sunnudagur, janúar 29, 2006

Íslenskukennsla I

Sérfræðingar hafa lýst yfir áhyggjum sínum af því að íslenskan sé í útrýmingarhættu og að eftir hundrað ár verðum við farin að tala frumstæða ensku. Þótt ég sé ekki reiðubúinn til að taka undir þennan bölmóð er því ekki að neita að málfræðikunnátta mætti almennt vera meiri, ekki bara meðal sauðsvarts almúgans heldur líka meðal þeirra sem fást við ritaðan og talaðan texta. Mig langar því til að leggja mitt af mörkum til viðhalds móðurmálinu með því að miðla eilítið af þekkingu minni hér á þessari síðu.
Eitt af því sem fáir ráða við að gera rétt er að nota orðasamböndin "hver annar" og "hvor annar". Gildir þá einu hvort það er í töluðu máli eða á prenti. Til dæmis er hreinlega hending að sjá þetta gert rétt í dagblöðum sem er ekkert skrýtið, enda liggur þetta alls ekki í augum uppi auk þess sem blaðamönnum er almennt margt betur til lista lagt en að fara vel með íslenskt mál. Þetta er flókið og erfitt málfræðiatriði og sjálfur var ég til að mynda kominn á þrítugsaldur þegar mér loksins varð ljóst hvernig á að gera þetta rétt.
Þannig er nánast algilt að sagt sé: "Strákunum er illa við hvorn annan." Þetta er rangt. Hér er um það að ræða að "hvorum" stráknum er illa við "annan". Rétt er því að segja: "Strákunum er illa hvorum við annan." Þá að því tilskildu að strákarnir séu aðeins tveir. Ef þeir eru fleiri er rétt að segja: "Strákunum er illa hverjum við annan," ekki: "... við hvern annan" þar sem "hverjum" er illa við "annan."
Möguleikarnir eru fjórir: hver ... annar, hvor ... annar, hverjir ... aðrir og hvorir ... aðrir. Förum yfir þetta lið fyrir lið.

1. ... hvor annar

Þegar tveir (tvær, tvö) eiga hlut að máli notar maður orðasambandið "hvor annar" ("hvort annað" eða "hvor önnur"). Einfaldast er að útskýra þetta með dæmum:
"Hundurinn og kötturinn forðast hvorn annan" er rangt. "Hvor" forðast "annan" og því er rétt að segja: "Hundurinn og kötturinn forðast hvor annan." Þegar forsetning er með í spilinu gerir hún þetta flóknara á yfirborðinu en grunnreglan er sú sama: "Hundinum og kettinum er illa við hvorn annan" er þarafleiðandi rangt. Hér er um það að ræða að "hvorum" er illa við "annan" og því rétt að segja: "Hundinum og kettinum er illa hvorum við annan." Hér gildir kyn orðanna einu. "Dýrunum er illa við hvort annað" er sem sagt rangt og ætti að vera: "Dýrunum er illa hvoru við annað" þar sem "hvoru" dýrinu er illa við "annað".
Kyn orðanna og föllin breyta ekki reglunni. "Læðan og tíkin eru andstæðingar hvor annarrar" er rétt, en ekki "hvorrar annarrar". Önnur "hvor" þeirra er nefnilega andstæðingur "annarrar" þeirra. Séu tvær skyrtur settar saman í þvottavél geta þær flækst "hvor í annarri" en ekki "í hvorri annarri".

2. ... hver annar

Þegar þrír (þrjár, þrjú) eða fleiri eiga hlut að máli notar maður "hver annar" ("hvert annað" eða "hver önnur"). Reglan er sú sama og um "hvor annar".
"Stjórnmálaflokkarnir berjast við hvern annan um atkvæði" er rangt. "Hver" berst við "annan" og því er rétt að segja: "Stjórnmálaflokkarnir berjast hver við annan um atkvæði." Kynið breytir ekki reglunni. "Fylkingarnar berjast hver við aðra" ekki "við hverja aðra" – því "hver" fylking berst við "aðra".
Á sama hátt eru fylkingarnar andstæðingar "hver annarrar" en ekki "hverrar annarrar" því "hver" fylking er andstæðingur "annarrar". Þannig eru flokkarnir jafnframt andstæðingar "hver annars" en ekki "hvers annars", "hver" flokkur er jú andstæðingur "annars". Flokkar bjóða því ekki fram "gegn hverjum öðrum" heldur "hver gegn öðrum" og ólíkar fylkingar berjast "hver gegn annarri", ekki "gegn hverri annarri".

