mánudagur, október 26, 2009

Djöfullinn í þögninni

„Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt. Standið gegn honum stöðug í trúnni og vitið að bræður ykkar og systur um allan heim verða fyrir sömu þjáningum. En er þið hafið þjáðst um lítinn tíma mun Guð, sem veitir alla náð og hefur í Kristi kallað ykkur til sinnar eilífu dýrðar, sjálfur fullkomna ykkur, styrkja og gera ykkur öflug.“ (1Pét 5.8-10)
Þessi mögnuðu orð leituðu á hug minn í vikunni sem leið. Í þeim er nefnilega að mínu mati fólgið dásamlegt fyrirheit um að kærleikurinn hafi sigur að lokum og hinn þjáði rísi upp öflugri en áður.
Auðvitað veit ég að þessi orð, sem skrifuð voru öðru hvoru megin við aldamótin 100, eru skrifuð til kristinna söfnuða í Litlu-Asíu, sem sættu ofsóknum, en ekki Íslendinga í upphafi 21. aldar. Djöfullinn, sem þarna er talað um, er ekki þessi óeiginlegi sem hver þarf að draga sitt eigið eintak af, sjálfum sér og fólkinu í kringum hann til tjóns, heldur grimmúðlegt heimsveldi. Mér finnst þau samt eiga jafnvel við um hann.
Ég veit líka að djöfullinn er ekki í tísku um þessar mundir. Það þykir hálfgerður miðaldafnykur af öllu tali þar sem hann ber góma. En merking þrífst á andstæðu sinni. Ljós er ljós af því að við þekkjum myrkur, hlýja er hlýja af því að við þekkjum kulda. Guð er kærleikur (1 Jóh 4.8) og við þekkjum andstæðuna, þá tilfinningu að Guð hafi yfirgefið okkur og öllum sé sama. Andstæða kærleikans er nefnilega ekki hatur heldur skeytingarleysi. Hatur er ástríða. Fullkominn skortur á kærleika er ekki hatur heldur hitt, það að standa á sama. Ef Guð er kærleikur hlýtur djöfullinn því að vera skeytingarleysi.
Allir þekkja kveðjuna: „Friður sé með yður.“ Kristilegri orðsendingu er varla hægt að fá. Forsenda friðar, samkvæmt kristnum skilningi, hlýtur að vera réttlæti, af því að friður um óréttlæti er ekki friður, heldur einmitt skeytingarleysi.
Illu heilli höfum við séð skeytingarleysið ganga um eins öskrandi ljón og valda okkar minnstu bræðrum og systrum þjáningum. En við höfum líka séð skeytingarleysið hopa eilítið.
Sumir segja að Guð búi í þögninni. Vera má að stundum sé það svo. En þegar þagað er um óréttlæti geymir þögnin engan Guð, aðeins djöfulinn.
Bakþankar í Fréttablaðinu 24. október 2009

