þriðjudagur, september 30, 2008

Minnisvarðar og millímetrafemínismi


Í síðustu viku sá ég svolítið eftir því að hafa sagt mig úr Vinstri grænum á sínum tíma, af því að ég hefði viljað gera það í síðustu viku. Tilefnið var frámunaleg heimskuleg ummæli Svandísar Svavarsdóttur um þá fallegu og eðlilegu ákvörðun borgarstjórnar að láta heiðra minningu Tómasar Guðmundssonar með því að reisa honum styttu. Hún sagði eitthvað á þá leið að ákvörðunin væri ekki í anda nýrrar og frjórrar hugsunar um list í opinberu rými auk þess að vera menguð karllægum viðhorfum.
Auðvitað er það eina úrelta í þessu sambandi sá forpokaði millímetrafemínismi sem ummælin lýsa, en hann gengur út á að skipta mannkyninu í tvær ósættanlegar fylkingar og deila heiminum hnífjafnt á milli þeirra, óháð einstaklingum, hæfileikum þeirra eða framlagi. Gildir þar einu hvort um er að ræða sæti á framboðslistum, útsendingarmínútur í ljósvakamiðlum, dálksentímetra í blöðum eða styttur bæjarins. Þannig er óhugsandi að heiðra minningu Halldórs Laxness, Þórbergs Þórðarsonar eða Steins Steinarrs fyrr en búið er að heiðra Svövu Jakobsdóttur, Guðrúnu Helgadóttur og Auði Haralds (svo ég nefni þrjá af mínum eftirlætiskvenrithöfundum), þar sem karlarnir eru búnir að fá styttur af Jónasi og Einari Ben. Að Reykvíkingar reisi Reykjavíkurskáldinu styttu á áberandi stað þykir aukinheldur fráleitt þar sem það er til brjóstmynd af honum á bókasafninu. Og svo var hann íhald.
Sá siður að þjóðir heiðri minningu sinna andans jöfra með því að reisa þeim styttu er jafngamall siðmenningunni. Síðastliðna hálfa öld eða svo hefur það hins vegar þótt úrelt hugsun um list í obinberu rými. Fyrir vikið eru ýmiss konar minnisvarðar um hin og þessi mikilmenni á víð og dreif um allt land sem minna engan á viðkomandi mikilmenni og eru því í raun ekki minnisvarðar um neitt annað en tískubóluna sem var vinsælust í myndlistinni árið sem þeir voru afhjúpaðir. Þess vegna ætti maður kannski að þakka sínum sæla fyrir að Halldóri Laxness hafi ekki enn verið reistur minnisvarði. Í anda nýrrar og frjórrar hugsunar um list í opinberu rými eru nefnilega allar líkur á því að hann hefði minnt meira á hrunið línumannvirki en Nóbelsskáldið.
Klassík verður hins vegar aldrei úrelt. Það er einmitt það sem gerir hana klassíska.
Bakþankar í Fréttablaðinu 28. september 2008

föstudagur, september 19, 2008

Er heimurinn orðinn hundleiðinlegur ...

... eða er fréttamat fjölmiðla bara orðið svona hræðilega óáhugavert? Ég var að myndast við að hlusta á útvarpsfréttir áðan og það eina sem var í fréttum voru vogunarsjóðir, fasteignalánasjóðir, verðbréf, kauphallir og gengi hlutabréfa og gjaldmiðla. Síðan komu íþróttafréttir og þá var sagt frá golfi! Þetta var semsagt það sem gerðist í dag: Fólk keypti og seldi með þeim afleiðingum að verðmæti hins og þessa fór ýmist upp eða niður - og svo var farið í golf. Hvergi urðu pólitískar sviptingar, hvergi var blásið í ófriðarelda, hvergi varð eilítið friðsamlegra umhorfs og ekkert átti sér stað í menningar- eða listalífinu. Það var ekki einu sinni farið í fótbolta!
Ég man þá tíð að maður þurfti ekki að berjast við að halda sér vakandi yfir kvöldfréttunum. Þá voru sagðar fréttir af fólki sem ekki sat á rassinum í jakkafötum allan daginn og stundaði íþróttir þar sem hlegið hefði verið að mönnum fyrir að mæta til leiks í prjónavesti. Heimur versnandi fer.

þriðjudagur, september 16, 2008

Jörð, gleyptu mig ... núna!

