mánudagur, nóvember 23, 2009

Hin nýja lesblinda


Kaldhæðni er vandmeðfarin og sennilega í bráðri útrýmingarhættu. Sú skemmtilega list að segja eitthvað eitt til þess að segja í raun eitthvað allt annað undir niðri virðist nefnilega hitta í mark hjá sífellt færri neytendum afþreyingar. Kannski er það einmitt þar sem hundurinn liggur grafinn. Þegar afþreying verður að áreynslulausri neyslu sem hægt er að taka við algerlega hugsunarlaust, án nokkurrar þekkingar á menningarumhverfi sínu eða bakgrunni þess, hvað þá einhverrar næmni á blæbrigði tungu og tjáningar eða læsis á vísanir og skírskotanir, missir viðtakandinn auðvitað hvatann og þarafleiðandi smám saman einnig hæfileikann til að skyggnast undir yfirborð þess sem borið er á borð fyrir hann. Þetta er hin nýja lesblinda sem menningu okkar og almennum skemmtilegum í samfélaginu stafar mun meiri hætta af en hinni. Þetta er blinda á merkinguna á milli línanna.
Þetta form lesblindu á sér þó býsna skondnar birtingarmyndir. Það gerist einkum þegar þeir, sem verið er að hæðast að, eru of heimskir til að sjá háðið á milli línanna. Nýjasta dæmið um svona heimsku er svokallaður dagur ofbeldis gegn rauðhærðum. Hann mun eiga rætur að rekja til bandarísku sjónvarpsþáttanna South Park. Í einum þáttanna heldur kynþáttahatarinn Cartman þrumuræðu um að rauðhært fólk sé heimskt, ómennskt og sálarlaust, enda hafi Júdas verið rauðhærður. Það sem gerist í kjölfarið er skrumskæling á þekktum vampírumyndum. Hinir rauðhærðu eru skuggalegar næturverur sem þyrstir í blóð, Cartman sjálfur verður rauðhærður og gerist leiðtogi rauðkollanna.
Þátturinn er bráðfyndin og skelegg háðsádeila á fordóma. Stillt er upp mismunun á hlægilega langsóttum forsendum og sýnt hve afkáraleg hún er, líka þótt forsendur hennar kunni að vera kunnuglegri. Þetta virðist aftur á móti hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá flestum. Börn hafa tekið speki Cartmans alvarlega, rétt eins og einhvern tímann sé að marka orð af því sem hann segir og höfundarnir verið gerðir ábyrgir fyrir ofbeldi gegn rauðhærðum – sem þeir voru einmitt að hæða. Að mínu mati stafar þetta af því að of mikið af forheimskandi afþreyingu hefur gert fólk of heimskt til að átta sig á því að enn er til list þar sem merkingin liggur ekki öll á ysta yfirborði hennar, list sem gerir kröfu til þess að fólk hugsi um það sem er verið að segja því.

Bakþankar í Fréttablaðinu 21. 11. 2009

fimmtudagur, nóvember 19, 2009

Credo

Þú horfir af barmi hárra kletta
í hylinn dökkva
og hræðist ekki að hrasa og detta
heldur að stökkva.

Þú hugsar um allt sem þú hefur að tapa
og háskann að trúa
en óttast í rauninni ekki að hrapa
eins og að fljúga.

Þetta litla ljóð orti ég fyrir mörgum árum. Það rifjaðist upp fyrir mér í samtali fyrir skömmu. Ég minnist þess ekki að hafa birt það opinberlega áður.

