föstudagur, febrúar 22, 2008

Þankar um þanka


Fyrstu Bakþankar mínir í Fréttablaðinu birtust 30. apríl 2006. Síðan hafa birst pistlar eftir mig á baksíðu þess hálfsmánaðarlega, með einhverjum undantekningum vegna helgidaga. Ég hef algerlega frjálsar hendur varðandi umfjöllunarefni og efnistök, aldrei hefur verið gerð tilraun til að hafa nein áhrif á skrif mín. Ég hef skrifað um það sem mér hefur verið efst í huga hverju sinni, þjóðfélagsmál, pólítík, skipulagsmál, pælingar um lífið og tilveruna og ... trúmál. Síðastnefndu skrifin virðast einatt vekja mesta athygli. Einhver spurði mig hvers vegna ég væri alltaf að skrifa um trúmál, hvort ég hefði ekki áhuga á neinu öðru.
Þetta fékk dálítið á mig, því víst hef ég áhuga á öðru, svo ég fletti í gegn um Bakþankana mína og komst að því að 10 – 13 þeirra 46 pistla sem ég hef skrifað fjalla um trúmál. Nákvæmlegur fjöldi fer eftir því hvernig hugtakið er skilgreint. Eru öll andleg málefni trúarleg? Eru pælingar um lit jólaskreytinga trúarlegar? Ef við förum milliveginn og segjum að 11,5 Bakþanka minna hafi snúist um trúmál er hlutfallið nákvæmlega 25%. Ég er kristinn guðfræðinemi. Ég hef áhuga á trúmálum. Myndi pólitískur sjórnmálafræðinemi skrifa minna um pólitík en ég geri um trúmál? Myndi rithöfundur eða bókmenntafræðingur skrifa minna um bókmenntir? Myndi leikhúsfræðingur, leiklistarnemi eða leikari skrifa minna um leikhús? Ég leyfi mér að stórefa það, a. m. k. í síðastnefnda tilvikinu (ég þekki slatta af leikhúsfólki).
Síðustu bakþankar mínir hafa orðið tilefni til umfjöllunar. Hún byggir á því að mér finnist helvíti fallegt fyrst ég leyfi mér að vera þeirrar skoðunar að það sé fallegur boðskapur að öllum standi til boða eilíft líf fyrir náð Guðs. Þetta er auðvitað ekki svaravert. Höfundurinn skýtur af sér hausinn í þriðju málsgrein og liggur eftir örendur í guðlausu blóði sínu, svo ég beiti fyrir mig stíl sem er vinsæll (en umdeildur) um þessar mundir.
Aðrir lesa út úr þessum þönkum að ég sé að boða réttlætingu fyrir verkin, sem sé í andstöðu við grundvallarkenningu vorrar evangelísk-lúthersku kirkju sem boðar réttlætingu af trú. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei verið mjög spenntur fyrir akkúrat þessari trúfræðilegu pælingu, því ég hef það á tilfinningunni að aðspurður hefði Jesús ekki svarað spurningunni um réttlætingu af trú eða réttlætingu fyrir verk með því að segja afdráttarlaust annað hvort eða. Flestar dæmisögur hans fjalla nefnilega um verk. Eða minnist hann einu orði á trú miskunnsama Samverjans? Sjálfur segir hann meira að segja: „Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.“ Páll postuli segir að Guð muni „gjalda sérhverjum eftir verkum hans: Þeim eilíft líf, sem með staðfestu í góðu verki leita vegsemdar, heiðurs og ódauðleika, en þeim reiði og óvild, sem leiðast af eigingirni og óhlýðnast sannleikanum, en hlýðnast ranglætinu“ (Róm. 2:6-8). Í Jakobsbréfi 2:14-17 segir ennfremur: „Hvað stoðar það, bræður mínir, þótt einhver segist hafa trú, en hefur eigi verk? Mun trúin geta frelsað hann? Ef bróðir eða systir eru nakin og vantar daglegt viðurværi og einhver yðar segði við þau: "Farið í friði, vermið yður og mettið!" en þér gefið þeim ekki það, sem líkaminn þarfnast, hvað stoðar það? Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin.“ Ég held að kjarninn í kenningu Lúthers sé þessi. Okkur ber að gera góðverk, ekki til að vinna okkur inn náð Guðs heldur einmitt vegna þess að við njótum náðar Guðs.
En fyrst vikið var að miskunnsama Samverjanum er einmitt áhugavert að Jesús skuli velja Samverja í dæmisöguna en ekki gyðing. Reyndar ganga tveir gyðingar, prestur og levíti, fram hjá fórnarlambinu og sinna því ekki. Strangt til tekið hegðuðu þér sér með því óaðfinnanlega samkvæmt lögmálinu, en þar voru skýr ákvæði um að prestar mættu ekki snerta lík. Presturinn hætti semsagt á að saurga sjálfan sig og brjóta lögmál Móse með því að sýna kærleik í verki og taka sénsinn á því að maðurinn væri á lífi. Þannig segir Jesús kærleikann æðri lögmálinu. Sagan endar ekki á því að Samverjanum er kastað til eyðingar (þ. e. í eldsofninn) til eilífrar refsingar (sem felst í því að vera eytt að eilífu) fyrir að hafa ekki verið kristinn. Þvert á móti er erfitt að skilja söguna öðruvísi en sem dæmisögu um rétta breytni samkvæmt kenningu Jesú. En af hvaða tilefni sagði Jesús annars söguna um miskunnsama Samverjann? Jú, hann var einmitt að svara spurningunni: „Hvað þarf ég að gera til að öðlast eilíft líf?“ Sagan hlýtur að útiloka það sem kristna afstöðu að allir sem ekki játi Jesú sem sinn persónulega frelsara kveljist í helvíti að eilífu, eins og sumir halda fram, því það gerði miskunnsami Samerjinn sannarlega ekki.
Jesús kenndi í mörgum dæmisögum. Hins vegar virðist guðleysingjum vera meinilla við að tal Jesú um helvíti sé skoðað allegorískt. Jafnvel þótt hann segi „Guðs ríki er innra með yður“ (Lúk. 17:21) má alls ekki líta svo á að það gildi líka um andstæðu þess. Reyndar talar Jesús ekki um „helvíti“ heldur „Gehenna“, sem er Hinnómsdalur suður af Jerúsalem þar sem úrgangi frá borginni var brennt. (Þannig mætti hugsanlega færa rök fyrir því að „Sorpa“ væri betri þýðing en „helvíti“.)
Bakþankar eru mjög stuttir, um 350 orð. Þessi færsla er þrisvar sinnum lengri. Frá 30. apríl 2005 eru nákvæmlega 664 dagar. Það þýðir að sl. tæp tvö ár hafa pistlar um trúmál eftir mig að jafnaði birst á 58 daga fresti. Það hlægir mig að 350 orð um trúmál á 58 daga fresti geti gert einhvern „þreyttan á svona prédikunum á baksíðum“. Viðkomandi er greinilega haldinn erfiðari þráhyggju gagnvart trú en ég.
Það sem ég hef gert hér í þessari færslu er að nota grísku- og söguþekkingu mína til að reyna að skilja orð Jesú í samhengi. Þetta er stundum kallað guðfræði og er kennt í háskóla. Sumum finnst þessi þekking mannskemmandi. Getur þekking verið mannskemmandi? Ég held ekki. Hins vegar veit ég af eigin reynslu að þráhyggja getur verið það.

