mánudagur, ágúst 31, 2009

Alþynnki

Það er ljótt að vera fullur í vinnunni. Drukknir menn skila alla jafna verra verki en allsgáðir og svindla þannig á vinnuveitendum sínum. Þó geta kringumstæður mildað alvarleika glæpsins, til dæmis ef vinnan er svo niðurdrepandi og vinnufélagarnir slíkt pakk að smá brjóstbirta sé nauðsynleg til að þreyja kvöldvaktina. Sömuleiðis ef vinnan er þess eðlis að vart megi greina á afurðinni hvort hún hafi verið unnin af fullum manni eða ófullum. Á hinn bóginn er það síðan auðvitað grátleg sóun á fylliríi að vera á því á jafnömurlega leiðinlegum stað og Alþingi Íslendinga.
Löng hefð er fyrir því að utanbæjarmönnum verði hált á svellinu í kaupstaðarferðum og fari offari í sollinum á mölinni. Þannig henti það til dæmis nýlega þingmannsblók eina utan af landi að fá sér eilítið rækilegar neðan í því en góðu hófi gegndi áður en hún steig í ræðustól þingsins. Í kjölfarið reyndi hún síðan fyrst að þræta fyrir að hafa smakkað það og síðan fyrir að hafa fundið nokkurn skapaðan hlut á sér, rétt eins og alsiða sé að smakka það í öðrum tilgangi. Höfðu sumir á orði að við þetta hefði Alþingi sett niður og tók Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, jafnvel svo djúpt í árinni að segja þetta þinginu ekki sæmandi.
Nú veit ég ekki alveg hvaða skilning þingmaðurinn leggur í orðið sæmd en benda verður á að hann er fulltrúi flokks sem réði lögum og lofum á Alþingi síðastliðna tvo áratugi og notaði þá til að breyta þinginu í viljalausa afgreiðslu fyrir ríkisstjórn, gera löggjafarvaldið að gólfmottu framkvæmdavaldsins. Á þeim tíma steyptu Sjálfstæðismenn þjóðarbúinu í svo glórulausar skuldir að þegar allt er talið jafnast þær á við að hvert einasta hús á landinu hafi brunnið til kaldra kola. Og þetta gerðu þeir bláedrú! Þeir hafa enga afsökun.
Auðvitað á maður ekki að vera fullur í vinnunni, en áður en farið er að gapa um sæmd Alþingis væri kannski ekki úr vegi að skoða hana í óbrjáluðu samhengi. Sæmd Alþingis er nefnilega alls ekki í svaðinu. Hún er ofan í iðrum jarðar. Hafi einhverjum tekist að hífa hana þaðan upp í svaðið á hann þakkir skilið, en ekki skammir frá þeim sem notuðu áratuga einræði sitt yfir stofnuninni til að gera Íslendinga að alheimsundri fyrir heimsku.
Bakþankar í Fréttablaðinu 29. 8. 2009

miðvikudagur, ágúst 19, 2009

Raunveruleikalýðræði

Það er gott og gaman að horfa á sjónvarp. Sjónvarpið er orðið svo stór hluti af tilveru okkar að satt best að segja er erfitt að ímynda sér tilveruna án þess. Það er eins og gluggi á hverju heimili út í umheiminn. Það veitir okkur ómælda skemmtun, upplýsingar, fróðleik og afþreyingu. Vegna sjónvarpsins getum við verið vitni að heimssögulegum atburðum, hvar sem er í heiminum, um leið og þeir eiga sér stað. En það sama gildir um sjónvarpið og flest annað sem er gott og gaman. Það er hægt að týna sjálfum sér í því. Fólk getur ánetjast sjónvarpsglápi og misst af lífi sínu við að horfa á líf annarra.
Þess vegna á sjónvarpsstöðin Skjár einn sérstakar þakkir skilið fyrir framlag sitt til baráttunnar gegn sjónvarpsfíkn. Það er í því fólgið að bjóða upp á sjónvarpsefni sem engin manneskja með meðalgreind eða meira getur mögulega límst við. Mikill meirihluti þáttanna sem þar eru sýndir eru í raun einn og sami, heimskulegi þátturinn í mismunandi umgjörð. Alltaf endar hann á því að einhver er sendur heim – af því að hann grenntist ekki nóg, var ekki nógu duglegur að bjarga sér í óbyggðum eða var ekki nógu efnilegur söngvari, dansari, kokkur, innanhússhönnuður, tískudrós, vonbiðill, fyrirsæta og þar fram eftir götunum. Þetta er hið svokallaða raunveruleikasjónvarp.
En í raun er ekkert svo slæmt að ekki sé hægt að læra af því. Nú sitjum við til dæmis í súpunni eftir að hafa, með lýðræðislegum hætti, valið yfir okkur glæpsamlega vanhæfa stjórnmálamenn. Ekkert bendir til þess að þeir ætli að læra af reynslunni. Þeim, sem mesta ábyrgð bera á ógæfu þjóðarinnar, virðist jafnvel vera svo gersamlega um megn að geta lært að skammast sín, að þeir þykjast þess siðferðilega umkomnir að hafa skoðun á því með hvaða hætti eigi að þrífa upp skítinn eftir afglöp þeirra. Og hreinsunardeildin er líka föst í skotgröfum flokkslínunnar, hugarfarsins sem varð okkur að falli til að byrja með.
Þar sem fulltrúalýðræðið hefur reynst okkur svona illa legg ég því til að við tökum upp svokallað „raunveruleikalýðræði“. Það felst í því að í stað þess að kjósa 63 einstaklinga til þingvistar á fjögurra ára fresti fáum við einu sinni í viku að kjósa einhvern burt af eyjunni. Gæti það mögulega reynst okkur verr?
Bakþankar í Fréttablaðinu 17. ágúst 2009

