föstudagur, september 29, 2006

Smiðshöggið rekið á níðingsverkið

Í gær hófst vatnssöfnun í Hálslón. Skrúfað hefur verið fyrir Jöklu. Ómetanlegri náttúruperlu verður drekkt á næstu mánuðum. Stærsta ósnortna víðerni Evrópu verður fórnað til að íslenskir skattgreiðendur geti niðurgreitt raforku til mengunarframleiðslu á Reyðarfirði, verkefni sem þvingað var í gegn með skjalafölsunum, atvinnurógi og kúgunum þvert á landslög.
Það sem einna helst gerir það að verkum að við þetta missir maður trúna á manninn er sú staðreynd að þetta var lýðræðisleg ákvörðun. Hún var samþykkt á Alþingi með 44 atkvæðum gegn 9. Margir þessara fjörutíu og fjögurra hafa reyndar skipt um skoðun síðan og gagnrýna nú háværum rómi hvernig staðið var að verki.
Af einhverjum ástæðum þurftu níu stallsystkin þeirra þó ekki á þeim skoðanakönnunum að halda né viðbótarupplýsingum sem síðan hafa komið fram í dagsljósið, til greiða atkvæði gegn virkun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal þegar árið 2002. Níu þingmönnum þóttu nægar upplýsingar til að taka skynsama afstöðu liggja fyrir þá þegar.
Þar sem margir þjóðníðinganna sem að umhverfishryðjuverkinu stóðu reyna nú í aðdraganda kosningavetrar að þvo hendur sínar af þessum glæp gegn landinu er við hæfi að rifja upp hverjir þeir eru – svo fólk sem vill elska sitt land geti forðast að greiða þeim atkvæði í næstu kosningum.

Þjóðníðingarnir 44 eru:

Arnbjörg Sveinsdóttir, Sjálfstæðisflokki
Árni M. Mathiesen, Sjálfstæðisflokki
Ásta Möller, Sjálfstæðisflokki
Bryndís Hlöðversdóttir, Samfylkingu
Drífa Hjartardóttir, Sjálfstæðisflokki
Einar K. Guðfinnsson, Sjálfstæðisflokki
Einar Oddur Kristjánsson, Sjálfstæðisflokki
Einar Már Sigurðarson, Samfylkingu
Geir H. Haarde, Sjálfstæðisflokki
Gísli S. Einarsson, Samfylkingu
Guðjón Guðmundsson, Sjálfstæðisflokki
Guðmundur Hallvarðsson, Sjálfstæðisflokki
Guðni Ágústsson, Framsóknarflokki
Guðrún Ögmundsdóttir, Samfylkingu
Halldór Ásgrímsson, Framsóknarflokki
Halldór Blöndal, Sjálfstæðisflokki
Helga Guðrún Jónasdóttir, Sjálfstæðisflokki
Hjálmar Árnason, Framsóknarflokki
Ísólfur Gylfi Pálmason, Framsóknarflokki
Jóhann Ársælsson, Samfylkingu
Jóhanna Sigurðardóttir, Samfylkingu
Jón Kristjánsson, Framsóknarflokki
Jónína Bjartmarz, Framsóknarflokki
Karl V. Matthíasson, Samfylkingu
Kjartan Ólafsson, Sjálfstæðisflokki
Kristinn H. Gunnarsson, Framsóknarflokki
Kristján L. Möller, Samfylkingu
Kristján Pálsson, Sjálfstæðisflokki
Lúðvík Bergvinsson, Samfylkingu
Magnús Stefánsson, Framsóknarflokki
Margrét Frímannsdóttir, Samfylkingu
Páll Pétursson, Framsóknarflokki
Pétur H. Blöndal, Sjálfstæðisflokki
Sigríður Ingvarsdóttir, Sjálfstæðisflokki
Sigríður A. Þórðardóttir, Sjálfstæðisflokki
Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki
Sólveig Pétursdóttir, Sjálfstæðisflokki
Sturla Böðvarsson, Sjálfstæðisflokki
Svanfríður Jónasdóttir, Samfylkingu
Tómas Ingi Olrich, Sjálfstæðisflokki
Valgerður Sverrisdóttir, Framsóknarflokki
Vilhjálmur Egilsson, Sjálfstæðisflokki
Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Sjálfstæðisflokki
Össur Skarphéðinsson, Samfylkingu

Megi smán þeirra vera í minnum höfð svo lengi sem land byggist.

fimmtudagur, september 28, 2006

Digranesprestur fermir ekki fríkirkjusálir

Enda segir í Biblíunni: "Leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim það ekki nema þau séu í vitlausu trúfélagi."
Í tilefni af forsíðu Blaðsins í dag

fimmtudagur, september 21, 2006

Hvítrússneska biblíufélagið ...

