þriðjudagur, desember 23, 2008

Ömurleg jól


Ömurlegustu jól sem ég hef lifað voru árið 1993. Ég var nýfráskilinn og nýfluttur inn í íbúðarkytru í miðborginni. Megnið af hafurtaskinu mínu var því ýmist enn í kössum eða hjá minni fyrrverandi. Kringumstæður mínar höfðu verið þannig að lítið hafði farið fyrir jólaskapinu hjá mér á aðventunni og ofan á það var ég staurblankur. Af þeim sökum ákvað ég að gera ekkert úr jólunum, heldur herja þess í stað á fjölskylduboðin yfir bláhátíðarnar og halda svo áfram með líf mitt eins og ekkert hefði ískorist. Hins vegar gekk einhver pest þessi jól, þannig að mamma lagðist í bælið og boðinu á jóladag var aflýst. Þar sem ég átti ekki í nein önnur hús að venda var ég því einn heima í hálfkaraðri og óskreyttri íbúð. Ég sauð mér frosna ýsu sem ég átti og át hana með kartöflum og smjöri. Það var jólasteikin mín.
Ég hef alloft orðið niðurdreginn um dagana, en aldrei hefur annað eins svartnættisþunglyndi með sjálfsvorkunn og algjöru vonleysi hellst yfir mig og þennan jóladag. Samt var ekkert við kringumstæðurnar í sjálfu sér sem hefði átt að gera mig dapran. Ýsa er góður matur og húsnæði manns er alla jafna ekki skreytt í hólf og gólf. Ef þetta hefði verið virkur dagur í janúar hefði ekki verið nein ástæða til að kvarta. En þetta var ekki virkur dagur í janúar heldur jóladagur. Hann á að vera öðruvísi en aðrir dagar ársins.
Ástæða þess að ég er að rifja þetta upp er sú að ég get ímyndað mér að þessi jól sé svipað ástatt um marga. Jólaskapið hefur eflaust víða átt erfiðara uppdráttar nú en oft áður út af áhyggjum og fjárhagslegu óöryggi. Aðventan kynni að hafa gert ýmsum erfitt um vik að fyllast sama jólaanda og vanalega.
Ég vil samt skora á þá sem þannig er ástatt fyrir um að hunsa ekki jólin með öllu. Það er beinlínis mannskemmandi að gera sér engan dagamun á þessum árstíma. Íburður er óþarfur, jafnvel bara til vansa. Pínulítið greni, kerti, jólakúla, engill eða stjarna ætti ekki að vera neinum ofviða. Ekki heldur dós af jólaöli, súkkulaðimoli, sneið af hreindýrakæfu eða annað sem hver tengir sínum jólum. Það er beinlínis sálartortímandi að gera ekkert til að lyfta sér upp eða lífga upp á umhverfi sitt núna í svartasta skammdeginu.
Ég mæli alla vega ekki með því.
Gleðileg jól.

Bakþankar í Fréttablaðinu 21. 12. 2008

Engin ummæli: