þriðjudagur, desember 28, 2010

Stóra biskupsmálið snýr aftur

Sögulok eða sagan endalausa?

Þegar árið, sem nú er að líða, gekk í garð vonuðu allir velunnarar Þjóðkirkjunnar að það yrði henni þægilegra en það sem þá rann sitt skeið. Árið 2009 hafði nefnilega reynst kirkjunni eitt hið erfiðasta í 14 ár. Kynferðisbrot kirkjunnar þjóna höfðu ekki verið áberandi í fréttum hérlendis fram að því, alltjent ekki ef miðað er við mörg grannlönd okkar, en mál sr. Gunnars Björnssonar breytti því. Í kjölfarið á ásökunum í garð Ólafs Skúlasonar árið 1996 kom kirkjan sér upp ferli til að taka á slíkum málum, en úrræðaleysi hennar í þeim efnum hafði valdið mörgu kirkjufólki hugarangri. Mál Gunnars var hið fyrsta sem fór í gegn um þetta ferli frá upphafi til enda. Líta má því á það sem eins konar „prufukeyrslu“ fyrir kerfið. Kannski er það ágætur vitnisburður í þessum efnum að ekkert slíkt mál skyldi koma til kasta kirkjunnar allan þennan tíma.

Góðu fréttirnar voru auðvitað þær að kerfið virkaði. Niðurstaða fékkst í málið og presturinn var látinn víkja, þótt landslög kæmu í veg fyrir að hægt væri að svipta hann hempunni. Fagráð Þjóðkirkjunnar um kynferðisbrot stóð sína plikt. Vondu fréttirnar voru aftur á móti þær að ákveðnir, alvarlegir hnökrar á ferlinu komu í ljós. Í stað þess að lagfæra þá, svo kirkjan yrði enn betur í stakk búin til að taka á sambærilegum málum í framtíðinni, varpaði yfirstjórn kirkjunnar hins vegar öndinni léttar, taldi sér trú um að allt væri yfirstaðið og vonaði hið besta. Sú von brást auðvitað.

Hnökrarnir eru, að mínu mati, einkum þrír. Sá fyrsti varðar reyndar ekki kirkjuna heldur dómskerfið. Hann er í því fólginn að tæpt ár tók að fá niðurstöðu í málið frá því að það var kært. Þótt ellefu mánuðir kunni að þykja eðlilegur tími fyrir afgreiðslu sakamála, er óviðunandi að unglingsstúlkur, sem brotið hefur verið á, þurfi að bíða svo lengi eftir að fá viðurkenningu á að þær hafi verið beittar órétti. Eitt ár er heil eilífð fyrir börn og unglinga. Kynferðisbrotamál sem varða þau verða að fá skjótari afgreiðslu.

Í öðru lagi kom í ljós að starfsreglur úrskurðarnefndar Þjóðkirkjunnar eru gallaðar. Þær gera ráð fyrir því að nefndin geti gripið til úrræða þegar prestur gerist sekur um agabrot, en ekki ef um siðferðisbrot er að ræða. Siðferðisbrot taka til mannlegra samskipta en agabrot varða vanrækslu presta á þjónustunni sem þeim er ætlað að veita. Að mínum dómi sýnir þetta að brýnt er að breyta 12. gr. laga nr. 78 frá 1997, sem úrskurðarnefndin starfar eftir, á þann veg að við siðferðisbrotum séu sömu úrræði og við agabrotum.

Þriðji og langalvarlegasti ágallinn á afgreiðslu málsins var þó sá að siðanefnd Prestafélags Íslands brást gjörsamlega. Að vísu komst hún að þeirri niðurstöðu að framferði sr. Gunnars hefði brotið í bága við siðareglurnar, en hún brást þeirri skyldu sinni að skera úr um alvarleika brotsins og veita í kjölfarið áminningu eða vísa málinu til stjórnar Prestafélagsins sem tekur ákvörðun um hvort ástæða sé til brottvísunar úr félaginu. Í raun má því segja að mál sr. Gunnars sé enn til meðferðar hjá siðanefndinni, en starfsreglur hennar kveða skýrt á um að henni beri að afgreiða öll mál, sem til hennar er beint, með þeim hætti.

Að mínum dómi var afgreiðsla biskups á Selfossmálinu honum til sóma, enda erfitt að byggja Salómonsúrskurð á annarri eins Pílatusarmeðferð og málið fékk hjá siðanefnd P. Í. Það var ánægjulegt að sjá hann vaxa með þeim hætti í starfi. En hann lét, illu heilli, hjá líða að láta kné fylgja kviði og þrýsta á siðanefndina að vinna vinnuna sína og á Alþingi að lagfæra starfsreglur úrskurðarnefndarinnar. Sömuleiðis lét prestastéttin það ógert að skikka siðanefndina til að fara að reglum eða samþykkja vantraust á hana ella. Fyrir vikið er nefndin núna með öllu tilgangslaus, ómarktæk og trausti rúin. Stéttar- og fagfélag, sem vill láta taka sig alvarlega, má ekki sætta sig við slíkt ástand á siðanefnd sinni.

Þegar upp er staðið er því engum blöðum um það að fletta að kirkjan dró minni lærdóm af Selfossmálinu en henni hefði verið í lófa lagið. Hún var af þeim sökum verr undir það búin en efni stóðu til að sýna rögg og fagmennsku í framgöngu sinni þegar Stóra biskupsmálið sneri aftur af fullum þunga í ágúst á þessu ári. Og einmitt vegna vasklegrar framgöngu herra Karls Sigurbjörnssonar í Selfossmálinu var einkar átakanlegt að sjá hann gera þann álitsauka að engu í sjónvarpsviðtali.

Vissulega var honum vandi á höndum og hann fráleitt öfundsverður af því hlutskipti sínu að þurfa að bera af sér sakir um að hafa haldið hlífiskildi yfir kynferðisafbrotamanni. Aðkoma hans að máli hr. Ólafs Skúlasonar fyrir 14 árum ásamt þeim þungu sökum sem hann var borinn gerðu hann augljóslega vanhæfan til að vera talsmaður kirkjunnar í málinu. Til þess hefðu aðrir átt að vera betur fallnir, s.s. formaður Prestafélagsins eða vígslubiskupar Þjóðkirkjunnar – en þeim er beinlínis ætlað að leysa biskup af þegar hann er löglega afsakaður frá því að gegna skyldum sínum. Biskup gerðist enda sekur um það klaufalega hálfkák að reyna að taka málstað fórnarlambanna án þess þó að treysta sér til að lýsa yfir óvefengjanlegri sekt herra Ólafs heitins, eflaust til að leggja ekki meiri byrðar á aðstandendur hans en þegar er orðið. Þeir eru auðvitað þolendurnir sem gleymst hafa í umræðunni og Karl hefur ekki viljað snúa hnífnum í þeirra hjartasári. Því miður er sá valkostur þó ekki í boði. Það er ekki hægt að taka afstöðu með fórnarlömbum án þess að taka afstöðu gegn gerendunum.

Það sem gerðist í kjölfarið sýnir þó svo ekki verður um villst að kirkjan er ekki biskupinn einn. Kirkjuráð sendi frá sér yfirlýsingu þar sem fórnarlömbin voru beðin afsökunar. Prestar landsins buðu fórnarlömbum Ólafs Skúlasonar á fund þar sem þau voru beðin fyrirgefningar á máttleysi kirkjunnar. Í viðtali lýsti ein kvennanna þeim fundi sem mikilli sáluhjálp fyrir sig. Sr. Hjálmar Jónsson, sem hafði verið sakaður um yfirhylmingu ásamt Karli, baðst í prédikun fyrirgefningar á því að hafa ekki verið fær um að veita þá hjálp sem hann var beðinn um í mars 1996. Það sama gerði sr. Pálmi Matthíasson, sem einnig hafði verið leitað til. Sr. Sigríður Guðmarsdóttir viðurkenndi í blaðagrein afskiptaleysi sitt og fór fram á að hlutlaus nefnd rannsakaði starfshætti kirkjunnar fyrir fjórtán árum og viðbrögð hennar. Við því var orðið og í nóvember skipaði kirkjuþing nefndina. Formaður hennar er Róbert Spanó, forseti lagadeildar H. Í. Nefndin starfar algerlega sjálfstætt, er óháð öllum stofnunum kirkjunnar og mun skila niðurstöðum sínum næsta sumar.

Kirkjan hefur því óneitanlega lært eitthvað af því sem á henni hefur dunið. Hún vill að sönnu geta reynst skjól öllum sem til hennar leita og virðist reiðubúin að líta í eigin barm. Vonandi reynist hún einnig fær um að bæta ráð sitt. Reyndar fer ekki á milli mála að viðhorfin og vinnubrögðin eru önnur núna en fyrir fjórtán árum. Fyrir það standa allir í þakkarskuld við konurnar sem á sínum tíma komu fram og sögðu sögu sína. Án þeirra væri kirkjan hugsanlega enn jafnúrræðalaus og þá. Sr. Sigurður Árni Þórðarson hefur lagt til að veitt verði „Hetjuverðlaun Þjóðkirkjunnar“ og að fórnarlömb Ólafs Skúlasonar verði fyrstu verðlaunahafarnir. Að slík tillaga sé sett fram sýnir kannski best hin gerbreyttu viðhorf.

Það er þó ekki þar með sagt að Þjóðkirkjan sé búin að bíta úr nálinni með þetta. Þær raddir urðu um skeið háværar að Karli Sigurbjörnssyni bæri að segja af sér vegna málsins. Að mínu mati er sú krafa þó ósanngjörn. Þótt honum hafi vissulega verið mislagðar hendur þegar biskupsmálið sneri aftur í haust verður ekki hjá því litið að arfleifð hans í þessum efnum verður sú að í hans biskupstíð var almennilegri skikkan komið á þessi mál innan kirkjunnar. Ekki skal fullyrt að hann beri sjálfur alla ábyrgð á því, en það var á hans vakt sem það gerðist og það hlýtur að teljast honum til tekna.

Úrsögnum úr Þjóðkirkjunni fjölgaði í kjölfar þessa máls, sem ekki þarf að koma á óvart. Mörgum finnst það eflaust vera það eina sem í þeirra valdi stendur til að láta í ljós óánægju sína í verki. Aftur á móti leiðir könnun, sem gerð var nýlega, í ljós að tiltölulega fáir bera lítið traust til kirkjunnar í hverfinu sínu eða til sóknarprestsins síns. Hlutfallið er um 20% – svipað og hlutfall þeirra sem ekki tilheyra Þjóðkirkjunni. Þótt þetta sé e. t. v. ekki alfarið sami hópurinn má gera ráð fyrir því að hann telji að mestum hluta sama fólkið. Úrsagnirnar bera því ekki vott um óánægju með grasrótarstarf kirkjunnar. Þeim mun sorglegri er sú staðreynd að úrsagnir úr Þjóðkirkjunni hafa þau áhrif ein að í stað þess að sóknargjöld renni til sóknarkirkju renna þau óskipt í ríkissjóð. Úrsagnirnar bitna þannig á barna- og æskulýðsstarfi, félagsstarfi eldri borgara og annarri þjónustu kirkjunnar í nærsamfélagi þess sem segir sig úr henni, einmitt þeim þætti í starfi kirkjunnar sem minnstur styr stendur um. Flestar sóknir í Reykjavík búa sig nú undir 15 - 20% niðurskurð á næsta ári.

Árið 2011 verður afdrifaríkt í sögu Þjóðkirkjunnar. Ósennilegt er að ný stjórnarskrá lýðveldisins geri ráð fyrir sams konar tengslum ríkis og kirkju og 62. grein núverandi stjórnarskrár gerir. Kirkjunnar bíður því mikið starf við endurskipulagningu sína. Æskilegast væri auðvitað að óumdeildur leiðtogi stýrði því starfi, einstaklingur sem ekki er flekkaður af yfirsjónum kirkjunnar í fortíðinni. Það gæti því verið sterkur leikur hjá Karli Sigurbjörnssyni að víkja úr starfi einmitt af því tilefni. Þannig léti hann hagsmuni kirkjunnar ganga fyrir sínum eigin og tryggði að engir fortíðardraugar setji svip á þá mikilvægu skipulagsvinnu sem inna þarf af hendi.

Einnig er mikilvægt fyrir trúverðugleika kirkjunnar að niðurstaða rannsóknarnefndarinnar næsta sumar verði afdráttarlaus, að kirkjan gangist undanbragðalaust við henni og leggi hiklaust í hvert það umbótastarf sem hún gefur tilefni til. Því ef kirkjan getur dregið einhvern lærdóm af atburðum ársins 2010 er hann að mínu mati sá að þótt það sé erfitt að læra af mistökum sínum er það þó, þegar til lengri tíma er litið, ekki næstum því eins erfitt og að gera það ekki.

Grein í Fréttblaðinu 27. 12. 2010

mánudagur, desember 13, 2010

Hrægammalýðræði

Upp á síðkastið hefur verið rætt um að landsbyggðin eigi ekki nema þrjá fulltrúa á nýkjörnu stjórnlagaþingi. Þess hefur sérlega verið getið sem áhyggjuefnis að Austurland eigi þar engan fulltrúa. Þá er litið framhjá því að íbúar Austurlands hefðu hæglega getað fyllt stjórnlagaþingið ef þeir hefðu haft döngun í sér til að gera tvennt: Í fyrsta lagi að bjóða sig fram. Í öðru lagi að mæta á kjörstað.
En þetta tal ber svo skýran vott um úreltan afdalahugsunarhátt og forneskjulegan lýðræðisskilning, að ég get ekki orða bundist. Reyndar er mér svo mikið niðri fyrir að ég verð að fá að brýna raustina og æpa staðreyndir málsins. Þær eru þessar: LANDSBYGGÐIN Á ENGAN FULLTRÚA Á STJÓRNLAGAÞINGI! EKKI FREKAR EN HÖFUÐBORGIN! EKKI FREKAR EN KARLAR EÐA KONUR, FATLAÐIR, ALDRAÐIR EÐA ÖRYRKJAR! EKKI FREKAR EN LÆKNAR, LÖGFRÆÐINGAR EÐA GUÐFRÆÐINGAR! EKKI FREKAR EN RAUÐHÆRÐIR EÐA SKÖLLÓTTIR! ÞJÓÐIN Á TUTTUGU OG FIMM FULLTRÚA ÞAR! PUNKTUR!
Stjórnlagaþinginu er ætlað að skrifa nýja stjórnarskrá þar sem grunngildi þjóðarinnar komi fram. Ný stjórnarskrá á með öðrum orðum að tryggja frelsi, jafnrétti og réttlæti. Í því felst, án þess að taka þurfi það fram sérstaklega, að frelsið, jafnréttið og réttlætið verður að vera allra jafnt. Jafnrétti og réttlæti sem einn nýtur umfram annan er ekki jafnrétti og réttlæti heldur misrétti og óréttlæti. Þessum markmiðum náum við aldrei ef við höldum við því hrægammalýðræði, sem geip um að hinir og þessir „eigi“ fulltrúa á þingum, er svo lýsandi fyrir. Í því felst sá skilningur að fulltrúarnir raða sér í kring um hræið og reyna að rífa í sig sem mest af því, til að berjast fyrir því að engin tægja af frelsi, jafnrétti eða réttlæti, sem hefði getað orðið þeirra, lendi í gogginum á öðrum.
Án þess að hafa kynnt mér það nákvæmlega sýnist mér að hálffimmtugir, hvítir, gagnkynhneigðir, kristnir karlmenn á höfuðborgarsvæðinu eigi engan fulltrúa á stjórnlagaþingi. Ég hef þó engar áhyggjur af því. Frelsi mitt og jafnrétti er nefnilega nákvæmlega hið sama og frelsi og jafnrétti þeldökkra, hundheiðinna lesbía utan af landi á öllum aldri, hvorki einni tægju meira né minna. Það sem skiptir máli er að á þinginu sitji samhentur hópur réttsýnna einstaklinga. Kynferði, aldur, búseta, kynhneigð og annað sem nota má til að kljúfa hópinn í fylkingar kemur málinu ekkert við.
Bakþankar í Fréttablaðinu 11. 12. 2010.

fimmtudagur, desember 02, 2010

Um skóleysi og vonleysi

Prédikun flutt í stúdentamessu í Háskólakapellunni 1. 12. 2010.


Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hetjum okkar Íslendinga er fjálglega lýst í Íslendingasögunum. Gunnar á Hlíðarenda var manna „kurteisastur, harðger í öllu, ráðhollur og góðgjarn, mildur og stilltur vel, vinfastur og vinavandur“. Aðrir voru minna spennandi. Egill Skallagrímsson var „málugur, orðvís og illur viðureignar“. Grettir Ásmundsson var „fátalaður og óþýður, bellinn bæði í orðum og tiltektum“. Þessar umsagnir eru sumar eftirsóknarverðar, aðrar síður. En í öllum þessum mannlýsingum eru nokkur lýsingarorð sem hvergi sjást. Engri af hetjum okkar er lýst þannig að hún hafi verið skemmtileg og hress, jákvæð eða bjartsýn. Það er miður. Mér finnst nefnilega stundum, þegar ég fylgist með dægurmálaumræðunni, að svartsýni og bölmóður þyki dyggð á Íslandi. Reiði er heilbrigð viðbrögð við því þegar réttlætiskennd manns er misboðið. Umræðan í kjölfar hrunsins alræmda og þrenginnanna sem því fylgdu, hafa, að mínum dómi, aftur á móti farið leiðinlega fljótt úr því að einkennast af innblásinni og eðlilegri reiði, út í að innihalda eintóma niðurdrepandi gremju og geðvonsku.