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Fallegur boðskapur

Summa jarðar virðist hafa verið furðu jöfn í gegn um aldirnar. Fjöldi atómanna, sem hér eru á sveimi og mynda reikistjörnuna með öllu sem á henni er, hefur víst sveiflast sáralítið síðastliðin árþúsund. Þetta þýðir auðvitað að ekki er hægt að búa neitt nýtt til nema eyðileggja eitthvað sem var fyrir. Hráefnið er takmarkað. En hvernig er það valið hvað eyðist og hvað lifir?
Í Matteusarguðspjalli 7:19 segir Jesús: „Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.“ Þetta finnst mér fallegur boðskapur, þótt einhverjir megi ekki til þess hugsa að alheiminum sé þannig fyrir komið að einhverju verði að eyða. Sú skoðun er víst ekki í tísku um þessar mundir að það skipti einhverju máli hvaða ávexti maður ber í lífi sínu hérna megin grafar.
Það sem mér finnst fallegt við þennan boðskap er tvennt. Í fyrsta lagi er það engum duttlungum háð hvað lifir áfram og hvað deyr. Það sem ber góðan ávöxt lifir, svo einfalt er það. Hitt er brennt, það rennur saman við sköpunarverkið og verður að hráefni í nýja sköpun. Þetta er í raun náttúruvalskenning.
Hitt sem er fallegt við þessa speki er að engum er áskapað að vera kastað í eld. Hver maður hefur frjálsan vilja til að ákveða breytni sína sjálfur. Öll eigum við val, við ráðum því sjálf hvaða ávexti við kjósum að bera, því Jesús er hér auðvitað að tala um ávexti andans en ekki frjósemi holdsins.
En hverjir eru ávextir andans? Jesús talar um að gera öðrum mönnum það sem maður vill að þeir geri manni. Þetta finnst sumum ógeðfellt. Þeim finnst ósanngjarnt að ekki dugi til sáluhjálpar að passa sig að vera ekki beinlínis vondur við aðra, að gera þeim ekki það sem maður vill ekki að þeir geri manni. Jesús gengur lengra. Hann leggur beinar verknaðarskyldur á herðar okkar, enda vissi hann sem er, að það er hægðarleikur að valda öðrum óbætanlegu tjóni með aðgerðarleysinu einu saman.
Nú á dögum er ekki vinsælt að fjasa um eld og eyðileggingu. Það er eins og það sé einhver miðaldakeimur af því. Nútímamaðurinn vill vera látinn í friði, engar skyldur eða skuldadægur – bara skilyrðislausan kærleik og fyrirgefningu. Gallinn er bara sá að kærleikur getur aldrei birst sem sinnuleysi.
Bakþankar í Fréttablaðinu 17. 2. 2008
*Af einhverjum ástæðum varð mér það á að fara ekki rétt með ritningarstaðinn í Fréttablaðinu. Ég biðst velvirðingar á þeirri handvömm, sem hefur verið leiðrétt hér.

