miðvikudagur, janúar 02, 2008

Lítið kvæði um hrösun

Ég datt niður tröppurnar drukkinn
á Duus-húsi fyrir löngu
og endaði skrautlegt skrall
og það hafa fleiri farið
flatt á svoleiðis göngu
en ég og Jónas Hall.

Ég bar ekki harminn í hljóði,
en hnefana steytti argur
og bölvaði rámri raust,
því lævíst er mannanna lánið
og litmjúkur gerist margur
hrungjarnt lauf um haust.

Að rísa á riðandi fætur
ringlaður af því falli
mér var þó ekki um megn,
en óskabarn ógæfunnar
lá andvana niðri á palli,
horfið, harmafregn.

Er missti ég fótanna fullur
fann ég að vísu til trega,
en und mín var óveruleg.
Við eigum í háska heimsins
hrösun sameiginlega
Jónas Hall og ég.

D. Þ. J.

Síðasta tölublað tímaritsins Herðubreiðar, sem út kom sl. haust, var tileinkað minningu Jónasar Hallgrímssonar. Í tilefni af því var fjöldi hagyrðinga og skálda beðinn að yrkja um hann í blaðið. Mér hlotnaðist sá heiður að vera í hópi þeirra og er þetta ljóðið sem til varð af því tilefni. Ég hef ákveðið að hefja nýtt bloggár á því að leyfa netlesendum mínum að njóta þess.

Engin ummæli: