þriðjudagur, desember 25, 2007

Vor Guð er borg á bjargi traust


Undanfarið hefur verið kvartað undan því að afhelgun samfélagsins sé skemmra á veg komin hérlendis en æskilegt væri. Umræðuefnið er brýnt og það ber að taka alvarlega. Auðvitað ætti hið opinbera ekki að gera upp á milli trúfélaga og óeðlilegt er að kvarta undan slíkum málflutningi. En hann tekur stundum á sig aðra mynd. Fólk fullyrðir jafnvel að trúarsannfæring sé lygi og hræsni, það lýgur hatrammri baráttu gegn menntun og vísindum upp á Þjóðkirkjuna og emjar síðan eins og stunginn grís þegar það er kallað hatrammt sjálft.
Vor Guð er borg á bjargi traust. Kjánar fá ekki kollvarpað henni. Þess vegna er rangt að stilla þeim upp sem erkifjendum Guðs kristni í heimi. Með því er þeim gert hærra undir höfði en þeir verðskulda, eins og beljaki gerir mýflugu þegar hann vælir undan biti hennar. Guðlastið er ekki annað en persónulegt tilbeiðsluform kjánanna á sínu eigin ágæti. Hinn raunverulegi óvinur kastar ekki skít í gremju, hann nagar undirstöðurnar.
Óvinurinn er trúin sem er játuð í raun, ekki með munninum á tyllidögum, heldur í hjörtunum hvunndags og iðkuð með fótum og greiðslukortum. Óvinurinn er blygðunarlaus skurðgoðadýrkun. Andleg verðmæti eru heimfærð upp á dauða hluti. Eins og guð býr í tóteminu býr sjálfsvirðingin í jeppanum, frelsið í golfsettinu og sálarróin í mósaíklistaverkinu í jógasalnum í kjallaranum á glæsihúsinu sem ryðja þurfti ágætishúsi úr vegi til að rýma fyrir. Kaupmenn veigra sér ekki við því að auglýsa munaðarvarning að andvirði margra mánaðarlauna verkamanns sem gjafir í tilefni af fæðingu hans sem fæddist í fjárhúsi til að vera ofsóttur fyrir kærleikann. Hinir göfugu gefa ekki lengur ölmusu þannig að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir, heldur sem fermetrastórar ávísanir á síðum blaða, til að almenningur sjái gæsku þeirra og fyrirgefi þeim okrið og svindlið.
Óvinurinn er ekki frjáls félagasamtök um kristilega breytni á forsendum annarra lífsskoðana en kristni, jafnvel þótt þær séu aðeins illa dulbúin trú á eigin mátt og megin. Óvinurinn er hve kristilegt siðgæði í verki er langt frá því að vera almennt.
Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól.
Bakþankar í Fréttablaðinu 23. 12. 2007

þriðjudagur, desember 11, 2007

Móðir mín, maðurinn

Þegar ég var lítill var mamma einu sinni í framboði. Blaði var dreift í öll hús í bænum með myndum af frambjóðendum flokksins á forsíðu. Fyrir neðan hverja mynd var nafn frambjóðandans og starfsheiti. Fyrir neðan nafn móður minnar stóð „skrifstofumaður“, en ekki „skrifstofukona“ eins og venjan var þá.
Ég spurði mömmu út í þetta og hún útskýrði fyrir mér að hún hefði sama starfsheiti og starfsbræður hennar því hún ynni sama starf og þeir. Konur væru líka menn og fyrst enginn titlaði sig „skrifstofukarl“ sæi hún enga ástæðu til að taka sérstaklega fram í starfsheiti sínu að hún væri kona. Kynferði hennar skipti engu máli í þessu samhengi. Ég gat ekki annað en fallist á þessi rök og eftir á að hyggja hugsa ég að þetta hafi verið mín fyrstu kynni af femínisma, þótt enn ættu eftir að líða nokkur ár þangað til ég heyrði það orð fyrst.
Árin liðu, ég varð gelgja og öðlaðist vanþroskaðan karlrembuhúmor. Þá gerði ég það eitt sinn í skepnuskap mínum, þegar ég ritstýrði símaskrá nemendafélags Flensborgarskólans í Hafnarfirði, að titla þá formenn klúbba, sem voru stelpur, „forstöðukonur“ en ekki formenn. Þetta var skilið sem svívirðilegur pungrottuháttur, sem þetta auðvitað var, og þótti ekki fyndið, sem það auðvitað var ekki.
Enn liðu ár. Kvennaframboð og femínismi litu dagsins ljós. Það varð konum kappsmál að verða ekki þingmenn heldur „þingkonur“, jafnvel þótt orðið „þingkarl“ hefði aldrei heyrst. Barnalegur ungfolahroki minn, að kvengera starfsheiti, var orðinn strangfeminísk yfirlýsing, langt á undan samtíma sínum. Það sem fáum árum áður hafði verið niðrandi gagnvart konum var orðið eindreginn málstaður þeirra.
Þetta sýnir aðeins að orð hafa enga aðra merkingu en þá sem ákveðið er að gefa þeim hverju sinni. Þannig merkir orðið „herra“ í minni málvitund aðeins sá sem er hæstráðandi, „herrann“ er æðstur. Megineinkenni feðraveldisins, sem nú er í andarslitrunum, er einmitt að herrann er ávallt karl. Það gerir orðin „herra“ og „karl“ samt ekki að samheitum. Því ætti það að mínu mati að vera ánægjulegur áfangi á leiðinni til jafnréttis að konur séu „herrar“ ekki síður en karlar.
Bakþankar í Fréttablaðinu 9. 12. 2007

þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Hvílíkt lán

Þegar ég bjó í Svíþjóð fyrir hartnær átján árum kynntist ég íslenskum systkinum sem þar bjuggu. Bróðirinn var í sambúð, þau hjónaleysin áttu unga dóttur og konan var barnshafandi á ný. Hún varð fyrir því að fá einhvern kvilla á meðgöngunni sem gerði það að verkum að síðustu mánuði hennar þurfti hún að vera rúmliggjandi eða að minnsta kosti að forðast alla líkamlega áreynslu. Hvorugt var tekjuhátt og ekki urðu veikindin til að bæta hag þeirra, þótt félagslegt öryggisnet í landinu kæmi í veg fyrir að þau færu á vonarvöl.
Þau voru bíllaus og þótti þeim brýnt að ráða bót á því vegna stækkunar fjölskyldunnar og erfiðleika konunnar við að ferðast af eigin rammleik. Þau fundu bíl, gerðu áætlun og sóttu um lán til að geta keypt hann. Lánið ætluðu þau að borga á einu ári. Þau lögðu fram upplýsingar um fjölskylduhagi og tekjur og biðu milli vonar og ótta. Viku síðar voru þau kölluð á fund bankastjórans sem tjáði þeim að farið hefði verið yfir málið og eðlilegt hefði þótt að bíl þyrftu þau að eignast. Þeim var hins vegar sagt að þau þættu of tekjulág til að geta endurgreitt lánið á einu ári. Þeim var því boðið að greiða það á tveim árum í staðinn.
Þegar systirin frétti þetta hugsaði hún sér gott til glóðarinnar. Hún var talsvert tekjuhærri en bróðir hennar, sambýlismaður hennar hafði líka ágætar tekjur og þau voru barnlaus. Hún hlyti að þykja betri pappír en bróðirinn. Hún sótti því um lán til að geta keypt bíl. Viku síðar var hún boðuð á fund. Þar var henni tilkynnt að samkvæmt upplýsingum um fjölskylduhagi hennar væri ekki ljóst af hverju hún þyrfti bíl og að ef hana langaði í bíl hefði hún nægar tekjur til að kaupa hann, til þess þyrfti hún ekki lán. Henni var því synjað um lánið.
Þetta þótti Svíum mjög eðlileg bankastarfsemi. Enda hristu þeir stundum hausinn yfir muninum á sér og Íslendingum og drógu hann saman í þessum orðum: „Ef Sví vinnur milljón í happdrætti fer hann með hana í bankann, leggur helminginn inn og kaupir bíl fyrir hinn helminginn. Ef Íslendingur vinnur milljón í happdrætti fer hann með hana í bankann, fær lánaða milljón og kaupir sér bíl fyrir tvær.“
Bakþankar í Fréttablaðinu 25. 11. 2007

þriðjudagur, nóvember 13, 2007

Óendanlegur ósennileiki tilverunnar


Tilvist Guðs verður hvorki sönnuð né afsönnuð með rökum. Það er fullreynt. Sannfærðustu trúmenn hafa ekki getað kveðið efasemdarraddir endanlega í kútinn og hörðustu trúleysingjar hafa þurft að sætta sig við þá niðurstöðu að Guð sé „kannski til“. Að vísu kjósa þeir yfirleitt orðalagið að hann sé „næstum því örugglega ekki til“, sem er auðvitað það sama. Tilvist Guðs brýtur m. ö. o. ekki í bága við grundvallarlögmál rökfræðinnar, hún er bara óendanlega ósennileg.
Annað sem er óendanlega ósennilegt er heimurinn. Alheimsfræðingar ná eiginlega ekki upp í það hve ólíklegt það er að miklihvellur skyldi leiða hann af sér. Væri þyngdaraflið brotabroti meira hefði allt hrunið saman aftur á augabragði, brotabroti minna og enginn samruni efnis hefði getað átt sér stað. Fleiri breytur þurfa að vera svo hárréttar að ekki má skeika nema brotabroti af hundraðshluta til að grunnforsendur efnisheimsins bresti.
Sömuleiðis er lífið á jörðinni óendanlega ósennilegt. Til að geta fóstrað líf þarf reikistjarna að vera í hárréttri fjarlægð frá hárréttri tegund af stjörnu. Ef við værum ögn nær sólinni eða fjær væri jörðin lífvana auðn, annað hvort heit sem víti eða helfrosin. Jörðin sjálf þarf ennfremur að vera af hárréttri gerð, bráðin að innan til að tryggja lofthjúp sem vörn gegn bráðdrepandi geimgeislun, og úr hárréttum efnum í hárréttum hlutföllum. Jafnvel tunglið þarf að vera af hárréttri stærð og massa til að tryggja stöðugan möndulsnúning. Enn höfum við ekki fundið aðra reikistjörnu sem uppfyllir þessi skilyrði. Ekkert annað en gríðarlöng halarófa fjarskalega ósennilegra tilviljana í heims- og jarðsögunni gera tilvist okkar mögulega. Þessu má líkja við að kasta upp teningi með milljörðum milljarða hliða, veðja aleigunni á að ein ákveðin komi upp og vinna!
Í raun er lífið, alheimurinn og það allt svo óendanlega ósennilegt að hver röklega þenkjandi maður myndi afskrifa þann möguleika samstundis ef hann væri ekki svo óheppinn að vakna á hverjum morgni til þessa raunveruleika, umvafinn af og órjúfanlega innifalinn í þessum efnisheimi. Það er því ekki laust við að maður fái það á tilfinninguna að einhver hafi haft hönd í bagga, að útkoman sé „fixuð“. Hver gæti staðið fyrir slíku?

mánudagur, nóvember 12, 2007

Fimmtán mínútur fyrir Kisu

Kisa er að slá í gegn á netinu. Hún hefur fengið mynd sína birta á hinni vinsælu vefsíðu catsthatlooklikehitler.com og er sem stendur með einkunnina 9 (af 10). Við erum öll voða spennt fyrir hennar loppu, en sjálf er hún með alla fætur á jörðinni og tekur velgengninni af stakri yfirvegun.

mánudagur, október 29, 2007

Súðir vanþekkingarinnar


Vegna anna í námi mínu og ýmsu öðru hefur þessi síða mín verið í hálfgerðum hægagangi síðan í haust. Ég hef látið mér nægja að setja inn Bakþankana mína hálfsmánaðarlega og ætlaði að láta það duga. Hins vegar langar mig nú að setjast niður og rasa aðeins út, vegna þess að ákveðin hugsunarvilla er of yfirþyrmandi í umræðunni um nýju biblíuþýðinguna til að ég ráði við að sitja aðgerðarlaus hjá. Auk þess birtist þessi hugsunarvilla úr svo mörgum ólíkum áttum að fjölmiðlar hafa tekið hana upp sem staðreynd. Nýlega var forsætisráðherra m.a.s. spurður hvort hann hefði ekki haft efasemdir um að færa páfanum nýju Biblíuna að gjöf vegna þessarar gagnrýni. Því verður að spyrna við fæti og afhjúpa hana áður en hún fer í sögubækur sem vitrænt innlegg, því ef sama lygin er endurtekin nógu oft verður hún að sannleik – eins og alkunna er.
Hugsunarvillan er í því fólgin að einatt er klifað á því í umræðunni að Biblíunni hafi verið „breytt“, rétt eins og þýðingin frá 1912 – 1914 (væntanlega ásamt uppfærslunum sem gerðar voru fyrir 1981 útgáfuna) hafi verið innblásin af heilögum anda og sé sú eina rétta og öll frávik frá henni í fyrri og síðari þýðingum séu „falsanir“ vondra manna sem séu að „breyta“ hinu „sanna“ orði Guðs af annarlegum hvötum, það sé eitthvað ískyggilegt samsæri (e. „sinister plot“) í gangi. Nú síðast lætur hinn annars alla jafna marktæki Illugi Jökulsson vaða á súðum vanþekkingar sinnar í grein í 24 stundum, sem birtist sl. laugardag. Gætir þar annarlegrar meinfýsni í garð honum fróðari manna sem fer honum illa. Fyrirsögnin er hugsunarvillan sjálf í eins skýru og skorinorðu formi og hægt er að setja hana fram: „Að breyta bók“.
Öll þýðing er túlkun. Þessu gera múslimir sér svo glögga grein fyrir að þýðingar á Kóraninum eru einfaldlega ekki viðurkenndar sem Guðs orð. Kóranþýðingum fylgir þess vegna yfirleitt arabíski frumtextinn. Þessi virðing fyrir tungumálinu er hins vegar nánast óþekkt innan kristninnar, „illu heilli“ liggur mér við að segja.
Auðvitað varð síðasta biblíuþýðing ekki til í tómarúmi. Hún spratt ekki fram úr pennum manna sem aldrei höfðu heyrt neins konar þýðingu eða túlkun á textanum sem þeir voru að fást við, manna sem aldrei höfðu verið hluti af neins konar samfélagi, manna án menningarlegra viðmiða, siðferðilegrar innrætingar eða nokkurrar félagsmótunar, manna sem voru algerlega ósnortnir af umhverfi sínu, sögu eða siðgæði sinna tíma. Auðvitað endurspeglar þýðingin þetta allt, rétt eins og nýja þýðingin endurspeglar okkar tíma. Þurfa okkar tímar ekki einmitt þýðingu sem endurspeglar þá fremur þýðingu sem endurspeglar síðustu ár Austurrísk-ungverska keisaradæmisins?

