þriðjudagur, júlí 24, 2007

Trúarfíkn


Í einni af skáldsögum Terrys Pratchetts kemst Dauðinn að þeirri niðurstöðu að lífið sé vanabindandi. Enginn getur hætt eftir fyrsta andardráttinn, sá fyrsti kallar á þann næsta og þannig koll af kolli uns fólk leggur sig í kjánalega framkróka og veður eld og brennistein til þess eins að halda lífi. Dauðinn á reyndar afskaplega erfitt með að átta sig á lífinu og rökleysunni sem oft einkennir það, til dæmis eðli fíknar. Því notar hann hugtakið af algerri vanþekkingu. Það gerir engan að súrefnisfíkli að geta ekki án súrefnis verið.
Fíkn er alltaf skemmandi afl. Henni fylgir leynd, skömm og kvíði. Hún lýsir sér í stjórnleysi á flestum sviðum, oft stjórnlausri stjórnsemi. Hún miðar að því að tortíma fíklinum andlega, tilfinningalega, fjárhagslega og félagslega og sviptir hann mannlegri reisn. Hún skilur fjölskyldur eftir í sárum, því fíkillinn tekur flóttann fram yfir velferð maka og barna. Hún einkennist af andfélagslegri hegðun, víðtæku ábyrgðarleysi og stanslausri sjálfshátíð; sjálfsréttlætingu og sjálfsvorkunn. Fíknin er berserksgangur sjálfshyggjunnar.
Flest sem lætur fólki líða vel getur valdið fíkn. Þannig þekkist meðal annars áfengis- og lyfjafíkn, átfíkn, spilafíkn, netfíkn, ástar- og kynlífsfíkn og jafnvel trúarfíkn. Lýsingin hér að ofan á við um þetta allt, ekki síst trúarfíknina. Trúariðkun sem lýsir sér á þennan hátt er sjúkleg.
Annað einkennir alla fíkn: Það er til lausn. Um allan heim hefur fjöldi fólks sigrast á öllum tegundum fíknar – líka trúarfíkn – eftir andlegum leiðum sem meðal annars fela í sér æðri mátt og handleiðslu hans. Þetta gerir það að verkum að margir líta svo á að fíkill í bata hafi einfaldlega skipt einni fíkn út fyrir aðra. Slíkt þekkist auðvitað, en þá láta raunveruleg batamerki eðlilega ekki á sér kræla. Yfirleitt er þetta þó sami misskilningur og ruglar saman áfengi og alkóhólisma.
Trú sem byggir á náungakærleik, auðmýkt og umburðarlyndi er ekki fíkn heldur einmitt fullkomin andstæða hennar á allan hátt. Trú sem sættir í stað þess að sundra er ekki sjúkdómur heldur einmitt lausn undan einhverju skelfilegasta meini sem herjað hefur á mannkynið.

fimmtudagur, júlí 12, 2007

Svar við getraun


Mér barst ósk um að birta rétt svar við getrauninni. Það stóð reyndar aldrei til, enda er ég ekki með það á hreinu sjálfur hvað skiltið merkir. Þessi mynd sýnir hins vegar hvernig það er staðsett á hurð léttlestar (ég held að það sé orðið, því neðanjarðar er hún ekki) í Berlín. Sennilega táknar skiltið að menn geti misst jafnvægið þegar lestin tekur af stað, jafnvel að gólfið geti verið hált í bleytu. Annars finnst mér það ólíkt Þjóðverjum, sem annars eru svo nákvæmir varðandi allt svona lagað, að hafa merkinguna ekki augljósari, t. d. með því að hafa bleytu á gólfinu eða sýna handfang sem jafnvægislausi maðurinn er að fálma eftir.

