,,Ef Bensínorkan væri á Höfn þá væri þar meiri samkeppni í sölu á eldsneyti."
Eftirlætisútvarpsauglýsingin mín um þessar mundir. Vitaskuld ársins?
mánudagur, mars 27, 2006
miðvikudagur, mars 22, 2006
Litlir karlar á stórum dekkjum
Fyrir mörgum árum átti ég litla, rauða Mözdu, tvennra dyra bíltík sem ég komst á allra minna ferða, hvert á land sem var í öllum veðrum. Hún klessulá á öllum vegum þegar ég sentist landshluta á milli og á henni gat ég skotist eins og rotta um öngstræti hundraðogeins og lagt henni hvar sem glufa gafst.
Einu sinni þurfti ég að fara austur fyrir fjall um hávetur, átti að skemmta á Hótel Örk í Hveragerði. Það var mikill snjór og óvíst um færð á leiðinni þannig að áður en ég lagði á háheiðina kom ég við í Litlu kaffistofunni til að fræðast um akstursskilyrðin. Þar var mér sagt að verið væri að ryðja veginn og að ef ég dokaði við í 15 – 20 mínútur, fengi mér kaffi og kleinu og læsi blöðin, yrði heiðin mér enginn farartálmi þótt á smábíl væri. Og þá ég það.
Að þessum tíma liðnum, kaffinu drukknu, kleinunni étinni og blöðunum lesnum hélt ég áfram ferð minni. Það vakti athygli mína að á meðan ég staldraði þarna við bar hóp manna að garði sem mér þótti skemmtilegur söfnuður, því þeir áttu það allir sameiginlegt að vera litlir, þybbnir karlar með skalla. Fyrst hélt ég að hér væri einhver stuðningshópur lítilla, sköllóttra bumbukalla á ferð, en þegar ég kom út á planið fyrir utan sá ég hvernig í öllu lá. Á planinu voru jeppar, jafnmargir og karlarnir, allir á dekkjum jafnstórum Mözdunni minni (þ. e. a. s. bifreiðinni sjálfri, ekki dekkjunum undir henni). Ég brosti með sjálfum mér og fór yfir heiðina til Hveragerðis, gjörsamlega vandkvæðalaust, og skemmti fólkinu eins og best ég gat.
Seinna fór ég að velta þessu fyrir mér og reyna að setja það í samhengi. Þá varð mér ljóst hvað er á bak við þessa jeppaáráttu og hvað þessir karlar eru að bæta sér upp. Þessi farartæki eru greinilega fyrir lágvaxna kyrrsetumenn svo þeir komist út úr bænum sitjandi kyrrir. Þeir fara saman í hópum, einn á hverjum bíl, þannig að þeir þurfa að koma við á Litlu kaffistofunni til að fá einhvern félagsskap út úr sportinu. Ég reikna með að þeir hafi komið þar við til að spjalla saman, nema þeim hafi staðið jafnmikill stuggur af færðinni og mér á Mözdunni minni.
Hugsanaferlið á bak við þessa íþrótt er nokkurn veginn svona: "Ég er svo lítill og feitur að ég verð að fá mér eitthvað tómstundagaman til að láta mér líða betur með sjálfan mig. Ég veit! Ég kaupi mér jeppa til að komast allra minna ferða allan ársins hring, svona eins og hver maður getur gert á japönskum smábíl ef hann á annað borð kann að keyra og þarf ekki beinlínis lífsnauðsynlega á því að halda að geta anað út í hvaða ófærð og fárviðri sem er fyrirvaralaust. En ég set á hann svo stór blöðrudekk að ég kemst ekki upp í hann hjálparlaust – til þess að geta keyrt hann þar sem ekki á að keyra bíla, utan vega og uppi á jöklum og svoleiðis. Þetta get ég gert í félagsskap annarra sem vita ekkert skemmtilegra en að sitja einir í bíl. Þannig getum við dúllað okkur við að "vera í samfloti" frekar en að verða samferða og hafa félagsskap hver af öðrum. Skítt með það þótt þannig spænum við upp vegi og land á kostnað samborgaranna og mengum umhverfið margfalt á við það sem þyrfti til að komast á þessa sömu staði, til dæmis fótgangandi. Ef ég gerði það myndi ég kannski hrista af mér spikið og verða myndarlegur og í kjölfarið missa þessa knýjandi þörf fyrir að eiga stóran jeppa."
Ég ætla ekki að þræta fyrir það að þetta eru magnaðir bílar og að í verstu stormunum yfir háveturinn geta þeir verið hentugir fyrir afdalabændur, landsbyggðarlækna og sveitapresta. Aðrir hafa eiginlega ekkert við þá að gera. Jú, það er hægt að fara á þeim upp á jökul í stað þess að gera það á skíðum og þannig lágmarka útvistina og hreyfinguna sem af því fæst og um leið valda heilmiklu raski. Ég las meira að segja um það fyrir nokkrum árum að einhverjum hefði tekist að fara á svona bíl upp á Hvannadalshnjúk. Ferðin tók á annan sólarhring, en þennan spöl er hægt að labba fram og til baka á einum eftirmiðdegi ef maður sleppir því að drösla tveim tonnum af stáli með sér.