3. ... hvorir aðrir

Orðasambandið "hvorir aðrir" ("hvorar aðrar", "hvor önnur") er notað þegar um tvo hópa er að ræða, það er að segja þegar báðir aðilar eru fleirtöluorð.
"Kommúnistar og kapítalistar eru andstæðingar hvorir annarra", ekki "hvorra annarra". "Hvorir" eru andstæðingar "annarra". "Hundar og kettir forðast hvorir aðra" ekki "hvora aðra" – "hvorir" forðast "aðra".
Eins og í hinum dæmunum geta forsetningar og kyn orða flækt þetta við fyrstu sýn, en reglan er þó alltaf eins. "Hnakkamellur og pönkaragellur forðast hvorar aðrar" ("hvorar" forðast "aðrar") og: "Hnakkamellum og pönkaragellum er illa hvorum við aðrar" ("hvorum" er illa við "aðrar").
Hafa ber í huga að tala orða er einvörðungu málfræðilegt atriði. Þannig er "fylking" eintöluorð á meðan "buxur" er fleirtöluorð. Séu tvennar buxur settar saman í þvottavél geta þær því flækst "hvorar í öðrum" ("hvorar" flækjast í "öðrum") en ekki "í hvorum öðrum". Þaðan af síður geta þær flækst "hvor í annarri" og alls, alls ekki "í hvorri annarri".

4. ... hverjir aðrir

Þetta orðasamband er notað þegar aðilar eru þrír eða fleiri og allir fleirtöluorð. "Sjálfstæðismenn, kratar og sósíalistar keppa hverjir við aðra um atkvæði." "Hverjir" keppa við "aðra". Þrennar gallabuxur flækjast "hverjar í öðrum".

Ég hef þetta ekki lengra að sinni og vona að þetta geti orðið einhverjum að gagni í meðferð móðurmálsins. Ég ítreka að þetta er eitt af því sem fæstir gera rétt og þessum leiðbeiningum alls ekki ætlað að vera settar fram af neins konar yfirlæti heldur einungis í auðmjúkri viðleitni til þess að leggja mitt af mörkum til vandaðrar málnotkunar og viðhalds tungunni. Menn eiga jú að vera óhræddir við að bjóða hver öðrum aðstoð.
Vonandi verður þess ekki langt að bíða að blaðamenn beri gæfu til að skrifa um að Íslendingar ráðist hver á annan og veiti hver öðrum áverka eins og sönnum víkingum sæmir, en ekki að þeir séu að ráðast "á hvern annan" og veita "hverjum öðrum áverka" eins og illa talandi aumingjar.

sunnudagur, janúar 15, 2006

Fernt sem lífið hefur kennt mér

Dægurþras undanfarinna daga hefur leitað mjög á huga minn, enda kristallast í því margar mikilvægar siðferðisspurningar um ábyrgð mannsins á sjálfum sér og öðrum. Þetta eru spurningar sem hafa verið mér mjög hugleiknar býsna lengi og hef ég í gegn um nám og starf, en þó einkum sára lífsreynslu, komist að nokkrum niðurstöðum í þessu efni sem mig langar að deila með ykkur (jafnvel þótt ég kunni að einhverju leyti að vera að höggva í sama knérunn og endurtaka mig frá síðasta bloggi) ef það mætti verða til þess að hjálpa einhverjum að hugsa skýrt um það sem á hefur dunið upp á síðkastið:

