mánudagur, október 29, 2007

Súðir vanþekkingarinnar


Vegna anna í námi mínu og ýmsu öðru hefur þessi síða mín verið í hálfgerðum hægagangi síðan í haust. Ég hef látið mér nægja að setja inn Bakþankana mína hálfsmánaðarlega og ætlaði að láta það duga. Hins vegar langar mig nú að setjast niður og rasa aðeins út, vegna þess að ákveðin hugsunarvilla er of yfirþyrmandi í umræðunni um nýju biblíuþýðinguna til að ég ráði við að sitja aðgerðarlaus hjá. Auk þess birtist þessi hugsunarvilla úr svo mörgum ólíkum áttum að fjölmiðlar hafa tekið hana upp sem staðreynd. Nýlega var forsætisráðherra m.a.s. spurður hvort hann hefði ekki haft efasemdir um að færa páfanum nýju Biblíuna að gjöf vegna þessarar gagnrýni. Því verður að spyrna við fæti og afhjúpa hana áður en hún fer í sögubækur sem vitrænt innlegg, því ef sama lygin er endurtekin nógu oft verður hún að sannleik – eins og alkunna er.
Hugsunarvillan er í því fólgin að einatt er klifað á því í umræðunni að Biblíunni hafi verið „breytt“, rétt eins og þýðingin frá 1912 – 1914 (væntanlega ásamt uppfærslunum sem gerðar voru fyrir 1981 útgáfuna) hafi verið innblásin af heilögum anda og sé sú eina rétta og öll frávik frá henni í fyrri og síðari þýðingum séu „falsanir“ vondra manna sem séu að „breyta“ hinu „sanna“ orði Guðs af annarlegum hvötum, það sé eitthvað ískyggilegt samsæri (e. „sinister plot“) í gangi. Nú síðast lætur hinn annars alla jafna marktæki Illugi Jökulsson vaða á súðum vanþekkingar sinnar í grein í 24 stundum, sem birtist sl. laugardag. Gætir þar annarlegrar meinfýsni í garð honum fróðari manna sem fer honum illa. Fyrirsögnin er hugsunarvillan sjálf í eins skýru og skorinorðu formi og hægt er að setja hana fram: „Að breyta bók“.
Öll þýðing er túlkun. Þessu gera múslimir sér svo glögga grein fyrir að þýðingar á Kóraninum eru einfaldlega ekki viðurkenndar sem Guðs orð. Kóranþýðingum fylgir þess vegna yfirleitt arabíski frumtextinn. Þessi virðing fyrir tungumálinu er hins vegar nánast óþekkt innan kristninnar, „illu heilli“ liggur mér við að segja.
Auðvitað varð síðasta biblíuþýðing ekki til í tómarúmi. Hún spratt ekki fram úr pennum manna sem aldrei höfðu heyrt neins konar þýðingu eða túlkun á textanum sem þeir voru að fást við, manna sem aldrei höfðu verið hluti af neins konar samfélagi, manna án menningarlegra viðmiða, siðferðilegrar innrætingar eða nokkurrar félagsmótunar, manna sem voru algerlega ósnortnir af umhverfi sínu, sögu eða siðgæði sinna tíma. Auðvitað endurspeglar þýðingin þetta allt, rétt eins og nýja þýðingin endurspeglar okkar tíma. Þurfa okkar tímar ekki einmitt þýðingu sem endurspeglar þá fremur þýðingu sem endurspeglar síðustu ár Austurrísk-ungverska keisaradæmisins?

Eingetinn eða einkasonur?

