þriðjudagur, maí 30, 2006

Stjórnmálarýni Davíðs Þórs

Í nýyfirstöðnum borgarstjórnarkosningum hlaut Sjálfstæðis- flokkurinn næstverstu útreið sem hann hefur hlotið í sögu sinni hér í borginni (6% minna fylgi en R-lista flokkarnir samtals, sama fylgi og Samfylking og Vinstri-græn samanlagt). Þetta kallar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sigur og túlkar sem kröfu borgarbúa um að hann setjist í stól borgarstjóra. Sér til fulltingis hefur hann fengið Framsóknarflokkinn sem ekki hefur hlotið verri kosningu í Reykjavík í hálfa öld. Hvernig hægt var að lesa það úr úrslitum kosninganna að þetta væri vilji borgarbúa er síðan öllum nema Birni Inga og Villa hins vegar hulin ráðgáta. Þó má færa rök fyrir því að í ljósi þessi hvernig komið var á annað borð hafi þetta verið skásta lendingin og verður það nú gert:
Þar sem Sjálfstæðisflokkur og Frjálslyndir voru samtals með átta borgarfulltrúa var ljóst að annan hvorn flokkinn þurfti í meirihluta. Með áherslu sinni á flugvallarmálið voru Frjálslyndir hins vegar sjálfir búnir að dæma sig úr leik. Flokkur sem setur það sem skilyrði fyrir meirihlutasamstarfi að flugvöllurinn skuli vera áfram í Vatnsmýrinni er einfaldlega ekki stjórntækur. Reykvíkingar samþykktu það í lýðræðislegum kosningum að hann færi og slíkar ákvarðanir á ekki að selja fyrir borgarstjórastól. Tíu prósenta flokkur á ekki að geta kúgað fram minnihlutaskoðun í krafti oddaaðstöðu og þannig ógilt niðurstöðu lýðræðislegrar atkvæðagreiðslu.
Gott og vel. Frjálslyndir eru sem sagt ónothæfir þannig að íhaldið verður ekki flúið. Hverja er þá best að hafa með þeim? Þeir höfnuðu Frjálslyndum vegna flugvallarmálsins og svo þeir njóti nú sannmælis þá fengu þeir prik í kladdann hjá mér fyrir vikið. Þá koma þrír til greina, Framókn, Samfylking eða Vinstri-græn.
Allir vita hvernig fer fyrir smáflokkum sem púkka undir Sjálfstæðisflokkinn – það sýnir sig í kosningum æ ofan í æ. Því var ekki hægt að hugsa sér samstarfaðila með íhaldinu sem verðskuldar þau örlög meir en álóða afturhaldið í Framsókn. Í raun má því segja að Framsókn sé nú búin að reka síðasta naglann í sína löngu tímabæru pólitísku líkkistu og allt gott og heilbrigt hugsandi fólk hefur enn ríkari ástæðu en áður til að hlakka til alþingiskosninganna að ári.
Að lokum tilnefni ég Björn Inga til póltískra Darwin-verðlauna.

Kvikmyndagagnrýni Davíðs Þórs

Fyrir nokkrum árum sá ég kvikmynd sem hét The English Patient. Það var leiðinlegasta kvikmynd sem ég hafði séð á ævinni. Söguþráðurinn var nokkurn veginn þannig að fyrst gerðist ekkert í einn og hálfan klukkutíma, síðan var reynt að drepa aðalsöguhetjuna með því að fljúga flugvél á hana og að því loknu hélt ekkert áfram að gerast í einn og hálfan klukkutíma til viðbótar.
Í gærkvöld brá hins vegar svo við hjónaleysin ákváðum að taka okkur spólu, svona til tilbreytingar, kvikmynd sem hvorugt okkar hefði séð, eina af þessum virkilega góðu sem hefði farið fram hjá okkur á sínum tíma. Kvikmyndin Lost in Translation með Bill Murray og Scarlett Johannson varð fyrir valinu. Hún fékk víst góðar viðtökur og hlaut einróma lof á sínum tíma.
Söguþráður myndarinnar er á þá leið að ekkert gerist – í Japan. Myndin er jafnskemmtileg og The English Patient hefði verið ef atriðinu með flugvélinni hefði verið sleppt.
Hvað veldur því að hreinræktuð leiðindi á borð við þessa skelfingu eru hafin upp til skýjanna? Hvað veldur því að leikur Bills Murrays í þessari mynd er vegsamaður? Hafi hann ekki verið á sterkum deyfilyfjum allan tímann má að vísu til sanns vegar færa að það þurfi alveg sérstaka leikhæfileika til að geta drattast jafntilþrifalítið í gegn um heila kvikmynd, en fyrr má nú rota en dauðrota. Það eina sem hann gerir í myndinni er að vera í henni, jafnsympatískur og propsið, og það eina sem Scarlett gerir er að vera sæt. Þorði enginn að segja að keisarinn væri í engum fötum? "Best að ausa myndina lofi svo enginn fatti að ég fattaði ekki snilldina"? Niðurstaðan er óverðskulduðustu Óskarsverðlaun kvikmyndasögunnar og er þá mikið sagt.
Ég ætla mér ekki að stunda reglulega kvikmyndagagnrýni á þessari síðu, aðeins að greina frá því merkilegasta sem á daga mína drífur og í gærkvöld sá ég sem sagt leiðinilegustu kvikmynd sem borið hefur fyrir augu mín í 41 ár. Næst verður fjallað um kvikmyndir hér þegar ég sé eitthvað leiðinlegra en þetta helvíti ... sem vonandi verður aldrei.

