mánudagur, júní 25, 2007

Arg! Úff! & Æ!





Ég er alltaf dálítið svag fyrir skiltum sem sýna fólk að lenda í hremmingum.


Viltu eitthvað meira?

Í Ofvitanum segir Þórbergur Þórðarson frá því þegar afgreiðslustúlka spyr hann: „Var það eitthvað fleira fyrir yður?“ Hann varð felmtri sleginn og fór að velta því fyrir sér hvað í ósköpunum hún gæti átt við með þessari spurningu. Niðurstaða hans var sú að hún hlyti að hafa verið að gera honum ósæmilegt tilboð og kætti það hann talsvert. „Var það eitthvað fleira fyrir yður,“ hugsaði hann með sér þegar hann hélt áfram býsna rogginn í bragði. „Skyldu margir hafa fengið svona tilboð í dag?“
Samúð mín er öll með Þórbergi. Það er erfitt að vera rifinn upp úr þungum þönkum um æðstu rök tilverunnar til þess eins að vera inntur eftir einhverju jafnlítilmótlegu og því hvort maður þurfi mjólkurlítranum meira eða einn snúð enn. Ég á það sjálfur til að missa hugann á sveim og þurfa smá ráðrúm til að stilla hann aftur inn á víddina sem almennt er skilgreind sem raunveruleikinn. Þetta er líka stundum kallað að vera viðutan.
Gegnt húsinu þar sem ég bý er lítil kjörbúð sem er opin allan sólarhringinn. Ég hef komist upp á lag með að nýta mér þjónustu hennar, enda vanhagar mig alloft um eitthvað smáræði akkúrat þegar ég ætla að grípa til þess, einkum við matseld. Þá er gott að geta skotist yfir götuna og orðið sér úti um það. Reyndar hafa einhverjir íbúar hverfisins horn í síðu þessarar verslunar af því að þarna safnast víst ungt og annað vafasamt fólk saman án þess að hafa hljótt. Þetta er stundum kallað iðandi mannlíf og þykir eftirsóknarvert þegar það er annars staðar en beint fyrir utan heimili manns.
Um daginn fór ég út í búðina. Við kassann var ég einmitt spurður: „Viltu eitthvað meira?“ Ég var annars hugar og kveikti ekki alveg strax á perunni. „Vil ég eitthvað meira?“ Var þetta existensíalísk spurning? Í einni svipan fór ég yfir hlutskipi mitt í lífinu og hugleiddi vonir mínar og væntingar til tilverunnar. Niðurstaðan var sú að ég svaraði „nei“ af slíkri sannfæringu að fát kom á afgreiðslupiltinn.
Ég er ánægður með þessa verslun, hún léttir mér lífið. Ég er þakklátur fyrir að geta hvenær sem er skotist út eftir því sem mér hefur láðst að eiga nægar birgðir af. Einkum er ég þó þakklátur fyrir að vera minntur á hvað það er gott að vilja ekkert meira.
Bakþankar í Fréttablaðinu 24. júní 2007

þriðjudagur, júní 12, 2007

Bölvuð ekkisens ...


Mér finnst ótrúlega sorglegt að sjá gengið út frá því sem vísu að hæfileikinn til að læra eigi að eldast af manni, að það að vera enn að þroskast og auka við þekkingu sína sé merki um vanþroska. Auðvitað ætti þessu að vera öfugt farið. Fátt ber einmitt gleggri merki um vanþroska en að geta ekki lært, þroskast og breyst, að bíta í sig skoðanir og viðhorf sem maður er ófáanlegur ofan af hvað sem tautar og raular.
Sjálfum fannst mér það að skipta um viðhorf lengi vel jafngilda því að viðurkenna að maður væri vitleysingur sem hefði ekki haft vit á að hafa rétt fyrir sér allan tímann. Síðan áttaði ég á mig á því að það var í raun heimska dauðans. Engin lífvera er óbreytanleg fyrr en hún er orðin að steingervingi.
Fyrir stuttu færði lítið smáatriði í daglega lífinu mér heim sanninn um að í mér eimir enn eftir af hæfileikanum til að þroskast, þótt kominn sé á fimmtugsaldur. Ég lenti í slysi sem gladdi mig mjög.
Ég á forláta espressókaffikönnu. Maður hellir vatni í neðri hlutann, setur kaffi í síuna, skrúfar hana saman og setur á eldavélarhellu. Kanna þessi er einn fjölmargra smáhluta sem ég tel auka lífsgæði mín. Hins vegar brenndi ég mig illa á henni um daginn.
Einhvern tímann hefði ég bölvað könnunni í sand og ösku, talið það alvarlegan hönnunargalla að hægt væri að stórskaða sig á heimilistækjum. Öll ábyrgðin á slysinu hefði í huga mínum hvílt á framleiðandanum.
Eitthvað gerði það hins vegar að verkum að ég mundi eftir öllum þeim fjölda skipta sem ég hafði glaðst við að laga mér ljúffengt kaffi á þessari sömu könnu án þess að verða fyrir skakkaföllum, en ekki bara þessu eina skipti sem ég brenndi mig. Fyrir vikið gat ég ekki talið mér trú um að ekki væri hægt að laga kaffi á könnunni án þess að meiða sig, að hugsanlega hefði ástæða óhappsins ekki verið sú að kannan væri slysagildra heldur sú að í stað þess að hafa það í huga að ég var með sjóðandi heitan hlut í höndunum var ég að tala í símann og æpa á börnin mín um leið og ég tók könnuna af hellunni.
Mér skildist að ekkert í lífinu er idíót-proof. Ef maður hagar sér eins og ídíót kemst maður að því fyrr en varir. Það er á okkar eigin ábyrgð að haga okkur ekki eins og fífl og bölva svo heiminum fyrir að vera ekki nógu fíflvænn.