sunnudagur, febrúar 17, 2008

Ég og Porsche-inn minn

Í fyrravor hitti ég gamlan kunningja í bókabúð Máls og menningar við Laugaveg. Ekki man ég nákvæmlega hvað okkur fór á milli, en hann spurði mig hvaða mánaðardagur væri svo ég leit á úrið mitt til að gá að því. Úrið mitt sýnir mánaðardaga. Þá uppgötvaði ég mér til mikillar skelfingar að handleggurinn á mér var ekki nógu langur til að ég sæi það nógu skýrt. Sjálfsagt átti lýsingin þarna inni einhvern hluta að máli. Alltjent varð ég að taka af mér úrið og bera það upp að ljósinu til að geta lesið mánaðardaginn. Þetta var talsvert áfall fyrir mig, ég hef nefnilega haft með eindæmum góða sjón síðan ég man eftir mér. Þetta var í fyrsta sinn sem sjónin hafði brugðist mér.
Skömmu síðar keypti ég hræódýr lesgleraugu af minnsta styrkleika í gæðaversluninni Tiger (sem er dönsk og er því kölluð „Tíjer“ á mínu heimili, ekki „Tæger“) og prófaði að lesa með þeim. Mér fannst það betra en að lesa gleraugnalaus, ég fann að stafirnir voru greinilegri og ég þreyttist ekki eins mikið við lesturinn. Ég sætti mig við það með glöðu geði að vera farinn að þurfa að nota lesgleraugu, því nú gerði ég mér grein fyrir því af hverju ég hafði í verið að slá svona slöku við lestur góðra bóka undanfarið.
Síðastliðið haust settist ég síðan aftur á skólabekk og hóf fullt nám með tilheyrandi bóklestri. Ég er afar þakklátur fyrir að hafa uppgötvað þessa „ellifjarsýni“ mína áður en að því kom. Ég hefði örmagnast við að reyna að verja heilum degi í bókalestur gleraugnalaus og sennilega hrosið hugur við tilhugsuninni einni saman.
Hins vegar fylgir því ákveðinn galli að þurfa bara gleraugu til að sjá það sem er í seilingarfjarlægð og sjá þá allt í móðu sem er fjær manni þegar maður er með þau á nefinu. Þetta gerir það að verkum að maður verður sífellt að ýta gleraugunum niður á nefbroddinn og vera rýndandi og skimandi, ýmist reigður eða undirleitur til að skoða heiminn á víxl yfir gleraugun og í gegn um þau. Í skólanum þurfti ég sífellt að taka þau af mér til að sjá á töfluna og setja þau á mig til að sjá á bókina. Einnig fannst mér það ókostur við þessi gleraugu að nefið á mér er þannig hannað að þegar ég var með þau í þægilegri stöðu á því strukust augnhárin við glerin. Einnig átti ákveðin baklýsing, sem annars er heppileg við lestur, það til að glampa af umgjörðinni og varpa óþægilegum geislum inn í augað. Ekki misskilja, þessi Tiger-gleraugu voru hverrar krónu virði. Þau kostuðu 300 kall.
Æskuvinur minn úr Hafnarfirði, Pétur Óskarsson, og Dóra, konan hans, hafa nýverið opnað gleraugnaverslun við Strandgötu í Hafnarfirði. Hún heitir Sjónlínan (ég mæli sérstaklega með nostalgíuhorninu). Einhvern tímann bar þessi gleraugnamál á góma í samræðum okkar, sem kannski er engin furða. Hann benti mér að það er kannski engin tilviljun að sum gleraugu kosta 300 kall en önnur hundrað sinnum meira, þótt auðvitað tryggi verðið ekki alltaf gæðin.
Þetta varð til þess að ég kíkti í búðina hans í leit að gleraugum sem hentuðu mér og fann þau. Þau eru sérstaklega hönnuð sem lesgleraugu. Þegar ég er með þau í þægilegri stöðu á nefinu dekka þau aðeins neðri hluta sjónsviðsins, þann sem skrifborðið dekkar, en þegar ég horfi frá mér horfi ég yfir þau án þess að þurfa að reigja mig eða taka þau af mér. Umgjörðin er svört og mött og endurvarpar því ekki bakljósi inn í augað. Svo hæstánægður er ég með þessi gleraugu að ég gerðist gleraugnamódel fyrir þau heiðurshjón, eins og lesendur Fjarðarpóstsins urðu varir við í síðustu viku.
Skemmtilegast finnst mér þó að þau eru „Porsche design“. Það fór þá aldrei þannig að það ætti ekki fyrir mér að liggja að eignast Porsche.

