Mig langar að biðja lesendur mína afsökunar á því að vegna anna hef ég ekkert mátt vera að því að blogga undanfarna viku. Hvernig skyldi Stefán Pálsson fara að þessu? Ætli hann sé með mann í vinnu hjá sér? Til að minna á að ég er hvorki hættur né (heila)dauður ákvað ég að deila með ykkur ljóði sem ég orti í síðustu viku, svona frekar en að setja ekki neitt hingað inn dögum og vikum saman.
Frægi karl vikunnar
Ég veit þetta eitt: Að þú eldist, svo deyrðu.
Á endanum hverfurðu sýnum
og sést ekki framar í Séðu og heyrðu
í samkvæmisfötunum þínum.
Þú heldur að þá beygi alþýðan af
af því að þú sért svo dáður
og síðan farist himinn og haf,
en heimurinn snýst eins og áður.
Og þú verður gleymdur Pétri og Páli
og pöplinum horfinn úr minni
og allt það sem skipti þig einhverju máli
mun eyðast í gröfinni þinni.
þriðjudagur, nóvember 29, 2005
fimmtudagur, nóvember 17, 2005
... eins og ofn hlýju!
Merkilegt hvernig hægt er að horfa langtímum saman á ósjálfbjarga kettlinga iða eins og orma og sjúga móður sína. Karfan hennar Kisu er komin í staðinn fyrir sjónvarpstæki á heimilinu. Svo gerir hún annað. Hún miðlar friðsemd og ró um stofuna eins og ofn hlýju og fyllir heimilið einhverju jafnvægi sem er erfitt að lýsa með orðum. Einhverri "svona á lífið að vera" tilfinningu. Læða opnaði augun í nótt en bræður hennar eru enn staurblindir. Set ofurkrúttlegar myndir af þeim á netið um leið og þau hætta að líta úr eins og rottuungar og verða sætir hnoðrar með stór, blá augu. Heimili óskast fyrir jól.
mánudagur, nóvember 14, 2005
Athugasemdir velkomnar
Þakka viðbrögðin. Nú hef ég farið að ráðum Þorbjarnar og opnað fyrir athugasemdir frá öllum eins og mér skildist á athugasemd hans að ætti að bera sig að við það. Ég vona að ég hafi farið rétt að. Látið mig endilega vita ef ég hef klúðrað þessu. Og segið ykkar álit.
sunnudagur, nóvember 13, 2005
Opið bréf til biturra vinstrimanna
Ég vil taka öllum mönnum vara við að blogga. Það skyldi enginn gera af léttúð og ábyrgðarleysi. Orð sem blogguð eru verða ekki aftur tekin, þau eru ekki eins og skraf í góðra vina hópi, orð sem fara út í bláinn, höfða til ákveðinnar stemningar og skiljast í ljósi þess hvernig þau eru sögð og að hverjum viðstöddum. Það sem einu sinni er bloggað er komið á veraldarvefinn, fyrir sjónir allra og verður ekki aftur tekið. Blogg skilst í ljósi þeirrar stemningar sem hver netverji er í þegar hann sér það og er sagt eins hver og einn kýs að lesa það. Þannig geta vinsamlegar orðahnippingar og skens skilist sem sárindi og gremja ef maður gætir sín ekki. Fyrir rest getur maður lent í bullandi vörn á sinni eigin heimasíðu og nánast þurft að réttlæta veru sína í sínu eigin partíi.
Þannig var með mína síðustu bloggfærslu. Hún hefur vakið viðbrögð sem ég sé mig eiginlega knúinn til að bregðast við. Mér finnst einhver sögufölsunarkeimur af því að leiðrétta eða ritskoða færslur eftir á þannig að ég læt það ógert þótt ég, eftir á að hyggja, hefði kannski átt að orða ýmislegt þar öðruvísi en ég gerði enda sumt af því sem þar var sagt og linkað að mínu mati verið misskilið, rangtúlkað og útlagt á versta veg.
