þriðjudagur, desember 25, 2007

Vor Guð er borg á bjargi traust


Undanfarið hefur verið kvartað undan því að afhelgun samfélagsins sé skemmra á veg komin hérlendis en æskilegt væri. Umræðuefnið er brýnt og það ber að taka alvarlega. Auðvitað ætti hið opinbera ekki að gera upp á milli trúfélaga og óeðlilegt er að kvarta undan slíkum málflutningi. En hann tekur stundum á sig aðra mynd. Fólk fullyrðir jafnvel að trúarsannfæring sé lygi og hræsni, það lýgur hatrammri baráttu gegn menntun og vísindum upp á Þjóðkirkjuna og emjar síðan eins og stunginn grís þegar það er kallað hatrammt sjálft.
Vor Guð er borg á bjargi traust. Kjánar fá ekki kollvarpað henni. Þess vegna er rangt að stilla þeim upp sem erkifjendum Guðs kristni í heimi. Með því er þeim gert hærra undir höfði en þeir verðskulda, eins og beljaki gerir mýflugu þegar hann vælir undan biti hennar. Guðlastið er ekki annað en persónulegt tilbeiðsluform kjánanna á sínu eigin ágæti. Hinn raunverulegi óvinur kastar ekki skít í gremju, hann nagar undirstöðurnar.
Óvinurinn er trúin sem er játuð í raun, ekki með munninum á tyllidögum, heldur í hjörtunum hvunndags og iðkuð með fótum og greiðslukortum. Óvinurinn er blygðunarlaus skurðgoðadýrkun. Andleg verðmæti eru heimfærð upp á dauða hluti. Eins og guð býr í tóteminu býr sjálfsvirðingin í jeppanum, frelsið í golfsettinu og sálarróin í mósaíklistaverkinu í jógasalnum í kjallaranum á glæsihúsinu sem ryðja þurfti ágætishúsi úr vegi til að rýma fyrir. Kaupmenn veigra sér ekki við því að auglýsa munaðarvarning að andvirði margra mánaðarlauna verkamanns sem gjafir í tilefni af fæðingu hans sem fæddist í fjárhúsi til að vera ofsóttur fyrir kærleikann. Hinir göfugu gefa ekki lengur ölmusu þannig að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir, heldur sem fermetrastórar ávísanir á síðum blaða, til að almenningur sjái gæsku þeirra og fyrirgefi þeim okrið og svindlið.
Óvinurinn er ekki frjáls félagasamtök um kristilega breytni á forsendum annarra lífsskoðana en kristni, jafnvel þótt þær séu aðeins illa dulbúin trú á eigin mátt og megin. Óvinurinn er hve kristilegt siðgæði í verki er langt frá því að vera almennt.
Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól.
Bakþankar í Fréttablaðinu 23. 12. 2007

þriðjudagur, desember 11, 2007

Móðir mín, maðurinn

Þegar ég var lítill var mamma einu sinni í framboði. Blaði var dreift í öll hús í bænum með myndum af frambjóðendum flokksins á forsíðu. Fyrir neðan hverja mynd var nafn frambjóðandans og starfsheiti. Fyrir neðan nafn móður minnar stóð „skrifstofumaður“, en ekki „skrifstofukona“ eins og venjan var þá.
Ég spurði mömmu út í þetta og hún útskýrði fyrir mér að hún hefði sama starfsheiti og starfsbræður hennar því hún ynni sama starf og þeir. Konur væru líka menn og fyrst enginn titlaði sig „skrifstofukarl“ sæi hún enga ástæðu til að taka sérstaklega fram í starfsheiti sínu að hún væri kona. Kynferði hennar skipti engu máli í þessu samhengi. Ég gat ekki annað en fallist á þessi rök og eftir á að hyggja hugsa ég að þetta hafi verið mín fyrstu kynni af femínisma, þótt enn ættu eftir að líða nokkur ár þangað til ég heyrði það orð fyrst.
Árin liðu, ég varð gelgja og öðlaðist vanþroskaðan karlrembuhúmor. Þá gerði ég það eitt sinn í skepnuskap mínum, þegar ég ritstýrði símaskrá nemendafélags Flensborgarskólans í Hafnarfirði, að titla þá formenn klúbba, sem voru stelpur, „forstöðukonur“ en ekki formenn. Þetta var skilið sem svívirðilegur pungrottuháttur, sem þetta auðvitað var, og þótti ekki fyndið, sem það auðvitað var ekki.
Enn liðu ár. Kvennaframboð og femínismi litu dagsins ljós. Það varð konum kappsmál að verða ekki þingmenn heldur „þingkonur“, jafnvel þótt orðið „þingkarl“ hefði aldrei heyrst. Barnalegur ungfolahroki minn, að kvengera starfsheiti, var orðinn strangfeminísk yfirlýsing, langt á undan samtíma sínum. Það sem fáum árum áður hafði verið niðrandi gagnvart konum var orðið eindreginn málstaður þeirra.
Þetta sýnir aðeins að orð hafa enga aðra merkingu en þá sem ákveðið er að gefa þeim hverju sinni. Þannig merkir orðið „herra“ í minni málvitund aðeins sá sem er hæstráðandi, „herrann“ er æðstur. Megineinkenni feðraveldisins, sem nú er í andarslitrunum, er einmitt að herrann er ávallt karl. Það gerir orðin „herra“ og „karl“ samt ekki að samheitum. Því ætti það að mínu mati að vera ánægjulegur áfangi á leiðinni til jafnréttis að konur séu „herrar“ ekki síður en karlar.
Bakþankar í Fréttablaðinu 9. 12. 2007