Sýnir færslur með efnisorðinu Nostalgía. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Nostalgía. Sýna allar færslur

þriðjudagur, ágúst 24, 2010

Habbðu vet ...

Ömmur mínar voru afar ólíkar. Önnur var fín frú í Reykjavík sem átti það til að fornemast ógurlega, en sjálf gætti hún þess að sénera aldrei nokkurn mann. Amma í sveitinni fæddist aftur á móti á Fljótsdalshéraði aldamótaárið 1900 og átti það til að fussa og sveia yfir því sem henni fannst lítið vet. Afi í sveitinni, sem alist hafði upp á Barðaströndinni, habbði hins vegar litlar áhyggur og saggði mér oft sögur.
Um allt þetta fólk þótti mér og þykir enn óskaplega vænt þótt það sé nú farið yfir móðuna miklu. Óaðskiljanlegur hluti minningar þeirra og persónu var talsmáti þeirra, orðaforði og málsnið. Ég held að það hafi gert mér gott að alast upp við ólíkan framburð og málfar kynslóða sem nú hafa kvatt. Ég tel það hafa skerpt og eflt tilfinningu mína fyrir móðurmáli mínu. Það eitt að á Hringbrautinni var farið niður á milli hæða en á Stóru-Fellsöxl var farið ofan, varð mér ungum tilefni til heilabrota.
Í síðustu tveim pistlum mínum hef ég ráðist harkalega á norðlenskan framburð, kallað hann hljóðvillu og fært sýndarrök fyrir því að hann sé rangur. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Fullyrt var að norðlenskur framburður væri fallegur og festulegur, eins og fegurð og festuleiki geti ekki verið smekksatriði, og að hann sé réttur. Og af hverju er hann réttari en annar? Jú, af því að gömul kona úr Eyjafirði talaði þannig. Eru ömmur þá aðeins marktækur mælikvarði á fegurð og réttmæti íslenskuframburðar ef barnabörnin þeirra heita Valgerður, en ekki ef þau heita Davíð?
Sjálfur er ég af suðvesturhorninu og eðlilegur talandi minn ber þess vott. Gamlir karlar og kerlingar hafa hiklaust kallað hann rangan og ljótan í mín eyru, eins og það sé enginn dónaskapur. Það var því gaman að fylgjast með viðbrögðum þeirra þegar þau urðu sjálf fyrir barðinu á nákvæmlega sama hroka og yfirlæti og þau hafa alist upp við að eðlilegt sé að sýna því hvernig öðrum er eiginlegt að tala móðurmál sitt. Þeim sem hafa norðlenskan framburð virðist nefnilega hafa verið innrætt það frá frumbernsku að þeir tali fallegra og betra mál en aðrir. Fyrir því hafa þeir þó engin rök, aðeins einhverja hjartans sannfæringu.
Staðreyndin er sú að allar ömmur tala hljómfagra og litríka íslensku, ekki bara eyfirskar, heldur líka ömmur að austan og vestan. Já, og líka ömmur sem töluðu dönskuskotna reykvísku.
Bakþankar í Fréttablaðinu 21. 8.2010

mánudagur, júní 28, 2010

Calabría

Um daginn átti ég erindi norður til Akureyrar. Ferðafélagi minn hafði það þá á orði að helsti munurinn á Reykjavík og Akureyri væri hve Esjan væri nálægt á Akureyri. Það reyndist rétt hjá honum. Fjallið hinum megin við fjörðinn er miklu nær en í Reykjavík. Það heitir að vísu eitthvað allt annað en Esja.

Um þessar mundir er ég staddur í Calabríu á Suður-Ítalíu. Fyrir þá sem vilja glöggva sig á landafræðinni þá er Calabria stóratáin. Eins og á Akureyri er það fyrsta sem maður veitir athygli, þegar maður horfir út á sjóinn héðan frá Tropea, hve Snæfellsjökull er nálægt. Keilulaga eldfjallið við sjóndeildarhringinn er tíu til tuttugu sinnum stærra. Það heitir að vísu ekki Snæfellsjökull heldur Stromboli.

Calabría er eins ólík Íslandi og hægt er að hugsa sér, bæði hvað varðar gróðurfar sem dýra- og mannlíf. Til dæmis hafa Calabríumenn þann undarlega sið að byggja þorp sín og bæi á bjargbrúnum. Þar sem klettar skaga í sjó fram eru veggir húsanna gjarnan í beinu framhaldi af þeim, gott ef byggingarnar slúta ekki sums staðar fram af brúninni. Ekki lofthræddir, Ítalirnir. Þessu má líkja við að Ísfirðingar hefðu ákveðið að byggja þorpið sitt á Látrabjargi. Á ystu nöf. Ef þeir hefðu öldum saman haft sömu ástæðu og Calabríumenn til að óttast sjóræningja og þurft að gera ráðstafanir til að verjast árásum þeirra hefðu þeir reyndar sennilega gert það.

Calabríumanni fyndist hann sennilega illa rættur og undarlega settur á Íslandi, svo vitnað sé í skáldið. Hann sæi líklega lítið annað en nöturlegan og gróðurvana klett í eilífum útsynningi og hraglanda. Með réttu. Það væri eðlileg upplifun manns frá stað þar sem helstu farartálmar rútubílanna, sem reyna að þræða þröngu vegarslóðana sem hlykkjast hér upp og niður fjallshlíðarnar, eru ósveigjanlegar greinar aldinna ólífutrjáa sem teygja sig yfir veginn og – þegar verst lætur – inn um glugga bifreiðanna.

Sjálfum finnst mér ferðalög um framandi slóðir þroska og stæla þjóðernisvitund mína. Þá á ég ekki við að ég fyllist yfirlæti og finnist Ísland bera af öðrum löndum, að það sé merkilegra íslenskur en af öðru þjóðerni. Svo er ekki. Að upplifa sig sterkt sem aðkomumann gerir mér aftur á móti ljósara hver náttúruleg heimkynni mín eru og hvers virði þau eru mér. Annars staðar er ég aldrei neitt annað en hafrekið sprek á annarlegri strönd.