Þetta flandur á fólki

Þegar ég geng út í hið yndislega ferska, íslenska vor (já, ef það snjóar þá fer maður bara í úlpu og hættið þessu væli!) kemst ég einhvern veginn ekki hjá því að fyllast þakklæti yfir því að vera staddur einmitt hér á þessum stað á yfirborði reikistjörnunnar en ekki í einhverjum daunillum mengunarpytti, eins og Aþenu. Ég hef nefnilega komið til Aþenu og þótt hún sé vissulega merkileg borg er mér minnistæðast hvað mér fannst hún skítug og loftlaus.
Að vísu eru hér engar fornaldarrústir að grotna niður úr sótmengun og bensínstybbu eins og í Aþenu eða kastalar á hverjum hól (blóðugir minnisvarðar um kúgun alþýðunnar öldum saman), en hvað með það? Ég veit ekki til þess að í Suður-Evrópu séu neinir burstabæir og þó hef ég aldrei heyrt það notað þeim heimshluta til hnjóðs.
Fólk er nefnilega voða mikið búið að ákveða að ákveðin einkenni á suðrænum löndum séu kostir, svo sem byggingarlistasaga þeirra, verðlag eða veðurfar. En þegar grannt er skoðað tryggja öll þessi fallegu, gömlu hús aðeins að óvíða er viðunandi hreinlætisaðstaða og veðurfarið ... það er beinlínis niðurlægjandi.
Það er eitthvað óviðkunnanlegt við að fullorðnir karlmenn neyðist til að spranga um á nærfötunum á almannafæri til þess eins að kveljast ekki af hita. Þarna suðurfrá er þetta kallað stuttbuxur og bolur, en á mínu heimili heitir þetta nærföt og er notað sem slíkt. Trélímshvít læri þeirra ljá þeim aukinheldur allt annað en glæsileika. Sólbrúnka, sem afhjúpar að fólki finnst það ekki hafa neitt þarfara að gera við sinn skamma tíma hér á jörð en að liggja hreyfingarlaust útivið, ber að mínu mati aðeins vitni um heimsku og leti. Þá vil ég frekar hafa fólk fölt og intressant og í fötum, hafa það á tilfinningunni að því finnist gáfulegra að glugga í bók en að liggja aðgerðarlaust í sólinni eins og saltfiskur til þerris.
Bjórverðið gerir það að vísu eftirsóknarverðara að vera í útlöndum en hér heima – ef maður er virkur alkóhólisti. Hver sá sem sparar sér meira en þúsundkall á dag vegna bjórverðsins í útlöndum á hins vegar við annað og alvarlegra vandamál að stríða gagnvart áfengi en verðlagið á því.
Þess vegna skil ég ekki þetta flandur á fólki – nema auðvitað fólki sem er fyllibyttur.
Bakþankar í Fréttablaðinu 28. maí