Eingetinn eða einkasonur?

Auðvitað er það ólíðandi þegar beinlínis er farið með rangt mál til að réttlæta atvinnuróg, eins og Illugi gerir í grein sinni, þótt sennilega geri hann sér ekki grein fyrir því sjálfur hvað hann gerir. En annað orð er því miður ekki hægt að nota um það atferli að vega með staðleysum að hlutlægni vísindamanna. Illugi virðist ekki betur að sér í grísku en svo að hann étur upp allar helstu vitleysurnar úr Geir Waage, sem afhjúpaði skort sinn á grískukunnáttu afar eftirminnilega í Kastljóssþætti fyrir skömmu.
Fyrst byrjar Illugi á því að andskotast út í að orðið „monogenes“ (μονογενής) skuli ekki vera þýtt sem „eingetinn“. Hann segir: „Það þýðir „eingetinn“ og ekkert annað.“ Þessari fullyrðingu lætur hann fylgja ærumeiðandi ummæli um biblíuþýðendur þar sem hann vænir þá um vísvitandi fræðafölsun.
Hins vegar er þessi fullyrðing Illuga einfaldlega kolröng. Það er alls ekki dagljóst hvernig þýða ber μονογενής. Fyrri hluti orðisins þýðir vissulega „einn“ og sá síðari „getinn“. Kennari minn í ritskýringu Rómverjabréfsins, kúrsi sem ég sit nú í hjá Guðfræðideild Háskóla Íslands, þar sem nýju biblíuþýðinguna og helstu nýmælin í henni hefur auðvitað borið á góma, vill meina að merkingin sé einfaldlega „einn getinn“. Það þurfi að fara afar langsótta leið að þessu lýsingarorði til að halda að orðhlutinn „einn“ vísi ekki einfaldlega til nafnorðins sem það stendur með, „huios“ (υἱός), þ.e. „sonur“, heldur tæknilegrar útfærslu á fyrirkomulagi síðari orðhlutans, þ.e. getnaðarins.
Einar Sigurbjörnsson, hefur svarað þessu ágætlega. Kannski þykist Illugi þess umkominn að geta leiðrétt báða þessa menn á þeirra eigin fræðasviði, en ég held að honum væri nær að biðjast afsökunar og annað hvort að dusta rykið af grískubókunum sínum eða „breyta“ þeim.
Í postullegu trúarjátningunni er Jesús ekki sagður eingetinn en aftur á móti kallaður „einkasonur“ Guðs föður almáttugs.

Stúlkan eða jómfrúin?

Hitt er svo annað mál hvernig „einn getinn“ varð „eingetinn“. Þessi áhersla á meyfæðinguna er að mínu mati er algerlega óþörf. Enda er hún augljóslega bein afleiðing af tvíhyggju hellenískrar heimspeki, holdið gegn andanum, og á skjön við kristinn mannskilning. Við erum hluti sköpunarverksins og sköpunarverkið er gott, eins og Guð klifar á í fyrri sköpunarsögunni í Fyrstu Mósebók. Maðurinn er í mynd Guðs, bæði karlinn og konan. Kynhvötin er gjöf Guðs og því góð, hana ber að umgangast af virðingu fyrir gefandanum en ekki af léttúð og virðingarleysi gagnvart gjöfinni (og þarafleiðandi þeim sem hana gaf). Kynhvatarinnar á að njóta en hvorki neyta né beita. Líkamlegar þarfir okkar eru ekki slæmar í sjálfum sér, það er óhófið sem er synd. Æðsta boðorðið er að elska Guð, náungann og sjálfa(n) sig. Það er ekki synd að fullnægja þörfum sínum í samræmi við það. Þannig er ekki synd að matast, en ofát er aftur á móti höfuðsynd.
Ímugusturinn á hinu kynferðislega er augljóslega endurspeglun hugmynda hins alltumlykjandi feðraveldis ritunartíma Nýja testamentisins þar sem hið kvenlega og undirgefna (kynhlutverk konunnar) var bein andstaða alls þess sem álitið var heilagt og göfugt. Sorðin kona var „spjölluð“, skemmd vara. Vanhelguð kona gat ekki alið af sér heilagt afkvæmi – af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Móðir guðs gat ekki hafa verið sorðin, slíkt hefði grafið undan guðdómi Jesú í hugarheimi fyrstu aldar okkar tímatals, þrátt fyrir að Jesús hafi hvað eftir annað tekið upp hanskann fyrir hina bersyndugu. Það er í lagi að sýna þeim göfuglyndi – ekki að tilheyra þeim.
Hvers vegna orðið „parþenos“ (παρθένος) er þýtt sem mey, þ.e. „hrein mey“, þegar það merkir einfaldlega unga stúlku sem orðin er kynþroska án nokkurar vísunar í kynferðislega reynslu hennar, er síðan annað mál. Óbeit guðspjallamannanna á kynlífi, sem lýsir sér í áherslu þeirra á að María hafi verið óspjölluð (Lúkas 1:34, Matt. 1:18-20), virðist mun innblásnari af menningarheiminum sem þeir voru að ávarpa en heilögum anda. Óbeit Guðs á kynlífi er nefnilega ekki meiri en svo að strax við fyrstu samfarirnar var hann í verki með Adam og Evu. Í Fyrstu Mósebók 4:1 segir: „Maðurinn kenndi konu sinnar Evu og hún varð þunguð og fæddi Kain og mælti: Sveinbarn hef ég eignast með hjálp Drottins.“
Í Gamla testamentinu er frjósemi hvað eftir annað nátengd blessun Guðs þegar óbyrjur verða barnshafandi á gamals aldri og einnig í Nýja testamentinu (Lúkas 1:5-13). Fræðimenn hafa haldið því fram að getnaður fyrir tilstilli heilags anda þurfi alls ekki að útiloka líkamlegt samræði samkvæmt skilningi frumlesenda Biblíunnar, aðkoma hans sé beintengd blessunarhugtaki menningararfleifðar þeirra.
Í postullegu trúarjátningunni er Jesús aðeins sagður getinn „af heilögum anda“ og stellingafræðin látin eiga sig.

Ástir og örlög

Í áhugaverðri bók um hinn sögulega Jesú og Krist ritningarinnar eftir J. R. Porter, sem mér skilst reyndar að hafi verið þýdd á íslensku, er greint frá þeirri kenningu að Matteus hafi dregið upp þessa mynd af hinni ólofuðu og óspjölluðu Maríu til að bregðast við þeim orðrómi, sem ýmsar gyðinglegar heimildir eru fyrir um, að Jesús hafi verið ávöxur hneykslanlegs ástarsambands Maríu og rómversks hermanns að nafni Pantera. Árið 1859 fannst legsteinn rómversks hermanns í Þýskalandi sem hét Pantera og var sagður vera frá Sídon, nálægt Galíleu. Þrátt fyrir að frelsarinn hafi verið sagður fæddur í gripahúsi eins og hver annar búpeningur og verið lagður í jötu, þótt hann hafi verið óskilgetinn og síðar flóttamaður í eigin landi, í raun deilt hlutskipti með flestum þeim sem útskúfaðir voru og smáðir, var það einum of mikið fyrir karlrembuna sem gegnsýrði samfélagið að hann gæti verið „ástandsbarn“.
Hins vegar finnst mér merkilegt hvað ástarsamband Jósefs og Maríu hefur verið lágt skrifað í gegn um aldirnar og því gerð lítil skil. Hver hefðu örlög Maríu orðið hefði Jósef neitað að ganga að eiga hana? Hvaða áhrif hafði ráðahagurinn á þjóðfélagsstöðu Jósefs? Hér er óplægður akur fyrir epíska ástarsagnahöfunda. Hvenær var ást karls á konu göfugri eða fegurri? Því auðvitað er raunverulegt mikilvægi Maríu alls ekki fólgið í meyjarhafti hennar, heldur einmitt mennsku.
En þetta var útúrdúr.

Bræður og systur

Næsta villa sem Illugi veður í varðar notkun fleirtölu orðsins „adelfos“ (ἀδελφός), þ.e. „bróðir“. Hér, eins og áður, lepur hann vanþekkinguna upp úr Geir Waage. Fleirtala orðsins ἀδελφός er ἀδελφοὶ og notar Páll postuli hana gjarnan þegar hann ávarpar hina kristnu. „Systir“ myndi vera „adelfe“ (ἀδελφὴ) og fleirtala þess ἀδελφαὶ, „systur“. Hvorugkynsmynd orðsins, sem væntanlega myndi merkja „systkin“ og vera ἀδελφόν, í fleirtölu ἀδελφα, er hins vegar ekki til. Það væri uppdiktað orð. Þegar blandaður hópur er ávarpaður er karlkynsmyndin ἀδελφοὶ, því notuð í merkingunni „systkin“ eða „bræður og systur“. Um þetta vitnar fjöldi varðveittra bréfa frá ritunartíma Nýja testamentisins. Þessu hefði Illuga átt að vera í lófa lagið að fletta upp. Ég vona að ástæða þess að hann gerði það ekki hafi ekki verið sú að honum hafi verið meira kappsmál að sverta biblíuþýðinguna og þýðendurna en að hafa það sem sannara reynist.
Að þýða ἀδελφοὶ sem „bræður og systur“ er því einfaldlega hárrétt þegar blandaður hópur er ávarpaður, ég tala nú ekki um ef hin ávörpuðu eru nafngreind á eftir og hluti nafnanna er kvennöfn. Það eina sem ástæða er til að fetta fingur út í við þá þýðingu er að neðanmáls skuli þýðingin „bræður“ vera nefnd sem „bókstafleg“. Þýðingin „systkin“ er nefnilega alveg jafnbókstafleg.
Hér tala ég út frá menntun minni og námi í forn-grísku í Háskóla Íslands, sem ég hef hlotið hjá aðilum sem ég tel marktækari átorítet um forn-gríska málnotkun alþýðu manna á fyrstu öld e.Kr. en Illuga Jökulsson, með fullri virðingu fyrir þeim sjóðum fróðleiks og þekkingar sem hann hefur sankað að sér um dagana á öðrum fræðasviðum.