miðvikudagur, júní 02, 2010

Um andfeminísk viðhorf mín

Ég hef þrisvar sinnum gengið til liðs við framboð með þeim hætti að bjóða fram aðstoð mína í sjálfboðavinnu. Í öll skiptin var það vegna þess að ég hafði trú á einstaklingunum sem voru þar í forsvari og vildi fá að leggja meira af mörkum en bara atkvæðið mitt.
Fyrst þegar það gerðist hafði ég reyndar ekki einu sinni kosningarétt. Það var árið 1980, ég var fimmtán ára og Vigdís Finnbogadóttir var í forsetaframboði. Mér fannst hún langglæsilegasti frambjóðandinn og ég studdi hana með ráðum og dáð. Það gerði pabbi líka. Mamma studdi Pétur og Danni bróðir, sem þá var 9 ára, studdi Guðlaug. Ég vona að ég sé ekki að afhjúpa fjölskylduleyndarmál með þessu. Á kjördag stóð ég því í kaffiuppáhellingum og vöfflubakstri í kosningakaffi Vigdísar í Gúttó í Hafnarfirði. Hún kom í heimsókn og áritaði „Veljum Vigdísi“ límmiða fyrir mig sem lengi hékk innrammaður uppi á vegg í herberginu mínu.
Árið 1994 var eins og flokkakerfið væri í uppstokkun og margt ungt félagshyggjufólk átti sér draum um sameiningu. Mér er sérstaklega minnistætt að eftir að hafa starfað með Röskvu í Háskólanum, þar sem eining og samstaða ríktu, skyldi ég hitta félaga mína af þeim vettvangi í Háskólabíói þar sem þeir voru að dreifa kosningaáróðri fyrir þrjá stjórnmálaflokka. Mér fannst sárgrætilegt að við skyldum ekki geta unnið saman á landsvísu líka. Þegar leið að borgarstjórnarkosningum og vinur minn, Helgi Hjörvar, sagði mér að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gæti hugsað sér að leiða sameiginlegt framboð þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um. Þegar R-listinn varð til mætti ég því gallvaskur og eyddi nokkrum dögum í að ganga í hús með bæklinga og blöð.
Haustið 1994, að mig minnir, varð Þjóðvaki líka til. Mér fannst það tilraun til sameiningar á landsvísu að fyrirmynd R-listans, ekki síst í ljósi þess að listann leiddu frambærilegustu einstaklingarnir úr flokkunum sem mér fannst að ættu að vinna saman. Auðvitað var það þó oddvitinn, heiðarlegasti og einarðasti stjórnmálamaður þess tíma, Jóhanna Sigurðardóttir, sem réði úrslitum um stuðning minn. Ég skipulagði því tónleika vítt og breitt um Reykjavík á vegum Þjóðvaka þar sem ungar hljómsveitir fengu tækifæri til að sýna sig og frambjóðendur flokksins fengu tækifæri til að hitta unga kjósendur. Í þetta eyddi ég nokkrum dögum af lífi mínu.
Reyndar er ég að gleyma allri sjálfboðavinnu minni fyrir VG árin 1997 – 2004, en þá var það eiginlega eiginmannsskylda mín að leggja eitthvað af mörkum. En, vel á minnst, þá þjónaði framlag mitt líka þeim tilgangi að styðja efnilegan stjórnmálamann, núverandi menntamálaráðherra.
Ég er nú bara að rifja þetta upp vegna þess að ég hef verið vændur um að vera ekki mikill feminsti. Ekki veit ég hve mikill feministi ég er, ég læt lesendum eftir að meta það út frá verkum mínum. En þegar ég hef gefið tíma minn og vinnu í að afla framboðum fylgis hefur það undantekningalaust verið til að koma konum til valda.

mánudagur, maí 17, 2010

Lærdómur og leiðindi

Þegar ég var strákur háðu gott og illt hatramma baráttu um yfirráðin í lífi mínu. Þessi öfl tóku þá jafnan á sig mynd skemmtilegs og leiðinlegs, en ég upplifði þessi átök sem glímu góðs og ills. Oft var skemmtilegt en stundum réð hið leiðinlega eitt ríkjum. Til dæmis voru handavinnu- og leikfimitímar ein samfelld sigurganga hins illa.

Í menntaskóla var smíði ekki lengur skyldunámsgrein, en þá tóku bara saga og stærðfræði við hlutverki málaliða myrkraaflanna í lífi mínu. Einkum mistókst stagli sögulegra staðreynda um löngu dautt kónga- og keisarapakk, sem kom mér minna en ekki neitt við, gjörsamlega að kveikja í mér nokkurn minnsta neista af áhuga. Því miður get ég ekki bætt aftan við þessa setningu orðunum „hvernig sem ég reyndi“, því satt best að segja þá reyndi ég ekki. Þetta var einfaldlega leiðinlegt og því ekki til neins að reyna að finnast það skemmtilegt, það var jafnlangsótt hugmynd og að hægt væri að ákveða að finnast hið illa gott.

Þessa sá auðvitað stað í einkunnunum mínum. Til dæmis tókst mér bæði að falla í stærðfræði 203 og tvisvar sinnum í sögu 112, í seinna skiptið eftir að hafa skrifað langa ritgerð á prófi um baráttu Olivers Cromwells við Maríu Stúart. Þau voru reyndar ekki uppi á sömu öld.

Í námi mínu í guðfræði hef ég kynnst mörgum skemmtilegum námsgreinum, t.d. ritskýringu áhugaverðra ritningarstaða, hugmyndafræðilegri samtímasögu Nýja og Gamla testamentisins og trúarlegri tjáningu allt frá Assýríu og Babýlon til Lúthers, Schleiermachers, Bultmanns og Bonhoeffers. Þess vegna kemur það mér alltaf dálítið á óvart þegar skólasystkin mín taka sig til og skrifa lokaritgerðir í kirkjufræði eða litúrgíu. Sjálfum finnst mér hlaðborð guðfræðinnar geyma svo margt miklu safaríkara en það.

En ég hef líka kynnst því að maður hefur dálítið um það að segja sjálfur hvað er skemmtilegt. Jafnvel þjóðkirkjuhugtakið í skrifum Karls Sigurbjörnssonar verður mun áhugaverðara rannsóknarefni ef maður nálgast það ekki með þá fyrirframgefnu hugmynd að þetta verði ábyggilega sú mest svæfandi pæling sem maður hafi nokkru sinni lagst í. Lífið er nefnilega of stutt til að maður geti leyft sér að nálgast viðfangsefni þess sem eitthvað sem maður verði að afplána til að því ljúki. Og með því móti opnar maður líka fyrir þann möguleika að maður verði í raun einhvers vísari.

Bakþankar í Fréttablaðinu 15. 5. 2010

mánudagur, apríl 19, 2010

Góðar fyrirmyndir

Það er gott eiga sér fyrirmyndir. Það er hollt að geta dáðst að eftirsóknarverðum eiginleikum og hæfileikum annarra og leggja sig í framkróka við að tileinka sér þá til að bæta sjálfan sig og verða eilítið aðdáunarverðari sjálfur. En auðvitað verður að vanda valið á fyrirmyndum.