Gallinn er að þegar þessir labbakútar húrra á umhverfisslysunum sínum ofan í einhverjar holur uppi á jökli þarf að ræsa út bandaríska herinn til að bjarga lífi þeirra. Að réttlæta Íslandsdvöl þessa stolta kostunaraðila fyrirbæra á borð við Víetnamstríðið, Íraksstríðið og Guantanamo með því að annars væri enginn til að ná þessu liði ofan af jöklinum aftur er einfaldlega út í hött í mínum huga.
Auðvitað geta íbúar hinna dreifðu byggða landsins þurft á skyndilegri læknisaðstoð að halda eða sægarparnir okkar slasast við skyldustörf á hafi úti. Sömuleiðis geta þeir sem stunda heilbrigða útivist lent í hrakningum. En það ætti að mínu mati ekki að vera í verkahring Bandaríkjahers að koma þeim undir læknishendur. Lágvaxnir, gildvaxnir, tekjuháir og hégómlegir kyrrsetumenn í reykvískum úthverfum með kólestrólvandamál og tilvistarkreppu sem knýr þá til að fara sér að voða á fjöllum uppi á tilgangslausum tryllitækjum sem þeir ráða ekkert við eru því máli gjörsamlega óviðkomandi.
fimmtudagur, mars 16, 2006
Hugleiðing um herinn
Okkur herstöðvaandstæðingum á Íslandi hefur undanfarinn áratug eða svo þótt ákveðin kaldhæðni í því fólgin að málstaður okkar skuli hvergi hafa notið jafnmikillar samúðar og í Pentagon. Því er óneitanlega kómískt að horfa upp á viðbrögð íslenskra ráðamanna við því að bandaríski herinn skuli loksins vera búinn að fá sig fullsaddan af því að geyma hér fjórar orustuþotur án vopna, að því er virðist í þeim tilgangi einum að niðurgreiða eðlilegar samgöngur Íslendinga við útlönd. Þetta geta á engan hátt talist óvæntar eða sorglegar fréttir. Hins vegar er sorglegt að í stað þess að fagna því að svo friðvænlegt sé orðið í okkar heimshluta að Bandaríkjamenn treysti sér til að tryggja varnir landsins án þess að hafa vígvélar sínar staðsettar hér á eyjunni skuli ráðamenn reka upp ramakvein og finnast þetta á einhvern hátt óeðlileg framkoma. Það er liðið á annan áratug síðan herinn tilkynnti okkur að hann vildi helst ekki vera hérna lengur. Af tillitssemi við ráðamenn okkar, sem fóru á fund herveldisins og grenjuðu út úr því framlengingu á hersetunni, hefur hann dregið brottflutninginn á langinn þar til núna. Við hverju bjuggust menn? Allt tal um að varnir landsins séu í uppnámi er bull, varnirnar eru afsökun fyrir því þurfa hugsanlega sjálf að standa straum af rekstri flugstöðvar og flugbjörgunarsveitar til að sinna þörfum okkar. Einhvern veginn hefur öllum sem áhyggjur hafa af þessum meintu vörnum landsins mistekist að benda á hvaðan okkur er ætti að vera hætta búin. Helst benda menn á hryðjuverkamenn, jafnvel þessa sem gerðu árás á Pentagon hérna um árið. Fyrst þeim tókst að gera mannskæða árás á sjálfar höfuðstöðvar Bandaríkjahers hef ég það sterklega á tilfinningunni að þeir gætu gert þær árásir sem þá lystir hér á landi hvort sem í Keflavík séu fjórar vopnlausar flugvélar merktar hernum eða ekki. Reyndar hef ég það sterklega á tilfinningunni að hugsanlegum skotmörkum hryðjuverkamanna hérlendis fækki um fjögur eigi síðar en í lok september á þessu ári. Þegar þjóðin loks ber gæfu til að sparka skósveinum stríðsherranna í Washington út úr Stjórnarráði Íslands og það verður ekki lengur enn einn hlekkurinn í keðju bandarískrar heimsvaldastefnu, sem vonandi gerist strax eftir næstu Alþingiskosningar, fækkar þeim um eitt til viðbótar. Einu slæmu fréttirnar við þetta eru þær að bandarískir hermenn sem hingað til hafa haft lítið annað að gera en að vera landi sínu og þjóð til vansa á Ránni fá nú það verkefni að vera landi sínu og þjóð til vansa í Írak. Héldu menn kannski að bandaríski herinn á Keflavíkurvelli væri einhver annar bandarískur her en bandaríski herinn í Abu Grahib?
sunnudagur, mars 12, 2006
Gremja eða skemmtun?