... heitir BSRB (Biblical Society of the Republic of Belarus). Þetta þótti mér jafnvel enn merkilegra en að Ástralska Biblíurannsóknastofnunin í Sydney skuli heita SÍBS (Sydney Institute for Biblical Studies). Þegar maður er farinn að eyða tíma sínum á netinu í að gera svona uppgötvanir ætti maður kannski að fara að hugsa sinn gang.

þriðjudagur, september 19, 2006

Drengurinn sem hrópaði: "Glatað! Glatað!"

Þegar DV kom út daglega var það kallað "hörð blaðamennska" sem þar var stundað. Slík blaðamennska á fullan rétt á sér, fjölmiðlum ber að vera ágengir, án þess auðvitað að vera ósanngjarnir eða óheiðarlegir. DV flaskaði hins vegar á því að þar var það beinlínis skylda að hafa stríðsfyrirsögn á hverjum degi og Ísland er bara hvorki nógu stórt né spillt til að standa undir 365 stríðsfyrirsögnum á ári. Því reyndist stormviðri dagsins stundum eiga sér stað í kaffibolla þegar að var gáð og sanngirnin hugsanlega umdeilanleg öðru hverju. Auðvitað þarf stundum að nota stóra letrið, en til hvaða leturs getur sá sem notar stærsta letrið á hverjum einasta degi gripið þegar þannig stendur á? Sá sem er alltaf uppi á háa C-inu getur ekki brýnt raustina þegar ástæða er til.
Eins á hörð gagnrýni fullan rétt á sér. Enginn er yfir gagnrýni hafinn. Stundum má gagnrýni meira að segja að vera sérstaklega ófyrirleitin, einkum þegar hún beinist að þeim sem gefa sig út fyrir að vera ófyrirleitnir sjálfir. Slík gagnrýni getur verið mjög skemmtileg aflestrar. Hárfínar, meinhæðnar athugasemdir eru sannkallaður gleðigjafi. En rýnir sem alltaf er ófyrirleitinn verður fljótt ómarktækur. Þegar maður getur gefið sér það fyrirfram að niðurstaðan sé að umfjöllunarefnið sé glatað, óháð því hvert það er, hættir maður að nenna að lesa, jafnvel þótt rýnirinn reyni að vera eins fyndinn og hann getur. Stundum getur verið rík ástæða til að rakka eitthvað niður, en hvernig ætlar sá sem aldrei hefur gert annað en að rakka allt niður sem hann fjallar um, að miðla því að eitthvað sé alveg sérstaklega niðurrökkunarvert?
Vera má að stundum sé nauðsynlegt að fara í fýlu (þótt sjálfum detti mér reyndar ekki í hug neinar kringumstæður þar sem önnur viðbrögð eru ekki bæði skynsamlegri og skemmtilegri). En það er með fýluna eins og punktastærðina í fyrirsögnunum hjá DV: Minna er meira.
Því skora ég á þá sem vilja nýta sér stjórnarskrárbundið tjáningar- og prentfrelsi sitt til að vera í fýlu að fara úr henni öðru hverju, þótt ekki sé nema til þess að maður sjái að þeir séu færir um það. Annars lýsa skrif þeirra þeim sjálfum miklu betur en því sem þeir fjalla um.
Bakþankar í Fréttablaðinu 17. 9. 2006

laugardagur, september 16, 2006

Húsavík: Hvalaþorpið við nyrsta haf

Ég var að koma frá Húsavík, en alllangt er síðan ég kom þangað síðast. Það er skemmst frá að segja að heimsóknin var öll hin ánægjulegasta og kom það mér mjög þægilega á óvart hve margt hefur breyst til betri vegar frá því að ég kom þangað síðast.
Það er ekki laust við að þegar ég renndi inn í bæinn eftir aðalgötunni rifjaðist upp fyrir mér þegar ég kom til borgarinnar Brindisi á Ítalíu fyrir u. þ. b. tuttugu árum. Það eina sem vakti fyrir mér í þeirri borg var að gista þar eina nótt og koma mér svo um borð í ferju til Grikklands. Ég man að í lestinni (þetta var á Interrail ferðalagi) hafði ég pínulitlar áhyggjur af því að þar sem ég var ekki með neinar upplýsingar um borgina og ofaníkaupið ekki mælandi á ítölsku gæti reynst erfitt að finna farfuglaheimili og miðasölu ferjunnar, enda sá ég fyrir mér einhvers konar ítalsk-gríska útgáfu af Akraborginni eða flóabátnum Baldri.
Þegar ég kom út úr lestarstöðinni uppgötvaði ég hins vegar að næsta auðvelt yrði að finna gistingu þarna því u. þ. b. fjórða hvert hús var auðkennt sem "Youth Hostel". Reyndar sá ég strax að það eina sem yrði auðveldara en að finna gistingu yrði að kaupa miða með ferju því hin þrjú húsin af hverjum fjórum voru merkt "Tickets to Greece." Það var nokkuð augljóst hver aðalatvinnuvegur bæjarbúa var.
Eins er algjör óþarfi að hafa áhyggjur af því að erfitt geti verið að finna miðasöluna í hvalaskoðunina frá Húsavík. Hvalir og hvalaskoðun eru einfaldlega orðin meginauðkenni bæjarins, mér liggur við að segja jafnvel frekar en kirkjan, sem er tvímælalaust eitt fegursta hús landsins. Hvert sem litið er minnir eitthvað á hvali og hvalaskoðun. Veggir hótelsins, sem nú er að vísu verið að gera upp af miklum myndarskap, eru myndskreyttir með frímerkjum frá öllum heimshornum sem eiga það sameiginlegt að á þeim eru myndir af hvölum. Barinn á staðnum heitir Moby Dick og er myndskreyttur með ýmsu úr alþjóðlegum afþreyingariðnaði sem tengist þeirri hvítu skaðræðisskepnu. Jafnvel barstólarnir líta út eins og hvalsporður. Á þeim er þægilegt að sitja og sötra appelsín. Borðin eru litlir bátar.
Það er nokkuð augljóst þegar komið er til Húsavíkur hver helsta lyftistöngin í atvinnulífi bæjarins er um þessar mundir. Í beinu framhaldi af því er bærinn allur svo snyrtilegur að hreinn sómi er að, enda býður almennilegt fólk ekki gestum í heimsókn og hefur allt í drasli hjá sér á meðan. Mér finnst eins og óvenjulega mikið sé um falleg og vel hirt gömul hús á Húsavík, en kannski finnst manni það bara vegna þess hve öllu virðist vera vel við haldið á staðnum.
Vera má að allur þessi hvalabisnes hafi gert Húsvíkinga ónæma fyrir sérstöðu bæjarins, menn hætta að meta það sem þeir hafa fyrir framan nefið á sér á hverjum degi. Jafnvel má vera að venjulegir Húsvíkingar séu komnir með upp í háls af hval og hvalaskoðun. En fyrir erlenda ferðamenn hlýtur heimsókn til Húsavíkur dagsins í dag að vera ógleymanleg upplifun. Litla hvalaþorpið við nyrsta haf lifir áreiðanlega lengi í minningu þeirra sem eru það sniðugir að heimsækja það núna, því ég leyfi mér að fullyrða að það mun skyggja verulega á upplifunina að hafa risastóra álfabrikku gnæfandi yfir þessu fallega póstkorti, spúandi eitri út í umhverfið, eins og margt bendir því miður til að framtíðin beri í skauti sér.
Í Staksteinum Moggans í dag er skrifað eindregið gegn hvalveiðum og gefið í skyn að þær kynnu að drepa hvalaskoðunina frá Húsavík og ferðaþjónustu henni tengda, sem orðin er undirstöðuatvinnuvegurinn á staðnum. Ég get svosem tekið undir þær áhyggjur, en ég held að Húsvíkingum stafi ekki minni hætta af sínu eigin álæði.
Því skora ég á Húsvíkinga að hugsa sinn gang. Við þurfum ekki fleiri Reyðarfirði eins og Reyðarfjörður er orðinn. Hins vegar mættu hér að ósekju vera fleiri Húsavíkur eins og Húsavík er orðin.

mánudagur, september 11, 2006

Krumpaður karlfauskur kreperar

Þegar ég var reiður ungur maður sór ég þess dýran eið að ég skyldi aldrei verða krumpaður karlfauskur. Fátt fór eins mikið í taugarnar á mér og þessir gömlu karlar sem ekki virtust hafa neitt annað til málanna að leggja en hvað æskan væri vonlaus og hvað framtíðin væri í vondum málum að lenda í höndunum á henni, en mér finnst eins og þá hafi verið miklu meira af þeim en nú á dögum.
Ég man að á tímabili var Þráinn Bertelsson sérstaklega iðinn við kolann. Hann skrifaði hverja greinina á fætur annarri í blöðin þar sem hann býsnaðist yfir því að fólk skyldi skemmta sér niðri í miðbæ og voga sér að leika tónlist á meðan. Ég held að ástæðan sé sú að hann hafi keypt sér íbúð í miðborginni og orðið ofsalega hissa þegar hann komst að því að það var ekki grafarþögn úti á götunni eftir miðnætti um helgar. Gott ef það var ekki hreinlega súludansstaður á jarðhæðinni hjá honum.
Friðrik Erlingsson er annar af þessum körlum. Það er merkilegt að annar eins ágætismaður og hann er að öðru leyti skuli alltaf leysast upp í náttúrulausan nítjándualdar siðapostula þegar hann stingur niður penna. Nú síðast tjáði hann sig í einhverju blaðinu um unga fólkið og verslunarmannahelgina af svo forpokaðri siðavendni að það hefði mátt halda að þarna væri verið að rifja upp einhver skrif sem voru aðdragandinn að stofnun Góðtemplarareglunnar á sínum tíma.
Þessi meinloka virðist reyndar vera innbyggð í mannskepnuna. Á öllum tímum hefur ráðsetta fólkið borið kvíðboga fyrir því sem ungu hálfvitarnir myndu taka til bragðs þegar þeim yrði rétt keflið. Einhvern tímann las ég meira að segja texta sem hefði getað verið eftir Þráin/Friðrik, en reyndist síðan vera eftir Sókrates. Boðskapurinn var einmitt sá að æskan væri ómöguleg og siðmenningin færi í hundana þegar hún myndi lenda í höndunum á henni. Hann reyndist ekki sannspár. Nema þetta séu hundarnir?
Þannig að ég ákvað ungur að verða aldrei Þráinn/Friðrik/Sókrates sem verður með reglulegu millibili að kveða sér hljóðs á obinberum vettvangi í þeim tilgangi að ná ekki upp í nefið á sér af hneykslan yfir smekk og framferði sér yngra fólks.
En svo koma fram fyrirbæri eins og Sigur Rós.

Sigur Rós

Ekki misskilja mig. Ég gleðst ofsalega yfir því hvað Sigur Rós hefur slegið í gegn í útlöndum, einfaldlega af því að þá er hljómsveitin sem mest þar og sem minnst hérlendis. Því eru nefnilega afskaplega lítil takmörk sett hvað mér finnst Sigur Rós ævintýralega vont band.
Það er til tónlist sem maður einfaldlega hefur ekki áhuga á af því að hún hreyfir ekki við manni, lætur mann algerlega ósnortinn. Síðan er til tónlist sem maður reynir beinlínis að forðast að sitja undir, maður rýkur til og slekkur á viðtækjum sem hún berst úr eða stillir í snatri yfir á aðra rás. Í mínu tilfelli eru þetta einkum Whitney Houston, Mariah Carey, Celine Dion og þessar helstu söngkonur sem mér virðast þenja í sér raddböndin í þeim eina tilgangi að ekki fari á milli mála hvað þær eru duglegar að þenja í sér raddböndin.
Síðan er til tónlist sem hefur þau áhrif á mann að manni finnst maður vera hjá tannlækni án deyfingar. Þannig tónlist leikur Sigur Rós. Tónlist sem er hrein þolraun að sitja undir. Ég hef ekki orðið fyrir þeirri upplifun af neinni annarri tónlist. Wagner-óperur eru beinlínis katsí í samanburði.
Líkamleg vanlíðan getur verið margs konar. Ein sú andstyggilegasta er tilfinningin sem maður fyllist þegar maður rekur puttann á sér óvart á kaf í rotinn ávöxt. Þetta er ekki beint sársauki. Maður getur ekki fullyrt að manni sé illt, að maður finni til, en þetta er samt vont á einhvern alveg sérstakan hátt. Maður grettir sig ósjálfrátt og eðlileg viðbrögð eru ekki að þau að kippa að sér hendinni snöggt eins og þegar maður brennir sig heldur dregur maður hana hægt að sér svona eins og maður hafi áhyggjur af því að hún hafi úldnað út frá skemmdinni og kunni að detta af manni fari maður ekki að öllu með gát. Þegar ég heyri í Sigur Rós verð ég fyrir tónlistarlegri hliðstæðu þessarar tilfinningar í mússíkeyranu. Ég rýk ekki að tækinu og slekk á því í offorsi heldur þagga ég niður í henni með fasi manns sem er að fjarlægja kúkableyju. Hann fer að öllu með gát svo óþverrinn subbi ekkert út, jafnvel þótt það þýði að hann þurfi að umbera fýluna aðeins lengur en ítrasta nauðsyn krefst.