Sjálfur er ég vinstrimaður og hef fengið mig alveg gjörsamlega fullsaddann af þeim viðbrögðum hægrimanna við málefnalegri gagnrýni okkar að við séum bara bitrir og fúlir og á móti öllu. Ég nenni ekki einu sinni að fara nánar út í þá sálma og ætla mér sko ekki að bætast í hóp þeirra rökþrota asna sem afgreiða alla sem þeim eru ekki sammála sem "bitra vinstrimenn".
Hollywood Íslands
Stundum finnst mér þó að okkur sjáist ekki fyrir í gagnrýni okkar á íhaldið, allt í fari þess fer í taugarnar á okkur og þannig getum við freistast til að finna að ýmsu í fari þess sem við álítum sjálfsagt og eðlilegt í fari okkar sjálfra. Þannig finnst mér til dæmis skondið þegar fólk, sem ætti að vita það af eigin raun (hér stilli ég mig um að linka á nokkra manneskju) hvað það er lítið glamúröst við það að vera frægur á Íslandi, talar um pólitíska andstæðinga sína sem Hollywood-frambjóðendur: "Fræga fólkið styður Gísla Martein!" Það er jafnmálefnalegt og að kalla þá bitra.
Staðreyndin er einfaldlega sú að Hollywood Íslands er hvergi til nema í slúðurblöðum og hugarheimi þeirra sem af einhverjum ástæðum telja sig ekki tilheyra þeim hópi, jafnvel þótt þeir ættu þegar að er gáð að uppfylla öll inntökuskilyrðin. Þannig virðist vera eitthvað Hollywoodlegra að vera Sjálfstæðismaður og stjórna spjallþætti í Sjónvarpinu en að vera Vinstrigrænn og stjórna umræðuþætti á Skjá 1. Eða tilheyrir maður kannski ekki Hollywood fyrr en einkalíf manns prýðir forsíður Séð og heyrt og Hér og nú? ... Úps.
Það gerir engan að verri frambjóðanda að hafa verið í sjónvarpi (og þarafleiðandi viðfangsefni slúðurblaða). Þvert á móti má færa rök fyrir því að það geri menn á ýmsan hátt hæfari. Almannatengsl eru sífellt stærri þáttur í starfi stjórnmálamanna í nútímasamfélagi og haldgóð reynsla og þekking á fjölmiðlum hlýtur því að vera kostur. Auðvitað vega þó aðrir kostir þyngra (s. s. heiðarleiki, gott hjartalag, réttlætiskennd o. s. frv.).
Það er ekki heldur neitt óeðlilegt við það að frambjóðendur fái þá sem þekkja þá og treysta og hafa unnið með þeim til að lýsa yfir stuðningi við sig. Þá er gott að sem flestir viti hverjir þessir menn eru. Auðvitað höfðar það til fleiri að margverðlaunaður leikstjóri og menningarspútnikk, svo dæmi sé tekið, lýsi yfir stuðningi heldur en að lyftaramaður hjá Eimskip geri það. Ekki af því að menningarvitinn sé óhjákvæmilega betri manneskja eða hæfari í sínu starfi heldur af því að fólki er eðlislægt að taka meira mark á þeim sem það veit að eru að gera góða hluti heldur en þeim sem það veit ekkert um – jafnvel þótt þeir geti verið að gera alveg jafngóða hluti í sínu starfi, flutningafyrirtækjum er til dæmis gríðarlegur akkur í góðum lyftaramönnum.
