mánudagur, október 29, 2007

Sannleikurinn mun gjöra yður frávita


Nokkur styr hefur staðið um nýja biblíuþýðingu, eins og við var að búast, enda hefði annað verið algjört nýmæli í sögu þeirra. Núna muna að vísu fæstir eftir látunum í kringum fyrri þýðingar og sömuleiðis verður uppnámið núna flestum gleymt þegar sú næsta leysir þessa af hólmi. Einn þeirra sem þannig mun gleymast er Svarthöfði í DV sem sl. fimmtudag fullyrðir að verið sé „að ganga erinda ákveðinna hópa með því að breyta texta ritningarinnar og meiningu hans ... til að þóknast minnihlutahópum“.
Þetta er auðvitað ekkert annað en illkvittinn rógur. Hér er vegið af algerri vanþekkingu úr skjóli nafnleyndar að heiðri fremstu biblíufræðinga þjóðarinnar. Eða hafa vísindamenn á öðrum fræðasviðum þurft að sæta því í fjölmiðlum að vera borið á brýn að stjórnast af annarlegum hvötum, að bera ekki á borð það sem sannast er og réttast samkvæmt fræðunum, heldur að falsa niðurstöður sínar? Hvernig ætli viðbrögðin við slíku yrðu?
Við höfum aldrei getað gert okkur gleggri grein fyrir upphaflegri merkingu biblíutexta en nú. Vit okkar á menningarheimi og félagslegu umhverfi frumlesendanna (og þarafleiðandi skilningi þeirra á textanum) hefur aldrei verið meira. Til að komast eins nálægt merkingu frumtextans og framast er unnt er ýmislegt auðvitað þýtt öðruvísi núna en áður, þegar unnið var af minni þekkingu. Síðasta heildarþýðing Biblíunnar er frá því fyrir daga fyrri heimsstyrjaldarinnar. Að halda því fram að hún sé „sannari“ er auðvitað augljós bábilja sem stenst enga akademíska skoðun.
Þetta er sárt fyrir þá sem lagt hafa alla sína orku í bókstafstrú á þrálátar túlkunarvillur úr úreltum menningarheimi eldri biblíuþýðinga sem nú hafa verið leiðréttar. Í huga þeirra er æðsta boðorðið nefnilega alls ekki æðsta boðorðið, sem er heppilegt, því það felur m.a. í sér þá erfiðu skyldu að elska náungann. Slitrur úr Þriðju Mósebók, Rómverjabréfinu og Fyrra Korintubréfi, rifnar úr öllu samhengi, hafa meira vægi, því þar koma fyrir orð eins og „kynvillingar“, „girnd“ og „viðurstyggð“, sem auðveldara er að æpa um leið og bent er á náungann.
Sannleikurinn gerir mann nefnilega ekkert mjög frjálsan ef maður hefur reist höll sína á lygum. Þá gerir hann mann bara siðferðilega gjaldþrota.
Bakþankar í Fréttablaðinu 28. 10. 2007

3 ummæli:

Ingibergur Þorkelsson sagði...

Bravó

Nafnlaus sagði...

Sæll Davíð Þór,

Takk fyrir frábært blogg og góða pistla.

Dr. Bart Ehrman færir í fyrirlestrum sínum (á youtube), að því er mér virðist, fín rök fyrir því að grísku textarnir sem ég held að þú sért að hluta til að vitna séu margþvældir og skekktir eins og Biblían í dag. Auðvitað ekki eins skekktir, en skekktir engu að síður.

Ef við gefum okkur að hann hafi rétt fyrir sér finnst mér orðið mjög hæpið að neinn geti fullyrt neitt um hvað raunverulega standi í Biblíunni.

En ef viljin er fyrir hendi virðist alltaf vera hægt að túlka hana sér í hag, hvort sem maður hatar þessa eða hina og vill hafa þá útlæga úr guðs ríki eða t.d. er á móti fóstureyðingum.

Eftir sjálfur að hafa þó lesið íslenska útgáfu af gamla testamentinu frá byrjun til enda, vil ég persónulega meina að mörgum hafi þurft ansi hressilega að fatast þýðingin til að orginallinn geti hafa verið laus við hommahatur sem dæmi. Þó að hlekkirnir sem þú gafst upp innihaldi margar góðar pælingar. En kannski er það einmitt tilfellið að þetta sé túlkunarvilla, og ef svo er má vera nokkuð sljóst að ansi margt hefur skolast þarna til.

“No man ever believes that the Bible means what it says; he is always convinced that it says what he means.” –George Bernard Shaw

Er nokkur leið að láta nokkurn hlut ákvarðast af því hvað stendur í þessari bók í dag? Ef svo er er það líklega Guðs vilji að orð hans ruglist í þýðingum og fari að þýða aðra hluti en þeir gerðu.

Heppilegt að maður getur alltaf sag: Vegir guðs eru órannsakanlegir. Annars væri maður alveg kominn í þrot.

Fyrirgefðu þetta raus, ég er ekki trúaður en get alveg unnt öðrum þess að trúa. Það er bara svo skrýtið að hlusta á fólk fullyrða eitt og annað um hvað þetta strembna rit eigi að fyrirstilla.

Ég biðst fyrirfram afsökunar ef eitthvað sem ég skrifaði er móðgandi eða hrokafult. Það er þá ekki með vilja gert.

Kristinn

Unknown sagði...

Frábær pistill.