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Taugarnar í mér

Stundum tekur maður þannig til orða að maður sé illa upplagður. En ef rýnt er í orðasambandið sést að hin undirliggjandi merking þess er afar varhugaverð. Þannig líkir maður sjálfum sér í raun við kapal sem ekki gengur upp, að eitthvað vald, manni sjálfum óviðkomandi, leggi mann ýmist upp eða niður eftir eigin geðþótta, ef ekki beinlínis af handahófi. Þannig getur maður réttlætt það að vera endalaust eins og snúið roð í hund, því sá, sú eða það sem lagði mann upp þann daginn var úti að skíta og við því sé ekkert að gera.
En auðvitað leggur enginn mann upp nema maður sjálfur. Hvað mig varðar var það töluverð uppgötvun þegar ég gerði mér ljóst að það eina sem fer í taugarnar á mér er það sem ég sjálfur læt fara í þær. Vitaskuld er til fullt af fólki sem gerir sér far um að fara í taugarnar á manni. Þegar snúið er út úr fyrir manni, orð manns rangtúlkuð og manni jafnvel gerðar upp skoðanir reynir vissulega á taugarnar. Enginn er svo gjörsamlega yfir alla meðvirkni hafinn að slíkt angri hann ekki neitt. Það blundar pínulítill Zelig í okkur öllum; við viljum að öðrum líki vel við okkur.
Hins vegar ræður maður því sjálfur hvernig maður bregst við; hvort maður lætur etja sér á foraðið og lemur hausnum við steininn með því að reyna að útskýra eitthvað fyrir fólki sem er löngu búið að ákveða að skilja það ekki eða hvort maður kýs einfaldlega að láta það eiga sig. Maður þarf ekki að taka upp stríðshanskann bara af því að honum var kastað í mann.
Maður ákveður sjálfur hvort stolt manns sé svo viðkvæmt að maður verði að gerast leiksoppur allra sem ekki sýna því tilhlýðilega lotningu eða hvort sjálfsvirðing manns stendur af sér ómaklegar atlögur. Maður ræður því sjálfur hvort maður er strengjabrúða annarra eða hefur stjórn á sér, hvort maður er aðeins samansafn skilyrtra viðbragða við áreiti eins og skynlaus skepna eða hvort maður rís undir tegundarheitinu viti gæddur maður.
PS. Réttlætiskennd er síðan allt annað mál. Réttlætiskennd minni er oft misboðið. Það gerir samt ekki örlögin, náttúruöflin, Guð almáttugan eða jafnvel bara George W. Bush ábyrg fyrir því hvernig ég haga mér.
Bakþankar í Fréttablaðinu 8. júlí 2007

föstudagur, júlí 06, 2007

Fyrsta sjálfsmorðsárásin?


Í Dómarabókinni í Gamla Testamentinu, köflum 13 til 16, er sögð sagan af Samson. Engill Drottins birtist óbyrju nokkurri og tilkynnir henni að hún muni þunguð verða og muni sveinninn „ ... byrja að frelsa Ísrael af hendi Filista“ (13:5), en á þeim tíma réðu Filistar yfir Ísrael.
Svo virðist sem filiskar (filistískar?) konur hafi einkum höfðað til Samsonar, en kvennamál hans kosta 1.030 alsaklausa Filista lífið (14:19 & 15:15). Auk þess brennir Samson kornakra þeirra og uppskeru alla; „kerfaskrúf, óslegið korn, víngarða og olíugarða“ (15:5), en á öðrum lumbrar hann svo óþyrmilega „að sundur gengu lær og leggir“ (15:7). Ekki er annars getið en að þeir hafi lifað ofbeldið af, en vísast voru þeir örkumlamenn á eftir.

Fyrir rest tekst filiskri (filistískri?) konu sem heitir Dalía að blekkja Samson þannig að hægt er að koma honum undir manna hendur, en til þess þarf hann að fara í klippingu. Honum er refsað fyrir misgjörðir sínar þannig að bæði augun eru stungin úr honum. Þetta hljómar ansi miskunnarlaust, en miðað við að þarna var dauðarefsing landlæg fyrir það sem nú á dögum myndu teljast litlar sakir hlýtur þetta í ljósi tíðarandans að hafa verið fremur vægur dómur fyrir að hafa á annað þúsund mannslíf á samviskunni auk annara misyndisverka.
Síðar létu Filistar sækja hann sér til skemmtunar. Þá segir svo frá: „Þá hrópaði Samson til Drottins og sagði: „Drottinn Guð! Minnstu mín! Styrk mig nú, Guð, í þetta eina sinn, svo að ég geti hefnt mín á Filistum fyrir bæði augun mín í einu!“ Því næst þreif Samson í báðar miðsúlurnar, sem húsið hvíldi á, hægri hendinni í aðra og vinstri hendinni í hina, og treysti á. Þá mælti Samson: „Deyi nú sála mín með Filistum!“ Síðan lagðist hann á af öllu afli, svo að húsið féll ofan á höfðingjana og allt fólkið, er í því var, og þeir dauðu, sem hann drap um leið og hann beið bana, voru fleiri en þeir, er hann hafði drepið um ævina.“ (16:28 – 30)
Þarna fremur Samson m. ö. o. sjálfsvíg og tekur a. m. k. 1.031 heiðingja með sér – sem lið í því að frelsa þjóðina undan þeim – og hlýtur mika upphefð af.

Múslimir virðast því ekki eiga höfundarréttinn að konseftinu.