Auðvitað hafa margir ríka ástæðu til að vera reiðir. Fólk hefur orðið fyrir barðinu á óréttlæti, jafnvel misst aleiguna, fyrst og fremst vegna andvaraleysis og máttleysis íslenskra stjórnvalda, bæði núverandi og fyrrverandi. Hver er ég að standa hér og segja: „Reyniði nú að brosa og taka lífinu ekki svona alvarlega“? Ég hef engan rétt til þess.

Reiði getur verið nauðsynlegt umbótaafl fái hún heilbrigða útrás. Þeir sem breytt hafa þjóðfélögum til hins betra, afnumið kúgun og valdníðslu, ráðist að stoðum alræðis og arðráns og höggvið þær í spað, gerðu það ekki af því að þeir voru svo hressir og léttir á því. Þeir voru innblásnir af reiði. En þeir voru ekki innblásnir af gremju og svartagallsrausi. Slíkt fyllir mann ekki þrótti heldur dregur hann úr manni. Þeir voru nefnilega ekki bara með reiði sína í farteskinu heldur líka vænan skammt af bjartsýni, trú á að ástandið væri komið til að fara, að með samstöðu og dugnaði væri hægt að taka til hendinni og ryðja óréttlætinu úr vegi. Það er heilbrigð útrás fyrir reiði. Gremja og geðvonska er á hinn bóginn sjúk útrás fyrir reiði. Ég leyfi mér að fullyrða að ekkert, sem horft hefur til heilla, hefur verið reist á stoðum geðvonsku og bölmóðs. Ekkert, sem bætt hefur líf einstaklinga, hefur verið knúið áfram með tuði og svartsýni. Slík afstaða hjálpar engum – nema hugsanlega þeim sem framleiða magasýrutöflur.

Það er auðvelt að tala svona. Maður getur ekki bara hætt að vera reiður, af því að tilraunir til heilbrigðrar útrásar skila ekki árangri. Reiðin leitar út og ef hún fær ekki heilbrigða útrás finnur hún sér aðra. Það sem við erum að verða vitni að er að fólk rýkur upp í fylkingar út af hvaða pínulitla ágreiningsefni sem er, sem síðan gelta hvor á aðra. Svona er, að mínu mati, umræða fólks sem er sem lamað af tortryggni og vonbrigðum. Vonbrigðum með það að réttlætið hefur ekki náð fram að ganga. Vonbrigðum með það að fjöldi manna missti lífsviðurværi sitt og ævisparnað án þess að hafa neitt til saka unnið annað en að fara eftir þeim leikreglum sem samfélagið setti. Vonbrigðum með að þeir einu sem látnir hafa verið svara til saka fyrir það sem gerst hefur skuli vera níu manns sem ekki gerðu annað af sér en að æpa á Alþingismenn tiltölulega kurteislega orðaðar setningar, miðað við kringumstæður, sem efnislega innihéldu ekki annað en það sem þorra þjóðarinnar bjó í brjósti.

Ég tek þátt í kirkjulegu starfi í sóknarkirkjunni minni. Mér finnst það gera mér gott og ég mæli með því. Ekki bara því að mæta í messu og hlusta á fallega tónlist og vonandi uppbyggileg orð af vörum prestsins í prédikuninni, heldur því að eiga samfélag við annað fólk um sannindi sem snúast um annað en brauðstritið, um afstöðu sem ristir dýpra en til þess hvernig við getum náð endum saman um mánaðarmótin. Ekki að það séu ekki verðug viðfangsefni. Ég held bara að það svipti mann mjög mikilvægum þætti þess, sem gerir lífið þess virði að lifa því, að hugsa og tala aldrei um neitt annað.

Ég geri mér grein fyrir því að fólk hefur mjög ólíka trúarafstöðu, stundum væri eflaust nær að tala um lífsskoðun en trúarafstöðu. Það eiga ekkert allir heima í minni evangelísk-lúthersku sóknarkirkju, ekki bara af landafræðilegum ástæðum heldur trúar- eða lífsskoðunarlegum. En mannlífið er nú sem betur fer svo fjölbreytt að ég held að allir eigi heima einhvers staðar, ekki bara í landafræðilegri merkingu. Og það er gott að að eiga heima, ekki bara á landakortinu heldur á andlegu sviði tilverunnar. Það hjálpar manni að kljást við tilfinningar eins og vonbrigði og það að upplifa sig sem fórnarlamb. Kannski ekki á þann hátt að maður fái töframátt til að breyta innviðum og viðmiðum samfélagsins, en það getur hjálpað manni að láta þessar tilfininngar ekki eitra andlegt líf sitt.

Hvað á ég við?

Snemma í haust prédikuðu prestar Þjóðkirkjunnar um fátækt á Íslandi. Textinn sem prédikað var út frá er í 7. kafla Lúkasarguðspjalls, sagan um bersyndugu konuna sem þvoði fætur Jesú með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði smyrslum. Þetta er falleg saga um hina kristnu afstöðu til sektar og samfélagslegrar útskúfunar, um það að vera fórnarlamb kringumstæðna. Við vitum nefnilega ekki mikið um þessa bersyndugu konu annað en að hún var í andlegri kröm. Við vitum ekki hver synd hennar var. Kannski var hún að praktísera, kannski hafði hún bara ekki farið að reglum samfélagsins í tilhugalífi sínu, látið undan heilbrigðri löngun í trássi við lög og ekki komist upp með það. Við vitum að samfélagið sem hún lifði í var gegnsýrt af karlrembu, að um kynhegðun giltu strangar reglur og að viðurlög við brotum á þeim voru vægast sagt ómannúðleg. Það er skelfilegt til þess að vita að enn skuli vera samfélög meðal okkar sem eru eins. En við vitum líka að fólk er í eðli sínu eins nú og þá, hér og þar. „Hjörtum mannanna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu“ orti Tómas.

Við getum því sagt okkur sjálf sitthvað í viðbót um þessa bersyndugu konu. Hún valdi ekki þann kostinn, af öllu því úrvali valkosta sem stóð henni til boða varðandi það sem hún gæti gert við líf sitt, að sennilega væri skynsamlegast að vera bersyndug. Hún var fórnarlamb. Við vitum nefnielga líka að það voru fórnarlömb kynferðisafbrota sem urðu fyrir útskúfun og fordæmingu samfélagsins, ekki gerendurnir. Boðskapur sögunnar er einfaldur, augljós og fallegur: Jesús Kristur tók málstað þeirra sem samfélagið dæmdi úr leik, hann stóð með hinum útskúfuðu og smáðu, með fórnarlömbunum gegn gerendunum. Kirkja, sem að sönnu er kirkja Krists, gerir slíkt hið sama. Alltaf. Alls staðar. Annars er hún ekki kirkja Krists.

Texti þessa sunnudags er að ýmsu leyti betur til þess fallinn að fjalla um fátækt. Hann er líka úr Lúkasarguðspjalli, 4. kafla. Þar segir frá því þegar Jesús fór til Nasaret og las upp úr spádómsbók Jesaja þessi orð: „Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.“

Jahá. Þetta er snorturt og einfalt. Jesús flytur fátækum gleðilegan boðskap. Og ég spyr: Þar sem ég er að prédika út frá þessum texta, ætti ég þá ekki að segja við fólk sem misst hefur allt: „Hafið engar áhyggjur, þetta verður allt í lagi, allt verður eins og áður. Jesús segir það.“?

Ég ætla ekki að gera það. Fyrir því eru einkum tvær ástæður. Sú fyrri er sú að með því væri ég að hræsna. Ég væri að segja eitthvað sem ég trúi ekki sjálfur. Ég er ekkert viss um að allt verði í lagi, það er að segja ef við setjum samasemmerki á milli orðanna „í lagi“ og orðanna „eins og áður“.

Við megum ekki gleyma því að nokkrir tugir einstaklinga frömdu á þjóðinni auðgunarglæp, sem jafngildir því í krónum og aurum að hvert einasta hús á eyjunni hafi verið brennt til kaldra kola. Hvert einasta. Það er ekkert sjálfgefið að þjóð nái að jafna sig á slíku. Ég hef reyndar trú á því að íslenska þjóðin geri það, en það tekur tíma. Ég er aftur á móti ekki eins sannfærður um að í kjölfarið geti allt orðið eins og áður. Að sömu lífsgæði, að sama neyslustig, að sami lifistandard og þótti eðlilegur á mesta þenslutímanum bíði okkar. Ég held að ástæða sé til að stórefa það. Og ég er ekki einu sinni viss um að það væri æskilegt. Þótt fátæku börnin í Afríku séu orðin svo mikil klisja að maður sé nánast að gera þeim óleik með því að minnast á þau, þá held ég samt að við höfum gott af því að skoða aðstöðu okkar í aðeins víðara samhengi. Eins og einn vinur minn sagði: „Mér fannst ég eiga ofboðslega bágt að vera skólaus alveg þangað til ég hitti fótalausa manninn.“ Íslendingar kunna að vera skólausir sem stendur, en við erum ekki fótalaus.

Hin ástæðan fyrir því að ég ætla ekki að standa hér og segja að gleðilegi boðskapurinn hans Jesú til fátæklinganna sé sá að bráðum verði allt eins og áður er sú að ég held að það hafi alls ekki verið það sem hann átti við. Ríki hans var ekki af þessum heimi. Lausn bandingjanna, sem hann talar um, var ekki loforð um afnám þrælahalds í nánustu framtíð. Efnahagur Rómaveldis byggði að svo miklu leyti á þrælahaldi að fyrirvaralaust afnám þess hefði valdið efnahagshruni sem hrun bankakerfisins á Íslandi hefði bliknað í samanburði við. Ég er ekki að segja að þrælahald hafi verið sjálfsagt og gott, ég er að segja þjóðfélagsgerðin hafi svo eindregið gert ráð fyrir því að afnám þess hafi verið óhugsandi, það hefði lamað viðskipti, samgöngur og matvælaframleiðslu sem leitt hefði af sér annars konar hörmungar. Jesús var ekki hagfræðingur og hann hefði sennilega ekki skilið orðið „stjórnlagaþing“ – jafnvel þótt það hefði verið þýtt á arameísku. Það var annars konar lausn sem hann var að boða, lausn undan ótta, vonleysi og tilgangsleysi til vonar, kærleika og einhvers sem í dag væri sennilega kallað „mannleg reisn“. Í því felst að hver einasti einstaklingur hefur sérstakt manngildi, gefið af Guði, sem enginn mannlegur máttur hefur rétt til þess að umsnúa eða draga úr. Sem enginn mannlegur máttur hefur getu til þess að gera að engu. Gildi þitt sem manneskju fer ekki eftir því hvort þú átt eða skuldar, hvort þú ert frjáls eða ófrjáls í einhverri merkingu. Þú ert einstakt og elskað sköpunarverk Guðs eins og þú ert, hvort sem þú býrð í 30 fermetrum eða 300, hvort sem þú stendur í biðröð við kassann í kjörbúðinni eða biðröð hjá hjálparstofnun eftir matargjöf. Þú ert óendanlega dýrmæt(ur). Gildi þitt sem manneskju fer ekki eftir veraldlegum kringumstæðum þínum. Það er gleðilegur boðskapur.

Fyrst minnst var á biðraðir eftir matargjöfum þá hafa þær vakið marga til umhugsunar. Hvernig getur slíkt gerst eins og hendi væri veifað í þjóðfélagi sem var að rifna af velmegun fyrir ekki svo löngu síðan? Þessar biðraðir hafa verið kallaðar smánarblettur á íslensku þjóðfélagi. Því er ég ósammála. Sú staðreynd að þessar gjafir skuli vera í boði þar sem er þörf fyrir þær segir ekki ljóta sögu um þjóðfélagið heldur fallega. Biðraðirnar eru svo sannarlega ekki smánarblettur á þeim sem standa í þeim, fólki sem hefur afrekað það að leggja stolt sitt til hliðar og biðja um aðstoðina sem það þarf til að geta séð sér og sínum farborða. Það fyrirkomulag að raðir myndist er vissulega klaufalegt og vanhugsað, en varla smánarblettur. Það hlýtur að mega gera það auðveldara fyrir sjálfsvirðingu fólks sem þarf þessa hjálp að taka við henni. Þörfin fyrir þessar matargjafir er aftur á móti til skammar, en ekki fyrir íslensku þjóðina, ekki þá sem þiggja aðstoðina og þaðan af síður þá sem veita hana. Skömmin er þeirra sem sköpuðu þörfina og þeirra sem eru í aðstöðu til að útrýma henni en gera það ekki.

Ég tek þátt í kirkjulegu starfi. Það hefur ekki verið auðvelt síðastliðið ár. Kirkjan hefur gengið í gegn um erfiðleika, sem óþarfi er að tíunda hér, en hún getur að verulegu leyti aðeins kennt sjálfri sér og yfirstjórn sinni um. Flestar stofnanir þjóðfélagsins eru rúnar trausti og kirkjan þar með talið. Það er ólíklegt til vinsælda að bera blak af Þjóðkirkjunni opinberlega. Þetta hefur haft áhrif á móralinn, það verður að viðurkennast. Það er leiðinlegt og niðurdrepandi að fá aldrei neitt annað en skít og skömm fyrir það sem maður er að gera. Fyrir skömmu héldum við þess vegna samkomu til að hrista hópinn saman, bæta móralinn og þétta raðirnar. Meðal annars sem gert var í því augnamiði var að fá sálfræðing til að kenna okkur hvernig sterkur hópur bregst við andstreymi. Það var gagnlegt. Sterkur hópur eflist við andstreymi. Þar snýr fólk bökum saman. Eitt af því sem einkennir sterkan hóp er að þar er gengið í þau verk sem þarf að vinna, enginn skýtur sér undan ábyrgð á þeim forsendum að verkið falli ekki undir starfslýsingu hans. Í sterkum hópi styðja einstaklingar hver annan.

Það sem einkennir veikan hóp er einmitt hið gagnstæða. Veikur hópur splundrast við andstreymi. Hann klofnar í smærri einingar sem benda hver á aðra og kenna hver annarri um. Í veikum hópi gengst enginn við ábyrgð og einstaklingarnir keppast við að koma henni á aðra. Hljómar þetta kunnuglega? Jú, það sem einkennir veikan hóp er í raun stutt lýsing á allri framgöngu íslenskra stjórnmálamanna frá því fyrir hrun. Það þarf því engan að undra að þjóðin sé sem lömuð af vonbrigðum. Og vonbrigðin veikja þjóðina sem hóp.

Áðan var fluttur nýr sálmur eftir tónlistarmanninn K.K, Kristján Kristjánsson. Í öðru ljóði eftir hann segir: „Til eru höfðingjar við Íslands bláu fjöll sem heldur vilja deyja en lifa í þeirri smán að hafa ekkert gefið sem þeir gátu verið án.“ Þarna er á ferðinni mannlýsing sem mér finnst öllu aðdáunarverðari en þær sem ég hóf orð mín á að vitna í. Svona eru hetjurnar sem við þurfum núna.

Ég held að íslenska þjóðin vilji vera og geti verið sterkur hópur. Ég held að ef íslenska þjóðin ber gæfu til að snúa bökum saman og ganga í þau verk sem þarf að vinna og þola ekki öllu lengri bið og leggja eðlilegan og sjálfsagðan ágreining um aukaatriði til hliðar rétt á meðan, ef við látum skóleysið ekki fylla okkur vonleysi, ef við gerumst höfðingjarnir, sem leggja það af mörkum sem þeir geta verið án, að þá ... verði kannski ekki allt eins og áður. En þá getum við sent leiðtogum okkar skýr skilaboð, skilaboð sem reyndar hafa heyrst áður, en komu þá úr hinni áttinni. Skilaboðin eru: „Þið eruð ekki þjóðin.“

Ef íslenska þjóðin ber gæfu til þess að vera sterkur hópur en ekki veikur, þá treysti ég mér til að flytja henni gleðilegan boðskap: „Þetta verður allt í lagi.“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.


Guðspjallstexti dagsins (Lúk 4.16-21): Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er: Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins. Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“

mánudagur, nóvember 15, 2010

Enn um mosku í Reykjavík


Varðandi síðastu færslu og viðbrögð við henni langar mig að rökstyðja mál mitt eilítið betur. Í því augnamiði vil ég byrja á að benda á nokkur vel valin atriði úr Mannréttindayfirlýsingu SÞ:


2. gr. „Allir eiga kröfu á réttindum þeim og því frelsi, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.“


18. gr. „Allir skulu frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar. Felur sá réttur í sér frelsi til að skipta um trú eða sannfæringu og enn fremur frelsi til að rækja trú sína eða sannfæringu einslega eða með öðrum, opinberlega eða í einrúmi, með boðun, breytni, tilbeiðslu og helgihaldi.“


19. gr. „Allir skulu frjálsir skoðana sinna og að því að láta þær í ljós. Felur sá réttur í sér frelsi til að hafa skoðanir óáreittur og að leita, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum með hverjum hætti sem vera skal og án tillits til landamæra.“


30. gr. „Ekkert í yfirlýsingu þessari má túlka á þann veg að nokkru ríki, hópi eða einstaklingi sé heimilt að aðhafast nokkuð það er stefni að því að gera að engu einhver þau réttindi eða frelsi sem hér hafa verið upp talin.“


Semsagt: 30. gr. tekur af allan vafa um að 19. gr. tryggir engum rétt til að stefna að því að gera að engu þau réttindi sem tryggð eru í 18. gr. – M.ö.o.: Réttur fólks til að vera frjálst skoðana sinna og láta þær í ljós gildir ekki um rétt fólks til að stefna að því gera að engu rétt annarra til að rækja trú sína opinberlega með tilbeiðslu og helgihaldi.