Um fokkíng breik
Einnig hefur orðasambandið "fokkíng breik" farið fyrir brjóstið á vinum mínum. Kolbeinn Proppé hittir naglann á höfuðið á heimasíðu sinni þegar hann segir: "Það er leitun að íslenskum stjórnmálamanni sem hefur verið gefið jafnmikið fokkíng breik og Gísla Marteini Baldurssyni. Á sama tíma og vinstri menn voru ekki ráðnir á fréttastofu sjónvarpsins vegna tengsla sinna við vinstri flokka (sumir höfðu reyndar bara tengsl við fólk í öðrum flokkum), fékk Gísli Marteinn að valsa þar um að eigin vild. Fyrst á fréttastofunni, síðan í Dagsljósinu og loks eigin þátt á laugardagskvöldum. Yfir því er í sjálfu sér ekkert að kvarta, Gísli er vinsæll sjónvarpsmaður og laginn við margt sem fylgir því starfi, þó hann sé ekki allra. Það hefur hins vegar verið morgunljóst í mörg ár að Gísli Marteinn ætlaði sér frama í pólitík. Síðasta kjörtímabil hefur hann meira eða minna starfað sem borgarfulltrúi og vel var ljóst að hann mundi ætla sér meira á þeim vettvangi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur m.ö.o. hlaðið undir Gísla Martein, gert hann að sjónvarpsstjörnu sem lið í því ferli að gera hann að pólitískum leiðtoga."
Ég get tekið undir hvert orð. En til þess ber að líta að þessi viðleitni íhaldsins skilaði þeim ekki leiðtoga heldur þriðjasætiskandídat sem ætti að gleðja allt fallega innrætt fólk og skoðast sem lítill sigur.
Til hins ber þó mun fremur að líta að við erum að tala um Sjálfstæðisflokkinn. Við hverju bjuggust þið? Sjálfstæðismanni með hreint siðferðisvottorð? Við ykkur sem væntið slíks get ég aðeins sagt: Vaknið og finnið kaffiilminn! Og látið mig endilega vita þegar þið finnið vammlausan Sjálfstæðismann því hann á skilið að fá Thule!
Þetta er nákvæmlega það sem ég var að segja. Gísli Marteinn er bæði betri og verri en gengur og gerist um Sjálfstæðismenn og þarafleiðandi hvorki betri né verri þegar upp er staðið. Þegar ég tala um að gefa honum "fokking breik" á ég bara við að við ættum að hætta að einblína svona á persónu hans, hve mjög sem hún annars kann að fara undir skinnið á okkur, af því að þessi fókus á hana beinir sjónum okkar frá hinum raunverulega óvini – sem er ekki Gísli Marteinn Baldursson heldur alheimskapítalisminn!
P. S.
Ég er slíkur netskussi að ég kann ekkert á uppstillingu bloggsíðna. Getur einhver útskýrt það fyrir mér hvernig ég á að opna fyrir athugasemdir frá öðrum en þeim sem sjálfir blogga á blogspot?
miðvikudagur, nóvember 09, 2005
Lifi Gísli Marteinn!
Þessa fyrirsögn á ekki að taka of bókstaflega. Ég komst nefnilega að því að bloggið mitt hefur verið "rassað" og valdi þess vegna fyrirsögn sem myndi gera fólk forvitið og vilja lesa það sem ég hef að segja um Gísla Martein.
Það fer nefnilega svolítið í taugarnar á mér hvað Gísli Marteinn fer upp til hópa í taugarnar á pólitískum skoðanasystkinum mínum. Ég er ósammála, mér finnst Gísli Marteinn hvorki betri né verri en gengur og gerist um fólk, svona á heildina litið. Að vísu verð ég að viðurkenna að það er svolítið sérstakt með Gísla Martein að mér finnst hann ýmist betri eða verri en gengur og gerist um fólk, hann hefur kosti og galla.
Í fyrsta lagi hef ég ekkert álit á Gísla Marteini sem stjórnmálamanni. Ég er ósammála honum um nánast allt. Reyndar sýna skoðanakannanir að ég er ósammála 80 – 85% þjóðarinnar í pólitík, þannig að hugsanlega er það ekki að marka. Að ganga í gegn um lífið í hnút af gremju í garð allra sem deila ekki stjórnmálaskoðunum manns er ekki einasta heimskulegt – fyrir mig er það hreinlega lífshættulegt (ekki bara út af því hvað þeir eru margir). Auk þess hef ég ekki orðið var við að Kjartan Magnússon, svo dæmi sé tekið, valdi jafnmiklum taugatitringi meðal vinstrimanna og Gísli Marteinn. Kannski veldur því einhver munur á stjórnmálaskoðunum þeirra þótt ég hafi ekki komið auga á hann. Mig grunar að Kjartan Magnússon fari ekki eins mikið undir skinnið á mínu fólki og Gísli Marteinn vegna þess að hann er ekki sjónvarpsmaður.
