mánudagur, júní 26, 2006

Munkurinn sem seldi sjálfshjálparbókina sína

Nýlega gerði ég tilraun til að lesa sjálfshjálparbók, mér datt í hug að það væri vit í henni því titillinn var hnyttinn og í henni átti austræn speki að blandast vestrænni á nýjan og frumlegan hátt. Þegar spurningin "hvernig getur þér þótt vænt um aðra ef þér þykir ekki vænt um sjálfan þig?" var sett fram eins og augljóst væri að enginn gæti gert öðrum gott nema hafa náð djúpri innri sátt við sjálfan sig með tilheyrandi sálarfriði, gafst ég upp. Samkvæmt þessari bók er trixið við að öðlast þennan frið og þessa sátt í því fólgið að fara til Indlands, dýrðarríkis fátæktar og barnaþrælkunar, og hugsa þar um sjálfan sig.
Mér finnst aftur á móti eðlilegra að spyrja: "Hvernig er hægt að þykja vænt um einhvern sem hugsar bara um sjálfan sig?"
Staðreyndin er auðvitað sú að eina manneskjan í heiminum sem ekki er skítsama um það hvernig þér líður með sjálfan þig ert þú. Til að geta hjálpað öðrum, lagt öðrum lið, reist einhvern við eða stutt á einhvern hátt er persónuleg innri sátt jafn nauðsynleg og vasaljós í björtu. Saga þín og samviska skipta engu máli þegar þú gefur svöngum manni brauð. Það hefur engin áhrif á næringargildi brauðsins hvort þú ert á bömmer yfir fortíðinni og átt erfitt með að horfast í augu við sjálfan þig í spegli eða hvort hver hugsun þín sé í óaðfinnanlegum samhljómi við nið almættisins. Brauð er brauð.
Þannig að ef þú átt í erfiðleikum með að sættast við sjálfan þig og það hjálpar þér ekki að loka þig af frá öðru fólki og einbeita þér að því að hugsa þig upp í sjálfsvæntumþykju af eigin rammleik inni í hausnum á þér, þá gætirðu prófað að hætta að hugsa bara um sjálfan þig og farið út og hjálpað öðrum – án þess að skeyta um það hvernig þér líður með það og þig og þitt á meðan.
Ef þú gerir það í dag er ég viss um þér finnst pínulítið auðveldara að bera virðingu fyrir manneskjunni sem þú sérð í speglinum í kvöld en þessari sem blasti við þér í honum í morgun. Þér kynni jafnvel að þykja agnarögn vænna um sjálfan þig í kjölfar þess að þín svarta fortíð hefur skánað um einn dag.
Það besta við þessa aðferð er að ef þú gerir þetta aftur á morgun hefur hún skánað um tvo.
Bakþankar í Fréttablaðinu 25. júní

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

godur punktur, eins og svo oft vill verda hja ther. gleymum thvi tho ekki ad til er folk sem hefur allt sitt lif thjadst af svo sjuklegri medvirkni ad thad hefur algerlega tynt sjalfu ser, hefur jafnvel raektad med ser obeit a sjalfu ser og tharf, til ad na e-m bata, ad byrja a thvi ad laera ad elska og meta sjalft sig, kosti og galla.

thad er enginn einn sannleikur...

Nafnlaus sagði...

Meðvirkni eða ofvirkni, hverjum er ekki sama? Ég var að lesa um drauminn þinn og ég túlka hann þannig að þú átt að fara að hugsa meira um umhverfið á vinnunótum. Það er eitt að segja og annað að gera. Þú hefur örugglega ekki bara átt heima í vesturbænum allt þitt líf - ? Þú ert í aðstöðu til að sýna og láta heyrast. Ertu ekki þýðandi þátta? Færðu engu um það ráðið hvaða þættir eru þýddir og talsettir?

Nafnlaus sagði...

hverjum er ekki sama?? fallegt...

Saumakona - eða þannig sagði...

Góður pistill hjá þér.
"Það sem þér viljið..." o.s.frv....
Rödd sem mætti heyrast oftar í allri kröfugerð nútímans. Eða eins og gamli biskupinn okkar sagði um daginn í blaðaviðtali, fólk í dag kann vel að setja fram kröfur, en sjaldnar heyrist það tala um skyldu sína...

Nafnlaus sagði...

Að allt öðru:

Sæll annars og takk fyrir síðast! (Vonandi ertu gróinn sára þinna :))

Hafði ekki netfang hjá þér svo ég misnota bloggsíðuna til þess arna: Þetta er kvæðið eftir Þórarin sem ég sagði þér frá. (Fyrir utan öll þriggja samhljóða orðin sem hann býr til bætir hann náttúrulega um betur og býr til eitt með 2x3:

KLARINETTTITTTRÉ

Gunnnjáll um nammmálin rasssíður ræddi
radddigur takkkór um stássstofu flæddi.
Hregggerður fatttreg og hnusssöm um ydddunk
hakkkjötið rammmyglað brotttók úr krydddunk.

Krosssauminn rapppiltar svalllegan sögðu
sannnefndu rabbböndin alllengi þögðu.
Odddóra vofffælna urrrakkann svelti
illleitur hrossseppi að skakkkúm hnegggelti.

Hallleifur Innness var hummmáll um sitt, humm
hann var að renna sér klarinetttitt, humm:
-Þetta’er, humm, ekkert, humm, þettaeðahitttré,
þetta’er, humm, forláta klarinetttitttré.

-Þórarinn Eldjárn

Nafnlaus sagði...

Það á samt ekki að gera þá kröfu á sjálfan sig að sér eigi að líða vel. Frekar að reyna að vera ánægður með sjálfansig og það sem maður hefur í höndunum og reyna að spila þannig úr eigin höndum að maður sé ánægður. Þá getur manni kannski farið að líða dálítið betur ef maður er almennt að drepast úr einhverri helvítis vanlíðan alltaf.