Kaldhæðni er vandmeðfarin og sennilega í bráðri útrýmingarhættu. Sú skemmtilega list að segja eitthvað eitt til þess að segja í raun eitthvað allt annað undir niðri virðist nefnilega hitta í mark hjá sífellt færri neytendum afþreyingar. Kannski er það einmitt þar sem hundurinn liggur grafinn. Þegar afþreying verður að áreynslulausri neyslu sem hægt er að taka við algerlega hugsunarlaust, án nokkurrar þekkingar á menningarumhverfi sínu eða bakgrunni þess, hvað þá einhverrar næmni á blæbrigði tungu og tjáningar eða læsis á vísanir og skírskotanir, missir viðtakandinn auðvitað hvatann og þarafleiðandi smám saman einnig hæfileikann til að skyggnast undir yfirborð þess sem borið er á borð fyrir hann. Þetta er hin nýja lesblinda sem menningu okkar og almennum skemmtilegum í samfélaginu stafar mun meiri hætta af en hinni. Þetta er blinda á merkinguna á milli línanna.
Þetta form lesblindu á sér þó býsna skondnar birtingarmyndir. Það gerist einkum þegar þeir, sem verið er að hæðast að, eru of heimskir til að sjá háðið á milli línanna. Nýjasta dæmið um svona heimsku er svokallaður dagur ofbeldis gegn rauðhærðum. Hann mun eiga rætur að rekja til bandarísku sjónvarpsþáttanna South Park. Í einum þáttanna heldur kynþáttahatarinn Cartman þrumuræðu um að rauðhært fólk sé heimskt, ómennskt og sálarlaust, enda hafi Júdas verið rauðhærður. Það sem gerist í kjölfarið er skrumskæling á þekktum vampírumyndum. Hinir rauðhærðu eru skuggalegar næturverur sem þyrstir í blóð, Cartman sjálfur verður rauðhærður og gerist leiðtogi rauðkollanna.
Þátturinn er bráðfyndin og skelegg háðsádeila á fordóma. Stillt er upp mismunun á hlægilega langsóttum forsendum og sýnt hve afkáraleg hún er, líka þótt forsendur hennar kunni að vera kunnuglegri. Þetta virðist aftur á móti hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá flestum. Börn hafa tekið speki Cartmans alvarlega, rétt eins og einhvern tímann sé að marka orð af því sem hann segir og höfundarnir verið gerðir ábyrgir fyrir ofbeldi gegn rauðhærðum – sem þeir voru einmitt að hæða. Að mínu mati stafar þetta af því að of mikið af forheimskandi afþreyingu hefur gert fólk of heimskt til að átta sig á því að enn er til list þar sem merkingin liggur ekki öll á ysta yfirborði hennar, list sem gerir kröfu til þess að fólk hugsi um það sem er verið að segja því.
Þetta form lesblindu á sér þó býsna skondnar birtingarmyndir. Það gerist einkum þegar þeir, sem verið er að hæðast að, eru of heimskir til að sjá háðið á milli línanna. Nýjasta dæmið um svona heimsku er svokallaður dagur ofbeldis gegn rauðhærðum. Hann mun eiga rætur að rekja til bandarísku sjónvarpsþáttanna South Park. Í einum þáttanna heldur kynþáttahatarinn Cartman þrumuræðu um að rauðhært fólk sé heimskt, ómennskt og sálarlaust, enda hafi Júdas verið rauðhærður. Það sem gerist í kjölfarið er skrumskæling á þekktum vampírumyndum. Hinir rauðhærðu eru skuggalegar næturverur sem þyrstir í blóð, Cartman sjálfur verður rauðhærður og gerist leiðtogi rauðkollanna.
Þátturinn er bráðfyndin og skelegg háðsádeila á fordóma. Stillt er upp mismunun á hlægilega langsóttum forsendum og sýnt hve afkáraleg hún er, líka þótt forsendur hennar kunni að vera kunnuglegri. Þetta virðist aftur á móti hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá flestum. Börn hafa tekið speki Cartmans alvarlega, rétt eins og einhvern tímann sé að marka orð af því sem hann segir og höfundarnir verið gerðir ábyrgir fyrir ofbeldi gegn rauðhærðum – sem þeir voru einmitt að hæða. Að mínu mati stafar þetta af því að of mikið af forheimskandi afþreyingu hefur gert fólk of heimskt til að átta sig á því að enn er til list þar sem merkingin liggur ekki öll á ysta yfirborði hennar, list sem gerir kröfu til þess að fólk hugsi um það sem er verið að segja því.
Bakþankar í Fréttablaðinu 21. 11. 2009