mánudagur, desember 21, 2009

Költ

Nú í vikunni var trúarhópur með sérstakan áhuga á kynlífi til umfjöllunar í fjölmiðlum. Einn fulltrúi Siðmenntar sagði hópinn „hvert annað költ“. Ummælin endurspegla ákveðna vanþekkingu á hugtakinu „költ“. Í umræðunni virðist það aðeins hafa neikvæða merkingu og vera notað um hvaða sértrúarhóp sem er, fyrirbæri sem réttara væri að nefna „sect“.
Þeir sem einkum henda költ-hugtakið á lofti í þessari populísku æsiblaðamerkingu eru fyrst og fremst ýmsir „antí-költískir“ hópar, jafnan drifinir áfram af trúar- eða vantrúarofstæki. Það fyndna er að þessir hópar hafa einmitt sjálfir öll helstu einkenni „secta“. Þar má nefna ósveigjanlega hugmyndafræði og neikvæða afstöðu til umheimsins. Þeir sem aðhyllast aðrar skoðanir hafa einfaldlega rangt fyrir sér og eiga ekkert erindi inn í hópinn. Ekkert svigrúm er fyrir ólíkar eða frjálslegar túlkanir á sannleikanum sem hópurinn aðhyllist.
Í seinni tíð hefur þótt vænlegast að skilgreina trú út frá viðfangsefni sínu, hinstu rökum tilverunnar. Þannig er trú hvert það hugmyndakerfi sem býður svör við spurningum, sem eðli sínu samkvæmt verður ekki svarað á óyggjandi hátt með aðferðum vísindanna. Það að spurningunni er svarað skilgreinir trúna, ekki það hvort svarið er já eða nei. Trú þarf því ekki að beinast að verufræðilegu fyrirbæri eins og hinum gyðing-kristna og íslamska guði. Slík skilgreining næði ekki yfir búddisma eða önnur guðlaus trúarbrögð.
Í akademískri félagsfræði hefur hugtakið „költ“ mun opnari merkingu og varla trúarlega. Költi má líkja við hlaðborð hugmynda um andleg efni, sem gjarnan kunna þó að eiga sér trúarlegar rætur, þ.e. veita svör við hinum hinstu spurningum. Af þessu hlaðborði velur síðan hver einstaklingur fyrir sig á sínum eigin (költísku) forsendum það sem hentar honum, án þess að því fylgi afdráttarlaus hollusta við eða óbilandi trú á eina lífsskoðun umfram aðra.
Þannig mætti t.d. tala um jóga-költ. Þá er átt við að fjöldi fólks af öllum trúarbrögðum og engum iðkar jóga sér til andlegrar og líkamlegrar heilsubótar og það nær ekkert lengra, þótt hugmyndafræði jóga byggi á hindúískum mannskilningi og heimsmynd. Sömuleiðis mætti tala um nýaldarköltið sem naut vinsælda á síðasta áratug, hippaköltið sem átti sitt blómaskeið nokkru fyrr og, já, líka siðmenntarköltið sem um þessar mundir virðist vera í blóma.
Bakþankar í Fréttablaðinu 19. 12. 2009

mánudagur, desember 07, 2009

Þú ert aldrei einn á ferð

Helgi eina í byrjun október áttum við hjónaleysin erindi austur á Egilsstaði. Illu heilli brast þó á með óveðri á föstudeginum og um kaffileytið varð ljóst að ekkert yrði úr flugi. Þar sem erindið var brýnt ákváðum við að keyra austur, enda á þokkalega útbúnum fólksbíl með fjórhjóladrifi. Við lögðum af stað um fimmleytið og gerðum ráð fyrir að ná áfangastað um tvöleytið um nóttina. Norðurleiðin varð fyrir valinu, því veðurofsinn var mestur á sunnanverðu landinu.
Í fyrstu gekk ferðin að óskum. Hálkublettir og skafrenningur á Holtavörðu- og Öxnadalsheiði voru lítil fyrirstaða fyrir okkar ágæta fjölskyldubíl. Síðasti áfanginn, Möðrudalsöræfi og Jökuldalsheiði, átti að vera skástur samkvæmt upplýsingasíma Vegagerðarinnar. Þar var þó slíkt snjófjúk að á löngum köflum sáum við aðeins eina stiku fram fyrir okkur þótt vegurinn væri auður. Við ókum því löturhægt.
Skyndilega rann bíllinn til og áður en ég fékk rönd við reist sat hann fastur. Nánari athugun leiddi í ljós að á u.þ.b. tíu metra kafla hafði skafið í hnédjúpan skafl þvert yfir veginn, sennilega vegna þess að til beggja handa voru vegrið sem safnað höfðu snjó á milli sín. Þarna sannaðist hið fornkveðna að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Einn skafl nægir til að leiðin á milli Akureyrar og Egilsstaða sé ófær.
Nú var úr vöndu að ráða. Ekkert þýddi að ýta bílnum. Við vorum pikkföst í skafli uppi á heiði í svartamyrkri um hánótt og höfðum ekki orðið vör mannaferða síðan á Mývatni. Farsíminn kom okkur til bjargar. Hringt var í 112 þar sem við fengum samband við lögregluna á Egilsstöðum. Við höfðum verið það forsjál að núllstilla kílómetramælinn á Akureyri og gátum því gefið upp nokkuð nákvæma staðarákvörðun. Tæpum hálftíma síðar birtist bóndi af nálægum bæ eins og frelsandi engill á fjallajeppa og kippti okkur yfir hindrunina.
Því er ég að deila þessu með ykkur að mér finnst ekki vanþörf á að minna á að um allt land er gott fólk, sem lætur sig ekki muna um að vera dregið fram úr hlýju rúminu um hánótt til að fara út í frost og fjúk til aðstoðar kjánum eins og mér, sem asnast til að ofmeta eigin getu og sýna þeim óblíðu skilyrðum, sem landið okkar gerir okkur að búa við og ferðast í, ekki tilhlýðilega virðingu.
Hafi það allt Guðs þökk fyrir, ekki síst bóndinn á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal.
Bakþankar í Fréttablaðinu 5. desember 2009

mánudagur, nóvember 23, 2009

Hin nýja lesblinda


Kaldhæðni er vandmeðfarin og sennilega í bráðri útrýmingarhættu. Sú skemmtilega list að segja eitthvað eitt til þess að segja í raun eitthvað allt annað undir niðri virðist nefnilega hitta í mark hjá sífellt færri neytendum afþreyingar. Kannski er það einmitt þar sem hundurinn liggur grafinn. Þegar afþreying verður að áreynslulausri neyslu sem hægt er að taka við algerlega hugsunarlaust, án nokkurrar þekkingar á menningarumhverfi sínu eða bakgrunni þess, hvað þá einhverrar næmni á blæbrigði tungu og tjáningar eða læsis á vísanir og skírskotanir, missir viðtakandinn auðvitað hvatann og þarafleiðandi smám saman einnig hæfileikann til að skyggnast undir yfirborð þess sem borið er á borð fyrir hann. Þetta er hin nýja lesblinda sem menningu okkar og almennum skemmtilegum í samfélaginu stafar mun meiri hætta af en hinni. Þetta er blinda á merkinguna á milli línanna.
Þetta form lesblindu á sér þó býsna skondnar birtingarmyndir. Það gerist einkum þegar þeir, sem verið er að hæðast að, eru of heimskir til að sjá háðið á milli línanna. Nýjasta dæmið um svona heimsku er svokallaður dagur ofbeldis gegn rauðhærðum. Hann mun eiga rætur að rekja til bandarísku sjónvarpsþáttanna South Park. Í einum þáttanna heldur kynþáttahatarinn Cartman þrumuræðu um að rauðhært fólk sé heimskt, ómennskt og sálarlaust, enda hafi Júdas verið rauðhærður. Það sem gerist í kjölfarið er skrumskæling á þekktum vampírumyndum. Hinir rauðhærðu eru skuggalegar næturverur sem þyrstir í blóð, Cartman sjálfur verður rauðhærður og gerist leiðtogi rauðkollanna.
Þátturinn er bráðfyndin og skelegg háðsádeila á fordóma. Stillt er upp mismunun á hlægilega langsóttum forsendum og sýnt hve afkáraleg hún er, líka þótt forsendur hennar kunni að vera kunnuglegri. Þetta virðist aftur á móti hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá flestum. Börn hafa tekið speki Cartmans alvarlega, rétt eins og einhvern tímann sé að marka orð af því sem hann segir og höfundarnir verið gerðir ábyrgir fyrir ofbeldi gegn rauðhærðum – sem þeir voru einmitt að hæða. Að mínu mati stafar þetta af því að of mikið af forheimskandi afþreyingu hefur gert fólk of heimskt til að átta sig á því að enn er til list þar sem merkingin liggur ekki öll á ysta yfirborði hennar, list sem gerir kröfu til þess að fólk hugsi um það sem er verið að segja því.

Bakþankar í Fréttablaðinu 21. 11. 2009

fimmtudagur, nóvember 19, 2009

Credo

Þú horfir af barmi hárra kletta
í hylinn dökkva
og hræðist ekki að hrasa og detta
heldur að stökkva.

Þú hugsar um allt sem þú hefur að tapa
og háskann að trúa
en óttast í rauninni ekki að hrapa
eins og að fljúga.

Þetta litla ljóð orti ég fyrir mörgum árum. Það rifjaðist upp fyrir mér í samtali fyrir skömmu. Ég minnist þess ekki að hafa birt það opinberlega áður.

mánudagur, nóvember 09, 2009

Aumingja þrælasalinn

Íslenskum fjölmiðlum er að vissu leyti vorkunn að vera ekki betri en þeir eru. Smæð markaðarins gerir það einfaldlega að verkum að fjármagnið leyfir ekki að fjöldi starfskfrafta og vinnustunda á bak við hvern dálksentímetra sé sambærilegur við það sem gerist víðast hvar erlendis. Þetta er þó auðvitað engin afsökun fyrir því almenna metnaðarleysi sem til dæmis lýsir sér í því hve allir íslenskir ritmiðlar virðast hafa einlægan áhuga á því hvort Amy Winehouse var í nærbuxum eða ekki síðast þegar hún fór á djammið.
Auðvitað fjalla íslenskir fjölmiðlar mestanpart um alvarlegri mál. Nýlegt, skelfilegt mansalsmál, sem verið er að rannsaka, hefur þannig fengið talsverða umfjöllun og eðlilega vakið almennan óhug. Rannsókn hefur leitt í ljós svo víðtæk og fjölbreytt afbrot, ofbeldi og hvers konar svik, að nú er verið að rannsaka málið sem skipulagða glæpastarfsemi. Þó er ekki laust við að manni finnist ekki hafa komið alveg nægilega skýrt fram nákvæmlega hvað í mansali felst. Það er í raun ekkert annað en þrælahald, oft í formi nauðungarvændis, þ.e.a.s. þaulskipulagðra raðnauðgana á fátækum stúlkum í ábataskyni fyrir þriðja aðila. Ástæðulaust er að fara fegri orðum um athæfið.
Illu heilli óttast ég að ástæða þess hve mikið hefur verið fjallað um þetta mál að undanförnu sé ekki sú hve ofbeldi af þessu tagi er einstaklega svívirðilegt, heldur sú að málið tengist sjúkri kynhegðun, lesefni sem allir óvönduðustu fjölmiðlar veraldar gera sér einmitt sérstakan mat úr að velta sér upp úr. Nýjasta útspilið sýnir nefnilega að dómgreind og siðferði hafa ekki roð við dramatískum uppslætti. Þar var gert mikið úr því að handtaka konu nokkurrar, sem tengist málinu, skyldi ekki fara fram í kyrrþey og að henni skyldi sýnd sú tillitssemi að bíða eftir ömmunni til að passa börnin áður en farið var með hana á lögreglustöðina til yfirheyrslu um meinta aðild hennar að viðurstyggðinni. Vafalaust er það áfall fyrir barn að sjá móður sína handtekna, en að óþægileg lífsreynsla af því tagi þyki eiga erindi í umfjöllun um þá lífsreynslu að vera haldið í þrælkun og nauðgað ítrekað lýsir engu öðru en siðblindu af stærðargráðu sem engin orð fá gert tæmandi skil.
En kannski er ekki við öðru að búast í landi þar sem engin pressa hefur markað sér þá meðvituðu ritstjórnarstefnu að vera aldrei hlandgul.
Bakþankar í Fréttablaðinu 7. 11. 2009

föstudagur, nóvember 06, 2009

Lof anarkísins

Hvað glæðir þínu geði í
gleði sem er tær og hlý
svo brosað færðu björtum himni mót
og hrekur óttann hjarta úr
og hlífir þér í kaldri skúr?
Anarkí er allra meina bót.

Hvað slekkur sáran þorsta þinn
með þungan, frjóan ávöxt sinn
og stendur fast á sterkri, traustri rót
og eflir þrótt og örvar dug
og eldi blæs í kalinn hug?
Anarkí er allra meina bót.

Hvað greiðir veg um grýttan stig
og gætir þín og verndar þig
er fætur þína lemstrar lífsins grjót
og líknar þinni lúnu sál
og leysir öll þín vandamál?
Anarkí er allra meina bót.

D. Þ. J.

þriðjudagur, nóvember 03, 2009

Skömm og skandalar

(Sir Lancelot/Lord Melody)

Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.
Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.

Austur á fjörðum forðum bjó
fjölskylda ein í spekt og ró
uns upphófst mikið uppistand
er erfinginn vildi í hjónaband.
Þá sonur gekk á föður fund,
í fylgd með honum hið unga sprund,
en pabbi dæsti er hann dömuna sá:
„Hún er dóttir mín þessi'en segðu mömmu'ekki frá.“

Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.
Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.

Misseri leið í sorg og sút,
en sveinninn hugðist þó ganga út.
Hann ástfanginn af ungmey var
sem eldaði dýrar kræsingar.
En pabbi dæsti er hann dömuna sá:
„Hún er dóttir mín líka'en segðu mömmu'ekki frá.“

Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.
Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.

En mömmu sagði'hann allt, enda miður sín,
og mömmu gömlu fannst þetta ágætt grín.
„Þú hlusta ekki skalt þennan hórkarl á,
því hann er ekki pabbi þinn, en segðu'ekki frá.“

Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.
Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.

