miðvikudagur, janúar 31, 2007

Íslensku tónlistarverðlaunin


Ég ætlaði að horfa á Íslensku tónlistarverðlaunin. Mig langaði að sjá hver yrði valinn textahöfundur ársins. Ég hef nefnilega alveg afskaplega gaman af vel ortum textum. Sú tónlist sem ég alla jafna ber mig eftir á það yfirleitt sameiginlegt að það eru textarnir sem lyfta henni í hæðir. Ég hlusta oftast ekki síður á textana en tónlistina.
Ýmsir góðir textahöfundar hafa fengið þessi verðlaun í gegn um tíðina. Ég hef sjálfur einu sinni verið tilnefndur til þeirra, fyrir þýðingu mína á Hárinu, en það ár vann Andrea Gylfadóttir verðskuldað. Mig minnir að þetta hafi verið árið sem hennar frábæri texti Gott mál sló í gegn.
Hins vegar er ENGINN tilnefndur sem textahöfundur í ár né undanfarin ár. Svo virðist sem þegar þessi hátíð var „öppgreiduð“ og töffuð til á sínum tíma hafi þessi verðlaun verið látin fjúka. Einhvern tímann heyrði ég að það væri af því að þetta væri orðinn slíkur aragrúi af verðlaunum að einhverju hefði þurft að fórna. Og þetta varð úr.
Það skiptir semsagt of miklu máli að verðlauna poppplötu ársins, rokkplötu ársins, dægurplötu ársins, ýmsa-plötu ársins, sígilda plötu ársins, djassplötu ársins, myndband ársins, útrás Reykjavíkurloftbrúar, Hannes Smárason og jafnvel plötuumslag ársins til að hægt sé að hugsa út í það í hálfa mínútu að hið sungna orð yrkir sig ekki sjálft.
Þetta sýnir nákvæmlega þá virðingu sem íslenskir tónlistarmenn bera fyrir söngtextum. Annað sem sýnir hana vel er reyndar líka textarnir sem þeir syngja og yrkja sjálfir. Sennilega er þetta gert til að letja fólk til að yrkja texta, enda myndi tónlist langflestra íslenskra tónlistarmanna skána mikið við að þeir hættu því og syngju í staðinn bara „trallala“. Flatneskjan myndi stinga minna í eyrun og ambögurnar hyrfu.
Langflestra, segi ég. Ekki allra. Það komu nefnilega út plötur í fyrra (sem ég sjálfur kom ekki nálægt), sem fyllilega hefðu verðskuldað að minnst hefði verið á það – svona á uppskeruhátíð íslenskrar tónlistar – að textarnir á þeim væru þokkalega vel ortir.
Þeim sem standa að þessari hátíð er hins vegar greinilega alveg skítsama um það.

mánudagur, janúar 29, 2007

Prédikun

Fyrir rúmum mánuði kom sóknarpresturinn minn, Sigurður Árni Þórðarson, að máli við mig og spurði mig hvort ekki mætti bjóða mér að prédika við guðsþjónustu í Neskirkju. Það hefur færst í vöxt að undanförnu að leikmönnum sé boðið að prédika við messur í Þjóðkirkjunni. Mér fannst mér sýndur heiður og traust með þessari málaleitan og ákvað að skorast ekki undan. Úr varð að við messu í gær sté ég í púltið og prédikaði yfir kirkjugestum. Prédikunin er nú komin á vefinn og er hérna.

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Vinstrigræðgi valdagrænna

Því miður virðast mér nýleg orð formanns Samfylkingarinnar um að flokkurinn beri sjálfur ábyrgð á því hvernig fyrir honum er komið vera gleymd og grafin. Undanfarið hefur forysta flokksins nefnilega verið órög við að slá annan tón í opinberri umræðu: Þetta er valdagræðginni í Steingrími að kenna.
Þegar Steingrímur J. Sigfússon stakk upp á því í haust að stjórnarandstaðan stillti saman strengi sína til að bjóða öflugan valkost við núverandi ríkisstjórn gat formaður Samfylkingarinnar ekki stillt sig um að rifja upp þá tíma þegar gamli fjórflokkurinn ummyndaðist í þann nýja og ýjaði að því að um „sinnaskipti“ væri að ræða hjá Steingrími, því hann vildi ekki taka þátt í meintu kosningabandalagi vinstrimanna fyrir átta árum. Margrét Frímannsdóttir segir í völdum æviminningum sínum að það hafi verið af því að hann fékk ekki nóg völd þar.
Auðvitað hentar það Samfylkingunni mun betur að stilla Vinstrigrænum upp sem sundrungarafli á vinstri vængnum en að horfast í augu við þá staðreynd að sjálf yfirgaf Samfylkingin vinstri vænginn með manni og mús strax árið 1999. Eða var það kannski vinstristefnan sem á sínum tíma rak þáverandi formann flokksins á fund verndarans í vestri, gestgjafans í Guantanamo, til að grátbiðja hann að fara nú ekki með morðtólin sín af landinu? Voru þau skilaboð frá íslenskum vinstrimönnum?
Sömuleiðis hentar flokknum illa að rifja upp afstöðu sína til Kárahnjúkavirkjunar, nú á dögum almennrar umhverfisvitundar. Enda hefur hann komið sér upp glænýrri umhverfisstefnu, í beinni andstöðu við þá gömlu, fyrst skoðanakannanir benda til þess að slíkt sé líklegt til vinsælda. Um leið er umhverfisstefna Vinstrigrænna, sem hefur verið óbreytt frá 1999, úthrópuð sem lýðskrum.
En þetta með valdagræðgina veldur mér heilabrotum. Mig minnir nefnilega að fyrir átta árum hafi byrinn ekki beint verið með Steingrími í brölti sínu. Ef mig misminnir ekki var hann allur í segl Samfylkingarinnar. Hafi Steingrímur séð það fyrir þá að eftir aðeins átta ár yrði líklegra að þjóðin treysti honum en Samfylkingunni og hann því stofnað Vinstrigræna af einskærri valdagræðgi árið 1999 – verður að hrósa honum fyrir framsýnina. Slíkum manni er greinilega treystandi fyrir völdum!
Bakþankar í Fréttablaðinu 21. janúar 2007

föstudagur, janúar 19, 2007

Völvuspá Davíðs Þórs


Þar sem ég veit að lesendur þyrstir í að ég deili með þeim þekkingu minni og skilningi á öllum sviðum tilverunnar ákvað ég að gera þeim þann greiða að setjast niður og glápa í kúlur, rýna í flug fugla, svif lóar, atferli Kisu og sjá þannig fyrir helstu atburði ársins 2007.
Hér er niðurstaðan:

Kosningaþátttaka verður ekki sú besta í sögu þjóðarinnar.
Pólitískt vandræðamál á eftir að koma upp fyrir kosningar, brigður verða bornar á heilindi einhvers frambjóðanda.
Samt verður kosið og sumir frambjóðendur munu að sönnu fagna sigri, öðrum mun finnast sem sanngjarnara hefði verið að vegur þeirra hefði verið meiri.
Ný ríkisstjórn verður mynduð, en það mun ekki gerast átakalaust.
Fíkniefnavandinn verður áfram í sviðsljósinu og niðurlögum hans verður ekki ráðið á nýju ári.
Háskólinn verður enn fjársveltur og umræðan um skólagjöld á eftir að skjóta upp kollinum.
Þjóðkirkjan mun sæta gagnrýni fyrir að meina samkynhneigðum hjónavígslu.
Glæpamál munu koma upp, þeim verður slegið upp á forsíður blaða og þjóðin mun súpa hveljur í kortér.
Því miður munu verða nokkur alvarleg slys.
Íslenskir kaupsýslumenn eiga eftir að braska mikið og fjárfesta í útlöndum. Það á eftir að vekja athygli.
Misskipting auðs og lífsgæða á eftir að aukast.
Við munum áfram fá fréttir af því að íslenskir listamenn veki athygli langt út fyrir landsteinana, jafnvel þótt það fréttist hvergi annars staðar í heiminum.

Vona ég að þetta nægi til þess að þið getið róleg tekið á móti þessu ári og ekkert þurfi að koma ykkur á óvart.

föstudagur, janúar 12, 2007

Um áttundu víxlspurningu tíundu viðureignar fyrstu umferðar

Varðandi 8. víxlspurningu tíundu viðureignar fyrstu umferðar, fyrstu viðureignarinnar í gær, sem var svona: "Eftir hverjum eru þessi orð höfð: "Ber er hver á bakinu nema sér bróður eigi"?" er kannski rétt að þetta komi fram:
Margir hafa viljað meina, og komið að orði við mig um það, að orðin séu höfð eftir Kára Sölmundarsyni og séu úr Njálu. Rétt er það að í Njálu segir:
"Húsfreyja spurði þá tíðinda og fagnaði þeim vel. Björn svaraði: "Aukist hafa heldur vandræðin kerling." Hún svarar fá og brosti að. Húsfreyja mælti þá: "Hversu gafst Björn þér Kári?" Hann svarar: "Ber er hver að baki nema sér bróður eigi og gafst Björn mér vel."
Í ljósi þessa hefði vissulega verið erfitt að gefa rangt fyrir fyrir Kára Sölmundarson, svar sem ekki kom. En ef litið er í Grettis sögu þá segir þar:
"Grettir hjó með saxinu til Víkars fylgdarmanns Hjalta Þórðarsonar og kom á öxlina vinstri í því er hann hljóp í tóftina og sneið um þverar herðarnar og niður hina hægri síðuna og tók þar sundur þvert manninn og steyptist búkurinn ofan á Gretti í tvo hluti. Gat hann þá ei upp rétt saxið svo skjótt sem hann vildi. Og í því lagði Þorbjörn öngull í milli herða Gretti og var það mikið sár. Þá mælti Grettir: "Ber er hver á bakinu nema sér bróður eigi." Illugi kastaði skildi þá yfir hann og varði hann svo Gretti rösklega að allir menn ágættu vörn hans."
Séu þessar tvær tilvitnanir bornar saman er ljóst að spurt er um þá síðari, þar sem segir "á bakinu" en ekki þá fyrri þar sem segir "að baki". Spurningin fær því staðist, hún er rétt.
Hitt er annað mál að færa má fyrir því rök að vafasamt hafi verið að spyrja um tilvitnun sem er svona líka annari og skal ég ekki þræta fyrir að svo geti verið, og get aðeins borið við fákunnáttu minni um Njálu. Tilvitnunina þekkti ég sjálfur aðeins úr Grettlu og sótti hana þangað. Ég bið afsökunar á því, finnist einhver ég hafa gert einhverjum rangt til með þessu.
Þorvaldur segir Kára eldri en Gretti og því sé rétt að gefa honum höfundarréttinn. En skyldi Grettir þá hafa verið hér að vitna í Kára (sem mér finnst skrýtið í ljósi þess að Illugi var vissulega bróðir Grettis en Björn ekki Kára), eða var þetta ef til vill orðið að orðtaki fyrir ritunartíma þessara sagna?

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Litur jólannaÍ jólamánuðinum las ég einhvers staðar að litur jólanna í ár væri svartur. Ég man að ég brosti með sjálfum mér og hugsaði eitthvað á þá leið að enginn væri nú svo leiðitamur leiksoppur hippsins og kúlsins að hann léti telja sér trú um svoleiðis fásinnu. En svo fór ég í bankann.
Þar vakti það athygli mína að neðan úr loftinu hjá gjaldkeranum hékk eitthvað kolsvart, oddhvasst og andstyggilegt flykki. Ég þurfti að virða það fyrir mér alllengi áður en mér varð ljóst að þetta átti að vera stjarna. Hún líktist nefnilega engri stjörnu, heldur mun frekar pyntingatóli úr einhvers konar sadómasókískri kynlífsdýflissu. Þegar ég litaðist betur um í bankanum sá ég líka á miðju gólfi grenitré sem engu var líkara en kviknað hefði í. Það var biksvart.
Nú hef ég svosem enga sérstaka skoðun á því hver litur jólanna á að vera, þeir koma flestir til greina. Kertin standa á grænum greinum, gul og rauð og blá – þegar fellur hvít logndrífa á grund. Eini liturinn sem að mínu mati kemur alls ekki til greina er svartur, teljist hann yfirhöfuð til lita.
Jólin eru hátíð ljóss og friðar. Á jólunum er því fagnað að daginn tekur að lengja, að myrkrið tekur að víkja fyrir birtu. Margir, sem aðhyllast dýpri og andlegri sannleik í lífi sínu en þann einan sem varðar möndulhalla og snúning jarðar, tengja þessi tímamót ennfremur trú sinni á sigur lífsins á dauðanum, kærleikans á hatrinu og almennt alls þess sem ljós getur verið tákn fyrir á öllu því sem myrkur getur verið tákn fyrir. Jólastjarnan skín, hún rýfur myrkrið. Þess vegna er ekki bara táknfræðilega heldur beinlínis eðlisfræðilega rangt að hún geti verið svört. Myrkrið er svart. Það lýsir því einstaklega yfirgripsmikilli vanþekkingu á eðli jólanna, jafnt sem ljósa- og sólstöðuhátíðar og sem fæðingarhátíðar Krists, að láta sér detta í hug að litur þeirra geti verið svartur.
Því virðast afar lítil takmörk sett hve fólk getur verið reiðubúið til að varpa fyrir róða öllu sem telja mætti til sjálfstæðrar hugsunar til að elta tískustrauma af fullkominni hlýðni. Ég vil því beina þeim tilmælum til tískulögga þjóðarinnar að þær láti jólin í friði. Hina 352 daga ársins mega þær mín vegna leika lausum hala. Er það ekki nóg?


