þriðjudagur, janúar 22, 2008

Komdu fagnandi, kreppa!

Nýlega bárust fréttir af því að reykvísk athafnakona hefði tapað morði fjár á fjármálamarkaði. Hún bar sig afar aumlega yfir því að hafa tapað hundruðum milljóna sem hún fékk lánaðar til að nota í fjárhættuspil. Á sama tíma er ekki hægt að greiða þeim sem annast börnin okkar mannsæmandi laun og gamalmennum er hrúgað inn á fjársveltar stofnanir og gert að lifa á smánarlegri hungurlús. Forðum daga sagði vitur maður einmitt að menningarstig þjóða mætti ráða af því hvernig þær búa að börnum og öldruðum. Það er mikill áfellisdómur yfir Íslendingum. Ég vona að mér fyrirgefist að gráta þurrum tárum yfir óförum athafnakonu þessarar.
Margt getur haft áhrif á gildismat þjóðar og siðferði. Það gildir líka um einstaklinga. Hömlulaust neyslubrjálæði hefur persónuleikabreytandi áhrif á fólk og veldur stigvaxandi siðblindu. Leggist brjálæði á heilar þjóðir getur það sent þær aftur á siðferðilegt steinaldarstig. Þegar einstaklingar hafa keyrt líf sitt í andlegt gjaldþrot með þrotlausri, hugbreytandi neyslu, er algert úrræðaleysi oft forsenda þess að þeir nái bata. Ekkert nema fullkomin uppgjöf getur fyllt þá þeirri örvæntingu sem þarf til að þeir endurskoði líf sitt og gildismat, forgangsraði upp á nýtt og átti sig á því hvað það raunverulega er sem gefur lífinu gildi og hvað það er sem byrgir sýnina á hin sönnu lífsins gæði. Þá verður það sjálfkrafa að keppikefli að láta neysluna lönd og leið. Þótt fólk geti þurft að glíma við erfið fráhvarfseinkenni, jafnvel þrálát síðhvörf, þá hættir neyslan að vera eftirsóknarverð. Það að vera laus úr vítahring neyslunnar verður dýrðlegri munaður en fólk óraði fyrir því að væri til. Kannski virkar sama lausn fyrir þjóðir sem blindaðar eru af neysluæði.
Einhver kann að hugsa sem svo að þetta sé ekki sambærilegt, að þótt bæði fíklar og athafnafólk helgi líf sitt og vilja því að „komast í efni“ hvað sem það kostar, þá sé merking orðasambandsins gerólík á milli þessara tveggja menningarheima. Gott og vel. En þeim, sem eru þeirrar skoðunar að neysla Íslendinga hafi ekki haft persónuleikabreytandi áhrif á þjóðarsálina upp á síðkastið, ráðlegg ég að skríða upp úr holunni sem þeir hafa hafst við í síðastliðin fimmtán ár og líta í kring um sig.
Bakþankar í Fréttablaðinu 20. 1. 2008

fimmtudagur, janúar 10, 2008

Blessað bergið

Á bls. 8 í Fréttablaðinu í dag er frétt sem hefst á orðunum: „Karlmaður af erlendu bergi brotinn hefur verið dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að kasta konu á salernisskál.“ Næsta frétt fyrir neðan hefst á orðunum: „Innbrotsþjófur var handtekinn af lögreglu höfuðborgarsvæðisins á tannlæknastofu í Mjóddinni aðfararnótt miðvikudagsins.“
Af hverju þykir það ekki fréttnæmt af hvernig bergi síðarnefndi ógæfumaðurinn var brotinn? Var hann ekki af neinu bergi brotinn? Hvenær er maður annars af bergi brotinn og hvenær er maður ekki af bergi brotinn?