þriðjudagur, maí 16, 2006

Lille Jonna

Þegar ég var yngri var ég mjög góður í dönsku og þurfti lítið fyrir því að hafa að fá góðar einkunnir í henni. Ég er stúdent af málabraut þar sem þurfti að ljúka átta einingum í dönsku en ekki sex eins og á öðrum brautum.
Þegar ég hafði lokið þessum átta einingum var boðið upp á frjálsan valáfanga í dönsku í skólanum, dönsku 352 – samtímabókmenntir. Ég skráði mig í þann áfanga af því að ég hélt að þetta yrðu tvær auðveldar einingar fyrir mig. Annað kom á daginn. Þetta var árið 1983 og danskar samtímabókmenntir það ömurlegasta sósíalrealismatorf sem nokkru sinni hefur verið sett á prent. Lesa átti bókina Lille Jonna eftir Kirsten Thorup, alveg hreint ævintýralega leiðinlega bók. Þegar ég gerði heiðarlega tilraun til að lesa hana þurfti ég á þriggja til fjögurra setninga fresti að standa upp og gera eitthvað annað til að sigrast á þessari yfirþyrmandi löngun til að stytta mér aldur sem hellst hafði yfir mig.
Til að fá að taka lokapróf þurfti að skila fjögurra síðna ritgerð um hana sem gilti 20% af lokaeinkunn. Mér tókst að pára tvær síður, en vissi að ég gæti tekið restina af prófinu upp á tíu og klórað mig upp í A. Kennarinn neitaði hins vegar að taka við ritgerðinni, hún uppfyllti ekki skilyrðin. Til að gera langa þrjóskukeppni stutta var mér á endanum meinað að taka prófið og ég fékk E.
Á útskrift eru falleinkunnir þurrkaðar burt og afburðanemendur leystir út með bókagjöf. Afburðanemandi í dönsku var skilgreindur sem nemandi sem lokið hafði meira en sex einingum í dönsku og fengið A í öllu. Ég fékk því tvær bækur í verðlaun.
Bækurnar sem ég fékk voru Lille Jonna eftir Kirsten Thorup og Den lange sommer eftir sama höfund, sjálfstætt framhald af Lille Jonna. Þegar mér varð litið framan í dönskukennarann minn á útskriftinni komst ég ekki hjá því að sjá glottið á andlitinu á henni.
Þessar bækur eru enn ólesnar uppi í hillu hjá mér – mér til ævarandi áminningar um ... hroka minn? Norrænan sósíalrealisma? Skopskyn dönskukennara? Ég veit það ekki. Kannski að það skiptir ekki máli hvað maður getur heldur hvað maður gerir.
Hins vegar er ég enn þeirrar skoðunar þessar bækur séu svo drepleiðinlegar að það sé glæpur að pína óharðnaða unglinga til að lesa þær.
Bakþankar í Fréttablaðinu 14. maí

fimmtudagur, maí 04, 2006

Bellibrögð bóksala og þjóðargjöfin


Í gær nýtti ég mér þjóðargjöfina, á lokadegi gildistíma hennar. Ég hafði verið blankur og varð að bíða með það fram yfir mánaðamótin, en hlakkaði mikið til. Ég hafði nefnilega séð bókina Draumalandið eftir Andra Snæ á rétt rúmar 3000 krónur og hafði hugsað mér að kaupa hana með þúsund króna afslætti. Þegar til kom fór ég reyndar með kærustunni minni og hana langaði í Draumalandið líka svo ég ákvað að kaupa mér eitthvað annað að lesa og fá Draumalandið lánað hjá henni. Meðal annarra bóka sem mig langaði í má nefna Myndina af pabba eftir Gerði Kristnýju, stórvinkonu mína, og Aftureldingu eftir Viktor Arnar Ingófsson, en ég hafði veitt því athygli að báðar voru þær komnar út í kilju og voru seldar á átján hundruð og eitthvað krónur. Þegar ég labbaði inn í Pennann í Austurstræti uppgötvaði ég hins vegar að bóksalarnir þar höfðu bætt um betur og lækkað verðið á bókunum, væntanlega sem ábót á þjóðargjöfina – eða hvað? Þjóðargjöfin er nefnilega háð þeim annmarka að kaupa verður fyrir að minnsta kosti 3000 krónur. Draumalandið var haganlega komið niður í 2990 krónur þannig að einhverju þurfti að bæta við þau kaup til að þjóðargjöfin nýttist. Hinar bækurnar tvær sem ég nefndi voru auk þess báðar komnar niður í 1499 krónur (2998 krónur samtals). Hvernig fer maður nú að því að kaupa bækur fyrir rétt rúmar 3000 krónur í búð þar sem allar bækur kosta annað hvort 2990 krónur eða 1499 krónur? Maður verður að versla fyrir á fimmta þúsund. Nú vil ég alls ekki gera lítið úr þeirri göfugu viðleitni að selja bækur ódýrt og hvetja til aukins lestrar, en þegar upp var staðið reyndist þetta vera einhver slóttugasta gjöf sem mér hefur verið gefin.