Bakþankar í Fréttablaðinu 10. júní 2007

sunnudagur, júní 10, 2007

mánudagur, júní 04, 2007

Feigir fossar

Ég hef ekki gert mikið af því til þessa að setja myndir sem ég tek á netið, aðallega af því að ég tek eiginlega aldrei myndir, en líka af því að mér finnst það sem ég hef að segja svo miklu merkilegra en það sem ég hef séð. Ég veit að margir eru mér ósammála. Nú langar mig hins vegar að breyta til og sýna ykkur nokkrar myndir sem ég tók, ekki af því að þær séu svo góðar heldur finnst mér myndefnið svolítið sérstakt. Þessi fyrsta sýnir gæsahreiður á barmi jökulsárgljúfurs.


Ég var staddur austur á Héraði í síðustu viku ásamt fjölskyldunni og síðastliðinn mánudag fórum við í langa gönguferð (mér er alvara – 8 klst.). Okkur hafði verið bent á að skemmtilegt gæti verið að ganga upp með Jökulsá í Fljótsdal, frá Egilsstöðum (bænum, ekki þorpinu) að Snæfelli, þar væru skemmtilegir fossar sem ekki væri seinna vænna að sjá því að ári yrðu þeir horfnir, þetta væri síðasta sumarið sem þeir myndu renna í sinni réttu mynd. Jökulsá verður sem sagt tekin úr þessum farvegi og sett í gegn um rör og mun dælast út úr holu í dalsmynninu þegar virkjunarframkvæmdum eystra verður lokið.

Það er óneitanlega svolítið sérstök tilfinning að skoða feigt landslag. Fossarnir sem hér sjást verða ekki svipur hjá sjón að ári þegar allt jökulvatnið verður horfið úr farveginum. Þeir munu að vísu ekki þorna alveg upp, enda renna allmargar bergvatnsár af ýmsum stærðum og gerðum í farveginn, en vatnsmagnið verður brot af því sem það á að sér að vera. Að vísu er ekki mikið vatn í ánni núna, en mér skilst að það stafi af árferði en ekki framkvæmdum.
Nú virðist ára illa fyrir jökulsár, því á föstudaginn var heimsótti ég Dettifoss og tók enga mynd, enda varð ég fyrir vonbrigðum með hann. Hann var tær og sætur, næsum krúttlegur, en ekki það öskugráa og ógvekjandi skrímsli sem ég sá síðast þegar ég sá hann, bergið nötraði ekki undir honum og svei mér ef ég sá ekki hreinlega gullin mót sólu hlæja blóm.
Fossarnir eru því ekki eins tilkomumiklir á þessum myndum og öðrum sem þið kynnuð að hafa séð af þeim, en þessar eru ekki nema vikugamlar.


Ég læt fylgja með þrjár myndir sem sýna þrjár ólíkar þverár Jökulsár á Fljótsdal, þær eru af öllum stærðum og gerðum. Sú síðasta, sú sem stóri fossinn er í, heitir Laugará ...

... af því að við hana er heit laug sem var ansi gott að hlamma sér ofan í og hvlíla lúin bein eftir gönguna. Með mér á myndinni er Ísold dóttir mín.