þriðjudagur, október 20, 2009

Vígð smámenni

Kristur tók sér alltaf stöðu með hinum kúguðu og forsmáðu, gegn kúgurum og valdníðingum. Kirkja sem ekki gerir það getur ekki gert neina kröfu til þess að teljast kirkja Krists á jörð. Þetta er svona einfalt. Stofnun sem tekur sér stöðu með þeim sem uppvís hefur orðið að siðferðisbroti, gegn fórnarlömbunum, er ekki kirkja heldur ömurleg afskræming alls þess sem kirkja á að vera.
Kirkja er samfélag. Hagmsunir samfélags verða alltaf að vega þyngra en hagsmunir einstaklinganna sem þjóna því. Kirkjunni ber ávallt að vera stærri en persónuleikarnir sem gegna embættum á vegum hennar. Því miður hefur mörgum klerkum þó að undanförnu virst með öllu fyrirmunað að taka velferð kirkjunnar fram yfir persónulega hagsmuni sína, of blindaðir af embættisást til að sjá tjónið sem þeir valda. Nema þeim sé skítsama. Afraksturinn er trausti rúin Þjóðkirkja.
Nýjasta dæmið er mál Gunnars Björnssonar. Þar sem hann var sýknaður af ákæru um kynferðisbrot, bæði í héraði og í Hæstarétti, telur hann sig geta snúið aftur í embætti sitt eins og ekkert hafi í skorist, þrátt fyrir að rannsókn málsins hafi leitt í ljós að hann strauk unglingsstúlkum og kyssti þær, þrátt fyrir að sóknarnefnd hafi lagst gegn því að hann snúi aftur til starfa og Fagráð Þjóðkirkjunnar um kynferðisbrot sé sama sinnis. Aukinheldur rauf hann bæði vígslueið sinn, „að vera öðrum til fyrirmyndar og styrktar í sannri trú og grandvöru líferni“, og braut siðareglur Prestafélags Íslands þar sem segir: „Prestur má ekki undir neinum kringumstæðum misnota aðstöðu sína sem sálusorgari eða ógna velferð skjólstæðings, s.s. með kynferðislegri áreitni, né vanvirða tilfinningar hans og tiltrú með öðrum hætti“. Þótt dómstólar telji framferði hans ekki falla undir skilgreininguna á kynferðislegri áreitni er óvefengjanlegt að tilfinningar stúlknanna voru vanvirtar og tiltrú þeirra ógnað.
Úrskurðarnefnd Þjóðkirkjunnar telur að Gunnar hafi gerst sekur um ótvírætt siðferðisbrot þótt hún treysti sér ekki til að mæla með því við biskup að hann yrði sviptur brauðinu. Ástæða þess er einfaldlega sú að vegna einhvers, sem aðeins getur verið handvömm við samningu starfsreglna nefndarinnar, hefur hún engin úrræði að grípa til vegna siðferðisbrota. Þegar framin eru svokölluð agabrot horfir málið öðruvísi við. Þá getur hún mælt með tafarlausri brottvikningu. Gunnar var af einhverjum óskiljanlegum ástæðum ekki fundinn sekur um agabrot.
Biskupi var því vandi á höndum. Hann þurfti að ákveða hvað gera skyldi við prest, margsekan um siðferðisbrot, sem sóknarnefnd vildi losna við, en sem nýtur verndar laga um starfsöryggi opinberra starfsmanna, þótt fráleitt sé að ætla að þau hafi verið sett í þeim tilgangi að vernda trúarleiðtoga sem káfa á börnum. Ólögmæt brottvikning hefði getað kostað himinháar skaðabætur. Sýnir þetta auðvitað betur en nokkuð annað hve brýnt það er að um Þjóðkirkjuna fari að gilda sömu lög og um trúfélög almennt. Hvernig getur kirkja, sem er með öllu úrræðalaus gagnvart siðferðisbrotum þjóna sinna, ætlast til þess að á henni sé tekið mark um siðferðileg álitamál? Ekki þarf að fara í neinar grafgötur með það hvernig brugðist yrði við ef starfsmaður annarrar æskulýðsstarfssemi yrði uppvís að sams konar siðferðisbroti.
Biskup kvað upp sannkallaðan Salómonsúrskurð. Gunnar skyldi halda starfi, en vera falin önnur verkefni, þar sem hæfileikar hans njóta sín og ekki er krafist náinnar umgengni við börn undir lögaldri. Gunnar kaus hins vegar að hrækja á þessa líflínu, sem biskup af mildi sinni varpaði til hans, með því að lýsa því yfir að hann myndi hunsa þessi fyrirmæli. Nú er aðeins hægt að vona að þá lítilsvirðingu, sem Gunnar sýnir persónu biskups Íslands og valdi hans, sem æðsta embættismanns Þjóðkirkjunnar, með viðbrögðum sínum, megi skilgreina sem agabrotið sem svo sárlega vantar á ferilsskrá hans til að hægt sé með lögmætum hætti að svipta hann hempunni í eitt skipti fyrir öll.
Tíu prestar hafa lýst yfir stuðingi við Gunnar í baráttu hans fyrir brauðinu. Það er sorglegt. Enn sorglegra er þó að aðrir prestar Þjóðkirkjunnar, sem telja á annað hundraðið, skuli þegja þunnu hljóði í stað þess að fylkja liði að baki biskupi sínum. Að mínu mati ber þeim tafarlaust að lýsa yfir algjörum stuðningi við biskup í því mikilvæga verkefni sem hann virðist, til allrar hamingju, ætla að taka sér fyrir hendur: Að sýna í verki að Þjóðkirkjan vill að sönnu vera kirkja Krists á jörð en ekki hagsmunagæsla fyrir vígð smámenni.
Grein í Fréttablaðinu 19. október 2009
Viðbót 20. okt: Til að sanngirni sé gætt er rétt að fram komi að prestar höfðu tjáð sig um málið áður en grein þessi birtist, a.m.k. sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir í aldeilis glimrandi prédikun, sem farið hafði fram hjá mér. Sama dag og þessi grein birtust gengu sr. Örn Bárður Jónsson og sr. Sigríður Anna Pálsdóttir ennfremur fram fyrir skjöldu og tóku afdráttarlausa afstöðu með biskupi. Líklega litu flestir prestar svo á að ljóst væri að þeir sem ekki styddu Gunnar styddu biskup. Að mínu mati var það ranglega ályktað hjá þeim.