Nýleg forsíða vikunnar minnti mig á þennan gamla slagara. Mér vitanlega hefur hann ekki verið þýddur á íslensku fyrr en nú. Þetta er auðvitað enginn gullaldaldarkveðskapur, en kannski má hafa gaman af þessu fyrir því.

mánudagur, október 26, 2009

Djöfullinn í þögninni

„Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt. Standið gegn honum stöðug í trúnni og vitið að bræður ykkar og systur um allan heim verða fyrir sömu þjáningum. En er þið hafið þjáðst um lítinn tíma mun Guð, sem veitir alla náð og hefur í Kristi kallað ykkur til sinnar eilífu dýrðar, sjálfur fullkomna ykkur, styrkja og gera ykkur öflug.“ (1Pét 5.8-10)
Þessi mögnuðu orð leituðu á hug minn í vikunni sem leið. Í þeim er nefnilega að mínu mati fólgið dásamlegt fyrirheit um að kærleikurinn hafi sigur að lokum og hinn þjáði rísi upp öflugri en áður.
Auðvitað veit ég að þessi orð, sem skrifuð voru öðru hvoru megin við aldamótin 100, eru skrifuð til kristinna söfnuða í Litlu-Asíu, sem sættu ofsóknum, en ekki Íslendinga í upphafi 21. aldar. Djöfullinn, sem þarna er talað um, er ekki þessi óeiginlegi sem hver þarf að draga sitt eigið eintak af, sjálfum sér og fólkinu í kringum hann til tjóns, heldur grimmúðlegt heimsveldi. Mér finnst þau samt eiga jafnvel við um hann.
Ég veit líka að djöfullinn er ekki í tísku um þessar mundir. Það þykir hálfgerður miðaldafnykur af öllu tali þar sem hann ber góma. En merking þrífst á andstæðu sinni. Ljós er ljós af því að við þekkjum myrkur, hlýja er hlýja af því að við þekkjum kulda. Guð er kærleikur (1 Jóh 4.8) og við þekkjum andstæðuna, þá tilfinningu að Guð hafi yfirgefið okkur og öllum sé sama. Andstæða kærleikans er nefnilega ekki hatur heldur skeytingarleysi. Hatur er ástríða. Fullkominn skortur á kærleika er ekki hatur heldur hitt, það að standa á sama. Ef Guð er kærleikur hlýtur djöfullinn því að vera skeytingarleysi.
Allir þekkja kveðjuna: „Friður sé með yður.“ Kristilegri orðsendingu er varla hægt að fá. Forsenda friðar, samkvæmt kristnum skilningi, hlýtur að vera réttlæti, af því að friður um óréttlæti er ekki friður, heldur einmitt skeytingarleysi.
Illu heilli höfum við séð skeytingarleysið ganga um eins öskrandi ljón og valda okkar minnstu bræðrum og systrum þjáningum. En við höfum líka séð skeytingarleysið hopa eilítið.
Sumir segja að Guð búi í þögninni. Vera má að stundum sé það svo. En þegar þagað er um óréttlæti geymir þögnin engan Guð, aðeins djöfulinn.
Bakþankar í Fréttablaðinu 24. október 2009

þriðjudagur, október 20, 2009

Vígð smámenni

Kristur tók sér alltaf stöðu með hinum kúguðu og forsmáðu, gegn kúgurum og valdníðingum. Kirkja sem ekki gerir það getur ekki gert neina kröfu til þess að teljast kirkja Krists á jörð. Þetta er svona einfalt. Stofnun sem tekur sér stöðu með þeim sem uppvís hefur orðið að siðferðisbroti, gegn fórnarlömbunum, er ekki kirkja heldur ömurleg afskræming alls þess sem kirkja á að vera.
Kirkja er samfélag. Hagmsunir samfélags verða alltaf að vega þyngra en hagsmunir einstaklinganna sem þjóna því. Kirkjunni ber ávallt að vera stærri en persónuleikarnir sem gegna embættum á vegum hennar. Því miður hefur mörgum klerkum þó að undanförnu virst með öllu fyrirmunað að taka velferð kirkjunnar fram yfir persónulega hagsmuni sína, of blindaðir af embættisást til að sjá tjónið sem þeir valda. Nema þeim sé skítsama. Afraksturinn er trausti rúin Þjóðkirkja.
Nýjasta dæmið er mál Gunnars Björnssonar. Þar sem hann var sýknaður af ákæru um kynferðisbrot, bæði í héraði og í Hæstarétti, telur hann sig geta snúið aftur í embætti sitt eins og ekkert hafi í skorist, þrátt fyrir að rannsókn málsins hafi leitt í ljós að hann strauk unglingsstúlkum og kyssti þær, þrátt fyrir að sóknarnefnd hafi lagst gegn því að hann snúi aftur til starfa og Fagráð Þjóðkirkjunnar um kynferðisbrot sé sama sinnis. Aukinheldur rauf hann bæði vígslueið sinn, „að vera öðrum til fyrirmyndar og styrktar í sannri trú og grandvöru líferni“, og braut siðareglur Prestafélags Íslands þar sem segir: „Prestur má ekki undir neinum kringumstæðum misnota aðstöðu sína sem sálusorgari eða ógna velferð skjólstæðings, s.s. með kynferðislegri áreitni, né vanvirða tilfinningar hans og tiltrú með öðrum hætti“. Þótt dómstólar telji framferði hans ekki falla undir skilgreininguna á kynferðislegri áreitni er óvefengjanlegt að tilfinningar stúlknanna voru vanvirtar og tiltrú þeirra ógnað.
Úrskurðarnefnd Þjóðkirkjunnar telur að Gunnar hafi gerst sekur um ótvírætt siðferðisbrot þótt hún treysti sér ekki til að mæla með því við biskup að hann yrði sviptur brauðinu. Ástæða þess er einfaldlega sú að vegna einhvers, sem aðeins getur verið handvömm við samningu starfsreglna nefndarinnar, hefur hún engin úrræði að grípa til vegna siðferðisbrota. Þegar framin eru svokölluð agabrot horfir málið öðruvísi við. Þá getur hún mælt með tafarlausri brottvikningu. Gunnar var af einhverjum óskiljanlegum ástæðum ekki fundinn sekur um agabrot.
Biskupi var því vandi á höndum. Hann þurfti að ákveða hvað gera skyldi við prest, margsekan um siðferðisbrot, sem sóknarnefnd vildi losna við, en sem nýtur verndar laga um starfsöryggi opinberra starfsmanna, þótt fráleitt sé að ætla að þau hafi verið sett í þeim tilgangi að vernda trúarleiðtoga sem káfa á börnum. Ólögmæt brottvikning hefði getað kostað himinháar skaðabætur. Sýnir þetta auðvitað betur en nokkuð annað hve brýnt það er að um Þjóðkirkjuna fari að gilda sömu lög og um trúfélög almennt. Hvernig getur kirkja, sem er með öllu úrræðalaus gagnvart siðferðisbrotum þjóna sinna, ætlast til þess að á henni sé tekið mark um siðferðileg álitamál? Ekki þarf að fara í neinar grafgötur með það hvernig brugðist yrði við ef starfsmaður annarrar æskulýðsstarfssemi yrði uppvís að sams konar siðferðisbroti.
Biskup kvað upp sannkallaðan Salómonsúrskurð. Gunnar skyldi halda starfi, en vera falin önnur verkefni, þar sem hæfileikar hans njóta sín og ekki er krafist náinnar umgengni við börn undir lögaldri. Gunnar kaus hins vegar að hrækja á þessa líflínu, sem biskup af mildi sinni varpaði til hans, með því að lýsa því yfir að hann myndi hunsa þessi fyrirmæli. Nú er aðeins hægt að vona að þá lítilsvirðingu, sem Gunnar sýnir persónu biskups Íslands og valdi hans, sem æðsta embættismanns Þjóðkirkjunnar, með viðbrögðum sínum, megi skilgreina sem agabrotið sem svo sárlega vantar á ferilsskrá hans til að hægt sé með lögmætum hætti að svipta hann hempunni í eitt skipti fyrir öll.
Tíu prestar hafa lýst yfir stuðingi við Gunnar í baráttu hans fyrir brauðinu. Það er sorglegt. Enn sorglegra er þó að aðrir prestar Þjóðkirkjunnar, sem telja á annað hundraðið, skuli þegja þunnu hljóði í stað þess að fylkja liði að baki biskupi sínum. Að mínu mati ber þeim tafarlaust að lýsa yfir algjörum stuðningi við biskup í því mikilvæga verkefni sem hann virðist, til allrar hamingju, ætla að taka sér fyrir hendur: Að sýna í verki að Þjóðkirkjan vill að sönnu vera kirkja Krists á jörð en ekki hagsmunagæsla fyrir vígð smámenni.
Grein í Fréttablaðinu 19. október 2009
Viðbót 20. okt: Til að sanngirni sé gætt er rétt að fram komi að prestar höfðu tjáð sig um málið áður en grein þessi birtist, a.m.k. sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir í aldeilis glimrandi prédikun, sem farið hafði fram hjá mér. Sama dag og þessi grein birtust gengu sr. Örn Bárður Jónsson og sr. Sigríður Anna Pálsdóttir ennfremur fram fyrir skjöldu og tóku afdráttarlausa afstöðu með biskupi. Líklega litu flestir prestar svo á að ljóst væri að þeir sem ekki styddu Gunnar styddu biskup. Að mínu mati var það ranglega ályktað hjá þeim.

mánudagur, október 12, 2009

Kjaftæðið um krúttin

Þegar ég var unglingur brast á með pönki. Það var uppreisn gegn tildri og yfirborðsmennsku diskósins. Ég var alls ekki eina íslenska ungmennið frá borgaralegu millistéttarheimili sem pönkið heillaði. Við gengum ekki í rifnum fötum af því að við höfðum ekki efni á nýjum, eins og upphafsmenn pönksins í fátækrahverfum Stóra-Bretlands, heldur af því að í því fólst, að okkar mati, einhvers konar yfirlýsing. Leðurjakkinn, sígildur einkennisbúningur uppreisnarseggsins, hefði auðvitað þótt fágæt munaðarvara í því umhverfi sem pönkið spratt úr. Fyrir rest voru pönkaragellurnar síst farnar að verja minni fjármunum í hárvörur (fyrir hanakambinn) og augnmálningu (biksvarta) en diskódísirnar. Byltingin étur börnin sín.
Um þessar mundir tröllríða svokölluð „krútt“ öllu því sem heitast og flottast þykir. Í því felst að tónlist skal vera gersneydd allri agressjón og klæðnaður í senn hlýlegur og fátæklegur. Prjónahúfur, sem helst eiga að líta út fyrir að hafa verið gerðar í handavinnutíma í 10 ára bekk, eru eitt helsta einkennið ásamt grófum ullarkápum og vettlingum. Af þessum sökum standa margir í þeirri meiningu að krúttin séu óháð tískustraumum og stefnum, þau taki sjálfstæðar ákvarðarnir um klæðaburð sinn í stað þess að fylgja fyrirmælum.
Ef fatnaður krúttanna er skoðaður nánar verður þó auðvitað strax ljóst að þar gilda mjög strangar reglur. Það, hve staðlaður og samræmdur klæðaburðurinn er, bendir ennfremur til þess að reglum þessum sé framfylgt af fyllstu hörku, tískulögreglan sé síst afslappaðri en áður fyrr, jafnvel þótt fagurfræðilegar forsendur útlitseftirlitsins kunni að virðast nýstárlegar.
Vegna þess hve bannið við öllu nýlegu og ríkmannlegu – og reyndar öllu sem ekki lítur út fyrir að hafa annað hvort fengist hjá Rauða krossinum eða Hjálpræðishernum – er skilyrðislaust, telja ýmsir ennfremur að krúttin séu betur í stakk búin en aðrir til að takast á við kreppuna. Þetta er náttúrlega eins og hvert annað kjaftæði. Það gerir engan hæfari til að mæta fátækt, sem hefur aðallega hangið á kaffihúsum sötrandi latte á 450 krónur bollann brimandi netið á mörghundruðþúsund króna kjöltutölvu, að finnast ógeðslega flott að vera eins og niðursetningur til fara og Sigur Rós skemmtileg.
Bakþankar í Fréttablaðinu 10. 10. 2009

sunnudagur, október 04, 2009

Fé, fé, fé, fé, fé, fé

(lag&texti: Benny Anderson & Björn Ulvæus / íslenskur texti: D. Þ. J.)

Ég þræla'og púla út í eitt
svo eytt ég geti'og skuldir greitt.
Ljótt er það.
En þrátt fyrir það aldrei er
neitt afgangs til að leika sér.
Nema hvað.
Draumfagra ég óra á,
í auðkýfing ég þyrfti'að ná.
Hve líf mitt yrði laust við streð,
hve létt þá yrði'og kátt mitt geð.

Fé, fé, fé, fé, fé, fé,
lífið sé spé;
ljúft að vera til.
Fé, fé, fé, fé, fé, fé,
hvorki hlé né
hik á sólar yl.
Aha, aha. Sitthvað gæti ég gert.
Ef ég aðeins ætti fé, fé,
væri'allt mér í vil.

Á hverju strái ekki er
slíkt öðlingsmenni, því er ver.
Ljótt er það.
Og þótt hann væri frír og frjáls
hann félli tæpast mér um háls.
Nema hvað.
Ég þyrfti'að líða'í ljúfri fró
um Las Vegas og Mónakó
og vinna stóran póker pott
af peningum og lifa flott.

Fé, fé, fé, fé, fé, fé,
lífið sé spé … o.s.frv.

mánudagur, september 28, 2009

Minna morfís, meira vit!

