Ný Biblíuþýðing lítur senn dagsins ljós og er það fagnaðarefni þeim sem yndi hafa af lestri þeirrar góðu bókar. Þeir fjölmörgu sem haldnir eru guðlastsþráhyggju sem þeir rugla saman við skynsemi hafa auðvitað notað tilefnið til að fara út með sitt sálarrusl á vefnum í kjölfarið. Þeir eru vinsamlega beðnir að lesa ekki lengra og til vara um að leggja ekki orð í belg. En svo eru aðrir sem tala af viti ... en ekki eins mikilli þekkingu. Því langar mig að miðla af því litla sem ég þó veit og hef kynnt mér.
Auðvitað er ekki heiglum hent að þýða bók eins og Biblíuna. Hún er það stór hluti af sögu okkar og menningu, margt í orðalaginu í henni hefur unnið sér þegnrétt í íslensku máli. Reyndar er margt mjög undarlegt í sögu biblíuþýðinga, en einhvern veginn má ekki hrófla við mörgum af augljósustu afglöpunum af því að fólk er orðið svo vant þeim.
TvítalanFrá öndverðu hefur gjarnan verið litið á texta Biblíunnar sem heilagan í eðli sínu, ekki bara að það sé boðskapurinn sem sé helgur, heldur búi guðdómurinn á einhvern hátt í orðunum sjálfum. Því hefur verið reynt að hrófla eins lítið við textanum og hægt er, að þýða hann eins beint orð fyrir orð og framast er unnt, með þeim afleiðingum annars vegar að textinn er víða vart skiljanlegur þeim sem tala íslenskt nútímatalmál og hins vegar að Biblían er á málfari sem hvergi er til í íslensku nema þar. Íslenskan í Biblíunni hefur hvergi verið töluð frá því að land byggðist annars staðar í Biblíunni.
Eitt dæmi um þetta er notkun tvítölunnar „við/þið“ og fleirtölunanr „vér/þér“ sem margir rugla saman við þéringar. Biblían er eina bókin sem þýdd hefur verið þannig á íslensku undanfarnar aldir að þar sé notuð tvítala. Orðin „við“ og „þið“ koma víða fyrir í Biblíunni, en aðeins þegar um tvo er að ræða. Þar merkja þau í raun „við/þið tvö/tveir/tvær“. Þegar við/þið erum/eruð þrjú/þrír/þrjár eða fleiri eru notuð orðin „vér“ og „þér“.
Væri sagt „Faðir okkar“ myndi það því samkvæmt málfræði Biblíunnar aðeins geta merkt „Faðir okkar tveggja“.
Presturinn segir „Drottinn blessi þig og varðveiti þig“ í messum og því er hann að ávarpa hvern kirkjugest persónulega. Ástæðan er sú að á þeim stað í Biblíunni sem orðin eru tekin er aðeins einn ávarpaður. Hefðu þeir verið tveir segði hann „Drottinn blessi ykkur ...“ og ef þeir hefðu verið þrír eða fleiri segði hann „Drottinn blessi yður ...“.
Hins vegar segir presturinn „Friður sé með yður“ og ávarpar þá alla viðstadda. Segði hann „Friður sé með ykkur“ væru aðeins tveir í kirkju.
Mér skilst að í nýrri Biblíuþýðingu eigi að gera gangskör að því að fjarlægja tvítöluna. Ég vona að það þýði í raun að fjarlægja eigi hina fornu fleirtölu „vér/þér“ og nota fleirtölu nútímaíslensku, „við/þið“, í staðinn.
Hins vegar skilst mér að ekki eigi að gæta samræmis í þessu alla leið og forna fleirtala verði látin halda sér í sumum textum vegna þess að þar hafi hún áunnið sér einhvers konar hefðarrétt. Vera má að það sé rétt.
Eða hvernig kunna lesendur við Faðirokkarið?
Faðir okkar.