Í öðru lagi finnst mér Gísli Marteinn ekki góður sjónvarpsmaður. Það er Hemmi Gunn, svo dæmi sé tekið, ekki heldur að mínu mati. Ég verð hins vegar ekki var við að Hemmi Gunn fari eins ofboðslega í taugarnar á fólki fyrir það að vera sjónvarpi og Gísli Marteinn, þótt Gísli sé sem sjónvarpsmaður skilgetið afkvæmi Hemma. Líklega geldur Gísli þess að vera í pólítik.
Það er með öðrum orðum í lagi að vera Sjálfstæðismaður ef maður er ekki leiðinlegur sjónvarpsmaður og það er í lagi að vera leiðinlegur sjónvarpsmaður ef maður er ekki Sjálfstæðismaður. Er ég sá eini sem finnst þetta ósanngjarnt?
Persónleg samskipti mín við Gísla Marteini hafa öll verið hin þægilegustu. Það sama gildir um Hemma Gunn. Þeir eru báðir afbragðsmenn við viðkynningu. Ég reyni að dæma fólk ekki af því sem ég heyri heldur af því sem ég veit af eigin reynslu.
Þegar við Jakob Bjarnar stjórnuðum útvarpsþættinum Górillu á sínum tíma hringdi stundum í okkur strákur sem var sundlaugavörður og gantaðist í okkur. Hann átti það til að æpa í hátalarakerfið eitthvað á borð við: "Hættið að hanga í snúrunni!" hlustendum Aðalstöðvarinnar til afþreyingar, jafnvel þótt enginn væri að hanga í snúrunni. Smám saman fórum við Jakob að hlakka til að heyra í sundlaugaverðinum, vini okkar, því það var einatt uppskrift að skemmtilegu og spontant spjalli fullu af glettni. Þessi ungi piltur var Gísli Marteinn.
Í samskiptum mínum við Gísla Martein hef ég aldrei fundið fyrir kala frá honum eða fyrirvara gagnvart mér þótt honum og restinni af íslensku þjóðinni megi vera fullljóst að fyrr myndi ég naga af mér hægri höndina en að kjósa stjórnmálaflokkinn sem hann tilheyrir. Það er meira en ég get sagt um marga Sjálfstæðismenn. Hví skyldi ég þá koma öðruvísi fram við Gísla? Víst á hann það til að virka fleðulegur og tilgerðarlegur, en samkvæmt minni reynslu er það ekki leikaraskapur. Gísli er einfaldlega "næs gæi" að upplagi, jafnvel einum of "næs" til að "næsheitin" séu tekin trúanleg. Í huga fólks, einkum biturra vinstrimanna, hlýtur svona ofboðslega "næs" náungi að vera að þykjast.
Kæru bræður og systur. Slakiði aðeins á. Gefið drengnum fokkíng breik! Ég er ekki að segja að hann sé eitthvað yfirmáta merkilegur pappír, en af hverju ætti manni að vera eitthvað meira í nöp við Gísla Martein en aðra sem ekki eru neitt merkilegri pappírar en hann?
Þegar upp er staðið er Gísli Marteinn bara strákur sem er að reyna að lifa lífi sínu eins og hann kann best og gera eitthvað úr því. Sé tekið tillit til borðleggjandi staðreynda (tekna, hjúskaparstöðu, sjónvarpsáhorfs, niðurstöðu prófkjörs) verður ekki hjá því litið að honum hefur bara tekist allvel upp. Og því meir sem hann fer í taugarnar á vinstrimönnum, þeim mun betur hefur honum tekist upp.
