mánudagur, maí 25, 2009

Fljótandi Smáralind á sterum

Það er ekkert að því að veiða sér til matar. Þannig má sameina holla útiveru sjálfsbjargarviðleitni sem manninum virðist vera eðlislæg. Að á menn renni drápsæði þannig að allt kvikt, sem á vegi þeirra verður, liggi örent á eftir flokkast ekki undir það. Sömuleiðis er ekki stigsmunur á því að kunna að meta góð vín með góðum mat og því að vera fullur allan sólarhringinn sjö daga vikunnar, heldur eðlismunur. Hófsemi er dyggð, hún þarf ekki að fela í sér neinn niðurdrepandi meinlætalifnað.
Nú er skemmtiferðaskip í Reykjavíkurhöfn. Því fylgir gjaldeyrir sem okkur veitir ekki af. Auk þess hefur fólk gott af því skipta um umhverfi og anda að sér fersku sjávarlofti. Það bætir líka hvern mann að skoða heiminn og kynnast framandi þjóðum og menningu þeirra. Það er ekkert rangt við að eiga frí og nota það til ferðalaga.
Aftur á móti runnu á mig tvær grímur þegar það var upplýst að nóttin um borð kostar hálfa milljón. Ferðin hingað til lands kostar því um fimm milljónir króna. Að vísu er fæðið innifalið í verðinu, en um borð eru nokkrir veitingastaðir. Á einum þeirra er trosið meira að segja étið af Vercace diskum. Einnig eru sundlaugar, verslanir og spilavíti um borð. Þarna er sem sé boðið upp á hvers konar afþreyingu í formi sömu verslunar, neyslu og þjónustu og farþegarnir eiga að venjast heima fyrir. Að vísu reikna ég með því að það sé frítt í sund.
Nú vil ég ekki hljóma eins og krumpaður fýlupoki, en ég get ekki að því gert að mér finnst dálítið úrkynjað að borga margar milljónir fyrir að fá að vera lokaður inni í einhverri fljótandi Smáralind á sterum dögum saman, jafnvel þótt manni gefist kostur á að brjóta upp búðarápið með því að kíkja á Gullfoss og Geysi eins og einn eftirmiðdag. Það er eitthvað rangt við það, eitthvað sem storkar velsæmiskennd minni. Reyndar myndi ég ganga svo langt að segja að það sýni slíkan skort á lágmarkdyggðum í ætt við hófsemi, samhyggð og smekkvísi að jaðri við úrsögn úr samfélagi siðaðra manna.
Árið 1986 var tveim hvalbátum sökkt í Reykjavíkurhöfn. Einhverjir ofurhugar gerðu sér lítið fyrir og losuðu botnlokur skipanna til að vekja athygli á málstað sínum. Hérmeð auglýsi ég eftir þeim sem þar voru að verki. Ég er með verkefni handa þeim.

laugardagur, maí 16, 2009

Í tilefni af Eurovision ...

... rifjaðist upp fyrir mér kveðskapur frá því fyrir nokkrum árum. Þá var ég að velta fyrir mér textanum við vinsælasta Eurovisionlag allra tíma, Waterloo með Abba. Textinn er ástarjátning þar sem söngkonan játar sig sigraða fyrir persónutöfrum draumaprinsins á sama hátt og Napóleón varð að játa sig sigraðan fyrir hertoganum af Wellington, við Waterloo. Í textanum er þess hvergi getið að eftir þá orrustu lágu 45.000 – 60.000 manns í valnum. Þess vegna datt mér í hug hvort ekki væri hægt að staðfæra textann með því að setja saman jafnósmekklega tilvísun í eitthvað blóðbað eða níðingsverk sem Íslendingar tengja sig frekar við. Þetta varð niðurstaðan. Ég nennti ekki að klára textann, fannst brandarinn eiginlega kominn til skila og óþarfi að halda áfram með hann.

Njálsbrenna
(lag: Björn Ulvæus og Benny Andersson/texti: D. Þ. J.)

Æ, æ. – Í hjarta mér er Bergþórshvoll að brenna.
Ég hlæ – ég brosi'og mæti örlögunum eins og Skarphéðinn.
Í Njálu af natni'er því lýst
og nautninni sem af því hlýst.

Njálsbrenna! – Ég beygi mig núna, þú brenndir Njál.
Njálsbrenna! – Í brjósti mér kveiktirðu ástarbál.
Njálsbrenna! – Ástin er háski og háspenna!
Njálsbrenna! – Í hjarta mér logar nú Njálsbrenna!

... o.s.frv.

Vegna síðustu færslu ...

