mánudagur, júní 26, 2006

Munkurinn sem seldi sjálfshjálparbókina sína

Nýlega gerði ég tilraun til að lesa sjálfshjálparbók, mér datt í hug að það væri vit í henni því titillinn var hnyttinn og í henni átti austræn speki að blandast vestrænni á nýjan og frumlegan hátt. Þegar spurningin "hvernig getur þér þótt vænt um aðra ef þér þykir ekki vænt um sjálfan þig?" var sett fram eins og augljóst væri að enginn gæti gert öðrum gott nema hafa náð djúpri innri sátt við sjálfan sig með tilheyrandi sálarfriði, gafst ég upp. Samkvæmt þessari bók er trixið við að öðlast þennan frið og þessa sátt í því fólgið að fara til Indlands, dýrðarríkis fátæktar og barnaþrælkunar, og hugsa þar um sjálfan sig.
Mér finnst aftur á móti eðlilegra að spyrja: "Hvernig er hægt að þykja vænt um einhvern sem hugsar bara um sjálfan sig?"
Staðreyndin er auðvitað sú að eina manneskjan í heiminum sem ekki er skítsama um það hvernig þér líður með sjálfan þig ert þú. Til að geta hjálpað öðrum, lagt öðrum lið, reist einhvern við eða stutt á einhvern hátt er persónuleg innri sátt jafn nauðsynleg og vasaljós í björtu. Saga þín og samviska skipta engu máli þegar þú gefur svöngum manni brauð. Það hefur engin áhrif á næringargildi brauðsins hvort þú ert á bömmer yfir fortíðinni og átt erfitt með að horfast í augu við sjálfan þig í spegli eða hvort hver hugsun þín sé í óaðfinnanlegum samhljómi við nið almættisins. Brauð er brauð.
Þannig að ef þú átt í erfiðleikum með að sættast við sjálfan þig og það hjálpar þér ekki að loka þig af frá öðru fólki og einbeita þér að því að hugsa þig upp í sjálfsvæntumþykju af eigin rammleik inni í hausnum á þér, þá gætirðu prófað að hætta að hugsa bara um sjálfan þig og farið út og hjálpað öðrum – án þess að skeyta um það hvernig þér líður með það og þig og þitt á meðan.
Ef þú gerir það í dag er ég viss um þér finnst pínulítið auðveldara að bera virðingu fyrir manneskjunni sem þú sérð í speglinum í kvöld en þessari sem blasti við þér í honum í morgun. Þér kynni jafnvel að þykja agnarögn vænna um sjálfan þig í kjölfar þess að þín svarta fortíð hefur skánað um einn dag.
Það besta við þessa aðferð er að ef þú gerir þetta aftur á morgun hefur hún skánað um tvo.
Bakþankar í Fréttablaðinu 25. júní

þriðjudagur, júní 13, 2006

Draumráðning óskast

Mig dreymdi stórskemmtilegan draum í nótt. Hann er næstum eins og byrjun á Radíusflugu. Mér fannst ég hafa verið í atvinnuviðtali og sat á einhvers konar biðstofu þar sem ég beið þess sem verða vildi ásamt öðrum sem var að sækja um sömu vinnu. Það var ósköp venjulegur gaur, mig minnir að hann hafi verið rauðhærður og broddaklipptur. Loks opnast dyrnar að skrifstofunni og forstjórinn birtist. Hann segir: "Þú sem ert eins og garðplanta um höfuðið getur gleymt þessu, hinn mætir í fyrramálið." Við rauðhausinn lítum undrandi hvor á annan og erum greinilega að hugsa það sama: "Hvorn okkar er hann að meina?" Áður en forstjórinn nær að loka á eftir sér spyr ég því: "Hvorn okkar áttu við?" Hann snýr sér við í dyrunum og svarar: "Svo þú þakkar fyrir þig með því að rífa kjaft. Þá geturðu gleymt þessu." Síðan lítur hann á þann rauðhærða og segir: "Garðplanta, þú mætir þá í fyrramálið." Síðan hverfur hann aftur inn á skrifstofuna og lokar á eftir sér.
Hver getur hjálpað mér?