Sem er enn ein ástæða þess að gefa drengnum fokkíng breik!
Það fer nefnilega svolítið í taugarnar á mér hvað Gísli Marteinn fer upp til hópa í taugarnar á pólitískum skoðanasystkinum mínum. Ég er ósammála, mér finnst Gísli Marteinn hvorki betri né verri en gengur og gerist um fólk, svona á heildina litið. Að vísu verð ég að viðurkenna að það er svolítið sérstakt með Gísla Martein að mér finnst hann ýmist betri eða verri en gengur og gerist um fólk, hann hefur kosti og galla.
Í fyrsta lagi hef ég ekkert álit á Gísla Marteini sem stjórnmálamanni. Ég er ósammála honum um nánast allt. Reyndar sýna skoðanakannanir að ég er ósammála 80 – 85% þjóðarinnar í pólitík, þannig að hugsanlega er það ekki að marka. Að ganga í gegn um lífið í hnút af gremju í garð allra sem deila ekki stjórnmálaskoðunum manns er ekki einasta heimskulegt – fyrir mig er það hreinlega lífshættulegt (ekki bara út af því hvað þeir eru margir). Auk þess hef ég ekki orðið var við að Kjartan Magnússon, svo dæmi sé tekið, valdi jafnmiklum taugatitringi meðal vinstrimanna og Gísli Marteinn. Kannski veldur því einhver munur á stjórnmálaskoðunum þeirra þótt ég hafi ekki komið auga á hann. Mig grunar að Kjartan Magnússon fari ekki eins mikið undir skinnið á mínu fólki og Gísli Marteinn vegna þess að hann er ekki sjónvarpsmaður.
Í öðru lagi finnst mér Gísli Marteinn ekki góður sjónvarpsmaður. Það er Hemmi Gunn, svo dæmi sé tekið, ekki heldur að mínu mati. Ég verð hins vegar ekki var við að Hemmi Gunn fari eins ofboðslega í taugarnar á fólki fyrir það að vera sjónvarpi og Gísli Marteinn, þótt Gísli sé sem sjónvarpsmaður skilgetið afkvæmi Hemma. Líklega geldur Gísli þess að vera í pólítik.
Það er með öðrum orðum í lagi að vera Sjálfstæðismaður ef maður er ekki leiðinlegur sjónvarpsmaður og það er í lagi að vera leiðinlegur sjónvarpsmaður ef maður er ekki Sjálfstæðismaður. Er ég sá eini sem finnst þetta ósanngjarnt?
Persónleg samskipti mín við Gísla Marteini hafa öll verið hin þægilegustu. Það sama gildir um Hemma Gunn. Þeir eru báðir afbragðsmenn við viðkynningu. Ég reyni að dæma fólk ekki af því sem ég heyri heldur af því sem ég veit af eigin reynslu.
Þegar við Jakob Bjarnar stjórnuðum útvarpsþættinum Górillu á sínum tíma hringdi stundum í okkur strákur sem var sundlaugavörður og gantaðist í okkur. Hann átti það til að æpa í hátalarakerfið eitthvað á borð við: "Hættið að hanga í snúrunni!" hlustendum Aðalstöðvarinnar til afþreyingar, jafnvel þótt enginn væri að hanga í snúrunni. Smám saman fórum við Jakob að hlakka til að heyra í sundlaugaverðinum, vini okkar, því það var einatt uppskrift að skemmtilegu og spontant spjalli fullu af glettni. Þessi ungi piltur var Gísli Marteinn.