Tónlistargagnrýni

Textanum hér að ofan er ekki ætlað að vera tónlistargagnrýni. Ég geri mér nefnilega grein fyrir því að hljómsveit sem veldur hlustendum þjáningum nær ekki vinsældum. Því tel ég sýnt að um heim allan hljóti stór hópur fólks að elska þetta skerandi surg sem Sigur Rós kallar tónlist, því varla seljast þessar plötur í bílförmum ef þær eru aðeins leiknar í þeim tilgangi að pynta fólk. Ég er því líklega ekki manna best til þess fallinn að gagnrýna hljómsveitina af sanngirni þótt ég hafi vissulega rétt til að finnast það sem mér sýnist um hana og segja frá því á þann hátt sem mig lystir.
Ef það yrði hringt í mig í kjölfar þessara yfirlýsinga minna um Sigur Rós og ég beðinn að skrifa tónlistargagnrýni um nýjustu hljómplötu sveitarinnar í víðlesið tímarit myndi það því óneitanlega hvarfla að mér að tilgangur ritstjórnarinnar með því væri ekki sá að sýna Sigur Rós sem mesta sanngirni. Reyndar er sennilegra að ég drægi þá ályktun að með því væri einmitt verið að fiska eftir sem neikvæðastri umfjöllun um sveitina.
Það er nákvæmlega þannig sem mér fannst The Reykjavík Grapevine koma fram við Bubba Morthens með því að fela Sindra Eldon það verkefni að fjalla um afmælistónleika hans. Um þá skoðun mína leyfði ég mér að skrifa bakþanka í Fréttablaðið (Reykjavík greip væl) sem ég síðan birti hér á þessari síðu. Það er skemmst frá að segja að engir bakþanka minna frá upphafi hafa fengið nálægt því jafnmikil viðbrögð, ekki bara í kommentakerfi þessarar síðu, heldur líka á förnum vegi og símleiðis. Langlanglangflest þessara viðbragða hafa verið vægast sagt afar jákvæð þannig að ég dreg þá ályktun að ég sé ekki einn um þessa skoðun.

Rétturinn til að vera sellát

Viðbrögðin hafa þó ekki öll verið á jákvæðu nótunum. Jafnvel hefur mér verið legið á hálsi að vilja meina reiðum, ungum mönnum að rífa kjaft. Að ég vilji bara samfélag jáara þar sem fólk með óvinsælar skoðanir er útskúfað, að ég vilji slá einhverja skjaldborg um heilagar kýr sem ekki megi gagnrýna, að menn sem ekki geti verið smekklegir og þægilegir aflestrar hafi ekki rétt til að munda stílvopnið.
Satt að segja er ég ekki yfir það hafinn að sárna slík viðbrögð, því ég efast um að margir Íslendingar hafi orðið fyrir eins miklum árásum fyrir tjáningarfrelsið og ég, eins miklum rógi og níði fyrir það sem stjórnarskrá lýðveldisins tryggir okkur réttinn til að setja á prent og segja opinberlega, eins miklum óþægindum fyrir að verja óvinsælar skoðanir. (Fyrigefið mér að slá mér aðeins á brjóst, en þessi síða er jú einu sinni mitt partý – eða eins og vitur maður mælti forðum: "Ég held mig ekkert á mottunni þegar ég á alla helvítis teppabúðina!")
Fyrir utan það þá hvarflar auðvitað ekki að mér að eyða orku í að vernda Bubba fyrir hnýfilyrðum utan úr bæ. Bubbi er stór strákur og hefur staðið margt verra en óhróður og skítkast af sér. Auk þess er ég sannfærður um að löngu eftir að þessi "ungi, reiði maður" verður dauður og grafinn og öllum gleymdur munu verk Bubba Morthens lifa góðu lífi með þjóðinni og halda minningu hans á lofti.
En ég get þó ekki stillt mig um að furða mig á því að reiði þessa meinta unga, reiða manns skuli beinist að því að Bubbi Morthens sé sellát! Árið 1983 var ég nefnilega í pönkhljómsveit sem hét Dossbaradjamm, en hún hélt einmitt eftirminnilega kveðjutónleika það ár. Meðal laganna á efnisskrá þeirra var lagið "Bubbi Morthens fær raflost" þar sem var sungið: "Þeir hringdu í morgun, sögðu að Bubbi væri orðinn óður, / að við litlu pönkarana væri hann ekki lengur jafngóður, / hann væri hættur að syngja um verkamenn / og menningarsnobbara, / hann væri sjálfur orðinn menningarsnobb / og héngi inni á Mokka-a-a-a-aaah! / Bubbi Morthens fær raflost! ..."
Þannig að ef það er einhver uppgötvun að Bubbi Morthens hafi svikið málstað farandverkamannanna þá er hún tæpum aldarfjórðungi of seint á ferðinni til að ég uppveðrist, en auðvitað kann að vera að þetta sé eitthvað sem "ungu, reiðu mennirnir" í dag eru nýbúnir að fatta og fyllir þá eldmóði. Gott hjá þeim. Sjálfur er ég hins vegar löngu búinn að taka þessa gatslitnu lummu af prógramminu hjá mér og farinn að flytja nýrra efni.

