mánudagur, apríl 04, 2011
Sérhyggjan á dögum flokksræðisins
mánudagur, mars 21, 2011
Króna án krúnu
Auðvitað er þó bara hlægilegt að skipta krónunni út fyrir einhvern kjánagang eins og íslenska evru. „Evra“ er fyrir það fyrsta ömurlegt heiti á gjaldmiðli. Það er svo greinileg afurð pólitískrar rétthugsunar evrópskra tæknikrata, án nokkurra róta í sögu eða samfélagi, að hvern mann með lágmarkstilfinningu fyrir samhengi umhverfis síns hlýtur að flökra. Í samfélagi gjalmiðlanna er evran nýríki plebbinn. Í samfélagi Sturlu og Skarphéðins er evran Tristan Tandri. Það var auðvitað menningarsögulegur harmleikur af epískri stærðargráðu að gjaldmiðill eins og drakma, sem rekur sögu sína aftur til daga Alexanders mikla, skyldi falla í valinn fyrir öðru eins kúltúrleysi. Svo ekki sé minnst á þau endemi að heiti evrunnar er ekki borið eins fram á neinum tveim tungumálum þjóðanna sem nota hana.
Gjaldmiðlar eiga sér nefnilega sögu. Það er eðlilegt að Íslendingar skyldu kalla gjaldmiðilinn sinn „krónu“ þegar þeir eignuðust hann. Þetta er sama orð og „kóróna“ og „krúna“ og má rekja til þess að það voru sjóðir krúnunnar, þ.e. kóngsins, sem ábyrgðust innistæðuna fyrir henni. Íslendingar áttu sér þá kóng. Aftur á móti var það ótrúleg yfirsjón að skipta ekki um heiti á gjaldmiðlinum um leið og lýðveldið var stofnað og þjóðin hafnaði kóngapakki, sem aðeins byggir tilkall sitt til yfirráða yfir öðrum á forsendum þess undan hverjum það er. Að lýðræðisþjóð, sem ekki er undir neinni krúnu, skuli kalla gjaldmiðilinn sinn krónu lýsir fáránlegu tilfinningaleysi fyrir uppruna og merkingu orða. Þannig kölluðu Finnar sinn gjaldmiðil mark um leið og þeir losnuðu undan oki einveldisins.
Til forna greiddu frjálsir Íslendingar skuldir sínar í mörkum silfurs. Það er gjaldmiðill lýðfrjálsra landa. Þess vegna ættum við að taka upp mörk. Það leysir auðvitað engan efnahagsvanda, en það er samt ákveðin ný byrjun í því. Og þó, hver veit? Kannski yrði borin meiri virðing fyrir markinu en krónunni, sem er löngu rúin öllu trausti.
mánudagur, mars 07, 2011
Nokkrar tilvitnanir
Í dag nenni ég ekki að skrifa Bakþanka. Þess í stað ætla ég að deila með ykkur sex völdum tilvitnunum af þeim toga sem ég hef mest gaman af. Þær eru þessar, í aldursröð:
1. „Ég hef enga von um framtíð þjóðar okkar ef hún er í höndum hinnar léttúðarfullu æsku nútímans, því sannarlega er allt ungt fólk ábyrgðarlausara en orð fá lýst. Þegar ég var ungur var okkur kennt að vera háttprúð og sýna okkur eldra fólki virðingu, en nú er æskufólk þrætugjarnt og hamslaust.“ Þetta mælti gríski heimspekingurinn Hesíódos á 8. öld f. Kr.
2. „Ungt fólk nú á dögum kann ekki mannasiði, það ber enga virðingu fyrir yfirvaldi eða sér eldra fólki. Það þrætir við foreldra sína, blaðrar framan í ókunnuga, ryður í sig góðgæti og sýnir kennurum sínum harðræði.“ Þetta er haft eftir Sókratesi (469 – 399 f. Kr.)
3. „Síðasta helgi mun lengi í minnum höfð sökum frámunalegrar framkomu mikils fjölda æskufólks á samkomum suðvestanlands. Þar sem skemmtanir voru haldnar var ölvun víðast óstjórnleg og skrílmennska sums staðar slík að annars mun vart dæmi fyrr hér á landi.“ Þessi orð voru rituð árið 1952. Æskufólkið sem þarna er lýst er nú á áttræðisaldri.
4. „Var ærið starfa að reyna að koma í veg fyrir stórskemmdir á fólki og umhverfi og taka úr umferð ölóða menn sem óðu um og efndu til illinda og óeirða. [...] full þörf hefði verið á því að fjarlægja þá af samkomusvæðinu og er það hin mesta mildi að þeir skyldu ekki verða sjálfum sér eða öðrum að stórvoða eða fjörtjóni.“ Hér er verið að lýsa æskulýðsskemmtun árið 1961, þegar foreldrar mínir voru 16 og 17 ára.
5. „Í nístandi nepjuni óðu svínfullir unglingar, ekki komnir af barnsaldri, fram og aftur, veifandi brennivínsflöskum af öllum gerðum, organdi og hvíandi, þuklandi og klípandi hitt kynið og fleygjandi flöskum í allar áttir, jafnóðum og þær tæmdust.“ Svona lýsti Tíminn hátíðahöldunum í Reykjavík 17. júní 1972. Þessir „svínfullu unglingar“ eru í dag á fimmtugs- og sextugsaldri.
6. „Heimsendir er í nánd, teiknin blasa alls staðar við, ofbeldisleikir, netklám, steratröll og egófíkn á Facebook.“ Þetta ritaði Andri Snær Magnason (f. 1973) árið 2011.
Mér finnst gott til þess að vita að ungt fólk skuli enn vera eins óalandi og óferjandi og það hefur verið frá upphafi tíma. Annars væri að mínu mati rík ástæða til að hafa áhyggjur af framtíðinni.
Bakþankar í Fréttablaðinu 5. 3. 2011.
þriðjudagur, febrúar 22, 2011
Hinn andfélagslegi ég
Þegar maður skrifar pistla eins og þennan kemur maður út eins og andfélagslegur mannhatari. Það er nefnilega ekki vinsælt að lýsa því yfir að manni leiðist fólk. Félagsþörfin er svo miðlæg í sjálfsskilningi nútímamannsins að maður er nánast að segja sig úr mannlegu samfélagi með því að vera ekki öllum stundum heltekinn af öðrum.
Ég verð samt að segja að ég tek eftir því í sívaxandi mæli hve mörgum hættir til að ofmeta afþreyingargildi sjálfra sín. Þegar maður segir að maður sé heima hjá sér að horfa á sjónvarpið þá heyra sumir mann t. d. ekki segja að maður sé heima hjá sér að horfa á sjónvarpið heldur að maður sé heima hjá sér að láta sér leiðast. Þeir telja sig því vera að gera manni stórgreiða með því að leyfa manni að veita sér athygli í staðinn. Þeir virðast halda að hversdagslegar vangaveltur þeirra um hugðarefni sín fullnægi grunnþörfum manns mun betur en það sem maður hafði af eigin frumkvæði kosið að veita athygli þá stundina. Þeim finnst að það hljóti að vera miklu meira gefandi fyrir mann að hjala við venjuleg meðalmenni um daginn og veginn heldur en að njóta tilþrifa snillingsins Davids Suchets í túlkun hans á Hercule Poirot í einhverri BBC útgáfu á sígildri morðgátu eftir Agöthu Christie í sænska ríkissjónvarpinu, svo dæmi sé tekið. Það skal að vísu viðurkennt að gæði íslensks sjónvarpsefnis, sem mestanpart gengur einmitt út á að fylgjast með venjulegum meðalmennum kljást við óáhugaverð viðfangsefni, gætu ýtt undir þennan misskilning.
Ekki misskilja mig. Ég hef yndi af góðum félagsskap. Mér finnst hann dásamlegur. Mér finnst sushi líka dásamlegur matur. Mér finnst þríleikurinn um Hringadróttinssögu vera dásamlegar kvikmyndir. En það þýðir ekki að ég líti hvenær sem er á það sem himnasendingu að geta hent því frá mér sem ég er að gera til að éta sushi eða horfa á Hringadróttinssögu.
Mér finnst gott að geta sýnt fólki þá athygli sem það þarfnast. En ef ég er að lesa góða bók, þrekvirki magnaðs sagnameistara, þá verður Jói Jóns, sé erindi hans við mig ekki brýnt, að sætta sig við að félagsskapur hans stenst ekki samanburðinn. Það er ekki illa meint. Það er bara þannig.
Það er ákveðin list að vera sjálfum sér nógur. Illu heilli virðist mér hún vera á slíku undahaldi að ákveðinn hópur fólks geri sér núorðið ekki grein fyrir því að það sé yfirhöfuð hægt.
mánudagur, febrúar 07, 2011
Æxlunartúrismi
mánudagur, janúar 24, 2011
Lifi bensínafgreiðslumaðurinn!
mánudagur, janúar 10, 2011
Siðferðilegt yfirlæti
mánudagur, desember 13, 2010
Hrægammalýðræði
mánudagur, nóvember 15, 2010
Umburðarlyndi andskotans
Umburðarlyndi er kjaftæði. Bókstaflega lýsir orðið eitt og sér ekki öðru en því lyndi að umbera. En enginn vill vera umborinn. Fólk vill vera samþykkt og viðurkennt, ekki umborið. Ef einhver ætlar að slá sjálfan sig til riddara fyrir þá góðmennsku sína að umbera mig getur sá hinn sami tekið sitt umburðarlyndi og troðið því þangað sem sólin ekki skín. Þannig umburðarlyndi er ekkert annað en hroki og yfirlæti undir þunnu lagi af bleikri málningu.