Þræll eða þjónn

Loks fer Illugi mikinn í vanþóknun sinni á því að orðið „doulos“ (δοῦλος) skuli vera þýtt sem „þjónn“ en ekki „þræll“. Gengur hann svo langt að gera Jesú Krist að talsmanni þrælahalds. Það er rétt að Kristur talar ekki beinlínis gegn þrælahaldi, hann hvetur ekki til þrælauppreisnar, enda ekki boðberi ofeldis eða blóðsúthellinga. Hann varar einmitt við slíku. „Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein,“ segir hann (Matt. 5:39). Þar notar hann sögnina ἀνθίστημι. Merking hennar er aðeins blóðugri en einfaldlega „að rísa gegn“, hún felur í sér ofbeldi. Sagnaritarinn Josephus notar hana í þeirri merkingu í 15 þeirra 17 skipta sem hún kemur fyrir í ritum hans. Það var nákvæmlega þetta sem gyðingar gerðu árið 70 e.Kr. en það leiddi af sér eyðingu musterisins og annað sem gyðingar og restin af heiminum er ekki enn búin að bíta úr nálinni með.
Kristur leggur áherslu á að hans ríki sé ekki af þessum heimi (Jóh. 18:36). Frelsið sem hann boðar er ekki frelsi undan ánauð og þrælkun, lágri þjóðfélagsstöðu og stéttaskiptingu, heldur frelsi undan undan synd og dauða til sáluhjálpar og eilífs lífs fyrir náð Guðs, frelsi undan ótta og vonleysi til vonar, trúar og kærleika.
Hann er ekki að boða „réttlátt þjóðfélag“. Þar fer Illugi í guðspjöllin að leita Internationalsins. Jesús boðar ekki kosningarétt kvenna. Hann boðar ekki einu sinni kosningarétt karla. Að gagnrýna Krist fyrir að hafa ekki hvatt til þrælauppreisnar er jafngáfulegt og að gagnrýna Spartakus fyrir að hafa vanrækt helgihaldið. Hvernig fór líka þrælauppreisn Spartakusar? Kristur vissi hvert slíkt myndi leiða, hann elskaði mennina og hefði aldrei leitt þá eða eggjað til slíks glapræðis.
Í upphafsávarpi Rómverjabréfsins kallar Páll postuli sig „δοῦλος“ Jesú Krists. Það er þýtt sem „þjónn“. Illugi fullyrðir að það sé „sögufölsun“ að Páll kalli sig ekki þarna „þræl“ Krists. Auðvitað er úr vöndu að ráða, δοῦλος merkir hvort tveggja „þjónn“ og „þræll“, enda þjónar alla jafna ófrjálsir menn á þessum tíma. Hvort er hér verið að vísa til þjóðfélagsstöðu og stéttar eða hlutverks? Ég tel nokkuð ljóst að það sé hið síðarnefnda. Síðar segist Páll nefnilega „þjóna“ Guði í anda sínum (Róm. 1:9). Þar notar hann sögnina λατρεύω, sem merkir að „vinna fyrir, gjarnan gegn kaupi“ samkvæmt minni orðabók. Hvers vegnar notar hann ekki sögnina δουλεύω, sem er samstofna orðinu δοῦλος og notuð um nauðung? Hann lítur augljóslega ekki á sig sem þræl. Hins vegar er verkefni hans auðmjúk þjónusta – ekki þrælkun. Orðið δοῦλος vísar því ekki til þjóðfélagsstöðu í þessu samhengi heldur hlutverks … afstöðunnar til Guðs, Krists, fagnaðarerindisins eða jafnvel syndarinnar. Það væri því hrein fölsun að þýða δοῦλος sem „þræll“ í þessu samhengi.
Þetta orð er ekki notað um stétt manna og kvenna í Nýja testamentinu heldur það verkefni að þjóna, að starfa fyrir, ekki af ánauð heldur einmitt í gleði til frelsunar. Þessi málatilbúningur Illuga er því aðeins síðasta vindhöggið í þeirri löngu röð vindhögga sem grein hans er frá upphafi til enda.

Hvað varð um „kynvilluna“?

Þeir sem einna minnst er að marka í trúarlegri umræðu á Íslandi hafa haft mjög hátt um að „kynvillan“ hafi verið ritskoðuð burt úr Biblíunni. Illugi hættir sér sem betur fer ekki á þau mið og er það virðingarvert af honum. Það ætla ég ekki heldur að gera. Til þess tel ég mig skorta akademískar forsendur, enn sem komið er. Hins vegar langar mig að skrifa B.A. rigerð mína í guðfræði á sviði ritskýringar Nýja testamentisins og þótt ég hafi ekki enn ákveðið nákvæmlega hvert viðfangsefnið verður koma hugtök eins og „kynvilla“, „saurlífi“ og „hórdómur“ einna helst til greina sem stendur. Það fer dálítið eftir því hvað gert hefur verið á þessu sviði til þessa, en það hef ég ekki kynnt mér að neinu marki. Að ári mun ég því vonandi geta tjáð mig um þessi mál af þeirri þekkingu sem til þarf. Áhugasömum langar mig hins vegar að vísa á þessa grein og þessa og þessa.

Annarlegar forsendur

Það ljótasta í allri þessari umræðu er að mínu mati hinar annarlegu forsendur sem biblíuþýðendunum hafa verið gerðar upp. Þeim er legið á hálsi fyrir að falsa vísvitandi niðurstöður sínar til að þjóna pólitískri rétthugsun vorra daga. Öllu alvarlegar er varla hægt að vega að æru nokkurs fræðimanns.
Hvaða mögulegu forsendur gætu þeir haft fyrir slíku? Hvaða ískygglega samsæri ætti svosem að vera hér á ferð? Á miðöldum hefði þetta verið skiljanlegt, þegar Biblían var tæki til að stjórna heiminum. Því er hins vegar ekki að heilsa nú á dögum. Hér er um að ræða biblíufræðinga sem annað getur varla vakað fyrir en að vinna starf sitt af eins mikilli kostgæfni, metnaði og virðingu fyrir fræðunum og þeim er unnt, enda sennilega það sem þeirra verður helst minnst fyrir eftir þeirra dag. Þetta er þeirra stóra framlag til fræðanna. Hví skyldu þeir vilja leggja augljósar falsanir fyrir dóm sögunnar? Hvað er mögulega í því fyrir þá?
Einhvern veginn er mun auðveldara að koma auga á annarlegar forsendur helstu gagnrýnendanna. Gunnar Þorsteinsson, gjarnan kenndur við Krossinn, hefur verið þar framarlega í flokki. Hann hefur byggt fjárhagsveldi sitt í trúarbransanum að miklu leyti á hommahatri. Á hann annarlegra hagsmuna að gæta að halda „kynvillunni“ inni í Biblíunni? Já, svo sannarlega.
Geir Waage er annar gagnrýnandi, sem uppvís hefur verið að því að beita fyrir sig skorti á grískuþekkingu í umræðunni. Hann hefur um árabil verið einn helsti dragbíturinn á umburðarlyndi og frjálslyndi innan kirkjunnar, samansúrraður svartstakkur. Hann hefur gerst talsmaður allra íhaldssömustu viðhorfanna innan guðfræðinnar og er í margra huga beinlínis holdgerfingur þeirra. Á hann annarlegra hagsmuna að gæta í íhaldssamri túlkun biblíutexta? Já, svo sannarlega.
Svo bætist Illugi Jökulsson í hópinn. Á hann annarlegra hagsmuna að gæta? Ég vil ekki fullyrða að svo sé þótt hann sé yfirlýstur trúleysingi. Nýlega skrifaði hann grein þar sem hann lýsti fjálglega þeim létti og frelsun sem hann fann fyrir þegar hann hafnaði almættinu. Ég skildi tilfinningar hans mjög vel, enda sjálfur orðið fyrir svipaðri „hallelúja-upplifun“, sem ég myndi einmitt lýsa með svipuðu orðfæri og hann notaði til að lýsa sinni. (Í hans tilfelli væri kannski nær að tala um „hallelú-enginn-ja“ upplifun.) Einhver sérstök virðing fyrir kirkju og kristni eða hlýhugur í þeirra garð er honum a.m.k. ekkert sérstakt kappsmál, þótt ég ætli ekki að ganga svo langt að ætla honum beinan fjandskap í garð hvors tveggja.
Mín persónulega upplifun af frelsi og létti var ekki í því fólgin að hafna Guði af því að ég hafði ekki orðið hans nógu mikið var í kringum mig, eins og Illugi og fleiri hafa gert. Mér fannst ég ekki alveg geta skipað honum fyrir á þann hátt eins og þjóni eða þræl. Þvert á móti þá fólst minn léttir einmitt í því að mér skildist að ástæðan fyrir því að Guð var ekki lifandi hluti af daglegum raunveruleika mínum var sú að það er andstætt eðli hans að gerast boðflenna. Mín reynsla og fjölda annarra er sú að líknandi máttur hans gerir vart við sig um leið og maður opnar dyr sálar sinnar fyrir honum af hjartans auðmýkt og einlægni.
Guð blessi ykkur öll.

Sannleikurinn mun gjöra yður frávita


Nokkur styr hefur staðið um nýja biblíuþýðingu, eins og við var að búast, enda hefði annað verið algjört nýmæli í sögu þeirra. Núna muna að vísu fæstir eftir látunum í kringum fyrri þýðingar og sömuleiðis verður uppnámið núna flestum gleymt þegar sú næsta leysir þessa af hólmi. Einn þeirra sem þannig mun gleymast er Svarthöfði í DV sem sl. fimmtudag fullyrðir að verið sé „að ganga erinda ákveðinna hópa með því að breyta texta ritningarinnar og meiningu hans ... til að þóknast minnihlutahópum“.
Þetta er auðvitað ekkert annað en illkvittinn rógur. Hér er vegið af algerri vanþekkingu úr skjóli nafnleyndar að heiðri fremstu biblíufræðinga þjóðarinnar. Eða hafa vísindamenn á öðrum fræðasviðum þurft að sæta því í fjölmiðlum að vera borið á brýn að stjórnast af annarlegum hvötum, að bera ekki á borð það sem sannast er og réttast samkvæmt fræðunum, heldur að falsa niðurstöður sínar? Hvernig ætli viðbrögðin við slíku yrðu?
Við höfum aldrei getað gert okkur gleggri grein fyrir upphaflegri merkingu biblíutexta en nú. Vit okkar á menningarheimi og félagslegu umhverfi frumlesendanna (og þarafleiðandi skilningi þeirra á textanum) hefur aldrei verið meira. Til að komast eins nálægt merkingu frumtextans og framast er unnt er ýmislegt auðvitað þýtt öðruvísi núna en áður, þegar unnið var af minni þekkingu. Síðasta heildarþýðing Biblíunnar er frá því fyrir daga fyrri heimsstyrjaldarinnar. Að halda því fram að hún sé „sannari“ er auðvitað augljós bábilja sem stenst enga akademíska skoðun.
Þetta er sárt fyrir þá sem lagt hafa alla sína orku í bókstafstrú á þrálátar túlkunarvillur úr úreltum menningarheimi eldri biblíuþýðinga sem nú hafa verið leiðréttar. Í huga þeirra er æðsta boðorðið nefnilega alls ekki æðsta boðorðið, sem er heppilegt, því það felur m.a. í sér þá erfiðu skyldu að elska náungann. Slitrur úr Þriðju Mósebók, Rómverjabréfinu og Fyrra Korintubréfi, rifnar úr öllu samhengi, hafa meira vægi, því þar koma fyrir orð eins og „kynvillingar“, „girnd“ og „viðurstyggð“, sem auðveldara er að æpa um leið og bent er á náungann.
Sannleikurinn gerir mann nefnilega ekkert mjög frjálsan ef maður hefur reist höll sína á lygum. Þá gerir hann mann bara siðferðilega gjaldþrota.
Bakþankar í Fréttablaðinu 28. 10. 2007

þriðjudagur, október 16, 2007

Flokksræfilsháttur

Flokksræfilsháttur íslenskra stjórnmálamanna hefur nú endanlega gengið af stjórnmálaáhuga mínum dauðum. Ekkert er metið hlutlægt, engrar samkvæmni gætir, allt er skilið samkvæmt hagsmunum flokksins.
Í kjölfar síðustu borgarstjórnarkosninga fór að halla undan fæti. Þá kölluðu Sjálfstæðismenn næstverstu útreiðina í sögu sinni „glæsilegan kosningasigur“. Sú staðreynd að R-listaflokkarnir skyldu ekki tapa neinu fylgi þrátt fyrir vandræðaganginn sem einkenndi allt kjörtímabilið, var auðvitað í augum Sjálfstæðismanna engin vísbending um að þrátt fyrir allt nytu R-listaflokkarnir óbreytts trausts kjósenda. Eftir síðustu alþingiskosningar syrti enn í álinn. Þá var fylgistap Samfylkingar kallað „varnarsigur“ þar á bæ, rétt eins og ríkisstjórnir sæki á stjórnarandstöðu en ekki öfugt. Metið á þó Guðlaugur Þór sem í sjónvarpsviðtali fyrir nokkrum árum kallaði eins atkvæðis sigur Vöku í Háskólakosningum „glæsilegan“. Hvernig er eiginlega sigur sem er „ekkert sérstaklega glæsilegur“?
Frétt vikunnar var síðan hrein revía. Dagur B. Eggertsson, sem gagnrýndi síðustu borgarstjórn fyrir að vera mynduð um völd en ekki málefni, reið á vaðið með að svara því, aðspurður hvort nýji meirihlutinn væri ekki myndaður á nákvæmlega sama hátt, að undir þessum kringumstæðum giltu allt önnur viðmið. Auðvitað var öllum ljóst að eina breytingin var hvoru megin borðsins Dagur sjálfur sat. Sjálfstæðismenn vændu Björn Inga um siðleysi fyrir að koma eins fram við sig og þeir komu sjálfir fram við Ólaf F. í fyrra og fyrir að stjórnast af hagsmunum sem var í lagi að hann stjórnaðist af á meðan hann var í samstarfi við þá. Svo veinuðu þeir að vanda að margra flokka stjórn gæfist aldrei vel, þrátt fyrir að Reykvíkingar hafi í raun endurkjörið R-listann þótt hann væri ekki í framboði. Ómar sá aðeins sterka stöðu Margrétar, Valgerður kænsku Björns Inga og UVG þótti atburðarásin í heild eingöngu afhjúpa Svandísi sem hinn raunverulega leiðtoga í borginni. Er von að maður nenni ekki að vera með?
Ég óska Reykvíkingum til hamingju með nýja borgarstjórn og nýjum borgarstjóra velfarnaðar í starfi. Um leið þakka ég fráfarandi meirihluta góð verk, einkum strætókortin. Þau eru Sjálfstæðisflokknum til fágæts sóma.
Bakþankar í Fréttablaðinu 14. 10.