Kappræður eru góð skemmtun þegar gáfaðir, mælskir og fyndnir menn eigast við. Þessi íþrótt hefur þó ekki notið sannmælis lengi vel, en þar er að mínu mati oftast um misskilning að ræða. Þegar tvö lið mætast í kappræðum er nefnilega ekki tekist á um það hvorir hafi rétt fyrir sér, eins og sumir virðast halda, heldur einungis hvorir leggi mál sitt fram, rökstyðji það og hreki rök hinna betur. Umræðuefnið er aðeins leikvöllur mælsku og raka sem auðvitað geta verið krydduð skopi þegar vel tekst til. Það er alls ekki tekist á um umræðuefnið sjálft, ekki frekar en að þegar tveir menn sitji að tafli takist þeir á um hvort svart eða hvítt sé fallegra. Kannski má rekja það hve kappræður eru almennt lágt skrifaðar hér á landi til Morfís, mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskóla á Íslandi, sem er fyrir löngu orðin hreinræktuð stæla-, útúrsnúninga- og skætingskeppni og hætt að eiga nokkuð skylt við mælsku eða rökræður.
Kappræður eru hins vegar aðeins íþrótt eða leikur. Markmiðið er eitt: sigur. Þær eru því afleit aðferð til að ná skynsamlegri niður­stöðu. Þess vegna er verulegt áhyggjuefni hve mikinn keim opinber umræða á Íslandi ber af kappræðum. Að hluta kann það að stafa af mikilli þjálfun unggæðinga stjórnmálaflokkanna í þeirri afskræmingu mælskulistarinnar sem Morfís er. En kannski eru Íslendingar bara haldnir þeirri firru í óeðlilega miklum mæli að það sé dyggð að bíta eitthvað nógu fast í sig og hanga svo á því eins og hundur á roði.
Senn taka Íslendingar eina afdrifaríkustu ákvörðun lýðveldis­sögunnar. Aðild landsins að Evrópusambandinu verður borin undir þjóðaratkvæði. Nú ríður á að við ræðum málin af skynsömu viti í stað þess að skiptast á slagorðum. Það þýðir ekki að bjóða þjóðinni upp á þann málflutning að annaðhvort feli aðild í sér himnasælu eða vítisvist. Þjóðin er gáfaðri en svo. Hún veit of mikið um lönd sambandsins til að hægt sé að ljúga slíku í hana. Það þarf að rökræða aðild, ekki kappræða hana.
Því miður tel ég ráðningu Davíðs Oddssonar í starf ritstjóra Morgun­blaðsins benda til þess að ekkert slíkt sé á dagskrá þeim megin víglínunnar. Þar á bæ standi ekkert til nema allsherjar herkvaðning ofan í skotgröfina. Davíð hefur aldrei verið maður yfirvegunar eða sáttfýsi, heldur ávallt þvermóðsku, þykkjukulda, langrækni og hefnigirni. Hann er holdgervingur alls þess sem ekkert erindi á í vitræna umræðu. Hún mun því fara fram annars staðar en í Mogganum.
Bakþankar í Fréttablaðinu 26. september 2009

miðvikudagur, september 23, 2009

Miðvikudagshugvekja um mótmælanda Íslands

Þegar Cassius Clay kastaði kristinni trú, gerðist múslimi og tók sér nafnið Múhameð Alí gerði hann engar kröfur á sitt gamla trúfélag. Hann krafðist þess ekki að það breytti hjálpræðisskilningi sínum í þá átt að Jesús hefði í raun ekki verið frelsari allra manna heldur bara mikill spámaður, en þó ekki eins mikill og Múhameð. Hann fór ekki fram á að kirkjan breytti guðsþjónustuforminu eða kirkju- og sakramentisskilningi sínum. Ég held að flestir sjái reyndar í hendi sér hve ósanngjörn slík krafa hefði verið. Enda gat Múhameð Alí að sjálfsögðu látið sér það í léttu rúmi liggja hvernig hans gamla trúfélag skildi og skilgreindi hið mannlega hlutskipti og aðkomu æðri máttarvalda að því – hann tilheyrði því ekki lengur.
Sömuleiðis er það þannig að þegar múslimi gerist kristinn getur hann ekki krafist þess að hans gamli söfnuður hafni spámanni sínum og helgiriti. Hann getur ekki einu sinni farið fram á að nafnið hans verði þurrkað út af farþegalistanum í pílagrímsferðinni sem hann fór til Mekka, hvað þá að Islam breyti því hverjar hinar fimm stoðir trúarinnar skuli vera og hvernig þær skuli túlkaðar. Kirkju- og moskubókum (séu þær yfirhöfuð til) er ekki breytt eftir á af tillitssemi við þá sem síðar vilja fara sjálfstæðar leiðir í andlegu lífi sínu. Þegar fólk yfirgefur trúarbrögð, hvort heldur sem er til annarra trúarbragða eða engra, á það einfaldlega engar dogmatískar kröfur á hendur sínu gamla trúfélagi.
Íslendingar hafa einstakt lag á því að dýrka þrjósku. Fyrir þeim er það einhver ómótstæðileg dyggð að vera nógu andskoti þrár, alveg óháð málstaðnum eða forsendum hans. Þannig er ekki langt síðan Gísli nokkur á Uppsölum í Selárdal við Arnarfjörð varð að einhvers konar þjóðhetju hér á landi. Afrek hans var í því fólgið að hafa bitið það í sig ungur að árum, vegna persónulegrar beiskju í garð ættingja sinna, að dalinn sinn skyldi hann aldrei yfirgefa. Háaldraður var hann orðinn svo einangraður og utangarðs að hann var hættur að geta tjáð sig þannig að landar hans skildu hann. En honum var hampað sem einhvers konar holdgervingi alls sem íslenskt var, þótt í raun væri hann ekki holdgervingur neins annars en sinnar eigin heimsku, í upphaflegastri merkingu orðsins – „heim-elsku“. Er kannski eitthvað sérstaklega íslenskt við þann eiginleika?
Nú er annar Íslendingur fallinn frá, sem vakti aðdáun samborgara sinna fyrir þrjósku, sem vissulega var aðdáunarverð ef hægt er að nota það lýsingarorð um fyrirbærið. Sambanburðurinn nær kannski ekki lengra. Árum saman var Helgi Hóseasson, „mótmælandi Íslands“, hluti af götumyndinni við Langholtsveg með skilti sín. Margir vilja af þeim sökum reisa honum einhvers konar minnisvarða og er það að mínu mati vel við hæfi. Það sem ekki væri við hæfi væri að opinberir aðilar hefðu einhverja aðkomu að slíkum minnisvarða umfram þá að útvega honum einhverja fermetra í borgarlandinu, gjarnan við Langholtsveginn. Annað væri móðgun við málstað og minningu Helga.
Hins vegar finnst mér sú „kanónísering“ hans sem einhvers konar píslarvottar, sem hófst strax í kjölfar andláts hans, býsna vanhugsuð. Minn ágæti vinur og samstarfsmaður til margra ára, Karl Th. Birgisson, birti nýverið hressandi pistil um Helga á heimasíðu Herðubreiðar. Þar fullyrðir hann tæpitungulaust að Helgi hafi frá unglingsaldri verið upp á kant við umhverfi sitt, ekki lynt við neinn og alls staðar komið sér út úr húsi. Um þetta er Karl fróðari en ég, enda voru þeir Helgi náskyldir. Ég tek heilshugar undir upphaf pistils Karls þegar hann segir: „Það er meira en lítið ógeðfellt að fylgjast með einu allsherjarpisseríi þeirra, sem á annað borð tjá sig, utan í minningu Helga Hóseassonar frá Höskuldsstaðaseli í Breiðdal. Fæst er þar iðkað af smekkvísi og flest af grunnhyggni. … Staðreyndin er sú að Helgi Hó var snarklikkaður, en hafði einn góðan málstað.“ Síðan byrjum við Karl reyndar strax að vera ósammála.
Að mínu mati var það góður og göfugur málstaður hjá Helga Hóseassyni að benda á þá ósvinnu sem þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra gerðust sekir um þegar þeir ákváðu sín á milli í einu símtali að taka sér vald, sem þeir höfðu ekki samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins, og gera Íslendinga að beinum aðilum að styrjöld Bandaríkjamanna í Írak um olíuhagsmuni hernaðarveldisins í vestri. Hér hefði auðvitað samstundis átt að rjúfa þing, svipta þá kumpána allri embættis- og þinghelgi og draga þá fyrir dómstóla ákærða fyrir landráð og valdníðslu. Það var auðvitað ekki gert.
Að mati Karls, misskilji ég hann ekki, var hinn góði málstaður Helga aftur á móti barátta hans fyrir því að kirkjan rifti skírnarsáttmála hans, sem móðir hans gerði fyrir hans hönd, væntanlega í góðri trú með andlega hagsmuni hvítvoðungsins í huga. Hér held ég að Karl falli í þá gildru að álíta óvin óvinar síns vin sinn, óháð því hvort heil brú sé í málstað hans eða ekki, og að persónuleg kirkju- og trúarandúð Karls aftri honum frá því að skoða málið af sanngirni gagnvart báðum aðilum, sem annars er fjarska ólíkt þeim sómapilti. Af hverju Helga var svona mikið í mun að fá þetta ógilt er mér hulin ráðgáta. Hafi hann í raun verið eins trúlaus og hann lét í veðri vaka, af hverju gilti það hann þá ekki einu hvaða merkingu einhverjir karlar úti í bæ lögðu í þetta vatnsgutl í frumbernsku hans, sem fyrir honum hlaut að vera orðið merkingarlaust með öllu? Heyrst hefur að kirkjuna hafi á einhvern hátt sett niður við að verða ekki við þessum kröfum hans, hún hafi sýnt óbilgirni og gott ef ekki ósanngirni líka. Að mínu mati hefði kirkjuna þó fyrst sett niður ef hún hefði farið að hringla í skilningi sínum, túlkun og útleggingu á því, sem fyrir henni hefur í tæp tvöþúsund ár verið álitið heilagt sakramenti, af meðvirkni með fixídeu eins „snarklikkaðs“ einstaklings (svo ég haldi mig við termínólógíu Karls). Það er hægt að vera andvígur kirkju og kristni á margvíslegum forsendum, að hún sé sjálfri sér samkvæm gagnvart því sem hún álítur heilagt er ekki ein þeirra forsendna.
Reyndar má segja að Helgi hafi haft sigur í baráttu sinni. Árið 1982 lýsti þáverandi biskup því yfir að hann áliti skírnarsáttmála Helga ónýttan. Frá sjónarhóli kirkjunnar væri aftur á móti ekki hægt að gera það á annan hátt en Helgi hefði sjálfur gert. Hins vegar væri það ekki á valdi kirkjunnar að ónýta hann, aðeins Helga sjálfs. Þetta nægði Helga þó ekki.
Erfitt er að benda á það hvaða mannréttindi eiga að hafa verið brotin á Helga Hóseassyni. Hann naut fullkomins trúfrelsis og tjáningarfrelsis sem hann nýtti sér út í ystu æsar – ef ekki lengra. Útför hans fór að öllu leyti fram samkvæmt óskum hans. Sjúkrasögu hans þekki ég ekki, né heldur meinta aðkomu kirkjunnar að henni, sem Karl ýjar að í grein sinni. En við verðum að gera okkur grein fyrir því að frelsið er og verður þess eðlis að það nær aðeins upp að nefinu á næsta manni. Trúfrelsi einstaklings A getur ekki skikkað einstaklinga Á til Ú til að breyta því hvernig þeir skilja með sjálfum sér trúarleg atriði sem á engan hátt kássast upp á persónufrelsi, trúfrelsi, ferðafrelsi eða tjáningarfrelsi einstaklings A. Hvað væri þá orðið um trúfrelsi einstaklinga Á til Ú? Það, hversu augljóslega ósanngjarnan málstað Helgi hafði að verja hvað þetta atriði varðar, virðist hins vegar eiga afskaplega erfitt með að rata inn í umræðuna. Það er jafnvel hulið þeim skynsemispilti Karli Th. Birgissyni. Þótt hann veigri sér ekki við því að segja „Helgi var nefnilega uppfullur af hleypidómum, rugli og þvælu, hann var einsýnn og við hann var ekki hægt að skiptast á skoðunum“ er eins og þessi barátta hans hljóti sjálfkrafa að hafa verið undanskilin þessum skapgerðareiginleikum hans vegna þess eins að hinum megin var fyrirbærið kirkja.
Allir sem þekktu Helga persónulega, sem ég gerði ekki, virðast á einu máli um að hann hafi verið einstaklega hjartahlýr maður, vel meinandi og með eindæmum barngóður. Um það hvarflar ekki að mér að efast og síst af öllu vakir fyrir mér að sverta minningu Helga Hóseassonar á nokkurn hátt. En það er hárrétt sem Karl segir í niðurlagi pistils síns og ég tek undir: „... sjálfum fannst Helga sannleikurinn alltaf sagna beztur og rómantíkin um hann er í mörgum tilvikum svo yfirgengileg að það er beinlínis nauðsynlegt að tala ekki í kringum hlutina “
Vera má að Helgi Hóseasson hafi verið einhvers konar fórnarlamb, en ekki kristninnar. Hafi hann verið píslarvottur var píslarvætti hans aðeins af völdum hans eigin skapgerðar.
Ég votta öllum aðstandendum Helga samúð mína og óska minningu hans allrar blessunar.

mánudagur, september 14, 2009

Árásin á Ingólfstorg

Miklar framkvæmdir eru í vændum í miðborg Reykjavíkur. Rífa á Nasa við Austurvöll og skerða Ingólfstorg til að rýma fyrir risahóteli. Ég er þeirrar skoðunar að þessar hugmyndir séu glapræði. Kemur þar einkum þrennt til.
Í fyrsta lagi er byggingin sem hýsir Nasa menningarsögulegt djásn, elsti hlusti hennar var byggður 1870. Salurinn, frá 1946, á engan sinn líka. Innréttingarnar, sem margar eru upphaflegar, eru fágætur vitnisburður um glæsileika og tísku efirstríðsáranna sem víðast annars staðar hefur vikið fyrir séríslenskum gráma og landlægri meðalmennskudýrkun. Að smíða eftirlíkingu af salnum í kjallara fyrirhugaðs hótels er auðvitað ekkert annað en hámark plebbaskaparins. Eða dytti einhverjum í hug að réttlæta eyðileggingu á handriti með þeim rökum að til sé ljósrit af því?
Í öðru lagi hlýtur að teljast fásinna að fara út í framkvæmdir af þessari stærðargráðu á sama tíma og hálfkaraðar draugahallir og tómir turnar bera hruni og kreppu ófagurt vitni á víð og dreif um borgarlandið. Væri nú ekki ráð að klára eitthvað af þeim áður en hafist er handa við jafnviðamikið og tímafrekt rask og hér er á ferðinni?
Loks hlýtur það að orka tvímælis að sá sem mest mun hagnast á þessari framkvæmd skuli vera jafnrækilega tengdur inn í annan stjórnmálaflokkinn sem myndar meirihluta í borgarstjórn, og hér er um að ræða. Einhver kynni að spyrja hvort hann eigi að gjalda þess, en spurningin er heimskuleg því svarið er augljóslega já. Hann á að gjalda þess. Frelsi auðkýfinga til stórframkvæmda er ekki forgangsmál í íslensku samfélagi eins og sakir standa.
Í nútímaþjóðfélagi er ekki nóg að sennilega sé staðið að framkvæmdum sem þessum með eðlilegum hætti. Það þarf að vera hafið yfir allan vafa að svo sé. Þegar fólk er í þeirri stöðu að taka ákvarðanir sem ekki aðeins hafa víðtæk áhrif á líf og umhverfi samborgaranna heldur ekki síður tekjur og gróðamöguleika stórbokka, gilda einfaldlega um það aðrar reglur en fólk almennt. Þegar eiginmaður framámanns í valdaflokki fær leyfi fyrir svona umdeildum, umfangsmiklum og langvinnum framkvæmdum í hjarta miðborgarinnar í óþökk fjölda borgarbúa, ef ekki flestra, þá minnir einfaldlega of margt á klassíska, íslenska spillingu til að verjandi sé að fallast á þær.
Bakþankar í Fréttablaðinu 12. september 2009