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Aldrei of seint

Nú í vikunni horfði ég með öðru auganu á breskan sjónvarpsþátt um ekkjumann sem varð ástfanginn, en varð að gefa konuna sem hann unni upp á bátinn af því að uppkomnum börnum hans leist ekki á ráðahaginn. Þeim fannst hann svíkja móður þeirra með því að bera tilfinningar til annarrar konu, rétt eins og þeim sem komnir eru yfir móðuna miklu sé það sérstakt kappsmál að eftirlifandi ástvinir þeirra eyði því sem þeir eiga eftir ólifað í eymd og sút yfir brotthvarfi þeirra. Þegar hann benti á að hann ætti sér enn drauma og þrár hreytti ein dætra hans í hann að hann væri fjörutíu og þriggja ára. Í orðunum lá að á þeim aldri væri heiðvirt fólk vaxið upp úr svoleiðis vitleysu. Þetta hafði djúp áhrif á mig. Ég varð nefnilega fjörutíu og þriggja ára í gær.
Þegar ég var skiptinemi í Bandaríkjunum var mér úthlutað ritgerðarverkefninu „Ég árið 2000“. Þetta var haustið 1983, ég var átján ára og árið 2000 var í fjarlægri framtíð. Mér fannst að þá hlyti ég að vera kominn á minn stað í lífinu, þá yrði orðið fullljóst hvað úr mér yrði. Það er skemmst frá að segja að mér skjátlaðist hrapallega um framtíð mína. Í ritgerðinni var ég virtur kvikmyndaleikstjóri, ég hafði komið íslenskri kvikmyndagerð á heimskortið með ódauðlegum meistaraverkum og bjó ásamt fullkominni eiginkonu minni og sæg barna í glæsivillu í Öskjuhlíðinni. Raunin varð sú að bæði villan og leikstjóraferlinn voru langt utan seilingar árið 2000. Þá var ég 35 ára.
Þá hvarflaði ekki að mér að 35 ára maður á alla jafna tvo þriðju hluta starfsævinnar framundan, menntaður kvikmyndaleikstjóri sennilega enn meira, líklega ekki minna en þrjá fjórðu. Þaðan af síður flögraði sú hugsun að mér að það væri sorglegt hlutskipti að vera búinn með helstu stórvirki sín í lífinu á þeim aldri og þurfa að verja lunganum af starfsævinni í skugga þeirra. Í raun var ég enn þröngsýnni en stúlkan í sjónvarpsþættinum. Mér fannst að þrjátíu og fimm ára ætti maður að vera orðinn eins og maður yrði (þ .e. full-orðinn) og hjakka í sama farinu upp frá því, af því að á þeim aldri tæki því ekki að byrja á einhverju nýju, verða ástfanginn eða skipta um starfsvettvang. Núna efast ég um að ég hafi nokkurn tímann verið jafnfeginn að hafa rangt fyrir mér.
Bakþankar í Fréttablaðinu 6. 1. 2008

miðvikudagur, janúar 02, 2008

Lítið kvæði um hrösun

Ég datt niður tröppurnar drukkinn
á Duus-húsi fyrir löngu
og endaði skrautlegt skrall
og það hafa fleiri farið
flatt á svoleiðis göngu
en ég og Jónas Hall.

Ég bar ekki harminn í hljóði,
en hnefana steytti argur
og bölvaði rámri raust,
því lævíst er mannanna lánið
og litmjúkur gerist margur
hrungjarnt lauf um haust.

Að rísa á riðandi fætur
ringlaður af því falli
mér var þó ekki um megn,
en óskabarn ógæfunnar
lá andvana niðri á palli,
horfið, harmafregn.

Er missti ég fótanna fullur
fann ég að vísu til trega,
en und mín var óveruleg.
Við eigum í háska heimsins
hrösun sameiginlega
Jónas Hall og ég.

D. Þ. J.

Síðasta tölublað tímaritsins Herðubreiðar, sem út kom sl. haust, var tileinkað minningu Jónasar Hallgrímssonar. Í tilefni af því var fjöldi hagyrðinga og skálda beðinn að yrkja um hann í blaðið. Mér hlotnaðist sá heiður að vera í hópi þeirra og er þetta ljóðið sem til varð af því tilefni. Ég hef ákveðið að hefja nýtt bloggár á því að leyfa netlesendum mínum að njóta þess.