Auðvitað er það ólíðandi þegar beinlínis er farið með rangt mál til að réttlæta atvinnuróg, eins og Illugi gerir í grein sinni, þótt sennilega geri hann sér ekki grein fyrir því sjálfur hvað hann gerir. En annað orð er því miður ekki hægt að nota um það atferli að vega með staðleysum að hlutlægni vísindamanna. Illugi virðist ekki betur að sér í grísku en svo að hann étur upp allar helstu vitleysurnar úr Geir Waage, sem afhjúpaði skort sinn á grískukunnáttu afar eftirminnilega í Kastljóssþætti fyrir skömmu.
Fyrst byrjar Illugi á því að andskotast út í að orðið „monogenes“ (μονογενής) skuli ekki vera þýtt sem „eingetinn“. Hann segir: „Það þýðir „eingetinn“ og ekkert annað.“ Þessari fullyrðingu lætur hann fylgja ærumeiðandi ummæli um biblíuþýðendur þar sem hann vænir þá um vísvitandi fræðafölsun.
Hins vegar er þessi fullyrðing Illuga einfaldlega kolröng. Það er alls ekki dagljóst hvernig þýða ber μονογενής. Fyrri hluti orðisins þýðir vissulega „einn“ og sá síðari „getinn“. Kennari minn í ritskýringu Rómverjabréfsins, kúrsi sem ég sit nú í hjá Guðfræðideild Háskóla Íslands, þar sem nýju biblíuþýðinguna og helstu nýmælin í henni hefur auðvitað borið á góma, vill meina að merkingin sé einfaldlega „einn getinn“. Það þurfi að fara afar langsótta leið að þessu lýsingarorði til að halda að orðhlutinn „einn“ vísi ekki einfaldlega til nafnorðins sem það stendur með, „huios“ (υἱός), þ.e. „sonur“, heldur tæknilegrar útfærslu á fyrirkomulagi síðari orðhlutans, þ.e. getnaðarins.
Einar Sigurbjörnsson, hefur svarað þessu ágætlega. Kannski þykist Illugi þess umkominn að geta leiðrétt báða þessa menn á þeirra eigin fræðasviði, en ég held að honum væri nær að biðjast afsökunar og annað hvort að dusta rykið af grískubókunum sínum eða „breyta“ þeim.
Í postullegu trúarjátningunni er Jesús ekki sagður eingetinn en aftur á móti kallaður „einkasonur“ Guðs föður almáttugs.

Stúlkan eða jómfrúin?

Hitt er svo annað mál hvernig „einn getinn“ varð „eingetinn“. Þessi áhersla á meyfæðinguna er að mínu mati er algerlega óþörf. Enda er hún augljóslega bein afleiðing af tvíhyggju hellenískrar heimspeki, holdið gegn andanum, og á skjön við kristinn mannskilning. Við erum hluti sköpunarverksins og sköpunarverkið er gott, eins og Guð klifar á í fyrri sköpunarsögunni í Fyrstu Mósebók. Maðurinn er í mynd Guðs, bæði karlinn og konan. Kynhvötin er gjöf Guðs og því góð, hana ber að umgangast af virðingu fyrir gefandanum en ekki af léttúð og virðingarleysi gagnvart gjöfinni (og þarafleiðandi þeim sem hana gaf). Kynhvatarinnar á að njóta en hvorki neyta né beita. Líkamlegar þarfir okkar eru ekki slæmar í sjálfum sér, það er óhófið sem er synd. Æðsta boðorðið er að elska Guð, náungann og sjálfa(n) sig. Það er ekki synd að fullnægja þörfum sínum í samræmi við það. Þannig er ekki synd að matast, en ofát er aftur á móti höfuðsynd.
Ímugusturinn á hinu kynferðislega er augljóslega endurspeglun hugmynda hins alltumlykjandi feðraveldis ritunartíma Nýja testamentisins þar sem hið kvenlega og undirgefna (kynhlutverk konunnar) var bein andstaða alls þess sem álitið var heilagt og göfugt. Sorðin kona var „spjölluð“, skemmd vara. Vanhelguð kona gat ekki alið af sér heilagt afkvæmi – af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Móðir guðs gat ekki hafa verið sorðin, slíkt hefði grafið undan guðdómi Jesú í hugarheimi fyrstu aldar okkar tímatals, þrátt fyrir að Jesús hafi hvað eftir annað tekið upp hanskann fyrir hina bersyndugu. Það er í lagi að sýna þeim göfuglyndi – ekki að tilheyra þeim.
Hvers vegna orðið „parþenos“ (παρθένος) er þýtt sem mey, þ.e. „hrein mey“, þegar það merkir einfaldlega unga stúlku sem orðin er kynþroska án nokkurar vísunar í kynferðislega reynslu hennar, er síðan annað mál. Óbeit guðspjallamannanna á kynlífi, sem lýsir sér í áherslu þeirra á að María hafi verið óspjölluð (Lúkas 1:34, Matt. 1:18-20), virðist mun innblásnari af menningarheiminum sem þeir voru að ávarpa en heilögum anda. Óbeit Guðs á kynlífi er nefnilega ekki meiri en svo að strax við fyrstu samfarirnar var hann í verki með Adam og Evu. Í Fyrstu Mósebók 4:1 segir: „Maðurinn kenndi konu sinnar Evu og hún varð þunguð og fæddi Kain og mælti: Sveinbarn hef ég eignast með hjálp Drottins.“
Í Gamla testamentinu er frjósemi hvað eftir annað nátengd blessun Guðs þegar óbyrjur verða barnshafandi á gamals aldri og einnig í Nýja testamentinu (Lúkas 1:5-13). Fræðimenn hafa haldið því fram að getnaður fyrir tilstilli heilags anda þurfi alls ekki að útiloka líkamlegt samræði samkvæmt skilningi frumlesenda Biblíunnar, aðkoma hans sé beintengd blessunarhugtaki menningararfleifðar þeirra.
Í postullegu trúarjátningunni er Jesús aðeins sagður getinn „af heilögum anda“ og stellingafræðin látin eiga sig.

Ástir og örlög

Í áhugaverðri bók um hinn sögulega Jesú og Krist ritningarinnar eftir J. R. Porter, sem mér skilst reyndar að hafi verið þýdd á íslensku, er greint frá þeirri kenningu að Matteus hafi dregið upp þessa mynd af hinni ólofuðu og óspjölluðu Maríu til að bregðast við þeim orðrómi, sem ýmsar gyðinglegar heimildir eru fyrir um, að Jesús hafi verið ávöxur hneykslanlegs ástarsambands Maríu og rómversks hermanns að nafni Pantera. Árið 1859 fannst legsteinn rómversks hermanns í Þýskalandi sem hét Pantera og var sagður vera frá Sídon, nálægt Galíleu. Þrátt fyrir að frelsarinn hafi verið sagður fæddur í gripahúsi eins og hver annar búpeningur og verið lagður í jötu, þótt hann hafi verið óskilgetinn og síðar flóttamaður í eigin landi, í raun deilt hlutskipti með flestum þeim sem útskúfaðir voru og smáðir, var það einum of mikið fyrir karlrembuna sem gegnsýrði samfélagið að hann gæti verið „ástandsbarn“.
Hins vegar finnst mér merkilegt hvað ástarsamband Jósefs og Maríu hefur verið lágt skrifað í gegn um aldirnar og því gerð lítil skil. Hver hefðu örlög Maríu orðið hefði Jósef neitað að ganga að eiga hana? Hvaða áhrif hafði ráðahagurinn á þjóðfélagsstöðu Jósefs? Hér er óplægður akur fyrir epíska ástarsagnahöfunda. Hvenær var ást karls á konu göfugri eða fegurri? Því auðvitað er raunverulegt mikilvægi Maríu alls ekki fólgið í meyjarhafti hennar, heldur einmitt mennsku.
En þetta var útúrdúr.