mánudagur, ágúst 31, 2009

Alþynnki

Það er ljótt að vera fullur í vinnunni. Drukknir menn skila alla jafna verra verki en allsgáðir og svindla þannig á vinnuveitendum sínum. Þó geta kringumstæður mildað alvarleika glæpsins, til dæmis ef vinnan er svo niðurdrepandi og vinnufélagarnir slíkt pakk að smá brjóstbirta sé nauðsynleg til að þreyja kvöldvaktina. Sömuleiðis ef vinnan er þess eðlis að vart megi greina á afurðinni hvort hún hafi verið unnin af fullum manni eða ófullum. Á hinn bóginn er það síðan auðvitað grátleg sóun á fylliríi að vera á því á jafnömurlega leiðinlegum stað og Alþingi Íslendinga.
Löng hefð er fyrir því að utanbæjarmönnum verði hált á svellinu í kaupstaðarferðum og fari offari í sollinum á mölinni. Þannig henti það til dæmis nýlega þingmannsblók eina utan af landi að fá sér eilítið rækilegar neðan í því en góðu hófi gegndi áður en hún steig í ræðustól þingsins. Í kjölfarið reyndi hún síðan fyrst að þræta fyrir að hafa smakkað það og síðan fyrir að hafa fundið nokkurn skapaðan hlut á sér, rétt eins og alsiða sé að smakka það í öðrum tilgangi. Höfðu sumir á orði að við þetta hefði Alþingi sett niður og tók Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, jafnvel svo djúpt í árinni að segja þetta þinginu ekki sæmandi.
Nú veit ég ekki alveg hvaða skilning þingmaðurinn leggur í orðið sæmd en benda verður á að hann er fulltrúi flokks sem réði lögum og lofum á Alþingi síðastliðna tvo áratugi og notaði þá til að breyta þinginu í viljalausa afgreiðslu fyrir ríkisstjórn, gera löggjafarvaldið að gólfmottu framkvæmdavaldsins. Á þeim tíma steyptu Sjálfstæðismenn þjóðarbúinu í svo glórulausar skuldir að þegar allt er talið jafnast þær á við að hvert einasta hús á landinu hafi brunnið til kaldra kola. Og þetta gerðu þeir bláedrú! Þeir hafa enga afsökun.
Auðvitað á maður ekki að vera fullur í vinnunni, en áður en farið er að gapa um sæmd Alþingis væri kannski ekki úr vegi að skoða hana í óbrjáluðu samhengi. Sæmd Alþingis er nefnilega alls ekki í svaðinu. Hún er ofan í iðrum jarðar. Hafi einhverjum tekist að hífa hana þaðan upp í svaðið á hann þakkir skilið, en ekki skammir frá þeim sem notuðu áratuga einræði sitt yfir stofnuninni til að gera Íslendinga að alheimsundri fyrir heimsku.
Bakþankar í Fréttablaðinu 29. 8. 2009

miðvikudagur, ágúst 19, 2009

Raunveruleikalýðræði

Það er gott og gaman að horfa á sjónvarp. Sjónvarpið er orðið svo stór hluti af tilveru okkar að satt best að segja er erfitt að ímynda sér tilveruna án þess. Það er eins og gluggi á hverju heimili út í umheiminn. Það veitir okkur ómælda skemmtun, upplýsingar, fróðleik og afþreyingu. Vegna sjónvarpsins getum við verið vitni að heimssögulegum atburðum, hvar sem er í heiminum, um leið og þeir eiga sér stað. En það sama gildir um sjónvarpið og flest annað sem er gott og gaman. Það er hægt að týna sjálfum sér í því. Fólk getur ánetjast sjónvarpsglápi og misst af lífi sínu við að horfa á líf annarra.
Þess vegna á sjónvarpsstöðin Skjár einn sérstakar þakkir skilið fyrir framlag sitt til baráttunnar gegn sjónvarpsfíkn. Það er í því fólgið að bjóða upp á sjónvarpsefni sem engin manneskja með meðalgreind eða meira getur mögulega límst við. Mikill meirihluti þáttanna sem þar eru sýndir eru í raun einn og sami, heimskulegi þátturinn í mismunandi umgjörð. Alltaf endar hann á því að einhver er sendur heim – af því að hann grenntist ekki nóg, var ekki nógu duglegur að bjarga sér í óbyggðum eða var ekki nógu efnilegur söngvari, dansari, kokkur, innanhússhönnuður, tískudrós, vonbiðill, fyrirsæta og þar fram eftir götunum. Þetta er hið svokallaða raunveruleikasjónvarp.
En í raun er ekkert svo slæmt að ekki sé hægt að læra af því. Nú sitjum við til dæmis í súpunni eftir að hafa, með lýðræðislegum hætti, valið yfir okkur glæpsamlega vanhæfa stjórnmálamenn. Ekkert bendir til þess að þeir ætli að læra af reynslunni. Þeim, sem mesta ábyrgð bera á ógæfu þjóðarinnar, virðist jafnvel vera svo gersamlega um megn að geta lært að skammast sín, að þeir þykjast þess siðferðilega umkomnir að hafa skoðun á því með hvaða hætti eigi að þrífa upp skítinn eftir afglöp þeirra. Og hreinsunardeildin er líka föst í skotgröfum flokkslínunnar, hugarfarsins sem varð okkur að falli til að byrja með.
Þar sem fulltrúalýðræðið hefur reynst okkur svona illa legg ég því til að við tökum upp svokallað „raunveruleikalýðræði“. Það felst í því að í stað þess að kjósa 63 einstaklinga til þingvistar á fjögurra ára fresti fáum við einu sinni í viku að kjósa einhvern burt af eyjunni. Gæti það mögulega reynst okkur verr?
Bakþankar í Fréttablaðinu 17. ágúst 2009

mánudagur, ágúst 03, 2009

„Við það augun verða hörð ...“

Þegar ég var strákur langaði mig óskaplega mikið til að verða skáld þegar ég yrði stór. Sú list að geta með fáum, vel völdum orðum haft djúp áhrif á fólk, jafnvel látið það fá gæsahúð, heillaði mig alveg upp úr skónum. Á meðan félagar mínir dáðu poppstjörnur, knattspyrnumenn og leikara fann ég mínar fyrirmyndir í Skólaljóðum, bókinni sem sennilega hafði mest áhrif á menningarlega mótun mína í uppvextinum.
Þegar ég varð unglingur og fór að kynna mér ævi þessara karla og þann hluta kveðskapar þeirra sem ekki rataði í Skólaljóðin ágerðist þessi áhugi minn. Það sem einkum heillaði mig þá var drykkjuskapurinn og kvensemin sem nánast virtist vera hluti af starfslýsingu þjóðskálds. Eymdin, ógæfan og volæðið sem einnig virtist vera skilyrði var í augum mínum rómantískt og eftirsóknarvert hlutskipti.
Af þessum sökum tók ég ungur að reyna að temja mér drykkjuskap og kvensemi. Ég vona að ég hljómi ekki sjálfbyrgingslega þótt ég leyfi mér að fullyrða að mér hafi bara tekist allvel upp, einkum við drykkjuskapinn. Ég læt liggja á milli hluta hvort kvensemin hafi skilað jafnmiklum árangri og erfiði.
Aftur á móti varð minna úr því að kveðskapur minn væri sú tæra snilld sem stefnt var að. Ljóðin sem breyta áttu því hvernig Íslendingar hugsuðu um sjálfa sig, uppruna sinn og gildismat létu á sér standa. Aldrei tókst mér að toppa Bjössa litla á Bergi, Bikarinn eða Ef. Steinn Steinarr var auðvitað með öllu ósnertanlegur. Eftir á að hyggja var þetta kannski vegna þess að einhvern veginn hafði sú hugmynd læðst að mér að ef ég bara væri nógu iðinn við drykkjuskapinn og kvensemina sæi restin um sig sjálf.
Það kom mér því verulega á óvart þegar ég komst að því löngu síðar að hægt væri að yrkja ljóð fyrir hádegi á virkum degi. Áður hefði ég getað svarið fyrir það að skapandi hugsun væri möguleg á hefðbundnum skrifstofutíma. Að sitja við yrkingar eins og hverja aðra vinnu var eitthvað sem ekki hafði hvarflað að mér að skilað gæti neinu sem varið væri í. Þó var það nákvæmlega það sem Halldór Laxness hafði gert með góðum árangri og reyndar fleiri skáld líka. Mér hafði bara láðst að kynna mér þau. Þau voru nefnilega ekki eins spennandi. Kannski af því að drykkjuskapinn og kvensemina vantaði.
Bakþankar í Fréttablaðinu 1. ágúst 2009.

laugardagur, ágúst 01, 2009

Níðsálmur

Í gærkvöld stýrði ég hagyrðingamóti á Fjarðarborg í Borgarfirði eystri. Var þar margt um manninn og glatt á hjalla eins og við var að búast. Ég get engan veginn gert grein hér fyrir öllu sem þar var ort. En mig langar þó að deila níðvísu, sem ort var um yðar einlægan, með lesendum. Svo er mál með vexti að fyrr í mánuðinum prédikaði ég við messu í Hjaltastaðarkirkju. Einn hagyrðinganna hafði séð það auglýst og leist ekki nema rétt mátulega á. Um það fjallar þessi kveðskapur, sem er undir passíusálmshætti. Höfundurinn er Andrés Björnsson frá Gilsárvöllum á Borgarfirði eystri.

Gamminn hann geysa lætur
um Guð sinn í kirkjunnar reit
svo bera þess aldrei bætur
bændur í Útmannasveit.
Um englana víst þó veit.
Tæpast er til þess gerður,
trúhitinn þarna verður
fimmtán á Farenheit.

mánudagur, júlí 20, 2009

Fyll'ann gremju


Þegar ég var yngri voru bensínstöðvar staðir þar sem vegfarendur numu staðar ef þá vantaði bensín. Þar var reyndar einnig boðið upp á ýmsa aðra þjónustu fyrir bílinn. Maður var ekki bara spurður hvort ætti að „fyll'ann“ heldur jafnvel líka hvort það ætti að athuga olíuna eða strjúka af framrúðunni. Þetta heyrir sögunni til. Æ víðar eru komnar afgreiðslustöðvar þar sem maður verður sjálfur að veita sér alla þá þjónustu sem mann vanhagar um, væntanlega til að koma í veg fyrir hvimleið persónuleg samskipti við starfsfólk. Eina leiðin til að „fyll'ann“ er að vita fyrirfram upp á krónu hve mikið bensín í viðbót tankurinn rúmar.
Þetta virðist þó ekki gert til að spara starfsfólk. Öðru nær. Flestar bensínstöðvar eru nefnilega orðnar einhver ofursjoppa, jafnvel smákjörbúð með Smáratorgsdrauma. Þar er nú öll áherslan lögð á að bjóða svo fjölbreytt úrval af samlokum, gosdrykkjum, smáréttum, grillmat og útilegudóti, auk þess sem þar eru sjaldnast færri en tvær alþjóðlegar skyndibitakeðjur með aðstöðu, að ekkert pláss er eftir fyrir frostlög eða vinnukonur.
Þá voru loftmælar líka einföld, sjálfsögð og auðskilin tæki og til á öllum bensínstöðvum. Þeir líktust penna sem smellt var á ventilinn. Þrýstingurinn ýtti þartilgerðum pinna út. Því lengra út sem pinninn fór, þeim mun meiri var þrýstingurinn. Allt saman eins frumstætt, analóg og auðskilið og framast gat orðið. Nú hefur bansett framþróunin einnig náð inn á þetta svið. Horfin er sú vinalega spurning: „Getiði lánað mér loftmæli?“ Enda er auðvitað óskiljanlegt hvað samloku- eða hamborgarasali ætti að gera við slíkt tæki. Á bensínstöðvum þar sem eru mexíkanskir skyndibitastaðir er spurningin kannski eðlilegri. Loftleiðslan kemur engum inni á staðnum við, er digítal og tölvuvædd. Maður slær inn æskilegan loftþrýsting og bíður eftir pípi, eftir að einhver góðhjartaður hefur útskýrt fyrir manni hvernig þetta virkar.
Verst er þó að þegar maður lætur móðan mása af réttlátri vandlætingu eftir að hafa heimsótt þá framtíðar-dystópíu sem íslenskar bensínstöðvar eru upp til hópa orðnar, þá góna börnin manns á mann eins og maður sé að missa vitið. Þau heyra ekki hvöss snjallyrði reiða, unga mannsins sem glymja í eyrum manns sjálfs, heldur bara tuð í geðillu gamalmenni sem ekki nær að fylgjast með. Svona læðist tíminn aftan að manni.
Bakþankar í Fréttablaðinu 18. júlí 2009

mánudagur, júlí 06, 2009

Fréttir og fótbolti

Síðasta sunnudag var úrslitaleikur svokallaðrar álfukeppni í knattspyrnu leikinn. Þar áttust við lið Bandaríkjamanna og margfaldir heimsmeistarar Brasilíumanna. Leikurinn var hin besta skemmtun. Bandaríkjamenn komu verulega á óvart með frækilegri framgöngu og í hálfleik var staðan 2-0 þeim í vil. Þá bitu Brasilíumenn í skjaldarrendur. Þeir skoruðu þrjú mörk í síðari hálfleiknum og fóru með sigur af hólmi. Leikurinn var skólabókardæmi um flest það sem gert hefur knattspyrnu að vinsælustu íþrótt í heimi. Sjónvarpið á heiður skilinn fyrir að sýna leikinn í beinni útsendingu.
Leikurinn fór fram á hefðbundnum fréttatíma hérlendis. Fyrir vikið varð að hliðra fréttatímanum til, eins og áralöng hefð er fyrir þegar heimssögulegir atburðir eða Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva eiga í hlut. Þrátt fyrir þetta sáu einhverjir ástæðu til að fjargviðrast yfir því að fréttirnar skyldu ekki vera á réttum tíma. Einn fór mikinn á blogginu sínu, fannst nú sem Icesave væri mikilvægara en einhver fótbolti og óafsakanlegt að taka afþreyingarefni í hæsta gæðaflokki fram yfir nýjasta þvargið í stjórnmálaleiðtogunum okkar um það viðkvæma mál. Fréttirnar eiga að hans mati að vera klukkan sjö en ekki sex og allt annað að víkja á þeim tíma. Á honum var að skilja að kreppan hans dýrmæta myndi seyrna og skemmast ef hann fengi ekki nýjustu eymdarfréttirnar stundvíslega á hverjum degi.
Auðvitað ætti Sjónvarpið fyrir löngu að vera búið að koma sér upp sérstakri rás til að sýna frá merkilegum viðburðum, sem einhverjir kynnu ekki að hafa áhuga á, í stað þess að dagskráin fari alltaf öll á ská og skjön með reglulegu millibili, t.d. í kringum HM eða EM í fótbolta og Ólympíleika. En í raun er þessi tilfærsla dagskrárliða fyrir löngu orðinn rótgróinn hluti af íslenskri sjónvarpshefð og engum ofraun að fylgjast með því hvenær fréttirnar eru þegar þannig ber undir. Kreppufréttir og Icesave-umræða eru vitaskuld bráðnauðsynlegar lýðræðinu í landinu. En kreppan er ekki að fara neitt. Hún verður hér enn eftir að næsti fótboltaleikur er búinn og líka sá þarnæsti.
Allt hefur sinn tíma. Og stundum er einfaldlega tími til að njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða – þótt það sé kreppa.
Bakþankar í Fréttablaðinu 4. júlí 2009

mánudagur, júní 22, 2009

Æðri menntun

Þegar ég var á sjónum vorum við tveir um borð sem vorum með stúdentspróf. Enda vorum við alltaf kallaðir „menntamennirnir“ og mikið grín gert að því þegar okkur fórst eitthvað óhönduglega. Ef við vorum saman á vakt á dekki og vorum mikið að þvælast hvor fyrir öðrum, eins og óvanir menn eiga til, gátu gamanmálin sem af því spruttu haft ofan af fyrir áhöfninni allmarga róðra. Þetta þótti körlunum segja allt sem segja þyrfti um tilgangsleysi æðri menntunar sem ekki fæli í sér neina kennslu í vinnubrögðum til sjós, því sem þjóðin hefði nú lífsviðurværi sitt af þegar allt kæmi til alls.
Þetta „sýndu mér hvað þú getur, ekki segja mér hvað þú veist“ viðhorf karlanna um borð kom vel fram í afstöðu þeirra til stjórnmálamanna. Enginn var í meiri metum hjá þeim en Lúðvík Jósepsson, þótt hann væri löngu horfinn af sviði stjórnmálanna. Hann átti nefnilega að hafa haft það fyrir sið, þegar hann kom niður á bryggju að afla fylgis fyrir kosningar, að beita eins og eitt bjóð á meðan hann spjallaði við karlana. Það að sitja ekki auðum höndum yfir skrafinu heldur vera til gagns þótti þeim sýna að þar væri alvörumaður á ferð. Sjávarútvegsráðherra sem var liðtækur beitningamaður hlaut að vita hvað hann söng.
Ég man að á sínum tíma fór þetta menntahatur skipsfélaga minna í taugarnar á mér. Mér fannst það í raun aðeins vera ástæðulaus minnimáttarkennd gagnvart þeim sem höfðu einhverja skólagöngu umfram skyldunám, því eins og þeir voru iðnir við að benda á gerði námsgráðan okkur svo sannarlega ekki að betri sjómönnum en hina sem stigið höfðu ölduna árum saman. Mér fannst þessi jarðbundna, pragmatíska rörsýn á lífið og tilveruna lýsa andlegri fátækt.
Með tímanum hef ég þó orðið þakklátari fyrir að hafa fengið að finna fyrir þessari lífsafstöðu á mínu eigin skinni. Síðan hef ég nefnilega kynnst fólki sem komið er af mörgum ættliðum menntastétta og hjá því orðið var við lítt sæmandi hroka gagnvart undirstöðu þess; saltinu, slorinu og moldinni. Sumt af því hefur jafnvel látið í ljós þau viðhorf að það að vinna fyrir sér með höndunum, „heiðarleg vinna“ eins og það var kallað á sjónum, feli í sér örlög verri en dauðann. Það viðhorf er nefnilega að minnsta kosti jafnfátæklegt.

Bakþankar í Fréttablaðinu 20. júní 2009

mánudagur, júní 08, 2009

Bensínbruðl

Um síðustu helgi var ég gestgjafi nokkurra Norðurlandabúa sem hér voru í heimsókn. Þeir voru áhugasamir um hrunið og kreppuna og m.a. spurði Finninn mig um bensínverðið hér á landi. Ég sagði honum það og að nýleg hækkun þess hefði ekki gert lukku meðal landsmanna. Hann reiknaði þetta í huganum og tilkynnti mér svo að bensínið væri samt ódýrara hér en það hefur verið í Finnlandi árum saman.
Um alllangt skeið hef ég forðast að vera á ferð um borgina á ákveðnum tímum sólarhringsins vegna umferðarteppunnar sem þá er viss passi. Síðast þegar ég tók þátt í henni taldi ég að gamni mínu farþegana í hinum bílunum. Tuttugasti hver bíll reyndist hafa fleiri um borð en bílstjórann einan. Þegar allir eru á ferð í einu og hver einstaklingur þarf 12 fermetra af stáli undir rassgatið á sér einum er auðvitað ekki von að vel fari. Ég efast um að nokkur maður myndi kæra sig um að búa í borg sem væri undirlögð af vegakerfi sem réði við slík ósköp.
Í raun væri einfalt mál að minnka umferðarþungann á álagstímum um helming. Það þyrfti aðeins að skikka fólk til að taka einhvern með sér sem væri á sömu leið. Í sumum löndum er hvatt til þess að fólk taki sig saman um bílferðir með sérstökum akreinum fyrir bíla með farþegum. Hér á landi fer neyslustýring á hinn bóginn fram með sköttun og verðlagningu.
Í síðustu viku heyrði ég útvarpsmann nokkrun býsnast ósköpin öll yfir því hvað það væri orðið dýrt að aka í vinnuna. Reyndar var honum svo misboðið að hann hvatti til þess að fólk færi niður á Austurvöll með sleifar og potta til að mótmæla því að það væri orðið skynsamalegra að taka strætó í vinnunna eða að nokkrir vinnufélagar væru samferða á morgnana en að rúnta þennan spöl einn á sínum prívatbíl. Það voru ekki hagsmunir atvinnubíljstóra sem honum voru svona hugleiknir, heldur fannst honum einfaldlega með öllu óverjandi að hinar óhjákvæmilegu efnahagsaðgerðir vegna óstjórnar undanfarinna ára skyldu miða að því að draga úr svifryks- og koltvísýringsmengun í borginni, jafnframt því að stemma stigu við hinu hömlulausa bensínbruðli sem Íslendingar hafa tamið sér, með því að gera verðlagningu á eldsneyti hér á landi sambærilegri því sem tíðkast meðal siðaðra þjóða.
Ég er ósammála honum.

föstudagur, júní 05, 2009

Fljóð þrá bara fjör

(Cindy Lauper/Robert Hazard – íslenskur texti: D. Þ. J.)

Í rauðabítið er rangla ég heim
mig ræðir við móðir mín með hrútshornum tveim.
Æ, mamma, vertu stillt, á stóryrðin spör
því fljóð þau þrá bara fjör.
Ó, fljóð þau þrá bara fjör.

Um miðja nótt í mig er oft hringt.
Það misbýður föður mínum heilagt og sýknt.
Æ, elsku besti pabbi, yggldu'ekki vör
því fljóð þau þrá bara fjör.
Ó, fljóð þau þrá bara fjör.

Þau vilja ung og ör
allt fjör.
Þau eru svo úr garði gjör
að fljóð – þau þrá bara fjör.
Ó, fljóð þau þrá bara fjör.

Fljóð þau þrá … þrá bara fjör,
fljóð … þrá bara …

Ef þú hyggst í ungmeyju ná
og einangra stúlkuna heiminum frá
ei verður lukkuleg lífs hennar för
því fljóð þau þrá bara fjör.
Ó, fljóð þau þrá bara fjör.

Þau vilja ung og ör
allt fjör.
Þau eru svo úr garði gjör
að fljóð – þau þrá bara fjör.
Ó, fljóð þau þrá bara fjör.

Fljóð þau þrá … þrá bara fjör,
fljóð … þrá bara … fjör.

Þau þrá bara … þau þrá bara … fjör.

mánudagur, maí 25, 2009

Fljótandi Smáralind á sterum

Það er ekkert að því að veiða sér til matar. Þannig má sameina holla útiveru sjálfsbjargarviðleitni sem manninum virðist vera eðlislæg. Að á menn renni drápsæði þannig að allt kvikt, sem á vegi þeirra verður, liggi örent á eftir flokkast ekki undir það. Sömuleiðis er ekki stigsmunur á því að kunna að meta góð vín með góðum mat og því að vera fullur allan sólarhringinn sjö daga vikunnar, heldur eðlismunur. Hófsemi er dyggð, hún þarf ekki að fela í sér neinn niðurdrepandi meinlætalifnað.
Nú er skemmtiferðaskip í Reykjavíkurhöfn. Því fylgir gjaldeyrir sem okkur veitir ekki af. Auk þess hefur fólk gott af því skipta um umhverfi og anda að sér fersku sjávarlofti. Það bætir líka hvern mann að skoða heiminn og kynnast framandi þjóðum og menningu þeirra. Það er ekkert rangt við að eiga frí og nota það til ferðalaga.
Aftur á móti runnu á mig tvær grímur þegar það var upplýst að nóttin um borð kostar hálfa milljón. Ferðin hingað til lands kostar því um fimm milljónir króna. Að vísu er fæðið innifalið í verðinu, en um borð eru nokkrir veitingastaðir. Á einum þeirra er trosið meira að segja étið af Vercace diskum. Einnig eru sundlaugar, verslanir og spilavíti um borð. Þarna er sem sé boðið upp á hvers konar afþreyingu í formi sömu verslunar, neyslu og þjónustu og farþegarnir eiga að venjast heima fyrir. Að vísu reikna ég með því að það sé frítt í sund.
Nú vil ég ekki hljóma eins og krumpaður fýlupoki, en ég get ekki að því gert að mér finnst dálítið úrkynjað að borga margar milljónir fyrir að fá að vera lokaður inni í einhverri fljótandi Smáralind á sterum dögum saman, jafnvel þótt manni gefist kostur á að brjóta upp búðarápið með því að kíkja á Gullfoss og Geysi eins og einn eftirmiðdag. Það er eitthvað rangt við það, eitthvað sem storkar velsæmiskennd minni. Reyndar myndi ég ganga svo langt að segja að það sýni slíkan skort á lágmarkdyggðum í ætt við hófsemi, samhyggð og smekkvísi að jaðri við úrsögn úr samfélagi siðaðra manna.
Árið 1986 var tveim hvalbátum sökkt í Reykjavíkurhöfn. Einhverjir ofurhugar gerðu sér lítið fyrir og losuðu botnlokur skipanna til að vekja athygli á málstað sínum. Hérmeð auglýsi ég eftir þeim sem þar voru að verki. Ég er með verkefni handa þeim.

laugardagur, maí 16, 2009

Í tilefni af Eurovision ...

... rifjaðist upp fyrir mér kveðskapur frá því fyrir nokkrum árum. Þá var ég að velta fyrir mér textanum við vinsælasta Eurovisionlag allra tíma, Waterloo með Abba. Textinn er ástarjátning þar sem söngkonan játar sig sigraða fyrir persónutöfrum draumaprinsins á sama hátt og Napóleón varð að játa sig sigraðan fyrir hertoganum af Wellington, við Waterloo. Í textanum er þess hvergi getið að eftir þá orrustu lágu 45.000 – 60.000 manns í valnum. Þess vegna datt mér í hug hvort ekki væri hægt að staðfæra textann með því að setja saman jafnósmekklega tilvísun í eitthvað blóðbað eða níðingsverk sem Íslendingar tengja sig frekar við. Þetta varð niðurstaðan. Ég nennti ekki að klára textann, fannst brandarinn eiginlega kominn til skila og óþarfi að halda áfram með hann.

Njálsbrenna
(lag: Björn Ulvæus og Benny Andersson/texti: D. Þ. J.)

Æ, æ. – Í hjarta mér er Bergþórshvoll að brenna.
Ég hlæ – ég brosi'og mæti örlögunum eins og Skarphéðinn.
Í Njálu af natni'er því lýst
og nautninni sem af því hlýst.

Njálsbrenna! – Ég beygi mig núna, þú brenndir Njál.
Njálsbrenna! – Í brjósti mér kveiktirðu ástarbál.
Njálsbrenna! – Ástin er háski og háspenna!
Njálsbrenna! – Í hjarta mér logar nú Njálsbrenna!

... o.s.frv.

Vegna síðustu færslu ...

.. og viðbragða við henni langar mig að koma þessu frá mér:

Ofstækisfullt fólk myrðir annað fólk. Það telur sig af einhverjum ástæðum hafa rétt til þess af því á því er brotið, annað fólk er fyrir því, það stendur í vegi fyrir að það nái markmiðum sínum, kúgar það eða er á einhvern hátt fulltrúar „hinna“ sem viðkomandi stendur ógn af. Vegna þess hve sagan er full af því að fólk skilgreini sig út frá trúarbrögðum hafa hinar ýmsu erjur fengið á sig trúarlega réttlætingu – þótt í grunninn standi ágreiningurinn um allt annað en trúarbrögð. Nærtækt dæmi gæti verið Norður-Írland. Þar var ekki trúarbragðastyrjöld á milli kaþólisma og prótestantisma heldur stríð á milli þjóða sem deildu sama landi. Forsendur átakanna voru m.ö.o. ekki trúarbrögð. Það vildi aftur á móti þannig til að deiluaðilar voru upp til hópa hvorir af sínum meiði kristinnar trúar og því var talað um átök mótmælenda og kaþólikka. Reyndar hefur aldrei verið barist um trúarbrögð í mannkynssögunni, þau hafa verið notuð til að réttlæta stríð um lönd, auðlindir og pólitísk ítök í heimhlutum. Jafnvel krossferðirnar voru ekki trúarlegar heldur pólitísk aðgerð. Yfirgangur Spánverja og Portúgala í Suður-Ameríku var klassísk nýlendustefna. Frelsisstríð Spánverja var háð við Mára, ekki af því að þeir væru Múslimir heldur af því að þeir voru erlend herraþjóð, en sú staðreynd að þeir voru annarrar trúar var notuð til að réttlæta ofbeldið. Allt sem deilir fólki í „okkur“ og „hina“ getur réttlætt ofbeldi, trúarbrögð hafa engan einkarétt á því. Það að þorri Þjóðverja deildi trú með restinni af Evrópu kom ekki í veg fyrir seinni heimsstyrjöldina. „Við“ vorum herraþjóðin, „hinir“ voru óæðri. Ef litið er á sögu Evrópu undanfarna áratugi mun koma í ljós að knattspyrna ber ábyrgð á fleiri dauðsföllum en trúarbrögð, „hinir“ héldu me röngu liði. Hvar eru samtök herskárra knattspyrnuandstæðinga sem hægt er að skrá sig í?

Sjálfsvígsárásir eru neyðarúrræði fólks sem grípur til örþrifaráða til að berjast gegn ofurefli. Sjálfsvígsárásir tíðkuðust t.d. í Víetnam-stríðinu gegn bandarísku innrásarliði. Þar komu trúarbröð hvergi við sögu. Reyndar voru það kommúnistar, yfirlýstir trúleysingjar, sem þar beittu því. Að tengja sjálfsvígsárásir einvörðungu við átök sem réttlætt eru með trúarlegum ágreiningi fær því alls ekki staðist.

Kúgun kvenna hefur viðgengist um allan heim frá örófi alda, eins og trúarbrögð. Hún hefur, eins og trúarbrögð, verið hluti af menningunni og oft réttlætt með trúarlegum rökum. Hún hefur líka verið réttlætt með ýmsu öðru móti, t.d. líffræðilegum, heimspekilegum og félagslegum rökum. Var Platon kannski feministi? En Darwin? Ef tengja á kúgun kvenna í gegn um aldirnar einhverju sérstöku í fari mannkynsins væri það einna helst öndun súrefnis.