Ég veit ekki alveg hvort ég á að fyllast gremju eða vera skemmt þegar mér er boðið upp á himinhrópandi innbyrðis mótsagnir og ætlast til þess að ég taki þær trúanlegar, eins og til dæmis frasann: framsækinn miðjuflokkur. Halló? Hvernig er það hægt?
sunnudagur, mars 05, 2006
Lítil hugleiðing um listina að sannfæra fólk um ágæti einhvers með því að segja ekkert um það
Ég er mikill aðdáandi sannfæringarkrafts. Sjálfur hef ég í gegn um tíðina öðru hverju staðið mig að því að hafa sannfært sjálfan mig um augljósustu rökleysur með sannfæringarkraftinn einan mér til fulltingis. Sannfæringarkraftur er líka mikilvægur í auglýsingum. Það er ekki nóg að segja að það sem er verið að selja sé gott, það þarf að segja það þannig að engu sé líkara en að þeim sem tali sé það mikið hjartans mál að enginn efist um að svo sé.
Nú er til dæmis verið að auglýsa ameríska bifreiðategund í sjónvarpinu. Ekki ætla ég að draga í efa að þetta sé út af fyrir sig ágætisbíll og vissulega heyrir maður ekki betur en að lesarinn sé sannfærður um að svo sé þegar hann segir: "Einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki í Bandaríkjunum!" Ég held að ég hafi þurft að heyra þessa auglýsingu tíu sinnum þegar ég hætti að heyra hvernig þetta var sagt og fór að heyra hvað var sagt. Þetta er nefnilega alveg skelfilega veik fullyrðing þegar orðin ein eru skoðuð. Hvað er í raun verið að segja mér?
Í fyrsta lagi að þetta er ekki vinsælasti bíllinn neins staðar, hvorki Bandaríkjunum né annars staðar ... aðeins að þetta sé "einn vinsælasti" bíllinn. Hvað þýðir það nákvæmlega? Sjá fjórði vinsælasti? Einn af hundrað vinsælustu?
Í öðru lagi er ekki einu sinni fullyrti að þetta sé einn vinsælasti bíllinn svona almennt heldur einungis "í sínum flokki". Hvaða flokkur er það? Eru það bílar af svipaðri stærð? Bílar í svipuðum verðflokki? Bílar af svipaðri stærð í svipuðum verðflokki? Amerískir bílar í svipaðri stærð og á svipuðu verði? Í ljósi þess að þetta er frekar lítill amerískur bíll getur samkeppnin ekki verið mikil.
Í þriðja lagi er þetta ekki einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki, hver sem hann svosem er, neins staðar annars staðar en "í Bandaríkjunum" – þar sem hann er framleiddur. Þetta er ekki "einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki" ... punktur. Nei, það þarf að þrengja það niður í framleiðslulandið eitt til að þessi veika fullyrðing eigi við rök að styðjast.
Fyrirvarinn er í raun orðinn þrefaldur! Þegar að er gáð segir yfirlýsingin: "Einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki í Bandaríkjunum" nefnilega ekkert annað en: "Sumir aka um á svona bíl í landinu þar sem hann er framleiddur!" En það myndi náttúrlega enginn kaupa bíl sem ekki hefur neitt annað sér til ágætis en það, sama hvað það væri sagt af miklum sannfæringarkrafti.
Nú er til dæmis verið að auglýsa ameríska bifreiðategund í sjónvarpinu. Ekki ætla ég að draga í efa að þetta sé út af fyrir sig ágætisbíll og vissulega heyrir maður ekki betur en að lesarinn sé sannfærður um að svo sé þegar hann segir: "Einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki í Bandaríkjunum!" Ég held að ég hafi þurft að heyra þessa auglýsingu tíu sinnum þegar ég hætti að heyra hvernig þetta var sagt og fór að heyra hvað var sagt. Þetta er nefnilega alveg skelfilega veik fullyrðing þegar orðin ein eru skoðuð. Hvað er í raun verið að segja mér?
Í fyrsta lagi að þetta er ekki vinsælasti bíllinn neins staðar, hvorki Bandaríkjunum né annars staðar ... aðeins að þetta sé "einn vinsælasti" bíllinn. Hvað þýðir það nákvæmlega? Sjá fjórði vinsælasti? Einn af hundrað vinsælustu?
Í öðru lagi er ekki einu sinni fullyrti að þetta sé einn vinsælasti bíllinn svona almennt heldur einungis "í sínum flokki". Hvaða flokkur er það? Eru það bílar af svipaðri stærð? Bílar í svipuðum verðflokki? Bílar af svipaðri stærð í svipuðum verðflokki? Amerískir bílar í svipaðri stærð og á svipuðu verði? Í ljósi þess að þetta er frekar lítill amerískur bíll getur samkeppnin ekki verið mikil.
Í þriðja lagi er þetta ekki einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki, hver sem hann svosem er, neins staðar annars staðar en "í Bandaríkjunum" – þar sem hann er framleiddur. Þetta er ekki "einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki" ... punktur. Nei, það þarf að þrengja það niður í framleiðslulandið eitt til að þessi veika fullyrðing eigi við rök að styðjast.
Fyrirvarinn er í raun orðinn þrefaldur! Þegar að er gáð segir yfirlýsingin: "Einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki í Bandaríkjunum" nefnilega ekkert annað en: "Sumir aka um á svona bíl í landinu þar sem hann er framleiddur!" En það myndi náttúrlega enginn kaupa bíl sem ekki hefur neitt annað sér til ágætis en það, sama hvað það væri sagt af miklum sannfæringarkrafti.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)