Bræður og systur

Næsta villa sem Illugi veður í varðar notkun fleirtölu orðsins „adelfos“ (ἀδελφός), þ.e. „bróðir“. Hér, eins og áður, lepur hann vanþekkinguna upp úr Geir Waage. Fleirtala orðsins ἀδελφός er ἀδελφοὶ og notar Páll postuli hana gjarnan þegar hann ávarpar hina kristnu. „Systir“ myndi vera „adelfe“ (ἀδελφὴ) og fleirtala þess ἀδελφαὶ, „systur“. Hvorugkynsmynd orðsins, sem væntanlega myndi merkja „systkin“ og vera ἀδελφόν, í fleirtölu ἀδελφα, er hins vegar ekki til. Það væri uppdiktað orð. Þegar blandaður hópur er ávarpaður er karlkynsmyndin ἀδελφοὶ, því notuð í merkingunni „systkin“ eða „bræður og systur“. Um þetta vitnar fjöldi varðveittra bréfa frá ritunartíma Nýja testamentisins. Þessu hefði Illuga átt að vera í lófa lagið að fletta upp. Ég vona að ástæða þess að hann gerði það ekki hafi ekki verið sú að honum hafi verið meira kappsmál að sverta biblíuþýðinguna og þýðendurna en að hafa það sem sannara reynist.
Að þýða ἀδελφοὶ sem „bræður og systur“ er því einfaldlega hárrétt þegar blandaður hópur er ávarpaður, ég tala nú ekki um ef hin ávörpuðu eru nafngreind á eftir og hluti nafnanna er kvennöfn. Það eina sem ástæða er til að fetta fingur út í við þá þýðingu er að neðanmáls skuli þýðingin „bræður“ vera nefnd sem „bókstafleg“. Þýðingin „systkin“ er nefnilega alveg jafnbókstafleg.
Hér tala ég út frá menntun minni og námi í forn-grísku í Háskóla Íslands, sem ég hef hlotið hjá aðilum sem ég tel marktækari átorítet um forn-gríska málnotkun alþýðu manna á fyrstu öld e.Kr. en Illuga Jökulsson, með fullri virðingu fyrir þeim sjóðum fróðleiks og þekkingar sem hann hefur sankað að sér um dagana á öðrum fræðasviðum.

Þræll eða þjónn

Loks fer Illugi mikinn í vanþóknun sinni á því að orðið „doulos“ (δοῦλος) skuli vera þýtt sem „þjónn“ en ekki „þræll“. Gengur hann svo langt að gera Jesú Krist að talsmanni þrælahalds. Það er rétt að Kristur talar ekki beinlínis gegn þrælahaldi, hann hvetur ekki til þrælauppreisnar, enda ekki boðberi ofeldis eða blóðsúthellinga. Hann varar einmitt við slíku. „Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein,“ segir hann (Matt. 5:39). Þar notar hann sögnina ἀνθίστημι. Merking hennar er aðeins blóðugri en einfaldlega „að rísa gegn“, hún felur í sér ofbeldi. Sagnaritarinn Josephus notar hana í þeirri merkingu í 15 þeirra 17 skipta sem hún kemur fyrir í ritum hans. Það var nákvæmlega þetta sem gyðingar gerðu árið 70 e.Kr. en það leiddi af sér eyðingu musterisins og annað sem gyðingar og restin af heiminum er ekki enn búin að bíta úr nálinni með.
