þriðjudagur, október 26, 2010

Um bókun mannréttindaráðs Reykjavíkur um trúfræðslu í skólum

Eitt heitasta málið í umræðunni í dag er tillögur mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um trúar- og lífsskoðanir í tengslum við leik- og grunnskóla borgarinnar. Þar hefur verið vaðið fram með ýktar yfirlýsingar og tillögurnar rangtúlkaðar. Illu heilli hafa ýmsir embættismenn þjóðkirkjunnar verið þar í fararbroddi. Þetta gerir það að verkum að hver sá sem lætur uppi efasemdir um þessar tillögur virðist gjarnan stimplaður talsmaður trúboðs í skólum. Og ef viðkomandi er aukinheldur á einhvern hátt tengdur kirkju eða trú, að ég tali nú ekki um guðfræði, er allt sem hann segir skoðað sem varnarræða fyrir forréttindi hinnar meintu ríkiskirkju umfram önnur trúfélög.

Ég vil fyrst taka það fram að ég álít þessar tillögur ekki vega að rótum trúarinnar. Rætur trúarinnar eru í hjarta einstaklingsins, ekki stofnunum mannanna. Það talar enginn trú inn í hausinn á annarri manneskju, hún er sjálfssprottin tilfinning en ekki niðurstaða rökleiðslu. Trúboð virkar ekki ef það er fólgið í áróðri. Eina trúboðið sem raunverulega virkar er fordæmi eftirbreytniverðs lífs og sáttar hins trúaða. Slíkt trúboð er ekki bannanlegt.

Mig langar líka að fram komi að ég er ekki þeirrar skoðunar að þessi mál megi ekki skoða og lagfæra og að allt sé óaðfinnanlegt í þessum efnum eins og því er nú háttað. Að börn sem ekki fermast skuli látin mæta í skóla ein á meðan hin eru í fermingarferðum er auðvitað með öllu óviðunandi. Evrópunefnd gegn kynþáttahyggju og umburðarleysi, ECRI (European Commission agains Racism and Intolerance) hefur skoðað ástand þessara mála hérlendis og sendi í kjölfarið frá sér skýrslu þar sem m .a. segir:ECRI reiterates its recommendation that the Icelandic authorities ensure that children who do not wish to attend classes in “Christianity, Ethics and Religious Studies” are provided with alternative classes and ensure that all children are given genuine opportunities to learn about different religions and faiths.“ Sé mannréttindaráð hér að reyna að koma til móts við þessar athugasemdir álít ég það þó á villigötum. Þess vegna langar mig að setja hér fram á röklegan hátt þrjár ástæður þess að ég tel þessar tillögur ekki góðar þótt ég efist ekki um að þær séu vel meintar.

1. Í tillögunum segir: „Heimsóknir starfsmanna trúar- og lífsskoðunarfélaga á frístundaheimili, í leik- og grunnskóla, auglýsingar eða kynningar á starfi þeirra í þessum stofnunum sem og dreifing á öðru trúarlegu efni er ekki heimil í starfi barna á vegum Reykjavíkurborgar. Þar með er talin dreifing trúarrita s. s. Nýja testamentis, Kóransins, auglýsingabæklinga og annars kynningarefnis.“

Við þetta hef ég þrennt að athuga. Í fyrsta lagið að hugtakið „lífsskoðun“ er hvergi skilgreint. Er vísindahyggja lífsskoðun? Er það brot gegn rétti mínum til að ala börn mín upp í þeirri lífsskoðun sem ég kýs að þeim sé innrætt pósitífísk heimsmynd („raunhyggja“ skv. ordabok.is)? Er kennarinn þá orðinn talsmaður lífsskoðunar? Gildir þetta bara um „félög“ um lífsskoðun? Má kennari innræta börnum lífsskoðanir svo framarlega sem þær tengjast engu „félagi“ um trúar- eða lífsskoðunar? Er greinargerð mannréttindaráðs kannski „manifestó“ ákveðinnar lífsskoðunar? Á sú lífsskoðun meira erindi til skólabarna en aðrar?

Í öðru lagi fæ ég ekki betur séð en að tal um dreifingu trúarrita beinist gegn einu ákveðnu félagi, Gídeonfélaginu, sem áratugum saman hefur dreift Nýja testamentinu til tíu ára barna í skólum. Væntanlega hafa allir sem standa að þessum tillögum fengið Nýja testamentið að gjöf þegar þeir voru tíu ára. Sú gjöf virðist ekki hafa gert þá kristnari en svo að nú vilja þeir banna þetta. Í raun ættu trúleysingjar að fagna starfi Gídeonfélagsins því Íslendingar hafa aldrei verið trúlausari en einmitt núna, eftir að Gídeonfélagar hafa haft óheft aðgengi að æsku landsins í 65 ár.

Í þriðja lagi finnst mér einkennileg þversögn felast í því að banna það, sem enginn hefur mér vitanlega gert hingað til en er stórsnjöll hugmynd, að gefa börnum Kóraninn í íslenskri þýðingu, í sama plaggi og fullyrt er: „Réttindum innflytjenda hefur verið sinnt af alúð meðal annars í samstarfi við félagasamtök.“ Mér er óskiljanlegt að það geti á einhvern hátt stuðlað að auknu jafnrétti trúar- og lífsskoðana að tekið sé fyrir að börnum séu gefnar heimsbókmenntir á borð við Kóraninn. Það stuðlar áreiðanlega ekki að auknu læsi eða viðsýni. Víðsýni er afrakstur upplýsingar, ekki skorts á henni.

2. Í tillögunum segir: „Ferðir í bænahús trúar- og lífsskoðunarfélaga, bænahald, sálmasöngur og listsköpun í trúarlegum tilgangi er hluti af trúaruppeldi foreldra en ekki hlutverk starfsmanna borgarinnar. Slík starfsemi á ekki heima í starfi með börnum í opinberum skólum. Kirkjuferðir skulu ekki farnar á starfstíma frístundaheimila og leik- og grunnskóla.“ Segja má að lykilorðin hér séu „í trúarlegum tilgangi“ – að sá varnagli sé ekki bara sleginn við sálmasöng og listsköpun heldur ferðum í bænahús trúar- og lífsskoðunarfélaga. Það megi m. ö. o. fara í kirkju, bara ekki í trúarlegum tilgangi. Næsta setning á eftir virðist þó útiloka þann skilning.

Í fyrsta lagi myndi þetta stangast á við aðalanámsskrá grunnskóla þar sem lögð er áhersla á vettvangsferðir í kennslu. Félag kennarra í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræðum (FÉKKST) telur að þetta „feli í sér skerðingu á möguleikum kennara í trúarbragðafræði til að beita fjölbreyttum kennsluháttum. Slíkar vettvangsferðir eru vænlegur kostur til að dýpka skilning nemenda á ákveðnum viðfangsefnum og þjóna þeim tilgangi að kynna fyrir þeim hlutverk og innviði þessara bygginga, trúartákn sem þar er að finna og skipulag. Umrædd fræðsla hefur ekkert með trú nemandans að gera. Þvert á móti er verið að efla víðsýni nemenda og leitast við að fyrirbyggja fordóma.“ FÉKKST er fagfélag innan Kennarasambands Íslands og eitt af meginmarkmiðum félagsins er að gæta hlutleysis og hlúa að greininni á faglegan hátt. Félagið er með öllu hafið yfir ásakanir um trúboð í skólum.

Í öðru lagi tel ég það hljóti að hefta alla kennslu í listum og þroskun sköpunargáfu nemenda að „listsköpun í trúarlegum tilgangi“ sé úthýst. Hvað er átt við með því? Verður amast við myndum af Jesúbarninu í jólaföndri? Er það ekki trúarlegur tilgangur? Mega bara trúlausu börnin gera Jesúmyndir því þá er pottþétt að tilgangurinn sé ekki trúarlegur? Má ekki setja nemendum það verkefni að tjá trú sína eða lífsskoðun í listaverki? Hvað með listaverk sem tjá óhefta vísinda- og raunhyggju? Er tilgangur þeirra ekki trúarlegur? Má tjá trúlausa lífsskoðun í list, en ekki trúaða? Er það jafnrétti trúar- og lífsskoðana?

Í þriðja lagi vil ég benda á – og það er ekki útúrsnúningur heldur bókstaflegur skilningur þessara tillagna – að með þessu er öllu höfundarverki stórkostlegasta tónskálds sögunnar, Jóhannesar Sebastíans Bachs úthýst úr tónlistarkennslu á vegum borgarinnar. Öll hans verk eru trúarleg og samin „í trúarlegum tilgangi“. Reyndar er hann oft kallaður „fimmti guðspjallamaðurinn“ einmitt vegna þess. Eða gildir það sama um Bach og Jesúbarnið, verður hann frátekinn fyrir trúleysingjana? Eða verður hann leyfður en þess stranglega gætt að enginn freistist til að leika hann í trúarlegum tilgangi? Merking orðasambandsins „trúarlegur tilgangur“ er einfaldlega allt of opin og víð til að það sé nothæft í þessu samhengi.