I. Ég einn ber ábyrgð á mér
Ef ég saga af mér löppina af því að ég fékk kartöflu í skóinn var það ég sem sagaði af mér löppina en ekki Kertasníkir – óháð því hvort ég átti skilið að fá kartöflu í skóinn eða ekki. Ef ég fer á fyllirí af því að konan mín fór frá mér get ég aðeins kennt sjálfum mér um þynnkuna, ekki konunni minni – hvort sem hún hafði góða eða vonda ástæðu fyrir því að fara frá mér. Ef ég hengi mig af því að ég er kallaður klámhundur í blöðunum er það ég sem hengi mig, ekki blöðin – og gildir þá einu hvort ég hafi verið einhver klámhundur í raun og veru eða ekki á meðan ég var lífs.

II. Músin sem læðist er miklu verri
Óvinur sem birtist með horn og hala og klaufir stórar getur vissulega verið mjög ógnvekjandi, en hann er ekki næstum því eins siðlaus og hættulegur og óvinurinn sem þykist vera góður en er svo bara vondur þegar til kastanna kemur. Það er verra að vera borinn röngum sökum af einhverjum sem almennt er tekið mark á en þorpsfíflinu. Það er ekki næstum því eins meiðandi að vera kallaður klámhundur í blaði sem allir vita að ekki virðir nein hefðbundin siðferðsiviðmið og fólk er löngu farið að lesa með þeim fyrirvara heldur en í blaði sem fólk er haldið þeim misskilningi að sé vandaður fjölmiðill.

III. Morð er aðeins tilraun til manndráps sem tókst
Ég frem ekki meiri glæp með því að kalla sakleysingja A nauðgara en sakleysingja B, jafnvel þótt sakleysingi A fyrirfari sér í kjölfarið en sakleysingi B hlæji að mér. Mín gjörð er söm. Það lýsir því engu öðru en himinhrópandi hræsni ef þjóðfélagið fylltist skyndilega vandlætingu og reiði í minn garð fyrir að hafa vogað mér að kalla sakleysingja A nauðgara, eftir að þessi sama þjóð hefur leyft mér að valsa um og kalla sakleysingja B til Ö nauðgara að vild án þess að fetta fingur út í það og meira að segja kostað framtakið í þeim tilgangi að fá slúðurþörf sinni fullnægt og fyllast um leið vellíðan yfir eigin ágæti og göfugu innræti með því að súpa öðru hverju hveljur yfir því sem hún hlustar á af áfergju og tuldra í eigin barm eitthvað um að "nú hafi ég kannski farið yfir strikið".

IV. Stundum þarf að vera vondur til að vera góður
Það sem fólki í hugaræsingi finnst gott að heyra er aldrei það sem það hefur gott af því að heyra. Æst fólk vill heyra æsing sinn réttlættan og bakkaðan upp, ekki vera beðið um að ígrunda afstöðu sína vel og vandlega og skoða málið frá öllum hliðum. Því finnst gott að heyra afdráttarlaust tekið undir með einstrengingslegri afstöðu sinni og finnst vænt um þá sem það gera, en vont að heyra einhvern véfengja að málið sé svona einfalt og er illa við þá sem neita að gerast meðvirkir. Það þarf hugrekki til að segja æstum múgi eitthvað sem hann vill ekki heyra og vera reiðubúinn til að taka afleiðingum þess. Versta gunga treystir sér aftur á móti til að segja honum að hann hafi rétt fyrir sér, því hún veit fyrirfram að þannig uppsker hún aðeins vinsældir. Það lýsir því engu öðru en heigulshætti að stökkva á vanþóknunarbylgju eins og þá sem skók þjóðfélagið í síðustu viku og ætla að "sörfa" hana til persónulegra vinsælda. Þetta gerði Hjálmar Árnason með ásökunum sem eru mun alvarlegri og verr ígrundaðar en þau orð sem voru orsök vanþóknunarbylgjunnar til að byrja með (sjá lið I. hér að ofan). Hafi einhver stjórnmálamaður "gert í brók" (eins og einhver netverjinn orðaði það á heimasíðu Marðar Árnasonar) í kjölfar umfjöllunarinnar um harmleikinn á Ísafirði í síðustu viku var það því Hjálmar en ekki Mörður. Mörður bað fólk um að sýna stillingu. Fólk í hugaræsingi hefur gott af því að vera beðið um að sýna stillingu, þótt það sé ekki líklegt til vinsælda hjá því. Fólki í hugaræsingi finnst hins vegar miklu þægilegra að heyra auvirðulegt lýðskrum eins og það sem Hjálmar bar á borð fyrir það.

Að lokum ...
... óska ég öllum þeim sem þessar línur lesa eilífrar hamingju á endalausri blómabreiðu ævi sinnar.

föstudagur, janúar 13, 2006

Morðingjarnir Mikael og Jónas

Nú er allt á suðupunkti út af sjálfsmorðinu á Ísafirði og þeir á DV eru orðnir að morðingjum hjá dómstóli götunnar. Mig langar að leggja orð í belg af því að múgsefjunin er algjör og æsingurinn kominn marga kílómetra fram úr nokkurri raunveruleikatengingu. Ég er enginn aðdáandi DV, en fjandakornið – maður sem styttir sér aldur eftir að greint var frá alvarlegum ávirðingum í hans garð á forsíðu DV átti greinilega við einhver alvarlegri vandamál að stríða en tillitslausa fjölmiðla. Auðvitað er það forkastanlegt að birta nafn og mynd af manni sem grunaður er um alvarlega glæpi. Það gildir einu hve augljós sekt hans er að mati blaðamanna, það er ekki þeirra að meta sekt eða sakleysi heldur að greina frá þeim staðreyndum málsins sem erindi eiga til lesenda. Nafn hins grunaða og örorka teljast ekki til þeirra. Hann á að njóta alls vafa uns sekt hans er sönnuð af þar til bærum dómstólum, ekki ritstjórn eða sefasjúkum almenningi. En förum samt ekki að telja okkur trú um að einhver annar en sá sem sviptir sig lífi beri ábyrgð á þeim verknaði. Saklausir sem sekir menn hafa verið bornir þyngri sökum en þessum og lifað það af. Fólk hefur þolað ótrúlegustu raunir án þess að sjá sig knúið til þess að ganga fyrir ætternisstapa af þeim sökum.
Það bjánalega er að þessi voðaatburður skuli vera til þess að fólki hættir að standa á sama. Þótt afleiðingar þessarar umfjöllunar séu náttúrulega alvarlegri en áður eru dæmi um (svo ég viti) er sekt DV í þessu ákveðna tilfelli ekkert meiri en mörgum sinnum áður. Hvernig var það þegar þeir birtu ábyrgðarlaust slúður af sorpvefnum barnalandi punktur is þar sem nafngreindur einstaklingur með þjóðkunn bernskubrek að baki var sagður raðnauðgari án þess að fyrir því lægju neinar aðrar staðreyndir en nafnlausar dylgjur á vefnum? Þurfti hann að fremja sjálfsmorð en ekki láta sér nægja að flýja land, eins og raunin varð, til að fólk setti spurningarmerki við fréttaflutninginn?
Hvernig var það þegar presturinn fyrir austan birtist á forsíðu fyrir þær sakir einar að hafa haldið framhjá konunni sinni? Var glæpur hans meiri en annarra hórkarla af því að hann og konan hans voru prestar? Eða var það af því að hann hélt framhjá með karlmanni? (Að vísu töluvert yngri karlmanni, en engum ókynþroska óvita sem ekki vissi hvað hann var að gera.) Hver var helsta heimild DV í því máli? Jú, náungi sem komist hafði að fyrirætlunum klerksins þegar hann sjálfur var á netinu að reyna að komast í kynni við unglingspilta (af hverju skyldi það nú hafa verið) og gerðist í kjölfarið brotlegur við allar reglur um friðhelgi einkalífsins með því að "stalka" prestinn og veitast að honum í sundi! Þurfti presturinn að drepa sig til að fólk áttaði sig á því að hann var eina manneskjan á Íslandi sem af einhverjum ástæðum var ástæða til að slá upp á forsíðu fyrir þá sök eina að hafa verið ótrú maka sínum?