Fyrir nokkrum árum missti góður vinur minn föður sinn. Þetta var stórmerkilegur karl sem naut virðingar okkar allra félaganna. Hann hafði komið víða við og gegnt margvíslegum ábyrgðar- og trúnaðarstörfum, bæði í opinbera geiranum og ýmsu félagsstarfi. Allt þetta tíundaði presturinn samviskusamlega í minningarorðunum. Við það varð annar vinur minn fyrir djúpstæðri reynslu, honum fannst lítið til sjálfs sín koma og ákvað að hann þyrfti að láta meira til sín taka og leggja meira af mörkum, þótt ekki væri nema til þess að hægt væri að segja eitthvað merkilegt um hann í jarðarförinni. Skömmu síðar var þess farið á leit við hann að hann tæki að sér trúnaðarstörf fyrir fagfélag sitt og þáði hann það. Það er skemmst frá að segja að þau störf hafa verið honum til lítillar ánægju og öðru hverju hefur hann hugsað atorku og elju hins farna höfðingja, ásamt sinni eigin áhrifagirni, þegjandi þörfina.

Fyrir fjórum árum settist ég við tölvuna mína og skrifaði mína fyrstu Bakþanka. Þessir eru númer hundrað. Þegar ég byrjaði hafði ég hugsað mér að hætta eftir þann hundraðasta, ef ekki væri búið að reka mig. Mér fannst að það hlyti að vera ágætt, þá væri ég búinn að segja allt sem ég hefði fram að færa og tímabært væri að snúa sér að öðru.

Í fyrra kvaddi annar merkur höfðingi þennan heim, Flosi Ólafsson. Hann var að mínu mati einhver allra skemmtilegasti penni þjóðarinnar, lipur og hnyttinn, en á milli línanna mátti þó ávallt greina djúpa alvöru og mannúð, líka þegar hann var bara að fíflast. Ég ætla mér ekki þá dul að líkja okkur saman, en betri fyrirmynd fyrir pistlahöfund er að mínu mati vandfundin. Þegar Flosa var minnst kom m. a. fram að hann skrifaði meira en 700 pistla um sína daga. Þá varð mér svipað innanbrjósts og vini mínum í útförinni um árið, mér fannst ég sjálfur ósköp ómerkilegur.

Ég ætla því að halda áfram ótrauður um sinn, ef ég fæ. Ég lofa þó að hætta áður en aðdáun mín á Flosa, húmor hans og stíl verður mér uppspretta gremju frekar en þakklætis fyrir að hafa fengið að njóta hæfileika hans.
Bakþankar í Fréttablaðinu 17. 4. 2010

mánudagur, ágúst 03, 2009

„Við það augun verða hörð ...“

Þegar ég var strákur langaði mig óskaplega mikið til að verða skáld þegar ég yrði stór. Sú list að geta með fáum, vel völdum orðum haft djúp áhrif á fólk, jafnvel látið það fá gæsahúð, heillaði mig alveg upp úr skónum. Á meðan félagar mínir dáðu poppstjörnur, knattspyrnumenn og leikara fann ég mínar fyrirmyndir í Skólaljóðum, bókinni sem sennilega hafði mest áhrif á menningarlega mótun mína í uppvextinum.
Þegar ég varð unglingur og fór að kynna mér ævi þessara karla og þann hluta kveðskapar þeirra sem ekki rataði í Skólaljóðin ágerðist þessi áhugi minn. Það sem einkum heillaði mig þá var drykkjuskapurinn og kvensemin sem nánast virtist vera hluti af starfslýsingu þjóðskálds. Eymdin, ógæfan og volæðið sem einnig virtist vera skilyrði var í augum mínum rómantískt og eftirsóknarvert hlutskipti.
Af þessum sökum tók ég ungur að reyna að temja mér drykkjuskap og kvensemi. Ég vona að ég hljómi ekki sjálfbyrgingslega þótt ég leyfi mér að fullyrða að mér hafi bara tekist allvel upp, einkum við drykkjuskapinn. Ég læt liggja á milli hluta hvort kvensemin hafi skilað jafnmiklum árangri og erfiði.
Aftur á móti varð minna úr því að kveðskapur minn væri sú tæra snilld sem stefnt var að. Ljóðin sem breyta áttu því hvernig Íslendingar hugsuðu um sjálfa sig, uppruna sinn og gildismat létu á sér standa. Aldrei tókst mér að toppa Bjössa litla á Bergi, Bikarinn eða Ef. Steinn Steinarr var auðvitað með öllu ósnertanlegur. Eftir á að hyggja var þetta kannski vegna þess að einhvern veginn hafði sú hugmynd læðst að mér að ef ég bara væri nógu iðinn við drykkjuskapinn og kvensemina sæi restin um sig sjálf.
Það kom mér því verulega á óvart þegar ég komst að því löngu síðar að hægt væri að yrkja ljóð fyrir hádegi á virkum degi. Áður hefði ég getað svarið fyrir það að skapandi hugsun væri möguleg á hefðbundnum skrifstofutíma. Að sitja við yrkingar eins og hverja aðra vinnu var eitthvað sem ekki hafði hvarflað að mér að skilað gæti neinu sem varið væri í. Þó var það nákvæmlega það sem Halldór Laxness hafði gert með góðum árangri og reyndar fleiri skáld líka. Mér hafði bara láðst að kynna mér þau. Þau voru nefnilega ekki eins spennandi. Kannski af því að drykkjuskapinn og kvensemina vantaði.
Bakþankar í Fréttablaðinu 1. ágúst 2009.

laugardagur, ágúst 01, 2009

Níðsálmur

Í gærkvöld stýrði ég hagyrðingamóti á Fjarðarborg í Borgarfirði eystri. Var þar margt um manninn og glatt á hjalla eins og við var að búast. Ég get engan veginn gert grein hér fyrir öllu sem þar var ort. En mig langar þó að deila níðvísu, sem ort var um yðar einlægan, með lesendum. Svo er mál með vexti að fyrr í mánuðinum prédikaði ég við messu í Hjaltastaðarkirkju. Einn hagyrðinganna hafði séð það auglýst og leist ekki nema rétt mátulega á. Um það fjallar þessi kveðskapur, sem er undir passíusálmshætti. Höfundurinn er Andrés Björnsson frá Gilsárvöllum á Borgarfirði eystri.

