Fyrir nokkrum árum þýddi ég sjónvarpsþætti sem hétu Otrabörnin (PB&J Otter). Þættirnir fjölluðu um þrjú systkin sem bjuggu við Húrravatn (Lake Hoohaw) og ævintýri þeirra og vina þeirra. Þættirnir höfðu uppeldislegt gildi og í þeim var mikið sungið, tvö lög voru í hverjum þætti. Þættirnir voru 65 talsins þannig að auðvelt er að reikna það út að í þeim voru 130 sönglög sem ég þurfti að gera texta við. Sæmilegt það.
Þegar maður er á tímakaupi við að yrkja 130 söngtexta verður maður stundum að hugsa „þetta er fínt fyrir þennan pening“, rumpa þessu af og halda áfram með vinnuna. Ég hugsaði ennfremur á erfiðustu köflunum: „Ólafur Haukur myndi ekki hika við að senda þetta frá sér.“ En meðal þess ólýsanlega amböguhroða sem hann hefur látið frá sér fara má nefna: „Við steypumst beint úr lofti / eins og helekopti ...“ Í öllum þessum 130 söngtextum gerði ég aldrei neitt svona skelfilega slæmt. Ólafur hefur að vísu þann status að hjá honum heitir þetta „persónulegur stíll“.
Þessum textum mínum er ég hins vegar búinn að steingleyma öllum með tölu, nema hluta af einum þeirra. Það er af því að ég er svo óánægður með hann. Hann er við lag sem á frummálinu hét: „Blowing Bubbles“. Í þeim þætti voru börnin að blása sápukúlur. Ég orti: „Blásum saman sápukúlur / upp um alla veggi og súlur.“ – sem auðvitað er mér alls ekki samboðið. En það er bara enginn hægðarleikur að finna rímorð við „sápukúlur“. Gallinn er bara að við Húrravatn er ekki ein einasta súla til að blása sápukúlur „upp um“. Þetta myndi ekki bögga Ólaf Hauk en er enn að naga mig.
Þess vegna langar mig að biðja alla vini mína og velunnara að temja sér að segja „upp um alla veggi og súlur“ hvenær sem færi gefst. Í þarsíðasta bloggi mínu kom ég þessum orðum lævíslega fyrir í textanum þannig að þið getið séð það sjálf að þetta er ekkert mjög erfitt ef maður reynir að gera sér far um það. Næst þegar þið ætlið að segja „út um allt“, eða „í stöflum“ eða „í massavís“ gætuð þið sagt „upp um alla veggi og súlur“.
Þannig er hægt að lauma þessu inn í málið og fyrir vikið hljómar það ekki eins afkáralega þegar sagnfræðingar framtíðarinnar fara að garfa í þessu. Þeir hugsa ekki: „Rosalega er þetta klúðursleg þýðing hjá honum,“ heldur: „Þarna hefur þýðandinn haganlega komið hinu þekkta orðasambandi „upp um alla veggi og súlur“ fyrir í textanum.“ Með þessu móti geta allir sem þykir vænt um mig lagst á eitt um að bjarga mannorði mínu gagnvart komandi kynslóðum og um leið auðgað daglegt talmál sitt.
Með fyrirfram þakklæti fyrir hjálpina.
Þegar maður er á tímakaupi við að yrkja 130 söngtexta verður maður stundum að hugsa „þetta er fínt fyrir þennan pening“, rumpa þessu af og halda áfram með vinnuna. Ég hugsaði ennfremur á erfiðustu köflunum: „Ólafur Haukur myndi ekki hika við að senda þetta frá sér.“ En meðal þess ólýsanlega amböguhroða sem hann hefur látið frá sér fara má nefna: „Við steypumst beint úr lofti / eins og helekopti ...“ Í öllum þessum 130 söngtextum gerði ég aldrei neitt svona skelfilega slæmt. Ólafur hefur að vísu þann status að hjá honum heitir þetta „persónulegur stíll“.
Þessum textum mínum er ég hins vegar búinn að steingleyma öllum með tölu, nema hluta af einum þeirra. Það er af því að ég er svo óánægður með hann. Hann er við lag sem á frummálinu hét: „Blowing Bubbles“. Í þeim þætti voru börnin að blása sápukúlur. Ég orti: „Blásum saman sápukúlur / upp um alla veggi og súlur.“ – sem auðvitað er mér alls ekki samboðið. En það er bara enginn hægðarleikur að finna rímorð við „sápukúlur“. Gallinn er bara að við Húrravatn er ekki ein einasta súla til að blása sápukúlur „upp um“. Þetta myndi ekki bögga Ólaf Hauk en er enn að naga mig.
Þess vegna langar mig að biðja alla vini mína og velunnara að temja sér að segja „upp um alla veggi og súlur“ hvenær sem færi gefst. Í þarsíðasta bloggi mínu kom ég þessum orðum lævíslega fyrir í textanum þannig að þið getið séð það sjálf að þetta er ekkert mjög erfitt ef maður reynir að gera sér far um það. Næst þegar þið ætlið að segja „út um allt“, eða „í stöflum“ eða „í massavís“ gætuð þið sagt „upp um alla veggi og súlur“.
Þannig er hægt að lauma þessu inn í málið og fyrir vikið hljómar það ekki eins afkáralega þegar sagnfræðingar framtíðarinnar fara að garfa í þessu. Þeir hugsa ekki: „Rosalega er þetta klúðursleg þýðing hjá honum,“ heldur: „Þarna hefur þýðandinn haganlega komið hinu þekkta orðasambandi „upp um alla veggi og súlur“ fyrir í textanum.“ Með þessu móti geta allir sem þykir vænt um mig lagst á eitt um að bjarga mannorði mínu gagnvart komandi kynslóðum og um leið auðgað daglegt talmál sitt.
Með fyrirfram þakklæti fyrir hjálpina.