mánudagur, september 20, 2010

Úrelt lög

Nú á að draga nokkra fyrrum ráðamenn þjóðarinnar fyrir landsdóm vegna óstjórnar þeirra sem varð til þess að íslenskt efnahagkerfi hrundi til grunna. Spurningin snýst um það hvort himinhrópandi getuleysi þeirra til að inna störf sín af hendi á bærilega sómasamlegan hátt hafi verið glæpsamlegt eða bara aumkvunarvert. Um þetta sýnist þó sitt hverjum. Lögin um landsdóm munu þannig vera úrelt, enda meira en hundrað ára gömul.

Þetta þykja mér slæmar fréttir. Ekki endilega af því að það þýðir að þjóðin hefur þá engin úrræði til að draga jólasveinana, sem hún asnast til að treysta fyrir velferð sinni, til ábyrgðar þegar allt fer til andskotans á meðan þeir eru að bora í nefið. Nei, áhyggjur mínar stafa miklu fremur af því að við höfum þá ekki heldur nein úrræði til að koma lögum yfir þjófa, morðingja, ofbeldismenn og nauðgara. Lögin sem taka á öllu þessu eru mun eldri en lög um landsdóm. Þannig gerðist það strax á þrettándu öld fyrir Krist, þ.e. seint á bronsöld, að maður nokkur kom niður af fjalli með lög þar sem m.a. sagði: „Þú skalt ekki mann deyða.“ Þessi lög voru víst orðin úrelt á tólftu öld fyrir Krist. Síðastliðin 3000 ár hefur morðingjum því verið refsað á forsendum úreltra lagaákvæða.

Þetta er auðvitað útúrsnúningur. Sum lög falla einfaldlega ekki úr gildi. Aftur á móti hefur mælikvarðinn á það hvaða lög eru eilíf og hvaða lög hafa endingartíma á við niðursuðudós aldrei verið gerður opinber, mér vitanlega. Einna helst er eins og hann sé einvörðu fólginn í tíðarandanum og stemningunni í þjóðfélaginu hverju sinni. Ef okkur finnst lög asnaleg hljóta þau að vera úrelt, en ekki ef okkur finnst þau „meika sens“. En af hverju erum við þá með lög, af hverju förum við ekki bara eftir því sem okkur „finnst“ í hverju og einu máli? Svarið við því er að strax á 13. öld f. Kr. var reynslan af því orðin svo slæm að lög voru sett og öll siðuð þjóðfélög hafa í grundvallaratariðum haldið sig við það fyrirkomulag æ síðan.

Við getum haft mismunandi skoðanir á lögum. Sum lög ber að endurskoða í ljósi reynslunnar og þróunar í viðhorfum, m.a. til mannréttinda og samfélagslegrar ábyrgðar einstaklinga. Önnur lög þarf einfaldlega að nema úr gildi. En þangað til það er gert eru þau lög. Lög, sem ekki hafa verið numin úr gildi, eru í gildi – sama hve asnaleg okkur kann að þykja þau.

fimmtudagur, september 09, 2010

Skriftir lútherskra

Í umfjöllun undanfarinna daga um trúnaðarskyldu presta hefur sá misskilningur komið fram í ræðu og riti að lútherskir menn skrifti ekki. Þetta byggir á því að Lúther leit ekki á skriftir sem sakramenti. Það þýðir þó ekki að hann hafi afnumið þær. Lúther var reyndar ákaflega hlynntur skriftum. Í riti sínu um Babýlónarherleiðingu kirkjunnar byrjar hann á að flokka þær með sakramentum, en talar sig síðan frá því þar sem hið ytra tákn skorti. Lúther viðurkenndi því aðeins tvö sakramenti, skírn og kvöldmáltíð. Þar eru hin ytri tákn til staðar, annars vegar vatnið og hins vegar vínið og brauðið.

Lútherskar kirkjur hafa aftur á móti svipt tjaldi tortryggninnar frá skriftunum, þær fara fram án leyndar í trúnaðarsamtali skjólstæðings og sálusorgara. Presturinn mætir skriftabarninu augliti til augtlitis sem jafningja, en er ekki settur í þá stöðu að geta ekki horft í augun á því og í kjölfarið að vita ekki einu sinni við hvern hann talar ef það játar á sig glæpi, sem presti ber samkvæmt landslögum að tilkynna, því annað jafngildi yfirhylmingu eða jafnvel meðsekt. Sömuleiðis samþykkja lútherskir menn ekki bænamál og kirkjurækni sem yfirbótaverk. Guðsþjónusta er ekki verk sem menn vinna sér og öðrum til réttlætingar heldur lofgjörð og þakkargjörð fyrir náð Guðs. Yfirbótaverk felast í því að bæta fyrir brot sín, ekki því að þylja einhverjar romsur í einrúmi.

Í þessari umræðu orðaði einhver það svo að prestar væru „eins konar sálfræðingar“. Að mínu mati væri nær að líkja presti við sjóntækjafræðing. Fyrir nokkru stóð styr um það hvort sjóntækjafræðingar mættu stunda sjónmælingar á fólki. Niðurstaðan var sú að það var leyft. Staðreyndin er nefnilega sú að sá sem þarf gleraugu þarf ekki alltaf á augnlækni að halda. Tímar hjá augnlæknum eru rándýrir og löng bið eftir þeim. Aftur á móti ríður á að sjóntækjafræðingurinn geri sér grein fyrir takmörkum sínum og vísi þeim, sem hann getur ekki hjálpað, á viðeigandi sérfræðing.

Eins þurfa þeir, sem líður illa, ekki alltaf á sálfræðingi að halda. Tímar hjá sálfræðingum eru rándýrir og löng bið eftir þeim. Aftur á móti er presturinn ókeypis og ávallt til þjónustu reiðubúinn. En þá ríður líka á að presturinn geri sér sér grein fyrir takmörkum sínum og vísi þeim, sem hann hefur ekki þekkingu til að veita viðeigandi þjónustu, á sérfræðing.

Bakþankar í Fréttablaðinu 4. 9. 2010.

föstudagur, september 03, 2010

Mín er getið

Mín er getið í merku riti
sem margir lesa og nota.
Þarna er fullt af fólki af viti
og fáir sem ætti að rota.

Hvort sem ég gef upp öndina í elli
eða verð bráðum dáinn
þá má finna mig þar í hvelli.
Þetta er símaskráin.