þriðjudagur, maí 02, 2006

Fordómar mínir gegn Laugvetningum

Í fyrrasumar ákvað ég að reyna að losa mig við bresti mína af því að þeir voru aðeins sjálfum mér og öðrum til ama og jafnvel tjóns. Ekki svo að skilja að þeir hafi verið mjög miklir eða megnir, mest hroki, öfund, geðvonska og leti. Ég held því ekki fram að mér hafi tekist þetta til fullnustu, en þó tel ég mig meðvitaðari um þá og hef því vit á að vera á varðbergi þegar þeir skjóta upp kollinum.
Einn er þó sá brestur sem ég var sannfærður um að plagaði mig ekki og ég þyrfti því ekki að losa mig við, en það eru fordómar. Þeir örfáu hommar og svertingjar sem ég þekki eru nefnilega indælisfólk og heimskulegt að hafa horn í síðu þeirra vegna litarháttar eða smekks í ástamálum. Það kom mér því gersamlega í opna skjöldu í síðustu viku þegar ég gekk af öllu afli beint á fordóma mína eins og glervegg og skall beint á rassinn.
Það atvikaðist þannig að dóttir mín sem er að klára 10. bekk nú í vor spurði mig hvort hún mætti fara í Menntaskólann á Laugarvatni. Ég hélt nú ekki! Þessir litlu heimavistarskólar úti á landi væru bara drykkju-, kynlífs- og dópbæli þar sem öll menntun væri í skötulíki. Hvernig mætti annað vera? Hópur af unglingum þar sem enginn fullorðinn er til að þefa af þeim áður en þeir fara að sofa og vaka yfir því að enginn sofi hjá þeim! Kennararnir væru auk þess allir aumingjar því hvaða almennilegur kennari fer á Laugarvatn ef honum á annað borð býðst staða í Reykjavík? Sjálfsagt tómar fyllibyttur og vandræðafólk.
Auðvitað eru þetta aðeins fyrirfram gefnar hugmyndir um stað og fólk sem ég veit ekki neitt um af eigin raun. Öðru nafni: Fordómar. Aukinheldur er eina ástæða þess að ég hef þessar hugmyndir um Laugarvatn sú að ef ég hefði verið nemi þar hefði ég hagað mér svona og að ef ég væri kennari á Laugarvatni væri eina ástæða þess sú að ég hefði af einhverjum ástæðum ekki fengið djobb í bænum.
Það er auðvelt að vera svo umburðarlyndur, víðsýnn og líbó að maður áttar sig ekki á því að maður er í raun í keng af fordómum gagnvart einhverju jafnnálægu og Laugvetningum, að vera með aðalatriðin svo mikið á hreinu að maður fattar ekki að maður er með allt niður um sig í smáatriðunum.
Bakþankar í Fréttablaðinu 30. apríl 2006

Að segja nei

Ég bið lesendur afsökunar á að ekkert hefur birst hér heillengi. Ég hef ekki verið svona latur síðan ég hóf bloggferil minn, en það hefur verið brjálað að gera og mér ekki dottið neitt vitrænt í hug til að setja hér inn. Svo þið skiljið um hvað ég er að tala þá hef ég tekið að mér að semja leikrit til sýninga í haust, yrkja nokkar blaðsíður af dónaskap fyrir listahátíð, skrifa bakþanka í Fréttablaðið og þýða framhaldssakamálaútvarpsleikrit (sem ég held að sé eitt af lengri orðum í íslensku máli) fyrir utan skyldustörf við þýðingar á barnaefni til talsetningar í Sjónvarpinu. Ég verð að fara að koma mér upp hæfileikanum að segja: "Nei takk, sama og þegið en ég hef alveg nóg að gera." Mér datt samt í hug að ég gæti sett bakþankana mína hér inn eins og tveim dögum eftir að þeir hafa birst í blaðinu.