.. og viðbragða við henni langar mig að koma þessu frá mér:

Ofstækisfullt fólk myrðir annað fólk. Það telur sig af einhverjum ástæðum hafa rétt til þess af því á því er brotið, annað fólk er fyrir því, það stendur í vegi fyrir að það nái markmiðum sínum, kúgar það eða er á einhvern hátt fulltrúar „hinna“ sem viðkomandi stendur ógn af. Vegna þess hve sagan er full af því að fólk skilgreini sig út frá trúarbrögðum hafa hinar ýmsu erjur fengið á sig trúarlega réttlætingu – þótt í grunninn standi ágreiningurinn um allt annað en trúarbrögð. Nærtækt dæmi gæti verið Norður-Írland. Þar var ekki trúarbragðastyrjöld á milli kaþólisma og prótestantisma heldur stríð á milli þjóða sem deildu sama landi. Forsendur átakanna voru m.ö.o. ekki trúarbrögð. Það vildi aftur á móti þannig til að deiluaðilar voru upp til hópa hvorir af sínum meiði kristinnar trúar og því var talað um átök mótmælenda og kaþólikka. Reyndar hefur aldrei verið barist um trúarbrögð í mannkynssögunni, þau hafa verið notuð til að réttlæta stríð um lönd, auðlindir og pólitísk ítök í heimhlutum. Jafnvel krossferðirnar voru ekki trúarlegar heldur pólitísk aðgerð. Yfirgangur Spánverja og Portúgala í Suður-Ameríku var klassísk nýlendustefna. Frelsisstríð Spánverja var háð við Mára, ekki af því að þeir væru Múslimir heldur af því að þeir voru erlend herraþjóð, en sú staðreynd að þeir voru annarrar trúar var notuð til að réttlæta ofbeldið. Allt sem deilir fólki í „okkur“ og „hina“ getur réttlætt ofbeldi, trúarbrögð hafa engan einkarétt á því. Það að þorri Þjóðverja deildi trú með restinni af Evrópu kom ekki í veg fyrir seinni heimsstyrjöldina. „Við“ vorum herraþjóðin, „hinir“ voru óæðri. Ef litið er á sögu Evrópu undanfarna áratugi mun koma í ljós að knattspyrna ber ábyrgð á fleiri dauðsföllum en trúarbrögð, „hinir“ héldu me röngu liði. Hvar eru samtök herskárra knattspyrnuandstæðinga sem hægt er að skrá sig í?

Sjálfsvígsárásir eru neyðarúrræði fólks sem grípur til örþrifaráða til að berjast gegn ofurefli. Sjálfsvígsárásir tíðkuðust t.d. í Víetnam-stríðinu gegn bandarísku innrásarliði. Þar komu trúarbröð hvergi við sögu. Reyndar voru það kommúnistar, yfirlýstir trúleysingjar, sem þar beittu því. Að tengja sjálfsvígsárásir einvörðungu við átök sem réttlætt eru með trúarlegum ágreiningi fær því alls ekki staðist.

Kúgun kvenna hefur viðgengist um allan heim frá örófi alda, eins og trúarbrögð. Hún hefur, eins og trúarbrögð, verið hluti af menningunni og oft réttlætt með trúarlegum rökum. Hún hefur líka verið réttlætt með ýmsu öðru móti, t.d. líffræðilegum, heimspekilegum og félagslegum rökum. Var Platon kannski feministi? En Darwin? Ef tengja á kúgun kvenna í gegn um aldirnar einhverju sérstöku í fari mannkynsins væri það einna helst öndun súrefnis.

Dauðarefsingar hafa tíðkast frá fornu fari og ákvæði um þær verið í lögum flestra þjóða. Reynslan sýnir að trúarlög hafa engan einkarétt á því að kveða á um dauðarefsingar. Í dag eru dauðarefsingar hvergi algengari en í Kína, hjá trúlausu kommúnistunum. Í Bandaríkjunum er skýrt kveðið á um algeran aðskilnað ríkis og kirkna. Þar hafa dauðarefsingar verið landlæg plága.

Þjóðkirkjan fær greidd sóknargjöld sem ríkið sér um að innheimta fyrir hana eins og öll önnur trúfélög. Hún hefur engar tekjur af fólki sem ekki tilheyrir henni og því með öllu úr lausi lofti gripið að væna hana um þjófnað. Auk þess fær hún greiðslu fyrir afnot ríkisins af eigum sínum, samkvæmt þaraðlútandi samningi. Deila má um sanngirni þess samnings, en hann er ekki þjófnaður. Sumum finnst býsna vel í látið, aðrir vilja meina að ef kirkjan fengi aðeins eina kirkjujörð til baka, t.d. Garða í Garðahreppi (nú Garðabær), væri hægt að hafa af henni meiri tekjur en samningurinn kveður á um.

