fimmtudagur, júlí 24, 2008

Tónlistarrýni Davíðs Þórs

Sumargleði Kimi Records, Nasa, 23. júlí 2008

Fyrir löngu var ég hvattur til þess hér á þessari síðu að láta til mín taka á vettvangi tónlistargagnrýni. Hef ég nú ákveðið að verða við þeirri bón, þótt seint sé, og fjalla eilítið um tónleika sem undarleg atburðarás olli því að ég fór á í gær. Svo er nefnilega mál með vexti að föðurbróðir konu minnar, sem er bóndi austur á Héraði, hringir öðru hverju í útvarpsstöðvar, svona til að stytta sér stundir þar sem hann þýtur fram og til baka um túnin hjá sér aleinn í traktornum yfir hábjargræðistímann. Í gær vann hann tvo miða á tónleika í Reykjavík og þar sem hann var ekki á leiðinni í bæinn setti hann þá á nafn bróðurdóttur sinnar og bauð henni. Reyndar sagði hann að þetta væri eitthvað með Benna Hemm Hemm á Nasa, sem ætti að byrja klukkan átta.
Það varð því úr að við hjónaleysin tygjuðum okkur af stað á það sem við héldum að yrði tónleikar með Benna Hemm Hemm sem myndu byrja klukkan átta. Stundvíslega kl. 19:50 mættum við og brá dálítið við að sjá ekki kjaft á svæðinu. Þá var okkur tilkynnt að húsið opnaði klukkan átta, tónleikarnir byrjuðu hálfníu. Við fengum okkur því kaffi og komum aftur hálftíma síðar. Þegar klukkan var farin að ganga tíu birtist síðan maður á sviðinu og bauð okkur velkomin á Sumargleði Kimi Records og kynnti hljómsveitina Reykjavík! á sviðið. Þetta var ekki það sem við komum til að sjá, en við ákváðum að láta það ekki á okkur fá og njóta kvöldstundarinnar.
Hljómsveitin Reykjavík! spilar mjög hevví tónlist. Tvennt þótti mér einkum áhugavert. Annað var að annar gítarleikarinn var sífellt að stilla hljóðfærið, rétt eins og einhver hefði veitt því athygli að gítarinn, sem hljómaði eins og vélsög allan tímann, hefði verið eilítið falskur. Hitt var að söngvarinn kvartaði yfir því að hann heyrði ekki nógu hátt í sér í mónítorunum, sem mér fannst hljóta að vera óþarfi vegna þess að ég heyrði ekki betur en að það eina sem hann hefði til málanna að leggja væri að æpa „grwark“ í sífellu fullum hálsi, að vísu misoft og í mismunandi hrynjandi eftir því hvaða lag var verið að spila. Svo sanngirni sé gætt þá fannst mér reyndar eins og stundum færi að örla á laglínum eftir því sem líða tók á prógrammið hjá þeim og á tíma fannst mér næstum eins og ég væri kominn u. þ. b. tuttugu ár aftur í tímann og væri á tónleikum með þeirri frábæru, en vanmetnu hljómsveit, Bodies. Spilagleði og húmor Reykjavíkur! gerðu það að verkum að hægt var að hafa gaman að þeim, jafnvel þótt á köflum hljómaði tónlistin eins og paródía af því sem hún sennilega átti að fyrirstilla.
Næst stigu Morðingjarnir á stokk. Morðingjarnir spila líka tónlist sem í gamla daga hefði verið kölluð pönk, en heitir eflaust eitthvað annað nú á dögum. Morðingjarnir hljóma dálítið eins og Fræbbblarnir hefðu gert í gamla daga ef þeir hefðu verið pínulítið betri hljóðfæraleikarar – pínulítið, ekki mikið. Kannski urðu þessi hugrenningatengsl aðallega til vegna þess að þeir syngja á íslensku, en kannski líka vegna þess að trommuleikarinn minnti mig óhugnanlega mikið á Stebba í Fræbbblunum. Það var alltaf eins og hann væri við það að gefast upp á þessu, þetta væri allt aðeins og hratt og erfitt fyrir hann, öll breik einhvern veginn stórskemmtilega hálfspastísk og líkamsbeitingin eins og hann væri sárkvalinn að reyna að hrista einhverja hræðilega pöddu af hægri olnboganum á sér. Þegar við bættist að í einu laginu heyrði ég ekki betur en að hann væri hálfum takti á eftir hinum þegar laginu lauk og svo þurfti hann að gera hlé til að laga bassafótinn einu sinni, var líkingin fullkomnuð. Morðingjarnir voru stórskemmtilegir, einkum vegna þess að þeir voru langt frá því að taka sig alvarlega sjálfir og svo lítur bassaleikarinn út eins og ungur John Cleese í rokkaragervi.