Bakþankar í Fréttablaðinu 7. janúar 2007

þriðjudagur, janúar 02, 2007

Muna: Ekki horfa á fréttaannálana!

Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs af öllu hjarta.
Ég má varla vera að því að hugsa þessa dagana. Það er svo þrotlaus vinna að berja saman handritin fyrir Gettu betur. Hins vegar rifjaðist dálítið upp fyrir mér í gær sem ég ætla að setja hér á netið svo ég gleymi því aldrei:
EKKI HORFA Á FRÉTTAANNÁLA ÁRSINS!
Ég er allt of hrifnæmur til að ráða við það. Ég fer í hnút af gremju út í þessa asna sem stjórna landinu og asnakjálkana sem kjósa þá yfir sig aftur og aftur og aftur. Og ég á ekki einu sinni orð yfir brjálæðingana úti í heimi. Maður rétt meikar þennan guðsvolaða táradal einn dag í einu, en eitt ár á klukkutíma ... Það er of mikið fyrir mína veigalitlu mótstöðu gegn illsku og hálfvitagangi heimsins.
Einkum er leiðinlegt hvað maður lendir í mikilli innbyrðis mótsögn. Maður bölvar og ragnar þessu kóngapakki og hneykslast á þjóðunum sem kjósa að hafa þessar afætur á fóðrunum, lið sem aldrei þarf að dýfa hendinni í kalt vatn og þykir hafa unnið einhver afrek um hver áramót með því einu að hafa ekki hrokkið upp af síðan síðast. Frakkar og Rússar eru fundu endanlega lausn á þessari plágu, þeir klipptu einfaldlega hausinn af öllu liðinu!
(Rússar gerðu reyndar þau reginmistök að láta Anastasíu sleppa. Fyrir vikið kom upp goðsögn. Sú stríðalda dekurrófa varð að einhverri álagaprinsessu í ímynd næstu kynslóða en ekki forréttindatuðran sem hún var í raun og það fréttnæma verður þá ekki grimmdarlegir glæpir föður hennar gagnvart sveltandi alþýðu Rússlands, heldur meint villimennska bolsévikkanna sem sáu til þess að hann fengi makleg málagjöld.)
Að þessu loknu horfir maður svo upp á Saddam Hussein hengdan og nær ekki upp í nefið á sér yfir viðbjóðnum. Að mannkynið skuli ekki vera vaxið upp úr svona ógeði! Og bingó ... það stendur ekki steinn yfir steini í því sem maður þykist standa fyrir.
Millilendingin er sú að Kínverjarnir hafi farið rétt að þessu. Keisarinn gat auðvitað ekkert að því gert að hann væri keisari, hann var á ákveðinn hátt fórnarlamb líka. Hann gat orðið gegn þjóðfélagsþegn í garðyrkjunni. Kínverjar tóku reyndar séns, rétthafi krúnunnar var hafður á lífi. (Hvað ef Rússar hefðu tekið þennan séns? Væru Anastasía og Elísabet II núna sötrandi te saman, akandi í ráðherrabílum og spiki, elskaðar og dáðar af Englendingum og Rússum fyrir það eitt að vera ekki dauðar? – Muna: "ef" og "hefði" eru orðin sem andskotinn notar til að stjórna heiminum.)
Í kvöld sá ég hins vegar fyrrihlutann á mynd um Reyni Traustason og áhuga hans á einhverjum orðljótum furðufugli og manngæsku hans í garð furðufuglsins, sem áreiðanlega hefur verið áhugaverð fyrir þá sem hafa áhuga á honum, þ. e. Reyni.
Að lokum áttum við reyndar skemmtilegar samræður um heimildagildi fornsagna og nútímasagna og út frá því sannleikshugtakið og eðli þess. Ég náði að setja fram vísi minn að kenningu um stuld sagnfræðinnar á sannleikshugtakinu án þess að vera kveðinn í kútinn, aldrei þessu vant, en sú kenning er enn í smíðum og efni í annað blogg.
Bið að heilsa!