mánudagur, maí 31, 2010

Kjördagur

Í dag er kjördagur, bjartur og fagur eins og brúðkaupsdagur í Möttubókunum. Kjósendur streyma glaðir í bragði á kjörstaði til að taka þátt í lýðræðinu, sem þeir njóta þeirra forréttinda að búa við. Sumir nota atkvæðið sitt til að sýna sitt álit á því hvernig til tókst á síðasta kjörtímabili. Þeir velja þá sem þeim finnst hafa staðið sig skást og þeir treysta best til að fara með völd. Aðrir kjósa alltaf sama flokkinn án nokkurs tillits til þess hvort frambjóðendur hans hafi orðið uppvísir að mútuþægni eða ekki. Þeir halda með sínum flokki, hvað sem á dynur, rétt eins og íþróttafélaginu sínu. Enn aðrir nota atkvæðið sitt til að hafna fólki, sem hefur þegið allar skoðanir sínar beint frá flokknum, í trausti þess að hinn kosturinn geti ekki verið verri. Þetta er það dásamlega við lýðræðið. Hver og einn ræður því sjálfur hvað hann kýs og hvers vegna. Enginn þarf að verja þá ákvörðun fyrir öðrum.

Kosningabaráttan í Reykjavík hefur verið óvenjulega skemmtileg. Uppáhaldsbrandarinn minn var þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir, sem gerði Ólaf F. Magnússon að borgarstjóra, hélt því blákalt fram að henni væri best treystandi fyrir borginni. Eitt augnablik hélt maður að henni væri alvara, en svo setti hún upp brosið sitt og maður fattaði grínið. Þessi brandari hefur ekki verið toppaður enn. Hanna Birna mætti reyndar sýna kjósendum þá sjálfsögðu tillitssemi, sem Jón Gnarr hefur tamið sér, að segja „djók“ þegar hún hefur látið út úr sér einhverja svona fáránlega vitleysu.

Einnig hefur mér þótt mjög gaman að fylgjast með því hve öll rök gegn Besta flokknum hafa verið ámátlega máttlaus. Jafnvel hefur verið fullyrt að Silvio Berlusconi hafi byrjað sem grín, eins og það kæmi málinu nokkuð við þótt það væri satt. Eða hefur Jón Gnarr dælt milljörðum í kosningabaráttu um hagsmuni sína og völd fjölmiðlarisans síns? Eins gott að Jón skuli borða kjöt, annars hefði það áreiðanlega verið dregið fram í dagsljósið að Adolf Hitler var grænmetisæta.

Það besta við niðurstöðu kosninganna í kvöld verður vonandi að stjórnmálamönnum verður sýnt að þeir eru ekki áskrifendur að völdum. Þeir þiggja völd sín frá fólkinu og fólkið getur svipt þá þeim um leið og því sýnist svo. Reynslan af stjórnmálaflokkunum er þess eðlis að engan þarf að undra að tæpur helmingur reykvískra kjósenda vilji gefa þeim frí.

Bakþankar í Fréttablaðinu 29. 5. 2010

mánudagur, maí 17, 2010

Lærdómur og leiðindi

Þegar ég var strákur háðu gott og illt hatramma baráttu um yfirráðin í lífi mínu. Þessi öfl tóku þá jafnan á sig mynd skemmtilegs og leiðinlegs, en ég upplifði þessi átök sem glímu góðs og ills. Oft var skemmtilegt en stundum réð hið leiðinlega eitt ríkjum. Til dæmis voru handavinnu- og leikfimitímar ein samfelld sigurganga hins illa.

Í menntaskóla var smíði ekki lengur skyldunámsgrein, en þá tóku bara saga og stærðfræði við hlutverki málaliða myrkraaflanna í lífi mínu. Einkum mistókst stagli sögulegra staðreynda um löngu dautt kónga- og keisarapakk, sem kom mér minna en ekki neitt við, gjörsamlega að kveikja í mér nokkurn minnsta neista af áhuga. Því miður get ég ekki bætt aftan við þessa setningu orðunum „hvernig sem ég reyndi“, því satt best að segja þá reyndi ég ekki. Þetta var einfaldlega leiðinlegt og því ekki til neins að reyna að finnast það skemmtilegt, það var jafnlangsótt hugmynd og að hægt væri að ákveða að finnast hið illa gott.

Þessa sá auðvitað stað í einkunnunum mínum. Til dæmis tókst mér bæði að falla í stærðfræði 203 og tvisvar sinnum í sögu 112, í seinna skiptið eftir að hafa skrifað langa ritgerð á prófi um baráttu Olivers Cromwells við Maríu Stúart. Þau voru reyndar ekki uppi á sömu öld.