mánudagur, nóvember 09, 2009

Aumingja þrælasalinn

Íslenskum fjölmiðlum er að vissu leyti vorkunn að vera ekki betri en þeir eru. Smæð markaðarins gerir það einfaldlega að verkum að fjármagnið leyfir ekki að fjöldi starfskfrafta og vinnustunda á bak við hvern dálksentímetra sé sambærilegur við það sem gerist víðast hvar erlendis. Þetta er þó auðvitað engin afsökun fyrir því almenna metnaðarleysi sem til dæmis lýsir sér í því hve allir íslenskir ritmiðlar virðast hafa einlægan áhuga á því hvort Amy Winehouse var í nærbuxum eða ekki síðast þegar hún fór á djammið.
Auðvitað fjalla íslenskir fjölmiðlar mestanpart um alvarlegri mál. Nýlegt, skelfilegt mansalsmál, sem verið er að rannsaka, hefur þannig fengið talsverða umfjöllun og eðlilega vakið almennan óhug. Rannsókn hefur leitt í ljós svo víðtæk og fjölbreytt afbrot, ofbeldi og hvers konar svik, að nú er verið að rannsaka málið sem skipulagða glæpastarfsemi. Þó er ekki laust við að manni finnist ekki hafa komið alveg nægilega skýrt fram nákvæmlega hvað í mansali felst. Það er í raun ekkert annað en þrælahald, oft í formi nauðungarvændis, þ.e.a.s. þaulskipulagðra raðnauðgana á fátækum stúlkum í ábataskyni fyrir þriðja aðila. Ástæðulaust er að fara fegri orðum um athæfið.
Illu heilli óttast ég að ástæða þess hve mikið hefur verið fjallað um þetta mál að undanförnu sé ekki sú hve ofbeldi af þessu tagi er einstaklega svívirðilegt, heldur sú að málið tengist sjúkri kynhegðun, lesefni sem allir óvönduðustu fjölmiðlar veraldar gera sér einmitt sérstakan mat úr að velta sér upp úr. Nýjasta útspilið sýnir nefnilega að dómgreind og siðferði hafa ekki roð við dramatískum uppslætti. Þar var gert mikið úr því að handtaka konu nokkurrar, sem tengist málinu, skyldi ekki fara fram í kyrrþey og að henni skyldi sýnd sú tillitssemi að bíða eftir ömmunni til að passa börnin áður en farið var með hana á lögreglustöðina til yfirheyrslu um meinta aðild hennar að viðurstyggðinni. Vafalaust er það áfall fyrir barn að sjá móður sína handtekna, en að óþægileg lífsreynsla af því tagi þyki eiga erindi í umfjöllun um þá lífsreynslu að vera haldið í þrælkun og nauðgað ítrekað lýsir engu öðru en siðblindu af stærðargráðu sem engin orð fá gert tæmandi skil.
En kannski er ekki við öðru að búast í landi þar sem engin pressa hefur markað sér þá meðvituðu ritstjórnarstefnu að vera aldrei hlandgul.
Bakþankar í Fréttablaðinu 7. 11. 2009

föstudagur, nóvember 06, 2009

Lof anarkísins

Hvað glæðir þínu geði í
gleði sem er tær og hlý
svo brosað færðu björtum himni mót
og hrekur óttann hjarta úr
og hlífir þér í kaldri skúr?
Anarkí er allra meina bót.

Hvað slekkur sáran þorsta þinn
með þungan, frjóan ávöxt sinn
og stendur fast á sterkri, traustri rót
og eflir þrótt og örvar dug
og eldi blæs í kalinn hug?
Anarkí er allra meina bót.

Hvað greiðir veg um grýttan stig
og gætir þín og verndar þig
er fætur þína lemstrar lífsins grjót
og líknar þinni lúnu sál
og leysir öll þín vandamál?
Anarkí er allra meina bót.

D. Þ. J.

þriðjudagur, nóvember 03, 2009

Skömm og skandalar

(Sir Lancelot/Lord Melody)

Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.
Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.

Austur á fjörðum forðum bjó
fjölskylda ein í spekt og ró
uns upphófst mikið uppistand
er erfinginn vildi í hjónaband.
Þá sonur gekk á föður fund,
í fylgd með honum hið unga sprund,
en pabbi dæsti er hann dömuna sá:
„Hún er dóttir mín þessi'en segðu mömmu'ekki frá.“

Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.
Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.

Misseri leið í sorg og sút,
en sveinninn hugðist þó ganga út.
Hann ástfanginn af ungmey var
sem eldaði dýrar kræsingar.
En pabbi dæsti er hann dömuna sá:
„Hún er dóttir mín líka'en segðu mömmu'ekki frá.“

Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.
Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.

En mömmu sagði'hann allt, enda miður sín,
og mömmu gömlu fannst þetta ágætt grín.
„Þú hlusta ekki skalt þennan hórkarl á,
því hann er ekki pabbi þinn, en segðu'ekki frá.“

Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.
Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.

Nýleg forsíða vikunnar minnti mig á þennan gamla slagara. Mér vitanlega hefur hann ekki verið þýddur á íslensku fyrr en nú. Þetta er auðvitað enginn gullaldaldarkveðskapur, en kannski má hafa gaman af þessu fyrir því.