Umburðarlyndi er svo mikið í tísku um þessar mundir að því er jafnvel stillt upp sem andstöðu forræðishyggju, ritskoðunar og alls annars sem setur frelsi einstaklingsins til að gera það sem honum sýnist, sjálfum sér til sálartjóns og öðrum til ama, einhverjar skorður. Fyrir vikið verður kynþáttahatur að skoðun sem verður að umbera, því fólk á að hafa frelsi til að vera eins miklir kynþáttahatarar og það kýs.
En sumt á einfaldlega aldrei að umbera. Mannréttindabrot á ekki undir neinum kringumstæðum að umbera. Heimsku, ofbeldi, grimmd og fáfræði á ekki að umbera. Mannhatur á ekki að umbera, hvort sem það beinist að konum, útlendingum, hommum, guðleysingjum, múslimum eða rauðhausum. Skoðanir sem byggja á heimsku og hatri á ekki að umbera. Skoðanir sem vega að mannréttindindum, t.d. trúfrelsi og tjáningarfrelsi, á ekki að umbera.
Það á að samþykkja fólk án þess því fylgi að grimmd þess, fáfræði og heimska sé umborin. Skoðanir byggðar á þessu eru hættulegar og dæmin sýna að þeim vex fiskur um hrygg ef þær er umbornar. Þar sem slíkar skoðanir ná lýðhylli eru þær undantekningarlaust landinu og þjóðinni til mikils skaðræðis. Mér ber engin skylda til að umbera nýnasisma, útlendingahatur, trúar- eða vantrúarofstæki eða neitt annað sem vegur að grundvallarmannréttindum. Ég áskil mér rétt, reyndar er mér tryggður hann í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, til að berjast gegn þessu öllu með kjafti og klóm – að því tilskyldu að sú barátta brjóti ekki réttindi annarra. Höfum hugfast að réttindum, s.s. ferðafrelsi, er hægt að fyrirgera með að misbeita þeim.
Ef við umberum samtök gegn grundvallarmannréttindum á borð við trúfrelsi, t. d. því að moska rísi í Reykjavík, verðum við á nákvæmlega sömu forsendum að umbera Ku Klux Klan og samtök helfararafneitara, svo fátt eitt af sama sauðahúsi sé nefnt. Það er umburðarlyndi andskotans.
Bakþankar í Fréttablaðinu 13. 11. 2010.
fimmtudagur, nóvember 04, 2010
Gelt gelt
Ég held að hvor fylking sé hugarburður hinnar. Ég held að báðar fylkingar aðhyllist mannréttindi, trúfrelsi og jafnrétti trúar- og lífsskoðana og vilji tryggja æskunni haldgóða og óhlutdræga þekkingu umhverfi sínu og menningu. Þar eru trúarbrögð og trúararfur stór þáttur. Reynslan sýnir að þekkingarskortur elur á útlendingahatri og fordómum. Fólk óttast það sem það þekkir ekki. Víðsýni og umburðarlyndi eru skilgetin afkvæmi upplýsingar og menntunar. Um það held ég að báðar fylkingar séu sammála.
Í 2. gr. viðauka nr. 1 við samning Evrópuráðsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis (Mannréttindasáttmála Evrópu), sem Íslendingar eru aðilar að, segir m. a.: „Hið opinbera skal í öllum ráðstöfunum sínum, er miða að menntun og fræðslu, virða rétt foreldra til þess að tryggja það að ... menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.“ Lítill hluti Íslendinga, einkum trúlausir húmanistar, telja núverandi fyrirkomulag brjóta í bága við þetta ákvæði. Það er auðvitað með öllu óviðunandi og úr því verður að bæta. En það verður ekki gert með því að brjóta þessi nákvæmlega sömu réttindi á öðrum.
Hættum að gelta hvert á annað. Réttsýnt og skynsamt fólk, sem er annt um mannréttindi og trúfrelsi, hlýtur að geta sest niður með sáttfýsi og gagnkvæma virðingu að leiðarljósi og komist í sameiningu að viturlegri niðurstöðu. Ég neita að trúa öðru en að við getum komið okkur upp þjóðfélagi þar sem mannréttindi allra eru virt, ekki bara meirihlutans. Og þaðan af síður bara minnihlutans. Náungakærleikur felst í því að opna dyr, ekki loka þeim.
Bakþankar í Fréttablaðinu 30. 10. 2010.
mánudagur, október 18, 2010
Hvatt til dáða
Viðbrögð við miður æskilegri og óþægilega sýnilegri nýbreytni í íslenskri stjórnmálaflóru 4. október 2010.