Í námi mínu í guðfræði hef ég kynnst mörgum skemmtilegum námsgreinum, t.d. ritskýringu áhugaverðra ritningarstaða, hugmyndafræðilegri samtímasögu Nýja og Gamla testamentisins og trúarlegri tjáningu allt frá Assýríu og Babýlon til Lúthers, Schleiermachers, Bultmanns og Bonhoeffers. Þess vegna kemur það mér alltaf dálítið á óvart þegar skólasystkin mín taka sig til og skrifa lokaritgerðir í kirkjufræði eða litúrgíu. Sjálfum finnst mér hlaðborð guðfræðinnar geyma svo margt miklu safaríkara en það.

En ég hef líka kynnst því að maður hefur dálítið um það að segja sjálfur hvað er skemmtilegt. Jafnvel þjóðkirkjuhugtakið í skrifum Karls Sigurbjörnssonar verður mun áhugaverðara rannsóknarefni ef maður nálgast það ekki með þá fyrirframgefnu hugmynd að þetta verði ábyggilega sú mest svæfandi pæling sem maður hafi nokkru sinni lagst í. Lífið er nefnilega of stutt til að maður geti leyft sér að nálgast viðfangsefni þess sem eitthvað sem maður verði að afplána til að því ljúki. Og með því móti opnar maður líka fyrir þann möguleika að maður verði í raun einhvers vísari.

Bakþankar í Fréttablaðinu 15. 5. 2010

mánudagur, maí 03, 2010

Kjarklaus eins og klerkur

Stjórnmálaskoðanir mínar eru ekkert leyndarmál og hafa aldrei verið. En ef ég léti það út úr mér að það eyðilegði samband mitt við konuna mína að margir Sjallar væru líka vel kvæntir yrði ég vonandi álitinn eitthvað skrýtinn. Enda væru skoðanir mínar þá hættar að vera skoðanir og orðnar að svo inngróinni gremju að stappaði nærri geðrænu vandamáli – fóbíu. En hvernig er brugðist við þegar því er lýst yfir að hjónavígsla samkynhneigðra vegi að hjónabandi gagnkynhneigðra? Þá er það af einhverjum ástæðum meðhöndlað eins og gilt innlegg í vitræna umræðu, en ekki það sem það augljóslega er – fóbía.

Í vikunni varð sá sorglegi atburður að prestur sagði hjónavígslu samkynhneigðra eyðileggja hjónabandið í viðtali. Þetta studdi hann þó ekki öðrum rökum en þeim að aðrar kirkjur hafi ekki stigið þetta skref. Það er rangt. Kenninganefnd sænsku þjóðkirkjunnar hefur komist að þeirri niðurstöðu að viðurkenna beri að fullu hjónaband einstaklinga af sama kyni.

Hjónaband er borgaraleg stofnun sem að kristnum skilningi er helguð við kirkjulega athöfn. Það er því veraldlegra yfirvalda að skilgreina hjónaband, ekki kirkjulegra. Kirkjan getur aftur á móti kosið að vígja það samkvæmt sínum skilningi – ekki Hagstofunnar. En kirkjan verður þá að geta rökstutt skilning sinn.

Kristinn hjónabandsskilningur byggir ekki á frjósemi. Gagnkvæmni kynjanna, sem tákn óþarfrar frjósemi, getur því ekki heldur verið grunnur hennar. Það er m.ö.o. ekki kynlíf eða kynferði hjónanna sem helgar hjónabandið heldur heitorð þeirra og ásetningur. Kristið hjónaband er, svo vitnað sé í biskup, sáttmáli um „ævarandi tryggð, ást og virðingu.“ Hjónin heita hvort öðru „ævitryggðum, að eiga saman gleði lífsins og sorg, önn og yndi daganna.“ „Ást þeirra tveggja sem leggja líf sitt í hvors annars [sic] hendur í skilyrðislausri tryggð og kærleika, er ætlað að endurspegla kærleika Krists.“ Ást hjóna er því eins og neisti af kærleika Guðs. Ekkert af þessu útilokar samkynhneigða frá hjónabandi. Það er því eitthvað annað.

Niðurstaða prestastefnu í fyrradag var, að mínu mati, stéttinni til lítils sóma. En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Aðeins þarf að skoða kennitölur fylkinganna til að sjá hvorri Guð mun gefa sigur – með tímanum.

Stofnun, sem vill vera kirkja Krists á jörð, mismunar nefnilega engum. Engum.

Bakþankar í Fréttablaðinu 1. 5. 2010

Viðbót 3. 5. 2010: Í morgun ræddi ég kristinn hjónabandsskilning og hjónaband samkynhneigðra í Morgunútvarpi Rásar 2. Upptöku af því má nálgast hér.