þriðjudagur, febrúar 22, 2011

Hinn andfélagslegi ég

Þegar maður skrifar pistla eins og þennan kemur maður út eins og andfélagslegur mannhatari. Það er nefnilega ekki vinsælt að lýsa því yfir að manni leiðist fólk. Félagsþörfin er svo miðlæg í sjálfsskilningi nútímamannsins að maður er nánast að segja sig úr mannlegu samfélagi með því að vera ekki öllum stundum heltekinn af öðrum.

Ég verð samt að segja að ég tek eftir því í sívaxandi mæli hve mörgum hættir til að ofmeta afþreyingargildi sjálfra sín. Þegar maður segir að maður sé heima hjá sér að horfa á sjónvarpið þá heyra sumir mann t. d. ekki segja að maður sé heima hjá sér að horfa á sjónvarpið heldur að maður sé heima hjá sér að láta sér leiðast. Þeir telja sig því vera að gera manni stórgreiða með því að leyfa manni að veita sér athygli í staðinn. Þeir virðast halda að hversdagslegar vangaveltur þeirra um hugðarefni sín fullnægi grunnþörfum manns mun betur en það sem maður hafði af eigin frumkvæði kosið að veita athygli þá stundina. Þeim finnst að það hljóti að vera miklu meira gefandi fyrir mann að hjala við venjuleg meðalmenni um daginn og veginn heldur en að njóta tilþrifa snillingsins Davids Suchets í túlkun hans á Hercule Poirot í einhverri BBC útgáfu á sígildri morðgátu eftir Agöthu Christie í sænska ríkissjónvarpinu, svo dæmi sé tekið. Það skal að vísu viðurkennt að gæði íslensks sjónvarpsefnis, sem mestanpart gengur einmitt út á að fylgjast með venjulegum meðalmennum kljást við óáhugaverð viðfangsefni, gætu ýtt undir þennan misskilning.

Ekki misskilja mig. Ég hef yndi af góðum félagsskap. Mér finnst hann dásamlegur. Mér finnst sushi líka dásamlegur matur. Mér finnst þríleikurinn um Hringadróttinssögu vera dásamlegar kvikmyndir. En það þýðir ekki að ég líti hvenær sem er á það sem himnasendingu að geta hent því frá mér sem ég er að gera til að éta sushi eða horfa á Hringadróttinssögu.

Mér finnst gott að geta sýnt fólki þá athygli sem það þarfnast. En ef ég er að lesa góða bók, þrekvirki magnaðs sagnameistara, þá verður Jói Jóns, sé erindi hans við mig ekki brýnt, að sætta sig við að félagsskapur hans stenst ekki samanburðinn. Það er ekki illa meint. Það er bara þannig.

Það er ákveðin list að vera sjálfum sér nógur. Illu heilli virðist mér hún vera á slíku undahaldi að ákveðinn hópur fólks geri sér núorðið ekki grein fyrir því að það sé yfirhöfuð hægt.