Í samskiptum mínum við Gísla Martein hef ég aldrei fundið fyrir kala frá honum eða fyrirvara gagnvart mér þótt honum og restinni af íslensku þjóðinni megi vera fullljóst að fyrr myndi ég naga af mér hægri höndina en að kjósa stjórnmálaflokkinn sem hann tilheyrir. Það er meira en ég get sagt um marga Sjálfstæðismenn. Hví skyldi ég þá koma öðruvísi fram við Gísla? Víst á hann það til að virka fleðulegur og tilgerðarlegur, en samkvæmt minni reynslu er það ekki leikaraskapur. Gísli er einfaldlega "næs gæi" að upplagi, jafnvel einum of "næs" til að "næsheitin" séu tekin trúanleg. Í huga fólks, einkum biturra vinstrimanna, hlýtur svona ofboðslega "næs" náungi að vera að þykjast.
Kæru bræður og systur. Slakiði aðeins á. Gefið drengnum fokkíng breik! Ég er ekki að segja að hann sé eitthvað yfirmáta merkilegur pappír, en af hverju ætti manni að vera eitthvað meira í nöp við Gísla Martein en aðra sem ekki eru neitt merkilegri pappírar en hann?
Þegar upp er staðið er Gísli Marteinn bara strákur sem er að reyna að lifa lífi sínu eins og hann kann best og gera eitthvað úr því. Sé tekið tillit til borðleggjandi staðreynda (tekna, hjúskaparstöðu, sjónvarpsáhorfs, niðurstöðu prófkjörs) verður ekki hjá því litið að honum hefur bara tekist allvel upp. Og því meir sem hann fer í taugarnar á vinstrimönnum, þeim mun betur hefur honum tekist upp.
Sem er enn ein ástæða þess að gefa drengnum fokkíng breik!
þriðjudagur, nóvember 08, 2005
Parsifal schmarsifal
Á sunnudaginn sýndi Sjónvarpið upptöku af óperunni Parsifal. Mér fannst þetta allt saman mjög sorglegt. Þarna var flott leikmynd, flottir búningar, flottir söngvarar, hljómsveit með strengjum og lúðrum og öllu tilbehöri, meira að segja japönskum stjórnanda með fáránlegt hár – og svo var útkoman þessi ævintýralegu leiðindi. Þótt ég ætti að vinna mér það til lífs gæti ég ekki rifjað upp eina sönglínu úr þessum ósköpum í huganum. Af hverju í ósköpunum datt engum í hug að segja einhvern tímann í miðjum klíðum: "Hei, krakkar, fyrst við erum búin að hafa svona ofboðslega mikið fyrir þessu, af hverju gerum við þá ekki frekar eitthvað skemmtilegt?"
Sjálfstæðisflokkurinn schmjálfstæðisflokkurinn
Mér finnst mjög ánægjulegt að reykvískir Sjálfstæðismenn skyldu hafa þá ógæfu til að bera að setja gamla skarfinn í fyrsta sætið frekar en yngri mann sem hefði borið með sér ferskan andblæ og gert listann pínulítið aðlaðandi og spennandi fyrir þá sem er skítsama um málefnin og kjósa listann sem "lúkkar" best. (Auðvitað eru þeir tveir alveg nákvæmlega sami gambrinn, bara í misgömlum belgjum.) Jú, það er fréttnæmt hvernig þetta prófkjör fór, en fyrr má nú samt rota en dauðrota. Þetta voru ekki kosningar heldur prófkjör eins ákveðins flokks. Ég á við að það er góðra gjalda vert að fylgjast með þessu og greina frá niðurstöðum eftir því sem þær liggja fyrir þegar fréttir eru sendar út á annað borð. En þeir sem vildu vera vakandi og sofandi yfir talingunni notuðu til þess aðra miðla en kvikmyndirnar í Sjónvarpinu á laugardagskvöldið. Á tíu mínútna fresti var nýjustu tölum rúllað yfir skjáinn. Það verður erfitt fyrir Sjónvarpið að segja frá niðurröðun annarra flokka á sína lista án þess að míga yfir allar hlutleysiskröfurnar sem til þess eru gerðar.
Nýju fjölskyldumeðlimirnir
Kettlingarnir hennar Kisu hafa verið kyngreindir og gefin nöfn til bráðabirgða, svona til þess að geta talað um þá öðruvísi en sem "kettlingana" eða "þennan gráa" svo dæmi sé tekið. Reyndust þetta vera þrjú fress og ein læða. Eftir mikla umræðu og lýðræðislegt ákvarðanatökuferli með aðkomu allra mennskra fjölskyldumeðlima fengu fressin nöfnin Móri (grár), Gustur (grár og hvítur) og Zorró (svartur), en læðan heitir Læða (svört og hvít). Ég ítreka að jólagjöfin í ár (lítill, kassavanur hnoðri með stór, blá augu og rauðan borða um hálsinn) verður tilbúin til afhendingar á aðfangadag. Áhugasamir setji sig í samband við mig í gegn um þessa síðu eða á netfangið mitt.
Sjálfstæðisflokkurinn schmjálfstæðisflokkurinn
Mér finnst mjög ánægjulegt að reykvískir Sjálfstæðismenn skyldu hafa þá ógæfu til að bera að setja gamla skarfinn í fyrsta sætið frekar en yngri mann sem hefði borið með sér ferskan andblæ og gert listann pínulítið aðlaðandi og spennandi fyrir þá sem er skítsama um málefnin og kjósa listann sem "lúkkar" best. (Auðvitað eru þeir tveir alveg nákvæmlega sami gambrinn, bara í misgömlum belgjum.) Jú, það er fréttnæmt hvernig þetta prófkjör fór, en fyrr má nú samt rota en dauðrota. Þetta voru ekki kosningar heldur prófkjör eins ákveðins flokks. Ég á við að það er góðra gjalda vert að fylgjast með þessu og greina frá niðurstöðum eftir því sem þær liggja fyrir þegar fréttir eru sendar út á annað borð. En þeir sem vildu vera vakandi og sofandi yfir talingunni notuðu til þess aðra miðla en kvikmyndirnar í Sjónvarpinu á laugardagskvöldið. Á tíu mínútna fresti var nýjustu tölum rúllað yfir skjáinn. Það verður erfitt fyrir Sjónvarpið að segja frá niðurröðun annarra flokka á sína lista án þess að míga yfir allar hlutleysiskröfurnar sem til þess eru gerðar.
Nýju fjölskyldumeðlimirnir
Kettlingarnir hennar Kisu hafa verið kyngreindir og gefin nöfn til bráðabirgða, svona til þess að geta talað um þá öðruvísi en sem "kettlingana" eða "þennan gráa" svo dæmi sé tekið. Reyndust þetta vera þrjú fress og ein læða. Eftir mikla umræðu og lýðræðislegt ákvarðanatökuferli með aðkomu allra mennskra fjölskyldumeðlima fengu fressin nöfnin Móri (grár), Gustur (grár og hvítur) og Zorró (svartur), en læðan heitir Læða (svört og hvít). Ég ítreka að jólagjöfin í ár (lítill, kassavanur hnoðri með stór, blá augu og rauðan borða um hálsinn) verður tilbúin til afhendingar á aðfangadag. Áhugasamir setji sig í samband við mig í gegn um þessa síðu eða á netfangið mitt.
fimmtudagur, nóvember 03, 2005
Fjölgun á heimilinu
Þá eru það fréttir af heimilislífinu. Í gærkvöld varð fjölgun á heimilinu. Hún Kisa varð þá léttari og gaut fjórum myndar- kettlingum, enda tímabært – hún hefði sprungið í loft upp ef þetta hefði dregist mikið lengur, hún var orðin svo ofboðslega, ofboðslega ólétt (ég veit að læður verða ekki óléttar heldur kettlingafullar, en hún var orðin svo geigvænlega kaskettlingafull að mér finnst "ólétt" eiginlega lýsa því betur). Faðirinn er hafnfirskur eðalfressköttur sem kom hingað í heimsókn fyrir nokkrum vikum, öskugrár og glæsilegur, kelinn og blíður, Jan Olaf að nafni. Ég veit að þetta er hvorki hafnfirskt né glæsilegt nafn, en kötturinn er glæsilegur þótt smekkur eigenda hans á kattanöfnum sé það ekki. Lundarfar og líkamsbygging katta erfist hins vegar, þannig að hér eru á ferðinni fjórir eðalkettir undan tveim fyrirtaks heimilisköttum sem svo heppilega vill til að verða akkúrat orðinir sjö vikna gamlir og kassavanir um jólin og farnir að leita sér að nýju heimili.
