Undanfarið hefur verið kvartað undan því að afhelgun samfélagsins sé skemmra á veg komin hérlendis en æskilegt væri. Umræðuefnið er brýnt og það ber að taka alvarlega. Auðvitað ætti hið opinbera ekki að gera upp á milli trúfélaga og óeðlilegt er að kvarta undan slíkum málflutningi. En hann tekur stundum á sig aðra mynd. Fólk fullyrðir jafnvel að trúarsannfæring sé lygi og hræsni, það lýgur hatrammri baráttu gegn menntun og vísindum upp á Þjóðkirkjuna og emjar síðan eins og stunginn grís þegar það er kallað hatrammt sjálft.
Vor Guð er borg á bjargi traust. Kjánar fá ekki kollvarpað henni. Þess vegna er rangt að stilla þeim upp sem erkifjendum Guðs kristni í heimi. Með því er þeim gert hærra undir höfði en þeir verðskulda, eins og beljaki gerir mýflugu þegar hann vælir undan biti hennar. Guðlastið er ekki annað en persónulegt tilbeiðsluform kjánanna á sínu eigin ágæti. Hinn raunverulegi óvinur kastar ekki skít í gremju, hann nagar undirstöðurnar.
Óvinurinn er trúin sem er játuð í raun, ekki með munninum á tyllidögum, heldur í hjörtunum hvunndags og iðkuð með fótum og greiðslukortum. Óvinurinn er blygðunarlaus skurðgoðadýrkun. Andleg verðmæti eru heimfærð upp á dauða hluti. Eins og guð býr í tóteminu býr sjálfsvirðingin í jeppanum, frelsið í golfsettinu og sálarróin í mósaíklistaverkinu í jógasalnum í kjallaranum á glæsihúsinu sem ryðja þurfti ágætishúsi úr vegi til að rýma fyrir. Kaupmenn veigra sér ekki við því að auglýsa munaðarvarning að andvirði margra mánaðarlauna verkamanns sem gjafir í tilefni af fæðingu hans sem fæddist í fjárhúsi til að vera ofsóttur fyrir kærleikann. Hinir göfugu gefa ekki lengur ölmusu þannig að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir, heldur sem fermetrastórar ávísanir á síðum blaða, til að almenningur sjái gæsku þeirra og fyrirgefi þeim okrið og svindlið.
Óvinurinn er ekki frjáls félagasamtök um kristilega breytni á forsendum annarra lífsskoðana en kristni, jafnvel þótt þær séu aðeins illa dulbúin trú á eigin mátt og megin. Óvinurinn er hve kristilegt siðgæði í verki er langt frá því að vera almennt.
Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól.
Bakþankar í Fréttablaðinu 23. 12. 2007
Vor Guð er borg á bjargi traust. Kjánar fá ekki kollvarpað henni. Þess vegna er rangt að stilla þeim upp sem erkifjendum Guðs kristni í heimi. Með því er þeim gert hærra undir höfði en þeir verðskulda, eins og beljaki gerir mýflugu þegar hann vælir undan biti hennar. Guðlastið er ekki annað en persónulegt tilbeiðsluform kjánanna á sínu eigin ágæti. Hinn raunverulegi óvinur kastar ekki skít í gremju, hann nagar undirstöðurnar.
Óvinurinn er trúin sem er játuð í raun, ekki með munninum á tyllidögum, heldur í hjörtunum hvunndags og iðkuð með fótum og greiðslukortum. Óvinurinn er blygðunarlaus skurðgoðadýrkun. Andleg verðmæti eru heimfærð upp á dauða hluti. Eins og guð býr í tóteminu býr sjálfsvirðingin í jeppanum, frelsið í golfsettinu og sálarróin í mósaíklistaverkinu í jógasalnum í kjallaranum á glæsihúsinu sem ryðja þurfti ágætishúsi úr vegi til að rýma fyrir. Kaupmenn veigra sér ekki við því að auglýsa munaðarvarning að andvirði margra mánaðarlauna verkamanns sem gjafir í tilefni af fæðingu hans sem fæddist í fjárhúsi til að vera ofsóttur fyrir kærleikann. Hinir göfugu gefa ekki lengur ölmusu þannig að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir, heldur sem fermetrastórar ávísanir á síðum blaða, til að almenningur sjái gæsku þeirra og fyrirgefi þeim okrið og svindlið.
Óvinurinn er ekki frjáls félagasamtök um kristilega breytni á forsendum annarra lífsskoðana en kristni, jafnvel þótt þær séu aðeins illa dulbúin trú á eigin mátt og megin. Óvinurinn er hve kristilegt siðgæði í verki er langt frá því að vera almennt.
Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól.
Bakþankar í Fréttablaðinu 23. 12. 2007