mánudagur, apríl 04, 2011

Sérhyggjan á dögum flokksræðisins

Eitt hafa þeir, sem náðu kjöri á stjórnlagaþingið sáluga, umfram Alþingismenn. Þeir hafa persónulegt umboð kjósenda sinna. Þeir voru kosnir sem einstaklingar og sætin eru þeirra. Þess vegna er auðvelt að bera virðingu fyrir stjórnlagaþingmönnum sem ekki hafa áhuga á að sitja í stjórnlagaráði og þiggja þannig umboð sitt frá Alþingi. Það var ekki það sem lagt var upp með.

Alþingismenn eru aftur á móti ekki kosnir á þing. Flokkar eru kosnir á þing. Alþingismenn þiggja sæti sín frá flokkunum sem fengu atkvæðin. Þingsætin ættu því að vera flokkanna en ekki einstaklinganna. Því miður hefur séreignarhyggja þingmanna gagnvart þingsætum sínum þó komið í veg fyrir að þeir geri sér grein fyrir þessu augljósa grundvallaratriði með oft afkáralegum afleiðingum. Ljótasta myndin, sem ég man eftir því að svik þingmanna af þessu tagi við kjósendur flokkanna, hafi tekið á sig var þegar Kristinn H. Gunnarsson, þá þingmaður Alþýðubandalagsins, sagði sig úr flokknum vegna persónulega óvinsælda og gekk til liðs við Framsóknarflokkinn. Þá stóðu allaballar á Vestfjörðum allt í einu frammi fyrir því að með atkvæði sínu höfðu þeir eflt ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Erfitt er að ímynda sér að það hafi vakað fyrir þeim á kjörstað.

Nú hefur það enn gerst að þingmenn treysta sér ekki til að sitja á þingi sem fulltrúar flokkanna sem þeir voru kosnir til að sitja á þingi fyrir. Fyrir vikið endurspegla hlutföllin á Alþingi ekki lengur niðurstöðu kosninganna. Í íslensku er til gott orð yfir það þegar niðurstöður lýðræðislegra kosninga eru virtar að vettugi. Orðið er „kosningasvindl“.

Þess vegna verður að gera þá kröfu til þingmanna að reynist þeim um megn að tolla í flokkunum, sem kjörnir voru á þing, þá láti þeir sæti sín eftir einhverjum sem hafa í sér dug til þess. Það er þversögn í því að kjósa flokka en ekki einstaklinga og sitja svo uppi með einstaklinga en ekki flokka.

Reyndar er til betri lausn. Það er ekki eins og reynslan af flokksræðinu ætti að vekja ugg gagnvart breytingum. Við gætum kosið eirnstaklinga en ekki flokka. Einstaklingarnir, sem næðu kjöri, gætu síðan raðað sér í flokka eða kosið að standa utan þeirra eftir atvikum. Þá færi ekkert á milli mála hverjum þingsætin tilheyrðu og þingmenn myndu standa kjósendum sínum, ekki kjósendum flokka, reikningsskil í kosningum.

Bakþankar í Fréttablaðinu 2. apríl 2011

mánudagur, mars 21, 2011

Króna án krúnu

Nýlega stakk þingmaðurinn Lilja Mósesdóttir upp á því að Íslendingar segðu skilið við krónuna og tækju upp nýjan gjaldmiðil. Hún var höfð að háði og spotti fyrir þá hugmynd, enda alkunna að krónan er ekki vandamál íslensk efnahagslífs heldur fólkið sem eyðir henni. Ég tel hugmyndina þó góða, en ekki af sömu ástæðum og Lilja. Mín rök eru söguleg og orðsifjafræðileg.

Auðvitað er þó bara hlægilegt að skipta krónunni út fyrir einhvern kjánagang eins og íslenska evru. „Evra“ er fyrir það fyrsta ömurlegt heiti á gjaldmiðli. Það er svo greinileg afurð pólitískrar rétthugsunar evrópskra tæknikrata, án nokkurra róta í sögu eða samfélagi, að hvern mann með lágmarkstilfinningu fyrir samhengi umhverfis síns hlýtur að flökra. Í samfélagi gjalmiðlanna er evran nýríki plebbinn. Í samfélagi Sturlu og Skarphéðins er evran Tristan Tandri. Það var auðvitað menningarsögulegur harmleikur af epískri stærðargráðu að gjaldmiðill eins og drakma, sem rekur sögu sína aftur til daga Alexanders mikla, skyldi falla í valinn fyrir öðru eins kúltúrleysi. Svo ekki sé minnst á þau endemi að heiti evrunnar er ekki borið eins fram á neinum tveim tungumálum þjóðanna sem nota hana.