þriðjudagur, október 02, 2007

Ógleymanlegt óminni


Einu sinni fékk ég launaseðil sem er mér afar eftirminnilegur. Þar var ég nefnilega minntur á að ég hefði þegið greiðslu fyrir að leika djass á ákveðnum veitingastað í Reykjavík og að mér bæri að borga af henni skatt. Satt best að segja kom þetta verulega flatt upp á mig, því ég mundi hreinlega ekki eftir því að hafa nokkurn tímann leikið neins konar tónlist á þessum stað, allra síst djass, sem aldrei hefur verið í neinu sérstöku dálæti hjá mér.
Að vísu varð ég að viðurkenna að þetta tímabil, þegar þessi uppákoma átti að hafa átt sér stað, var í dálítilli móðu í huga mínum og því ekki með öllu útilokað að ég hefði tekið upp á einhverju sem ekki sæti eftir í minningunni. Hins vegar þótti mér einkennilegt að frammistaða mín í djassleik, hefði ég á annað borð tekið upp á slíku í einhverri myrkvuninni, hefði verið með þeim ágætum að ástæða hefði þótt til að verðlauna mig fyrir hana með peningum.
Í fyrstu varð ég verulega upp með mér og hugðist greiða skattinn glaður í bragði. Ég sá fram á að sennilega byggi ég yfir leyndum hæfileikum sem brystu fram þegar meðvitundin væri í lágmarki, hér blasti jafnvel við ný framabraut sem ég þyrfti ekki að hafa neitt fyrir að ná árangri á, aðeins að stunda það sem var mín helsta afþreying um þær mundir hvort sem er. Að vísu þótti mér dálítill galli að geta ekki munað eftir stærstu sigrunum á ferlinum, að algert óminni væri skilyrði, en mér þótti sá galli þó ekki það stór að hann vægi upp á móti kostunum. Þarna var hin útópíska leið til að afla fjár fundin. Ég gæti lifað á eftirlætisiðju minni.
Mér þótti þó rétt að fá þetta staðfest áður en ég gerbreytti öllum mínum framtíðaráformum og gekk á fund veitingamannsins til að fá úr þessu skorið. Þar kom hið sanna auðvitað strax í ljós. Þetta var náttúrlega ekki næstum því svona spennandi. Manngreyið hafði einfaldlega farið línuvillt í þjóðskránni þegar hann gerði launaseðlana og þessi ákveðni seðill átti ekki að berast mér heldur geðþekkum hljómborðsleikara ofan af Akranesi sem er svo ólánsamur að vera alnafni minn. Veitingamaðurinn þakkaði mér kærlega fyrir ábendinguna, þetta skyldi hann leiðrétta, hvað mig varðaði væri málið dautt.
Ekki grunaði hann að um leið dó svo miklu, miklu meira.
Bakþankar í Fréttablaðinu 30. september 2007

föstudagur, september 28, 2007

Til allra

Vinsamlegast sendið þennan texta eða einhvern álíka, kurteislegan en ákveðinn:

Dear Minister

I am deeply concerned by the reports that hundreds of monks and other peaceful protesters, including well-known comedian Zargana and member of parliament Paik Ko have been detained.

I strongly urge the Myanmar authorities to release them immediately and unconditionally, unless they are to be charged with recognizably criminal offences. I call on the authorities to ensure that, while they remain in custody, all the detainees are held only in official places of detention, and are given immediate access to lawyers, their families and any medical treatment they may require. I also call on the authorities to ensure that the detainees are not subjected to torture or any other ill-treatment.

I call on the authorities to ensure that all people in Myanmar are able to peacefully exercise the rights to freedom of expression, association and assembly without fear of harassment, intimidation or arbitrary detention, in line with international human rights standards.

Yours Sincerely

Utanáskriftin er

Foreign Minister Nyan Win
Ministry of Foreign Affairs
Naypyitaw
Union of Myanmar

Fax: +95 1 222 950 OR +95 1 221 719

E-mail: mofa.aung@mptmail.net.mm

Reynslan hefur sýnt að venjulegt fólk getur haft áhrif!

þriðjudagur, september 18, 2007

Veldi tilfinninganna

Í síðustu viku heyrði ég mætan mann fullyrða að vitræn umræða um trúmál sé í skötulíki á Íslandi, fólk geri ekki annað en að „skiptast á tilfinningum“. Mér þóttu þetta stór orð, því í mínum huga er trú fyrst og fremst tilfinning en ekki niðurstaða fræðilegrar rökleiðslu. Hvernig er hægt að gera lítið úr mikilvægi trúartilfinningarinnar?
Þetta kvöld var ný auglýsing fyrir þriðju kynslóð farsíma frumsýnd – eins og eftir pöntun – og þá áttaði ég mig á því hvað átt var við. Í kjölfarið kepptust menn nefnilega við að lýsa því hvað þeim „fannst“ um auglýsinguna, hvort hún særði „trúartilfinningu“ þeirra eða ekki. Jafnvel fulltrúar kirkjunnar tjáðu sig um auglýsinguna út frá tilfinningum sínum, en engri þeirra fjölmörgu áhugaverðu pælinga sem hún býður upp á, nánast eins og þeir hafi útskrifast úr Háskóla Íslands sem tilfinningaverur en ekki sem fræðimenn.
Það gildir nefnilega einu hvað séra eða herra Pétri eða Páli „finnst“. Á Íslandi rúmast 300.000 misólíkar tilfinningar til trúar og kristni. Sem betur fer búum við í landi þar sem hver og einn hefur rétt til að finnast það sem honum sýnist. Það er jafnfráleitt að miða tjáningarfrelsið við tilfinningalíf kirkjunnar manna og að miða það við mitt, mömmu eða Jóa í hinum endanum. Þeirra tilfinningar eru hvorki réttmætari né merkilegri en mínar, mömmu eða Jóa. Tilfinningar þeirra gefa þeim enga sérstöðu. Hins vegar eiga þeir að búa yfir þekkingu sem hvorki ég, mamma né Jói í hinum endanum höfum. Hvernig væri að miðla okkur frekar af henni?
Hverju hefði símtalið breytt? Vissi Jesús þetta ekki fyrir? Langaði hann til að ganga út í opinn dauðann? Af hverju er hann reiðubúinn til þess? Fyrir hvað fórnaði hann sér? Sannleikann? Mannkynið? Af hverju er Júdas að segja brandara? Svíkur hann Jesú fyrir peningana eða til að koma sér í mjúkinn hjá þotuliðinu? Var það guðleg forsjón að Síminn skyldi líka fara flatt á því að skipta við Júdas og auglýsa Krist sem viðskiptavin samkeppnisaðilans? Hverju ert þú reiðubúinn til að fórna fyrir sannleikann? En fyrir vinsældir? Hverja ert þú reiðubúinn til að svíkja fyrir velþóknun yfirvaldsins?
Mikill guðfræðingur er Jón Gnarr.
Hvar eru hinir?
Bakþankar í Fréttablaðinu 16. 9. 2007

fimmtudagur, september 06, 2007

Áhugavert persónuleikapróf

You scored as Emergent/Postmodern,You are Emergent/Postmodern in your theology. You feel alienated from older forms of church, you don't think they connect to modern culture very well. No one knows the whole truth about God, and we have much to learn from each other, and so learning takes place in dialogue. Evangelism should take place in relationships rather than through crusades and altar-calls. People are interested in spirituality and want to ask questions, so the church should help them to do this.

What's your theological worldview?
created with QuizFarm.com

mánudagur, september 03, 2007

Góðir Stakkfirðingar

Örnefni eru vandmeðfarin því fólk tekur við þau ástfóstri, eins og dæmin sanna. Ekki er langt síðan lá við borgarastyrjöld norður í landi vegna ágreinings um heiti á fjalli. Við sameiningu íslenskra sveitarfélaga komu upp svipuð vandamál. Sumir Keflvíkingar harðneituðu að vera annað en Keflvíkingar áfram og Njarðvíkingar tóku í svipaðan streng. Niðurstaðan var hið afleita nafn Reykjanesbær.
Nafnið er í fyrsta lagi afleitt vegna hrokans sem það lýsir. Þessu má líkja við að Ísafjörður héti skyndilega Vestfjarðabær – af fullkomnu tillitsleysi við Bolvíkinga, Þingeyringa, Tálknfirðinga og aðra Vestfirðinga.
Í öðru lagi er það afleitt vegna þess hve óþjált og tilgerðarlegt það er. Enginn tekur ástfóstri við svona örnefni, sem er í raun aðeins pólítísk þrautalending án tengsla við sögu, land eða lýð. Enda hafa Keflvíkingar purkunarlaust haldið áfram að vera Keflvíkingar og Njarðvíkingar Njarðvíkingar. Þannig skila orðin „Keflvíkingur“ og „Keflvíkingar“ 13.460 niðurstöðum séu þau „gúgluð“, „Njarðvíkingur“ og „Njarðvíkingar“ 5.250 niðurstöðum en „Reykjanesbæingur“ og „Reykjanesbæingar“ samtals 27. Nafnið er ónothæft. Fyrir vikið er sungið „Ó, Keflavík“ á Ljósanótt, en ekki „Ó, Njarðvík“ eða „Ó, Reykjanesbær“. (Hvernig skyldu Siglfirðingar taka því ef Fjallabyggðarlagið héti „Ó, Ólafsfjörður“?)
Loks er það ekki annað en hvimleið meinloka og lýti á landakortum að sveitarfélög verði að heita „bær“ eða „byggð“. Um árabil hefur verið hægt að segjast vera í Hafnarfirði án þess að nokkur vaði í þeirri villu að ekki sé átt við bæinn heldur fjörðinn sem bærinn er kenndur við.
Stakksfjörður er fallegt örnefni með merkilega sögu. Þetta er breiður og djúpur fjörður sem gengur suður úr Faxaflóa og afmarkast að austan af Keilisnesi en af Stakksnípu í Hólmsbergi á Rosmhvalanesi að vestan. Hann dregur nafn sitt af stökum klettadrangi, Stakki, sem er undan Hólmsbergi. Inn úr Stakksfirði ganga tvær víkur, Keflavík og Njarðvík. Því má færa rök fyrir því að bæði Keflvíkingar og Njarðvíkingar séu Stakkfirðingar. Það gerir þá ekki að minni Keflvíkingum eða Njarðvíkingum.
Ég óska öllum Stakkfirðingum til hamingju með hátíðahöld helgarinnar og byggð í Stakksfirði blómlegra daga um alla framtíð.
Bakþankar í Fréttablaðinu 1. 9. 2007

föstudagur, ágúst 31, 2007

Klukk

Þórunn Gréta klukkaði mig. Það þýðir víst að mér ber siðferðileg skylda til að greina frá átta atriðum varðandi sjálfan mig sem ekki eru á allra vitorði. Gjörið svo vel.

1. Ég vann einu sinni sem sviðsmaður hjá Sjónvarpinu. Mitt þekktasta (alræmdasta) verk frá þeim tíma er sennilega að hafa stjórnað vindvélinni í vídeóinu við Eurovisonlag Eyva, „Ég er vindurinn sem sem þýtur“. Ætli það sé ekki mitt stærsta framlag til íslenskrar poppsögu.

2. Á þessum tíma var þátturinn Á tali hjá Hemma Gunn á dagskrá Sjónvarpsins. Einu sinni kom hljómsveitin Sálin hans Jóns míns þangað til að frumflytja (mæma) nýtt lag. Bassaleikarinn komst ekki svo ég, sem sviðsmaður, var settur í hljómsveitarbúning, bassi hengdur á mig og ég látinn þykjast spila á hann í útsendingunni. Lagið var „Þig bara þig“.

3. Eina setningin sem ég hef fengið að segja sem leikari á sviði í Þjóðleikhúsinu er: „Gúggú, gúggú ... gúggú!“ Það var í hlutverki bilaðrar gauksklukku í Uppreisninni á Ísafirði eftir Ragnar Arnalds.

4. Árið 1989 bauðst mér skólavist í leiklistarskóla í Punjab á Indlandi. Eftir að hafa hugsað málið afþakkaði ég boðið. Ég er enn að naga mig í handarbökin yfir því. Ég hefði lært panjabi og hugsanlega orðið Bollywoodstjarna.

5. Ég hef komið í öll pláss á Íslandi nema Hrísey (og Litla-Árskógssand og Hauganes ef þeir staðir teljast til „plássa“).

6. Ég er þýðingapervert. Ég þýði enska dægurlagatexta sem ég heyri í útvarpinu mér til afþreyingar (t. d. á ég „No No Song“ með Ringo Starr og „Three Little Birds“ með Bob Marley ef einhvern langar að flytja þá). Einu sinni þýddi ég m. a. s. eina af mínum eftirlætisbókum, „The Hitchhiker's Guide to the Galaxy“ eftir Douglas Adams („Á puttanum um himingeiminn“), sjálfum mér til skemmtunar í frístundum mínum. (Hún kom út skömmu síðar í annarri þýðingu undir nafninu „Leiðarvísir puttaferðalangsins um Vetrarbrautina“.)

7. Fjárhættuspil eru einn fárra lasta sem ég hef aldrei getað tamið mér. Mér finnst þau bæði leiðinleg og heimskuleg.

8. Í áttunda lagi er kannski við hæfi að geta þess að í dag er áttahundruðáttugastiogáttundi dagurinn í röð sem ég er edrú.

Að lokum á ég að klukka tvo í viðbót. Ég klukka Ísold og Núma.

þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Landafræði fyrir lengra komna

Á Yucatan-skaga í Mexíkó bjuggu Mayar til forna, sem er einmitt ástæða þess að á mínu heimili gengur hann undir nafninu Mayanes.

fimmtudagur, ágúst 23, 2007

Mexíkófari lætur móðan mása

Bloggfrí eru voða mikið í tísku um þessar mundir. Sjálfur er ég vegna anna við annað búinn að vera í bloggfríi í rúman mánuð (ef undan eru skildir Bakþankarnir sem ég birti hér), en ég ákvað að tilkynna það ekki neitt sérstaklega eða auglýsa – enda svosem ekki fyrirfram ákveðið hlé til einhvers ákveðins tíma. Hins vegar er ég núna nýkominn úr ferðalagi til Mexíkó sem orðið hefur mér tilefni vangaveltna sem mig langar að færa í letur, ef svo ólíklega skyldi vilja til að einhverjum öðrum en mér þættu þær áhugaverðar.

Cocoyoc 2007

Ég hef nú um nokkurt skeið setið í stjórn Íslandsdeildar Amnesty International, ber um þessar mundir reyndar þann virðulega titil „varaformaður“. Amnesty International eru alþjóðleg og lýðræðisleg samtök um 2,5 milljóna jarðarbúa um allan heim, en af þeim eru ríflega 9000 Íslendingar. Til að viðhalda lýðræðinu hittast fulltrúar allra deilda með reglulegu millibili, samhæfa reynslu sína, styrk og vonir, skerpa á áherslunum og taka ákvarðanir til framtíðar í umboði félaganna heima – á svokölluðu heimþingi.
Heimsþing samtakanna var haldið í Morelos í Mexíkó um miðjan mánuðinn og var ég einn fjögurra fulltrúa okkar Íslendinga á staðnum. Um þingið sjálft er í sjálfu sér lítið að segja, einkum var rætt um innra starf, innbyrðis samskipti og skipulag samtakanna, en minna um stefnu og áherslur enda liggja þær nokkurn veginn fyrir og voru auk þess meginefni þingsins í hitteðfyrra.
Hvað einstök mál varðar þá finnst mér sjálfum breytingar á tungumálastefnu samtakanna áhugaverðastar. Tungumál Amnesty International eru fjögur – enska, franska, spænska og arabíska. Þetta hafa verið svokölluð „kjarnatungumál“ samtakanna. Einstakar deildir hafa síðan séð um þýðingar á völdu efni á móðurmál félaga sinna. Á þessu þingi var hins vegar samþykkt að hætta að notast við þessa skilgreiningu og taka þess í stað upp „strategísk“ tungumál. Ákveðin krítería var samþykkt sem skilgreinir hvað telst „strategískt“ tungmál og þótt að vissu leyti megi segja að hún sé eins og klæðskerasaumuð utan um núverandi kjarnatungur (talaðar í fjölda landa þar sem AI er með starfsemi, ríkjandi á stórum svæðum þar sem málstaður AI þarf að heyrast) má reikna með að innan tíðar heyri fleiri tungur undir þessa kríteríu, t. a. m. rússneska og hugsanlega kínverska. Þetta held ég að ætti að auðvelda samtökunum að verða alþjóðlegri og rista dýpra, þ. e. a. s. ekki aðeins ná til fleiri landa heldur fjölbreyttari hóps innan hvers lands, því mjög víða – s. s. ýmiss staðar í Austur-Evrópu og Suðaustur-Asíu – er enskunnátta forréttindi menntastéttanna og menntun forréttindi auðstéttanna.
Stærsta (jafnvel eina) vandamál AI er sennilega vestræn ímynd samtakanna, en mikill meirihluti félaganna er evrópskur, norður-amerískur og frá Eyjaálfu, þótt þeim vaxi ört fiskur um hrygg annars staðar, s. s. víða í Suður-Asíu og Suður-Ameríku. En þetta leiðir einmitt hugann að því hvað maður býr við ótrúleg forréttindi. Það eina sem maður fórnar er hluti af tíma sínum og í staðinn fær maður yfirleitt jákvæð viðbrögð þegar maður segir frá því hvað maður er að gera, jafnvel virðingu. Þegar framkvæmdastjóri Amnestydeildarinnar í Zimbabwe kemur fram opinberlega þarf hann hins vegar að fara með fjölskyldu sína í felur á eftir. Loka þurfti kólombísku deildinni vegna þess að það þótti ekki verjandi að starfrækja hana, starfsfólkið var í stöðugri lífshættu. Bandaríska deildin er með mann í fullu starfi við að svara „hate mail“ sem deildinni berst. Þegar ísraelska deildin gagnrýnir notkun Ísraelshers á klasasprengjum í Líbanon er starfsfólk hennar kallað barnamorðingjar. Víða í múslimaríkjum er viðhorfið til AI svipað, samtökin eru álitin hluti af menningarlegri vestrænni heimsvaldastefnu – þau vilji þröngva vestrænni hugmyndafræði upp á restina af heiminum.

Forréttindapakkið á Fróni

Íslenska deildin er með 9000 félaga eða um 3% þjóðarinnar, á heimsvísu standa Færeyingar einir sig betur. Viðhorf þjóðarinnar til Amnesty International er undantekningarlítið jákvætt, samtökin njóta óskoraðs trausts og velvildar, þau þykja hlutlaus og áreiðanleg. Reyndar er áreiðanleikinn öflugasta vopn samtakanna. Ýmsir hafa reynt að hrekja þær fullyrðingar og staðhæfingar sem fram koma í ársskýrslu samtakanna, einkum afrískir harðstjórar, en enginn þeirra hefur haft erindi sem erfiði. Íslenskir fjölmiðlar eru samtökunum velviljaðir og meðal félaga er fjöldi stjórnmálamanna úr öllum stjórnmálaflokkum, meðal annars ráðherrar.
Það er ekki laust við að maður upplifi sig sem fordekrað pakk þegar maður á svona vettvangi blandar geði við fólk sem setið hefur í fangelsi vegna skoðana sinna, fólk sem býr við stöðuga ógn við líf þess og starf, fólk sem fórnað hefur öllu til að aðstoða þá sem eiga um sárt að binda, t. d. vegna alnæmisfaraldursins í Afríku. Sú almenna virðing fyrir mannréttindum, sem hér ríkir, er lúxus sem fáar þjóðir búa við. Hér er jafnrétti kynjanna í hávegum haft (miðað við það sem viðgengst annars staðar), dauðarefsing er fyrirlitin, samkynhneigðir njóta sömu réttinda og aðrir gagnvart hinu opinbera (játningar trúfélaga eru utan verksviðs samtakanna), tjáningarfrelsi nýtur meiri virðingar en víðast hvar og hópar nýnasista, kynþáttahatara, kristilegra öfgamanna og herskárra andstæðinga fóstureyðinga samanstanda af örfáum ofstækismönnum, en eru ekki öflugur þrýstihópur með ýmsa helstu valdamenn þjóðarinnar á sínum snærum eins og sums staðar. Þótt eitt og annað megi betur fara hérlendis er stundum í lagi að átta sig á því hvað maður hefur það gott og sýna þakklæti. Þakklæti er nefnilega eitthvað sem maður sýnir, þakklæti sem maður sýnir ekki er ekki þakklæti í raun heldur aðeins feginleiki.
Sem dæmi má nefna herferð Amnesty International gegn ofbeldi gegn konum – sem við álítum mannréttindabrot enda ein ljótasta birtingarmynd kynjamismununar. Herferðin naut athygli og velvildar fjölmiðla. Ásamt AI stóðu meðal annarra Unifem, Stígamót og Mannréttindaskrifstofan að þeirri herferð. (Ég biðst velvirðingar á því að ég gleymi eflaust einhverjum samtökum.) Nú ætla ég ekki að halda því fram að ofbeldi gegn konum heyri sögunni til og ekkert megi betur fara í meðferð slíkra mála. En herferðin leiddi til breyttrar löggjafar (þar sem þess er beinlínis getið í inngangi að hér sé verið að taka tillit til tilmæla ofannefndra samtaka) og breyttrar reglugerðar um framgang lögreglu þegar hún bregst við tilkynningum um heimilisofbeldi. Þetta aðgengi að fjölmiðlum og stjórnvöldum er algjör forréttindi sem baráttufólk fyrir mannréttindum annars staðar á jarðkúlunni nýtur ótrúlega sjaldan.

Andlega hliðin

En af hverju að berjast fyrir mannréttindum? Og hverju fær einstaklingurinn breytt? Við erum svo smá, getum við haft áhrif?
Áletrun á stuttermabol sem ég sá úti í Mexíkó var á þessa leið: „If you think you're to small to have an impact, try spending the night with a mosquito.“
Ímyndum okkur vogarskálar sem halla í aðra áttina því þeim megin er eitthvað ljótt sem ekki er vegið upp á móti hinum megin. Tveir menn vilja leggja sitt af mörkum, annar á stórt lóð og hinn lítið. Hvorugt lóðið eitt sér er nóg en til samans duga þau. Hvort lóðið er þá mikilvægara?
Margir líta svo á að þetta sé einfaldlega sjálfsagt mál, fólk eigi að vera gott hvert við annað, umburðarlyndi sé gott/dyggð (upp að því marki að mannréttindabrotum sé ekki sýnt umburðarlyndi), einstaklingurinn sé í eðli sínu fæddur frjáls skoðana sinna og hugsunar og allt sem hefti það frelsi hans sé af hinu illa (hvort sem menn vilja kalla það glæp, mannvonsku eða synd). Þetta er allt í sjálfu sér nógu góðar ástæður fyrir mig til að vilja leggja mitt lóð á vogarskálarnar. Nálgun AI er hins vegar önnur: „Virða á mannréttindi af því að það á að standa við þá alþjóðlegu sáttmála sem maður er aðili að.“
Auðvitað er þetta eina rétta og eðlilega nálgunin fyrir samtök á borð við AI, nálgun á forsendum alþjóðlegrar mannréttindalöggjafar. Ef við myndum hætta okkur út á brautir siðfræðinnar þyrfti varla að bíða þess lengi að samtökin færu að loga af innbyrðis deilum um skilgreiningar hugtaka á borð við „rétt“ og „rangt“ og hvaða kríteríur eigi að liggja að baki þeim. Því þótt tilfinningarök séu líka rök og andleg sannindi séu líka sannindi, þá er erfitt að ætla að láta „mér finnst“ vera grundvöll að lýðræðislegri stefnumótun samtaka með hálfa þriðju milljón félaga í öllum heimsálfum. Innan slíkra samtaka rúmast hálf þriðja milljón ólíkra „mér finnst“ yfirlýsinga. Hins vegar held ég að ekki sé laust við að andlegi þátturinn sé af þessum sökum stundum afskrifaður of fyrirvaralaust, hann sé e. t. v. léttvægari fundinn en ástæða er til.
Áður hefur verið nefnt hve vestræn ímynd samtakanna stendur vexti þeirra fyrir þrifum sums staðar í heiminum, einkum í islömskum ríkjum. Þar er jafnvel litið á þau sem áróðurstæki fyrir útlenskt gildismat sem er í beinum árekstri við menningarlega og trúarlega arfleifð þjóðarinnar. Í þessum heimshluta er menningarleg og trúarleg arfleifð oft óaðskiljanleg og þótt mannréttindayfirlýsing SÞ kveði á um að hver maður eigi að vera frjáls trúarlegrar afstöðu sinnar (ef einhverrar) er slík hugsun auðvitað barnalega útópísk gagnvart þeim sem fæðist í pakistönsku dreifbýli, svo dæmi sé tekið. Til að ná árangri verðum við að taka mið af raunveruleikanum eins og hann er og miða starf okkar við hann.
Innan allra trúarbragða eru starfandi leiðtogar sem aðhyllast skilyrðislausan náungakærleik og umfaðma þarafleiðandi öll mannréttindi í trúarafstöðu sinni. Lykillinn að árangri í mannréttindabaráttu á svæðum, þar sem litið er á mannréttindahugtakið sem erlend menningaráhrif sem brjóti gegn arfleifð þjóðarinnar, hlýtur að vera í því fólginn að styðja við, rækta og efla þann sprota sem fyrir er og hefur rætur í menningarlegum jarðvegi svæðisins – fremur en að flytja þau inn sem utanaðkomandi fyrirbæri sem dæmd eru til að mæta mótspyrnu og andstöðu, þótt ekki sé nema vegna þess eins hvaðan þau koma. Þarna er mannréttindabaráttu eflaust mun betur tekið ef forsenda hennar sprettur úr jarðvegi fólksins sjálfs. Ég er ekki frá því að þarna ætti AI að halda sig til hlés, alltjent til að byrja með, en reyna þess í stað að bakka upp þá friðflytjendur sem þegar hafa náð eyrum fólks á þess eigin forsendum.
Í Mexíkó hitti ég að máli nokkra snillinga. Einn þeirra er alþjóðalögfræðingur sem stofnað hefur AI deild í Tyrklandi, umhverfi sem er fremur fjandsamlegt fyrirbærinu. Hann talaði af miklu innsæi og þekkingu um að þótt vissulega væru mannréttindi absolút og alls ekki teygjanlegt hugtak skorti vesturlandabúa alloft „menningarlegt næmi“ til að boða þau múslimum.
Annar snillingur er starsmaður ísraelsku deildarinnar, sagnfræðingur með sérþekkingu á sögu Vestur-Evrópu upp úr siðaskiptum, en einnig fjölfróður um sögu islams auk þess sem hann þekkir gyðingdóm, bæði kenningar og framkvæmd, eins og lófann á sér. Sjálfur er hann trúleysingi, en hann talaði af mikilli virðingu um kærleiksboðskap trúarbragðanna og friðflytjendurna innan þeirra (um leið og hann lét auðvitað í ljós óbeit sína á ósveigjanleikanum og þvergirðingshættinum sem þeim hættir til að fóstra, einkum á heimaslóðum hans). Hann benti mér á samtök Rabbína með mannréttindum, sem ég hef sett tengil á hér af síðunni, og var ákaflega hrifinn af starfi þeirra. Hann taldi samtök á borð við þau og sambærileg samtök múslima nauðsynleg til að koma á friði og sátt fyrir botni Miðjarðarhafsins, AI dygðu ekki. Sums staðar er nefnilega vænlegra til árangurs að fá fólk til að hlusta á andlegan sannleik en alþjóðlegar skuldbindingar.