Þú sem ert á himnum. Heilagt sé nafn þitt. Komi ríki þitt. Verði þinn vilji bæði á jörðinni og á himnum. Gefðu okkur í dag okkar daglega brauð og fyrirgefðu okkur brot okkar eins og við fyrirgefum þeim sem brjóta á okkur. Ekki freista okkar, frelsaðu okkur heldur frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.
Svo sannarlega.Að þýða ekki orðAnnað sem einkennir Biblíuþýðingar eru orð sem orðið hafa til í íslensku einfaldlega vegna þess að ákveðið var að þýða þau ekki heldur láta þau standa óbreytt eða í besta falli að laga framburð þeirra að málinu. Dæmi um það eru orðin „engill“, „Kristur“ og „amen“.
Í Nýja-Testamentinu, sem er ritað á forngrísku, kemur orðið „angelos“ sums staðar fyrir. (Orðið er af sama stofni og „angelion“ sem merkir „frétt“. Með forskeytinu „ev-“ sem merkir „vel“ verður til orðið „evangelion“ sem merkir „góð frétt“ eða „gleðifrétt“. Það orð er of auðvelt að skilja, það er allt of alþýðlegt og hversdagslegt fyrir uppskrúfað helgihald og því er þetta orð þýtt sem „fagnaðarerindi“ sem er auðvitað miklu smartara. En þetta var útúrdúr.)
Orðið „angelos“ merkir því „sendiboði“, eða sá sem flytur þér „angelion“. Þegar þessi sendiboði stendur hins vegar með orðunum „tou Þeou“, („Guðs“), er ekki rætt um „sendiboða Guðs“ heldur „engil Drottins“. Orðið „engill“ er m. ö. o. aðeins íslensk aðlögun gríska orðsins „angelos“. Hvernig þetta orð fór að merkja fígúru með vængi út úr bakinu er mér hins vegar hulin ráðgáta.
Í raun má setja orðið „Kristur“ í sama flokk. Það er myndað af gríska orðinu „xristos“ (X táknar hér kokhljóð líkt K-inu í orðum eins og „taktur“ og „lykt“) sem merkir „smurður“, sem nafnorð „hinn smurði“.
Þessu má líkja við það að ef frummál Nýja-Testamentisins væri enska en ekki gríska þá hefði íslenska orðið „messengeri“ sömu merkingu og orðið „engill“ hefur í dag og við værum ekki kristin heldur „anojntísk“.
Loks má nefna orðið „amen“, atviksorð sem dregið er af lýsingarorðinu „amenos“ sem merkir „sannur“ og er þýtt sem „sannlega“ þegar það yfir höfuð er þýtt.
Grikkir klifuðu á orðum, tvítóku þau til að gefa þeim þyngri merkingu. Þess vegna er „Amen amen legó hymin“ þýtt „Sannlega, sannlega segi ég yður“, setning sem er eins óíslensk og hægt er að hugsa sér, en merkir nokkurn veginn: „Það segi ég ykkur svo sannarlega satt.“
Um JesúmEnn eitt dæmið um „Biblíuíslensku“ er fallbeyging nafnsins Jesús. Í grísku eru sex föll. Íslensk föll eiga sér hliðstæðu í grísku. Af einhverjum ástæðum hafa Biblíuþýðendur því frá upphafi fært grísku fallbeyginguna óbreytta inn í íslenskuna í stað þess að fallbeygja nafnið eins og málinu væri eiginlegt. Gríska fallbeygingin er svona:
nf. Jesús
þf. Jesúm
þgf. Jesú
ef. Jesú
Fyrir vikið beygist ekkert íslenskt orð eins og nafnið Jesús. Þessi beyging er í sjálfu sér ekkert flókin, hún bara meikar ekkert sens í íslensku. Hún er því óskiljanleg og algengara að farið sé rangt með hana en rétt. Þetta er hins vegar fullkomlega rökrétt í forngrísku. Til að lagfæra þetta og einfalda var einhvern tímann ákveðið að breyta þolfallinu og hafa það „Jesú“ eins og þágufallið og eignarfallið. Í nýjustu þýðingum er nefnifallið því „Jesús“ en í öllum aukaföllum er það „Jesú“. Orðmyndin „Jesúm“ er sem sagt úrelt núna.