Misskilningurinn

Mér virðist að þeir sem brugðust illa við þessum þönkum hafi misskilið mig og auðvitað er aðeins við mig að sakast að hafa ekki tjáð mig skýrar. Mér sárnaði þessi umfjöllun um Bubba Morthens alls ekki fyrir hönd Bubba, eins og margir virðast hafa haldið. Mér sárnaði hún fyrir hönd The Reykjavík Grapevine. Blað sem ég hafði borið virðingu fyrir og þótt skemmtilegt að lesa var dottið ofan í pytt nöldurs og fýlu sem ég kærði mig ekki um að taka þátt í. Það sem verið hafði skemmtilegur félagsskapur var orðið beinlínis niðurdrepandi kompaní. Það má kannski vel vera að fólkið sem ekkert hefur nema aðfinnslur til málanna að leggja sé nauðsynlegt fyrir lýðræðislega umræðu, en það er ekki þar með sagt að manni beri einhver skylda til að finnast það skemmtilegt og návist þess eftirsóknarverð.
Mér finnst til dæmis miklu skynsamlegra að virða það við menn að vera góðir í fótbolta, að hafa náð þeim árangri í íþróttinni að vera atvinnumenn í henni og vera í hópi ellefu bestu knattspyrnumanna þjóðarinnar sem gera sitt besta til að halda uppi heiðri hennar á vellinum, heldur en að hanga við hliðarlínuna og æpa sig hásan af gremju yfir því hvað þetta landslið sé "paþþetikk" og lélegt af því að það tapar oftast fyrir stórþjóðum – án þess auðvitað að geta sjálfur sparkað bolta þótt maður ætti að vinna sér það til lífs.
Þannig finnst mér líka miklu aðdáunarverðara að vera á skjánum í alþjóðlegum sjónvarpsþætti að sýna sönghæfileika sína þannig að heimsbyggðin taki eftir þeim, heldur en að sitja límdur við skjáinn emjandi og veinandi, í keng yfir því hvað þetta sé hallærislegur þáttur og ömurlegur flutningur, auðvitað án þess að geta sjálfur sungið svo mikið sem Gamla Nóa skammlaust.
Sömuleiðis finnst mér miklu virðingarverðara að standa á sviði og flytja frumsamið efni sem þjóðin þekkir og elskar og tekur undir með, heldur en að sitja úti í sal, sjóðandi af bræði yfir því að gæinn á sviðinu sé svo kommersíal að hann njóti hylli og ennþá jafnmikið sellát og fyrir aldarfjórðungi.
Stærsti misskilingurinn er þó auðvitað sá að þetta sé einkenni ungra, reiðra manna. Svo er alls ekki. Þvert á móti. Þetta er einmitt það sem einkennir getulausa og krumpaða karlfauska.
Það er þess vegna sem ég stend mig æ oftar að verki við að taka undir með þessum gömlu körlum allra alda sem eipað hafa á unga fólkinu sem æskunni er svo sannarlega sóað á. Guð hjálpi framtíðinni að lenda í höndunum á þessum fúllyndu fauskum sem nú eru ungir menn.

þriðjudagur, september 05, 2006

,,Burt með eiturlyfin. Vestfirska forlagið.”