Við þetta má bæta 2. lið 29. gr. sömu yfirlýsingar: „Við beitingu réttinda sinna og frelsis, skulu allir háðir þeim takmörkunum einum sem settar eru með lögum í því skyni að tryggja viðurkenningu á og virðingu fyrir réttindum og frelsi annarra og til þess að fullnægja réttlátum kröfum um siðgæði, almannareglu og velferð almennings í lýðfrjálsu þjóðfélagi.“


Þarna er viðurkennt að beiting réttinda og frelsis geti verið háð tökmörkunum sem settar eru með lögum. Þetta má bera saman við alþjóðasamning um afnám kynþáttamisréttis frá 1968 sem Íslendingar eru aðilar að. Þar segir m. a.:


2. gr. d.: „Skuldbindur hvert aðildarríki sig til að banna og binda enda á, með öllum viðeigandi ráðum, þar með talið í löggjöf þar sem slíkt er nauðsynlegt, kynþáttamisrétti meðal allra manna, hóps eða samtaka.


4. gr. a.: „Gera refsiverða með lögum alla útbreiðslu á hugmyndum sem eru byggðar á kynþáttayfirburðum eða óvild ...


4. gr. b.: „Lýsa ólögleg og banna samtök og einnig skipulagða og alla aðra áróðursstarfsemi sem stuðlar að og hvetur til kynþáttamisréttis og skal gera þátttöku í slíkum samtökum eða starfsemi refsiverða með lögum.


Samningurinn skilgreinir „kynþáttamisrétti“ sem það að fólk af öðrum „kynþætti, litarhætti, ætterni eða þjóðernis- eða þjóðlegum uppruna“ (1. gr.) njóti ekki borgaralegra réttinda og tilgreinir samningurinn sérstaklega, í gr. 5d (vii), rétt „til frjálsrar hugsunar, samvisku og trúar.


Þennan samning er því erfitt að skilja öðruvísi en þannig að íslensk stjórnvöld hafi skuldbundið sig til að allur áróður gegn rétti fólks til að iðka trú sína skuli varða við lög.


Samtök gegn því að moska rísi í Reykjavík eru vissulega siðlaus að mínu mat. En það er í raun algjört aukaatriði. Það er fráleitt að byggja samfélag á persónulegri siðferðiskennd einstaklinga. Það á ekki að virða mannréttindi af því að mér finnst að það eigi að gera það.


Það á að virða mannréttindi af því að við höfum skuldbundið okkur til þess í lögum og alþjóðlegum samningum. Það á að virða lög og skuldbindingar. Þau lög og skuldbindingar kveða skýrt á um að samtök gegn því að moska rísi í Reykjavík skuli varða við landslög.

Umburðarlyndi andskotans

Umburðarlyndi er kjaftæði. Bókstaflega lýsir orðið eitt og sér ekki öðru en því lyndi að umbera. En enginn vill vera umborinn. Fólk vill vera samþykkt og viðurkennt, ekki umborið. Ef einhver ætlar að slá sjálfan sig til riddara fyrir þá góðmennsku sína að umbera mig getur sá hinn sami tekið sitt umburðarlyndi og troðið því þangað sem sólin ekki skín. Þannig umburðarlyndi er ekkert annað en hroki og yfirlæti undir þunnu lagi af bleikri málningu.

Umburðarlyndi er svo mikið í tísku um þessar mundir að því er jafnvel stillt upp sem andstöðu forræðishyggju, ritskoðunar og alls annars sem setur frelsi einstaklingsins til að gera það sem honum sýnist, sjálfum sér til sálartjóns og öðrum til ama, einhverjar skorður. Fyrir vikið verður kynþáttahatur að skoðun sem verður að umbera, því fólk á að hafa frelsi til að vera eins miklir kynþáttahatarar og það kýs.

En sumt á einfaldlega aldrei að umbera. Mannréttindabrot á ekki undir neinum kringumstæðum að umbera. Heimsku, ofbeldi, grimmd og fáfræði á ekki að umbera. Mannhatur á ekki að umbera, hvort sem það beinist að konum, útlendingum, hommum, guðleysingjum, múslimum eða rauðhausum. Skoðanir sem byggja á heimsku og hatri á ekki að umbera. Skoðanir sem vega að mannréttindindum, t.d. trúfrelsi og tjáningarfrelsi, á ekki að umbera.

Það á að samþykkja fólk án þess því fylgi að grimmd þess, fáfræði og heimska sé umborin. Skoðanir byggðar á þessu eru hættulegar og dæmin sýna að þeim vex fiskur um hrygg ef þær er umbornar. Þar sem slíkar skoðanir ná lýðhylli eru þær undantekningarlaust landinu og þjóðinni til mikils skaðræðis. Mér ber engin skylda til að umbera nýnasisma, útlendingahatur, trúar- eða vantrúarofstæki eða neitt annað sem vegur að grundvallarmannréttindum. Ég áskil mér rétt, reyndar er mér tryggður hann í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, til að berjast gegn þessu öllu með kjafti og klóm – að því tilskyldu að sú barátta brjóti ekki réttindi annarra. Höfum hugfast að réttindum, s.s. ferðafrelsi, er hægt að fyrirgera með að misbeita þeim.

Ef við umberum samtök gegn grundvallarmannréttindum á borð við trúfrelsi, t. d. því að moska rísi í Reykjavík, verðum við á nákvæmlega sömu forsendum að umbera Ku Klux Klan og samtök helfararafneitara, svo fátt eitt af sama sauðahúsi sé nefnt. Það er umburðarlyndi andskotans.

Bakþankar í Fréttablaðinu 13. 11. 2010.

föstudagur, nóvember 05, 2010

Baráttusöngur borgaralega byltingarmansins

Ég stóð upp úr leðursófanum svarta

og slökkti á flatskjánum nýja.

Í úlpu frá sextíu og sex gráðum norður

smokraði ég mér hlýja.

.

Svo fór ég á jeppanum fjórhjóladrifna

(mér finnst hann þvílíkt æði)

niður í bæ og var fljótur í förum,

en fann hvergi bílastæði.

.

Ég lagði því bílnum á umferðareyju

innan um fleiri jeppa,

fannst eðlilegt að ég ætti við sektir

og óþarfa vesen að sleppa.

.

Ég keypti í leiðinni kleinuhringa,

karamellufyllta,

og kókosbollu og café latte

með kortinu mínu gyllta.

.

Svo arkaði ég út á Austurvöllinn

og öskraði mikið og hátt

um það sem aðrir þurfa að gera

því að ég á svo bágt.

fimmtudagur, nóvember 04, 2010

Gelt gelt

Það virðist einkenna Íslendinga um þessar mundir að skiptar skoðanir leiði aldrei af sér frjóa og skapandi umræðu. Kannski eru það vonbrigðin með hið nýja Ísland eða öllu heldur lífseigju hins gamla sem valda því. Þess í stað hleypur fólk upp í fylkingar, fullt tortryggni og gremju, sem gelta hvor á aðra. Nýjasta dæmið er tillögur mannréttindaráðs Reykjavíkur um breytt samskipti skóla við trúar- og lífsskoðunarfélög. Þar er önnur fylkingin skipuð andlegum öreigum og gott ef ekki siðblindum fjendum guðrækni og góðra siða líka, ef marka má hina sem virðist, samkvæmt þeirri fyrrnefndu, vera skipuð talsmönnum trúboðs í skólum sem vilja að valdagráðug ríkiskirkja fái óáreitt að heilaþvo ungviði borgarinnar í óþökk foreldra þess.

Ég held að hvor fylking sé hugarburður hinnar. Ég held að báðar fylkingar aðhyllist mannréttindi, trúfrelsi og jafnrétti trúar- og lífsskoðana og vilji tryggja æskunni haldgóða og óhlutdræga þekkingu umhverfi sínu og menningu. Þar eru trúarbrögð og trúararfur stór þáttur. Reynslan sýnir að þekkingarskortur elur á útlendingahatri og fordómum. Fólk óttast það sem það þekkir ekki. Víðsýni og umburðarlyndi eru skilgetin afkvæmi upplýsingar og menntunar. Um það held ég að báðar fylkingar séu sammála.

Í 2. gr. viðauka nr. 1 við samning Evrópuráðsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis (Mannréttindasáttmála Evrópu), sem Íslendingar eru aðilar að, segir m. a.: „Hið opinbera skal í öllum ráðstöfunum sínum, er miða að menntun og fræðslu, virða rétt foreldra til þess að tryggja það að ... menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.“ Lítill hluti Íslendinga, einkum trúlausir húmanistar, telja núverandi fyrirkomulag brjóta í bága við þetta ákvæði. Það er auðvitað með öllu óviðunandi og úr því verður að bæta. En það verður ekki gert með því að brjóta þessi nákvæmlega sömu réttindi á öðrum.

Hættum að gelta hvert á annað. Réttsýnt og skynsamt fólk, sem er annt um mannréttindi og trúfrelsi, hlýtur að geta sest niður með sáttfýsi og gagnkvæma virðingu að leiðarljósi og komist í sameiningu að viturlegri niðurstöðu. Ég neita að trúa öðru en að við getum komið okkur upp þjóðfélagi þar sem mannréttindi allra eru virt, ekki bara meirihlutans. Og þaðan af síður bara minnihlutans. Náungakærleikur felst í því að opna dyr, ekki loka þeim.

Bakþankar í Fréttablaðinu 30. 10. 2010.

þriðjudagur, nóvember 02, 2010

Gerum lífið skemmtilegra

Við skemmtilegra lífið gerum.

Lesin vítt og breitt við erum

í biðröðum við búðarkassa.

Blaðið hefur mikinn klassa.

Lítill texti, margar myndir

mæra flestar dauðasyndir

svo þið kannski síður kvartið.

Sjáið kjólana og skartið!

Vissulega er voða gaman

að vita hverjir eru saman

og flestir líka vísast vilja

vita hverjir eru að skilja.

Með stjörnunum við fylgjast fáum

og fréttir af því jafnótt sjáum

ef þær sýna úti í búð

appelsínuhúð.

Í ræktina ef frægt lið fer

fréttir af því birtast hér

og ekki fer það fram hjá þér

ef fer það út og skemmtir sér.

Já, allt sem gerir fólkið fræga

er fjallað um með lotning næga,

en auðvitað kæmi það engum við

ef það væruð þið.

Auglýsingar okkar lita

umhverfið og frá sér smita.

Hver gleðst ei ef uppi á vegg er

Ásdís Rán eða Gilzenegger?

Við skemmtilegra lífið gerum

litlausum og heimskum verum

sem innan í sér eru dauðar,

andvana og gleðisnauðar.

þriðjudagur, október 26, 2010

Um bókun mannréttindaráðs Reykjavíkur um trúfræðslu í skólum

Eitt heitasta málið í umræðunni í dag er tillögur mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um trúar- og lífsskoðanir í tengslum við leik- og grunnskóla borgarinnar. Þar hefur verið vaðið fram með ýktar yfirlýsingar og tillögurnar rangtúlkaðar. Illu heilli hafa ýmsir embættismenn þjóðkirkjunnar verið þar í fararbroddi. Þetta gerir það að verkum að hver sá sem lætur uppi efasemdir um þessar tillögur virðist gjarnan stimplaður talsmaður trúboðs í skólum. Og ef viðkomandi er aukinheldur á einhvern hátt tengdur kirkju eða trú, að ég tali nú ekki um guðfræði, er allt sem hann segir skoðað sem varnarræða fyrir forréttindi hinnar meintu ríkiskirkju umfram önnur trúfélög.

Ég vil fyrst taka það fram að ég álít þessar tillögur ekki vega að rótum trúarinnar. Rætur trúarinnar eru í hjarta einstaklingsins, ekki stofnunum mannanna. Það talar enginn trú inn í hausinn á annarri manneskju, hún er sjálfssprottin tilfinning en ekki niðurstaða rökleiðslu. Trúboð virkar ekki ef það er fólgið í áróðri. Eina trúboðið sem raunverulega virkar er fordæmi eftirbreytniverðs lífs og sáttar hins trúaða. Slíkt trúboð er ekki bannanlegt.

Mig langar líka að fram komi að ég er ekki þeirrar skoðunar að þessi mál megi ekki skoða og lagfæra og að allt sé óaðfinnanlegt í þessum efnum eins og því er nú háttað. Að börn sem ekki fermast skuli látin mæta í skóla ein á meðan hin eru í fermingarferðum er auðvitað með öllu óviðunandi. Evrópunefnd gegn kynþáttahyggju og umburðarleysi, ECRI (European Commission agains Racism and Intolerance) hefur skoðað ástand þessara mála hérlendis og sendi í kjölfarið frá sér skýrslu þar sem m .a. segir:ECRI reiterates its recommendation that the Icelandic authorities ensure that children who do not wish to attend classes in “Christianity, Ethics and Religious Studies” are provided with alternative classes and ensure that all children are given genuine opportunities to learn about different religions and faiths.“ Sé mannréttindaráð hér að reyna að koma til móts við þessar athugasemdir álít ég það þó á villigötum. Þess vegna langar mig að setja hér fram á röklegan hátt þrjár ástæður þess að ég tel þessar tillögur ekki góðar þótt ég efist ekki um að þær séu vel meintar.

1. Í tillögunum segir: „Heimsóknir starfsmanna trúar- og lífsskoðunarfélaga á frístundaheimili, í leik- og grunnskóla, auglýsingar eða kynningar á starfi þeirra í þessum stofnunum sem og dreifing á öðru trúarlegu efni er ekki heimil í starfi barna á vegum Reykjavíkurborgar. Þar með er talin dreifing trúarrita s. s. Nýja testamentis, Kóransins, auglýsingabæklinga og annars kynningarefnis.“

Við þetta hef ég þrennt að athuga. Í fyrsta lagið að hugtakið „lífsskoðun“ er hvergi skilgreint. Er vísindahyggja lífsskoðun? Er það brot gegn rétti mínum til að ala börn mín upp í þeirri lífsskoðun sem ég kýs að þeim sé innrætt pósitífísk heimsmynd („raunhyggja“ skv. ordabok.is)? Er kennarinn þá orðinn talsmaður lífsskoðunar? Gildir þetta bara um „félög“ um lífsskoðun? Má kennari innræta börnum lífsskoðanir svo framarlega sem þær tengjast engu „félagi“ um trúar- eða lífsskoðunar? Er greinargerð mannréttindaráðs kannski „manifestó“ ákveðinnar lífsskoðunar? Á sú lífsskoðun meira erindi til skólabarna en aðrar?

Í öðru lagi fæ ég ekki betur séð en að tal um dreifingu trúarrita beinist gegn einu ákveðnu félagi, Gídeonfélaginu, sem áratugum saman hefur dreift Nýja testamentinu til tíu ára barna í skólum. Væntanlega hafa allir sem standa að þessum tillögum fengið Nýja testamentið að gjöf þegar þeir voru tíu ára. Sú gjöf virðist ekki hafa gert þá kristnari en svo að nú vilja þeir banna þetta. Í raun ættu trúleysingjar að fagna starfi Gídeonfélagsins því Íslendingar hafa aldrei verið trúlausari en einmitt núna, eftir að Gídeonfélagar hafa haft óheft aðgengi að æsku landsins í 65 ár.

Í þriðja lagi finnst mér einkennileg þversögn felast í því að banna það, sem enginn hefur mér vitanlega gert hingað til en er stórsnjöll hugmynd, að gefa börnum Kóraninn í íslenskri þýðingu, í sama plaggi og fullyrt er: „Réttindum innflytjenda hefur verið sinnt af alúð meðal annars í samstarfi við félagasamtök.“ Mér er óskiljanlegt að það geti á einhvern hátt stuðlað að auknu jafnrétti trúar- og lífsskoðana að tekið sé fyrir að börnum séu gefnar heimsbókmenntir á borð við Kóraninn. Það stuðlar áreiðanlega ekki að auknu læsi eða viðsýni. Víðsýni er afrakstur upplýsingar, ekki skorts á henni.

2. Í tillögunum segir: „Ferðir í bænahús trúar- og lífsskoðunarfélaga, bænahald, sálmasöngur og listsköpun í trúarlegum tilgangi er hluti af trúaruppeldi foreldra en ekki hlutverk starfsmanna borgarinnar. Slík starfsemi á ekki heima í starfi með börnum í opinberum skólum. Kirkjuferðir skulu ekki farnar á starfstíma frístundaheimila og leik- og grunnskóla.“ Segja má að lykilorðin hér séu „í trúarlegum tilgangi“ – að sá varnagli sé ekki bara sleginn við sálmasöng og listsköpun heldur ferðum í bænahús trúar- og lífsskoðunarfélaga. Það megi m. ö. o. fara í kirkju, bara ekki í trúarlegum tilgangi. Næsta setning á eftir virðist þó útiloka þann skilning.