Kristur leggur áherslu á að hans ríki sé ekki af þessum heimi (Jóh. 18:36). Frelsið sem hann boðar er ekki frelsi undan ánauð og þrælkun, lágri þjóðfélagsstöðu og stéttaskiptingu, heldur frelsi undan undan synd og dauða til sáluhjálpar og eilífs lífs fyrir náð Guðs, frelsi undan ótta og vonleysi til vonar, trúar og kærleika.
Hann er ekki að boða „réttlátt þjóðfélag“. Þar fer Illugi í guðspjöllin að leita Internationalsins. Jesús boðar ekki kosningarétt kvenna. Hann boðar ekki einu sinni kosningarétt karla. Að gagnrýna Krist fyrir að hafa ekki hvatt til þrælauppreisnar er jafngáfulegt og að gagnrýna Spartakus fyrir að hafa vanrækt helgihaldið. Hvernig fór líka þrælauppreisn Spartakusar? Kristur vissi hvert slíkt myndi leiða, hann elskaði mennina og hefði aldrei leitt þá eða eggjað til slíks glapræðis.
Í upphafsávarpi Rómverjabréfsins kallar Páll postuli sig „δοῦλος“ Jesú Krists. Það er þýtt sem „þjónn“. Illugi fullyrðir að það sé „sögufölsun“ að Páll kalli sig ekki þarna „þræl“ Krists. Auðvitað er úr vöndu að ráða, δοῦλος merkir hvort tveggja „þjónn“ og „þræll“, enda þjónar alla jafna ófrjálsir menn á þessum tíma. Hvort er hér verið að vísa til þjóðfélagsstöðu og stéttar eða hlutverks? Ég tel nokkuð ljóst að það sé hið síðarnefnda. Síðar segist Páll nefnilega „þjóna“ Guði í anda sínum (Róm. 1:9). Þar notar hann sögnina λατρεύω, sem merkir að „vinna fyrir, gjarnan gegn kaupi“ samkvæmt minni orðabók. Hvers vegnar notar hann ekki sögnina δουλεύω, sem er samstofna orðinu δοῦλος og notuð um nauðung? Hann lítur augljóslega ekki á sig sem þræl. Hins vegar er verkefni hans auðmjúk þjónusta – ekki þrælkun. Orðið δοῦλος vísar því ekki til þjóðfélagsstöðu í þessu samhengi heldur hlutverks … afstöðunnar til Guðs, Krists, fagnaðarerindisins eða jafnvel syndarinnar. Það væri því hrein fölsun að þýða δοῦλος sem „þræll“ í þessu samhengi.
Þetta orð er ekki notað um stétt manna og kvenna í Nýja testamentinu heldur það verkefni að þjóna, að starfa fyrir, ekki af ánauð heldur einmitt í gleði til frelsunar. Þessi málatilbúningur Illuga er því aðeins síðasta vindhöggið í þeirri löngu röð vindhögga sem grein hans er frá upphafi til enda.