3. Í tillögunum segir: „Þess skal sérstaklega getið að ekki er verið að hrófla við öðrum jólaundirbúningi leik- og grunnskóla.“ Það er óneitanlega kyndugt að lesa þessa setningu beint á eftir því sem að framan er nefnt. Hver er annar jólaundirbúningur? Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvað átt er við með því. Er kannski átt við jólaundirbúning sem ekki er trúarlegur, heldur gengur út á að jólin séu fyrst og fremst sólstöðuhátíð, eins og ásatrúarmenn gera. En nú er Ásatrú ... jæja.

Helgileikir hljóta að flokkast undir „listsköpun í trúarlegum tilgangi“. Þeim er þá úthýst. „Heims um ból“ og „Bjart er yfir Betlehem“ eru sálmar (nr. 82 og 80 í Sálmabók Þjóðkirkjunnar) og eiga því ekki heima í jólaundirbúningi. Hvað með „Adam átti syni sjö“?

Ég ætla ekki að hætta mér út á þá braut að gagnrýna að í tillögunum skuli því „beint til stofnana borgarinnar sem hafa starfandi áfallaráð að tryggt sé að fagaðilar komi að sálrænum áföllum í stað þess að leitað sé til trúar- eða lífsskoðunarfélaga.“ Ég held að best sé að „fagaðilarnir“ sem hér er átt við meti það á faglegum forsendum hvort liðsinni presta sé æskilegt eða ekki við hverjar kringumstæður. Reyndar kæmi það mér á óvart ef fólk með sérfræðiþekkingu á sorg og sorgarviðbrögðum, huggun og líkn bæðist undan því að prestar tækju þátt í áfallahjálp. Víðast hvar þar sem áfallateymi eru starfandi sitja prestar í þeim. Ég veit ekki til þess að reynslan af því sé hræðileg.

En ég geri mér líka ósköp vel grein fyrir því að grunnmenntun presta, þ. e. kandídats- eða meistarpróf í guðfræði frá Háskóla Íslands, er engan veginn ítarleg sérmenntun á sviði sálgæslu eða áfallahjálpar. Á hitt ber þó að líta að fáir starfa meira að þessum málum en einmitt prestar, þannig að á vissan hátt finnst mér talað fjarskalega niðrandi um kærleiksþjónustu þeirra með því að fullyrða að þeir séu ekki „fagaðilar“ í þessum málaflokki. Hvað gerir mann að „fagaðila“ annað en fag hans? Ég fullyrði að allir sem hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að sitja kúrsa í sálgæslu hjá sjúkrahúsprestunum okkar hafi orðið betri menn á eftir og margir hafa í kjölfarið aflað sér dýrmætrar framhaldsmenntunar á þessu sviði. Og þegar upp er staðið þá eru verkfæri manna við sálusorgun ekki guðfræði og kenningar, játningar og dogmatík, hvort sem menn hafa þekkingu á þessu eða ekki, heldur kærleiksrík návist. Allt annað er skilið eftir úti á götu áður en gengið er inn í sorgarhús.

Á heildina litið efast ég ekki um að tillögum þessum sé ætlað að stuðla að jafnrétti trúar- og lífsskoðana. Ég held bara að þær séu vanhugsaðar og muni því ekki ná því markmiði sínu. Ég held að til að stuðla að víðsýni og umburðarlyndi sé vænlegra að opna faðminn en loka honum. Og það er umhugsunarefni hve einstaklega vel þessar tillögur falla að lífsskoðunum lífsskoðunarfélagsins Siðmenntar, en varaformaður þess á einmitt sæti í mannréttindaráði Reykjavíkur. Mörgum finnast viðbrögð kirkjunnar manna ofsafengin, en skyldi Siðmennt hafa brugðist við með minni ofsa ef tillögur mannréttindaráðs hefðu fallið svona saumlaust að kristnum lífsskoðunum?

Loks hvarflar ekki að mér að Guði stafi nein hætta af þessum tillögum. Gamansaga ein segir frá því að trúleysisráð sovéska kommúnistaflokksins hafi einhverju sinni komið saman og verið gjörsamlega ráðþrota gagnvart því hve illa gengi að útrýma trúnni, jafnvel þótt prestarnir væru allir komnir í Gúlagið og kirkjurnar orðnar að kartöflugeymslum. Í örvæntingu sinni ákváðu þeir að senda nefnd til Svíþjóðar til að komast að því hvernig Svíarnir fóru að þessu.

Reynslan sýnir nefnilega að guðlaust ríkisvald er alls ekki versti óvinur trúarinnar. Steingeld og steinrunninn, ófrjó og værukær ríkiskirkja er miklu hættulegri. Kristnir Íslendingar standa í rauninni í þakkarskuld við mannréttindaráð Reykjavíkurborgar fyrir að ýta svona rækilega við henni.

mánudagur, október 18, 2010

Hvatt til dáða

Viðbrögð við miður æskilegri og óþægilega sýnilegri nýbreytni í íslenskri stjórnmálaflóru 4. október 2010.

Landið út við ysta sæ

oft er súrt að gista,

en bölvað ástand bætir æ

að berja nýnasista.

Unun veitir, ætla ég,

sem alldjúpt muni rista

og fráleitt vera leiðinleg,

að lemja nýnasista.

Svona lagað svínarí

er svívirða að vista.

Byrjum þegar bernsku í

að banka nýnasista

Hýða má og hæða hvasst,

höggva í spað og kvista,

bæði klípa, bíta fast

og buffa nýnasista.

Allir þeir sem yndi sjá

í ýmsum fögrum listum

láti ekki líða hjá

að lumbra á nýnasistum.

Íslendingur, af þér slen

ættir þú að hrista.

Engin list er ljúfari en

að lemstra nýnasista.

Frá því merlar morgundögg

uns myrkva fer og frysta

látum dynja hnefahögg

á hausum nýnasista.

Svo við getum sofið rótt,

sæl við hafið ysta,

verum dugleg dag og nótt

að dangla í nýnasista

Í víti senda vonda skal

veginn allra stysta.

Ég mana því hvern mætan hal

að mauka nýnasista.

Þar til bera burtu þarf

bjánana í kistum,

það sé landans líf og starf

að lúskra á nýnasistum.

mánudagur, október 04, 2010

Orð

Ég hef yndi af orðum. Þau hafa persónuleika. Það er eins og sum orð beinlínis iði af lífi; „keikur“, „dillandi“, „kotroskinn“, á meðan önnur nánast lúta höfði í hljóðri auðmýkt; „náð“, „andvari“, „hógvær“. Sum orð eru þess eðlis að maður finnur næstum því ilminn og sér safann drjúpa af þeim; „þrunginn“, „höfgi“, „hrynjandi“. Og svo eru til orð sem eru jafnsafarík og þerripappír og með jafnspennandi persónuleika og rotnandi hræ. Þessi orð er einkum að finna í lagamáli og viðskiptum; „vaxtaálag“, „veðbókarvottorð“, „grunngjald“.
Fyrir allmörgum árum hugðist ég í fyrsta sinn festa kaup á fasteign. Mitt fyrsta verk í því augnamiði var að fara á fund ráðgjafa í banka og fá hjá honum upplýsingar um ferlið sem slík kaup færu eftir. Ekki hafði blessaður ráðgjafinn talað lengi þegar mér varð lífsins ómögulegt að halda einbeitingunni, ég sá hann hreyfa varirnar og heyrði óminn af rödd hans en orðin urðu að formlausum klið og fyrir eyrum mér var eins og hljómaði salsatónlist úr fjarska. Það varð því ekkert úr kaupum í það sinnið.
Síðan hef ég að vísu tekið mig á. Þótt ég segi sjálfur frá þá tekst mér sífellt skár að kynna mér eitt og annað misleiðinlegt og setja mig inn í málefni sem ég hef engan áhuga á en neyðist til að vera þokkalega samræðuhæfur um. Að verulegu leyti má eflaust þakka þetta hruninu, en það virðist hafa orskast af því að helstu hákarlar samfélagsins á sviði, sem mér var ekki aðeins lokuð bók heldur, hefði ég fengið að ráða, tætt, brennd og grafin bók, reyndust þegar til kastanna kom aðeins sandsíli með úttútnaða sjálfsmynd.
Öll mín viðleitni til að ráða bót á athyglisbrestinum, sem gagntekur mig þegar ég heyri of mörg þurrpumpuleg, marflöt og sálarlaus orð í sömu setningunni, má sín þó lítils þegar umræður um aðild að Evrópusambandinu eru annars vegar. Þegar ég heyri helstu spekinga þjóðarinnar tjá sig um hana til eða frá lendi ég fyrr eða síðar í sömu stöðu og í bankanum forðum daga. Ég heyri óm orðanna sem óljósan undirleik við salsatónlist úr fjarska.
Ég neyðist því sennilega til að byggja afstöðu mína til aðildar, þegar þar að kemur, á öðru en raunmerkingu orðavaðalsins. Hvort er líklegra að hafi rétt fyrir sér um það sem varðar heill og hamingju lands og þjóðar, Jóhanna Sigurðardóttir eða Davíð Oddsson? Þeirri spurningu er, að mínu mati, auðsvarað.