Heimferðin

Þótt yndislegt hafi verið í Mexíkó og umhverfið örvað hugann var ákaflega notalegt að koma heim. Skordýralífið í Mexíkó virtist nefnilega einkar sólgið í íslenskt blóð og matargerð innfæddra fór misvel í meltingarkerfi mörlandans, þótt sjálfur stæði ég undir viðurnefninu „Maðurinn með stálmagann“ sem ég var sæmdur á Indlandi 1989. Kynning Íslandsdeildarinnar á kæstum hákarli og brennivíni vakti mikla athygli og jafnvel kátínu, en minni gastrónómískan fögnuð, og er talin hafa markað tímamót í sögu heimsþinga samtakanna. Ýmsar deildir sögðust strax og heim kæmi ætla að beita sér fyrir breytingu í löggjöfinni heima fyrir á þá lund að komið yrði í veg fyrir mögulegan innflutning á meintum matvælum af þessu tagi.
Hins vegar gekk heimferðin brösuglega. Þegar ég ætlaði að tékka mig inn í flugvélina sem flytja átti mig frá Mexíkóborg til New York kom í ljós að mig vantaði einhvern miða í passann minn sem settur hafði verið þar þegar ég kom til landsins. Kaninn er með svipað sýstem, en hann hefur vit (efni) á að hefta hann inn í passann. Þetta gerir Mexíkóinn ekki. Fyrir vikið varð ég að fara í útlendingaeftirlitið á flugvellinum (sem opnaði ekki fyrr en tveim klukkustundum eftir að ég ætlaði að vera búinn að tékka mig inn), standa í biðröð eftir nýjum miða og borga fyrir hann 46 bandaríkjadali. Í fyrstu bölsótaðist ég og ragnaði innra með mér heil ósköp yfir þessu frumstæða og vanþróaða fyrirkomulagi. En svo tók ég tal við bandaríska konu sem var í sömu klemmu og kunni landi og þjóð litlar þakkir fyrir, talaði meðal annars um „litla Hitlera“. Þetta varð til þess að ég ákvað að samsama mig ekki með henni og sætta mig við örlög mín. Eftir að hafa staðið í tvo tíma upp á endann, verandi farinn að reikna allt eins með því að ná ekki vélinni minni, tók ég þá ákvörðun að líta á þetta allt sem verkefni í æðruleysi og bað aðeins um mátt til að taka því sem öfl, sem ég hefði ekkert yfir að segja, létu að höndum bera. Bingó, kortéri síðar var málið leyst, ég kominn með miðann í hendurnar og búinn að tékka mig inn. Þarna hafði ég eytt tveimur tímum í stress og vanlíðan sem hafði engin áhrif á framgang mála önnur en þau að stuðla að magasári og gera mig verr í stakk búinn til að bregðast við kringumstæðum.
Þegar til New York kom var ég aftur tekinn í yfirheyrslu af útlendingaeftirlitinu. Ég var nefnilega að koma með glænýjan passa frá Mexíkó, það vakti grunsemdir. Gamli passinn minn hafði verið í fullu gildi, en þar sem hann var ekki tölvulæsilegur taka Bandaríkjamenn, einir þjóða, ekki mark á honum og þess vegna þurfti ég að fá mér nýjan áður en ég lagði í þennan leiðangur. Það skrýtna var að ég hafði flogið í gegn um New York til Mexíkó með þennan sama passa tíu dögum áður, þar hafði hann verið lesinn af tölvu, tekin fingraför af mér og ljósmynd. Það var eins og sá sem tók við mér frá Mexíkó hefði ekki hugmynd um það og engar upplýsingar um að þessi sami passi hafði verið notaður til að komast inn í landið frá öðru upprunalandi skömmu áður. Ég fékk það á tilfinninguna að öryggisparanoja Kanans og sú gríðarlega upplýsingaöflun sem fram fer á öllum landamærum Bandaríkjanna sé ekki til neins, að engin úrvinnsla úr öllu þessu fargani gagna sem safnað er fari fram.

Veturinn

Nú er veturinn síðan að ganga í garð og heilmargt framundan. Ég er að skrifa söngleik fyrir Verzló og þýða leikrit fyrir Þjóðleikhúsið. Einhverjar morðgátur eru framundan á Hótel Búðum. Bakþankaskrifin í Fréttablaðið halda áfram, að minnsta kosti um hríð, og Orð skulu standa fara í loftið í september.
Eldri dóttirin er í Háskólanum á Hvanneyri, sú yngri er flutt til Svíþjóðar þar sem hún verður skiptinemi í vetur og einkasyninum þarf að koma sómasamlega í gegn um samræmdu prófin með vorinu. Ofan á þetta allt saman fer ég síðan í fullt nám í Guðfræðideild Háskóla Íslands. Ég ætla reyndar að reyna að láta morðgáturnar og útvarpið nægja mér með náminu í vetur, ljúka leikhúsverkefnunum í nóvember og einbeita mér að skruddunum til vors.
Það kynni því að vera að ekki sjái fyrir endann á önnum við annað og því verði bloggað stopult í vetur. Ég ætla ekki að biðjast afsökunar á því eða blogga um að ekkert verði bloggað.
Ef ég blogga ekki lengi segir það sig sjálft að þá er ég í bloggfríi. Maður á aldrei að eyða orðum í það sem segir sig sjálft.

þriðjudagur, ágúst 21, 2007

Hugleiðing um háðung

Nýlega var kvikmyndin um Simpson fjölskylduna talsett á íslensku. Ekki eru allir á einu máli um ágæti þeirrar ráðstöfunar. Af ýmsu sem látið hefur verið flakka mætti hreinlega halda að hér sé ekki um það að ræða að myndin sé sýnd með íslensku tali auk frummálsins og að í tilefni þess hafi fjögurhundruðasti þátturinn verið sýndur á íslensku auk frumútgáfunnar, en ekki bara á ensku eins og hinir 399. Nei, af viðbrögðum sumra mætti ætla að teiknuð hafi verið skopmynd af þeirra persónulega Múhameð.
Að vísu virðist andúð fólks á talsetningunni vera meiri eftir því sem það er verr skrifandi á íslensku. Þannig agnúast einn netverji út í talsetninguna í næstu færslu á eftir frásögn af keppnisferð „til Akranesar“. Guð forði honum frá því að heyra íslensku talaða.
Annar netverji er svo góður í ensku að hann segir: „Simpsons á íslensku er discrace [sic]“. Hann bætir við: „ ... dicrace [sic] fyrir þáttinn ömurlega sett inná hljóðið ömurlegar raddir bara átti ekki að setja það á islensku [sic]“. Stafsetning og greinarmerkjasetningar eru bloggarans.
Enn einn fullyrðir að þeir sem tóku þýðinguna að sér ættu að skammast sín. Nú var það aðeins sá sem þetta skrifar sem tók hana að sér og hefði verið hægðarleikur að komast að því. Fyrir hvað ég á að skammast mín veit ég hins vegar ekki. Líklega fyrir að vera í þessu starfi og þiggja krefjandi verkefni sem mér eru boðin – í þeirri trú að ekkert verði úr þeim hafi ég bara manndóm í mér til að segja „nei takk“.
Loks kallar einn þetta peningasóun án þess að geta þess hvernig 20th Century Fox kvikmyndasamsteypan hefði getað varið fé til íslenskrar tungu án þess að sóa því. Alltaf lá fyrir að talsetningin var að kröfu og á kostnað hennar.
Einhvern veginn er ég ekkert miður mín yfir þessum viðbrögðum. Í ljósi staðreynda er frekar ástæða til að vera þakklátur fyrir að vera ekki kallaður „hvítnegri“ eða hótað lífláti og líkamsmeiðingum, eins og alsiða er í netheimum þegar fólki þar er misboðið. Þegar upp er staðið er nefnilega fátt íslenskri þjóð til jafnmikillar háðungar (e. disgrace) og netgasprið sem hér líðst.
Bakþankar í Fréttablaðinu 19. ágúst 2007

þriðjudagur, júlí 24, 2007

Trúarfíkn


Í einni af skáldsögum Terrys Pratchetts kemst Dauðinn að þeirri niðurstöðu að lífið sé vanabindandi. Enginn getur hætt eftir fyrsta andardráttinn, sá fyrsti kallar á þann næsta og þannig koll af kolli uns fólk leggur sig í kjánalega framkróka og veður eld og brennistein til þess eins að halda lífi. Dauðinn á reyndar afskaplega erfitt með að átta sig á lífinu og rökleysunni sem oft einkennir það, til dæmis eðli fíknar. Því notar hann hugtakið af algerri vanþekkingu. Það gerir engan að súrefnisfíkli að geta ekki án súrefnis verið.
Fíkn er alltaf skemmandi afl. Henni fylgir leynd, skömm og kvíði. Hún lýsir sér í stjórnleysi á flestum sviðum, oft stjórnlausri stjórnsemi. Hún miðar að því að tortíma fíklinum andlega, tilfinningalega, fjárhagslega og félagslega og sviptir hann mannlegri reisn. Hún skilur fjölskyldur eftir í sárum, því fíkillinn tekur flóttann fram yfir velferð maka og barna. Hún einkennist af andfélagslegri hegðun, víðtæku ábyrgðarleysi og stanslausri sjálfshátíð; sjálfsréttlætingu og sjálfsvorkunn. Fíknin er berserksgangur sjálfshyggjunnar.
Flest sem lætur fólki líða vel getur valdið fíkn. Þannig þekkist meðal annars áfengis- og lyfjafíkn, átfíkn, spilafíkn, netfíkn, ástar- og kynlífsfíkn og jafnvel trúarfíkn. Lýsingin hér að ofan á við um þetta allt, ekki síst trúarfíknina. Trúariðkun sem lýsir sér á þennan hátt er sjúkleg.
Annað einkennir alla fíkn: Það er til lausn. Um allan heim hefur fjöldi fólks sigrast á öllum tegundum fíknar – líka trúarfíkn – eftir andlegum leiðum sem meðal annars fela í sér æðri mátt og handleiðslu hans. Þetta gerir það að verkum að margir líta svo á að fíkill í bata hafi einfaldlega skipt einni fíkn út fyrir aðra. Slíkt þekkist auðvitað, en þá láta raunveruleg batamerki eðlilega ekki á sér kræla. Yfirleitt er þetta þó sami misskilningur og ruglar saman áfengi og alkóhólisma.
Trú sem byggir á náungakærleik, auðmýkt og umburðarlyndi er ekki fíkn heldur einmitt fullkomin andstæða hennar á allan hátt. Trú sem sættir í stað þess að sundra er ekki sjúkdómur heldur einmitt lausn undan einhverju skelfilegasta meini sem herjað hefur á mannkynið.

fimmtudagur, júlí 12, 2007

Svar við getraun


Mér barst ósk um að birta rétt svar við getrauninni. Það stóð reyndar aldrei til, enda er ég ekki með það á hreinu sjálfur hvað skiltið merkir. Þessi mynd sýnir hins vegar hvernig það er staðsett á hurð léttlestar (ég held að það sé orðið, því neðanjarðar er hún ekki) í Berlín. Sennilega táknar skiltið að menn geti misst jafnvægið þegar lestin tekur af stað, jafnvel að gólfið geti verið hált í bleytu. Annars finnst mér það ólíkt Þjóðverjum, sem annars eru svo nákvæmir varðandi allt svona lagað, að hafa merkinguna ekki augljósari, t. d. með því að hafa bleytu á gólfinu eða sýna handfang sem jafnvægislausi maðurinn er að fálma eftir.