Þótt maður reyni að hafa ekki of miklar áhyggjur af því hvað fólk heldur um mann reynir maður auðvitað alla jafna að verða ekki að undrum á almannafæri. En stundum er hreinlega eins og lífið bregði fyrir mann fæti í þeirri sjálfsögðu viðleitni.
Til dæmis fór ég ekki alls fyrir löngu í verslunarleiðangur í Hagkaup í Kringlunni. Eftir að hafa fyllt innkaupakörfuna fórum við hjónaleysin í biðröðina við kassann. Konan á undan okkur var með heilmikinn varning sem hún var að hlaða upp á færibandið með töluverðum bægslagangi. Þá sá ég útundan mér að einhver smávara datt á gólfið. Að sjálfsögðu tók ég hana upp. Þetta var einhvers konar kremtúba af smærra taginu. Ég rétti konunni hana og sagði: „Fyrirgefðu, þú misstir þetta.“ Konan leit forviða á mig og neitaði því svo flissandi. Skrítnara þótti mér þó að nú hreytti unnusta mín í mig: „Hvað er að þér, maður? Þetta á að vera hérna!“ Með það reif hún af mér túbuna og setti upp í hillu sem er þarna yfir færibandinu.
Það tók drykklanga stund að afgreiða konuna svo ég leit betur á hilluna sem túban hafði dottið úr. Þá rann upp fyrir mér ljós. Í túbunni var krem sem ætlað er að auka ánægju fólks af því að hafa samfarir. Gott ef orðasambandinu „kitlandi unaður“ brá ekki fyrir í vörulýsingunni. Ég fann hvernig roðinn færðist í kinnarnar á mér við þessa uppgötvun, en ekki fannst mér ég þó geta beðið konuna afsökunar. Þá hefði ég verið að gefa í skyn að það ætti að segja sig sjálft að vöru af þessu tagi gæti hún alls ekki verið að kaupa. En þarna hafði ég semsagt í barnslegu sakleysi mínu staðið með þennan sóðaskap í höndunum, otað honum að bláókunnugri manneskju og svo gott sem gapað: „Afsakið, fröken, en þér misstuð kynnautnasmyrslið yðar.“
Til að konan sæi ekki að ég var blóðrauður af skömm reyndi ég að grafa andlitið á mér ofan í tímarit á meðan hún lauk sér af og unnusta mín barðist við að halda niðri í sér hlátrinum. En maður hlýtur að spyrja: Hvað á það að þýða að hafa þessa vöru einmitt þarna? Það er bara verið að bjóða heim hættunni á svona löguðu. Á maður ekki heimtingu á því að geta farið út í búð án þess að eiga það á hættu að verða sér í hrekkleysi sínu til slíkrar skammar að maður óskar þess helst að jörðin gleypi mann?
Bakþankar í Fréttablaðinu 14. sept. 2008

þriðjudagur, september 02, 2008

Batnandi mönnum ...


Í síðustu viku varð afar ánægjulegur atburður sem fór ekki eins hátt og mér fannst efni standa til, enda bar hann að í miðju handboltaæði. Hann fólst í því að kenískur hælisleitandi sneri aftur til landsins eftir að ákveðið var að taka mál hans til sérstakrar skoðunar. Honum hafði verið vísað úr landi á forsendum svonefnds Dyflinnarsamkomulags, sem heimilar að fólk í hans sporum sé sent aftur til síðasta viðkomustaðar síns. Hér á landi hefur heimild þessi jafnan verið túlkuð sem nánast ófrávíkjanleg regla og í þessu tilfelli sem mikilvægari en þau ákvæði allra mannréttindasáttmála að forðast beri í lengstu lög að tvístra fjölskyldum. Réttur stjórnvalda til að snúa manninum til baka var þannig metinn mikilvægari en réttur nýfædds sonar hans til að njóta umönnunar beggja foreldra, en hann er tryggður í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar eru aðilar að.
Hins vegar er það einfaldlega ekki satt, sem heyrst hefur í þessari umræðu, að Íslendingar séu með allt niðrum sig í málefnum flóttamanna. Staðreyndin er að miðað við höfðatölu stöndum við okkur allvel í að taka á móti hópum þeirra. Í hita umræðunnar hefur meira að segja gleymst að núverandi dómsmálaráðherra hefur staðið fyrir markverðum umbótum í þessum málaflokki með nýjum útlendingalögum. Aftur á móti hefur hann, eins og allir forverar hans í starfi, til þessa einfaldlega fylgt eftir mjög skýrri pólitískri stefnu íslenskra ríkisstjórna. Hana má draga saman í eina setningu: „Okkar flóttafólk veljum við sjálf.“ Þeim sem hingað koma á eigin vegum hefur undantekningalítið verið snúið við strax.
Af þessum sökum var ég ekki bjartsýnn á að mál Pauls Ramsesar hlyti aðra meðferð í kerfinu en fordæmi eru fyrir um. Sú ákvörðun ráðherra að taka það til endurskoðunar kom því ánægjulega á óvart og er honum til sóma. Vonandi er hún fyrirboði um manneskjulegri vinnubrögð í framtíðinni. Ef til vill kemur á óvart að ég, yfirlýstur sósíalistinn, skuli mæra Björn Bjarnason, en rétt skal vera rétt. Heiður þeim sem heiður ber. Fram hjá því verður ekki horft að í ráðherratíð Björns hefur málefnum flóttafólks á Íslandi miðað í rétta átt. Að vísu of hægt og of stutt að mínu mati, en Guð láti á gott vita.