mánudagur, mars 21, 2011

Króna án krúnu

Nýlega stakk þingmaðurinn Lilja Mósesdóttir upp á því að Íslendingar segðu skilið við krónuna og tækju upp nýjan gjaldmiðil. Hún var höfð að háði og spotti fyrir þá hugmynd, enda alkunna að krónan er ekki vandamál íslensk efnahagslífs heldur fólkið sem eyðir henni. Ég tel hugmyndina þó góða, en ekki af sömu ástæðum og Lilja. Mín rök eru söguleg og orðsifjafræðileg.

Auðvitað er þó bara hlægilegt að skipta krónunni út fyrir einhvern kjánagang eins og íslenska evru. „Evra“ er fyrir það fyrsta ömurlegt heiti á gjaldmiðli. Það er svo greinileg afurð pólitískrar rétthugsunar evrópskra tæknikrata, án nokkurra róta í sögu eða samfélagi, að hvern mann með lágmarkstilfinningu fyrir samhengi umhverfis síns hlýtur að flökra. Í samfélagi gjalmiðlanna er evran nýríki plebbinn. Í samfélagi Sturlu og Skarphéðins er evran Tristan Tandri. Það var auðvitað menningarsögulegur harmleikur af epískri stærðargráðu að gjaldmiðill eins og drakma, sem rekur sögu sína aftur til daga Alexanders mikla, skyldi falla í valinn fyrir öðru eins kúltúrleysi. Svo ekki sé minnst á þau endemi að heiti evrunnar er ekki borið eins fram á neinum tveim tungumálum þjóðanna sem nota hana.

Gjaldmiðlar eiga sér nefnilega sögu. Það er eðlilegt að Íslendingar skyldu kalla gjaldmiðilinn sinn „krónu“ þegar þeir eignuðust hann. Þetta er sama orð og „kóróna“ og „krúna“ og má rekja til þess að það voru sjóðir krúnunnar, þ.e. kóngsins, sem ábyrgðust innistæðuna fyrir henni. Íslendingar áttu sér þá kóng. Aftur á móti var það ótrúleg yfirsjón að skipta ekki um heiti á gjaldmiðlinum um leið og lýðveldið var stofnað og þjóðin hafnaði kóngapakki, sem aðeins byggir tilkall sitt til yfirráða yfir öðrum á forsendum þess undan hverjum það er. Að lýðræðisþjóð, sem ekki er undir neinni krúnu, skuli kalla gjaldmiðilinn sinn krónu lýsir fáránlegu tilfinningaleysi fyrir uppruna og merkingu orða. Þannig kölluðu Finnar sinn gjaldmiðil mark um leið og þeir losnuðu undan oki einveldisins.

Til forna greiddu frjálsir Íslendingar skuldir sínar í mörkum silfurs. Það er gjaldmiðill lýðfrjálsra landa. Þess vegna ættum við að taka upp mörk. Það leysir auðvitað engan efnahagsvanda, en það er samt ákveðin ný byrjun í því. Og þó, hver veit? Kannski yrði borin meiri virðing fyrir markinu en krónunni, sem er löngu rúin öllu trausti.

Bakþankar í Fréttablaðinu 19.3. 2011

mánudagur, mars 07, 2011

Nokkrar tilvitnanir

Í dag nenni ég ekki að skrifa Bakþanka. Þess í stað ætla ég að deila með ykkur sex völdum tilvitnunum af þeim toga sem ég hef mest gaman af. Þær eru þessar, í aldursröð:

1. „Ég hef enga von um framtíð þjóðar okkar ef hún er í höndum hinnar léttúðarfullu æsku nútímans, því sannarlega er allt ungt fólk ábyrgðarlausara en orð fá lýst. Þegar ég var ungur var okkur kennt að vera háttprúð og sýna okkur eldra fólki virðingu, en nú er æskufólk þrætugjarnt og hamslaust.“ Þetta mælti gríski heimspekingurinn Hesíódos á 8. öld f. Kr.

2. „Ungt fólk nú á dögum kann ekki mannasiði, það ber enga virðingu fyrir yfirvaldi eða sér eldra fólki. Það þrætir við foreldra sína, blaðrar framan í ókunnuga, ryður í sig góðgæti og sýnir kennurum sínum harðræði.“ Þetta er haft eftir Sókratesi (469 – 399 f. Kr.)

3. „Síðasta helgi mun lengi í minnum höfð sökum frámunalegrar framkomu mikils fjölda æskufólks á samkomum suðvestanlands. Þar sem skemmtanir voru haldnar var ölvun víðast óstjórnleg og skrílmennska sums staðar slík að annars mun vart dæmi fyrr hér á landi.“ Þessi orð voru rituð árið 1952. Æskufólkið sem þarna er lýst er nú á áttræðisaldri.

4. „Var ærið starfa að reyna að koma í veg fyrir stórskemmdir á fólki og umhverfi og taka úr umferð ölóða menn sem óðu um og efndu til illinda og óeirða. [...] full þörf hefði verið á því að fjarlægja þá af samkomusvæðinu og er það hin mesta mildi að þeir skyldu ekki verða sjálfum sér eða öðrum að stórvoða eða fjörtjóni.“ Hér er verið að lýsa æskulýðsskemmtun árið 1961, þegar foreldrar mínir voru 16 og 17 ára.

5. „Í nístandi nepjuni óðu svínfullir unglingar, ekki komnir af barnsaldri, fram og aftur, veifandi brennivínsflöskum af öllum gerðum, organdi og hvíandi, þuklandi og klípandi hitt kynið og fleygjandi flöskum í allar áttir, jafnóðum og þær tæmdust.“ Svona lýsti Tíminn hátíðahöldunum í Reykjavík 17. júní 1972. Þessir „svínfullu unglingar“ eru í dag á fimmtugs- og sextugsaldri.

6. „Heimsendir er í nánd, teiknin blasa alls staðar við, ofbeldisleikir, netklám, steratröll og egófíkn á Facebook.“ Þetta ritaði Andri Snær Magnason (f. 1973) árið 2011.

Mér finnst gott til þess að vita að ungt fólk skuli enn vera eins óalandi og óferjandi og það hefur verið frá upphafi tíma. Annars væri að mínu mati rík ástæða til að hafa áhyggjur af framtíðinni.

Bakþankar í Fréttablaðinu 5. 3. 2011.