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Taugarnar í mér

Stundum tekur maður þannig til orða að maður sé illa upplagður. En ef rýnt er í orðasambandið sést að hin undirliggjandi merking þess er afar varhugaverð. Þannig líkir maður sjálfum sér í raun við kapal sem ekki gengur upp, að eitthvað vald, manni sjálfum óviðkomandi, leggi mann ýmist upp eða niður eftir eigin geðþótta, ef ekki beinlínis af handahófi. Þannig getur maður réttlætt það að vera endalaust eins og snúið roð í hund, því sá, sú eða það sem lagði mann upp þann daginn var úti að skíta og við því sé ekkert að gera.
En auðvitað leggur enginn mann upp nema maður sjálfur. Hvað mig varðar var það töluverð uppgötvun þegar ég gerði mér ljóst að það eina sem fer í taugarnar á mér er það sem ég sjálfur læt fara í þær. Vitaskuld er til fullt af fólki sem gerir sér far um að fara í taugarnar á manni. Þegar snúið er út úr fyrir manni, orð manns rangtúlkuð og manni jafnvel gerðar upp skoðanir reynir vissulega á taugarnar. Enginn er svo gjörsamlega yfir alla meðvirkni hafinn að slíkt angri hann ekki neitt. Það blundar pínulítill Zelig í okkur öllum; við viljum að öðrum líki vel við okkur.
Hins vegar ræður maður því sjálfur hvernig maður bregst við; hvort maður lætur etja sér á foraðið og lemur hausnum við steininn með því að reyna að útskýra eitthvað fyrir fólki sem er löngu búið að ákveða að skilja það ekki eða hvort maður kýs einfaldlega að láta það eiga sig. Maður þarf ekki að taka upp stríðshanskann bara af því að honum var kastað í mann.
Maður ákveður sjálfur hvort stolt manns sé svo viðkvæmt að maður verði að gerast leiksoppur allra sem ekki sýna því tilhlýðilega lotningu eða hvort sjálfsvirðing manns stendur af sér ómaklegar atlögur. Maður ræður því sjálfur hvort maður er strengjabrúða annarra eða hefur stjórn á sér, hvort maður er aðeins samansafn skilyrtra viðbragða við áreiti eins og skynlaus skepna eða hvort maður rís undir tegundarheitinu viti gæddur maður.
PS. Réttlætiskennd er síðan allt annað mál. Réttlætiskennd minni er oft misboðið. Það gerir samt ekki örlögin, náttúruöflin, Guð almáttugan eða jafnvel bara George W. Bush ábyrg fyrir því hvernig ég haga mér.
Bakþankar í Fréttablaðinu 8. júlí 2007

föstudagur, júlí 06, 2007

Fyrsta sjálfsmorðsárásin?


Í Dómarabókinni í Gamla Testamentinu, köflum 13 til 16, er sögð sagan af Samson. Engill Drottins birtist óbyrju nokkurri og tilkynnir henni að hún muni þunguð verða og muni sveinninn „ ... byrja að frelsa Ísrael af hendi Filista“ (13:5), en á þeim tíma réðu Filistar yfir Ísrael.
Svo virðist sem filiskar (filistískar?) konur hafi einkum höfðað til Samsonar, en kvennamál hans kosta 1.030 alsaklausa Filista lífið (14:19 & 15:15). Auk þess brennir Samson kornakra þeirra og uppskeru alla; „kerfaskrúf, óslegið korn, víngarða og olíugarða“ (15:5), en á öðrum lumbrar hann svo óþyrmilega „að sundur gengu lær og leggir“ (15:7). Ekki er annars getið en að þeir hafi lifað ofbeldið af, en vísast voru þeir örkumlamenn á eftir.

Fyrir rest tekst filiskri (filistískri?) konu sem heitir Dalía að blekkja Samson þannig að hægt er að koma honum undir manna hendur, en til þess þarf hann að fara í klippingu. Honum er refsað fyrir misgjörðir sínar þannig að bæði augun eru stungin úr honum. Þetta hljómar ansi miskunnarlaust, en miðað við að þarna var dauðarefsing landlæg fyrir það sem nú á dögum myndu teljast litlar sakir hlýtur þetta í ljósi tíðarandans að hafa verið fremur vægur dómur fyrir að hafa á annað þúsund mannslíf á samviskunni auk annara misyndisverka.
Síðar létu Filistar sækja hann sér til skemmtunar. Þá segir svo frá: „Þá hrópaði Samson til Drottins og sagði: „Drottinn Guð! Minnstu mín! Styrk mig nú, Guð, í þetta eina sinn, svo að ég geti hefnt mín á Filistum fyrir bæði augun mín í einu!“ Því næst þreif Samson í báðar miðsúlurnar, sem húsið hvíldi á, hægri hendinni í aðra og vinstri hendinni í hina, og treysti á. Þá mælti Samson: „Deyi nú sála mín með Filistum!“ Síðan lagðist hann á af öllu afli, svo að húsið féll ofan á höfðingjana og allt fólkið, er í því var, og þeir dauðu, sem hann drap um leið og hann beið bana, voru fleiri en þeir, er hann hafði drepið um ævina.“ (16:28 – 30)
Þarna fremur Samson m. ö. o. sjálfsvíg og tekur a. m. k. 1.031 heiðingja með sér – sem lið í því að frelsa þjóðina undan þeim – og hlýtur mika upphefð af.

Múslimir virðast því ekki eiga höfundarréttinn að konseftinu.

mánudagur, júní 25, 2007

Arg! Úff! & Æ!





Ég er alltaf dálítið svag fyrir skiltum sem sýna fólk að lenda í hremmingum.


Viltu eitthvað meira?

Í Ofvitanum segir Þórbergur Þórðarson frá því þegar afgreiðslustúlka spyr hann: „Var það eitthvað fleira fyrir yður?“ Hann varð felmtri sleginn og fór að velta því fyrir sér hvað í ósköpunum hún gæti átt við með þessari spurningu. Niðurstaða hans var sú að hún hlyti að hafa verið að gera honum ósæmilegt tilboð og kætti það hann talsvert. „Var það eitthvað fleira fyrir yður,“ hugsaði hann með sér þegar hann hélt áfram býsna rogginn í bragði. „Skyldu margir hafa fengið svona tilboð í dag?“
Samúð mín er öll með Þórbergi. Það er erfitt að vera rifinn upp úr þungum þönkum um æðstu rök tilverunnar til þess eins að vera inntur eftir einhverju jafnlítilmótlegu og því hvort maður þurfi mjólkurlítranum meira eða einn snúð enn. Ég á það sjálfur til að missa hugann á sveim og þurfa smá ráðrúm til að stilla hann aftur inn á víddina sem almennt er skilgreind sem raunveruleikinn. Þetta er líka stundum kallað að vera viðutan.
Gegnt húsinu þar sem ég bý er lítil kjörbúð sem er opin allan sólarhringinn. Ég hef komist upp á lag með að nýta mér þjónustu hennar, enda vanhagar mig alloft um eitthvað smáræði akkúrat þegar ég ætla að grípa til þess, einkum við matseld. Þá er gott að geta skotist yfir götuna og orðið sér úti um það. Reyndar hafa einhverjir íbúar hverfisins horn í síðu þessarar verslunar af því að þarna safnast víst ungt og annað vafasamt fólk saman án þess að hafa hljótt. Þetta er stundum kallað iðandi mannlíf og þykir eftirsóknarvert þegar það er annars staðar en beint fyrir utan heimili manns.
Um daginn fór ég út í búðina. Við kassann var ég einmitt spurður: „Viltu eitthvað meira?“ Ég var annars hugar og kveikti ekki alveg strax á perunni. „Vil ég eitthvað meira?“ Var þetta existensíalísk spurning? Í einni svipan fór ég yfir hlutskipi mitt í lífinu og hugleiddi vonir mínar og væntingar til tilverunnar. Niðurstaðan var sú að ég svaraði „nei“ af slíkri sannfæringu að fát kom á afgreiðslupiltinn.
Ég er ánægður með þessa verslun, hún léttir mér lífið. Ég er þakklátur fyrir að geta hvenær sem er skotist út eftir því sem mér hefur láðst að eiga nægar birgðir af. Einkum er ég þó þakklátur fyrir að vera minntur á hvað það er gott að vilja ekkert meira.
Bakþankar í Fréttablaðinu 24. júní 2007

þriðjudagur, júní 12, 2007

Bölvuð ekkisens ...


Mér finnst ótrúlega sorglegt að sjá gengið út frá því sem vísu að hæfileikinn til að læra eigi að eldast af manni, að það að vera enn að þroskast og auka við þekkingu sína sé merki um vanþroska. Auðvitað ætti þessu að vera öfugt farið. Fátt ber einmitt gleggri merki um vanþroska en að geta ekki lært, þroskast og breyst, að bíta í sig skoðanir og viðhorf sem maður er ófáanlegur ofan af hvað sem tautar og raular.
Sjálfum fannst mér það að skipta um viðhorf lengi vel jafngilda því að viðurkenna að maður væri vitleysingur sem hefði ekki haft vit á að hafa rétt fyrir sér allan tímann. Síðan áttaði ég á mig á því að það var í raun heimska dauðans. Engin lífvera er óbreytanleg fyrr en hún er orðin að steingervingi.
Fyrir stuttu færði lítið smáatriði í daglega lífinu mér heim sanninn um að í mér eimir enn eftir af hæfileikanum til að þroskast, þótt kominn sé á fimmtugsaldur. Ég lenti í slysi sem gladdi mig mjög.
Ég á forláta espressókaffikönnu. Maður hellir vatni í neðri hlutann, setur kaffi í síuna, skrúfar hana saman og setur á eldavélarhellu. Kanna þessi er einn fjölmargra smáhluta sem ég tel auka lífsgæði mín. Hins vegar brenndi ég mig illa á henni um daginn.
Einhvern tímann hefði ég bölvað könnunni í sand og ösku, talið það alvarlegan hönnunargalla að hægt væri að stórskaða sig á heimilistækjum. Öll ábyrgðin á slysinu hefði í huga mínum hvílt á framleiðandanum.
Eitthvað gerði það hins vegar að verkum að ég mundi eftir öllum þeim fjölda skipta sem ég hafði glaðst við að laga mér ljúffengt kaffi á þessari sömu könnu án þess að verða fyrir skakkaföllum, en ekki bara þessu eina skipti sem ég brenndi mig. Fyrir vikið gat ég ekki talið mér trú um að ekki væri hægt að laga kaffi á könnunni án þess að meiða sig, að hugsanlega hefði ástæða óhappsins ekki verið sú að kannan væri slysagildra heldur sú að í stað þess að hafa það í huga að ég var með sjóðandi heitan hlut í höndunum var ég að tala í símann og æpa á börnin mín um leið og ég tók könnuna af hellunni.
Mér skildist að ekkert í lífinu er idíót-proof. Ef maður hagar sér eins og ídíót kemst maður að því fyrr en varir. Það er á okkar eigin ábyrgð að haga okkur ekki eins og fífl og bölva svo heiminum fyrir að vera ekki nógu fíflvænn.


Bakþankar í Fréttablaðinu 10. júní 2007

sunnudagur, júní 10, 2007

mánudagur, júní 04, 2007

Feigir fossar

Ég hef ekki gert mikið af því til þessa að setja myndir sem ég tek á netið, aðallega af því að ég tek eiginlega aldrei myndir, en líka af því að mér finnst það sem ég hef að segja svo miklu merkilegra en það sem ég hef séð. Ég veit að margir eru mér ósammála. Nú langar mig hins vegar að breyta til og sýna ykkur nokkrar myndir sem ég tók, ekki af því að þær séu svo góðar heldur finnst mér myndefnið svolítið sérstakt. Þessi fyrsta sýnir gæsahreiður á barmi jökulsárgljúfurs.


Ég var staddur austur á Héraði í síðustu viku ásamt fjölskyldunni og síðastliðinn mánudag fórum við í langa gönguferð (mér er alvara – 8 klst.). Okkur hafði verið bent á að skemmtilegt gæti verið að ganga upp með Jökulsá í Fljótsdal, frá Egilsstöðum (bænum, ekki þorpinu) að Snæfelli, þar væru skemmtilegir fossar sem ekki væri seinna vænna að sjá því að ári yrðu þeir horfnir, þetta væri síðasta sumarið sem þeir myndu renna í sinni réttu mynd. Jökulsá verður sem sagt tekin úr þessum farvegi og sett í gegn um rör og mun dælast út úr holu í dalsmynninu þegar virkjunarframkvæmdum eystra verður lokið.

Það er óneitanlega svolítið sérstök tilfinning að skoða feigt landslag. Fossarnir sem hér sjást verða ekki svipur hjá sjón að ári þegar allt jökulvatnið verður horfið úr farveginum. Þeir munu að vísu ekki þorna alveg upp, enda renna allmargar bergvatnsár af ýmsum stærðum og gerðum í farveginn, en vatnsmagnið verður brot af því sem það á að sér að vera. Að vísu er ekki mikið vatn í ánni núna, en mér skilst að það stafi af árferði en ekki framkvæmdum.
Nú virðist ára illa fyrir jökulsár, því á föstudaginn var heimsótti ég Dettifoss og tók enga mynd, enda varð ég fyrir vonbrigðum með hann. Hann var tær og sætur, næsum krúttlegur, en ekki það öskugráa og ógvekjandi skrímsli sem ég sá síðast þegar ég sá hann, bergið nötraði ekki undir honum og svei mér ef ég sá ekki hreinlega gullin mót sólu hlæja blóm.
Fossarnir eru því ekki eins tilkomumiklir á þessum myndum og öðrum sem þið kynnuð að hafa séð af þeim, en þessar eru ekki nema vikugamlar.


Ég læt fylgja með þrjár myndir sem sýna þrjár ólíkar þverár Jökulsár á Fljótsdal, þær eru af öllum stærðum og gerðum. Sú síðasta, sú sem stóri fossinn er í, heitir Laugará ...

