föstudagur, febrúar 24, 2006

Blað brotið í hingnun miðborgarinnar?


Ég ætlaði loksins að láta að því verða að kaupa mér nýjan síma í stað þess hálfbilaða sem Þórunn Gréta lánaði mér eftir að minn blotnaði og varð ónothæfur. (Hálfbilaður merkir að það er hægt að nota hann til alls nema að senda SMS. Hver takki getur aðeins skrifað staf númer tvö í vali. Davíð verður þannig "Ebuhe" sem enginn skilur auðvitað.) Mér til mikillar gremju kom hins vegar í ljós að verslun Símans við Laugaveg hefur verið lokað og er viðskiptavinum bent á verslanir Símans í Ármúla, Kringlunni eða Smáralind. Ég bý í miðborg Reykjavíkur, en ef ég ætla að kaupa mér farsíma verð ég að fara upp í eitthvað iðnaðarhverfi eða verslanaklasa í úthverfi. Ég er þeirrar skoðunar að fyrirtæki á borð við sjálfan Símann eigi að sjá sóma sinn í að vera sýnilegt í miðborginni, mér finnst það nánast siðferðileg skylda þess. Hvaða fyrirtæki með sjálfsvirðingu er bara með útibú í Kringlunni, Smáralind og Ármúla?
Ég man að ekki alls fyrir löngu kom upp einhver umræða um að styrkja verslun við Laugaveginn í sessi og virtust allir vera á einu máli um nauðsyn þess. Samt sem áður var biðröð langt út á plan fyrir utan BT í Skeifunni þar sem fólk beið í klukkustund af því að þar var hægt að kaupa Hringadróttinssöguspilið fimmtánhundruð krónum ódýrara en Hjá Magna – þar sem varla sást kjaftur.
Orð eru ódýr – verkin tala. Klasa-og úthverfavæðing Íslendinga virðist vera komin á það stig að núorðið sé auðveldara að selja farsíma uppi í Ármúla en við Laugaveginn. Heimur versnandi fer.

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Stóra Úlfarsárdalsmálið

Fólk sem borgar 20 milljónir fyrir lóð undir hús er ekki að borga fyrir lóðina heldur nágrannana. Auðvitað er það ágæt fjáröflunarleið að selja lóðir í einhverju Snobbhill-hverfi fyrir ofan snjólínu fyrir fólk sem er reiðubúið að punga út heilu einbýlishússverði extra fyrir nágranna sem eru líka reiðubúnir til þess. Fénu sem þannig er aflað mætti þá kannski verja í að gera fólki með þokkalega eðlilegar tekjur kleift að búa niðri á láglendi. En er verjandi að anna eftirspurn eftir einbýlishúsalóðum á þenslutímum þegar fjögur þúsund manns eru á biðlista? Ég er enginn hagfræðingur, en mér finnst það einhvern veginn ekki ganga upp. Hitt finnst mér aftur á móti skrýtið að allir stjórnmálamenn skuli vera reiðubúnir til að berjast fyrir hagsmunum fólks sem klæjar í skinninu eftir að geta byggt sér villu í Reykjavík. Ég get ekki að því gert að mér finnst því afar lítil vorkunn og hef það á tilfinningunni að það séu aðrir sem frekar skortir málsvara í borgarstjórn.

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Stóra Múhameðsmyndamálið

Ég hef ákveðið að hafa ekki skoðun á hinu ofurviðkvæma Múhameðsmyndamáli, enda nýbúinn að uppgötva þá sælutilfinningu sem því fylgir að finnast maður ekki nauðbeygður til að hafa skoðanir á hverjum einasta sköpuðum hlut. Sjálfsagt eru margir betur til þess fallnir en ég að skilgreina hina hárfínu línu á milli nærgætni og meðvirkni, málfrelsis og eineltis. Hins vegar var amma mín mjög vitur kona og stundum þegar Ármann frændi minn var að espa mig upp í sveitinni í gamla daga sagði hún: "Það er ekki gustuk að ergja illt geð." Ég held að ef fólk myndi upp til hópa reyna að lifa eftir þessari speki hennar ömmu minnar myndi flestum farnast betur.

mánudagur, febrúar 06, 2006

Ísland

Ísland er glæsihöllin mín háa,
heim þangað glaður ég sný.
Ísland er kotið mitt kalda og lága
sem kúldrast ég dapur í.

Ísland er ferskt eins og angan úr grasi
og ylhýrt sem vorsins þeyr.
Ísland er gamall og úreltur frasi
sem enginn skilur meir.

Ísland er sigrar og ánægjustundir,
afrek og hetjudáð.
Ísland er byrði sem bogna ég undir
er brestur mig þrek og ráð.

Ísland er sanna ástin mín stóra,
ástríðna logandi bál.
Ísland er gömul og útjöskuð hóra,
örmagna á líkama og sál.

Ísland er gæfa sem ákaft við þráðum
og ólán sem féll oss í skaut.
Ísland er núna og áður og bráðum
í einum hrærigraut.