Gamminn hann geysa lætur
um Guð sinn í kirkjunnar reit
svo bera þess aldrei bætur
bændur í Útmannasveit.
Um englana víst þó veit.
Tæpast er til þess gerður,
trúhitinn þarna verður
fimmtán á Farenheit.

mánudagur, júlí 20, 2009

Fyll'ann gremju


Þegar ég var yngri voru bensínstöðvar staðir þar sem vegfarendur numu staðar ef þá vantaði bensín. Þar var reyndar einnig boðið upp á ýmsa aðra þjónustu fyrir bílinn. Maður var ekki bara spurður hvort ætti að „fyll'ann“ heldur jafnvel líka hvort það ætti að athuga olíuna eða strjúka af framrúðunni. Þetta heyrir sögunni til. Æ víðar eru komnar afgreiðslustöðvar þar sem maður verður sjálfur að veita sér alla þá þjónustu sem mann vanhagar um, væntanlega til að koma í veg fyrir hvimleið persónuleg samskipti við starfsfólk. Eina leiðin til að „fyll'ann“ er að vita fyrirfram upp á krónu hve mikið bensín í viðbót tankurinn rúmar.
Þetta virðist þó ekki gert til að spara starfsfólk. Öðru nær. Flestar bensínstöðvar eru nefnilega orðnar einhver ofursjoppa, jafnvel smákjörbúð með Smáratorgsdrauma. Þar er nú öll áherslan lögð á að bjóða svo fjölbreytt úrval af samlokum, gosdrykkjum, smáréttum, grillmat og útilegudóti, auk þess sem þar eru sjaldnast færri en tvær alþjóðlegar skyndibitakeðjur með aðstöðu, að ekkert pláss er eftir fyrir frostlög eða vinnukonur.
Þá voru loftmælar líka einföld, sjálfsögð og auðskilin tæki og til á öllum bensínstöðvum. Þeir líktust penna sem smellt var á ventilinn. Þrýstingurinn ýtti þartilgerðum pinna út. Því lengra út sem pinninn fór, þeim mun meiri var þrýstingurinn. Allt saman eins frumstætt, analóg og auðskilið og framast gat orðið. Nú hefur bansett framþróunin einnig náð inn á þetta svið. Horfin er sú vinalega spurning: „Getiði lánað mér loftmæli?“ Enda er auðvitað óskiljanlegt hvað samloku- eða hamborgarasali ætti að gera við slíkt tæki. Á bensínstöðvum þar sem eru mexíkanskir skyndibitastaðir er spurningin kannski eðlilegri. Loftleiðslan kemur engum inni á staðnum við, er digítal og tölvuvædd. Maður slær inn æskilegan loftþrýsting og bíður eftir pípi, eftir að einhver góðhjartaður hefur útskýrt fyrir manni hvernig þetta virkar.
Verst er þó að þegar maður lætur móðan mása af réttlátri vandlætingu eftir að hafa heimsótt þá framtíðar-dystópíu sem íslenskar bensínstöðvar eru upp til hópa orðnar, þá góna börnin manns á mann eins og maður sé að missa vitið. Þau heyra ekki hvöss snjallyrði reiða, unga mannsins sem glymja í eyrum manns sjálfs, heldur bara tuð í geðillu gamalmenni sem ekki nær að fylgjast með. Svona læðist tíminn aftan að manni.
Bakþankar í Fréttablaðinu 18. júlí 2009

þriðjudagur, maí 05, 2009

1994

Í aðdraganda nýafstaðinna kosninga var einn frambjóðenda spurður hvort hann vildi virkilega fara með íslenskt samfélag 15 ár aftur í tímann. Í spurningunni lá að í slíkri afstöðu fælist aðeins rykfallin fortíðarhyggja og heimskulegur fjandskapur í garð hvers konar framfara og framþróunar á öllum sviðum. Enda sór frambjóðandinn það dyggilega af sér að vera slíkur pólitískur steingervingur að hann teldi eftir nokkru vitrænu að slægjast svo langt aftur í forneskjunni.
En þetta fékk mig til að staldra aðeins við og rifja upp liðna tíð. Ég er nefnilega orðinn svo gamall að ég man ósköp vel fimmtán ár aftur í tímann. Og hvernig sem ég rembist tekst mér engan veginn að fá upp í hugann neina mynd af því sovéska helvíti sem látið hefur verið í veðri vaka að hafi verið á Íslandi árið 1994. Ég man ekki betur en að hægt hafi verið að ferðast til útlanda, gjaldeyrisviðskipti hafi viðgengist og verðbólga hafi verið viðunandi. Að olíuverslun undanskilinni minnir mig meira að segja að viðskiptaumhverfi hafi verið þokkalega eðlilegt, alltjent voru orðin „ofurlaun“ og „græðgisvæðing“ ekki til í málinu.
Menningar- og listalíf var í blóma árið 1994. Söngleikurinn Hárið gekk fyrir fullu húsi í Íslensku óperunni, Maus vann Músíktilraunir og Hallgrímur Helgason sendi frá sér Þetta er allt að koma. Húmor og bjartsýni réðu ríkjum. Á Kaffibarnum var fullt út úr dyrum öll kvöld vikunnar. Þótt sjálfur hafi ég dvalið þar langdvölum minnist ég þess ekki að vísitölur, vogunarsjóði, vaxtabætur og verðtryggingarálag hafi nokkurn tímann borið á góma í samræðum þar. Nei, þar var rætt um menningu, listir og stefnur og strauma í hugsun, viðhorfum og gildum. Gott ef hinstu rök tilverunnar voru ekki öðru hvoru tekin til umfjöllunar. Árið 1994 var hagfræði nefnilega talin óáhugavert nördafag. Þá grunaði engan að aðeins fimmtán árum síðar yrði hún alfa og ómega allrar opinberrar umræðu um mannlegt samfélag.
Þegar betur er að gáð er ég ekki frá því að ef árið 1994 hefði verið í boði á kjörseðlinum um síðustu helgi hefði ég valið það. Í raun er það eina verulega slæma, sem ég minnist frá árinu 1994, framtíðin sem þá beið okkar.
Bakþankar í Fréttablaðinu 2. maí 2009

þriðjudagur, mars 31, 2009

Týndur sauður

(Lag og ljóð: Bob Dylan/íslenskur texti: D. Þ. J.)

Áður varstu fín og flott í sýn,
þá flæddi kampavín og gæfa þín var ógurleg.
Þig allir voru að fjalla um og skjalla,
undan fæti halla myndi varla á nokkurn veg.
Þú hlóst bæði hátt og snjallt
að hinum sem var ekki gefið allt.
En drambið nú þú deyða skalt,
það dugar skammt ef manni er kalt
og þarf að sníkja bæði brauð og næturstað.
Hvernig er það?

Hvernig er það
að vera ein og snauð,
að vera öllum dauð,
að hafa misst sinn auð,
minna á týndan sauð?

Alltaf vel til fara með aðdáendaskara,
eftirsótt vara, þú þekktir bara gleði og glaum.
Svo brugðust loks þinn eiginn máttur og megin,
nú máttu felmtri slegin þrauka einhvern veginn ein og aum.
Þú sórst þess eið í allmörg sinn
aldrei að fara milliveginn,
en nú er afslátturinn útrunninn.
Enginn er lengur vinur þinn,
nema fyrir greiða í greiða stað.
Hvernig er það?

