miðvikudagur, apríl 05, 2006

Í hund og kött

Listar yfir jákvæð og neikvæð orð, orðtök og orðasambönd í íslenskri tungu sem tengjast hundum og köttum. "Í hund og kött" tengist báðum skepnum og telst þess vegna ekki með, sömuleiðis "alla sína hunds og kattar tíð". Hins vegar er athyglisvert að "í hund og kött" er núleg mynd orðtaksins "í hund og hrafn", sem í raun ætti að fría köttinn ábyrgð. Þessir listar eru auðvitað ekki tæmandi, ég sleppti öllu eldfornu, úreltu og útdauðu (og því sem ég gleymdi). Þeir ættu þó að gefa einhverja hugmynd um ímynd hunda annars vegar og katta hins vegar í málkennd og tungutaki þjóðarinnar og það hvor skepnan sé dulvitað hærra skrifuð hjá henni.

kettir – neikvætt:
Að fara eins og köttur í kring um heitan graut (að geta ekki komið sér að efninu)
Að fara í jólaköttinn (að fá engin föt á jólunum, jafnvel enga gjöf)
Að kaupa köttinn í sekknum (að vera snuðaður í viðskipum)
Að vera algjör kisa (að geta ekki borðað heitan mat)
Ekki upp í nös á ketti (naumt skammtað)
Kattaþvottur (lélegur þvottur, ósannfærandi hreinsun af áburði)
Köttur í bóli bjarnar (mannaskipti til hins verra)

kettir – jákvætt:
Kattarauga (glitauga, mikilvægt öryggistæki)
Kattliðugur (mjög liðugur)
Kattþrifinn (mjög þrifinn)

hundar – neikvætt:
Að fara í hundana (að fara illa, vera sóað)
Að setja upp hundshaus (að fara í fýlu)
Að taka einhverju eins og hverju öðru hundsbiti (verða fyrir tjóni)
Að vera eins og snúið roð í hund (að vera önugur, illur viðureignar)
Á hundavaði (illa og flausturslega)
Eins og halaklipptur hundur (mjög sneyptur)
Éttu hund! (hundur kemur hér í stað skíts)
Hundalíf (líf við bág kjör)
Hundalógík (ómerkileg röksemdafærsla)
Hundasund (ómerkilegur sundstíll)
Hundingi (skammaryrði)
Hundheiðinn (trúlaus)
Hundleiðinlegur (afar leiðinlegur)
Hundseyra (slæm meðferð á bók (ekki mjög þekkt))
Hundtryggur (gagnrýnislaus tryggð sem krefst algers undirlægjuháttar)
Hundur (lágt spil)
Hundur (um mann)
Rauðir hundar (smitandi veirusjúkdómur)

hundar – jákvætt:
Hundaheppni (fádæma lán)

úrslit:
Kettir (-7 +3 = -4)
Hundar (-18 +1 = -17)

Kettir bursta hunda!

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Sjá, helvíti er mitt á meðal yðar!