Þriðja hljómsveitin hét Borkó. Hljóðfæraskipan Borkós er sérkennileg en þar er leikið á víbrafón, synthersizer og trompet auk hefðbundinna rokkhljóðfæra. Tónlistin er löturhægur sýrugrautur sem var bæði fullhægur, sýrður og grautarkenndur fyrir minn smekk. Raunar hljómuðu flest lögin eins og langdregin intró að tónverki sem aldrei hófst. Skemmtilegasta innlegg Borkós í kvöldstundina var þeirra útgáfa af fyrsta laginu á prógrammi Morðingjanna. Þá heyrði maður að tónsmíðin var óbrjáluð og textinn skondinn („Eiturlyfjafíklar í joggingbuxum með skítugt hár, / það hefur ekki verið þvegið í ár.“), en hvort tveggja hafði farið fram hjá mér þegar ég heyrði lagið í upprunalegri útgáfu. Borkó hljómaði vel á köflum, einkum ljáði trompetið tónlistinni oft tignarlegan blæ, en þegar á heildina er litið var prógramm þeirra allt of langt og langdregið. Hafi þetta átt að vera brandari var hann ekki nógu hnitmiðaður.
Loks, um miðnættið, sté Benni Hemm Hemm á svið. Auðvitað er þar langbesta hljómsveitin af þessum fjórum á ferðinni, um það er einfaldlega engum blöðum að fletta. Benni Hemm Hemm hefur að undanförnu getið sér gott orð fyrir frumlegar og reffilegar lagasmíðar, sem er sérkennilegt í ljósi þess hve hann sjálfur er allur leþargískur fyrir mann að sjá og gufukenndur í framkomu. Lögin eru að vísu hvert öðru lík, flest eins byggð upp: Fyrst raular hann sjálfur og glamrar á kassagítar og svo kemur millikafli leikinn á lúðra. Taktpælingar hans, þessir endalausu samsettu ryþmar, eru oft flottar. En stundum finnst manni eins og þær þjóni litlum öðrum tilgangi en að vera til staðar, þær séu frekar eins og kækur tónskáldsins en að þeim sé beitt markvisst og útpælt. Kannski er hann bara að stríða fólki sem asnast til að reyna að dansa við þessa tónlist, en það er hægara sagt en gert við lag þar sem annar hver taktur í er í þremur fjórðu en hinn í fimm áttundu. Benni Hemm Hemm skar sig líka úr að því leyti að maður heyrði textana. Gallinn er að í tilfelli hans er það alls ekki kostur. Þeir textar hans sem ekki valda aulahrolli („Allt í góðu lagi uppi á fjalli í Afganistan ...“ eða e.þ.h.) valda ógleði („We're whaling in the North Atlantic ...“ endurtekið sautjánhundruð sinnum). Í sjálfu sér hef ég lítið um tónlistina að segja, annað en að kvarta yfir því að hljómsveitin byrjaði of seint og spilaði of stutt, miðað við hinar. Já, og svo ætti hann að ráða textahöfund, það munar ekki mikið um einn í viðbót í níu manna bandi.
Að flestu leyti voru tónleikarnir til fyrirmyndar og Baldri, föðurbróður konunnar minnar til mikils sóma. Ég sá ekki betur en að fólk skemmti sér vel og sjálfur undi ég mér ágætlega þótt ég væri kannski vandræðalega hátt yfir meðalaldrinum í húsinu og ekki í markhópi tónleikahaldaranna. Skemmtiatriðin voru hæfilega hallærisleg og „þýskusýningin“ það fyndnasta sem ég hef heyrt í háa herrans tíð, en ég verð að kvarta yfir hagyrðingakeppninni. Seinniparturinn sem vann var ekki bara dónaskapur sem þarf að vera tólf ára til að finnast fyndinn, heldur var hann líka vitlaust kveðinn.

þriðjudagur, júlí 22, 2008

Minni frumleika, meiri hæfileika

Á síðustu öld gerðu listamenn í stórum stíl uppreisn gegn formi og reglum sem þeim fannst sníða sköpun sinni of þröngan stakk. Skáldin sprengdu utan af sér formið og sögðu hefðbundinni bragfræði stríð á hendur. Myndlistarmenn lögðu pensla og striga til hliðar og unnu með öðrum verkfærum. Jafnvel gat listin verið í því einu fólgin að setja gamlan hlut í nýtt samhengi. Fyrir þetta uppgjör standa allir sæmilega listhneigðir menn í þakkarskuld við þá enn þann dag í dag.
Þeir sem fylgdu í kjölfarið virðast hins vegar upp til hópa algerlega hafa misskilið um hvað uppreisnin snerist, gegn hverju andófið beindist. Uppreisnin var nefnilega ekki gegn forminu sem slíku, heldur gegn list sem þjónaði engum tilgangi öðrum en forminu, list sem var ekki um neitt annað en uppskriftina að sjálfri sér. Þannig er það vandræðalega augljóst að ástæða þess að langflest skáld yrkja formlaus ljóð nú á dögum er ekki að þau hafi sprengt formið utan af sér, heldur að þau gætu ekki fyllt upp í það þótt þau reyndu.
Einu sinni sagði leikstjóri við leikhóp sem ég var í að við ættum alls ekki að hafa gaman af þessu. Það væri ekki tilgangurinn, tilgangurinn væri að áhorfendur hefðu gaman af þessu. Það tókst. Áhorfendur höfðu gaman af sýningunni og viti menn: Það veitti okkur aðstandendum hennar ánægju. Þetta rifjaðist upp fyrir mér um daginn vegna þess að ég varð vitni að listsköpun ungmenna. Þau spiluðu ekki óhljóð af bandi í sal með flöktandi ljósum eða héngu hreyfingarlaus í neti eins og nú tíðkast aðallega, heldur stilltu þau sér upp á almannafæri og sungu rammfalskt. Gjörningurinn var sennilega í því fólginn hvað þau voru í bjánalegum búningum og með asnalega andlitsmálningu. Eflaust höfðu þau sjálf mjög gaman af þessu. En ef þau hefðu lagt einhverja vinnu í að æfa sönginn hefði ánægja áheyrenda af uppákomunni hugsanlega orðið einhver. Fyrir vikið hefði ánægja þeirra sjálfra af henni kannski rist dýpra.
Þess vegna langar mig að frábiðja mér allan þennan frumleika og óska eftir því að fá að sjá einhverja hæfileika. Það er ólíkt skemmtilegra að heyra gamalt lag leikið vel en að heyra glænýtt glamur. Mér finnst nefnilega mun merkilegra að kunna á hljóðfæri en að geta misþyrmt því á áður óþekktan hátt.
Bakþankar í Fréttablaðinu 20. júlí 2008