Dauðarefsingar hafa tíðkast frá fornu fari og ákvæði um þær verið í lögum flestra þjóða. Reynslan sýnir að trúarlög hafa engan einkarétt á því að kveða á um dauðarefsingar. Í dag eru dauðarefsingar hvergi algengari en í Kína, hjá trúlausu kommúnistunum. Í Bandaríkjunum er skýrt kveðið á um algeran aðskilnað ríkis og kirkna. Þar hafa dauðarefsingar verið landlæg plága.

Þjóðkirkjan fær greidd sóknargjöld sem ríkið sér um að innheimta fyrir hana eins og öll önnur trúfélög. Hún hefur engar tekjur af fólki sem ekki tilheyrir henni og því með öllu úr lausi lofti gripið að væna hana um þjófnað. Auk þess fær hún greiðslu fyrir afnot ríkisins af eigum sínum, samkvæmt þaraðlútandi samningi. Deila má um sanngirni þess samnings, en hann er ekki þjófnaður. Sumum finnst býsna vel í látið, aðrir vilja meina að ef kirkjan fengi aðeins eina kirkjujörð til baka, t.d. Garða í Garðahreppi (nú Garðabær), væri hægt að hafa af henni meiri tekjur en samningurinn kveður á um.

Tvískinnungurinn, hræsnin, viðbjóðurinn og yfirskinið innan kirkjunnar hefur farið framhjá mér. Ég viðurkenni að gera þarf átak í kirkjuaga gagnvart prestum Þjóðkirkjunnar, eins og sorgleg, nýleg dæmi sýna. Ákveðinnar siðbótar er þörf þar innandyra. En að halda því fram prestar og annað starfsfólk kirkjunnar auk fjölda óeigingjarnra sjálfboðaliða séu upp til hópa hræsnarar, að starfið sem þar er unnið sé „yfirskin“ (væntanlega fyrir vafasamar fyrirætlanir) og að þar sé stundaður „viðbjóður“ er rakalaust níð. Ég skora á hvern mann sem þykist þess umkominn að sanna að sjálfboðaliðastarf mitt eða einhvers annars fyrir Nessókn, svo dæmi sé tekið, sé tvískinnungur, hræsni, viðbjóður eða yfirskin.

Á Íslandi er trúfrelsi, málfrelsi og skoðanafrelsi, bæði innan kirkjunnar og utan. Að því getur komið að skoðanir einstaklinga eru of ólíkar skoðunum kirkjunnar til að þeir eigi þangað nokkuð erindi. Kirkjan er þeim samt opin, enginn er spurður um trúfélagsaðild eða yfirheyrður um hreinleika trúar sinnar þegar hann af einhverjum ástæðum kýs að leita til kirkjunnar. Hugsanakúgun hefur einkum verið vandamál í kommúnistaríkjum þar sem trúleysi var hin opinbera stefna ríkisins sem knúin var fram af algjöru miskunnarleysi.
Kristnir menn hafa aðeins eitt boðorð: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matt. 22.37-39) Þeim hefur vissulega gengið misvel að fara eftir því. En það getur varla gert nokkurn að verri manni að aðhyllast þessa lífsskoðun. Morð, sjálfsvígsárásir, kúgun kvenna, dauðarefsingar, þjófnaður, tvískinnungur, hræsni og annar viðbjóður samrýmast henni að mínu mati afar illa.

Guð blessi alla sem þessar línur lesa.

föstudagur, maí 15, 2009

Satt og logið um trúarlíf Íslendinga

Stundum heyrist talað um að Íslendingar séu trúlausir upp til hópa. Helstu fulltrúar ofstækisfulls guðleysis á Íslandi hafa m.a. orðið uppvísir að því að fullyrða að aðeins 51% þjóðarinnar segist trúa. Þetta er úr lausu lofti gripið og eftir því sem næst verður komist hreinlega rangt. Gaman væri að sjá þá vísa í einhverja könnun til að úskýra þá niðustöðu sína.

Árið 2004 var nefnilega gerð Gallup-könnun á trúarlífi Íslendinga sem leiddi meðal annars í ljós:

  • að 91% þjóðarinnar telja kristnifræðikennslu í grunnskólum ekki of mikla
  • að börn 83% þjóðarinnar hafa tekið þátt í æskulýðsstarfi kirkjunnar
  • að 69% þjóðarinnar telja sig trúaða
  • að 65% þjóðarinnar biðja bæna með börnum sínum vikulega eða oftar
  • að 62% þjóðarinnar fara með Faðirvorið nokkrum sinnum í mánuði (þar af helmingurinn daglega)

og loksins:

  • að 19% þjóðarinnar telja sig ekki trúaða.

Þeir eru m.ö.o. ekki talsmenn 49% þjóðarinnar eins og þeir telja sér trú um heldur þrýstihóps sem í mesta lagi inniheldur 19% þjóðarinnar (þá er nefnilega ekki tekið tillit til þess að stór hluti fólks sem enga trú játar hefur megnustu andúð á þráhyggjukenndu trúar- og kirkjuhatri þeirra).

mánudagur, maí 11, 2009

Evrópa og yfirvegun

Það þarf hvorki að ferðast víða um Evrópu né grufla lengi í fréttum frá álfunni til að verða ljóst að Evrópusambandsandstæðingar og aðildarsinnar fara báðir með rangt mál í áróðrinum sem nú dynur á okkur úr öllum áttum og yfirgnæfir umræðu um allt annað.
Evrópa er fráleitt laus við félagsleg vandamál, fátækt og kreppu. Í mörgum löndum er atvinnuleysi landlægt og hefur verið kynslóðum saman. Byggðaröskun af völdum miðstýrðrar auðlindanýtingar er víða svo mikil að jaðrar við brot á efnahagslegum, menningarlegum og félagslegum mannréttindum íbúanna. Það er með öðrum orðum hrein firra að aðild að Evrópusambandinu ein og sér tryggi auðlegð, velsæld, hagvöxt og endalausar, sjálfbærar blómabreiður í sígrænum högum atvinnulífsins eins og barnalegustu aulahrollskratarnir láta í veðri vaka.
Hitt er líka út í hött, að í aðild felist aðeins afsal auðlinda og dauðadómur yfir fullveldi aðildarríkjanna og sérkennum þjóðanna sem þau byggja, eins og manni gæti skilist á hinu undarlega samkrulli útgerðarauðvaldsins og afdankaðara austantjaldssossa sem mest hamast gegn henni. Evrópusambandið er greinilega engin einsleit grámóða sem leggst yfir löndin og sýgur úr fólki allan þrótt, frumkvæði og sköpunarkraft. Það er ekki eins og ríki sambandsins hafi öll verið gleypt af yfirþjóðlegu svartholi sem máð hafi út einkenni þeirra hvers um sig og steypt í þau öll í sama mótið eftir staðli frá Brussel.
Það er með öðrum orðum jafnvitlaust að mála skrattann á vegginn og að vera með glýju í augunum. Þetta er ekki spurning um líf eða dauða heldur hvort aðild henti okkur eða ekki. Annað hvort byggjum við okkur framtíð í sambandinu eða utan þess. Við getum ekki byggt hana í dyragættinni – þar sem við höfum haldið okkur til þessa.
Þess vegna er ánægjulegt að ríkisstjórn flokka sem eru á öndverðum meiði hvað þetta varðar skuli hafa náð sátt um að leiða þetta mál til lykta með lýðræðislegum hætti svo hægt sé að fara að sinna brýnni verkefnum. Sömuleiðis er hlægilegt að heyra formann Sjálfstæðisflokksins tala um það sem veikleikamerki, en eins og kunnugt er logar sá flokkur stafna á milli af ágreiningi um Evrópumál. Þar er ekki einu sinni hægt að ná sátt um að lenda málinu með leikreglum lýðræðisins.
Bakþankar í Fréttablaðinu 9. maí 2009

þriðjudagur, maí 05, 2009

1994

Í aðdraganda nýafstaðinna kosninga var einn frambjóðenda spurður hvort hann vildi virkilega fara með íslenskt samfélag 15 ár aftur í tímann. Í spurningunni lá að í slíkri afstöðu fælist aðeins rykfallin fortíðarhyggja og heimskulegur fjandskapur í garð hvers konar framfara og framþróunar á öllum sviðum. Enda sór frambjóðandinn það dyggilega af sér að vera slíkur pólitískur steingervingur að hann teldi eftir nokkru vitrænu að slægjast svo langt aftur í forneskjunni.
En þetta fékk mig til að staldra aðeins við og rifja upp liðna tíð. Ég er nefnilega orðinn svo gamall að ég man ósköp vel fimmtán ár aftur í tímann. Og hvernig sem ég rembist tekst mér engan veginn að fá upp í hugann neina mynd af því sovéska helvíti sem látið hefur verið í veðri vaka að hafi verið á Íslandi árið 1994. Ég man ekki betur en að hægt hafi verið að ferðast til útlanda, gjaldeyrisviðskipti hafi viðgengist og verðbólga hafi verið viðunandi. Að olíuverslun undanskilinni minnir mig meira að segja að viðskiptaumhverfi hafi verið þokkalega eðlilegt, alltjent voru orðin „ofurlaun“ og „græðgisvæðing“ ekki til í málinu.
Menningar- og listalíf var í blóma árið 1994. Söngleikurinn Hárið gekk fyrir fullu húsi í Íslensku óperunni, Maus vann Músíktilraunir og Hallgrímur Helgason sendi frá sér Þetta er allt að koma. Húmor og bjartsýni réðu ríkjum. Á Kaffibarnum var fullt út úr dyrum öll kvöld vikunnar. Þótt sjálfur hafi ég dvalið þar langdvölum minnist ég þess ekki að vísitölur, vogunarsjóði, vaxtabætur og verðtryggingarálag hafi nokkurn tímann borið á góma í samræðum þar. Nei, þar var rætt um menningu, listir og stefnur og strauma í hugsun, viðhorfum og gildum. Gott ef hinstu rök tilverunnar voru ekki öðru hvoru tekin til umfjöllunar. Árið 1994 var hagfræði nefnilega talin óáhugavert nördafag. Þá grunaði engan að aðeins fimmtán árum síðar yrði hún alfa og ómega allrar opinberrar umræðu um mannlegt samfélag.
Þegar betur er að gáð er ég ekki frá því að ef árið 1994 hefði verið í boði á kjörseðlinum um síðustu helgi hefði ég valið það. Í raun er það eina verulega slæma, sem ég minnist frá árinu 1994, framtíðin sem þá beið okkar.
Bakþankar í Fréttablaðinu 2. maí 2009

sunnudagur, apríl 26, 2009

Prédikað yfir kórnum

Þeir sem ætluðu að skemmta sér yfir örvæntingu Sjálfstæðisflokksins fyrir þessar kosningar hljóta að hafa orðið fyrir sömu vonbrigðum og ég. Þar er enga örvæntingu að finna, aðeins afneitun. Kjósendum er boðið upp á sömu frasana og í síðustu kosningum, rétt eins og ekkert markvert hafi gerst í pólitíkinni síðan þá. Enda eru þeir einu, sem ekki finnast þessar auglýsingar hjákátlega aumkvunarvert mjálm, fólk sem er svo þrúgað af inngróinni félagshyggjufælni að það kysi Sjálfstæðisflokkinn jafnvel þótt hann hefði orðið uppvís að enn gáleysislegri landráðum og víðtækari mútuþægni en komið hefur á daginn. Í guðfræði er þetta kallað að prédika yfir kórnum, þ.e. að eyða púðri í að sannfæra hina sannfærðu.
Þannig lofar Illugi Gunnarsson eðlilegu viðskipaumhverfi, væntanlega vegna þess að 18 ára alvald yfir íslensku viðskiptaumhverfi var alls ekki nógur tími til að gera það eðlilegt. Þversögnin er síðan að þess á milli er núverandi ríkisstjórn fundið það til foráttu að hafa ekki tekist að gera brunarústir hagkefisins sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi eftir sig að dýrðarríki sósíalismans á 80 dögum. Frambjóðendur flokksins hafa skrifað greinar í Morgunblaðið þar sem klifað er á þeirri goðsögn að hægri mönnum einum sé treystandi fyrir peningum. Maður hlýtur að spyrja sig fyrir hvern þær greinar séu skrifaðar. Þeir sem trúa þessu enn hafa tæplega lesið blöðin í allan vetur. Nýbakaður formaður spyr hverjum kjósendur treysti best til að byggja upp hið nýja Ísland eins og hann trúi því raunverulega að eftir það sem á undan er gengið svari nokkur heilvita maður þeirri spurningu: “Þér.”
Eini gallinn við hið ánægjulega og löngu tímabæra hrun Sjálfstæðisflokksins sem þjóðin verður vitni að í nótt er aftur á móti sá að enginn andstæðinga hans getur eignað sér heiðurinn af því. Enginn getur eignað sér vígið nema Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur. Enskumælandi menn taka stundum þannig til orða að sé einhverjum gefið nóg reipi endi hann á því að hengja sig sjálfur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið að leika lausum hala nógu lengi til að í ljós kom að allt sem hann hefur að bjóða er feigðarflan. Þannig styttir hann sér einfaldlega aldur sjálfur sem pólitískt afl á Íslandi í dag.
Bakþankar í Fréttablaðinu 25. apríl 2009

þriðjudagur, apríl 14, 2009

Hausaskeljastaðarávarpið


Nú þegar páskahátíð er fyrir dyrum er kannski við hæfi að staldra við og skoða hvernig táknmál krossfestingarinnar hefur birst í þjóðfélagsumræðunni upp á síðkastið. Það er nefnilega ekki langt síðan boðið var upp á nýstárlegt tilbrigði við Golgata-myndina í ræðu sem vakti töluverða athygli. Þar var frelsaranum á krossinum, vannærðum og húðstrýktum með ræningja til hvorrar handar, skipt út fyrir stríðalinn ræningja á eftirlaunaaldri með tvö vammlaus jakkaföt til hvorrar handar. Guðlastið er náttúrlega svo æpandi að umdeild símaauglýsing frá því í hitteðfyrra er eins og hákirkjulegur rétttrúnaður í samanburði.
Að vísu má hafa gaman af því að klára að fylla upp í myndina. Þannig mætti klappa Hólmsteini frá Kýrene á kollinn fyrir dugnaðinn við að bera kross frelsara síns þótt enginn hafi beðið hann um það. Sömuleiðis er skemmtilegur samkvæmisleikur að máta Steingrím, Jóhönnu og Ingibjörgu Sólrúnu sitt á hvað í hlutverk Heródesar, Kaífasar og Pontíusar Pílatusar.
Gallinn er bara að líkingin gengur alls ekki upp hjá ræðumanni. Til dæmis er nú orðið deginum ljósara að það verður ekki hann sem fær það hlutskipti að taka saklaus á sig allar misgjörðir flokksins. Fráfarandi formaður hans hefur nefnilega ekki haft undan við að gangast undir syndaklafa meðbræðra sinna jafnóðum og upp um skandalana kemst. Flokkurinn hefur orðið uppvís að því að ganga erinda stórfyrirtækja sem á móti dældu tugmilljónum króna í hann. Nýr formaður hefur reyndar lýst því yfir að auðvelt sé að draga rangar ályktanir af því að þetta skuli einmitt vera sömu fyrirtækin, í raun sé það aðeins óheppileg tilviljun. Myndin heldur nefnilega enn áfram að skekkjast þegar að því kemur að finna Júdas, þann sem seldi sál sína fyrir 30 silfurmilljónir. Þar er enginn skortur á kandídötum.
Loks hrynur líkingin alveg þegar haft er í huga að ræðumaðurinn hafði nýlega talað fjálglega um þann stuðning og traust sem hann nyti hjá alþýðunni, yfirvöld væru að ofsækja sig í óþökk hennar. Í píslarsögunni á sú lýsing ekki við um Jesú frá Nasaret, heldur morðingjann Barrabas. En auðvitað er það í fullkomnu samræmi við þann málflutning frjálshyggjunnar að græðgi sé góð, þ. e. a. s. að synd sé dyggð, að morðinginn sé frelsarinn.
Bakþankar í Fréttablaðinu 11. apríl 2009

fimmtudagur, apríl 09, 2009

Registur mitt

(lag & ljóð: Bob Dylan/íslenskur texti: D. Þ. J.)

