þriðjudagur, janúar 27, 2009

Botn 10: Verstu kvikmyndir sem ég hef séð

Ég nenni ekki að vera pólitískur eða aktúell. Hér er listi yfir tíu verstu kvikmyndir sem ég hef séð. Tekið skal fram að íslenskar myndir vantar á þennan lista þótt a.m.k. tvær ættu sannarlega heima á honum. Einnig skal tekið fram að þetta eru einungis myndir sem ég ég hef setið undir frá upphafi til enda.

10. Gladiator (2000), Ridley Scott

Heimskuleg, ótrúverðug og umfram allt gjörsamlega tilgangslaus saga um óþolandi mann. Aðeins peningarnir sem settir voru í framleiðsluna komu í veg fyrir að myndin færi beint á myndband. Óverðskulduðstu Óskarsverðlaun sögunnar.

9. Daredevil (2003), Mark Steven Johnson

Á! Æj! Úff! Hér hjálpast ekkert að.

8. Armageddon (1998), Michael Bay

Loftsteinn ógnar jörðinni. Skynsamlegra þykir að senda bormenn á helgarnámskeið í geimferðum til að redda þessu heldur en að senda geimfara á helgarnámskeið í borun. Myndin státar af heimskulegustu setningu kvikmyndasögunnar: „Ég hefði ekki átt að ala þig upp á olíuborpalli.“ Döh!

7. Idioterne (1998), Lars von Trier

Hópur af ljótum og leiðinlegum hrokkagikkjum ákveða að tékka á því hve ljótir, leiðinlegir og hrokafullir þeir geti orðið.

6. Ett hål i mitt hjärta (2004), Lukas Moodyson

Heimskur og leiðinlegur unglingur vorkennir sjálfum sér ógurlega inni í herberginu sínu á meðan heimskur og leiðinlegur pabbi hans gerir lélega klámmynd með heimskum og leiðinlegum vinum sínum. Tilgangslaus sóðaskapur frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.

5. Babel (2006), Alejandro Gonzalez Inarritu

Pakk sem á ekkert gott skilið lendir í því sem það á skilið og vorkennir sjálfu sér ógurlega í 143 mínútur. Söguna hefði mátt segja á 15 mínútum. Hún hefði að vísu orðið jafnleiðinleg, bara ekki eins lengi.

4. Caché (2005), Michael Haneke

Leiðinlegur og sjálfumglaður karl fær dularfullar sendingar. Ekkert kemur í ljós. Í lok myndarinnar er hann jafn leiðinlegur og sjálfumglaður og í upphafi hennar. Myndin státar af ótrúverðugasta sjálfsvígi kvikmyndasögunnar.

3. Braking the Waves (1996), Lars von Trier

Dauðadrukkinn kvikmyndatökumaður fylgist með ömurlegu lífi óáhugaverðrar konu í nöturlegu umhverfi.

2. The English Patient (1996), Anthony Minghella

Ekkert gerist. Lengi. Svo er reynt að drepa aðalsöguhetjuna. Svo heldur ekkert áfram að gerast. Lengi.

1. Lost in Translation (2003), Sofia Coppola

Ekkert gerist – í Japan.

þriðjudagur, janúar 20, 2009

Afi án bakþanka

Dyggir lesendur hafa tekið eftir því að nokkuð er síðan ég setti síðast færslu hingað inn, en þær hafa nánast einskorðast við hálfsmánaðarlega Bakþanka. Ástæða þessa eru sviptingar í fjölmiðlaheiminum. Eins og allir ættu að vita var nefnilega ákveðið að hætta að gefa út blaðið sem ég skrifa bakþankana í, Sunnudagsfréttablaðið. Mér var boðin staða bakþankahöfundar í laugardagsblaðinu og þáði ég hana. Það kostar pínulitlar tilfæringar sem reyndar útvega mér kærkomna pásu frá bakþankaskrifum í miðju Gettu betur fári. Næstu Bakþankar mínir ættu að birtast laugardaginn 31. janúar.
Annars er það helst í fréttum að Hulda dóttir mín gerði mig að afa í síðustu viku. Henni fæddist þá hraustur og heilbrigður myndarsonur með há kinnbein og mikið ljóst hár. Móður og syni heilsast vel. Þetta er eintóm hamingja, pabbinn er ágætispiltur úr Hafnarfirði. Ég þekki pabba hans. Ég er enn að átta mig á mínu nýja hlutverki, en hlakka mikið til að takast á við það. Góðar stundir.

þriðjudagur, janúar 06, 2009

Sátt um samstöðu

Áramótaboðskapur helstu þjóðarleiðtoganna var að hér á landi þyrfti sátt um samstöðu. Eða var það samstaða um sátt? Ég man ekki hvor klisjan var höfð á undan. En þessi boðskapur hljómaði býsna vel alveg þangað til maður fór að hugsa um hann. Sennilega hefði verið mun auðveldara að byrla manni þessu inn hefði maður ekki verið nýbúinn að horfa á innlendan fréttaannál ársins.
Ég hafði nefnilega steingleymt því hvað það voru framin mörg minniháttar bankarán á síðasta ári. Mánaðarlega hafði eitthvert greyið þust inn í bankaútibú vopnað hamri, kúbeini eða dúkahníf til að fjármagna fíkn sína eða gera upp skuld við undirheimalýð. Þegar best tókst til nam uppskeran af þessari aðferð við að ræna banka einni milljón króna. Varla hefur neinn trúað því í alvörunni að hann kæmist upp með þetta. Af tvennu illu hafa afleiðingar bankaránsins líklega aðeins verið fýsilegri kostur en hinn, að standa ekki í skilum.
Í engu þessara tilfella var talað um sátt eða samstöðu. Þvert á móti var boðskapurinn að þetta yrði ekki liðið, glæpamaðurinn skyldi nást og þýfið endurheimt. Engum datt í hug að þjóðin í heild sinni hefði tekið þátt í ráninu og þaðan af síður var talað um að ekki mætti persónugera vandann sem peningahvarfið skapaði. Í einu tilfelli var meira að segja kallað á þyrlu til að leita að persónunni sem gerði þetta úr lofti. Hún hafði falið sig í gjótu úti í hrauni í Hafnarfirði.
Þegar ekki er hlaupið með hundraðþúsundkalla út úr bönkum eftir að hafa ógnað afkomu blásaklauss fólks heldur milljarða, ef ekki tugi milljarða, er hins vegar gapað á sátt um samstöðu. Annað hvort það eða samstöðu um sátt. Ekki er hægt að kalla út þyrlu til að hafa uppi á þjófunum, enda leynast þeir ekki í hraungjótum suður í Hafnarfirði heldur á suðurhafseyjunni sem hentar skattframtalinu þeirra best.
Þegar ógæfumaður beitir klaufhamri eða kúbeini til að fjarlægja peninga sem hann á ekkert í úr banka ríkir aðeins sátt og samstaða um að draga hann til ábyrgðar fyrir athæfið. Eðlilega. Það verður að gilda um alla bankaræningja, óháð upphæð, óháð aðferðum, óháð fíkninni sem verið er að fjármagna. Sáttur yrði ég við samstöðu um það. Því miður held ég að landsfeðurnir hafi verið að meina eitthvað annað.
Bakþankar í Fréttablaðinu 4. 1. 2009