Gjaldmiðlar eiga sér nefnilega sögu. Það er eðlilegt að Íslendingar skyldu kalla gjaldmiðilinn sinn „krónu“ þegar þeir eignuðust hann. Þetta er sama orð og „kóróna“ og „krúna“ og má rekja til þess að það voru sjóðir krúnunnar, þ.e. kóngsins, sem ábyrgðust innistæðuna fyrir henni. Íslendingar áttu sér þá kóng. Aftur á móti var það ótrúleg yfirsjón að skipta ekki um heiti á gjaldmiðlinum um leið og lýðveldið var stofnað og þjóðin hafnaði kóngapakki, sem aðeins byggir tilkall sitt til yfirráða yfir öðrum á forsendum þess undan hverjum það er. Að lýðræðisþjóð, sem ekki er undir neinni krúnu, skuli kalla gjaldmiðilinn sinn krónu lýsir fáránlegu tilfinningaleysi fyrir uppruna og merkingu orða. Þannig kölluðu Finnar sinn gjaldmiðil mark um leið og þeir losnuðu undan oki einveldisins.

Til forna greiddu frjálsir Íslendingar skuldir sínar í mörkum silfurs. Það er gjaldmiðill lýðfrjálsra landa. Þess vegna ættum við að taka upp mörk. Það leysir auðvitað engan efnahagsvanda, en það er samt ákveðin ný byrjun í því. Og þó, hver veit? Kannski yrði borin meiri virðing fyrir markinu en krónunni, sem er löngu rúin öllu trausti.

Bakþankar í Fréttablaðinu 19.3. 2011

mánudagur, mars 07, 2011

Nokkrar tilvitnanir

Í dag nenni ég ekki að skrifa Bakþanka. Þess í stað ætla ég að deila með ykkur sex völdum tilvitnunum af þeim toga sem ég hef mest gaman af. Þær eru þessar, í aldursröð:

1. „Ég hef enga von um framtíð þjóðar okkar ef hún er í höndum hinnar léttúðarfullu æsku nútímans, því sannarlega er allt ungt fólk ábyrgðarlausara en orð fá lýst. Þegar ég var ungur var okkur kennt að vera háttprúð og sýna okkur eldra fólki virðingu, en nú er æskufólk þrætugjarnt og hamslaust.“ Þetta mælti gríski heimspekingurinn Hesíódos á 8. öld f. Kr.

2. „Ungt fólk nú á dögum kann ekki mannasiði, það ber enga virðingu fyrir yfirvaldi eða sér eldra fólki. Það þrætir við foreldra sína, blaðrar framan í ókunnuga, ryður í sig góðgæti og sýnir kennurum sínum harðræði.“ Þetta er haft eftir Sókratesi (469 – 399 f. Kr.)

3. „Síðasta helgi mun lengi í minnum höfð sökum frámunalegrar framkomu mikils fjölda æskufólks á samkomum suðvestanlands. Þar sem skemmtanir voru haldnar var ölvun víðast óstjórnleg og skrílmennska sums staðar slík að annars mun vart dæmi fyrr hér á landi.“ Þessi orð voru rituð árið 1952. Æskufólkið sem þarna er lýst er nú á áttræðisaldri.

4. „Var ærið starfa að reyna að koma í veg fyrir stórskemmdir á fólki og umhverfi og taka úr umferð ölóða menn sem óðu um og efndu til illinda og óeirða. [...] full þörf hefði verið á því að fjarlægja þá af samkomusvæðinu og er það hin mesta mildi að þeir skyldu ekki verða sjálfum sér eða öðrum að stórvoða eða fjörtjóni.“ Hér er verið að lýsa æskulýðsskemmtun árið 1961, þegar foreldrar mínir voru 16 og 17 ára.