Tvískinnungurinn, hræsnin, viðbjóðurinn og yfirskinið innan kirkjunnar hefur farið framhjá mér. Ég viðurkenni að gera þarf átak í kirkjuaga gagnvart prestum Þjóðkirkjunnar, eins og sorgleg, nýleg dæmi sýna. Ákveðinnar siðbótar er þörf þar innandyra. En að halda því fram prestar og annað starfsfólk kirkjunnar auk fjölda óeigingjarnra sjálfboðaliða séu upp til hópa hræsnarar, að starfið sem þar er unnið sé „yfirskin“ (væntanlega fyrir vafasamar fyrirætlanir) og að þar sé stundaður „viðbjóður“ er rakalaust níð. Ég skora á hvern mann sem þykist þess umkominn að sanna að sjálfboðaliðastarf mitt eða einhvers annars fyrir Nessókn, svo dæmi sé tekið, sé tvískinnungur, hræsni, viðbjóður eða yfirskin.

Á Íslandi er trúfrelsi, málfrelsi og skoðanafrelsi, bæði innan kirkjunnar og utan. Að því getur komið að skoðanir einstaklinga eru of ólíkar skoðunum kirkjunnar til að þeir eigi þangað nokkuð erindi. Kirkjan er þeim samt opin, enginn er spurður um trúfélagsaðild eða yfirheyrður um hreinleika trúar sinnar þegar hann af einhverjum ástæðum kýs að leita til kirkjunnar. Hugsanakúgun hefur einkum verið vandamál í kommúnistaríkjum þar sem trúleysi var hin opinbera stefna ríkisins sem knúin var fram af algjöru miskunnarleysi.
Kristnir menn hafa aðeins eitt boðorð: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matt. 22.37-39) Þeim hefur vissulega gengið misvel að fara eftir því. En það getur varla gert nokkurn að verri manni að aðhyllast þessa lífsskoðun. Morð, sjálfsvígsárásir, kúgun kvenna, dauðarefsingar, þjófnaður, tvískinnungur, hræsni og annar viðbjóður samrýmast henni að mínu mati afar illa.

Guð blessi alla sem þessar línur lesa.

föstudagur, maí 15, 2009

Satt og logið um trúarlíf Íslendinga

Stundum heyrist talað um að Íslendingar séu trúlausir upp til hópa. Helstu fulltrúar ofstækisfulls guðleysis á Íslandi hafa m.a. orðið uppvísir að því að fullyrða að aðeins 51% þjóðarinnar segist trúa. Þetta er úr lausu lofti gripið og eftir því sem næst verður komist hreinlega rangt. Gaman væri að sjá þá vísa í einhverja könnun til að úskýra þá niðustöðu sína.

Árið 2004 var nefnilega gerð Gallup-könnun á trúarlífi Íslendinga sem leiddi meðal annars í ljós:

  • að 91% þjóðarinnar telja kristnifræðikennslu í grunnskólum ekki of mikla
  • að börn 83% þjóðarinnar hafa tekið þátt í æskulýðsstarfi kirkjunnar
  • að 69% þjóðarinnar telja sig trúaða
  • að 65% þjóðarinnar biðja bæna með börnum sínum vikulega eða oftar
  • að 62% þjóðarinnar fara með Faðirvorið nokkrum sinnum í mánuði (þar af helmingurinn daglega)

og loksins:

  • að 19% þjóðarinnar telja sig ekki trúaða.

Þeir eru m.ö.o. ekki talsmenn 49% þjóðarinnar eins og þeir telja sér trú um heldur þrýstihóps sem í mesta lagi inniheldur 19% þjóðarinnar (þá er nefnilega ekki tekið tillit til þess að stór hluti fólks sem enga trú játar hefur megnustu andúð á þráhyggjukenndu trúar- og kirkjuhatri þeirra).