Hvernig er það
að vera ein og snauð,
að vera öllum dauð,
að hafa misst sinn auð,
minna á týndan sauð?

Aldrei nokkurn tíma í brjálæðisins bríma
þú baksviðs máttir híma né leggja þig í líma, því er ver.
Í innantómum dofa hver draumur fékk að sofa
og daga uppi vofa, því aðrir höfðu ofan af fyrir þér.
Þó að þú umgengist þotulið,
þvælt væri og lúið gullkortið,
nú tekur ómæld einsemd við,
enginn sem stendur þér við hlið,
horfnir þeir sem þú taldir þig eiga að.
Hvernig er það?

Hvernig er það
að vera ein og snauð,
að vera öllum dauð,
að hafa misst sinn auð,
minna á týndan sauð?

Að rista svona grunnt er ekki mörgum unnt,
egósentrísk trunta, bara upp á punt að skemmta sér.
Þú hafðir skotið rótum á heldrimanna mótum
hjá harðsvíruðum þrjótum, en lukkan kippti fótunum undan þér.
Þú gerðir endalaust grín að því
ef gagnrýndu einhver nóboddí
þá gerviveröld sem varstu í.
Þú vissir ekki um neitt svínarí
og hafðir jú ekkert að fela, eða hvað?
Hvernig er það?

Hvernig er það
að vera ein og snauð,
að vera öllum dauð,
að hafa misst sinn auð,
minna á týndan sauð?


Þetta er nýjasta afurð Þorsteins Eggertssonar-heilkennisins míns, áráttukenndrar þráhyggju að þýða erlenda söngtexta.
Like a Rolling Stone hefur verið valið besta rokklag allra tíma. Það hefur lengi verið eitt af mínum eftirlætislögum í heiminum, svo mjög að mér hraus hálfpartinn hugur við að reyna að snara því – mér fannst það jafnvel jaðra við helgispjöll. Auðvitað er þó ekki um eiginlega þýðingu að ræða, heldur aðeins tilraun til að miðla þeim hughrifum sem ég sjálfur verð fyrir af textanum. Ég byrjaði á þessu í haust, en gafst upp í miðju kafi. Í síðustu viku kom andinn yfir mig aftur og ég kláraði þetta.
Bragfræði Dylans er afar sundurleit og handahófskennd. Fjöldi atkvæða í línu virðist varla fylgja neinni reglu, heldur aðeins því hve mörg orð skáldið þurfti til að segja það sem það vildi koma til skila. Þess vegna elti ég ekki heldur ólar við að hafa öll erindin nákvæmlega eins í hrynjandinni.
Í fyrstu fjórum línunum er hins vegar ekki bara hrynjandin út og suður hjá Dylan heldur sjálft bragmynstrið líka. Mér finnst það aftur á móti lýti á íslenskum kveðskap. Þess vegna held ég rímformi Dylans úr fyrsta erindinu (inn- og endaríminu A-A/A-A-B/C-C/C-C-B) til streitu í gegn um öll fjögur erindin. Það kann að virðast mjög anal, en sama er mér. Hitt lítur að mínu mati út eins og höndum hafi verið kastað til við verkið.
Upphaflegi textinn hefur sögulega skírskotun til einstaklinga í áhangendahópi Andys Warhols. Dylan mun hafa fundist ein vinkona sín fara illa út úr veru sinni í honum og ort lagið um það. Sú skírskotun á að mínu mati ekkert erindi í dag, þótt áhugaverð sé. Lagið er einfaldlega löngu vaxið upp úr sögulegum bakgrunni sínum.
Kannski má finna vísun í nýlegri og nærtækari atburði í mínum texta, ég veit það ekki. En finnist einhverjum þessi texti fjalla um einhverja raunverulega persónu, lífs eða liðna, gerir hann það algerlega á eigin ábyrgð – ég sá bara fyrir mér einhverja nafnlausa meikdollu sem sápukúlan sprakk utan af.
Auðvitað er þetta misstirt hjá mér, en ég held að hægt eigi að vera að syngja þetta án mikilla harmkvæla. Langi einhvern að flytja þennan texta við eitthvert tækifæri er honum það frjálst hvar og hvenær sem er, ef hann aðeins getur höfundar.

þriðjudagur, janúar 27, 2009

Botn 10: Verstu kvikmyndir sem ég hef séð

Ég nenni ekki að vera pólitískur eða aktúell. Hér er listi yfir tíu verstu kvikmyndir sem ég hef séð. Tekið skal fram að íslenskar myndir vantar á þennan lista þótt a.m.k. tvær ættu sannarlega heima á honum. Einnig skal tekið fram að þetta eru einungis myndir sem ég ég hef setið undir frá upphafi til enda.

10. Gladiator (2000), Ridley Scott

Heimskuleg, ótrúverðug og umfram allt gjörsamlega tilgangslaus saga um óþolandi mann. Aðeins peningarnir sem settir voru í framleiðsluna komu í veg fyrir að myndin færi beint á myndband. Óverðskulduðstu Óskarsverðlaun sögunnar.

9. Daredevil (2003), Mark Steven Johnson

Á! Æj! Úff! Hér hjálpast ekkert að.

8. Armageddon (1998), Michael Bay

Loftsteinn ógnar jörðinni. Skynsamlegra þykir að senda bormenn á helgarnámskeið í geimferðum til að redda þessu heldur en að senda geimfara á helgarnámskeið í borun. Myndin státar af heimskulegustu setningu kvikmyndasögunnar: „Ég hefði ekki átt að ala þig upp á olíuborpalli.“ Döh!

7. Idioterne (1998), Lars von Trier

Hópur af ljótum og leiðinlegum hrokkagikkjum ákveða að tékka á því hve ljótir, leiðinlegir og hrokafullir þeir geti orðið.

6. Ett hål i mitt hjärta (2004), Lukas Moodyson

Heimskur og leiðinlegur unglingur vorkennir sjálfum sér ógurlega inni í herberginu sínu á meðan heimskur og leiðinlegur pabbi hans gerir lélega klámmynd með heimskum og leiðinlegum vinum sínum. Tilgangslaus sóðaskapur frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.

5. Babel (2006), Alejandro Gonzalez Inarritu

Pakk sem á ekkert gott skilið lendir í því sem það á skilið og vorkennir sjálfu sér ógurlega í 143 mínútur. Söguna hefði mátt segja á 15 mínútum. Hún hefði að vísu orðið jafnleiðinleg, bara ekki eins lengi.

4. Caché (2005), Michael Haneke

Leiðinlegur og sjálfumglaður karl fær dularfullar sendingar. Ekkert kemur í ljós. Í lok myndarinnar er hann jafn leiðinlegur og sjálfumglaður og í upphafi hennar. Myndin státar af ótrúverðugasta sjálfsvígi kvikmyndasögunnar.