5. „Í nístandi nepjuni óðu svínfullir unglingar, ekki komnir af barnsaldri, fram og aftur, veifandi brennivínsflöskum af öllum gerðum, organdi og hvíandi, þuklandi og klípandi hitt kynið og fleygjandi flöskum í allar áttir, jafnóðum og þær tæmdust.“ Svona lýsti Tíminn hátíðahöldunum í Reykjavík 17. júní 1972. Þessir „svínfullu unglingar“ eru í dag á fimmtugs- og sextugsaldri.

6. „Heimsendir er í nánd, teiknin blasa alls staðar við, ofbeldisleikir, netklám, steratröll og egófíkn á Facebook.“ Þetta ritaði Andri Snær Magnason (f. 1973) árið 2011.

Mér finnst gott til þess að vita að ungt fólk skuli enn vera eins óalandi og óferjandi og það hefur verið frá upphafi tíma. Annars væri að mínu mati rík ástæða til að hafa áhyggjur af framtíðinni.

Bakþankar í Fréttablaðinu 5. 3. 2011.

þriðjudagur, febrúar 22, 2011

Hinn andfélagslegi ég

Þegar maður skrifar pistla eins og þennan kemur maður út eins og andfélagslegur mannhatari. Það er nefnilega ekki vinsælt að lýsa því yfir að manni leiðist fólk. Félagsþörfin er svo miðlæg í sjálfsskilningi nútímamannsins að maður er nánast að segja sig úr mannlegu samfélagi með því að vera ekki öllum stundum heltekinn af öðrum.

Ég verð samt að segja að ég tek eftir því í sívaxandi mæli hve mörgum hættir til að ofmeta afþreyingargildi sjálfra sín. Þegar maður segir að maður sé heima hjá sér að horfa á sjónvarpið þá heyra sumir mann t. d. ekki segja að maður sé heima hjá sér að horfa á sjónvarpið heldur að maður sé heima hjá sér að láta sér leiðast. Þeir telja sig því vera að gera manni stórgreiða með því að leyfa manni að veita sér athygli í staðinn. Þeir virðast halda að hversdagslegar vangaveltur þeirra um hugðarefni sín fullnægi grunnþörfum manns mun betur en það sem maður hafði af eigin frumkvæði kosið að veita athygli þá stundina. Þeim finnst að það hljóti að vera miklu meira gefandi fyrir mann að hjala við venjuleg meðalmenni um daginn og veginn heldur en að njóta tilþrifa snillingsins Davids Suchets í túlkun hans á Hercule Poirot í einhverri BBC útgáfu á sígildri morðgátu eftir Agöthu Christie í sænska ríkissjónvarpinu, svo dæmi sé tekið. Það skal að vísu viðurkennt að gæði íslensks sjónvarpsefnis, sem mestanpart gengur einmitt út á að fylgjast með venjulegum meðalmennum kljást við óáhugaverð viðfangsefni, gætu ýtt undir þennan misskilning.

Ekki misskilja mig. Ég hef yndi af góðum félagsskap. Mér finnst hann dásamlegur. Mér finnst sushi líka dásamlegur matur. Mér finnst þríleikurinn um Hringadróttinssögu vera dásamlegar kvikmyndir. En það þýðir ekki að ég líti hvenær sem er á það sem himnasendingu að geta hent því frá mér sem ég er að gera til að éta sushi eða horfa á Hringadróttinssögu.

Mér finnst gott að geta sýnt fólki þá athygli sem það þarfnast. En ef ég er að lesa góða bók, þrekvirki magnaðs sagnameistara, þá verður Jói Jóns, sé erindi hans við mig ekki brýnt, að sætta sig við að félagsskapur hans stenst ekki samanburðinn. Það er ekki illa meint. Það er bara þannig.

Það er ákveðin list að vera sjálfum sér nógur. Illu heilli virðist mér hún vera á slíku undahaldi að ákveðinn hópur fólks geri sér núorðið ekki grein fyrir því að það sé yfirhöfuð hægt.

Bakþankar í Fréttablaðinu 19. 2. 2011

föstudagur, febrúar 11, 2011

Frú biskup

Kristin kirkjuhefð er gegnsýrð af karlrembu. Því miður. Þótt þar hafi miðað í rétta átt á undanförnum áratugum, einkum meðal mótmælendakirkna, er þó enn langt í land með að jafnrétti sé náð. Enn neita margar helstu kirkjudeildir heims að veita konum prestvígslu. Enda er arfleifðin ekki beysin. Sjálfur Marteinn Lúther skrifaði að konur væru ekki færar um að ræða alvörumál öðruvísi en ruglingslega og afkáralega. Ágústínus kirkjufaðir og Tómas Akvínas leyfðu sér jafnvel að efast um fulla mennsku kvenna. Samt tekur sköpunarsagan af allan vafa um að konan er sköpuð í Guðs mynd til jafns á við karlinn: „Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann í Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.“ (1Mós 1.27) Lagaákvæði feðraveldis frá bronsöld, sem varðveitt eru ásamt trúartextum í Gamla testamentinu, hafa verið notuð til að fela þessa grundvallarstaðreynd trúarinnar: Við erum öll í Guðs mynd jafnt.
Ljóst er að kynferði Krists og postulanna var aðeins líffræðileg, söguleg staðreynd og praktísk nauðsyn án nokkurs hjálpræðisgildis í sjálfu sér. Dauðarefsing lá við því að konur prédikuðu. Fæst okkar hefðu heyrt Jesú getið hefði hann fæðst stúlka. Kvenpostular hefðu verið sendir út í opinn dauðann. Kærleiksverk Krists beindust að hinum undirokuðu, ekki síst konum. Fyrsta manneskjan sem hann reisti frá dauðum var 12 ára stúlka (Mk 5.41-42), en líf þeirra var til fárra fiska metið í Palestínu fyrir 2000 árum. Jesús andmælti lögbundinni dauðarefsingu yfir bersyndugri konu (Jh 2.7). Sjálft fagnaðarerindið, „hann er upprisinn“, var fyrst falið konum (Mt 28.6), en þær voru svo lágt skrifaðar að vitnisburður þeirra var ekki einu sinni tekinn gildur fyrir dómstólum. Af bréfum Páls postula er ljóst að konur gegndu ábyrgðar- og leiðtogahlutverki í frumkirkjunni. Hvað fór úrskeiðis?
Nýleg skoðanakönnun sýnir að innan við 18% íslenskra unglinga telja konur jafnhæfar körlum til að vera trúarleiðtogar. Á hinum Norðurlöndunum er þetta hlutfall hvergi undir 50% og í Danmörku er það 80%. Eitthvað mikið er að. Við þessu þarf að bregðast. Hluti skýringarinnar gæti verið í því fólginn að á íslensku hljómar orðasambandið „frú biskup“ enn jafn ankanalega og orðasambandið „frú forseti“ gerði allt til ársins 1980. Sem betur fer er auðvelt að breyta því – ef viljinn er fyrir hendi.
Pistill í röðinni Öðlingurinn sem birtist í Fréttablaðinu 9. 2. 2011

mánudagur, febrúar 07, 2011

Æxlunartúrismi


Fyrirsögn þessa pistils er nýstárlegt orð í íslensku. Þetta er tilraun til að þýða enska hugtakið „reproductive tourism“ á íslensku. Fyrirbærið hafði lítið verið rætt hérlendis þangað til nýlegir atburðir urðu til þess að setja það í brennidepil. Umræðan byggði þó einkum á tilfinningum sprottnum af ljósmynd af nýfæddu barni og því var meginniðurstaða hennar afar fyrirsjáanleg. Hver getur sagt nei við nýfætt barn? Að mínu mati er aftur á móti full ástæða til að velta hinni siðferðilegu hlið fyrir sér án þess að setja málið í samhengi tiltekinna einstaklinga.
Æxlunartúrisma hefur verið líkt við kynlífsferðamennsku – við litlar vinsældir. Sú samlíking er þó ekki svo langsótt. Í báðum tilfellum selja fátækar konur afnot af líkama sínum til lengri eða skemmri tíma til að fullnægja löngunum betur stæðra vesturlandabúa. Munurinn er annars vegar fólginn í löngunum kaupendanna – löngun í barn og löngun í kynnautn – hins vegar í siðferðilegu mati á þjónustunni. Það er álitið ljótt að sofa hjá fyrir pening en fallegt að fórna sér til að bæta og göfga líf annarra. En hér er ekki um eiginlega fórn að ræða heldur launaða vinnu. Þess vegna er víða gerður greinarmunur á velgjörðarstaðgöngumæðrun og staðgöngumæðrun gegn greiðslu. Hér er einnig gengið út frá því að kynnautn fegri ekki eða göfgi líf neins.
Við ættum að horfast í augu við þá staðreynd að það heyrir ekki til mannréttinda að eignast börn. Mannréttindi verður að vera hægt að tryggja. Engin ríkisstjórn getur tryggt borgurunum barneignir. Læknavísindin leitast aftur á móti við að bæta líf fólks og því er eðlilegt að þau seilist inn á þetta svið. En er rétt að flokka aðgang að þessari heilbrigðisþjónustu undir mannréttindi á sama tíma og aðgengi alls þorra jarðarbúa að viðunandi heilsugæslu er eins bágborið og raun ber vitni? Mannréttindi eru nefnilega ekki teygjanlegt hugtak. Þau taka ekki mið af kringumstæðum hverju sinni. Mannréttindi Indverja og Íslendinga eru hin nákvæmlega sömu. Alltaf.
Með aðildinni að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hafa Íslendingar skuldbundið sig til að hafa hagsmuni barna í fyrirrúmi. Það tel ég hafa verið gert í nýlegu dæmi. En það fríar okkur ekki þeirri ábyrgð að móta okkur heildstæða afstöðu til málsins. Hana verður að byggja á vitrænni siðfræði, ekki ljósmynd af nýfæddu barni.
Bakþankar í Fréttablaðinu 5. 2. 2011

mánudagur, janúar 24, 2011

Lifi bensínafgreiðslumaðurinn!

Ég er farinn að gera mér far um það þegar ég kaupi bensín á bílinn að fá þjónustu í stað þess að dæla sjálfur. Ástæðan er einföld. Ég vil að þessi þjónusta sé til staðar. Með því að nýta mér hana, jafnvel þótt ég sé ekkert of góður til að dæla bensíni á bílinn minn sjálfur, finnst mér ég leggja mitt af mörkum til að henni verði haldið áfram. Maður getur nefnilega lent í því að vera á ferð í sparifötunum í slagviðri og þurfa nauðsynlega að skipta um vinnukonu. Þótt ég ráði við það sjálfur vil ég að undir slíkum kringumstæðum geti einhver gert það fyrir mig.
Mjög víða, einkum úti á landi, er engin þjónusta á bensínstöðvum. Í námunda við bensínsjálfsala er sjoppa með sælgæti, skyndibita og hugsanlega sitthvað fyrir bílinn til sölu. Aftur á móti er afgreiðslufólkið gjarnan jafnilla að sér og ég um það sem mig kynni að vanta. Þess eru jafnvel dæmi að fyrir því sé orðið „vinnukona“ ekki annað en starfsheiti.
Ég held að af þessu geti stafað hætta. Bensínafgreiðslumaður, sem óumbeðinn þvær framrúðuna fyrir mann, bendir manni á að það sé ójafn þrýstingur í dekkjunum og spyr hvort hann eigi að athuga olíuna eða bæta á rúðupissið, getur hæglega komið í veg fyrir slys. Það er líka hægt að spyrja hann um færðina á heiðinni og fá mun nytsamlegri upplýsingar en þær sem eru á upplýsingaskiltinu við veginn, þótt stærðfræðileg nákvæmni um vindátt, loftraka og veghita standist e. t. v. ekki samanburð.
Kannski er ég bara að mikla þetta fyrir mér. Kannski er ég bara kominn á þann aldur að ég sakna heims sem er að hverfa, heimsins sem ég ólst upp í. Heims þar sem þjónusta fól í sér mannleg samskipti. Ekki mikil eða náin, kannski bara hjal um daginn og veginn, veðrið og leikinn – en samt samskipti við aðra manneskju. Ég ætla ekki að fullyrða að aukin tíðni á athyglisbresti og andfélagslegri hegðun stafi af því að allt, sem heyrir til framþróunar í þjónustu, skuli einmitt miða að því að má úr lífinu öll mannleg samskipti, s.s. netverslun, sjálfsalar og upplýsingaskilti sem spara manni að þurfa að spyrja einhvern. En ég yrði ekki hissa þótt rannsóknir myndu leiða það í ljós.
Ég reiknaði það einu sinni út það kosti mig 100 – 150 kr. að láta dæla bensíninu fyrir mig (40 l tankur). Ef ég get lagt það af mörkum til að hægja örlítið á afmennskun samfélagsins finnst mér það hverrar krónu virði.
Bakþankar í Fréttablaðinu 22. 1. 2011.