mánudagur, maí 11, 2009

Evrópa og yfirvegun

Það þarf hvorki að ferðast víða um Evrópu né grufla lengi í fréttum frá álfunni til að verða ljóst að Evrópusambandsandstæðingar og aðildarsinnar fara báðir með rangt mál í áróðrinum sem nú dynur á okkur úr öllum áttum og yfirgnæfir umræðu um allt annað.
Evrópa er fráleitt laus við félagsleg vandamál, fátækt og kreppu. Í mörgum löndum er atvinnuleysi landlægt og hefur verið kynslóðum saman. Byggðaröskun af völdum miðstýrðrar auðlindanýtingar er víða svo mikil að jaðrar við brot á efnahagslegum, menningarlegum og félagslegum mannréttindum íbúanna. Það er með öðrum orðum hrein firra að aðild að Evrópusambandinu ein og sér tryggi auðlegð, velsæld, hagvöxt og endalausar, sjálfbærar blómabreiður í sígrænum högum atvinnulífsins eins og barnalegustu aulahrollskratarnir láta í veðri vaka.
Hitt er líka út í hött, að í aðild felist aðeins afsal auðlinda og dauðadómur yfir fullveldi aðildarríkjanna og sérkennum þjóðanna sem þau byggja, eins og manni gæti skilist á hinu undarlega samkrulli útgerðarauðvaldsins og afdankaðara austantjaldssossa sem mest hamast gegn henni. Evrópusambandið er greinilega engin einsleit grámóða sem leggst yfir löndin og sýgur úr fólki allan þrótt, frumkvæði og sköpunarkraft. Það er ekki eins og ríki sambandsins hafi öll verið gleypt af yfirþjóðlegu svartholi sem máð hafi út einkenni þeirra hvers um sig og steypt í þau öll í sama mótið eftir staðli frá Brussel.
Það er með öðrum orðum jafnvitlaust að mála skrattann á vegginn og að vera með glýju í augunum. Þetta er ekki spurning um líf eða dauða heldur hvort aðild henti okkur eða ekki. Annað hvort byggjum við okkur framtíð í sambandinu eða utan þess. Við getum ekki byggt hana í dyragættinni – þar sem við höfum haldið okkur til þessa.
Þess vegna er ánægjulegt að ríkisstjórn flokka sem eru á öndverðum meiði hvað þetta varðar skuli hafa náð sátt um að leiða þetta mál til lykta með lýðræðislegum hætti svo hægt sé að fara að sinna brýnni verkefnum. Sömuleiðis er hlægilegt að heyra formann Sjálfstæðisflokksins tala um það sem veikleikamerki, en eins og kunnugt er logar sá flokkur stafna á milli af ágreiningi um Evrópumál. Þar er ekki einu sinni hægt að ná sátt um að lenda málinu með leikreglum lýðræðisins.
Bakþankar í Fréttablaðinu 9. maí 2009

þriðjudagur, maí 05, 2009

1994

Í aðdraganda nýafstaðinna kosninga var einn frambjóðenda spurður hvort hann vildi virkilega fara með íslenskt samfélag 15 ár aftur í tímann. Í spurningunni lá að í slíkri afstöðu fælist aðeins rykfallin fortíðarhyggja og heimskulegur fjandskapur í garð hvers konar framfara og framþróunar á öllum sviðum. Enda sór frambjóðandinn það dyggilega af sér að vera slíkur pólitískur steingervingur að hann teldi eftir nokkru vitrænu að slægjast svo langt aftur í forneskjunni.
En þetta fékk mig til að staldra aðeins við og rifja upp liðna tíð. Ég er nefnilega orðinn svo gamall að ég man ósköp vel fimmtán ár aftur í tímann. Og hvernig sem ég rembist tekst mér engan veginn að fá upp í hugann neina mynd af því sovéska helvíti sem látið hefur verið í veðri vaka að hafi verið á Íslandi árið 1994. Ég man ekki betur en að hægt hafi verið að ferðast til útlanda, gjaldeyrisviðskipti hafi viðgengist og verðbólga hafi verið viðunandi. Að olíuverslun undanskilinni minnir mig meira að segja að viðskiptaumhverfi hafi verið þokkalega eðlilegt, alltjent voru orðin „ofurlaun“ og „græðgisvæðing“ ekki til í málinu.
Menningar- og listalíf var í blóma árið 1994. Söngleikurinn Hárið gekk fyrir fullu húsi í Íslensku óperunni, Maus vann Músíktilraunir og Hallgrímur Helgason sendi frá sér Þetta er allt að koma. Húmor og bjartsýni réðu ríkjum. Á Kaffibarnum var fullt út úr dyrum öll kvöld vikunnar. Þótt sjálfur hafi ég dvalið þar langdvölum minnist ég þess ekki að vísitölur, vogunarsjóði, vaxtabætur og verðtryggingarálag hafi nokkurn tímann borið á góma í samræðum þar. Nei, þar var rætt um menningu, listir og stefnur og strauma í hugsun, viðhorfum og gildum. Gott ef hinstu rök tilverunnar voru ekki öðru hvoru tekin til umfjöllunar. Árið 1994 var hagfræði nefnilega talin óáhugavert nördafag. Þá grunaði engan að aðeins fimmtán árum síðar yrði hún alfa og ómega allrar opinberrar umræðu um mannlegt samfélag.
Þegar betur er að gáð er ég ekki frá því að ef árið 1994 hefði verið í boði á kjörseðlinum um síðustu helgi hefði ég valið það. Í raun er það eina verulega slæma, sem ég minnist frá árinu 1994, framtíðin sem þá beið okkar.
Bakþankar í Fréttablaðinu 2. maí 2009