þriðjudagur, febrúar 05, 2008

102 Reykjavík*


Borgarstjórinn í Reykjavík er með læknisvottorð upp á að hann ráði við starfið sem hann gegnir. Ég veit ekki til þess að aðrir borgarfulltrúar geti státað af því. Reyndar stórefa ég að þeir, sem létu tilfinningarnar hlaupa með sig í verstu gönurnar úr ræðustól borgarstjórnar í kjölfar þeirra sviptinga sem þar áttu sér stað fyrir hundraðogeitthvað dögum, gætu allir harkað slíkt vottorð út úr samviskusömum lækni.
Borgarstjórinn er með lítið fylgi. Leikreglur lýðræðisins leyfa að litlir flokkar lendi í oddaaðstöðu sem gerir fulltrúum þeirra kleift að komast í meiri valdastöður en fylgið gefur augljóst tilefni til, eins og mýmörg dæmi eru um í ríkisstjórnum. Slíkir menn hafa oft gegnt störfum sínum með sóma og verið farsælir í embætti.
Heyrst hefur að kjósendur borgarstjórans hafi alls ekki verið að kjósa hann heldur einhvern annan, gott ef ekki einhvern allt annan flokk sem var ekki einu sinni í framboði. Auðvitað er sú umræða út í hött. Ég veit hvorki til þess að kjósendur borgarstjórans hafi strikað hann út í meiri mæli en eðlilegt getur talist né að þeir hafi verið inntir á marktækan hátt eftir forsendum sínum fyrir því hvernig þeir greiddu atkvæði. Þótt flokkur borgarstjórans mælist varla í skoðanakönnunum um þessar mundir þá veljum við okkur ekki leiðtoga í skoðanakönnunum heldur kosningum.
Ekkert af því sem einkennt hefur umræðuna skiptir m. ö. o. neinu máli. Það eru málefnin sem skipta máli og ég verð að viðurkenna að ég saup hveljur þegar ég heyrði málefnasamning nýrrar borgarstjórnar. Kaupa á húsin við Laugaveg, hvað sem þau kosta, að því er virðist í þeim tilgangi einum að „varðveita 19. aldar götumynd“. Er það þá stefna Sjálfstæðisflokksins að borgin eigi að vera í þeim bisnes að kaupa gömul hús, gera þau upp og selja eða leigja? Öðruvísi mér áður brá.
Að auki er helsta kosningamál borgarstjórans í höfn: Flugvöllurinn skal vera í Vatnsmýrinni áfram. Það þýðir að hundsa á lýðræðislega fram kominn vilja Reykvíkinga og svíkja skuldbindingar fyrri borgarstjórnar um að lúta honum. Það er hið alvarlega í málinu, ekki heilsufar borgarstjórans, fylgi eða meint sinnaskipti þess samkvæmt könnunum. Það er þarna sem manni finnst leikreglur lýðræðisins brotnar.
Bakþankar í Fréttablaðinu 3. febrúar 2008
*Þar sem prófarkalesari Fréttablaðsins þóttist vita betur en ég sjálfur hvað ég ætlaði að segja í þessum Bakþönkum var fyrirsögnin „leiðrétt“ á síðum blaðsins. 102 er einmitt póstnúmerið sem vantar í Reykjavík af því að helmingurinn af láglendi borgarlandsins fer undir flugvöll. 102 Reykjavík er ennfremur heiti á samtökum um brottflutning flugvallarins úr Vatnsmýrinni, sem ég tók þátt í að stofna á sínum tíma, en lögðu upp laupana eftir að baráttumál þeirra átti að vera komið í höfn. Mér sýnist hins vegar ekki vera vanþörf á að þau taki aftur til starfa og hvet hérmeð til þess að þau gangi í endurnýjun lífdaga. Loks hagaði kalhæðni örlaganna því þannig að 102 er fjöldi daganna sem síðasti borgarstjórnarmeirihluti var við völd.)