sunnudagur, apríl 26, 2009

Prédikað yfir kórnum

Þeir sem ætluðu að skemmta sér yfir örvæntingu Sjálfstæðisflokksins fyrir þessar kosningar hljóta að hafa orðið fyrir sömu vonbrigðum og ég. Þar er enga örvæntingu að finna, aðeins afneitun. Kjósendum er boðið upp á sömu frasana og í síðustu kosningum, rétt eins og ekkert markvert hafi gerst í pólitíkinni síðan þá. Enda eru þeir einu, sem ekki finnast þessar auglýsingar hjákátlega aumkvunarvert mjálm, fólk sem er svo þrúgað af inngróinni félagshyggjufælni að það kysi Sjálfstæðisflokkinn jafnvel þótt hann hefði orðið uppvís að enn gáleysislegri landráðum og víðtækari mútuþægni en komið hefur á daginn. Í guðfræði er þetta kallað að prédika yfir kórnum, þ.e. að eyða púðri í að sannfæra hina sannfærðu.
Þannig lofar Illugi Gunnarsson eðlilegu viðskipaumhverfi, væntanlega vegna þess að 18 ára alvald yfir íslensku viðskiptaumhverfi var alls ekki nógur tími til að gera það eðlilegt. Þversögnin er síðan að þess á milli er núverandi ríkisstjórn fundið það til foráttu að hafa ekki tekist að gera brunarústir hagkefisins sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi eftir sig að dýrðarríki sósíalismans á 80 dögum. Frambjóðendur flokksins hafa skrifað greinar í Morgunblaðið þar sem klifað er á þeirri goðsögn að hægri mönnum einum sé treystandi fyrir peningum. Maður hlýtur að spyrja sig fyrir hvern þær greinar séu skrifaðar. Þeir sem trúa þessu enn hafa tæplega lesið blöðin í allan vetur. Nýbakaður formaður spyr hverjum kjósendur treysti best til að byggja upp hið nýja Ísland eins og hann trúi því raunverulega að eftir það sem á undan er gengið svari nokkur heilvita maður þeirri spurningu: “Þér.”
Eini gallinn við hið ánægjulega og löngu tímabæra hrun Sjálfstæðisflokksins sem þjóðin verður vitni að í nótt er aftur á móti sá að enginn andstæðinga hans getur eignað sér heiðurinn af því. Enginn getur eignað sér vígið nema Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur. Enskumælandi menn taka stundum þannig til orða að sé einhverjum gefið nóg reipi endi hann á því að hengja sig sjálfur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið að leika lausum hala nógu lengi til að í ljós kom að allt sem hann hefur að bjóða er feigðarflan. Þannig styttir hann sér einfaldlega aldur sjálfur sem pólitískt afl á Íslandi í dag.
Bakþankar í Fréttablaðinu 25. apríl 2009

