þriðjudagur, ágúst 24, 2010

Habbðu vet ...

Ömmur mínar voru afar ólíkar. Önnur var fín frú í Reykjavík sem átti það til að fornemast ógurlega, en sjálf gætti hún þess að sénera aldrei nokkurn mann. Amma í sveitinni fæddist aftur á móti á Fljótsdalshéraði aldamótaárið 1900 og átti það til að fussa og sveia yfir því sem henni fannst lítið vet. Afi í sveitinni, sem alist hafði upp á Barðaströndinni, habbði hins vegar litlar áhyggur og saggði mér oft sögur.
Um allt þetta fólk þótti mér og þykir enn óskaplega vænt þótt það sé nú farið yfir móðuna miklu. Óaðskiljanlegur hluti minningar þeirra og persónu var talsmáti þeirra, orðaforði og málsnið. Ég held að það hafi gert mér gott að alast upp við ólíkan framburð og málfar kynslóða sem nú hafa kvatt. Ég tel það hafa skerpt og eflt tilfinningu mína fyrir móðurmáli mínu. Það eitt að á Hringbrautinni var farið niður á milli hæða en á Stóru-Fellsöxl var farið ofan, varð mér ungum tilefni til heilabrota.
Í síðustu tveim pistlum mínum hef ég ráðist harkalega á norðlenskan framburð, kallað hann hljóðvillu og fært sýndarrök fyrir því að hann sé rangur. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Fullyrt var að norðlenskur framburður væri fallegur og festulegur, eins og fegurð og festuleiki geti ekki verið smekksatriði, og að hann sé réttur. Og af hverju er hann réttari en annar? Jú, af því að gömul kona úr Eyjafirði talaði þannig. Eru ömmur þá aðeins marktækur mælikvarði á fegurð og réttmæti íslenskuframburðar ef barnabörnin þeirra heita Valgerður, en ekki ef þau heita Davíð?
Sjálfur er ég af suðvesturhorninu og eðlilegur talandi minn ber þess vott. Gamlir karlar og kerlingar hafa hiklaust kallað hann rangan og ljótan í mín eyru, eins og það sé enginn dónaskapur. Það var því gaman að fylgjast með viðbrögðum þeirra þegar þau urðu sjálf fyrir barðinu á nákvæmlega sama hroka og yfirlæti og þau hafa alist upp við að eðlilegt sé að sýna því hvernig öðrum er eiginlegt að tala móðurmál sitt. Þeim sem hafa norðlenskan framburð virðist nefnilega hafa verið innrætt það frá frumbernsku að þeir tali fallegra og betra mál en aðrir. Fyrir því hafa þeir þó engin rök, aðeins einhverja hjartans sannfæringu.
Staðreyndin er sú að allar ömmur tala hljómfagra og litríka íslensku, ekki bara eyfirskar, heldur líka ömmur að austan og vestan. Já, og líka ömmur sem töluðu dönskuskotna reykvísku.
Bakþankar í Fréttablaðinu 21. 8.2010

mánudagur, ágúst 16, 2010

Norðlenska hljóðvillan II

Í síðasta pistli fjallaði ég lítillega um norðlensku hljóðvilluna og mikilvægi þess að sporna við henni. Ég staldraði einkum við annað megineinkenni hennar, röddun nef- og hliðarhljóða á undan fráblásnum lokhljóðum í orðum eins og „stúlka“, „pumpa“ og „fantur“ og útskýrði af hverju hún væri röng. Nú ætla ég að taka hitt megineinkennið fyrir, óeðlilegan stafsetningarframburð fráblásinna lokhljóða sem standa á milli tveggja sérhljóða í orðum eins og „poki“, „bátur“ og „pípa“.

Þessi framburður er gjarnan réttlætur með því að svona séu orðin skrifuð. Þá er gengið út frá því að stafsetning orða ráði öllu um framburð þeirra. Þetta er reginfirra. Hljóðfræði tungunnar vegur auðvitað mun þyngra. Um þetta bera orð eins og „tafla“ og „negldi“ vitni. Jafnvel þeir sem af mestu offorsi spýta út úr sér p, t og k bera þau ekki fram eins og þau eru stafsett.

Það er algild framburðarregla í íslensku að sérhljóð sem ramma af samhljóða veikja framburð þeirra. Þannig ber enginn orðið „afi“ fram eins og það er stafsett, sérhljóðin veikja f svo það er borið fram eins og v. Þetta veldur engum misskilningi, þrátt fyrir allar stafsetningarreglur. Enginn ruglar saman orðunum „pabbi“ og „pappi“, ekki einu sinni „pappi“ og „papi“. Lengd sérhljóðanna ræður úrslitum, ekki áherslan á samhljóðið. Enginn ber orðið „hagi“ fram með lokhljóði, eins og eðlilegt er að bera fram orðið „haki“. Sérhljóðin, sitt hvorum megin við g, gera það að önghljóði. Væri rétt að bera fram orðið „poki“ með norðlenskri áherslu á k hlyti því einnig að vera rétt að bera fram f í „afi“.

Þannig stenst norðlenska hljóðvillan ekki sín eigin rök, fyrir utan hið augljósa lýti sem að því er að skyrpa út úr sér málhljóðunum af slíkum þrótti að opinn eldur flöktir í námunda og hárið blaktir á viðmælandanum. Þess vegna ber okkur að efla til almennrar vitundarvakningar og skera upp herör gegn þessari úrkynjun tungumálsins. Byrja mætti á því að ráða ekki fólk, sem svona talar, til starfa á ljósvakamiðlum – enda um alvarlegan talgalla að ræða.

Réttur framburður er stundum kallaður „latmælgi“ af fólki sem ræður ekki við hann. Þetta er algert rangnefni. Fólk brennir ekki hitaeiningum með hljóðfræðilegum þjösnaskap. Komi leti málinu við er hún andleg og í því fólgin að nenna ekki að temja sér sáraeinfaldar, algildar framburðarreglur.