Hvað varð um „kynvilluna“?

Þeir sem einna minnst er að marka í trúarlegri umræðu á Íslandi hafa haft mjög hátt um að „kynvillan“ hafi verið ritskoðuð burt úr Biblíunni. Illugi hættir sér sem betur fer ekki á þau mið og er það virðingarvert af honum. Það ætla ég ekki heldur að gera. Til þess tel ég mig skorta akademískar forsendur, enn sem komið er. Hins vegar langar mig að skrifa B.A. rigerð mína í guðfræði á sviði ritskýringar Nýja testamentisins og þótt ég hafi ekki enn ákveðið nákvæmlega hvert viðfangsefnið verður koma hugtök eins og „kynvilla“, „saurlífi“ og „hórdómur“ einna helst til greina sem stendur. Það fer dálítið eftir því hvað gert hefur verið á þessu sviði til þessa, en það hef ég ekki kynnt mér að neinu marki. Að ári mun ég því vonandi geta tjáð mig um þessi mál af þeirri þekkingu sem til þarf. Áhugasömum langar mig hins vegar að vísa á þessa grein og þessa og þessa.

Annarlegar forsendur

Það ljótasta í allri þessari umræðu er að mínu mati hinar annarlegu forsendur sem biblíuþýðendunum hafa verið gerðar upp. Þeim er legið á hálsi fyrir að falsa vísvitandi niðurstöður sínar til að þjóna pólitískri rétthugsun vorra daga. Öllu alvarlegar er varla hægt að vega að æru nokkurs fræðimanns.
Hvaða mögulegu forsendur gætu þeir haft fyrir slíku? Hvaða ískygglega samsæri ætti svosem að vera hér á ferð? Á miðöldum hefði þetta verið skiljanlegt, þegar Biblían var tæki til að stjórna heiminum. Því er hins vegar ekki að heilsa nú á dögum. Hér er um að ræða biblíufræðinga sem annað getur varla vakað fyrir en að vinna starf sitt af eins mikilli kostgæfni, metnaði og virðingu fyrir fræðunum og þeim er unnt, enda sennilega það sem þeirra verður helst minnst fyrir eftir þeirra dag. Þetta er þeirra stóra framlag til fræðanna. Hví skyldu þeir vilja leggja augljósar falsanir fyrir dóm sögunnar? Hvað er mögulega í því fyrir þá?
Einhvern veginn er mun auðveldara að koma auga á annarlegar forsendur helstu gagnrýnendanna. Gunnar Þorsteinsson, gjarnan kenndur við Krossinn, hefur verið þar framarlega í flokki. Hann hefur byggt fjárhagsveldi sitt í trúarbransanum að miklu leyti á hommahatri. Á hann annarlegra hagsmuna að gæta að halda „kynvillunni“ inni í Biblíunni? Já, svo sannarlega.
Geir Waage er annar gagnrýnandi, sem uppvís hefur verið að því að beita fyrir sig skorti á grískuþekkingu í umræðunni. Hann hefur um árabil verið einn helsti dragbíturinn á umburðarlyndi og frjálslyndi innan kirkjunnar, samansúrraður svartstakkur. Hann hefur gerst talsmaður allra íhaldssömustu viðhorfanna innan guðfræðinnar og er í margra huga beinlínis holdgerfingur þeirra. Á hann annarlegra hagsmuna að gæta í íhaldssamri túlkun biblíutexta? Já, svo sannarlega.
Svo bætist Illugi Jökulsson í hópinn. Á hann annarlegra hagsmuna að gæta? Ég vil ekki fullyrða að svo sé þótt hann sé yfirlýstur trúleysingi. Nýlega skrifaði hann grein þar sem hann lýsti fjálglega þeim létti og frelsun sem hann fann fyrir þegar hann hafnaði almættinu. Ég skildi tilfinningar hans mjög vel, enda sjálfur orðið fyrir svipaðri „hallelúja-upplifun“, sem ég myndi einmitt lýsa með svipuðu orðfæri og hann notaði til að lýsa sinni. (Í hans tilfelli væri kannski nær að tala um „hallelú-enginn-ja“ upplifun.) Einhver sérstök virðing fyrir kirkju og kristni eða hlýhugur í þeirra garð er honum a.m.k. ekkert sérstakt kappsmál, þótt ég ætli ekki að ganga svo langt að ætla honum beinan fjandskap í garð hvors tveggja.
Mín persónulega upplifun af frelsi og létti var ekki í því fólgin að hafna Guði af því að ég hafði ekki orðið hans nógu mikið var í kringum mig, eins og Illugi og fleiri hafa gert. Mér fannst ég ekki alveg geta skipað honum fyrir á þann hátt eins og þjóni eða þræl. Þvert á móti þá fólst minn léttir einmitt í því að mér skildist að ástæðan fyrir því að Guð var ekki lifandi hluti af daglegum raunveruleika mínum var sú að það er andstætt eðli hans að gerast boðflenna. Mín reynsla og fjölda annarra er sú að líknandi máttur hans gerir vart við sig um leið og maður opnar dyr sálar sinnar fyrir honum af hjartans auðmýkt og einlægni.
Guð blessi ykkur öll.

