mánudagur, desember 21, 2009

Költ

Nú í vikunni var trúarhópur með sérstakan áhuga á kynlífi til umfjöllunar í fjölmiðlum. Einn fulltrúi Siðmenntar sagði hópinn „hvert annað költ“. Ummælin endurspegla ákveðna vanþekkingu á hugtakinu „költ“. Í umræðunni virðist það aðeins hafa neikvæða merkingu og vera notað um hvaða sértrúarhóp sem er, fyrirbæri sem réttara væri að nefna „sect“.
Þeir sem einkum henda költ-hugtakið á lofti í þessari populísku æsiblaðamerkingu eru fyrst og fremst ýmsir „antí-költískir“ hópar, jafnan drifinir áfram af trúar- eða vantrúarofstæki. Það fyndna er að þessir hópar hafa einmitt sjálfir öll helstu einkenni „secta“. Þar má nefna ósveigjanlega hugmyndafræði og neikvæða afstöðu til umheimsins. Þeir sem aðhyllast aðrar skoðanir hafa einfaldlega rangt fyrir sér og eiga ekkert erindi inn í hópinn. Ekkert svigrúm er fyrir ólíkar eða frjálslegar túlkanir á sannleikanum sem hópurinn aðhyllist.
Í seinni tíð hefur þótt vænlegast að skilgreina trú út frá viðfangsefni sínu, hinstu rökum tilverunnar. Þannig er trú hvert það hugmyndakerfi sem býður svör við spurningum, sem eðli sínu samkvæmt verður ekki svarað á óyggjandi hátt með aðferðum vísindanna. Það að spurningunni er svarað skilgreinir trúna, ekki það hvort svarið er já eða nei. Trú þarf því ekki að beinast að verufræðilegu fyrirbæri eins og hinum gyðing-kristna og íslamska guði. Slík skilgreining næði ekki yfir búddisma eða önnur guðlaus trúarbrögð.
Í akademískri félagsfræði hefur hugtakið „költ“ mun opnari merkingu og varla trúarlega. Költi má líkja við hlaðborð hugmynda um andleg efni, sem gjarnan kunna þó að eiga sér trúarlegar rætur, þ.e. veita svör við hinum hinstu spurningum. Af þessu hlaðborði velur síðan hver einstaklingur fyrir sig á sínum eigin (költísku) forsendum það sem hentar honum, án þess að því fylgi afdráttarlaus hollusta við eða óbilandi trú á eina lífsskoðun umfram aðra.
Þannig mætti t.d. tala um jóga-költ. Þá er átt við að fjöldi fólks af öllum trúarbrögðum og engum iðkar jóga sér til andlegrar og líkamlegrar heilsubótar og það nær ekkert lengra, þótt hugmyndafræði jóga byggi á hindúískum mannskilningi og heimsmynd. Sömuleiðis mætti tala um nýaldarköltið sem naut vinsælda á síðasta áratug, hippaköltið sem átti sitt blómaskeið nokkru fyrr og, já, líka siðmenntarköltið sem um þessar mundir virðist vera í blóma.
Bakþankar í Fréttablaðinu 19. 12. 2009

mánudagur, desember 07, 2009

Þú ert aldrei einn á ferð

Helgi eina í byrjun október áttum við hjónaleysin erindi austur á Egilsstaði. Illu heilli brast þó á með óveðri á föstudeginum og um kaffileytið varð ljóst að ekkert yrði úr flugi. Þar sem erindið var brýnt ákváðum við að keyra austur, enda á þokkalega útbúnum fólksbíl með fjórhjóladrifi. Við lögðum af stað um fimmleytið og gerðum ráð fyrir að ná áfangastað um tvöleytið um nóttina. Norðurleiðin varð fyrir valinu, því veðurofsinn var mestur á sunnanverðu landinu.
Í fyrstu gekk ferðin að óskum. Hálkublettir og skafrenningur á Holtavörðu- og Öxnadalsheiði voru lítil fyrirstaða fyrir okkar ágæta fjölskyldubíl. Síðasti áfanginn, Möðrudalsöræfi og Jökuldalsheiði, átti að vera skástur samkvæmt upplýsingasíma Vegagerðarinnar. Þar var þó slíkt snjófjúk að á löngum köflum sáum við aðeins eina stiku fram fyrir okkur þótt vegurinn væri auður. Við ókum því löturhægt.
Skyndilega rann bíllinn til og áður en ég fékk rönd við reist sat hann fastur. Nánari athugun leiddi í ljós að á u.þ.b. tíu metra kafla hafði skafið í hnédjúpan skafl þvert yfir veginn, sennilega vegna þess að til beggja handa voru vegrið sem safnað höfðu snjó á milli sín. Þarna sannaðist hið fornkveðna að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Einn skafl nægir til að leiðin á milli Akureyrar og Egilsstaða sé ófær.
Nú var úr vöndu að ráða. Ekkert þýddi að ýta bílnum. Við vorum pikkföst í skafli uppi á heiði í svartamyrkri um hánótt og höfðum ekki orðið vör mannaferða síðan á Mývatni. Farsíminn kom okkur til bjargar. Hringt var í 112 þar sem við fengum samband við lögregluna á Egilsstöðum. Við höfðum verið það forsjál að núllstilla kílómetramælinn á Akureyri og gátum því gefið upp nokkuð nákvæma staðarákvörðun. Tæpum hálftíma síðar birtist bóndi af nálægum bæ eins og frelsandi engill á fjallajeppa og kippti okkur yfir hindrunina.
Því er ég að deila þessu með ykkur að mér finnst ekki vanþörf á að minna á að um allt land er gott fólk, sem lætur sig ekki muna um að vera dregið fram úr hlýju rúminu um hánótt til að fara út í frost og fjúk til aðstoðar kjánum eins og mér, sem asnast til að ofmeta eigin getu og sýna þeim óblíðu skilyrðum, sem landið okkar gerir okkur að búa við og ferðast í, ekki tilhlýðilega virðingu.
Hafi það allt Guðs þökk fyrir, ekki síst bóndinn á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal.
Bakþankar í Fréttablaðinu 5. desember 2009