Kettlingur 1: Grár, einlitur (lifandi eftirmynd föðurins).
Kettlingur 2: Grár og hvítur (hvítur á kvið, loppum og trýni með samhverfa (symmitríska) blesu upp á hvirfil).
Kettlingur 3: Svartur, einlitur.
Kettlingur 4: Svartur og hvítur (hvítur á kvið, loppum og trýni með vinstrisinnaða blesu upp á enni (ósamhverfur í andliti), svartur blettur á höku).
Þannig að ef einhvern langar að deila heimili með fyrsta flokks ketti og taka við honum um jólin þá er byrjað að taka við pöntunum hér á þessari síðu. Ég á eftir að kyngreina þá, það er erfitt þegar þeir eru svona nýfæddir, en ég skal gera grein fyrir kyni kettlinganna um leið og trúverðugar upplýsingar um það liggja fyrir. Ég á von á sveitastelpu sem ég þekki mjög vel í heimsókn á laugardaginn til að skoða þá og kyngreina, en hún er sérfræðingur í svoleiðis.
Dagbókarfærsla
Nú er komin rúm vika síðan ég setti síðast eitthvað inn á þessa síðu. Ég stefni í að verða einn af þessum lélegu bloggurum sem dúkkar upp hálfsmánaðarlega á síðunni sinni til þess eins að segja að ekkert merkilegt hafi gerst í lífi hans síðan síðast. Reyndar hafði ég ekki hugsað mér að þessi síða ætti að vera eitthvað yfirlit yfir það hvað ég aðhefst frá degi til dags heldur vettvangur til að deila pælingum mínum og hugðarefnum með heimsbyggðinni. Helst áttu þetta að vera uppbyggilegar pælingar á jákvæðum nótum (ég er nefnilega að leggja mig í líma við að vera jákvæður og uppbyggilegur þessa dagana) en svo uppgötva ég mér til mikillar skelfingar þegar ég les það sem ég hef sett hingað inn nýlega og eins þegar mér dettur eitthvað í hug til að fabúlera um hérna að pælingar mínar eru alls ekki eins jákvæðar og uppbyggilegar og mér finnst að þær ættu að vera. Í gær fór ég til dæmis á foreldrafund í ónefndum grunnskóla og hitti þar tvo kennara eins afkvæma minna sem báðir voru þágufallssjúkir ("... þegar þeim langar að gera eitthvað ..."). Um þetta ætlaði ég að blogga í löngu máli og leggja út frá því þegar ég fór að kaupa ísskáp hérna um árið og enginn ísskápasölumannanna og –kvennanna réð við að fallbeygja orðið "frystir" ("... þá er svo gott að geta bara sett það í frystirinn ...") og eins þegar ég keypti nýjan rafgeymi í bílinn minn hjá rafgeymaþjónustu í Hafnarfirði og rafgeymatæknirinn, sem ekki gerir nokkurn skapaðan hlut allan liðlangan daginn nema mæla rafgeyma, selja rafgeyma og skipta um rafgeyma í bílum sagðist ætla að mæla hjá mér "geymirinn". En hvað er uppbyggilegt og jákvætt við það? Einkum þegar það bætist við eintómt gremjublogg út af málfari? Þessi síða átti ekki að vera "Davíð Þór eipar yfir málfari alþýðunnar" heldur "hinn djúpvitri Davíð Þór veitir alþýðunni hlutdeild í lausninni við lífsgátunni af yfirvegaðri mildi sinni". Einbeiti mér að því framvegis.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)