þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Hvílíkt lán

Þegar ég bjó í Svíþjóð fyrir hartnær átján árum kynntist ég íslenskum systkinum sem þar bjuggu. Bróðirinn var í sambúð, þau hjónaleysin áttu unga dóttur og konan var barnshafandi á ný. Hún varð fyrir því að fá einhvern kvilla á meðgöngunni sem gerði það að verkum að síðustu mánuði hennar þurfti hún að vera rúmliggjandi eða að minnsta kosti að forðast alla líkamlega áreynslu. Hvorugt var tekjuhátt og ekki urðu veikindin til að bæta hag þeirra, þótt félagslegt öryggisnet í landinu kæmi í veg fyrir að þau færu á vonarvöl.
Þau voru bíllaus og þótti þeim brýnt að ráða bót á því vegna stækkunar fjölskyldunnar og erfiðleika konunnar við að ferðast af eigin rammleik. Þau fundu bíl, gerðu áætlun og sóttu um lán til að geta keypt hann. Lánið ætluðu þau að borga á einu ári. Þau lögðu fram upplýsingar um fjölskylduhagi og tekjur og biðu milli vonar og ótta. Viku síðar voru þau kölluð á fund bankastjórans sem tjáði þeim að farið hefði verið yfir málið og eðlilegt hefði þótt að bíl þyrftu þau að eignast. Þeim var hins vegar sagt að þau þættu of tekjulág til að geta endurgreitt lánið á einu ári. Þeim var því boðið að greiða það á tveim árum í staðinn.
Þegar systirin frétti þetta hugsaði hún sér gott til glóðarinnar. Hún var talsvert tekjuhærri en bróðir hennar, sambýlismaður hennar hafði líka ágætar tekjur og þau voru barnlaus. Hún hlyti að þykja betri pappír en bróðirinn. Hún sótti því um lán til að geta keypt bíl. Viku síðar var hún boðuð á fund. Þar var henni tilkynnt að samkvæmt upplýsingum um fjölskylduhagi hennar væri ekki ljóst af hverju hún þyrfti bíl og að ef hana langaði í bíl hefði hún nægar tekjur til að kaupa hann, til þess þyrfti hún ekki lán. Henni var því synjað um lánið.
Þetta þótti Svíum mjög eðlileg bankastarfsemi. Enda hristu þeir stundum hausinn yfir muninum á sér og Íslendingum og drógu hann saman í þessum orðum: „Ef Sví vinnur milljón í happdrætti fer hann með hana í bankann, leggur helminginn inn og kaupir bíl fyrir hinn helminginn. Ef Íslendingur vinnur milljón í happdrætti fer hann með hana í bankann, fær lánaða milljón og kaupir sér bíl fyrir tvær.“
Bakþankar í Fréttablaðinu 25. 11. 2007

þriðjudagur, nóvember 13, 2007

Óendanlegur ósennileiki tilverunnar


Tilvist Guðs verður hvorki sönnuð né afsönnuð með rökum. Það er fullreynt. Sannfærðustu trúmenn hafa ekki getað kveðið efasemdarraddir endanlega í kútinn og hörðustu trúleysingjar hafa þurft að sætta sig við þá niðurstöðu að Guð sé „kannski til“. Að vísu kjósa þeir yfirleitt orðalagið að hann sé „næstum því örugglega ekki til“, sem er auðvitað það sama. Tilvist Guðs brýtur m. ö. o. ekki í bága við grundvallarlögmál rökfræðinnar, hún er bara óendanlega ósennileg.
Annað sem er óendanlega ósennilegt er heimurinn. Alheimsfræðingar ná eiginlega ekki upp í það hve ólíklegt það er að miklihvellur skyldi leiða hann af sér. Væri þyngdaraflið brotabroti meira hefði allt hrunið saman aftur á augabragði, brotabroti minna og enginn samruni efnis hefði getað átt sér stað. Fleiri breytur þurfa að vera svo hárréttar að ekki má skeika nema brotabroti af hundraðshluta til að grunnforsendur efnisheimsins bresti.
Sömuleiðis er lífið á jörðinni óendanlega ósennilegt. Til að geta fóstrað líf þarf reikistjarna að vera í hárréttri fjarlægð frá hárréttri tegund af stjörnu. Ef við værum ögn nær sólinni eða fjær væri jörðin lífvana auðn, annað hvort heit sem víti eða helfrosin. Jörðin sjálf þarf ennfremur að vera af hárréttri gerð, bráðin að innan til að tryggja lofthjúp sem vörn gegn bráðdrepandi geimgeislun, og úr hárréttum efnum í hárréttum hlutföllum. Jafnvel tunglið þarf að vera af hárréttri stærð og massa til að tryggja stöðugan möndulsnúning. Enn höfum við ekki fundið aðra reikistjörnu sem uppfyllir þessi skilyrði. Ekkert annað en gríðarlöng halarófa fjarskalega ósennilegra tilviljana í heims- og jarðsögunni gera tilvist okkar mögulega. Þessu má líkja við að kasta upp teningi með milljörðum milljarða hliða, veðja aleigunni á að ein ákveðin komi upp og vinna!
Í raun er lífið, alheimurinn og það allt svo óendanlega ósennilegt að hver röklega þenkjandi maður myndi afskrifa þann möguleika samstundis ef hann væri ekki svo óheppinn að vakna á hverjum morgni til þessa raunveruleika, umvafinn af og órjúfanlega innifalinn í þessum efnisheimi. Það er því ekki laust við að maður fái það á tilfinninguna að einhver hafi haft hönd í bagga, að útkoman sé „fixuð“. Hver gæti staðið fyrir slíku?

mánudagur, nóvember 12, 2007

Fimmtán mínútur fyrir Kisu

Kisa er að slá í gegn á netinu. Hún hefur fengið mynd sína birta á hinni vinsælu vefsíðu catsthatlooklikehitler.com og er sem stendur með einkunnina 9 (af 10). Við erum öll voða spennt fyrir hennar loppu, en sjálf er hún með alla fætur á jörðinni og tekur velgengninni af stakri yfirvegun.