Í fyrsta lagi myndi þetta stangast á við aðalanámsskrá grunnskóla þar sem lögð er áhersla á vettvangsferðir í kennslu. Félag kennarra í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræðum (FÉKKST) telur að þetta „feli í sér skerðingu á möguleikum kennara í trúarbragðafræði til að beita fjölbreyttum kennsluháttum. Slíkar vettvangsferðir eru vænlegur kostur til að dýpka skilning nemenda á ákveðnum viðfangsefnum og þjóna þeim tilgangi að kynna fyrir þeim hlutverk og innviði þessara bygginga, trúartákn sem þar er að finna og skipulag. Umrædd fræðsla hefur ekkert með trú nemandans að gera. Þvert á móti er verið að efla víðsýni nemenda og leitast við að fyrirbyggja fordóma.“ FÉKKST er fagfélag innan Kennarasambands Íslands og eitt af meginmarkmiðum félagsins er að gæta hlutleysis og hlúa að greininni á faglegan hátt. Félagið er með öllu hafið yfir ásakanir um trúboð í skólum.

Í öðru lagi tel ég það hljóti að hefta alla kennslu í listum og þroskun sköpunargáfu nemenda að „listsköpun í trúarlegum tilgangi“ sé úthýst. Hvað er átt við með því? Verður amast við myndum af Jesúbarninu í jólaföndri? Er það ekki trúarlegur tilgangur? Mega bara trúlausu börnin gera Jesúmyndir því þá er pottþétt að tilgangurinn sé ekki trúarlegur? Má ekki setja nemendum það verkefni að tjá trú sína eða lífsskoðun í listaverki? Hvað með listaverk sem tjá óhefta vísinda- og raunhyggju? Er tilgangur þeirra ekki trúarlegur? Má tjá trúlausa lífsskoðun í list, en ekki trúaða? Er það jafnrétti trúar- og lífsskoðana?

Í þriðja lagi vil ég benda á – og það er ekki útúrsnúningur heldur bókstaflegur skilningur þessara tillagna – að með þessu er öllu höfundarverki stórkostlegasta tónskálds sögunnar, Jóhannesar Sebastíans Bachs úthýst úr tónlistarkennslu á vegum borgarinnar. Öll hans verk eru trúarleg og samin „í trúarlegum tilgangi“. Reyndar er hann oft kallaður „fimmti guðspjallamaðurinn“ einmitt vegna þess. Eða gildir það sama um Bach og Jesúbarnið, verður hann frátekinn fyrir trúleysingjana? Eða verður hann leyfður en þess stranglega gætt að enginn freistist til að leika hann í trúarlegum tilgangi? Merking orðasambandsins „trúarlegur tilgangur“ er einfaldlega allt of opin og víð til að það sé nothæft í þessu samhengi.

3. Í tillögunum segir: „Þess skal sérstaklega getið að ekki er verið að hrófla við öðrum jólaundirbúningi leik- og grunnskóla.“ Það er óneitanlega kyndugt að lesa þessa setningu beint á eftir því sem að framan er nefnt. Hver er annar jólaundirbúningur? Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvað átt er við með því. Er kannski átt við jólaundirbúning sem ekki er trúarlegur, heldur gengur út á að jólin séu fyrst og fremst sólstöðuhátíð, eins og ásatrúarmenn gera. En nú er Ásatrú ... jæja.

Helgileikir hljóta að flokkast undir „listsköpun í trúarlegum tilgangi“. Þeim er þá úthýst. „Heims um ból“ og „Bjart er yfir Betlehem“ eru sálmar (nr. 82 og 80 í Sálmabók Þjóðkirkjunnar) og eiga því ekki heima í jólaundirbúningi. Hvað með „Adam átti syni sjö“?

Ég ætla ekki að hætta mér út á þá braut að gagnrýna að í tillögunum skuli því „beint til stofnana borgarinnar sem hafa starfandi áfallaráð að tryggt sé að fagaðilar komi að sálrænum áföllum í stað þess að leitað sé til trúar- eða lífsskoðunarfélaga.“ Ég held að best sé að „fagaðilarnir“ sem hér er átt við meti það á faglegum forsendum hvort liðsinni presta sé æskilegt eða ekki við hverjar kringumstæður. Reyndar kæmi það mér á óvart ef fólk með sérfræðiþekkingu á sorg og sorgarviðbrögðum, huggun og líkn bæðist undan því að prestar tækju þátt í áfallahjálp. Víðast hvar þar sem áfallateymi eru starfandi sitja prestar í þeim. Ég veit ekki til þess að reynslan af því sé hræðileg.

En ég geri mér líka ósköp vel grein fyrir því að grunnmenntun presta, þ. e. kandídats- eða meistarpróf í guðfræði frá Háskóla Íslands, er engan veginn ítarleg sérmenntun á sviði sálgæslu eða áfallahjálpar. Á hitt ber þó að líta að fáir starfa meira að þessum málum en einmitt prestar, þannig að á vissan hátt finnst mér talað fjarskalega niðrandi um kærleiksþjónustu þeirra með því að fullyrða að þeir séu ekki „fagaðilar“ í þessum málaflokki. Hvað gerir mann að „fagaðila“ annað en fag hans? Ég fullyrði að allir sem hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að sitja kúrsa í sálgæslu hjá sjúkrahúsprestunum okkar hafi orðið betri menn á eftir og margir hafa í kjölfarið aflað sér dýrmætrar framhaldsmenntunar á þessu sviði. Og þegar upp er staðið þá eru verkfæri manna við sálusorgun ekki guðfræði og kenningar, játningar og dogmatík, hvort sem menn hafa þekkingu á þessu eða ekki, heldur kærleiksrík návist. Allt annað er skilið eftir úti á götu áður en gengið er inn í sorgarhús.

Á heildina litið efast ég ekki um að tillögum þessum sé ætlað að stuðla að jafnrétti trúar- og lífsskoðana. Ég held bara að þær séu vanhugsaðar og muni því ekki ná því markmiði sínu. Ég held að til að stuðla að víðsýni og umburðarlyndi sé vænlegra að opna faðminn en loka honum. Og það er umhugsunarefni hve einstaklega vel þessar tillögur falla að lífsskoðunum lífsskoðunarfélagsins Siðmenntar, en varaformaður þess á einmitt sæti í mannréttindaráði Reykjavíkur. Mörgum finnast viðbrögð kirkjunnar manna ofsafengin, en skyldi Siðmennt hafa brugðist við með minni ofsa ef tillögur mannréttindaráðs hefðu fallið svona saumlaust að kristnum lífsskoðunum?

Loks hvarflar ekki að mér að Guði stafi nein hætta af þessum tillögum. Gamansaga ein segir frá því að trúleysisráð sovéska kommúnistaflokksins hafi einhverju sinni komið saman og verið gjörsamlega ráðþrota gagnvart því hve illa gengi að útrýma trúnni, jafnvel þótt prestarnir væru allir komnir í Gúlagið og kirkjurnar orðnar að kartöflugeymslum. Í örvæntingu sinni ákváðu þeir að senda nefnd til Svíþjóðar til að komast að því hvernig Svíarnir fóru að þessu.

Reynslan sýnir nefnilega að guðlaust ríkisvald er alls ekki versti óvinur trúarinnar. Steingeld og steinrunninn, ófrjó og værukær ríkiskirkja er miklu hættulegri. Kristnir Íslendingar standa í rauninni í þakkarskuld við mannréttindaráð Reykjavíkurborgar fyrir að ýta svona rækilega við henni.

mánudagur, október 18, 2010

Hvatt til dáða

Viðbrögð við miður æskilegri og óþægilega sýnilegri nýbreytni í íslenskri stjórnmálaflóru 4. október 2010.

Landið út við ysta sæ

oft er súrt að gista,

en bölvað ástand bætir æ

að berja nýnasista.

Unun veitir, ætla ég,

sem alldjúpt muni rista

og fráleitt vera leiðinleg,

að lemja nýnasista.

Svona lagað svínarí

er svívirða að vista.

Byrjum þegar bernsku í

að banka nýnasista

Hýða má og hæða hvasst,

höggva í spað og kvista,

bæði klípa, bíta fast

og buffa nýnasista.

Allir þeir sem yndi sjá

í ýmsum fögrum listum

láti ekki líða hjá

að lumbra á nýnasistum.

Íslendingur, af þér slen

ættir þú að hrista.

Engin list er ljúfari en

að lemstra nýnasista.

Frá því merlar morgundögg

uns myrkva fer og frysta

látum dynja hnefahögg

á hausum nýnasista.

Svo við getum sofið rótt,

sæl við hafið ysta,

verum dugleg dag og nótt

að dangla í nýnasista

Í víti senda vonda skal

veginn allra stysta.

Ég mana því hvern mætan hal

að mauka nýnasista.