Ég hef yndi af því að heyra eitthvað sem fær mig til að velta fyrir mér hlutunum. Nú hef ég í tvígang í dag heyrt tilkynningu lesna í útvarpið sem vakið hefur óskipta athygli mína. Hún er svona: ,,Burt með eiturlyfin. Vestfirska forlagið.” Ég get einhvern veginn ekki annað en velt því fyrir mér hver sagan á bak við tikynninguna sé og í augnablikinu dettur mér þrennt í hug.
I. Þau hjá Vestfirska forlaginu eru sannfærð um að þegar dópistar landsins heyra orðin ,,Burt með eiturlyfin” lesin í útvarpið innan um auglýsingar fyrir rafmagnsverkfæri, hettukápur og kjötfars sjái þeir samstundis að sér og láti af þeim ósið að neyta fíkniefna, að áhrifamáttur Vestfirska forlagsins sé slíkur að það sem til þessa hafi vantað upp á að ráða niðurlögum fíkniefnadjöfulsins í eitt skipti fyrir öll hafi verið að afstaða þess gagnvart þessu heilbrigðisvandamáli væri ljós.
II. Þau hjá Vestfirska forlaginu grunar að fjöldi manna standi í þeirri meiningu að það tilheyri þeim stóra hópi sem einmitt er hlynntur eiturlyfjaneyslu og finnst því ástæða til að leiðrétta þann misskilning.
III. Í nánasta umhverfi Vestfirska forlagsins eru eiturlyf sem það vill ekki hafa fyrir augunum lengur og er hér um að ræða tilkynningu til eigenda þeirra vinsamlegast að fjarlægja þau.

Nú er bara að uglasata hverju maður á að trúa því mér finnst þetta allt einhvern veginn jafnsennilegt. Er annars einhver fjórði möguleiki í stöðunni sem mér er að yfirsjást?

Reykjavík greip væl

Þegar tímaritið The Reykjavík Grapevine hóf göngu sína var ég einn þeirra fjölmörgu sem tók því fagnandi, enda var blaðið eins og ferskur andvari. Það var róttækt og meinhæðið, með hvassa og málefnalega ádeilu á íslenskt samfélag sem ekki var vanþörf á. Glöggt er gests augað.
Því finnst mér það sorglegt að nú virðist blaðið vera komið í hendur manna sem ekki gera greinarmun á háði og níði, ádeilu og illkvittni, manna sem telja víðtækt önuglyndi bera vott um róttækni. Þannig hafa úrillir stráklingar undanfarið fengið að níða skóinn af hverjum þeim sem ekki er nógu hipp og kúl að þeirra mati óhindrað á síðum blaðsins. Gleggst sást þetta í umfjöllun blaðsins um afmælistónleika Bubba Morthens, þar sem hann, fimmtugur maðurinn, var borinn þeim þungu sökum að miða listsköpun sína ekki við tónlistarsmekk unglingspilts að nafni Sindri Eldon. (X) Tíðkast þau nú hin breiðu spjótin.
Í nýjasta tölublaðinu verður Magni Ásgeirsson fyrir barðinu á óskeikulleika blaðsins í málefnum er varða hipp og kúl. Glæpur hans er að hafa nýtt tækifæri sem honum bauðst til að vekja heimsathygli sem tónlistarmaður og gera það þannig að hann hefur verið sjálfum sér, fjölskyldu sinni, landi og þjóð til staks sóma. Það sem mér finnst einkum aðdáunarvert við framgöngu Magna er hve auðmjúkur og heiðarlegur hann hefur verið gagnvart öllu þessu tilstandi. Auðmýkt og heiðarleiki þykja hins vegar ekki hipp og kúl á The Reykjavík Grapevine, hafi þeir sem þar vinna á annað borð einhvern tímann heyrt slíks getið, og þar sem blaðið er að þeirra mati allt of hipp og kúl fyrir þennan þátt finnst þeim ósköp eðlilegt að kalla Magna líkníðing á síðum þess.
En hvað eru svo þessir töffarar, sem eru of samanherptir í sínu þurra og skorpna töffaraattitjúdi til að geta glaðst yfir velgengni annarra en þeirra sem þeir hafa sérstaka velþóknun á og standa utan skjallbandalagsins sem þeir tilheyra, annars að gera sem gerir þá svona miklu meira hipp og kúl en aðra? Jú, þeir sitja á sínum hipp og kúl rassi og skrifa sína hipp og kúl sleggjudóma í sitt hipp og kúl blað í þeirri sannfæringu að þeir séu hið endanlega átórítet um allt hipp og kúl í heiminum.
Fyrirgefið mér að leita annað að skilgreiningu á hippi og kúli.
Bakþankar í Fréttablaðinu 3. 9. 2006