Fagurrauður logi lék
um líf mitt fyrr á tíð.
Ég þusti fram með bál og brand
til bjargar þjáðum lýð.
Með hugsjónir sem leiðarljós
við landi skyldum ná.
Æ, ég var eldri áður fyrr,
ég er yngri nú en þá.

Ég fullur var af fordómum
gegn fláræði og synd.
Í huga mér var heimurinn
harla einföld mynd.
Já, hetjudrauma dreymdi mig
um dýrð sem ei var smá.
Æ, ég var eldri áður fyrr,
ég er yngri nú en þá.

Í hatri mínu á hatrinu
mjög hreinn var ég og beinn
og dómhörku alla dæmdi hart
dyggðum prýddur sveinn.
Allt rakst hvað á annars horn,
en aldrei það ég sá.
Æ, ég var eldri áður fyrr,
ég er yngri nú en þá.

Upphafin og óræð vá,
sem engan meiddi þó,
heltók blekkta hjartað mitt,
minn hug á tálar dró.
Af geðþótta einum greindi ég
hið góða illu frá.
Æ, ég var eldri áður fyrr,
ég er yngri nú en þá.


Eins og allir sem þekkja mig vita get ég staðist allt nema góða áskorun. Þetta er langt frá því að vera eitt af mínum uppáhaldslögum. Ég kannaðist við það í flutningi The Byrds, en hafði ekki hugmynd um að það væri eftir Dylan. Í flutningi hans er það líka alveg ævintýralega leiðinlegt, hann hljómar eins og illkvittinn karíkatúr af sjálfum sér. Þar sem sjáfspíslarhvöt minni eru takmörk sett notast ég því við útgáfu The Byrds og held mig við erindin fjögur sem þar eru sungin. Hjá Dylan eru þau sex, en honum hættir einmitt til að juðast á því sem honum liggur á hjarta með óþarfa langlokusmíðum. Eins og áður er þetta auðvitað ekki eiginleg þýðing heldur aðeins tilraun til að miðla hughrifum á milli tungumála.

þriðjudagur, mars 31, 2009

Týndur sauður

(Lag og ljóð: Bob Dylan/íslenskur texti: D. Þ. J.)

Áður varstu fín og flott í sýn,
þá flæddi kampavín og gæfa þín var ógurleg.
Þig allir voru að fjalla um og skjalla,
undan fæti halla myndi varla á nokkurn veg.
Þú hlóst bæði hátt og snjallt
að hinum sem var ekki gefið allt.
En drambið nú þú deyða skalt,
það dugar skammt ef manni er kalt
og þarf að sníkja bæði brauð og næturstað.
Hvernig er það?

Hvernig er það
að vera ein og snauð,
að vera öllum dauð,
að hafa misst sinn auð,
minna á týndan sauð?

Alltaf vel til fara með aðdáendaskara,
eftirsótt vara, þú þekktir bara gleði og glaum.
Svo brugðust loks þinn eiginn máttur og megin,
nú máttu felmtri slegin þrauka einhvern veginn ein og aum.
Þú sórst þess eið í allmörg sinn
aldrei að fara milliveginn,
en nú er afslátturinn útrunninn.
Enginn er lengur vinur þinn,
nema fyrir greiða í greiða stað.
Hvernig er það?

Hvernig er það
að vera ein og snauð,
að vera öllum dauð,
að hafa misst sinn auð,
minna á týndan sauð?

Aldrei nokkurn tíma í brjálæðisins bríma
þú baksviðs máttir híma né leggja þig í líma, því er ver.
Í innantómum dofa hver draumur fékk að sofa
og daga uppi vofa, því aðrir höfðu ofan af fyrir þér.
Þó að þú umgengist þotulið,
þvælt væri og lúið gullkortið,
nú tekur ómæld einsemd við,
enginn sem stendur þér við hlið,
horfnir þeir sem þú taldir þig eiga að.
Hvernig er það?

Hvernig er það
að vera ein og snauð,
að vera öllum dauð,
að hafa misst sinn auð,
minna á týndan sauð?

Að rista svona grunnt er ekki mörgum unnt,
egósentrísk trunta, bara upp á punt að skemmta sér.
Þú hafðir skotið rótum á heldrimanna mótum
hjá harðsvíruðum þrjótum, en lukkan kippti fótunum undan þér.
Þú gerðir endalaust grín að því
ef gagnrýndu einhver nóboddí
þá gerviveröld sem varstu í.
Þú vissir ekki um neitt svínarí
og hafðir jú ekkert að fela, eða hvað?
Hvernig er það?

Hvernig er það
að vera ein og snauð,
að vera öllum dauð,
að hafa misst sinn auð,
minna á týndan sauð?


Þetta er nýjasta afurð Þorsteins Eggertssonar-heilkennisins míns, áráttukenndrar þráhyggju að þýða erlenda söngtexta.
Like a Rolling Stone hefur verið valið besta rokklag allra tíma. Það hefur lengi verið eitt af mínum eftirlætislögum í heiminum, svo mjög að mér hraus hálfpartinn hugur við að reyna að snara því – mér fannst það jafnvel jaðra við helgispjöll. Auðvitað er þó ekki um eiginlega þýðingu að ræða, heldur aðeins tilraun til að miðla þeim hughrifum sem ég sjálfur verð fyrir af textanum. Ég byrjaði á þessu í haust, en gafst upp í miðju kafi. Í síðustu viku kom andinn yfir mig aftur og ég kláraði þetta.
Bragfræði Dylans er afar sundurleit og handahófskennd. Fjöldi atkvæða í línu virðist varla fylgja neinni reglu, heldur aðeins því hve mörg orð skáldið þurfti til að segja það sem það vildi koma til skila. Þess vegna elti ég ekki heldur ólar við að hafa öll erindin nákvæmlega eins í hrynjandinni.
Í fyrstu fjórum línunum er hins vegar ekki bara hrynjandin út og suður hjá Dylan heldur sjálft bragmynstrið líka. Mér finnst það aftur á móti lýti á íslenskum kveðskap. Þess vegna held ég rímformi Dylans úr fyrsta erindinu (inn- og endaríminu A-A/A-A-B/C-C/C-C-B) til streitu í gegn um öll fjögur erindin. Það kann að virðast mjög anal, en sama er mér. Hitt lítur að mínu mati út eins og höndum hafi verið kastað til við verkið.
Upphaflegi textinn hefur sögulega skírskotun til einstaklinga í áhangendahópi Andys Warhols. Dylan mun hafa fundist ein vinkona sín fara illa út úr veru sinni í honum og ort lagið um það. Sú skírskotun á að mínu mati ekkert erindi í dag, þótt áhugaverð sé. Lagið er einfaldlega löngu vaxið upp úr sögulegum bakgrunni sínum.
Kannski má finna vísun í nýlegri og nærtækari atburði í mínum texta, ég veit það ekki. En finnist einhverjum þessi texti fjalla um einhverja raunverulega persónu, lífs eða liðna, gerir hann það algerlega á eigin ábyrgð – ég sá bara fyrir mér einhverja nafnlausa meikdollu sem sápukúlan sprakk utan af.
Auðvitað er þetta misstirt hjá mér, en ég held að hægt eigi að vera að syngja þetta án mikilla harmkvæla. Langi einhvern að flytja þennan texta við eitthvert tækifæri er honum það frjálst hvar og hvenær sem er, ef hann aðeins getur höfundar.

mánudagur, mars 30, 2009

Iðrun og yfirbót

Það er gott og blessað að biðjast afsökunar. Þegar manni hefur orðið það á að skaða einhvern eða meiða af gáleysi hlýtur það að vera forsenda þess að um heilt geti gróið á ný. Aftur á móti er algerlega ófullnægjandi að láta þar við sitja. Iðrun er góðra gjalda verð, en aðeins ef yfirbót fylgir í kjölfarið.
Ef einhver myndi ræna mig eða skemma eitthvað fyrir mér þætti mér vissulega ágætt að fá afsökunarbeiðni þegar og ef hann sæi að sér. En afsökunarbeiðnin ein og sér myndi ekki gera neitt fyrir mig nema hvað ég fengi það kannski á tifinninguna að viðkomandi væri þess albúinn að bæta fyrir brot sitt og mér liði eilítið betur. Þegar á liði og yfirbótin léti á sér standa væri hins vegar sennilegt að mér þætti þessi afsökunarbeiðni einber hræsni og tilgerð, siðferðileg sjálfsfróun til að auðvelda honum, ekki mér, að lifa með því sem hann gerði mér.
Ef við þetta bættist að viðkomandi sæi fram á dóm fyrir það sem hann gerði mér, dóm sem fyrirgefning mín og vitnisburður um einlæga eftirsjá hans gæti mildað, kynni jafnvel að læðast að mér sá grunur að hugur fylgdi ekki máli. Þá þætti mér líklega einsýnt að afsökunarbeiðinin hefði þjónað þeim tilgangi einum að hjálpa honum að sleppa við afleiðingar gjörða sinna, ekki að bæta mér neinn skaða.
Sumt tjón verður aldrei að fullu bætt. Þó er hægt að fyrirgefa þeim sem veldur því ef maður sér einlæga viðleitni til að bæta ráð sitt hjá viðkomandi, að orð hans og hegðun bendi til þess að hann hafi séð að sér, lært af mistökum sínum og muni ekki endurtaka þau. Þá gæti yfirbótin einfaldlega falist í því að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna og taka þeim, undbragða- og bætiflákalaust.
Nú þegar loksins hefur borist einhver vísir að afsökunarbeiðni frá Sjálfstæðisflokknum, hálfu ári eftir að vitfirrt fjármálastjórn hans lagði íslenskt efnahagslíf í eyði, en kortéri fyrir kosningar, er kannski við hæfi að þjóðin hafi þetta í huga. Hvernig iðrun er lýst með því að ekkert hafi verið við stefnuna að athuga, vandamálið hafi verið einstaklingarnir sem framfylgdu henni? Er þá ekki eini lærdómurinn sem dreginn hefur verið af mistökunum sá að skipta þurfi um fólk, ekki stefnu eða stíl? Hefur slíkur flokkur bætt ráð sitt? Hvar er yfirbótin?

þriðjudagur, mars 17, 2009

Gert út á greindarskort almennings

Árdagar búsáhaldabyltingarinnar eru mér enn í fersku minni, þótt þeir virðist mörgum öðrum gleymdir nú. Þjóðin stóð á Austurvelli og barði saman pottum og pönnum til að koma þeim skilaboðum inn í Alþingishúsið að hún væri búin að fá sig fullsadda af vanhæfni og úrræðaleysi valdhafa. Ég man líka að snertileysi Sjálfstæðismanna við raunveruleikann var svo algert að það sem átti að taka til umfjöllunar var frumvarp um að leyfa sölu áfengra drykkja í matvöruverslunum.
Þeir héldu í alvörunni að þeir gætu haldið áfram eins og ekkert hefði ískorist, að óbeit þjóðarinnar á stjórnarfari þeirra og starfaðferðum væri eitthvað tímabundið óþol sem ekkert myndi skilja eftir sig og hægt væri að sitja af sér uns það gengi yfir. Þeir héldu að fólkið með pottanna og pönnurnar væri fámennur hópur kverúlanta og „atvinnumótmælenda“ á launaskrá Vinstri-grænna. Það er nefnilega löng hefð fyrir því innan Sjálfstæðisflokksins að hafa hvítliðasveitir á sínum snærum og þess vegna halda þeir að aðrir flokkar vinni eins. Hvítliðum Sjálfstæðismanna hefur að vísu aðeins einu sinni í lýðveldissögunni verið sigað á almenning, en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér.
Margur heldur mig sig. Þannig trúir Davíð Oddsson því að í Fréttablaðinu séu birtar upplognar skoðanakannanir til að koma höggi á sig. Hann vann nefnilega sjálfur á Mogganum í kalda stríðinu og finnst slík vinnubrögð því ekki fráleit.
Þjóðin kom á óvart. Ógeð hennar á ríkisstjórn Geirs Haarde blés henni í brjóst áður óþekktri elju og með seiglunni tókst að svæla Sjálfstæðismenn frá völdum. Þeir kunna því illa og í síðustu viku sóuðu þeir takmörkuðum tíma Alþingis í að mótmæla því að lýðræði í landinu sé aukið og eflt í stað þess að þar sé fjallað um bráðnauðsynlegar efnahagsaðgerðir. Þær hljóta væntanlega að felast í því að koma brennivíni í búðir. Alltjent hafði Sjálfstæðisflokkurinn lítið annað til málanna að leggja þegar hann var í ríkisstjórn og hagkerfið var nýhrunið.
Ekki kom fram í málþófi Sjálfstæðismanna nákvæmlega hve heimska þeir telja kjósendur vera, en ljóst má vera af tilburðunum að þeir álíta þá annað hvort verulega greindarskerta eða minnislausa. Í apríl verður þeim vonandi sýnt að það er ranglega ályktað.
Bakþankar í Fréttablaðinu 14. 3. 2009

laugardagur, mars 14, 2009

Ómar Reykjavíkur

Grafið mig grunnt er ég kveð
svo nemi ég óminn eyrunum með.
Það hressir mig og gleður mitt geð
gjálfrið í reykvískum ræsum.

Ruslið safnast alls staðar að.
Á Lækjartorgi liggur það.
Skrýðir mjög og skreytir þann stað
skrjáfið í reykvísku rusli.