3. Braking the Waves (1996), Lars von Trier

Dauðadrukkinn kvikmyndatökumaður fylgist með ömurlegu lífi óáhugaverðrar konu í nöturlegu umhverfi.

2. The English Patient (1996), Anthony Minghella

Ekkert gerist. Lengi. Svo er reynt að drepa aðalsöguhetjuna. Svo heldur ekkert áfram að gerast. Lengi.

1. Lost in Translation (2003), Sofia Coppola

Ekkert gerist – í Japan.

mánudagur, desember 29, 2008

Draumvísa

Í nótt dreymdi mig draum sem var eins og út úr Íslendingasögum. Hann var svo þrunginn merkingu að ég hlýt að óska eftir ráðningu hans hjá frómum lesendum. Hann var á þessa leið:
Mér fannst að ég væri að taka útvarpsviðtal við Megas. Spurningarnar áttu að vera út í hött til að gefa kost á hnyttnum tilsvörum, en það fór fyrir ofan garð og neðan. Þegar Megas spurði mig hvað fyrir mér vekti með þessum þætti og ég svaraði því til að ég vonaðist til að hann slægi í gegn hló hann. Að skilnaði gaf hann mér síðan ferhyrnta, græna leðurpjötlu með áþrykktu tvískiptu mynstri sem hörð var og skorpin eins og gamalt bókarspjald. Síðan fór hann með vísu.
Þegar ég kom heim reyndi ég að fara með vísuna fyrir konuna mína en rak fljótt í vörðurnar. Þá kom aftur á móti í ljós að hún hafði heyrt þessa vísu áður, kunni hana og fór með hana fyrir mig.
Þetta þótt mér merkilegt og ég fór að velta því fyrir mér hvort algengt væri að fólk dreymdi rétt kveðnar vísur, sem jafnvel væru eftir aðra en það sjálft. Þá datt mér í hug að sennilega væri þessi vísa hreint bull, en mér fyndist hún bara vera góð og rétt kveðin þar sem mig væri að dreyma.
Þá vaknaði ég, eins og jafnan gerist þegar ég geri mér grein fyrir því í draumi að mig sé að dreyma. Hins vegar mundi ég vísuna. Hún er svona:

Mælt er að ég hafi mælt við því já
að menn skyldu þegar og án þess að hvá
landinu varpa í einingu á
úthafsölduna, svei mér þá
- úthafsölduna, svei mér þá.

Nú óska ég eftir ráðningu.

þriðjudagur, desember 23, 2008

Ömurleg jól


Ömurlegustu jól sem ég hef lifað voru árið 1993. Ég var nýfráskilinn og nýfluttur inn í íbúðarkytru í miðborginni. Megnið af hafurtaskinu mínu var því ýmist enn í kössum eða hjá minni fyrrverandi. Kringumstæður mínar höfðu verið þannig að lítið hafði farið fyrir jólaskapinu hjá mér á aðventunni og ofan á það var ég staurblankur. Af þeim sökum ákvað ég að gera ekkert úr jólunum, heldur herja þess í stað á fjölskylduboðin yfir bláhátíðarnar og halda svo áfram með líf mitt eins og ekkert hefði ískorist. Hins vegar gekk einhver pest þessi jól, þannig að mamma lagðist í bælið og boðinu á jóladag var aflýst. Þar sem ég átti ekki í nein önnur hús að venda var ég því einn heima í hálfkaraðri og óskreyttri íbúð. Ég sauð mér frosna ýsu sem ég átti og át hana með kartöflum og smjöri. Það var jólasteikin mín.
Ég hef alloft orðið niðurdreginn um dagana, en aldrei hefur annað eins svartnættisþunglyndi með sjálfsvorkunn og algjöru vonleysi hellst yfir mig og þennan jóladag. Samt var ekkert við kringumstæðurnar í sjálfu sér sem hefði átt að gera mig dapran. Ýsa er góður matur og húsnæði manns er alla jafna ekki skreytt í hólf og gólf. Ef þetta hefði verið virkur dagur í janúar hefði ekki verið nein ástæða til að kvarta. En þetta var ekki virkur dagur í janúar heldur jóladagur. Hann á að vera öðruvísi en aðrir dagar ársins.
Ástæða þess að ég er að rifja þetta upp er sú að ég get ímyndað mér að þessi jól sé svipað ástatt um marga. Jólaskapið hefur eflaust víða átt erfiðara uppdráttar nú en oft áður út af áhyggjum og fjárhagslegu óöryggi. Aðventan kynni að hafa gert ýmsum erfitt um vik að fyllast sama jólaanda og vanalega.
Ég vil samt skora á þá sem þannig er ástatt fyrir um að hunsa ekki jólin með öllu. Það er beinlínis mannskemmandi að gera sér engan dagamun á þessum árstíma. Íburður er óþarfur, jafnvel bara til vansa. Pínulítið greni, kerti, jólakúla, engill eða stjarna ætti ekki að vera neinum ofviða. Ekki heldur dós af jólaöli, súkkulaðimoli, sneið af hreindýrakæfu eða annað sem hver tengir sínum jólum. Það er beinlínis sálartortímandi að gera ekkert til að lyfta sér upp eða lífga upp á umhverfi sitt núna í svartasta skammdeginu.
Ég mæli alla vega ekki með því.
Gleðileg jól.

Bakþankar í Fréttablaðinu 21. 12. 2008

mánudagur, október 27, 2008

Milli draums og vöku

Um þessar mundir er verið að sýna leikrit eftir Sigurð Pálsson, skáld, í einu atvinnuleikhúsanna. Verkið segir hann byggt á röddum sem hann heyri tala við sig þegar hann er á milli draums og vöku. Í viðtölum hefur hann sagt að hann hafi reynt að forðast eins og heitan eldinn að falla í þá gryfju að hafa einhvern söguþráð eða framvindu í verkinu og gefið í skyn að ástæða þess að aðrir láti eitthvað gerast í sínum leikritum sé ekki sú að fólki finnist svoleiðis leikrit yfirleitt skemmtilegri en þau þar sem ekkert gerist heldur séu þeir of huglausir til að þora að láta allt sem kalla mætti uppbyggingu lönd og leið. Mig langar sem sagt ekkert til að sjá þetta verk.
Þó þekki ég raddir, eins og þær sem Sigurður Pálsson lýsir, vel af eigin raun. Ég hef samt á tilfinningunni að mínar tali öðruvísi við mig en Sigurðar við hann. Í svefnrofunum í morgun heyrði ég til dæmis mína dularfullu hálfdraums-rödd segja þetta við mig: „Það versta sem ég hef lent í því að hafa er kímnigáfa. Hún gerbreytir því hvernig maður sér heiminn og litar öll samskipti manns við annað fólk. Ó, sagði ég kímnigáfa? Ég ætlaði að segja flatlús.“

þriðjudagur, september 16, 2008

Jörð, gleyptu mig ... núna!

Þótt maður reyni að hafa ekki of miklar áhyggjur af því hvað fólk heldur um mann reynir maður auðvitað alla jafna að verða ekki að undrum á almannafæri. En stundum er hreinlega eins og lífið bregði fyrir mann fæti í þeirri sjálfsögðu viðleitni.
Til dæmis fór ég ekki alls fyrir löngu í verslunarleiðangur í Hagkaup í Kringlunni. Eftir að hafa fyllt innkaupakörfuna fórum við hjónaleysin í biðröðina við kassann. Konan á undan okkur var með heilmikinn varning sem hún var að hlaða upp á færibandið með töluverðum bægslagangi. Þá sá ég útundan mér að einhver smávara datt á gólfið. Að sjálfsögðu tók ég hana upp. Þetta var einhvers konar kremtúba af smærra taginu. Ég rétti konunni hana og sagði: „Fyrirgefðu, þú misstir þetta.“ Konan leit forviða á mig og neitaði því svo flissandi. Skrítnara þótti mér þó að nú hreytti unnusta mín í mig: „Hvað er að þér, maður? Þetta á að vera hérna!“ Með það reif hún af mér túbuna og setti upp í hillu sem er þarna yfir færibandinu.
Það tók drykklanga stund að afgreiða konuna svo ég leit betur á hilluna sem túban hafði dottið úr. Þá rann upp fyrir mér ljós. Í túbunni var krem sem ætlað er að auka ánægju fólks af því að hafa samfarir. Gott ef orðasambandinu „kitlandi unaður“ brá ekki fyrir í vörulýsingunni. Ég fann hvernig roðinn færðist í kinnarnar á mér við þessa uppgötvun, en ekki fannst mér ég þó geta beðið konuna afsökunar. Þá hefði ég verið að gefa í skyn að það ætti að segja sig sjálft að vöru af þessu tagi gæti hún alls ekki verið að kaupa. En þarna hafði ég semsagt í barnslegu sakleysi mínu staðið með þennan sóðaskap í höndunum, otað honum að bláókunnugri manneskju og svo gott sem gapað: „Afsakið, fröken, en þér misstuð kynnautnasmyrslið yðar.“
Til að konan sæi ekki að ég var blóðrauður af skömm reyndi ég að grafa andlitið á mér ofan í tímarit á meðan hún lauk sér af og unnusta mín barðist við að halda niðri í sér hlátrinum. En maður hlýtur að spyrja: Hvað á það að þýða að hafa þessa vöru einmitt þarna? Það er bara verið að bjóða heim hættunni á svona löguðu. Á maður ekki heimtingu á því að geta farið út í búð án þess að eiga það á hættu að verða sér í hrekkleysi sínu til slíkrar skammar að maður óskar þess helst að jörðin gleypi mann?
Bakþankar í Fréttablaðinu 14. sept. 2008

miðvikudagur, ágúst 20, 2008

Stjörnum prýdd veifa

(Francis Scott Key – íslensk þýðing: D. Þ. J.)

Ó, sérðu í sýn
gegn um sorta og ský
tákn um dirfsku og dug
meðan dagurinn rennur?
Yfir veraldar vél
blaktir vindinum í
merki ofsa og elds
sem í æðum oss brennur.
Þó að taki vort blóð
sprengjublossanna glóð
þá berjumst vér enn fyrir fullvalda þjóð.
Ó, blaktir enn fáni vor fagur og hýr
fyrir heimaland frjálst þar sem hugprýði býr?

Fyrir nokkrum árum fékk ég það verkefni að þýða til talsetningar kvikmynd sem hét Racing Stripes. Hún fjallaði um sebrahestinn Stripes, sem á íslensku hét Brandur, en hann átti sér þann draum æðstan að verða veðhlaupahestur. Auðvitað fékk myndin því nafnið Eldi-Brandur á íslensku. Þegar stóra uppgjörið verður í myndinni, veðhlaupið þar sem Brandur sýnir hvað í honum býr, rísa allir á skeiðvellinum á fætur og syngja þjóðsöng Bandaríkjanna, eins og tíðkast víst á allflestum íþróttaviðburðum þarna vestanhafs. Þetta gerði það að verkum að ég þurfti að finna íslenskan texta við lagið. Hófst nú æðisgengin leit að honum, en þótt ég nyti aðstoðar menningarfulltrúa bandaríska sendiráðsins við hana bar hún engan árangur. Það varð því úr að ég neyddist til að hnoða sjálfur saman einhverri þýðingu. Þannig varð textinn hér að ofan til. Sennilega er þetta þekktasti söngtexti sem ég hef gert tilraun til að snara. Um daginn var ég að taka til í þýðingamöppunni hjá mér og rak augun í þetta skjal. Þá datt mér í hug að leyfa lesendum mínum að njóta kveðskaparins með mér, ef í hópi þeirra skyldu leynast íslenskumælandi Bandaríkjamenn sem saknað hafa þess að geta ekki sungið þjóðsönginn sinn á því ylhýra. Það vandamál heyrir þar með sögunni til. En ef einhverjir sem álpast til að lesa þetta vita um aðra (og sennilega skárri) þýðingu eru ábendingar þegnar.

mánudagur, apríl 21, 2008

Í svefnrofunum

Mér finnst ég oft á einhverju skemmtilega undarlegu vitundarsviði þegar ég er á milli svefns og vöku. Þessi hugmynd að glæpasögu eða spennumynd kom til mín í svefnrofunum í morgun:

HÚÐFLÚRRÆNINGINN

Hann rændi konum og skildi þær eftir á víðavangi. En áður hafði hann húðflúrað þær svo að þær féllu saman við umhverfið. Þannig að enginn sá þær framar.

(Ykkur er frjálst að nota hana, ekki mun ég gera neitt úr henni.)

sunnudagur, febrúar 17, 2008

Ég og Porsche-inn minn

Í fyrravor hitti ég gamlan kunningja í bókabúð Máls og menningar við Laugaveg. Ekki man ég nákvæmlega hvað okkur fór á milli, en hann spurði mig hvaða mánaðardagur væri svo ég leit á úrið mitt til að gá að því. Úrið mitt sýnir mánaðardaga. Þá uppgötvaði ég mér til mikillar skelfingar að handleggurinn á mér var ekki nógu langur til að ég sæi það nógu skýrt. Sjálfsagt átti lýsingin þarna inni einhvern hluta að máli. Alltjent varð ég að taka af mér úrið og bera það upp að ljósinu til að geta lesið mánaðardaginn. Þetta var talsvert áfall fyrir mig, ég hef nefnilega haft með eindæmum góða sjón síðan ég man eftir mér. Þetta var í fyrsta sinn sem sjónin hafði brugðist mér.
Skömmu síðar keypti ég hræódýr lesgleraugu af minnsta styrkleika í gæðaversluninni Tiger (sem er dönsk og er því kölluð „Tíjer“ á mínu heimili, ekki „Tæger“) og prófaði að lesa með þeim. Mér fannst það betra en að lesa gleraugnalaus, ég fann að stafirnir voru greinilegri og ég þreyttist ekki eins mikið við lesturinn. Ég sætti mig við það með glöðu geði að vera farinn að þurfa að nota lesgleraugu, því nú gerði ég mér grein fyrir því af hverju ég hafði í verið að slá svona slöku við lestur góðra bóka undanfarið.
Síðastliðið haust settist ég síðan aftur á skólabekk og hóf fullt nám með tilheyrandi bóklestri. Ég er afar þakklátur fyrir að hafa uppgötvað þessa „ellifjarsýni“ mína áður en að því kom. Ég hefði örmagnast við að reyna að verja heilum degi í bókalestur gleraugnalaus og sennilega hrosið hugur við tilhugsuninni einni saman.
Hins vegar fylgir því ákveðinn galli að þurfa bara gleraugu til að sjá það sem er í seilingarfjarlægð og sjá þá allt í móðu sem er fjær manni þegar maður er með þau á nefinu. Þetta gerir það að verkum að maður verður sífellt að ýta gleraugunum niður á nefbroddinn og vera rýndandi og skimandi, ýmist reigður eða undirleitur til að skoða heiminn á víxl yfir gleraugun og í gegn um þau. Í skólanum þurfti ég sífellt að taka þau af mér til að sjá á töfluna og setja þau á mig til að sjá á bókina. Einnig fannst mér það ókostur við þessi gleraugu að nefið á mér er þannig hannað að þegar ég var með þau í þægilegri stöðu á því strukust augnhárin við glerin. Einnig átti ákveðin baklýsing, sem annars er heppileg við lestur, það til að glampa af umgjörðinni og varpa óþægilegum geislum inn í augað. Ekki misskilja, þessi Tiger-gleraugu voru hverrar krónu virði. Þau kostuðu 300 kall.
Æskuvinur minn úr Hafnarfirði, Pétur Óskarsson, og Dóra, konan hans, hafa nýverið opnað gleraugnaverslun við Strandgötu í Hafnarfirði. Hún heitir Sjónlínan (ég mæli sérstaklega með nostalgíuhorninu). Einhvern tímann bar þessi gleraugnamál á góma í samræðum okkar, sem kannski er engin furða. Hann benti mér að það er kannski engin tilviljun að sum gleraugu kosta 300 kall en önnur hundrað sinnum meira, þótt auðvitað tryggi verðið ekki alltaf gæðin.
Þetta varð til þess að ég kíkti í búðina hans í leit að gleraugum sem hentuðu mér og fann þau. Þau eru sérstaklega hönnuð sem lesgleraugu. Þegar ég er með þau í þægilegri stöðu á nefinu dekka þau aðeins neðri hluta sjónsviðsins, þann sem skrifborðið dekkar, en þegar ég horfi frá mér horfi ég yfir þau án þess að þurfa að reigja mig eða taka þau af mér. Umgjörðin er svört og mött og endurvarpar því ekki bakljósi inn í augað. Svo hæstánægður er ég með þessi gleraugu að ég gerðist gleraugnamódel fyrir þau heiðurshjón, eins og lesendur Fjarðarpóstsins urðu varir við í síðustu viku.
Skemmtilegast finnst mér þó að þau eru „Porsche design“. Það fór þá aldrei þannig að það ætti ekki fyrir mér að liggja að eignast Porsche.

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Aldrei of seint

Nú í vikunni horfði ég með öðru auganu á breskan sjónvarpsþátt um ekkjumann sem varð ástfanginn, en varð að gefa konuna sem hann unni upp á bátinn af því að uppkomnum börnum hans leist ekki á ráðahaginn. Þeim fannst hann svíkja móður þeirra með því að bera tilfinningar til annarrar konu, rétt eins og þeim sem komnir eru yfir móðuna miklu sé það sérstakt kappsmál að eftirlifandi ástvinir þeirra eyði því sem þeir eiga eftir ólifað í eymd og sút yfir brotthvarfi þeirra. Þegar hann benti á að hann ætti sér enn drauma og þrár hreytti ein dætra hans í hann að hann væri fjörutíu og þriggja ára. Í orðunum lá að á þeim aldri væri heiðvirt fólk vaxið upp úr svoleiðis vitleysu. Þetta hafði djúp áhrif á mig. Ég varð nefnilega fjörutíu og þriggja ára í gær.
Þegar ég var skiptinemi í Bandaríkjunum var mér úthlutað ritgerðarverkefninu „Ég árið 2000“. Þetta var haustið 1983, ég var átján ára og árið 2000 var í fjarlægri framtíð. Mér fannst að þá hlyti ég að vera kominn á minn stað í lífinu, þá yrði orðið fullljóst hvað úr mér yrði. Það er skemmst frá að segja að mér skjátlaðist hrapallega um framtíð mína. Í ritgerðinni var ég virtur kvikmyndaleikstjóri, ég hafði komið íslenskri kvikmyndagerð á heimskortið með ódauðlegum meistaraverkum og bjó ásamt fullkominni eiginkonu minni og sæg barna í glæsivillu í Öskjuhlíðinni. Raunin varð sú að bæði villan og leikstjóraferlinn voru langt utan seilingar árið 2000. Þá var ég 35 ára.
Þá hvarflaði ekki að mér að 35 ára maður á alla jafna tvo þriðju hluta starfsævinnar framundan, menntaður kvikmyndaleikstjóri sennilega enn meira, líklega ekki minna en þrjá fjórðu. Þaðan af síður flögraði sú hugsun að mér að það væri sorglegt hlutskipti að vera búinn með helstu stórvirki sín í lífinu á þeim aldri og þurfa að verja lunganum af starfsævinni í skugga þeirra. Í raun var ég enn þröngsýnni en stúlkan í sjónvarpsþættinum. Mér fannst að þrjátíu og fimm ára ætti maður að vera orðinn eins og maður yrði (þ .e. full-orðinn) og hjakka í sama farinu upp frá því, af því að á þeim aldri tæki því ekki að byrja á einhverju nýju, verða ástfanginn eða skipta um starfsvettvang. Núna efast ég um að ég hafi nokkurn tímann verið jafnfeginn að hafa rangt fyrir mér.
Bakþankar í Fréttablaðinu 6. 1. 2008