... af því að við hana er heit laug sem var ansi gott að hlamma sér ofan í og hvlíla lúin bein eftir gönguna. Með mér á myndinni er Ísold dóttir mín.

miðvikudagur, maí 30, 2007

Góðir grannar

Sums staðar er samkennd nágranna mikil og félagslíf og dagleg samskipti þeirra á milli í miklum blóma. Annars staðar veit fólk varla af nágrönnum sínum og vill hafa það þannig. Svo getur þetta breyst. Núna virðist mér til dæmis að samvitund og samstaða íbúa við Njálsgötuna á milli Barónsstígs og Snorrabrautar sé talsvert meiri en hún var árin sem ég bjó á efstu hæðinni á Njálsgötu 74, húsi sem fyrirhugað er að gera að athvarfi fyrir heimilislausa.
Allan tímann sem ég bjó þar þurfti ég ekki í eitt einasta skipti að eiga samskipti við neinn nágrannanna. Nú virðist þarna hins vegar vera komið nátengt samfélag fólks um bætt og fegurra mannlíf akkúrat á þessum bletti höfuðborgarinnar, samfélag sem undanfarið hefur verið iðið við að benda á þá aðför borgaryfirvalda að hinu göfuga mannlífi, sem þarna virðist hafa myndast virkt íbúalýðræði um að rækta og styrkja, sem í því er fólgin að koma ógæfufólki fyrir í einu húsanna.
Það er reyndar ekki alveg rétt að ég hafi ekki átt nein samskipti við neinn nágrannanna. Á jarðhæð þessa húss bjó nefnilega um tíma fíkniefnasali sem ég deildi stigagangi með og varð fljótt málkunnugur. Um þessar mundir reykti hann sig skakkan á Austurvelli í Íslandi í dag undir vökulum augum Jóns Ársæls, þannig að það er ekki beinlínis eins og hann hafi farið leynt með neyslu sína. Ekki varð ég var við mikil mótmæli gegn búsetu hans þarna þótt hver maður með sjónvarp, augu í hausnum og lágmarksraunveruleikatengingu hefði átt að geta áttað sig á því hvað þarna væri á seyði, enda gestagangurinn hjá honum ekkert venjulegur.
Ekki rekur mig minni til þess að nokkurn tímann hafi hlotist af því ónæði á leikskólanum Barónsborg að í fimmtán metra fjarlægð frá rólunum þar færi fram umfangsmikil fíkinefnasala. Nú hafa íbúar svæðisins hins vegar gríðarlegar áhyggjur af því að þar leggist allt uppeldsisstarf niður í kjölfar þess að útigangsmenn fái húsaskjól í íbúðinni þar sem hverfisdílerinn bjó áður.
Kannski er þó rétt að láta íbúana njóta sannmælis. Þeir eru, eins og fram hefur komið, alls ekki á móti því að heimilislausir fái heimili. Bara ekki í götunni þeirra.
Bakþankar í Fréttablaðinu 29. maí 2007

þriðjudagur, maí 22, 2007

Hvað kom fyrir?


Hvernig stendur á því að Bretar, sem gáfu okkur Monty Python, Blackadder og Wooster & Jeeves eru farnir að senda okkur Little Britain, The Catherine Tate Show og My Family?
Er til eitthvað sem heitir "gríndauði" og getur lagst á heila þjóð?

fimmtudagur, maí 17, 2007

Þegar Dabbi fór á sjóinn

Um daginn hringdi í mig blaðamaður frá Fréttablaðinu og bað mig að hitta sig og Önnu Kristjánsdóttur, vinkonu mína, að spjalli um daginn og veginn. Þar sem ég hafði svosem ekkert merkilegra að gera og hafði enga ástæðu til að afþakka boðið mætti ég. Spjallið var hið áhugaverðasta og lítill hluti þess birtist sem einhvers konar viðtal í blaðinu skömmu síðar. Vegna plássleysis rataði þó megnið af því aldrei á síður blaðsins. En sumt af því hefur verið mér afar hugleikið síðan, einkum það sem okkur fór á milli um sjómennskuna.
Það bar meðal annars á góma að við Anna höfum bæði verið á sjó, en Anna hefur auðvitað miklu meiri reynslu af því en ég. Ég var eitt sumar á menntaskólaárunum á skaki á tveggja tonna trillu frá Hafnarfirði og síðan var ég eina vetrarvertíð, 1990 – 1991, háseti á línubát frá Sandgerði. Þetta var dagróðrabátur sem reri með tvöfalda línu. Ég var spurður að því hvort ég mælti með því að ungir menn færu á sjóinn og hvort ég hefði getað hugsað mér að leggja sjómennsku fyrir mig og svör mín voru já og nei.

Já, ég taldi mig geta mælt með því að menn færu á sjóinn, að mínu mati hefði sú reynsla eflt mig að visku og þroska, víkkað og dýpkað bæði heimsmynd mína og sjálfsþekkingu. Hins vegar vakti Anna máls á því að öryggismál sjómanna hefðu árum og áratugum saman verið í gríðarlegum ólestri, að litið hefði verið á það nánast sem náttúrulögmál að missa ár hvert fjölda sjómanna í hafið. Árin 1964 – 2000 létust 455 íslenskir sjómenn við skyldustörf, ríflega tólf á ári. Undanfarið mun banaslysum á sjó víst til allrar hamingju hafa fækkað jafnt og þétt, m. a. fyrir tilstilli hins feykiöfluga Slysavarnaskóla sjómanna, en það breytir því ekki að mannfórnirnar sem sjósóknin hefur kostað þjóðina í gegn um tíðina eru talsvert meiri en flestir gera sér grein fyrir og enn er að sjálfsögðu full ástæða til halda áfram að bæta og tryggja öryggi íslenskra sjómanna.
Að þessu sögðu langar mig að taka fram að ég get að sjálfsögðu aðeins mælt með sjómennsku að því tilskyldu að menn komi heilu höldnu aftur í land. Það eflir engan að visku og þroska að drukkna.
Nei, ég gat hins vegar ekki hugsað mér að leggja sjómennsku fyrir mig. Eins ánægður og ég er með að hafa verið á sjó þá er ég nefnilega töluvert ánægðari með að vera ekki lengur á sjó. Vinnan er erfið og vinnutíminn út í hött.
Einhvern tímann þegar verið var að ræða kjaramál sjómanna (sem var vinsælt umræðuefni um borð) tók einhver upp hanskann fyrir útgerðarmanninn sem væri að hætta aleigunni til að við hefðum vinnu. Viðkomandi var að sjálfsögðu snarlega bent á að það væri sjómaðurinn sem væri að hætta aleigunni, sjálfum lífsandanum í brjóstinu á sér, til að útgerðarmaðurinn hefði vinnu, en ekki öfugt. Auðvitað ber að meta það til launa ef menn eru í lífshættu við vinnu sína og ekki síður ef álagið á þá er að öðru leyti ómannúðlegt.
Sjómenn fórna nefnilega gríðarmiklu fyrir starfann. Þótt þeir fórni ekki lífi sínu og limum í bókstaflegri merkingu þá fórna þeir lífi sínu á annan hátt, þeir fórna fjölskyldulífi sínu, einkalífi, tilfinningalífi, sálarlífi – eða leggja a. m. k. á það meiri raunir en sanngjarnt er að ætlast til, raunir sem alls ekki er sjálfgefið að menn þoli. Langar fjarverur frá fjölskyldu og heimili gera sjómenn alloft að gestum í lífi barna sinna og maka. Það þarf einstakar manneskjur til að slík fjarvera bitni ekki verulega á nánd og innileika manna í milli. Það er meira en að segja það að vera fjarverandi uppvöxt barna sinna, daglegt líf makans og hversdagsleg úrlausnarefni heimilisins og sleppa óskaddaður frá því.
Um leið og sjómennskan efldi og magnaði óbeit mína á arðræningjum, sem auðgast á framlagi þeirra sem hætta lífi sínu og limum af því að sjálfir hætta þeir fjármunum, þá varð ég eiginlega líka fráhverfur kommúnisma á sjónum. Þar fann ég nefnilega í fyrsta sinn fyrir því á eigin skinni hvað ágóðavonin getur verið mikill drifkraftur og hvílíkur glæpur það er gagnvart frumkvæði og framkvæmdagleði manna að svipta þá henni.
Auðvitað var róið upp á hlut, en ákveðin trygging (lágmarkstrygging) var fyrir hendi sem menn fengu jafnvel þótt ekkert fiskaðist. Yfirleitt tók það um það bil viku að fiska upp í tryggingu. Framan af desember hafði brælt óvenjumikið, lítið hafði verið hægt að róa og þeir fáu túrar sem farnir voru höfðu verið með eindæmum lélegir. Þegar tekið var tillit til helgidaganna var ljóst að þennan mánuð myndum við ekki ná að fiska upp í trygginguna, jafnvel þótt við næðum einum eða tveim túrum í viðbót. Þá var ákefðin í að fara á sjó að sjálfsögðu engin, við hefðum strangt til tekið verið í sjálfboðavinnu við það. Þannig að auðvitað þurfti óvenjulítið hvassviðri seinnipart mánaðarins til að skipstjórinn kallaði það haugasjó og brælu sem ekki væri farandi á sjó í.

Það gerðist líka á sjónum að ég öðlaðist trú. Ég hafði alla tíð verið andlega þenkjandi og fundist raunveruleikinn hljóta að vera aðeins dýpri og víðfeðmari en hinn skynjanlegi efnisheimur. Áður en ég fór á sjóinn hafði ég verið að kynna mér anþrópósófíska næringarfræði (x - x)í Svíþjóð, ég var grænmetisæta og starfaði sem kokkur á náttúrulækningasjúkrahúsi. Þar voru miklar andlegar og guðspekilegar pælingar í gangi. Flestar voru þær að vísu tómt bull, en Järna er bara svo yndislegur staður að ég varð fljótt þeirrar skoðunar að þeorían mætti alveg vera dálítið vitlaus ef praktíkin væri svona hlý og manneskjuleg.
Það gerðist eiginlega alveg óvart. Ég var einn á vakt á dekki um hánótt í janúar. Það var nístingskuldi og andardráttur minn myndaði grýlukerti í skegginu. Sjórinn var spegilsléttur og svo kaldur að ef ég hefði fallið útbyrðis hefði ég króknað á augabragði. Á himninum dönsuðu brjáluð norðurljós og spegluðust í haffletinum. Í minningunni finnst mér næstum eins og ég hafi heyrt einhvers konar kristalshljóð frá þeim, en sennilega eru þau seinni tíma viðbót hugans. Mér fannst svo átakanlega ljóst að þessarar gríðarlegu fegurðar, sem um leið var svo ógnvekjandi og fullkomlega ólífvænleg, naut ég ekki af eigin verðleikum. Ef allt sem mér var gefið af öðrum hefði verið tekið frá mér, hlífðarfötin sem ég var í og skipið undir fótunum á mér, hefði ég átt örfáar sekúndur eftir ólifaðar. Samt var líf á hverju járni. Þar sem ekki var fiskur var svampdýr, krossfiskur eða kórall. Þarna, einhvers staðar á milli Íslands og Grænlands, langt frá allri landssýn, á stað sem er öllu lífi, eins og maður skilur það, eins fjandsamlegur og hægt er að hugsa sér, á hafsbotni undir margra tonna fargi af saltvatni sem var svo kalt að saltmagnið og ölduhreyfingar sjávar einar komu í veg fyrir að það væri einn risastór og gegnheill klaki, iðaði jörðin af lífi.
Þá fann ég það. Ég skildi það ekki, ég reiknaði það ekki út, ég fann það einfaldlega í hverri frumu líkama míns. Að þetta væri engin tilviljun, þetta sem við köllum lífið á jörðinni. Tilfinningin var svo sterk að ég gat ekki sniðgengið hana. Ef ég hefði ekki getað treyst þessari tilfinningu hefði ég aldrei getað treyst neinni tilfinningu sem ég hef nokkru sinni fundið til fyrr eða síðar. Guð er til. Ég get ekki sannað það, ég fann bara svo sterkt fyrir því hvernig hann umlykur alla tilvistina að ég ákvað að hætta að streitast á móti og trúa því. Mér fannst nánast eins og hann væri að segja við mig: „Hvað viltu að ég geri meira? Þarf ég að skrifa það með logagylltum stöfum á himinhvelið að ég sé til svo þú fáist til að trúa því? Er þetta ekki nóg?“
Ég áfellist engan sem er ekki sama sinnis. Hins vegar tryggir 18. grein mannréttindayfirýsingar Sameinuðu þjóðanna mér réttinn til að hafa þessa trúarlegu afstöðu og láta hana í ljós opinberlega með kennslu, tilbeiðslu, guðsþjónustum og helgihaldi. Um tæknileg atriði, s. s. rekstrarfyrirkomulag kirkna og starfssvið trúfélaga má auðvitað ræða og deila, en það þarf að gera í bróðerni og af gagnkvæmri virðingu. Ég nenni ekki lengur að eiga orðastað um trúmál við þá sem vilja svipta mig mannréttindum.
Reyndar liðu mörg ár frá því að ég fór að trúa á Guð þar til ég fór að treysta á hann, en það er önnur saga sem ég segi kannski síðar.
Þannig að þegar upp er staðið get ég hiklaust mælt með því að ungmenni fari á sjóinn. Að því tilskyldu að öryggismál séu í lagi og menn komi heilir á húfi heim er það mín reynsla að það geri manni aðeins gott. Hins vegar eru ábyggilega ekki allir þannig að upplagi að það henti þeim að leggja sjómennsku fyrir sig og gera hana að ævistarfi.

Og fyrst sjómennskan gerði úr mér kristilegan sósíalista kynni hún að hafa sömu áhrif á aðra. Auðvitað hlýt ég að vera þeirrar skoðunar að eftir því sem við værum fleiri væri heimurinn betri staður.