mánudagur, október 12, 2009

Kjaftæðið um krúttin

Þegar ég var unglingur brast á með pönki. Það var uppreisn gegn tildri og yfirborðsmennsku diskósins. Ég var alls ekki eina íslenska ungmennið frá borgaralegu millistéttarheimili sem pönkið heillaði. Við gengum ekki í rifnum fötum af því að við höfðum ekki efni á nýjum, eins og upphafsmenn pönksins í fátækrahverfum Stóra-Bretlands, heldur af því að í því fólst, að okkar mati, einhvers konar yfirlýsing. Leðurjakkinn, sígildur einkennisbúningur uppreisnarseggsins, hefði auðvitað þótt fágæt munaðarvara í því umhverfi sem pönkið spratt úr. Fyrir rest voru pönkaragellurnar síst farnar að verja minni fjármunum í hárvörur (fyrir hanakambinn) og augnmálningu (biksvarta) en diskódísirnar. Byltingin étur börnin sín.
Um þessar mundir tröllríða svokölluð „krútt“ öllu því sem heitast og flottast þykir. Í því felst að tónlist skal vera gersneydd allri agressjón og klæðnaður í senn hlýlegur og fátæklegur. Prjónahúfur, sem helst eiga að líta út fyrir að hafa verið gerðar í handavinnutíma í 10 ára bekk, eru eitt helsta einkennið ásamt grófum ullarkápum og vettlingum. Af þessum sökum standa margir í þeirri meiningu að krúttin séu óháð tískustraumum og stefnum, þau taki sjálfstæðar ákvarðarnir um klæðaburð sinn í stað þess að fylgja fyrirmælum.
Ef fatnaður krúttanna er skoðaður nánar verður þó auðvitað strax ljóst að þar gilda mjög strangar reglur. Það, hve staðlaður og samræmdur klæðaburðurinn er, bendir ennfremur til þess að reglum þessum sé framfylgt af fyllstu hörku, tískulögreglan sé síst afslappaðri en áður fyrr, jafnvel þótt fagurfræðilegar forsendur útlitseftirlitsins kunni að virðast nýstárlegar.
Vegna þess hve bannið við öllu nýlegu og ríkmannlegu – og reyndar öllu sem ekki lítur út fyrir að hafa annað hvort fengist hjá Rauða krossinum eða Hjálpræðishernum – er skilyrðislaust, telja ýmsir ennfremur að krúttin séu betur í stakk búin en aðrir til að takast á við kreppuna. Þetta er náttúrlega eins og hvert annað kjaftæði. Það gerir engan hæfari til að mæta fátækt, sem hefur aðallega hangið á kaffihúsum sötrandi latte á 450 krónur bollann brimandi netið á mörghundruðþúsund króna kjöltutölvu, að finnast ógeðslega flott að vera eins og niðursetningur til fara og Sigur Rós skemmtileg.
Bakþankar í Fréttablaðinu 10. 10. 2009

sunnudagur, október 04, 2009

Fé, fé, fé, fé, fé, fé

(lag&texti: Benny Anderson & Björn Ulvæus / íslenskur texti: D. Þ. J.)

Ég þræla'og púla út í eitt
svo eytt ég geti'og skuldir greitt.
Ljótt er það.
En þrátt fyrir það aldrei er
neitt afgangs til að leika sér.
Nema hvað.
Draumfagra ég óra á,
í auðkýfing ég þyrfti'að ná.
Hve líf mitt yrði laust við streð,
hve létt þá yrði'og kátt mitt geð.

Fé, fé, fé, fé, fé, fé,
lífið sé spé;
ljúft að vera til.
Fé, fé, fé, fé, fé, fé,
hvorki hlé né
hik á sólar yl.
Aha, aha. Sitthvað gæti ég gert.
Ef ég aðeins ætti fé, fé,
væri'allt mér í vil.

Á hverju strái ekki er
slíkt öðlingsmenni, því er ver.
Ljótt er það.
Og þótt hann væri frír og frjáls
hann félli tæpast mér um háls.
Nema hvað.
Ég þyrfti'að líða'í ljúfri fró
um Las Vegas og Mónakó
og vinna stóran póker pott
af peningum og lifa flott.

Fé, fé, fé, fé, fé, fé,
lífið sé spé … o.s.frv.