miðvikudagur, mars 24, 2010

Nokkrar stjórnmálastefnur útskýrðar fyrir byrjendum:

· Einveldi: Þú átt tvær kýr. Einvaldurinn tekur hluta af mjólkinni.

· Hreinræktaður sósíalismi: Þú átt tvær kýr. Ríkisstjórnin setur þær í fjós með öllum hinum kúnum í landinu. Þú annast allar kýrnar jafnt og ríkisstjórnin lætur þig fá eins mikla mjólk og þú þarft þér til viðurværis.

· Skrifræðissósíalismi: Þú átt tvær kýr. Ríkisstjórnin setur þær í fjós með öllum hinum kúnum í landinu þar sem kjúklingabændur annast þær. Þú annast kjúklingana þeirra. Ríkistjórnin lætur þig fá eins mikið af mjólk og eggjum og reglugerð kveður á um að þú þurfir þér til viðurværis.

· Fasismi: Þú átt tvær kýr. Ríkisstjórnin tekur þær báðar, ræður þig til að annast þær og selur þér mjólkina.

· Hreinræktaður kommúnismi: Þú átt tvær kýr. Nágrannar þínir hjálpa þér að annast þær og þið skiptið mjólkinni á milli ykkar samkvæmt því sem hver þarf sér til viðurværis.

· Sovéskur kommúnismi: Þú átt tvær kýr. Þú þarft að annast þær báðar en ríkisstjórnin hirðir alla mjólkina.

· Kambódískur kommúnismi: Þú átt tvær kýr. Ríkisstjórnin tekur þær báðar og skýtur þig.

· Herforingjastjórn: Þú átt tvær kýr. Ríkisstjórnin tekur þær báðar og kveður þig í herinn.

· Beint lýðræði: Þú átt tvær kýr. Nágrannar þínir ákveða hvað verður um mjólkina.

· Þingræði: Þú átt tvær kýr. Nágrannar þínir velja þá sem ákveða hvað verður um mjókina.

· Anarkí: Þú átt tvær kýr. Nágrannar þínir taka sig saman um að stela þeim og drepa þig.

· Kapítalismi: Þú átt tvær kýr. Það er allt of lítill bústofn til að rekstur býlisins sé hagkvæmur. Þú ferð á hausinn og nágranni þinn, sem á 100 kýr, kaupir þær á gjafverði.

· Íslenskur kapítalismi: Þú átt tvær kýr. Ríkisstjórnin gefur vinum sínum þær. Þeir drepa þær og éta og flytja svo til útlanda. Ríkisstjórnin bannar þér að persónugera vandann.

· Íslensk velferðarstjórn: Þú átt tvær kýr sem eru að deyja úr hungri. Ríkisstjórnin bannar þér að fara á súlustaði.

Stolið og staðfært.

mánudagur, mars 22, 2010

Englar dauðans

Um daginn hringdi fornvarnarfulltrúinn í skóla sonar míns í mig. Um leið og hún kynnti sig fann ég hjartsláttinn örvast og áhyggjurnar flæða um líkamann. „Í hverjum andskotanum er strákurinn nú lentur?“ hugsaði ég. Í ljós kom að erindi hennar varðaði son minn ekki neitt heldur allt annað.
En þetta minnti mig á sögu sem gömul skólasystir mín sagði mér. Hún er nú prestur í sveit. Eitt af hennar fyrstu verkum var að afhenda fermingarbörnum sínum námsgögn. Hún ákvað að nýta tækifærið til að kynna sér staðhætti í sveitinni og keyra um prestakallið sjálf til afhenda þeim bækurnar. En henni gekk erfiðlega að finna einn bæinn. Hún renndi því í hlað á öðrum bæ til að spyrja til vegar. Þar kom eldri kona til dyra en þegar hún sá prest í einkennisskyrtu stéttarinnar ljóslifandi á hlaðinu hjá sér kom hún ekki upp einu orði heldur brotnaði saman og brast í grát. Það tók þessa fyrrum skólasystur mína dágóða stund að róa konugreyið og útskýra fyrir henni að hún væri bara að spyrja til vegar, hún ætti ekkert erindi við hana sjálfa.
Þessi gamla kona er ábyggilega hvorki heimsk né vitlaus, viðbrögð hennar voru sennilega fullkomlega eðlileg í ljósi reynslu hennar af fyrirvaralausri og óundirbúinni heimsókn prests í embættisklæðum. Slík heimsókn hefur væntanlega ávallt boðað henni harm og sáran missi. Ég tala nú ekki um ef hún hefur á þessum tíma vitað af kærum ástvini á sjó eða öðru ferðalagi. Hún hefur ekkert að skammast sín fyrir og þarf ekki að biðjast afsökunar á neinu.
Aftur á móti er það umhugsunarefni hvort prestastéttin skuldi konu þessari ekki afsökunarbeiðni fyrir að hafa ekki dúkkað upp í lífi hennar öðruvísi en þannig að viðbrögð af þessu tagi séu eðlileg við óúskýrðri heimsókn fulltrúa hennar. Það er vissulega eitt af hlutverkum prests að tilkynna fólki dauðsföll ástvina og mikilvægt að það sé gert af alúð og nærgætni. Ég hef heyrt margar hryllingssögur af prestum við slíkar kringumstæður. En þar sem þetta er eitt af hlutverkum presta er kannski einmitt þeim mun mikilvægara að það sé ekki eina hlutverk þeirra.
Þessi saga hlýtur líka að vera verðandi prestum umhugsunarefni. Hver er arfleiðin sem tekið er við? Inn í hvaða ímynd er gengið? Hve eftirsóknarvert er það hlutverk í daglegu lífi fólks að vera aldrei neitt annað en boðberi válegra tíðinda, engill dauðans?
Bakþankar í Fréttablaðinu 20. 3. 2010