Þar til bera burtu þarf

bjánana í kistum,

það sé landans líf og starf

að lúskra á nýnasistum.

mánudagur, október 04, 2010

Orð

Ég hef yndi af orðum. Þau hafa persónuleika. Það er eins og sum orð beinlínis iði af lífi; „keikur“, „dillandi“, „kotroskinn“, á meðan önnur nánast lúta höfði í hljóðri auðmýkt; „náð“, „andvari“, „hógvær“. Sum orð eru þess eðlis að maður finnur næstum því ilminn og sér safann drjúpa af þeim; „þrunginn“, „höfgi“, „hrynjandi“. Og svo eru til orð sem eru jafnsafarík og þerripappír og með jafnspennandi persónuleika og rotnandi hræ. Þessi orð er einkum að finna í lagamáli og viðskiptum; „vaxtaálag“, „veðbókarvottorð“, „grunngjald“.
Fyrir allmörgum árum hugðist ég í fyrsta sinn festa kaup á fasteign. Mitt fyrsta verk í því augnamiði var að fara á fund ráðgjafa í banka og fá hjá honum upplýsingar um ferlið sem slík kaup færu eftir. Ekki hafði blessaður ráðgjafinn talað lengi þegar mér varð lífsins ómögulegt að halda einbeitingunni, ég sá hann hreyfa varirnar og heyrði óminn af rödd hans en orðin urðu að formlausum klið og fyrir eyrum mér var eins og hljómaði salsatónlist úr fjarska. Það varð því ekkert úr kaupum í það sinnið.
Síðan hef ég að vísu tekið mig á. Þótt ég segi sjálfur frá þá tekst mér sífellt skár að kynna mér eitt og annað misleiðinlegt og setja mig inn í málefni sem ég hef engan áhuga á en neyðist til að vera þokkalega samræðuhæfur um. Að verulegu leyti má eflaust þakka þetta hruninu, en það virðist hafa orskast af því að helstu hákarlar samfélagsins á sviði, sem mér var ekki aðeins lokuð bók heldur, hefði ég fengið að ráða, tætt, brennd og grafin bók, reyndust þegar til kastanna kom aðeins sandsíli með úttútnaða sjálfsmynd.
Öll mín viðleitni til að ráða bót á athyglisbrestinum, sem gagntekur mig þegar ég heyri of mörg þurrpumpuleg, marflöt og sálarlaus orð í sömu setningunni, má sín þó lítils þegar umræður um aðild að Evrópusambandinu eru annars vegar. Þegar ég heyri helstu spekinga þjóðarinnar tjá sig um hana til eða frá lendi ég fyrr eða síðar í sömu stöðu og í bankanum forðum daga. Ég heyri óm orðanna sem óljósan undirleik við salsatónlist úr fjarska.
Ég neyðist því sennilega til að byggja afstöðu mína til aðildar, þegar þar að kemur, á öðru en raunmerkingu orðavaðalsins. Hvort er líklegra að hafi rétt fyrir sér um það sem varðar heill og hamingju lands og þjóðar, Jóhanna Sigurðardóttir eða Davíð Oddsson? Þeirri spurningu er, að mínu mati, auðsvarað.

mánudagur, september 20, 2010

Úrelt lög

Nú á að draga nokkra fyrrum ráðamenn þjóðarinnar fyrir landsdóm vegna óstjórnar þeirra sem varð til þess að íslenskt efnahagkerfi hrundi til grunna. Spurningin snýst um það hvort himinhrópandi getuleysi þeirra til að inna störf sín af hendi á bærilega sómasamlegan hátt hafi verið glæpsamlegt eða bara aumkvunarvert. Um þetta sýnist þó sitt hverjum. Lögin um landsdóm munu þannig vera úrelt, enda meira en hundrað ára gömul.

Þetta þykja mér slæmar fréttir. Ekki endilega af því að það þýðir að þjóðin hefur þá engin úrræði til að draga jólasveinana, sem hún asnast til að treysta fyrir velferð sinni, til ábyrgðar þegar allt fer til andskotans á meðan þeir eru að bora í nefið. Nei, áhyggjur mínar stafa miklu fremur af því að við höfum þá ekki heldur nein úrræði til að koma lögum yfir þjófa, morðingja, ofbeldismenn og nauðgara. Lögin sem taka á öllu þessu eru mun eldri en lög um landsdóm. Þannig gerðist það strax á þrettándu öld fyrir Krist, þ.e. seint á bronsöld, að maður nokkur kom niður af fjalli með lög þar sem m.a. sagði: „Þú skalt ekki mann deyða.“ Þessi lög voru víst orðin úrelt á tólftu öld fyrir Krist. Síðastliðin 3000 ár hefur morðingjum því verið refsað á forsendum úreltra lagaákvæða.

Þetta er auðvitað útúrsnúningur. Sum lög falla einfaldlega ekki úr gildi. Aftur á móti hefur mælikvarðinn á það hvaða lög eru eilíf og hvaða lög hafa endingartíma á við niðursuðudós aldrei verið gerður opinber, mér vitanlega. Einna helst er eins og hann sé einvörðu fólginn í tíðarandanum og stemningunni í þjóðfélaginu hverju sinni. Ef okkur finnst lög asnaleg hljóta þau að vera úrelt, en ekki ef okkur finnst þau „meika sens“. En af hverju erum við þá með lög, af hverju förum við ekki bara eftir því sem okkur „finnst“ í hverju og einu máli? Svarið við því er að strax á 13. öld f. Kr. var reynslan af því orðin svo slæm að lög voru sett og öll siðuð þjóðfélög hafa í grundvallaratariðum haldið sig við það fyrirkomulag æ síðan.

Við getum haft mismunandi skoðanir á lögum. Sum lög ber að endurskoða í ljósi reynslunnar og þróunar í viðhorfum, m.a. til mannréttinda og samfélagslegrar ábyrgðar einstaklinga. Önnur lög þarf einfaldlega að nema úr gildi. En þangað til það er gert eru þau lög. Lög, sem ekki hafa verið numin úr gildi, eru í gildi – sama hve asnaleg okkur kann að þykja þau.

fimmtudagur, september 09, 2010

Skriftir lútherskra

Í umfjöllun undanfarinna daga um trúnaðarskyldu presta hefur sá misskilningur komið fram í ræðu og riti að lútherskir menn skrifti ekki. Þetta byggir á því að Lúther leit ekki á skriftir sem sakramenti. Það þýðir þó ekki að hann hafi afnumið þær. Lúther var reyndar ákaflega hlynntur skriftum. Í riti sínu um Babýlónarherleiðingu kirkjunnar byrjar hann á að flokka þær með sakramentum, en talar sig síðan frá því þar sem hið ytra tákn skorti. Lúther viðurkenndi því aðeins tvö sakramenti, skírn og kvöldmáltíð. Þar eru hin ytri tákn til staðar, annars vegar vatnið og hins vegar vínið og brauðið.

Lútherskar kirkjur hafa aftur á móti svipt tjaldi tortryggninnar frá skriftunum, þær fara fram án leyndar í trúnaðarsamtali skjólstæðings og sálusorgara. Presturinn mætir skriftabarninu augliti til augtlitis sem jafningja, en er ekki settur í þá stöðu að geta ekki horft í augun á því og í kjölfarið að vita ekki einu sinni við hvern hann talar ef það játar á sig glæpi, sem presti ber samkvæmt landslögum að tilkynna, því annað jafngildi yfirhylmingu eða jafnvel meðsekt. Sömuleiðis samþykkja lútherskir menn ekki bænamál og kirkjurækni sem yfirbótaverk. Guðsþjónusta er ekki verk sem menn vinna sér og öðrum til réttlætingar heldur lofgjörð og þakkargjörð fyrir náð Guðs. Yfirbótaverk felast í því að bæta fyrir brot sín, ekki því að þylja einhverjar romsur í einrúmi.

Í þessari umræðu orðaði einhver það svo að prestar væru „eins konar sálfræðingar“. Að mínu mati væri nær að líkja presti við sjóntækjafræðing. Fyrir nokkru stóð styr um það hvort sjóntækjafræðingar mættu stunda sjónmælingar á fólki. Niðurstaðan var sú að það var leyft. Staðreyndin er nefnilega sú að sá sem þarf gleraugu þarf ekki alltaf á augnlækni að halda. Tímar hjá augnlæknum eru rándýrir og löng bið eftir þeim. Aftur á móti ríður á að sjóntækjafræðingurinn geri sér grein fyrir takmörkum sínum og vísi þeim, sem hann getur ekki hjálpað, á viðeigandi sérfræðing.

Eins þurfa þeir, sem líður illa, ekki alltaf á sálfræðingi að halda. Tímar hjá sálfræðingum eru rándýrir og löng bið eftir þeim. Aftur á móti er presturinn ókeypis og ávallt til þjónustu reiðubúinn. En þá ríður líka á að presturinn geri sér sér grein fyrir takmörkum sínum og vísi þeim, sem hann hefur ekki þekkingu til að veita viðeigandi þjónustu, á sérfræðing.

Bakþankar í Fréttablaðinu 4. 9. 2010.