Þetta gerir það að verkum að nafnið Jesús beygist ekki einu sinni eins og í forngrísku lengur og í raun fallbeygist ekkert orð neins staðar í neinu tungumáli í heiminum á sama hátt og nafnið Jesús er beygt í íslensku Biblíunni.
(Til að gera þetta enn flóknara er grísk málfræði stundum flutt inn í íslenskuna. Þannig er ort „Ó, Jesú, bróðir besti ...“ þar sem auðvitað ætti að standa „Jesús“, enda á þarna að vera nefnifall samkvæmt íslenskum málfræðireglum. Skýringin er sú að í forngrísku er ávarpsfall þar sem orðmyndin er „Jesú“. Þegar Jesús er ávarpaður er því notað tilbúið ávarpsfall upp á forngrísku, sem aldrei hefur tíðkast í íslensku, en ekki nefnifall eins og málinu er eiginlegt.)
Auðvitað er ekkert skrýtið að fólk án forngrískuþekkingar nái ekki að fóta sig í þessu. Það er eins og Biblíuþýðendur hafi frá upphafi allir lagst á eitt við að gera þetta eins óskiljanlegt og tyrfið og framast var mögulegt.
Hins vegar hefur þessi beyging að einhverju leyti unnið sér hefðarrétt og of seint núna að ætla að fara að beygja nafnið Jesús eins og nafnið Magnús. Enda efast ég ekki um að mörgum þætti kyndugt að biðja „í Jesúsar nafni“. Mér skilst reyndar að Færeyingar hafi tekið þann pól í hæðina að beygja nafnið Jesús samkvæmt færeyskum beygingarreglum og tali purkunarlaust „í Jesúsar“ nafni.
En það er líka óhætt að minna á að Jesús hét ekki einu sinni Jesús til að byrja með. Orðmyndin Jesús er aðeins „grískun“ nafnsins Jósúa sem á arameisku (móðurmáli Jesú) var borið fram „Jeshúa“.
Í Jesúu nafni?
Að þýða
Auðvitað er gott að vakað sé yfir málfarinu á Biblíunni. Hún verður að vera aðgengileg og skiljanleg. Hins vegar held ég að það geri ekki mikið gagn að krukka í þýðinguna hér og þar, tiplandi á tánum fram hjá stöðunum sem fólk er farið að þekkja og elska.
Ég held að meiri ástæða væri til að þýða Biblíuna (a. m. k. meginrit hennar) algerlega upp á nýtt. Frá byrjun. Og þá af fullkomnu tillitsleysi gagnvart þýðingasögu, hefðum og guðfræðilegum túlkunum. Þar sem smurður er smurður og sendiboði er sendiboði. Þar sem þýðendur myndu nálgast textann á sama hátt og ef þeir væru að þýða nútímaverk sem þeir hefðu aldrei séð áður. Ekki „Fagnaðarendið um Jesú(m) Krist“ heldur „Gleðifréttina af Jesúsi smurða“.
Heilagar beljur ber að drepa og éta. Ef þær lifa það af voru þær sannlega helgar. Deyi þær var heilagleiki þeirra hvort sem er bara hugarburður.
Slík þýðing þyrfti ekki að koma í stað Biblíunnar sem við þekkjum í helgihaldi. Hún væri hins vegar góð til hliðar við hana, til einkanota. Staðreyndin er nefnilega sú að uppskrúfað og tilgerðarlegt, tyrfið, kauðskt og óíslenskt Biblíumálfar fælir marga frá því að kynna sér af eigin raun þann andlega sannleik sem hin helga bók hefur að geyma.
Ég er nefnilega svolítið skotinn í Faðirokkarinu.
Svo sannarlega.