Maðurinn sem horfði á mig

Um daginn mætti ég á götu manni sem horfði á mig. Ég veit ekki af hverju hann horfði á mig, af svip hans fékk ég ekkert um það ráðið. Hann hefði þess vegna getað verið að hugsa: "Þarna er þetta helvítis fífl." En hann hefði allt eins getað hugsað: "Þarna er þessi höfuðsnillingur." Ég veit það ekki og mun aldrei vita. Kannski var hann bara að spá í hvort hann kannaðist við mig.
En hvort sem við gefum okkur að hann fyrirlíti mig eða dái er niðurstaðan sú sama: Tilfinningar og skoðanir eru einskis virði einar sér. Ef það breytir engu fyrir mig hvort maður sem ég mæti á götu hatar mig og fyrirlítur eða elskar mig og dáir hlýtur það að segja sig sjálft að jafnt hatur og fyrirlitning sem og ást og aðdáun eru ekki skíts virði fyrir neinn annan en þann sem rogast um með slíkar tilfinningar. Það er ekki fyrr en við gerum eitthvað í málunum sem tilfinningar okkar og skoðanir eru til einhvers. Ef þessi maður hefði annað hvort hrópað að mér ókvæðisorðum eða ausið mig lofi, ef hann hefði annað hvort kýlt mig eða kysst, hefðu skoðanir hans og tilfinningar haft áhrif á mig.
Það skiptir börnin mín sem sagt engu máli hvort ég elska þau eða hata ef ég sinni þeim ekki. Það er ekki fyrr en ég sýni börnunum mínum ástúð og legg þeim lið sem tilfinningar mínar í þeirra garð eiga einhvern þátt í að gera þau að heilsteyptum einstaklingum.
Það gildir unnustu mína einu hve ást mín á henni er heit í brjóstinu á mér. Þegar ég sit hreyfingarlaus og yrði ekki á hana breytir það engu fyrir hana hvort ég tilbið jörðina sem hún gengur á eða hef á henni megnan ímugust. Aldrei hefur andlega heilbrigð kona elskað karlmann af því að hann elskaði hana, heldur af því að henni féll það vel hvernig hann lét ást sína í ljós.
Það skiptir engu máli hvað maður er kærleiksríkur og góðgjarn. Ef maður á ekki samskipti við annað fólk er heimurinn jafnvel settur með mann hatursfullan og illgjarnan.
Það skiptir með öðrum orðum engu máli hvernig manni líður eða hvað manni finnst. Ef þú ert ósammála þessu er það ekki af því að ég hugsaði það, heldur af því að ég skrifaði það. Það var með öðrum orðum ekki það sem mér finnst sem hreyfði við þér, heldur það sem ég gerði.
Bakþankar í Fréttablaðinu 11. júní

miðvikudagur, júní 07, 2006

Lengi lifi Orkuveitan!

Nýja Orkuveituauglýsingin fór mjög mikið í taugarnar á mér til að byrja með. Einkum vegna þess að mér finnst eins og í henni sé gefið í skyn að það verði að virkja á hálendinu til að fólk geti kveikt á standlömpum og haft rafmagn í tölvuna sína. Hvergi er gefið í skyn að aðeins lítið brot af því rafmagni sem nú þegar er framleitt hér á landi – án Kárahnúka – fari til heimila og vinnustaða og megnið af því til stóriðju. Líklega hafa auglýsingagerðarmennirnir haldið að þar sem megnið af sölutekjunum kemur frá almenningi hljóti hann að kaupa megnið af varningnum, en ekki að niðurgreiða hann til stórneytendanna eins og raunin er. Nema standlampar og tölvur séu betri fyrir ímyndina en álver.
En ég er búinn að taka þessa auglýsingu í sátt. Aðallega vegna þess að í henni kristallast hæfileikar okkar Íslendinga til að gera auglýsingar. Þarna er hvergi neitt til sparað að heitið geti. Alltjent vona ég að minn ágæti kunningi og fjölhæfi stórleikari, Valur Freyr Einarsson, hafi verið á þokkalegu kaupi. Þarna er stórbrotin tónlist, stórbrotið landslag, kóreógrafía á heimsmælikvarða, flinkir dansarar, flottir spesjaleffektar og leikmynd og búningar hvort tveggja óaðfinnanlegt. Þarna eru greinilega toppfagmenn á öllum póstum, í leik, söng, dansi, hljóði og kvikmyndatöku. Það vantar bara skáld.
Ég sé fyrir mér fundinn þar sem þetta var ákveðið, grunnhugmyndin er lögð fram. Auglýsingapési (A) og boss (B) ræðast við.

A: Þetta verður semsagt æðislegt spektakúl og allir fara að kaupa rafmagn eins og besefar.
B: Mér líst vel á þetta. Fáum í þetta allt helsta toppfólkið á sínu sviði á landinu.
A: Akkúrat. Músíkanta, dansara, leikara ...
B: ... og færustu kvikmyndagerðarmennina.
A: Svo ekki sé minnst á spesjaleffektana, maður. Gjósandi hverir og gufa og tilbehör.
B: ... og gott skáld til að yrkja textann.
A: Ertu snarbandsjóðandi vitlaus? Þá myndi pródjektið strax rjúka upp úr öllu böddsétti, maður
B: Ha, er það? Eru skáld svona dýr?
A: Já, hvað er þetta, maður? Fylgistu ekkert með? Gerirðu þér grein fyrir því hvað rím og stuðlar og höfuðstafir kosta?
B: Nei.
A: Nei, blessaður vertu, maður. Það myndi setja Orkuveituna á hausinn að hafa óbrjálaðan kveðskap í þessari auglýsingu.
B: Ó. Hvað gerum við þá?
A: Ég bið son minn sem er í ellefu ára bekk að setja eitthvað á blað. Eitthvað svona "allir vinir og allt í góðu lagi" bull.
B: Ræður hann við það?
A: Hann fer létt með það. Hann er með þeim betri í sínum bekk í móðurmáli.
B: Ókei. Þú ert fagmaðurinn. Ég treysti þér bara fyrir þessu.