þriðjudagur, apríl 14, 2009

Hausaskeljastaðarávarpið


Nú þegar páskahátíð er fyrir dyrum er kannski við hæfi að staldra við og skoða hvernig táknmál krossfestingarinnar hefur birst í þjóðfélagsumræðunni upp á síðkastið. Það er nefnilega ekki langt síðan boðið var upp á nýstárlegt tilbrigði við Golgata-myndina í ræðu sem vakti töluverða athygli. Þar var frelsaranum á krossinum, vannærðum og húðstrýktum með ræningja til hvorrar handar, skipt út fyrir stríðalinn ræningja á eftirlaunaaldri með tvö vammlaus jakkaföt til hvorrar handar. Guðlastið er náttúrlega svo æpandi að umdeild símaauglýsing frá því í hitteðfyrra er eins og hákirkjulegur rétttrúnaður í samanburði.
Að vísu má hafa gaman af því að klára að fylla upp í myndina. Þannig mætti klappa Hólmsteini frá Kýrene á kollinn fyrir dugnaðinn við að bera kross frelsara síns þótt enginn hafi beðið hann um það. Sömuleiðis er skemmtilegur samkvæmisleikur að máta Steingrím, Jóhönnu og Ingibjörgu Sólrúnu sitt á hvað í hlutverk Heródesar, Kaífasar og Pontíusar Pílatusar.
Gallinn er bara að líkingin gengur alls ekki upp hjá ræðumanni. Til dæmis er nú orðið deginum ljósara að það verður ekki hann sem fær það hlutskipti að taka saklaus á sig allar misgjörðir flokksins. Fráfarandi formaður hans hefur nefnilega ekki haft undan við að gangast undir syndaklafa meðbræðra sinna jafnóðum og upp um skandalana kemst. Flokkurinn hefur orðið uppvís að því að ganga erinda stórfyrirtækja sem á móti dældu tugmilljónum króna í hann. Nýr formaður hefur reyndar lýst því yfir að auðvelt sé að draga rangar ályktanir af því að þetta skuli einmitt vera sömu fyrirtækin, í raun sé það aðeins óheppileg tilviljun. Myndin heldur nefnilega enn áfram að skekkjast þegar að því kemur að finna Júdas, þann sem seldi sál sína fyrir 30 silfurmilljónir. Þar er enginn skortur á kandídötum.
Loks hrynur líkingin alveg þegar haft er í huga að ræðumaðurinn hafði nýlega talað fjálglega um þann stuðning og traust sem hann nyti hjá alþýðunni, yfirvöld væru að ofsækja sig í óþökk hennar. Í píslarsögunni á sú lýsing ekki við um Jesú frá Nasaret, heldur morðingjann Barrabas. En auðvitað er það í fullkomnu samræmi við þann málflutning frjálshyggjunnar að græðgi sé góð, þ. e. a. s. að synd sé dyggð, að morðinginn sé frelsarinn.
Bakþankar í Fréttablaðinu 11. apríl 2009

fimmtudagur, apríl 09, 2009

Registur mitt

(lag & ljóð: Bob Dylan/íslenskur texti: D. Þ. J.)

Fagurrauður logi lék
um líf mitt fyrr á tíð.
Ég þusti fram með bál og brand
til bjargar þjáðum lýð.
Með hugsjónir sem leiðarljós
við landi skyldum ná.
Æ, ég var eldri áður fyrr,
ég er yngri nú en þá.

Ég fullur var af fordómum
gegn fláræði og synd.
Í huga mér var heimurinn
harla einföld mynd.
Já, hetjudrauma dreymdi mig
um dýrð sem ei var smá.
Æ, ég var eldri áður fyrr,
ég er yngri nú en þá.

Í hatri mínu á hatrinu
mjög hreinn var ég og beinn
og dómhörku alla dæmdi hart
dyggðum prýddur sveinn.
Allt rakst hvað á annars horn,
en aldrei það ég sá.
Æ, ég var eldri áður fyrr,
ég er yngri nú en þá.

Upphafin og óræð vá,
sem engan meiddi þó,
heltók blekkta hjartað mitt,
minn hug á tálar dró.
Af geðþótta einum greindi ég
hið góða illu frá.
Æ, ég var eldri áður fyrr,
ég er yngri nú en þá.


Eins og allir sem þekkja mig vita get ég staðist allt nema góða áskorun. Þetta er langt frá því að vera eitt af mínum uppáhaldslögum. Ég kannaðist við það í flutningi The Byrds, en hafði ekki hugmynd um að það væri eftir Dylan. Í flutningi hans er það líka alveg ævintýralega leiðinlegt, hann hljómar eins og illkvittinn karíkatúr af sjálfum sér. Þar sem sjáfspíslarhvöt minni eru takmörk sett notast ég því við útgáfu The Byrds og held mig við erindin fjögur sem þar eru sungin. Hjá Dylan eru þau sex, en honum hættir einmitt til að juðast á því sem honum liggur á hjarta með óþarfa langlokusmíðum. Eins og áður er þetta auðvitað ekki eiginleg þýðing heldur aðeins tilraun til að miðla hughrifum á milli tungumála.