Landið út við ysta sæ
oft er súrt að gista,
en bölvað ástand bætir æ
að berja nýnasista.
Unun veitir, ætla ég,
sem alldjúpt muni rista
og fráleitt vera leiðinleg,
að lemja nýnasista.
Svona lagað svínarí
er svívirða að vista.
Byrjum þegar bernsku í
að banka nýnasista
Hýða má og hæða hvasst,
höggva í spað og kvista,
bæði klípa, bíta fast
og buffa nýnasista.
Allir þeir sem yndi sjá
í ýmsum fögrum listum
láti ekki líða hjá
að lumbra á nýnasistum.
Íslendingur, af þér slen
ættir þú að hrista.
Engin list er ljúfari en
að lemstra nýnasista.
Frá því merlar morgundögg
uns myrkva fer og frysta
látum dynja hnefahögg
á hausum nýnasista.
Svo við getum sofið rótt,
sæl við hafið ysta,
verum dugleg dag og nótt
að dangla í nýnasista
Í víti senda vonda skal
veginn allra stysta.
Ég mana því hvern mætan hal
að mauka nýnasista.
Þar til bera burtu þarf
bjánana í kistum,
það sé landans líf og starf
að lúskra á nýnasistum.
mánudagur, október 04, 2010
Orð
mánudagur, september 20, 2010
Úrelt lög
Nú á að draga nokkra fyrrum ráðamenn þjóðarinnar fyrir landsdóm vegna óstjórnar þeirra sem varð til þess að íslenskt efnahagkerfi hrundi til grunna. Spurningin snýst um það hvort himinhrópandi getuleysi þeirra til að inna störf sín af hendi á bærilega sómasamlegan hátt hafi verið glæpsamlegt eða bara aumkvunarvert. Um þetta sýnist þó sitt hverjum. Lögin um landsdóm munu þannig vera úrelt, enda meira en hundrað ára gömul.
Þetta þykja mér slæmar fréttir. Ekki endilega af því að það þýðir að þjóðin hefur þá engin úrræði til að draga jólasveinana, sem hún asnast til að treysta fyrir velferð sinni, til ábyrgðar þegar allt fer til andskotans á meðan þeir eru að bora í nefið. Nei, áhyggjur mínar stafa miklu fremur af því að við höfum þá ekki heldur nein úrræði til að koma lögum yfir þjófa, morðingja, ofbeldismenn og nauðgara. Lögin sem taka á öllu þessu eru mun eldri en lög um landsdóm. Þannig gerðist það strax á þrettándu öld fyrir Krist, þ.e. seint á bronsöld, að maður nokkur kom niður af fjalli með lög þar sem m.a. sagði: „Þú skalt ekki mann deyða.“ Þessi lög voru víst orðin úrelt á tólftu öld fyrir Krist. Síðastliðin 3000 ár hefur morðingjum því verið refsað á forsendum úreltra lagaákvæða.
Þetta er auðvitað útúrsnúningur. Sum lög falla einfaldlega ekki úr gildi. Aftur á móti hefur mælikvarðinn á það hvaða lög eru eilíf og hvaða lög hafa endingartíma á við niðursuðudós aldrei verið gerður opinber, mér vitanlega. Einna helst er eins og hann sé einvörðu fólginn í tíðarandanum og stemningunni í þjóðfélaginu hverju sinni. Ef okkur finnst lög asnaleg hljóta þau að vera úrelt, en ekki ef okkur finnst þau „meika sens“. En af hverju erum við þá með lög, af hverju förum við ekki bara eftir því sem okkur „finnst“ í hverju og einu máli? Svarið við því er að strax á 13. öld f. Kr. var reynslan af því orðin svo slæm að lög voru sett og öll siðuð þjóðfélög hafa í grundvallaratariðum haldið sig við það fyrirkomulag æ síðan.
Við getum haft mismunandi skoðanir á lögum. Sum lög ber að endurskoða í ljósi reynslunnar og þróunar í viðhorfum, m.a. til mannréttinda og samfélagslegrar ábyrgðar einstaklinga. Önnur lög þarf einfaldlega að nema úr gildi. En þangað til það er gert eru þau lög. Lög, sem ekki hafa verið numin úr gildi, eru í gildi – sama hve asnaleg okkur kann að þykja þau.
fimmtudagur, september 09, 2010
Skriftir lútherskra
Lútherskar kirkjur hafa aftur á móti svipt tjaldi tortryggninnar frá skriftunum, þær fara fram án leyndar í trúnaðarsamtali skjólstæðings og sálusorgara. Presturinn mætir skriftabarninu augliti til augtlitis sem jafningja, en er ekki settur í þá stöðu að geta ekki horft í augun á því og í kjölfarið að vita ekki einu sinni við hvern hann talar ef það játar á sig glæpi, sem presti ber samkvæmt landslögum að tilkynna, því annað jafngildi yfirhylmingu eða jafnvel meðsekt. Sömuleiðis samþykkja lútherskir menn ekki bænamál og kirkjurækni sem yfirbótaverk. Guðsþjónusta er ekki verk sem menn vinna sér og öðrum til réttlætingar heldur lofgjörð og þakkargjörð fyrir náð Guðs. Yfirbótaverk felast í því að bæta fyrir brot sín, ekki því að þylja einhverjar romsur í einrúmi.
Í þessari umræðu orðaði einhver það svo að prestar væru „eins konar sálfræðingar“. Að mínu mati væri nær að líkja presti við sjóntækjafræðing. Fyrir nokkru stóð styr um það hvort sjóntækjafræðingar mættu stunda sjónmælingar á fólki. Niðurstaðan var sú að það var leyft. Staðreyndin er nefnilega sú að sá sem þarf gleraugu þarf ekki alltaf á augnlækni að halda. Tímar hjá augnlæknum eru rándýrir og löng bið eftir þeim. Aftur á móti ríður á að sjóntækjafræðingurinn geri sér grein fyrir takmörkum sínum og vísi þeim, sem hann getur ekki hjálpað, á viðeigandi sérfræðing.
Eins þurfa þeir, sem líður illa, ekki alltaf á sálfræðingi að halda. Tímar hjá sálfræðingum eru rándýrir og löng bið eftir þeim. Aftur á móti er presturinn ókeypis og ávallt til þjónustu reiðubúinn. En þá ríður líka á að presturinn geri sér sér grein fyrir takmörkum sínum og vísi þeim, sem hann hefur ekki þekkingu til að veita viðeigandi þjónustu, á sérfræðing.
Bakþankar í Fréttablaðinu 4. 9. 2010.
þriðjudagur, ágúst 24, 2010
Habbðu vet ...
Um allt þetta fólk þótti mér og þykir enn óskaplega vænt þótt það sé nú farið yfir móðuna miklu. Óaðskiljanlegur hluti minningar þeirra og persónu var talsmáti þeirra, orðaforði og málsnið. Ég held að það hafi gert mér gott að alast upp við ólíkan framburð og málfar kynslóða sem nú hafa kvatt. Ég tel það hafa skerpt og eflt tilfinningu mína fyrir móðurmáli mínu. Það eitt að á Hringbrautinni var farið niður á milli hæða en á Stóru-Fellsöxl var farið ofan, varð mér ungum tilefni til heilabrota.
Í síðustu tveim pistlum mínum hef ég ráðist harkalega á norðlenskan framburð, kallað hann hljóðvillu og fært sýndarrök fyrir því að hann sé rangur. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Fullyrt var að norðlenskur framburður væri fallegur og festulegur, eins og fegurð og festuleiki geti ekki verið smekksatriði, og að hann sé réttur. Og af hverju er hann réttari en annar? Jú, af því að gömul kona úr Eyjafirði talaði þannig. Eru ömmur þá aðeins marktækur mælikvarði á fegurð og réttmæti íslenskuframburðar ef barnabörnin þeirra heita Valgerður, en ekki ef þau heita Davíð?
Sjálfur er ég af suðvesturhorninu og eðlilegur talandi minn ber þess vott. Gamlir karlar og kerlingar hafa hiklaust kallað hann rangan og ljótan í mín eyru, eins og það sé enginn dónaskapur. Það var því gaman að fylgjast með viðbrögðum þeirra þegar þau urðu sjálf fyrir barðinu á nákvæmlega sama hroka og yfirlæti og þau hafa alist upp við að eðlilegt sé að sýna því hvernig öðrum er eiginlegt að tala móðurmál sitt. Þeim sem hafa norðlenskan framburð virðist nefnilega hafa verið innrætt það frá frumbernsku að þeir tali fallegra og betra mál en aðrir. Fyrir því hafa þeir þó engin rök, aðeins einhverja hjartans sannfæringu.
Staðreyndin er sú að allar ömmur tala hljómfagra og litríka íslensku, ekki bara eyfirskar, heldur líka ömmur að austan og vestan. Já, og líka ömmur sem töluðu dönskuskotna reykvísku.
mánudagur, ágúst 16, 2010
Norðlenska hljóðvillan II
Í síðasta pistli fjallaði ég lítillega um norðlensku hljóðvilluna og mikilvægi þess að sporna við henni. Ég staldraði einkum við annað megineinkenni hennar, röddun nef- og hliðarhljóða á undan fráblásnum lokhljóðum í orðum eins og „stúlka“, „pumpa“ og „fantur“ og útskýrði af hverju hún væri röng. Nú ætla ég að taka hitt megineinkennið fyrir, óeðlilegan stafsetningarframburð fráblásinna lokhljóða sem standa á milli tveggja sérhljóða í orðum eins og „poki“, „bátur“ og „pípa“.