Ef Smiðjustíg þú smellir þér á
daunill og lúin dúkkar upp krá.
Er húma tekur heyra þar má
háreysti í reykvískum rónum.

Um Laugaveg fer lýður á sveim
druslur að finna og draga með heim,
sig berhátta og böðlast á þeim.
Brakar í reykvískum rúmum.

Á Hlemmtorgi er handrukkað,
lánlausir fíklar lamdir í spað.
Er hrekkur sundur herðablað
hriktir í reykvískum ræflum.

Grafið mig grunnt er ég kveð
svo nemi ég óminn eyrunum með.
Það hressir mig og gleður mitt geð
gjálfrið í reykvískum ræsum.

Þetta er þýðing/staðfæring á írsk-bandarísku ættjarðarkvæði sem lengi hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér, The Rolling Mills of New Jersey. Ég sný því upp í óð til hljómkviðu höfuðborgarinnar.

laugardagur, mars 07, 2009

Staka

Þessa stöku orti ég til konu minnar í gær. Hún er bragfræðilegt stef við gamansögu sem hún sagði mér af tónsmíðaaðferðum Jóhanns Sebastíans Bachs.

Ef yrki ég um atlot þín
og ástar hamingjuna
verð ég bæði að vanda rím
og stuðlasetninguna.

miðvikudagur, mars 04, 2009

Náð og friður


Síðasta sunnudag var æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar. Af því tilefni var ég beðinn að prédika í Grafarvogskirkju og beina orðum mínum sérstaklega til fermingarbarna. Hér er það sem ég sagði:

Náð sé með ykkur öllum og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Hæ. Velkomin í kirkju. Mér er það sönn ánægja og heiður að fá að ávarpa ykkur hér á þessum Drottins degi. Ég hafði sagt að ég myndi tala út frá guðspjallstexta dagsins, en ég vona að mér fyrirgefist að gera það.
Hefðbundin upphafsorð prédikana, þau sem ég hóf mál mitt á, urðu mér nefnilega tilefni til umhugsunar. Í raun má segja að ég hafi aldrei komist út úr ávarpinu. Í dag er nefnilega æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar og þess vegna er prédíkun dagsins beint að æskunni, einkum fermingarbörnunum. Og hvað þýðir það fyrir fermingarbarn að vera ávarpað með þessum orðum, náð sé með þér og friður? Hvað er það? Hvenær heyrir íslenskt ungmenni þessi orð, annars staðar en í kirkju – og þá yfirleitt án þess að bókstafleg merking þeirra sé útskýrð?
Við verðum nefnilega að varast að gera grunnhugtök trúar okkar að merkingarlausum orðaleppum. Þá er betra að heilsa bara með því að segja Hæ. Það skilja alla vega allir hvað átt er við með því. Náð og friður er nefnilega aðeins meira en bara það hvernig prestum er kennt að segja hæ. Orðin hafa merkingu og þau eru notuð af ástæðu.
Sjálfsagt væri hægt að tengja hugtakið náð við einhvers konar miskunn, það að vera náðaður – þurfa ekki að taka út refsingu sína. En hver er að refsa okkur – og fyrir hvað? Guð refsar okkur ekki. Hann elskar okkur, hann skapaði okkur eins og við erum og færi aldrei að refsa okkur fyrir það sem hann gerði. Við erum aftur á móti sköpuð í Guðs mynd og verkið lofar meistarann. Við erum sem betur fer flest útbúin með fyrirbæri sem kallað er samviska, fyrirbæri sem á stundum refsar okkur harðlega – þegar hún hefur ástæðu til eða telur sig jafnvel ranglega hafa ástæðu til. Náð gæti því verið fólgin í því að vera ekki sífellt pískaður áfram af samviskunni.
Sá sem er undir náð er ekki samviskulaus, en hann hefur kannski ástæðu til að vera sáttur við samvisku sína og samviska hans ástæðu til að vera sátt við hann. Við þurfum ekki að vera fullkomin, við þurfum ekki að vera fallegri eða gáfaðari en við erum, við þurfum ekki stærri brjóst eða meiri vöðva, fleiri tattú eða flottara tan til að Guð elski okkur – til að við getum verið sátt við Guð og menn og, umfram allt, við okkur sjálf.
Sá sem veit að hann er undir náð þarf ekki að vera þjakaður af vanmáttarkennd. Náð getur verið í því fólgin að vita og treysta því að Guð elskar þig eins og þú ert. Hann getur verið ósáttur við eitthvað sem þú gerir og notað samvisku þína til að koma þeim skilaboðum til þín. En hann elskar þig. Náð sé með ykkur öllum.
Hitt orðið, friður, er auðskiljanlegra. Friður fyrir botni Miðjarðarhafsins virðist fjarlægur draumur, það þarf að skapa frið um Seðlabankann, nú er nauðsynlegt að friður ríki á vinnumarkaði.
Ég vona að þið fyrirgefið mér að gerast svolítið fræðilegur í smástund og slá um mig með minni takmörkuðu hebreskukunnáttu. Orðið sem hér er til grundvallar er „shalom“. Það merkir ekki alveg friður. Í Síðari Samúelsbók segir frá því þegar Davíð konungur kallar hraustan hermann sinn, Úría Hetíta, á sinn fund. Hann spyr hann m. a. að því hvernig hernaðurinn gangi. Þar segir bókstaflega að hann spyrji hann um „shalom“ stríðsins. Frið stríðsins?
Hebreska orðið shalom er m. ö. o. ekki andheiti orðsins ófriður. Nær væri að þýða það sem „velgengni“ eða kannski enn frekar „jafnvægi“. Þar sem allt er í lagi ríkir „shalom“ – óháð því hvort þar sé allt með ró og spekt eða ekki. Það fer nefnilega eftir kringumstæðum hverju sinni í hverju jafnvægi eða eðlilegt ástand er fólgið.
Til dæmis má nefna fuglabjarg. Þar á allt að iða af lífi og varla að heyrast mannsins mál fyrir hávaða og gargi. Ef allt er í lagi með fuglabjargið er þar lítill friður. Þar er hins vegar „shalom“. Ef farið væri með eldvörpu á fuglabjargið og öllu lífi eytt þar væri þar meiri friður. Það er hins vegar ekki „shalom“. Á heimili þar sem börn búa er oft lítill friður. Heilbrigð börn leika sér og hafa hátt, skilja dótið sitt eftir í gangveginum og krefjast athygli, jafnvel þótt verið sé að elda mat eða brjóta saman þvott. Þannig á lífið að vera.
Það er ekkert eðlilegt við það að í lífi manns og sál ríki alltaf eitthvað endalaust drottins dýrðarinnar koppalogn. Fólk eldist og deyr. Það er eðlilegt að missa og sakna. Harmur og sorg er eðlilegur hluti mannlegrar tilveru. Það er ekkert eðlilegt við líf sem er laust við allt slíkt. Það er ekkert eðlilegt við það að líða í gegn um lífið á skýi og verða aldrei fyrir neinu áreiti af umheiminum. Það er ekkert eðlilegt við að þekkja ekkert annað hugarástand en einhverja endalausa, sólskinsbjarta sálarró. Það er ekki það sem ég á við þegar ég segi „Friður sé með þér“.
Það hljómar hins vegar dálítið sótthreinsað og klínískt að segja: „Sátt og andlegt jafnvægi sé með ykkur“, þótt það sé kannski eitthvað í þá áttina sem átt er við. Þess vegna segjum við: „Náð sé með ykkur og friður.“ En við segjum meira. Við bætum við þetta orðunum: „... frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.“
Nú um stundir – og ekki bara nú um stundir heldur ansi lengi – hefur mikið verið hamast á fermingunni og henni fundið flest til foráttu. Fermingarbörn hafa engan andlegan þroska til að taka þessa ákvörðun, þau stjórnast af annarlegum hvötum, eigingirni og græðgi. Þau eru ekki orðin sjálfstæðar hugsandi verur og eru að þóknast umhverfinu, þrýstingi foreldra og jafnaldra. Á þessum aldri er ekkert eins hræðilegt og ógnvekjandi og að stinga í stúf, að falla ekki inn í hópinn. Þess vegna fermast allir þótt enginn trúi á Guð. Gott ef ekki heyrist að kirkjan sé að kalla óheyrileg fjárútlát yfir heimilin í landinu til þess eins að drýgja tekjur prestastéttarinnar – af því að hún er svo vond.
Ég ætla ekki að standa hér og hræsna með því að láta eins og öll þessi gagnrýni sé gjörsamlega úr lausu lofti gripin. Ég ætla ekki að telja ykkur trú um að ég sé þess fullviss að hvert einasta fermingarbarn á Íslandi sé svo rótfast og stöðugt í sinni persónulegu trúarsannfæringu að henni verði ekki hvikað það sem það á eftir ólifað. Ég ætla ekki að láta eins og ég geri mér ekki grein fyrir því að í hugum sumra fermingarbarna séu fermingargjafirnar ofar á blaði en náðin og friðurinn frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Ég ætla heldur ekki að láta eins og víða sé ekki gert mun meira tilstand út af fermingunni en að mínu mati er nokkur ástæða til; það þarf ekkert að klára að flísaleggja forstofuna eða skipta um sófasett svo barnið geti fermst.
Fermingarbörn hafa ekki tekið út fullan andlegan þroska, það er alveg satt. Ef ég má gerast persónulegur þá hafði ég reyndar ekki tekið út fullan andlegan þroska á þrítugsafmælinu mínu. Reyndar, þegar ég rifja upp fertugsafmælið mitt fyrir fjórum árum, þá verður mér ljóst að ég hafði ekki heldur tekið út fullan andlegan þroska þá. Ég ætla meira að segja að ganga svo langt að óska þess að ekkert okkar hér inni hafi tekið út fullan andlegan þroska. Lífið á að vera stanslaust þroskaferli. Ef við ætlum að bíða með að fermast þangað til við höfum náð fullum andlegum þroska endar það með því að við verðum að slá fermingunni saman við síðustu smurninguna.
Þessi árgangur fermingarbarna, eins og allir aðrir árgangar á undan honum, á eftir að kynnast tískustraumum í kenningum og hugsun um andleg málefni. Þau eiga eftir að halda áfram að þjálfa rökhugsun sína á spurningunni: Guð, húmbúkk eða heilagur sannleikur? Það er hollt og gott. Mörg eiga eftir að komast að þeirri niðurstöðu að vísindin útskýri mannlega tilveru mun betur en trúin, að Guð sé óþarfur og þarafleiðandi hugarburður. Eflaust eiga þau mörg hver eftir að halda ræður þar sem þróunarkenning Darwins er sögð afsanna kristnar hugmyndir um tilurð mannsins. Að þróun og sköpun geti ekki farið saman þegar mannskepnan er viðfangið, jafnvel þótt hvorki sé hægt að benda á nokkra aðra þróun sem ekki felur í sér sköpun né nokkra aðra sköpun sem ekki felur í sér þróun. Hvort sem um er að ræða vöru, þjónustu eða hugmyndir virðast sköpun og þróun einatt haldast í hendur. Jafnt húsbúnaður sem kökuuppskriftir verða til fyrir samspil sköpunar og þróunar, en uppskrift að manni virðist af einhverjum ástæðum aðeins geta verið annað hvort, samkvæmt þeim sem nú á dögum ganga harðast fram í trúboði fyrir meinta gagnrýna hugsun. En þetta var útúrdúr.
Málið er að lífið gerist. Og við rekum okkur flest fyrr eða síðar á það að lífið lýtur ekki lögmálum gagnrýninnar hugsunar. Við verðum ástfangin af vitlausum aðila, sem er náttúrlega bara heimskulegt. Við gerum eitthvað sem við ætluðum ekki að gera eða, það sem verra er, eitthvað sem við vorum búin að ákveða að gera ekki. Í hundrað barna fermingarhópi munu 10 – 20 eiga eftir að glíma við drykkjuvandamál. Aðeins fleiri munu ganga í gegn um hjónaskilnað, svo ég nefni tvennt sem margir upplifa en enginn velur sér. Þetta er ekkert náttúrulögmál og ég er svo sannarlega ekki að óska neinum neins ills. Ég er bara að horfa hlutlægt á málin og hef enga ástæðu til að ætla að þessi árgangur sé það frábrugðinn öllum öðrum að öll tölfræði varðandi hann verði öðruvísi en um árgangana á undan honum.
Lífið gerist. Og við stöndum frammi fyrir því að hugsun okkar og máttur hrökkva skammt. Við stöndum frammi fyrir því að skynsemi okkar skilar okkur ekki á þá staði í lífi okkar sem við hefðum kosið. Við stöndum frammi fyrir því að við erum ófær um að koma lífi okkar í lag af eigin rammleik. Við erum ósátt og við erum ekki í jafnvægi. Okkur vantar eitthvað.
Þá rifjast það kannski upp fyrir okkur að einhvern tímann í fyrndinni tókum við þá ákvörðun að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar. Kannski áttum við okkur á því að það er ákvörðun sem við höfum ekki staðið við, að einhvern tímann tókum við þá ákvörðun að ákveða eitthvað annað, jafnvel þótt það hafi ekki verið meðvituð og yfirveguð ákvörðun. Við komum okkur upp öðrum leiðtoga – okkur sjálfum. Og kannski áttum við okkur á því að það er sú ákvörðun sem hefur komið okkur á þann stað sem við erum á.
Og kannski rifjast meira upp fyrir okkur. Kannski rifjast upp hugtökin náð og friður og við gerum okkur ljóst að það er einmitt það sem líf okkar skortir svo sárlega. Jafnvel kynnum við að muna eftir fleiru sem okkur var kennt, til að mynda því að Guð gleðst yfir hverjum týndum sauði sem snýr aftur. Að við erum ávallt velkomin í hans hús, sama hvað við höfum verið lengi í burtu, sama hvað á daga okkar hefur drifið. Þá gerist það að spurningin „Guð, húmbúkk eða heilagur sannleikur“ hættir að vera áhugaverð rökfræðiæfing á framhaldsskólastigi og verður sáluhjálparatriði.
Ef ferminginn nær að lauma þeirri hugmynd að okkur að við erum einstakt og elskað sköpunarverk Guðs, en ekki bara tár í mannhafinu sem engu máli skiptir í hinu stóra samhengi, þá er hún aldrei tilgangslaus, sama hve miklum óþarfa er hlaðið utan á hana. Ef hún nær að sá því fræi í hugskot okkar að kristinn maður er undir náð og að náð Guðs er eilíf og óþrjótandi og stendur öllum til boða, er fermingin alltaf til góðs, sama á hvaða andlega ferðalag við förum í kjölfarið. Ef fermingin verður til þess að við vitum hvar náð er að finna þegar við finnum að það er einmitt hún sem okkur vantar, hafa allir gott af því að fermast.
Að því sögðu langar mig að óska ykkur öllum náðar og friðar frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.