mánudagur, mars 08, 2010

Um fábjánahátt


Nýlega lýsti þingmaður því yfir að 5% þjóðarinnar væru fábjánar. Fyrrum ritstjóri bætti um betur og taldi alla kjósendur Sjálfstæðisflokksins vera fábjána. Þetta held ég að sé vanhugsað, mun fleiri ástæður en fábjánaháttur kunni að vera fyrir því að fólk styður Sjálfstæðisflokkinn.

Í fyrsta lagi má nefna þá sem eru í framboði fyrir flokkinn. Fábjánaskapur væri að kjósa ekki sjálfan sig. Í öðru lagi má nefna þá sem byggja afkomu sína á frambjóðendum flokksins, börn þeirra, maka og vildarvini. Í þriðja lagi má nefna þá sem eiga persónulegra hagsmuna að gæta sem fara saman með hagsmunum frambjóðenda flokksins. Þar sem ganga má að því sem vísu að þeir muni fyrst og fremst gæta þeirra á þingi væri fábjánaháttur að kjósa gegn eigin hag. Í fjórða lagi má nefna þá sem byggja afkomu sína á hópi þrjú, um þá gildir hið sama og um hóp tvö.

Í fimmta lagi má nefna þá sem eru með frambjóðendur flokksins á launaskrá við að gæta hagsmuna sinna, hvort sem er með bitlingum eða mútum í formi veglegra styrkja til prófkjörsbaráttu og flokksstarfs. Þingmenn flokksins hafa ekki enn brugðist þeirri skyldu sinni að verja kostunaraðila sína með kjafti og klóm og því væri fáviska af þeim að styðja þá ekki til þess áfram. Í sjötta lagi má nefna þá sem eiga persónulegra hagsmuna að gæta sem fara saman með hagsmunum þeirra sem eru með þingmenn flokksins í rassvasanum. Í sjöunda og áttunda lagi má svo nefna þá sem byggja framfærslu sína á hópum fimm og sex, um þá gildir hið sama og um hópa tvö og fjögur.

Í níunda lagi má nefna pólitíska masókista, fólk sem einfaldlega nýtur þess að kveljast og fær nautn út úr óstjórn og spillingu, að sjá efnahagskerfið fuðra upp, atvinnuleysi aukast, Seðlabankann fara á hausinn og gengi krónunnar hrynja. Í tíunda lagi má nefna pólitíska sadista, þá sem hata land og þjóð og vilja hvoru tveggja allt hið versta. Um þá gildir hið sama og um hóp níu, hvatirnar eru bara aðrar.

Að öllu samanlögðu ætti að vera ljóst að mun fleiri ástæður en fábjánaháttur eru fyrir því að kjósa hið undarlega samkrull hreinræktaðrar hagsmunagæslu fyrir íslenska útgerðarólígarka annars vegar og hins vegar skipulagðrar hvítflibbaglæpastarfsemi sem á Íslandi starfar í dulargervi stjórnmálahreyfingar og kallast Sjálfstæðisflokkurinn. Að vísu skal viðurkennt að hún er líklega langalgengust þeirra.

Bakþankar í Fréttablaðinu 7. 3. 2010