sunnudagur, september 03, 2006

Umhverfisvitund Samfylkingarinnar

Það rann upp fyrir mér ljós. Auðvitað hefur Samfylkingin komið sér upp umhverfisvitund daginn sem hún las það í blöðunum að Draumalandið hans Andra Snæs væri að seljast í bílförmum og því væri það sennilega líklegt til vinsælda að hafa svoleiðis. Nú verður Gallup bara að gera skoðanakönnun strax um tilboðið hans Steingríms svo Samfylkingin geti komið sér upp afstöðu til þess.
Tilvitnun dagsins: "Fyrstu viðbrögð Ingibjargar Sólrúnar eru þau að kalla tillögu Steingríms fjölmiðlaleikrit. Það hlýtur að vera særandi fyrir Steingrím að fá þessa einkunn frá leiðtoga Samfylkingarinnar, þetta er svona eins og að vera sakaður um ofleik af Glanna glæp."
Illugi Gunnarsson í Fréttablaðinu í dag

laugardagur, september 02, 2006

Sinnaskipti Steingríms

Ég var ánægður með Steingrím J. og tillögu hans um að núverandi stjórnarandstaða stillti saman strengi sína fyrir næstu kosningar til að geta boðið upp á raunhæfan valkost við núverandi ríkisstjórn, enda glatað að íslensk pólitík fari að snúast upp í keppni um að skríða upp í til íhaldsins. Hins vegar fannst mér á viðbrögðum Ingibjargar Sólrúnar að hún skildi ekki alveg hvað hún var að tala um, því hún virtist halda að með þessu væru einhver sinnaskipti að eiga sér stað hjá Steingrími. Vísaði hún þar til þess að árið 1999 var Samfylkingin stofnuð sem kosningabandalag þáverandi vinstri flokkanna. Steingrímur vildi ekki vera með og stofnaði sinn eigin. Það að Steingrímur vilji frekar starfa með Samfylkingunni en Sjálfstæðisflokknum bendir ekki til þess að hann hafi skipt um skoðun á neinu. Því hvernig væri að skoða aðeins hvernig þetta "bandalag vinstri flokkanna" sem kallar sig Samfylkinguna hefur sinnt því að vera bandalag vinstrimanna?
Þegar ljóst var að herinn vildi úr landi fór þáverandi formaður þessara meintu vinstrimanna grátandi í kjölfarið á þeim Davíð og Halldóri með skilaboðin "Ekki fara!" frá íslenskum vinstrimönnum.
Þegar vanda menntakerfisins og heilbrigðiskerfisins hefur borið á góma hafa "vinstrimennirnir" í Samfylkingunni stungið upp á meiri einkavæðingu.
Núverandi formaður Samfylkingarinnar getur ekki núna allt í einu þóst vera formaður flokks sem hefur umhverfissjónarmið að leiðarljósi eftir aðkomu sína að Kárahnúkamálinu. Staðreyndin er að Samfylkingin var öll (með tveim undantekningum) hlynnt því umhverfishryðjuverki.
Samfylkingin hefur frá öndverðu verið einkavæðingar-, NATO- og Kárahnúkaflokkur. Sinnaskiptin áttu sér greinilega stað annars staðar en hjá Steingrími. Að halda því fram að íslenskir umhverfissinnar og vinstrimenn hafi hlaupist undan merkjum með því að taka ekki þátt í starfi Samfylkingarinnar bendir því til þess að viðkomandi skilji merkingu hvorugs orðsins, umhverfi eða vinstri.

Netið er komið

Nú er ég kominn með internet inn á heimilið og þarf því ekki lengur að stóla á heita reiti á kaffihúsum borgarinnar. Þetta þýðir að hvenær sem mér dettur eitthvað í hug get ég sett það beint á netið. Kannski gerist ég örbloggari og set allt sem ég hugsa beint á netið um leið og mér dettur það í hug án nokkurs samhengis við neitt þannig að enginn skilur bofs.

Kúlukerti

Já, meðan ég man. Hvar finn ég kúlukerti, þ. e. kerti sem eru kúlulaga? Ég á nefnilega svo flottan kertastjaka fyrir stórt, kúlulaga kerti og kertið sem fylgdi er niðurbrunnið.