Þessi framburður er gjarnan réttlætur með því að svona séu orðin skrifuð. Þá er gengið út frá því að stafsetning orða ráði öllu um framburð þeirra. Þetta er reginfirra. Hljóðfræði tungunnar vegur auðvitað mun þyngra. Um þetta bera orð eins og „tafla“ og „negldi“ vitni. Jafnvel þeir sem af mestu offorsi spýta út úr sér p, t og k bera þau ekki fram eins og þau eru stafsett.
Það er algild framburðarregla í íslensku að sérhljóð sem ramma af samhljóða veikja framburð þeirra. Þannig ber enginn orðið „afi“ fram eins og það er stafsett, sérhljóðin veikja f svo það er borið fram eins og v. Þetta veldur engum misskilningi, þrátt fyrir allar stafsetningarreglur. Enginn ruglar saman orðunum „pabbi“ og „pappi“, ekki einu sinni „pappi“ og „papi“. Lengd sérhljóðanna ræður úrslitum, ekki áherslan á samhljóðið. Enginn ber orðið „hagi“ fram með lokhljóði, eins og eðlilegt er að bera fram orðið „haki“. Sérhljóðin, sitt hvorum megin við g, gera það að önghljóði. Væri rétt að bera fram orðið „poki“ með norðlenskri áherslu á k hlyti því einnig að vera rétt að bera fram f í „afi“.
Þannig stenst norðlenska hljóðvillan ekki sín eigin rök, fyrir utan hið augljósa lýti sem að því er að skyrpa út úr sér málhljóðunum af slíkum þrótti að opinn eldur flöktir í námunda og hárið blaktir á viðmælandanum. Þess vegna ber okkur að efla til almennrar vitundarvakningar og skera upp herör gegn þessari úrkynjun tungumálsins. Byrja mætti á því að ráða ekki fólk, sem svona talar, til starfa á ljósvakamiðlum – enda um alvarlegan talgalla að ræða.
Réttur framburður er stundum kallaður „latmælgi“ af fólki sem ræður ekki við hann. Þetta er algert rangnefni. Fólk brennir ekki hitaeiningum með hljóðfræðilegum þjösnaskap. Komi leti málinu við er hún andleg og í því fólgin að nenna ekki að temja sér sáraeinfaldar, algildar framburðarreglur.
mánudagur, júlí 26, 2010
Norðlenska hljóðvillan I
Íslensk tunga er dýrasti arfur þjóðarinnar. Íslendingar hafa staðið sig allvel í varðveislu tungunnar, tökuorð eru færri en í flestum öðrum málum og málvillum og öðrum lýtum á hreinni og ylhýrri íslensku hefur miskunnarlaust verið sagt stríð á hendur. Þannig tókst með almennri vitundarvakningu að útrýma flámæli á sínum tíma með því að spotta það og hæða.
Nú er kominn tími til að stíga næsta skref og útrýma með sama hætti hinni hvimleiðu norðlensku hljóðvillu sem svo mjög lýtir mál margra. Norðlenska hljóðvillan einkennist af meiri fábreytni málhljóða en íslensku er sæmandi og gríðarlegri einföldun framburðarreglna. Hún er í raun aðeins aulalegur stafsetningarframburður.
Eitt megineinkenni þessarar hljóðvillu er sú úrkynjun að nefhljóð og hliðarhljóð (l, m og n) eru borin fram rödduð á undan fráblásnum lokhljóðum í orðum eins og „stúlka“, „lampi“ og „menntun“. Þetta eru dönsk áhrif, enda dönsk menningaráhrif meira áberandi á svæðinu þar sem þessi villa hefur skotið dýpstum rótum, heldur en víðast hvar annars staðar á landinu. Dönskukennarar þreytast enda ekki á að benda nemendum sínum á að dönsk orð þar sem þessar samstöfur koma fyrir skuli ætíð bera fram með „akureyrskum“ hreim.
Í fyrstu málfræðiritgerðinni, sem skrifuð var snemma á tólftu öld, er gerð úttekt á hljóðkerfi íslenskunnar. Vissulega hefur margt breyst í framburði manna síðan þá þótt tungan sé nánast hin sama, einkum ritmálið. Meðal þess sem þar kemur fram er að átta málhljóð geti verið „kveðin í nef“. Mörgum þessara nefhljóða hefur íslenskan nú glatað, þótt meginþorri þjóðarinnar hafi góðu heilli varðveitt þau betur en norðlenska hljóðvillan leyfir. Fullyrða má að fjölbreytt nefhljóð, rödduð þegar svo ber undir og órödduð á undan lokhljóðum, séu því bæði upprunalegri og íslenskari, og þar af leiðandi hljómfegurri, en hinn marflati, litlausi og hljómsnauði norðlenski framburður, sem týnt hefur órödduðu nef- og hliðarhljóðunum. Síðan er tilgerðin slík að jafnvel þeir, sem mest hreykja sér af hljóðvillu þessari og leyfa sér að kalla eðlilegan framburð „linmælgi“, gleyma að radda l í orðum eins og „piltur“, „mjaltir“ og „salt“, sem þeir ættu auðvitað að gera væru þeir sjálfum sér samkvæmir.
Í næsta pistli mun ég fjalla áfram um norðlensku hljóðvilluna og þá stafsentingarframburð fráblásinna lokhljóða.
Bakþankar í Fréttablaðinu 24. 7. 2010
þriðjudagur, júlí 13, 2010
Dómaramistök
Einu sinni var ég dómari í spurningakeppni. Ég tók starfið alvarlega og lagði metnað minn í að vera eins sanngjarn og nákvæmur og mér var unnt. Þegar mér urðu á mistök tók ég þau hugsanlega óþarflega nærri mér. Einu sinni eftir alvarleg mistök sór ég þess eið að þetta skyldi ég aldrei gera aftur.
Samt þáði ég boð um að gera þetta aftur þegar mér bauðst það. En þá setti ég skilyrði, því ég hafði gert mér ljóst hvað olli flestum mistökum. Keppendur svöruðu í flýti, hver ofan í annan og töluðu óskýrt. Svörin bárust eyrum mínum beint frá keppendum en ekki úr hljóðnemunum á borðinu fyrir framan þá, sem tóku upp hljóðið sem sent var út. Áhorfendur heima í stofu heyrðu m.ö.o. betur hvað keppendur sögðu en ég, sem átti að úrskurða hvort svörin væru rétt eða röng. Skilyrðið sem ég setti var að aðstoðardómari sæti í myndstjórninni og benti mér á hugsanleg mistök. Alloft breytti aðstoðardómarinn stigagjöf minni. Sömuleiðis áskildi ég mér rétt til að skoða upptökur af svörum ef ég var í vafa um hvort þau væru rétt eða röng. Það kom fyrir að ég nýtti mér þessa tækni og leiðrétti í kjölfarið fyrri úrskurð. Enginn kvartaði yfir þessu. Engum þótti ég vera að breyta reglunum. Jafnvel liðin sem misstu stig við þetta virtu sanngirnissjónarmiðið.
Þess vegna er það mér hulin ráðgáta hvers vegna knattspyrnuyfirvöld þrjóskast við að taka tæknina í þjónustu sína, jafnvel þegar sjálfur heimsmeistaratitillinn er í húfi. Staðreyndin er sú að HM í knattspyrnu 2010 hefur liðið ótrúlega fyrir yfirsjónir dómara, jafnvel eyðilagt ánægjuna af keppninni fyrir fjölda manna. Í útsláttarkeppninni fullyrði ég að afglöp dómara hafi oftar en ekki ráðið úrslitum, ef ekki um lokatölur þá a.m.k. um framvindu og þróun leikjanna. Það er með öllu óviðunandi. Milljónir áhorfenda um allan heim sjá betur en þeir, sem dæma eiga leikinn, hvað raunverulega á sér stað á vellinum.
Öll rök gegn því að styðjast við upptökur flokkast undir það sem á góðri íslensku heitir kjaftæði. Það væri ekki verið að breyta neinum reglum, heldur einmitt að gera allt sem hægt er til að sjá til þess að réttum reglum sé fylgt. Það væri ekki verið að breyta því hvernig íþróttin er leikin, það væri ekki einu sinni verið að breyta því hvernig hún er dæmd. Það væri aðeins verið að tryggja unnendum hinnar göfugu íþróttar sanngjörn úrslit.
Bakþankar í Fréttablaðinu 10. 7. 2010
mánudagur, júní 28, 2010
Kettir og menn
Ef ég mætti velja mér að vera dýr myndi ég vilja vera köttur. Mér finnst makalaust hvað köttum getur liðið vel þannig að það fari ekki fram hjá neinum. Það eitt að sjá kött rísa á fætur eftir góðan blund, geispa duglega og teygja svo makindalega úr öllum skrokknum, allt frá hnakka og aftur í rófubrodd, hlýtur að hafa heilsusamleg áhrif á hvern mann. Ég trúi ekki öðru en að sú slökun og æðruleysi, sem einkennir sæmilega haldinn heimiliskött, smiti út frá sér. Að geta síðan ekki annað en hljóðvætt vellíðan sína með ósjálfráðu, áreynslulausu mali hlýtur að vera toppurinn á tilverunni.