Sannleikurinn mun gjöra yður frávita


Nokkur styr hefur staðið um nýja biblíuþýðingu, eins og við var að búast, enda hefði annað verið algjört nýmæli í sögu þeirra. Núna muna að vísu fæstir eftir látunum í kringum fyrri þýðingar og sömuleiðis verður uppnámið núna flestum gleymt þegar sú næsta leysir þessa af hólmi. Einn þeirra sem þannig mun gleymast er Svarthöfði í DV sem sl. fimmtudag fullyrðir að verið sé „að ganga erinda ákveðinna hópa með því að breyta texta ritningarinnar og meiningu hans ... til að þóknast minnihlutahópum“.
Þetta er auðvitað ekkert annað en illkvittinn rógur. Hér er vegið af algerri vanþekkingu úr skjóli nafnleyndar að heiðri fremstu biblíufræðinga þjóðarinnar. Eða hafa vísindamenn á öðrum fræðasviðum þurft að sæta því í fjölmiðlum að vera borið á brýn að stjórnast af annarlegum hvötum, að bera ekki á borð það sem sannast er og réttast samkvæmt fræðunum, heldur að falsa niðurstöður sínar? Hvernig ætli viðbrögðin við slíku yrðu?
Við höfum aldrei getað gert okkur gleggri grein fyrir upphaflegri merkingu biblíutexta en nú. Vit okkar á menningarheimi og félagslegu umhverfi frumlesendanna (og þarafleiðandi skilningi þeirra á textanum) hefur aldrei verið meira. Til að komast eins nálægt merkingu frumtextans og framast er unnt er ýmislegt auðvitað þýtt öðruvísi núna en áður, þegar unnið var af minni þekkingu. Síðasta heildarþýðing Biblíunnar er frá því fyrir daga fyrri heimsstyrjaldarinnar. Að halda því fram að hún sé „sannari“ er auðvitað augljós bábilja sem stenst enga akademíska skoðun.
Þetta er sárt fyrir þá sem lagt hafa alla sína orku í bókstafstrú á þrálátar túlkunarvillur úr úreltum menningarheimi eldri biblíuþýðinga sem nú hafa verið leiðréttar. Í huga þeirra er æðsta boðorðið nefnilega alls ekki æðsta boðorðið, sem er heppilegt, því það felur m.a. í sér þá erfiðu skyldu að elska náungann. Slitrur úr Þriðju Mósebók, Rómverjabréfinu og Fyrra Korintubréfi, rifnar úr öllu samhengi, hafa meira vægi, því þar koma fyrir orð eins og „kynvillingar“, „girnd“ og „viðurstyggð“, sem auðveldara er að æpa um leið og bent er á náungann.
Sannleikurinn gerir mann nefnilega ekkert mjög frjálsan ef maður hefur reist höll sína á lygum. Þá gerir hann mann bara siðferðilega gjaldþrota.
Bakþankar í Fréttablaðinu 28. 10. 2007

þriðjudagur, október 16, 2007

Flokksræfilsháttur

Flokksræfilsháttur íslenskra stjórnmálamanna hefur nú endanlega gengið af stjórnmálaáhuga mínum dauðum. Ekkert er metið hlutlægt, engrar samkvæmni gætir, allt er skilið samkvæmt hagsmunum flokksins.
Í kjölfar síðustu borgarstjórnarkosninga fór að halla undan fæti. Þá kölluðu Sjálfstæðismenn næstverstu útreiðina í sögu sinni „glæsilegan kosningasigur“. Sú staðreynd að R-listaflokkarnir skyldu ekki tapa neinu fylgi þrátt fyrir vandræðaganginn sem einkenndi allt kjörtímabilið, var auðvitað í augum Sjálfstæðismanna engin vísbending um að þrátt fyrir allt nytu R-listaflokkarnir óbreytts trausts kjósenda. Eftir síðustu alþingiskosningar syrti enn í álinn. Þá var fylgistap Samfylkingar kallað „varnarsigur“ þar á bæ, rétt eins og ríkisstjórnir sæki á stjórnarandstöðu en ekki öfugt. Metið á þó Guðlaugur Þór sem í sjónvarpsviðtali fyrir nokkrum árum kallaði eins atkvæðis sigur Vöku í Háskólakosningum „glæsilegan“. Hvernig er eiginlega sigur sem er „ekkert sérstaklega glæsilegur“?
Frétt vikunnar var síðan hrein revía. Dagur B. Eggertsson, sem gagnrýndi síðustu borgarstjórn fyrir að vera mynduð um völd en ekki málefni, reið á vaðið með að svara því, aðspurður hvort nýji meirihlutinn væri ekki myndaður á nákvæmlega sama hátt, að undir þessum kringumstæðum giltu allt önnur viðmið. Auðvitað var öllum ljóst að eina breytingin var hvoru megin borðsins Dagur sjálfur sat. Sjálfstæðismenn vændu Björn Inga um siðleysi fyrir að koma eins fram við sig og þeir komu sjálfir fram við Ólaf F. í fyrra og fyrir að stjórnast af hagsmunum sem var í lagi að hann stjórnaðist af á meðan hann var í samstarfi við þá. Svo veinuðu þeir að vanda að margra flokka stjórn gæfist aldrei vel, þrátt fyrir að Reykvíkingar hafi í raun endurkjörið R-listann þótt hann væri ekki í framboði. Ómar sá aðeins sterka stöðu Margrétar, Valgerður kænsku Björns Inga og UVG þótti atburðarásin í heild eingöngu afhjúpa Svandísi sem hinn raunverulega leiðtoga í borginni. Er von að maður nenni ekki að vera með?
Ég óska Reykvíkingum til hamingju með nýja borgarstjórn og nýjum borgarstjóra velfarnaðar í starfi. Um leið þakka ég fráfarandi meirihluta góð verk, einkum strætókortin. Þau eru Sjálfstæðisflokknum til fágæts sóma.
Bakþankar í Fréttablaðinu 14. 10.