Þessi auglýsing er með öðrum orðum fjöður í hatt íslenskrar menningar. Skáld eru svo hátt skrifuð núorðið að þrátt fyrir að vera með hæfasta atvinnufólkið á öllum sviðum á sínum snærum fannst Orkuveitunni hún ekki hafa efni á að hafa eitt slíkt í hópnum.
Hinn möguleikinn er reyndar að í öllum látunum og veseninu hafi engum hugkvæmst að auglýsingin yrði kannski áhrifaríkari ef hið sungna orð misþyrmdi ekki brageyra hvers manns sem ber skynbragð á bundið mál.
Núorðið halla ég mér aftur í stólnum þegar þessi auglýsing birtist, finn hvernig leirhnoðið særir málkennd mína og hugsa með mér "hurts so good"! Þessi auglýsing er nefnilega ekki bara afbragðsgóð kynning á starfsemi Orkuveitunnar, eins og þeir hjá Orkuveitunni vilja að fólk haldi að hún sé (ekki eins og hún er í raun), heldur einnig mun betri auglýsing á menningarstigi þeirra sem að henni standa en þeir munu nokkru sinni verða færir um að gera sér grein fyrir.

þriðjudagur, júní 06, 2006

Drekkjum Valgerði

Einu sinni fékk ég morðhótun. Síminn hringdi og sallaróleg kvenmannsrödd innti mig eftir því hvort ég væri sá sem ég er. Þegar konan hafði fengið það staðfest tilkynnti hún mér að það ætti að skjóta mig í hausinn og að hún hygðist sjá til þess að það yrði gert á næstunni. Ég verð að viðurkenna að mér varð hreint ekki um sel. Ég hringdi í lögguna og kærði þetta og síðan hringdi ég í vinkonu mína, þjóðþekkta og umdeilda manneskju, og sagði henni að ég hefði fengið morðhótun. Hennar svar var: "Velkominn í klúbbinn."
Það er því miður staðreynd að á Íslandi er fullt af sjúku fólki sem fær eitthvað kikk út úr því að hringja í þekkt fólk, einkum umdeilt, og hóta því lífláti. Þess vegna eru mjög fáir þjóðþekktir, umdeildir Íslendingar í símaskránni. Þetta lasna lið finnur til sín, það fyllist einhverri valdstilfinningu og finnst það menn að meiri með því að geta komið einhverjum frægum í uppnám. Hins vegar er það staðreynd að þetta lið er heybrækur og raggeitur sem aldrei gætu mannað sig upp í að framkvæma það sem það er að hóta. Það er aðeins hugrakkt í gegn um síma og undir nafnleynd. Nú eru tíu ár síðan ég fékk þessa morðhótun og hafi mér verið sýnt morðtilræði á þeim tíma hefur það verið svo gersamlega mislukkað að ég varð þess ekki einu sinni var.
Morðhótanir sem málaðar eru á borða sem gengið er með í skrúðgöngu niður Laugaveginn án þess að borðaberar reyni að hylja andlit sín eru auðvitað engar morðhótanir heldur slagorð. Slagorð þurfa ekki alltaf að vera vel til fundin og slagorðið "Drekkjum Valgerði, ekki Íslandi" er að mínu mati handan velsæmismarka og málstaðnum ekki til framdráttar. Ennfremur er það vanhugsað því það gefur virkjunarsinnunum höggstað á okkur, þeir víkja sér undan að ræða málefnið til að ræða slagorðið – eins og raun ber vitni.
En þar sem æska og eldmóður fara saman er ekki alltaf pláss fyrir etíkettur.
Hins vegar þarf alveg gríðarlega vænisýki og veruleikabrenglun til að að taka þetta slagorð bókstaflega og halda að lífi iðnaðarráðherra sé í raun ógnað. Slíkt fólk er búið að loka sig af inni í sínum eigin heimi ásamt gagnrýnislausum jábræðrum sínum of lengi. Umhverssinnar eru í huga þess orðnir siðlausir terroristar sem ekki víla fyrir sér mannrán og morð frekar en Al Kaída. Andri Snær og Osama Bin Laden eru af sama sauðahúsi í hausnum á því. Hernaðaraæfingar miða ekki við árás fjandsamlegs ríkis heldur hryðjuverkaárás af hálfu Hörpu Arnardóttur, leikkonu, og félaga hennar. Þarf frekari vitnanna við?
Finnist Valgerður Sverrisdóttir eftir að hafa verið drekkt í baðkarinu heima hjá sér má bóka að síðasta fólkið sem líklegt er að verið hafi þar að verki er fólkið sem labbaði með orðin "Drekkjum Valgerði" á borða niður Laugaveginn skömmu áður. Mun líklegra er að morðinginn sé einhver sem sér sér hag í að freima þá aðila fyrir glæpinn. Það þarf ekki að hafa lesið margar glæpasögur eða horft á marga CSI þætti til að sjá þetta í hendi sér.
Morðingjar auglýsa nefnilega yfirleitt ekki fyrirætlanir sínar, það erfiðar þeim að ljúka verkinu. Þannig að í raun ætti maður að fagna því að fá morðhótun. Þar með er einum einstaklingi færra sem hætta er á að drepi mann.