Séra Flóki Kristinsson er ekki allra frekar en aðrir sem leggja meiri áherslu á að segja það sem fólk hefur gott af því að heyra heldur en það sem fólki finnst gott að heyra. Nú í vikunni var greint frá því, í einhverju sem ég alltjent skildi sem mikinn hneykslunartón, að hann hefði "hótað" börnum með helvítisvist.
Einhverjum finnst tal um helvíti eflaust dálítið til miðaldanna, heimsmyndar þar sem himnaríki er fyrir ofan okkur með allt dána og góða fólkið en helvíti í iðrum jarðar þar sem vonda fólkið tekur út sín laun eftir dauðann með hvers konar hundruðustuogelleftu meðferð sem brýtur í bága við alla mannréttindasáttmála. Í dag er heimsmynd okkar hins vegar orðin svo húmanísk og líbó að orðið helvíti skapar bara hugrenningatengsl við forpokun og forneskju. Andskotinn er ekki lengur til, hann gafst upp á rólunum um svipað leyti og Grýla, en það má samt halda áfram að tala um Jesú og jólasveinana af því að þeir eru svo sætir og krúttlegir að engum finnst svoleiðis hjal óþægilegt.
En slík heimsmynd er í raun ekkert nútímaleg. Þegar að er gáð er hún aðeins fátæklegt afbrigði af heimsmynd miðalda þar sem allt þetta ljóta hefur verið ritskoðað burt, þar sem við höldum í hugmyndir okkar um himnaríki en höfnum andstæðunni – helvíti. Nú er það þannig að merking þrífst á andstæðu sinni. Hver vill koma inn í hlýjuna ef kuldinn er ekki til? Hvern langar í birtu þar sem myrkrið er bara ímyndun? Hvern þyrstir í sannleika þar sem ekkert er ósatt? Himnaríki án helvítis er þarafleiðandi merkingarleysa. Guðs ríki getur einfaldlega ekki verið til ef skorturinn á því er ekki til líka.
Við losnum ekki úr viðjum miðaldamyrkursins fyrr en við hættum að nota orðin himnaríki og helvíti eins og þau hafi einhverja landafræðilega merkingu. Himnaríki er ekki uppi í ósonlaginu og helvíti er ekki einhvers staðar ofan í möttli jarðar. Þetta eru ekki örnefni. Jesús sagði að Guðs ríki væri mitt á meðal okkar. Þetta skil ég ekki þannig að það hafi verið mitt á meðal þessara tiltölulega fáu hræðna sem hann ávarpaði fyrir botni Miðjarðarhafsins fyrir hartnær tvöþúsund árum og sé því liðið undir lok á sama hátt og Rómarveldi, heldur er það mitt á meðal þeirra manna sem leitast í einlægni við að lifa samkvæmt siðaboðskap hans. Himnaríki er ekki staður heldur ástand. Þá hlýtur að mega nota orðið helvíti yfir það ástand sem er algjör skortur á himnaríki.
Nú er ég mjög andvígur því að fólki sé "hótað". En ég er líka á móti því að boðskapur Jesú sé útvatnaður og pakkað inn í bómull, hann sé útlagður þannig allir geti orðið áskrifendur að himnaríkisvist með því að dúkka upp í kufli í kirkjunni þrettán ára og þurfi ekkert að hafa fyrir því meir, þeir geti hagað sér eins og besefar allt til dauða án þess að hafa neinu að tapa því helvíti sé bara lygasaga. Sú heimsmynd er auðvitað miklu þægilegri og meira í stíl við kröfur nútímamannsins: "Nú geturðu loksins uppskorið án þess að sá!" En lífið virkar bara ekki þannig. Gjörðir hafa afleiðingar. Sá sem hagar sér eins og besefi gerir líf allra í kring um sig að helvíti og fyrir rest sitt eigið líka.
Það er engin hótun í því fólgin að segja fólki að því geti orðið kalt ef það kemur ekki inn í hlýjuna. Það er engin hótun í því fólgin að segja fólki að það sjái ekki til ef það kveikir ekki ljós. Það er engin hótun í því fólgin að segja fólki að sennilega hafi það á röngu að standa ef það giskar bara út í bláinn frekar en að afla sér heimilda, að það lifi líklega í lygi ef það kynnir sér ekki sannleikann. Það er ekki heldur nein hótun í því fólgin að benda okkur á að ef við stjórnumst af eigingirni, óheiðarleika, græðgi og óhófi er Guðs ríki ekki mitt á meðal okkar heldur helvíti og það þarf ekki að gera annað en að kveikja á sjónvarpinu til að sjá að það er mikill hagvöxtur í helvíti um þessar mundir og að allar fréttir af andláti andskotans eru stórlega ýktar.
Ég tek ofan fyrir hverjum þeim sem hefur hugrekki til að segja fólki þetta. Fólk hefur gott af því að heyra þetta, einmitt af því að því finnst ekki gott að heyra það. Fólk má hneykslast á því eins og því sýnist að prestar skuli voga sér að prédika yfir því, en þegar það gerir það fæ ég það á tilfinninguna að það hafi ekki kynnt sér starfslýsingu þeirra alveg nógu vel.