt að segja: "Stjórnmálaflokkarnir berjast hver við annan um atkvæði." Kynið breytir ekki reglunni. "Fylkingarnar berjast hver við aðra" ekki "við hverja aðra" – því "hver" fylking berst við "aðra".
Á sama hátt eru fylkingarnar andstæðingar "hver annarrar" en ekki "hverrar annarrar" því "hver" fylking er andstæðingur "annarrar". Þannig eru flokkarnir jafnframt andstæðingar "hver annars" en ekki "hvers annars", "hver" flokkur er jú andstæðingur "annars". Flokkar bjóða því ekki fram "gegn hverjum öðrum" heldur "hver gegn öðrum" og ólíkar fylkingar berjast "hver gegn annarri", ekki "gegn hverri annarri".
3. ... hvorir aðrir
Orðasambandið "hvorir aðrir" ("hvorar aðrar", "hvor önnur") er notað þegar um tvo hópa er að ræða, það er að segja þegar báðir aðilar eru fleirtöluorð.
"Kommúnistar og kapítalistar eru andstæðingar hvorir annarra", ekki "hvorra annarra". "Hvorir" eru andstæðingar "annarra". "Hundar og kettir forðast hvorir aðra" ekki "hvora aðra" – "hvorir" forðast "aðra".
Eins og í hinum dæmunum geta forsetningar og kyn orða flækt þetta við fyrstu sýn, en reglan er þó alltaf eins. "Hnakkamellur og pönkaragellur forðast hvorar aðrar" ("hvorar" forðast "aðrar") og: "Hnakkamellum og pönkaragellum er illa hvorum við aðrar" ("hvorum" er illa við "aðrar").
Hafa ber í huga að tala orða er einvörðungu málfræðilegt atriði. Þannig er "fylking" eintöluorð á meðan "buxur" er fleirtöluorð. Séu tvennar buxur settar saman í þvottavél geta þær því flækst "hvorar í öðrum" ("hvorar" flækjast í "öðrum") en ekki "í hvorum öðrum". Þaðan af síður geta þær flækst "hvor í annarri" og alls, alls ekki "í hvorri annarri".
4. ... hverjir aðrir
Þetta orðasamband er notað þegar aðilar eru þrír eða fleiri og allir fleirtöluorð. "Sjálfstæðismenn, kratar og sósíalistar keppa hverjir við aðra um atkvæði." "Hverjir" keppa við "aðra". Þrennar gallabuxur flækjast "hverjar í öðrum".
Ég hef þetta ekki lengra að sinni og vona að þetta geti orðið einhverjum að gagni í meðferð móðurmálsins. Ég ítreka að þetta er eitt af því sem fæstir gera rétt og þessum leiðbeiningum alls ekki ætlað að vera settar fram af neins konar yfirlæti heldur einungis í auðmjúkri viðleitni til þess að leggja mitt af mörkum til vandaðrar málnotkunar og viðhalds tungunni. Menn eiga jú að vera óhræddir við að bjóða hver öðrum aðstoð.
Vonandi verður þess ekki langt að bíða að blaðamenn beri gæfu til að skrifa um að Íslendingar ráðist hver á annan og veiti hver öðrum áverka eins og sönnum víkingum sæmir, en ekki að þeir séu að ráðast "á hvern annan" og veita "hverjum öðrum áverka" eins og illa talandi aumingjar.
Birt á "Lífið er auðvelt" 29. janúar 2006