Jónas og Mikael voru auðvitað fullkomlega siðlausir ritstjórar, en þeir voru þó upp að vissu marki heiðarlegir í siðleysi sínu. Enginn var óhultur, allir voru jafnóhultir. Mér finnst nefnilega stundum að fólk gleymi því að fyrir ritstjórnartíð þeirra var DV sannkallaður sorasnepill. Þar var gefið út veiðileyfi á ákveðna einstaklinga, þeir jafnvel vísvitandi bornir röngum sökum á meðan öðrum var hampað, þeir fegraðir og þagað yfir öllum ávirðingum í þeirra garð til að þjónusta persónulega duttlunga þáverandi ritstjóra, Óla Björns Kárasonar. DV Mikaels og Jónasar gaf sig aldrei út fyrir að vera neitt annað en það var. DV Óla Björns birti markvissar fréttafalsanir til að gæta pólitískra hagsmuna valdhafa.
Í tíð Óla Björns birtist einu sinni mynd af mér í blaðinu og undir henni stóð að ég hefði sett barnaklám á netið. Öllu verr er varla hægt að meiða æru nokkurs manns. Engir fyrirvarar voru við þessa fullyrðingu, ekki útskýrt að inn á heimasíðu blaðs sem ég ritstýrði hefði ég látið tengil inn á aðra síðu, sem tengill á meint barnaklám hafði verið settur inn á mörgum vikum eftir að ég hætti störfum hjá tímaritinu. Fullyrt var að ekki hefði náðst í mig – sem var bláköld lygi. Það hafði ekki einu sinni verið reynt að ná í mig. Þeir vissu GSM númerið mitt og ég var innan þjónustusvæðis allan tímann sem blaðið var í vinnslu. Það þjónaði einvörðungu hagsmunum Óla að svipta mig ærunni og sverta mannorð mitt. Hvar var "lynch mobbið" með kyndlana þá?
Þegar málinu var loksins vísað frá eftir rannsókn sem leiddi ekkert í ljós og sakleysi mitt af þessum ávirðingum hafði verið sannað reyndi ég að kæra þessa umfjöllun til siðanefndar Blaðamannafélagsins sem vísaði málinu frá á þeim forsendum að meira en sex mánuðir væru liðnir frá því að umræddar persónusvívirðingar birtust. Þær munu því standa óleiðréttar um tíð og tíma, sagnfræðingum framtíðarinnar til afþreyingar. Ef ég hefði hengt mig þá væri Óli Björn í dag sennilega álitinn hafa líf mitt á samviskunni.
Mig langar ekki að fella dóma yfir fólki. En ef þeir Mikael og Jónas hafa með skrifum sínum tryggt sér eilífðarvist á Hótel Helvíti verða þeir að mínu mati að bíta í það súra epli að svítan er frátekin fyrir Óla Björn.
Það virðist að vísu vera ávísun á holskeflu af móðursýkislegum viðbrögðum að reyna að ræða þetta mál af skynsemi og yfirvegun, eins og Mörður Árnason fékk að reyna í fyrradag. Þá það ... látið hana koma, kallið mig öllum illum nöfnum, ef þið viljið. Ég hef verið kallaður eitt og annað ansi slæmt á prenti og lifi þó enn!

miðvikudagur, janúar 04, 2006

Mynd ársins


Gleðilegt nýtt ár, öll sömun. Hef ekkert að segja svo ég ákvað í staðinn að deila með ykkur mynd ársins 2005. Þetta er ykkar einlægur í Mexíkó að borða .... orma! Þegar maður leggur sér svona ofboðslega exótískan mat til munns dettur manni stundum í hug að þeir innfæddu séu að gera grín að manni, liggi í hnipri af hlátri á bak við yfir því hvað þeir geta platað ofan í útlendingana.