þriðjudagur, október 02, 2007

Ógleymanlegt óminni


Einu sinni fékk ég launaseðil sem er mér afar eftirminnilegur. Þar var ég nefnilega minntur á að ég hefði þegið greiðslu fyrir að leika djass á ákveðnum veitingastað í Reykjavík og að mér bæri að borga af henni skatt. Satt best að segja kom þetta verulega flatt upp á mig, því ég mundi hreinlega ekki eftir því að hafa nokkurn tímann leikið neins konar tónlist á þessum stað, allra síst djass, sem aldrei hefur verið í neinu sérstöku dálæti hjá mér.
Að vísu varð ég að viðurkenna að þetta tímabil, þegar þessi uppákoma átti að hafa átt sér stað, var í dálítilli móðu í huga mínum og því ekki með öllu útilokað að ég hefði tekið upp á einhverju sem ekki sæti eftir í minningunni. Hins vegar þótti mér einkennilegt að frammistaða mín í djassleik, hefði ég á annað borð tekið upp á slíku í einhverri myrkvuninni, hefði verið með þeim ágætum að ástæða hefði þótt til að verðlauna mig fyrir hana með peningum.
Í fyrstu varð ég verulega upp með mér og hugðist greiða skattinn glaður í bragði. Ég sá fram á að sennilega byggi ég yfir leyndum hæfileikum sem brystu fram þegar meðvitundin væri í lágmarki, hér blasti jafnvel við ný framabraut sem ég þyrfti ekki að hafa neitt fyrir að ná árangri á, aðeins að stunda það sem var mín helsta afþreying um þær mundir hvort sem er. Að vísu þótti mér dálítill galli að geta ekki munað eftir stærstu sigrunum á ferlinum, að algert óminni væri skilyrði, en mér þótti sá galli þó ekki það stór að hann vægi upp á móti kostunum. Þarna var hin útópíska leið til að afla fjár fundin. Ég gæti lifað á eftirlætisiðju minni.
Mér þótti þó rétt að fá þetta staðfest áður en ég gerbreytti öllum mínum framtíðaráformum og gekk á fund veitingamannsins til að fá úr þessu skorið. Þar kom hið sanna auðvitað strax í ljós. Þetta var náttúrlega ekki næstum því svona spennandi. Manngreyið hafði einfaldlega farið línuvillt í þjóðskránni þegar hann gerði launaseðlana og þessi ákveðni seðill átti ekki að berast mér heldur geðþekkum hljómborðsleikara ofan af Akranesi sem er svo ólánsamur að vera alnafni minn. Veitingamaðurinn þakkaði mér kærlega fyrir ábendinguna, þetta skyldi hann leiðrétta, hvað mig varðaði væri málið dautt.
Ekki grunaði hann að um leið dó svo miklu, miklu meira.
Bakþankar í Fréttablaðinu 30. september 2007