mánudagur, janúar 24, 2011

Lifi bensínafgreiðslumaðurinn!

Ég er farinn að gera mér far um það þegar ég kaupi bensín á bílinn að fá þjónustu í stað þess að dæla sjálfur. Ástæðan er einföld. Ég vil að þessi þjónusta sé til staðar. Með því að nýta mér hana, jafnvel þótt ég sé ekkert of góður til að dæla bensíni á bílinn minn sjálfur, finnst mér ég leggja mitt af mörkum til að henni verði haldið áfram. Maður getur nefnilega lent í því að vera á ferð í sparifötunum í slagviðri og þurfa nauðsynlega að skipta um vinnukonu. Þótt ég ráði við það sjálfur vil ég að undir slíkum kringumstæðum geti einhver gert það fyrir mig.
Mjög víða, einkum úti á landi, er engin þjónusta á bensínstöðvum. Í námunda við bensínsjálfsala er sjoppa með sælgæti, skyndibita og hugsanlega sitthvað fyrir bílinn til sölu. Aftur á móti er afgreiðslufólkið gjarnan jafnilla að sér og ég um það sem mig kynni að vanta. Þess eru jafnvel dæmi að fyrir því sé orðið „vinnukona“ ekki annað en starfsheiti.
Ég held að af þessu geti stafað hætta. Bensínafgreiðslumaður, sem óumbeðinn þvær framrúðuna fyrir mann, bendir manni á að það sé ójafn þrýstingur í dekkjunum og spyr hvort hann eigi að athuga olíuna eða bæta á rúðupissið, getur hæglega komið í veg fyrir slys. Það er líka hægt að spyrja hann um færðina á heiðinni og fá mun nytsamlegri upplýsingar en þær sem eru á upplýsingaskiltinu við veginn, þótt stærðfræðileg nákvæmni um vindátt, loftraka og veghita standist e. t. v. ekki samanburð.
Kannski er ég bara að mikla þetta fyrir mér. Kannski er ég bara kominn á þann aldur að ég sakna heims sem er að hverfa, heimsins sem ég ólst upp í. Heims þar sem þjónusta fól í sér mannleg samskipti. Ekki mikil eða náin, kannski bara hjal um daginn og veginn, veðrið og leikinn – en samt samskipti við aðra manneskju. Ég ætla ekki að fullyrða að aukin tíðni á athyglisbresti og andfélagslegri hegðun stafi af því að allt, sem heyrir til framþróunar í þjónustu, skuli einmitt miða að því að má úr lífinu öll mannleg samskipti, s.s. netverslun, sjálfsalar og upplýsingaskilti sem spara manni að þurfa að spyrja einhvern. En ég yrði ekki hissa þótt rannsóknir myndu leiða það í ljós.
Ég reiknaði það einu sinni út það kosti mig 100 – 150 kr. að láta dæla bensíninu fyrir mig (40 l tankur). Ef ég get lagt það af mörkum til að hægja örlítið á afmennskun samfélagsins finnst mér það hverrar krónu virði.
Bakþankar í Fréttablaðinu 22. 1. 2011.

mánudagur, janúar 10, 2011

Siðferðilegt yfirlæti

Góðmennska, hjartahlýja og náungakærleikur eru ekki skrásett vörumerki sem kristindómurinn á einkarétt á. Allt þetta einkenndi gott fólk löngu áður en kristindómurinn kom til sögunnar og einkennir enn allt gott fólk, óháð því hvaða trúarbrögð það aðhyllist – ef einhver. Ég trúi því vissulega að sannkristin manneskja hafi þetta til að bera. En ég er jafnsannfærður um að góðir múslimir, góðir hindúar, góðir búddistar og góðir trúleysingjar – allt gott fólk – auðsýni dag hvern góðmennsku, hjartahlýju og náungakærleik. Ég trúi því reyndar að það sé einmitt það sem geri það gott fólk.
Þess vegna fer það ósegjanlega í taugarnar á mér þegar prestar og sjálfskipaðir boðberar kristindómsins bera hann á borð innblásnir af siðferðilegu mikilmennskubrjálæði. Þegar talað er niður til annarra, hæðst að og gert lítið úr öðrum trúarbrögðum eða lífsskoðunum og látið er í veðri vaka að fólk sé siðferðislega á æðra plani en annað fólk fyrir það eitt að vera nafnkristið. Við skulum hafa það hugfast að miskunnsami Samverjinn var ekki kristinn. Samt er hann hin stóra fyrirmynd kristinna manna um rétta breytni.
Þetta siðferðilega yfirlæti þeirra, sem hve einarðast álíta sjálfa sig sannkristna, fer í taugarnar af mér af þremur meginástæðum.
Í fyrsta lagi felst, að mínu mati, þversögn í slíkri afstöðu. Með því einu að benda á annan og segja „Ég er á siðferðilega hærra plani en þú“ er viðkomandi búinn að setja sjálfan sig skör neðar en þann sem bent er á á hinu siðferðilega plani.
Í öðru lagi er slík framkoma einfaldlega ekki kristileg. Hún einkennist ekki af þeirri auðmýkt og hógværð sem einkenna ætti framgöngu kristinna manna. Ég vona svo sannarlega að það geri okkur betri að vera kristið fólk. En um leið og við erum farin að telja okkur trú um að það geri okkur ekki bara betri, heldur betri en annað fólk, þá erum við búin að taka okkur stöðu faríseans í musterinu sem bað: „Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður.“
Í þriðja lagi tel ég slíka framkomu fæla fólk í burtu. Ef við viljum að trúin bjóði ekki bara vænisýki og gremju heldur frið og sátt við Guð og menn, þá verður framganga okkar að einkennast af því. Göngum því fram í hógværð og auðmýkt. Eflum friðinn og réttum fram sáttahönd, ekki steyttan hnefa.
Bakþankar í Fréttablaðinu 8. 1. 2011