fimmtudagur, júlí 10, 2008

Um Paul Ramses, Edmund Burke, Niles Crane og Pontíus Pílatus


Mál Keníamannsins Pauls Ramsesar hefur verið áberandi að undanförnu og með réttu. Ástæðulaust er að fara ítarlega í smáatriðin varðandi afgreiðslu máls hans, nógu mikið hefur verið um þau fjallað á flestum öðrum vettvangi.
En svo stiklað sé á stóru þá mátu íslensk stjórnvöld það þannig að réttur þeirra, sem tryggður er í Dyflinnarsamningnum, til að senda hann úr landi vægi þyngra en réttur nýfædds sonar hans til að njóta umönnunar beggja foreldra sé þess nokkur kostur, sem tryggður er í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Ísland er aðili að. Það ákvæði Dyflinnarsamningsins um að forðast beri í lengstu lög að sundra fjölskyldum var algerlega hundsað af Útlendingastofnun. Stofnunin hefur gengist við því að hafa ekki kynnt sér aðbúnað hælisleitanda á Ítalíu áður en Paul Ramses var sendur þangað, en fyrir liggur að þar eru mannréttindi þverbrotin á hælisleitendum sem þurfa að bíða mánuðum saman, sjaldnast skemur en í eitt ár, eftir að mál þeirra séu tekin fyrir. Á meðan Paul Ramses bíður upp á von og óvon við ómannúðlegar kringumstæður fjærri ástvinum sínum missir hann af frumbernsku sonar síns. Útlendingastofnun hefur ennfremur viðurkennt að hafa ekki haft neina tryggingu fyrir því að ítölsk stjórnvöld myndu ekki senda Paul Ramses beint til Kenía þar sem hann er á dauðalista. Loks játar hún að hafa ekki tekið neitt tillit til sérstakra tengsla Pauls Ramsesar við Ísland og Íslendinga eða þeirrar staðreyndar að fjölskylda hans er stödd hér á landi – með lögmætum hætti. Fullyrðingar sem heyrst hafa um annað eru ósannar.
Heimspekingurinn og stjórnmálamaðurinn Edmund Burke sagði eitt sinn: „The only thing necessary for the triumph of evil is for good men to do nothing.“ (Það eina sem hið illa þarf til að sigra er að gott fólk geri ekkert.) Þetta eru orð að sönnu. Ekki þarf að hlú sérstaklega að illskunni eða greiða götu hennar, hún ryðst fram af eigin rammleik. Það eina sem hún þarf sér til viðgangs er skeytingarleysi. Aðdáendur Fraziers Crane kannast vel við þessa tilvitnun. Bróðir hans, Niles, var afar hrifinn af henni. Hann var með hana innrammaða ofan í skrifborðsskúffunni hjá sér, hafði aldrei komið því í verk að hengja hana upp á vegg.
Tveir íslenskir stjórnmálamenn hafa orðið sér til ævarandi skammar með orðum sínum um mál Pauls Ramsesar. Annar þeirra, Jón Magnússon, sagði að hann sæi ekkert í málinu sem kallaði á að af mannúðarástæðum væri tekið öðruvísi á því en gert var. Maður hlýtur að stórefa að hann hafi kynnt sér svo mikið sem einn stafkrók um málið fyrst hann lætur annað eins rugl út úr sér, eða öðrum kosti að hann leggi einhverja afar brenglaða merkingu í hugtakið mannúð.
Hinn er Sigurjón Þórðarson sem vogar sér að líkja máli eiturlyfjasmyglarans Kios Alexanders Briggs við mál Pauls Ramsesar. Heimskan og mannvonskan er slík að mann setur hljóðan. Hugsaði hann með sér: „Ég fer til helvítis hvort sem er, því verður ekki breytt. Hvað get ég gert til að tryggja að ég verði tekinn fram fyrir í röðinni?“
Illskan og heimskan vaða uppi í íslensku samfélagi og eiga a.m.k tvo fulltrúa á Alþingi. Góðu fréttirnar eru þær að þeir eru í stjórnarandstöðu. Það er skylda allra annarra kjörinna fulltrúa okkar á Alþingi að sjá til þess að þessir siðferðilegu sorphaugar verði það að eilífu. Gott fólk má ekki gera ekki neitt, annars sigrar hið illa.
Það er vandræðalega auðvelt að koma auga á einhvers konar Niles Crane-heilkenni í framferði íslenskra stjórnvalda. Að ramma hið fallega inn án þess að hafa nokkra döngun í sér til að praktísera það sem þar er prédikað.
Í vetur var nefnilega mikið fjasað um hugtakið „kristilegt siðgæði“ á þingi og í þjóðfélaginu í tilefni nýrra grunnskólalaga. Sitt sýndist hverjum. Ég hef í sjálfu sér enga skoðun á niðurstöðunni. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að orðasambandið „kristilegt siðgæði“ í lögum sé ekki skíts virði þegar ljóst er að þeir sem um lögin fjalla hafa greinilega enga glóru um hvað í hugtakinu felst. Kristið siðgæði er nefnilega ekki í því fógið að „nugga sér utan í Krist“ heldur því að ganga fram í kærleika. Þegar Kristur er spurður hvað beri að gera til að öðlast eilíft líf stillir hann eilífa lífinu ekki upp sem verðlaunum og svarar: „Allt þetta skal ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ Nei, hann svarar með dæmisögunni af miskunnsama Samverjanum. Það er ekki kristilegt siðgæði að traðka á þeim sem minna mega sín á leið sinni í sparifötunum til kirkju svo aðrir sjái hvað maður er trúaður. Það er siðgæði faríseanna. Það er ekki kristilegt siðgæði að þvo hendur sínar af vandræðamálum, jafnvel þótt maður sé með Dyflinnarsamning upp á vasann sem heimilar manni það. Það er siðgæði Pontíusar Pílatusar. „Það sem þið gerið einum minna minnstu bræðra gerið þið mér,“ (Mt. 25:40) er kristilegt siðgæði.
Mikið skelfingar ósköp væri nú gott að heyra minna mas um kristilegt siðgæði og sjá einhverja framgöngu í kristilegu siðgæði í staðinn.
Guð blessi ykkur öll.