Bakþankar í Fréttablaðinu 19. 2. 2011

föstudagur, febrúar 11, 2011

Frú biskup

Kristin kirkjuhefð er gegnsýrð af karlrembu. Því miður. Þótt þar hafi miðað í rétta átt á undanförnum áratugum, einkum meðal mótmælendakirkna, er þó enn langt í land með að jafnrétti sé náð. Enn neita margar helstu kirkjudeildir heims að veita konum prestvígslu. Enda er arfleifðin ekki beysin. Sjálfur Marteinn Lúther skrifaði að konur væru ekki færar um að ræða alvörumál öðruvísi en ruglingslega og afkáralega. Ágústínus kirkjufaðir og Tómas Akvínas leyfðu sér jafnvel að efast um fulla mennsku kvenna. Samt tekur sköpunarsagan af allan vafa um að konan er sköpuð í Guðs mynd til jafns á við karlinn: „Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann í Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.“ (1Mós 1.27) Lagaákvæði feðraveldis frá bronsöld, sem varðveitt eru ásamt trúartextum í Gamla testamentinu, hafa verið notuð til að fela þessa grundvallarstaðreynd trúarinnar: Við erum öll í Guðs mynd jafnt.
Ljóst er að kynferði Krists og postulanna var aðeins líffræðileg, söguleg staðreynd og praktísk nauðsyn án nokkurs hjálpræðisgildis í sjálfu sér. Dauðarefsing lá við því að konur prédikuðu. Fæst okkar hefðu heyrt Jesú getið hefði hann fæðst stúlka. Kvenpostular hefðu verið sendir út í opinn dauðann. Kærleiksverk Krists beindust að hinum undirokuðu, ekki síst konum. Fyrsta manneskjan sem hann reisti frá dauðum var 12 ára stúlka (Mk 5.41-42), en líf þeirra var til fárra fiska metið í Palestínu fyrir 2000 árum. Jesús andmælti lögbundinni dauðarefsingu yfir bersyndugri konu (Jh 2.7). Sjálft fagnaðarerindið, „hann er upprisinn“, var fyrst falið konum (Mt 28.6), en þær voru svo lágt skrifaðar að vitnisburður þeirra var ekki einu sinni tekinn gildur fyrir dómstólum. Af bréfum Páls postula er ljóst að konur gegndu ábyrgðar- og leiðtogahlutverki í frumkirkjunni. Hvað fór úrskeiðis?
Nýleg skoðanakönnun sýnir að innan við 18% íslenskra unglinga telja konur jafnhæfar körlum til að vera trúarleiðtogar. Á hinum Norðurlöndunum er þetta hlutfall hvergi undir 50% og í Danmörku er það 80%. Eitthvað mikið er að. Við þessu þarf að bregðast. Hluti skýringarinnar gæti verið í því fólginn að á íslensku hljómar orðasambandið „frú biskup“ enn jafn ankanalega og orðasambandið „frú forseti“ gerði allt til ársins 1980. Sem betur fer er auðvelt að breyta því – ef viljinn er fyrir hendi.
Pistill í röðinni Öðlingurinn sem birtist í Fréttablaðinu 9. 2. 2011

mánudagur, febrúar 07, 2011

Æxlunartúrismi


Fyrirsögn þessa pistils er nýstárlegt orð í íslensku. Þetta er tilraun til að þýða enska hugtakið „reproductive tourism“ á íslensku. Fyrirbærið hafði lítið verið rætt hérlendis þangað til nýlegir atburðir urðu til þess að setja það í brennidepil. Umræðan byggði þó einkum á tilfinningum sprottnum af ljósmynd af nýfæddu barni og því var meginniðurstaða hennar afar fyrirsjáanleg. Hver getur sagt nei við nýfætt barn? Að mínu mati er aftur á móti full ástæða til að velta hinni siðferðilegu hlið fyrir sér án þess að setja málið í samhengi tiltekinna einstaklinga.
Æxlunartúrisma hefur verið líkt við kynlífsferðamennsku – við litlar vinsældir. Sú samlíking er þó ekki svo langsótt. Í báðum tilfellum selja fátækar konur afnot af líkama sínum til lengri eða skemmri tíma til að fullnægja löngunum betur stæðra vesturlandabúa. Munurinn er annars vegar fólginn í löngunum kaupendanna – löngun í barn og löngun í kynnautn – hins vegar í siðferðilegu mati á þjónustunni. Það er álitið ljótt að sofa hjá fyrir pening en fallegt að fórna sér til að bæta og göfga líf annarra. En hér er ekki um eiginlega fórn að ræða heldur launaða vinnu. Þess vegna er víða gerður greinarmunur á velgjörðarstaðgöngumæðrun og staðgöngumæðrun gegn greiðslu. Hér er einnig gengið út frá því að kynnautn fegri ekki eða göfgi líf neins.
Við ættum að horfast í augu við þá staðreynd að það heyrir ekki til mannréttinda að eignast börn. Mannréttindi verður að vera hægt að tryggja. Engin ríkisstjórn getur tryggt borgurunum barneignir. Læknavísindin leitast aftur á móti við að bæta líf fólks og því er eðlilegt að þau seilist inn á þetta svið. En er rétt að flokka aðgang að þessari heilbrigðisþjónustu undir mannréttindi á sama tíma og aðgengi alls þorra jarðarbúa að viðunandi heilsugæslu er eins bágborið og raun ber vitni? Mannréttindi eru nefnilega ekki teygjanlegt hugtak. Þau taka ekki mið af kringumstæðum hverju sinni. Mannréttindi Indverja og Íslendinga eru hin nákvæmlega sömu. Alltaf.
Með aðildinni að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hafa Íslendingar skuldbundið sig til að hafa hagsmuni barna í fyrirrúmi. Það tel ég hafa verið gert í nýlegu dæmi. En það fríar okkur ekki þeirri ábyrgð að móta okkur heildstæða afstöðu til málsins. Hana verður að byggja á vitrænni siðfræði, ekki ljósmynd af nýfæddu barni.
Bakþankar í Fréttablaðinu 5. 2. 2011