fimmtudagur, apríl 09, 2009

Registur mitt

(lag & ljóð: Bob Dylan/íslenskur texti: D. Þ. J.)

Fagurrauður logi lék
um líf mitt fyrr á tíð.
Ég þusti fram með bál og brand
til bjargar þjáðum lýð.
Með hugsjónir sem leiðarljós
við landi skyldum ná.
Æ, ég var eldri áður fyrr,
ég er yngri nú en þá.

Ég fullur var af fordómum
gegn fláræði og synd.
Í huga mér var heimurinn
harla einföld mynd.
Já, hetjudrauma dreymdi mig
um dýrð sem ei var smá.
Æ, ég var eldri áður fyrr,
ég er yngri nú en þá.

Í hatri mínu á hatrinu
mjög hreinn var ég og beinn
og dómhörku alla dæmdi hart
dyggðum prýddur sveinn.
Allt rakst hvað á annars horn,
en aldrei það ég sá.
Æ, ég var eldri áður fyrr,
ég er yngri nú en þá.

Upphafin og óræð vá,
sem engan meiddi þó,
heltók blekkta hjartað mitt,
minn hug á tálar dró.
Af geðþótta einum greindi ég
hið góða illu frá.
Æ, ég var eldri áður fyrr,
ég er yngri nú en þá.


Eins og allir sem þekkja mig vita get ég staðist allt nema góða áskorun. Þetta er langt frá því að vera eitt af mínum uppáhaldslögum. Ég kannaðist við það í flutningi The Byrds, en hafði ekki hugmynd um að það væri eftir Dylan. Í flutningi hans er það líka alveg ævintýralega leiðinlegt, hann hljómar eins og illkvittinn karíkatúr af sjálfum sér. Þar sem sjáfspíslarhvöt minni eru takmörk sett notast ég því við útgáfu The Byrds og held mig við erindin fjögur sem þar eru sungin. Hjá Dylan eru þau sex, en honum hættir einmitt til að juðast á því sem honum liggur á hjarta með óþarfa langlokusmíðum. Eins og áður er þetta auðvitað ekki eiginleg þýðing heldur aðeins tilraun til að miðla hughrifum á milli tungumála.

7 ummæli:

Eyvindur Karlsson sagði...

Þetta er ansi mögnuð íslenskun. Verð reyndar að lýsa yfir dálæti mínu á þessu lagi með Dylan, en Byrds finnast mér gelda lagið með öllu. Þetta lag hefur löngum verið í uppáhaldi hjá mér, en Byrds tókst næstum að eyðileggja það fyrir mér með ofpródúseringu sinni, sem gæti myrt nánast hvaða tónsmíð sem er. Að mínu mati. Svona er smekkur misjafn og allur sá djass (nema þér finnist djass leiðinlegur, þá barbersjopp).

Davíð Þór sagði...

Takk fyrir það. Ég vissi voðalega lítið um þetta lag þegar mér barst þessi áskorun og gerði mér ekki grein fyrir því að ég væri kannski að fást við einhverja heilaga belju. Enda hef ég litla trú á heilögum beljum. Aftur á móti hlýturðu að vera að grínast með flutning Dylans á þessu lagi. Hann hljómar eins og það sé verið að hárreyta hann.

Eyvindur Karlsson sagði...

Nei, reyndar er ég ekki að grínast. Það er sál í honum, öfugt við Byrds. En ég er líka unnandi Dylans, og það er að mörgu leyti áunninn smekkur. Og ég man ekki eftir mörgum Dylan lögum þar sem hann hljómar ekki eins og hann sé hárreittur. En ég er með undarlegan smekk, og finnast góðir söngvarar oftast frekar leiðinlegir.

Heilagar beljur skipta engu máli ef vandað er til verks. Ef illa er farið með góð ljóð er það alltaf vont, og sérstaklega ef manni þykir vænt um upprunalega ljóðið. Ef vel er farið með það sé ég hins vegar ekkert athugavert við það.

Ef þú vilt aðra áskorun, til að sanna að heilagar kýr séu uppspuni, þá er þetta uppáhalds lagið mitt... Og textinn er magnþrunginn.

Nafnlaus sagði...

Góð hrynjandi í þessu hjá þér Davíð sem og samspil sérhljóðanna.

Unknown sagði...

Glæsilega ort. Þetta heilkenni þitt er sjúklega ánægulegt, hvað mig varðar.
Annars hef ég reynt við texta Leonards Cohen en ekki verið nógu sáttur með útkomuna til að birta hana. Texta hans er hægt að túlka á svo marga vegu að ég tel mig ekki enn fullfærann en mig langar að skora á þig að reyna við hann.
Sjálfur hef ég sökkt mér djúpt (kannski full djúpt) ofaní textasmíð hans sem ég verð að telja eina þá bestu sem ég hef fundið á seinni tímum.
Hér er eitt af mínum uppáhalds: http://www.youtube.com/watch?v=g-oLmOm9vk0

Annars er gaman að geta þess að Dylan og Cohen voru samhliða í NY í upphafi ferils þeirra og var vinskapur með þeim.

Þakka fyrir mig

Hilmar Garðars sagði...

frábær texti hjá þér.Það væri gaman að heyra þig taka Master of war.

Elías sagði...

Þetta kom mér bara mjög á óvart!

Ágætlega kveðið og meiningin skýrari en í upprunalega textanum. Þetta er líka vel sönghæft.