mánudagur, ágúst 03, 2009

„Við það augun verða hörð ...“

Þegar ég var strákur langaði mig óskaplega mikið til að verða skáld þegar ég yrði stór. Sú list að geta með fáum, vel völdum orðum haft djúp áhrif á fólk, jafnvel látið það fá gæsahúð, heillaði mig alveg upp úr skónum. Á meðan félagar mínir dáðu poppstjörnur, knattspyrnumenn og leikara fann ég mínar fyrirmyndir í Skólaljóðum, bókinni sem sennilega hafði mest áhrif á menningarlega mótun mína í uppvextinum.
Þegar ég varð unglingur og fór að kynna mér ævi þessara karla og þann hluta kveðskapar þeirra sem ekki rataði í Skólaljóðin ágerðist þessi áhugi minn. Það sem einkum heillaði mig þá var drykkjuskapurinn og kvensemin sem nánast virtist vera hluti af starfslýsingu þjóðskálds. Eymdin, ógæfan og volæðið sem einnig virtist vera skilyrði var í augum mínum rómantískt og eftirsóknarvert hlutskipti.
Af þessum sökum tók ég ungur að reyna að temja mér drykkjuskap og kvensemi. Ég vona að ég hljómi ekki sjálfbyrgingslega þótt ég leyfi mér að fullyrða að mér hafi bara tekist allvel upp, einkum við drykkjuskapinn. Ég læt liggja á milli hluta hvort kvensemin hafi skilað jafnmiklum árangri og erfiði.
Aftur á móti varð minna úr því að kveðskapur minn væri sú tæra snilld sem stefnt var að. Ljóðin sem breyta áttu því hvernig Íslendingar hugsuðu um sjálfa sig, uppruna sinn og gildismat létu á sér standa. Aldrei tókst mér að toppa Bjössa litla á Bergi, Bikarinn eða Ef. Steinn Steinarr var auðvitað með öllu ósnertanlegur. Eftir á að hyggja var þetta kannski vegna þess að einhvern veginn hafði sú hugmynd læðst að mér að ef ég bara væri nógu iðinn við drykkjuskapinn og kvensemina sæi restin um sig sjálf.
Það kom mér því verulega á óvart þegar ég komst að því löngu síðar að hægt væri að yrkja ljóð fyrir hádegi á virkum degi. Áður hefði ég getað svarið fyrir það að skapandi hugsun væri möguleg á hefðbundnum skrifstofutíma. Að sitja við yrkingar eins og hverja aðra vinnu var eitthvað sem ekki hafði hvarflað að mér að skilað gæti neinu sem varið væri í. Þó var það nákvæmlega það sem Halldór Laxness hafði gert með góðum árangri og reyndar fleiri skáld líka. Mér hafði bara láðst að kynna mér þau. Þau voru nefnilega ekki eins spennandi. Kannski af því að drykkjuskapinn og kvensemina vantaði.
Bakþankar í Fréttablaðinu 1. ágúst 2009.

laugardagur, ágúst 01, 2009

Níðsálmur

Í gærkvöld stýrði ég hagyrðingamóti á Fjarðarborg í Borgarfirði eystri. Var þar margt um manninn og glatt á hjalla eins og við var að búast. Ég get engan veginn gert grein hér fyrir öllu sem þar var ort. En mig langar þó að deila níðvísu, sem ort var um yðar einlægan, með lesendum. Svo er mál með vexti að fyrr í mánuðinum prédikaði ég við messu í Hjaltastaðarkirkju. Einn hagyrðinganna hafði séð það auglýst og leist ekki nema rétt mátulega á. Um það fjallar þessi kveðskapur, sem er undir passíusálmshætti. Höfundurinn er Andrés Björnsson frá Gilsárvöllum á Borgarfirði eystri.

Gamminn hann geysa lætur
um Guð sinn í kirkjunnar reit
svo bera þess aldrei bætur
bændur í Útmannasveit.
Um englana víst þó veit.
Tæpast er til þess gerður,
trúhitinn þarna verður
fimmtán á Farenheit.