En vitaskuld er það eitt að vera köttur engin trygging fyrir sælu. Með reglulegu millibili heyrast hryllingssögur frá ýmsum velunnurum þessara göfugu skepna af illri meðferð manna á þeim. Kettlingar eru teknir frá mæðrum sínir og látnir út á guð og gaddinn til þess eins að deyja úr hungri og vosbúð. Fólk, sem verður leitt á kettinum eða getur ekki hýst hann lengur, skilur hann jafnvel eftir einhvers staðar úti í buskanum til að bjarga sér sjálfur. Þegar ferðast er um erlendar stórborgir kemur maður líka stundum auga á ketti sem virðast hreint ekki öfundsverðir af hlutskipti sínu, grindhoruð, vannærð og misbækluð grey sem greinilega hafa fengið fá tilefni til að mala um dagana. Þannig að ef ég væri köttur vildi ég vera elskaður heimilisköttur.
En ef ég fengi í raun að velja hvaða dýr ég væri myndi ég að sjálfsögðu vilja vera maður. Við megum nefnilega ekki gleyma því að við sjálf erum dýr, náskyld simpönsum. Það eru ekki nema 500.000 kynslóðir síðan sameiginlegur forfaðir okkar var uppi. Maðurinn er auðvitað kóróna sköpunarverksins. Reikistjarnan öll liggur fyrir fótum okkar. Við njótum fagurra lista, menntunar og menningar. Við höfum þekkingu, húmor og jafnvel trú. Við getum auðsýnt óeigingjarnan kærleika og samúð. Við getum skynjað smæð okkar og stöðu í alheiminum og fyllst auðmýkt og lotningu. Auðvitað vil ég í alvöru ekki skipta á þessu og hæfileikanum til að mala.
En reyndar er það eitt að vera maður ekki heldur nein trygging fyrir sælu. Sár fátækt og neyð eru landlægar allt of víða. Víðtæk og skipulögð mannréttindabrot hafa viðgengist of víða of lengi. Að vera maður leggur því, að mínu mati, á mann þá skyldu að lifa og framkvæma það sem gerir það einhvers virði að vera maður.
Calabría
Um daginn átti ég erindi norður til Akureyrar. Ferðafélagi minn hafði það þá á orði að helsti munurinn á Reykjavík og Akureyri væri hve Esjan væri nálægt á Akureyri. Það reyndist rétt hjá honum. Fjallið hinum megin við fjörðinn er miklu nær en í Reykjavík. Það heitir að vísu eitthvað allt annað en Esja.
Um þessar mundir er ég staddur í Calabríu á Suður-Ítalíu. Fyrir þá sem vilja glöggva sig á landafræðinni þá er Calabria stóratáin. Eins og á Akureyri er það fyrsta sem maður veitir athygli, þegar maður horfir út á sjóinn héðan frá Tropea, hve Snæfellsjökull er nálægt. Keilulaga eldfjallið við sjóndeildarhringinn er tíu til tuttugu sinnum stærra. Það heitir að vísu ekki Snæfellsjökull heldur Stromboli.
Calabría er eins ólík Íslandi og hægt er að hugsa sér, bæði hvað varðar gróðurfar sem dýra- og mannlíf. Til dæmis hafa Calabríumenn þann undarlega sið að byggja þorp sín og bæi á bjargbrúnum. Þar sem klettar skaga í sjó fram eru veggir húsanna gjarnan í beinu framhaldi af þeim, gott ef byggingarnar slúta ekki sums staðar fram af brúninni. Ekki lofthræddir, Ítalirnir. Þessu má líkja við að Ísfirðingar hefðu ákveðið að byggja þorpið sitt á Látrabjargi. Á ystu nöf. Ef þeir hefðu öldum saman haft sömu ástæðu og Calabríumenn til að óttast sjóræningja og þurft að gera ráðstafanir til að verjast árásum þeirra hefðu þeir reyndar sennilega gert það.
Calabríumanni fyndist hann sennilega illa rættur og undarlega settur á Íslandi, svo vitnað sé í skáldið. Hann sæi líklega lítið annað en nöturlegan og gróðurvana klett í eilífum útsynningi og hraglanda. Með réttu. Það væri eðlileg upplifun manns frá stað þar sem helstu farartálmar rútubílanna, sem reyna að þræða þröngu vegarslóðana sem hlykkjast hér upp og niður fjallshlíðarnar, eru ósveigjanlegar greinar aldinna ólífutrjáa sem teygja sig yfir veginn og – þegar verst lætur – inn um glugga bifreiðanna.
Sjálfum finnst mér ferðalög um framandi slóðir þroska og stæla þjóðernisvitund mína. Þá á ég ekki við að ég fyllist yfirlæti og finnist Ísland bera af öðrum löndum, að það sé merkilegra íslenskur en af öðru þjóðerni. Svo er ekki. Að upplifa sig sterkt sem aðkomumann gerir mér aftur á móti ljósara hver náttúruleg heimkynni mín eru og hvers virði þau eru mér. Annars staðar er ég aldrei neitt annað en hafrekið sprek á annarlegri strönd.