þriðjudagur, júlí 08, 2008

Álvitar

Íslendingar skipa sér ekki í flokka eða fylkingar eftir afstöðu sinni til einstakra mála, eins og tíðkast hjá siðuðum þjóðum, heldur skipa þeir sér í skotgrafir í eitt skipti fyrir öll og taka þaðan afstöðu til alls mögulegs og ómögulegs. Og vei þeim sem er með manni í skotgröf en rýfur samstöðuna með því að hafa sjálfstæða skoðun á einhverju. Nú verða menn til dæmis annað hvort að vera með áli og á móti túristum eða öfugt. Þriðji kosturinn er ekki í boði. Að vera á móti báðu kemur ekki til greina og að vera hlynntur skynsamlegri blöndu af hvoru tvegga er aðeins til þess fallið að hlegið sé að manni.
Um daginn var frétt í sjónvarpi þar sem tekjur af áli voru bornar saman við tekjur af túristum og var sá samanburður túristunum vægast sagt í óhag. Gott ef ekki þurfti einn og hálfan túrista til að dekka eitt tonn af áli. Síðan var því bætt við, rétt eins og um væri að ræða stærðfræði sem ekki væri á valdi sex ára barna, að samkvæmt útreikningum fréttastofunnar þyrfti fjöldi túrista að margfaldast til að halda í horfinu ef tekjur okkar af áli margfölduðust. Fréttin var að á áli væri miklu meira að græða en túrisma.
Af einhverjum ástæðum var álið ekki borið saman við sjávarafurðir, svona til að benda á að sjómenn ættu nú bara að leggja döllunum, loka loðnubræðslunni og skella sér í álbræðsluna. Ekki var heldur minnst á það hve margar lopapeysur þyrfti að selja útlendingum til að vega upp á móti álinu, til að íslenskar prjónakerlingar sæju nú villu síns vegar, legðu prjónana á hilluna og sæktu um hjá Alcoa. Nei, túrisminn einn var algjör óþarfi í efnahagslífinu.
Í lok fréttarinnar var reyndar tekið fram að ekki væri miðað við eyðslu túrista hér á Íslandi. Það var m. o. ö. miðað við að hver einasti túristi kæmi með allan sinn mat með sér, færi allra sinna ferða fótgangandi og svæfi á víðavangi allar nætur. Hins vegar var ekki tekið fram hvort hvort álgróðinn sem rennur í vasa erlendra auðhringa væri inni í tölum fréttastofunnar eða hvort þær tækju aðeins til tekna þjóðarinnar af áli.
Ekki kom fram hvað átti að vera fréttnæmt við þetta. Það sem vakti athygli mína var hins vegar að Íslendingum skyldi vera boðið upp á þvætting sem þennan undir yfirvarpi fréttamennsku.
Bakþankar í Fréttablaðinu 6. júlí 2008

miðvikudagur, júlí 02, 2008

Einum af tveimur ...

... fréttamönnum á Ísafirði og einum af þremur á Egilsstöðum sagt upp á RÚV.

Svona hljómar fyrirsögn í Tuttuguogfjórum stundum í dag. Hér bráðvantar málfarsaðstoð. Væri ekki hægt að láta krakkana í unglingavinnunni fara yfir babl mállausra blaðamanna áður en það fer í prentun?