þriðjudagur, apríl 29, 2008

Alþjóðaólög

Þegar allt kemur til alls erum við Íslendingar býsna heppnir. Við búum við tiltölulega siðlegt lýðræði. Þrátt fyrir að öðru hverju verði vart vægrar spillingar í stjórnkerfinu þurfum við ekki að hafa áhyggjur af mjög víðtækri valdníðslu eða handahófskenndri frelsisviptingu borgaranna. Við njótum þrátt fyrir allt nokkuð áreiðanlegs réttaröryggis. Svona er þetta ekki alls staðar. Sorglega víða á lýðræðið í vök að verjast og ráðamenn svífast einskis í valdabrölti sínu.
Alþjóðleg samvinna eykst sífellt og alþjóðalög og reglugerðir verða stöðugt umfangsmeiri. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum sem varða hryðjuverk. Með því er stefnt að því að uppfylla skilyrði til að unnt sé að fullgilda Evrópuráðssamning um varnir gegn hryðjuverkum. Þar segir m. a. að fyrir hryðjuverk „skuli refsa með allt að ævilöngu fangelsi hverjum sem í þeim tilgangi að ... þvinga með ólögmætum hætti íslensk ... stjórnvöld ... til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert ...“ fremur ákveðin brot. Lagamál er mikið torf og ég hef tekið út aukasetningar til að draga fram þennan kjarna málsins. Alþjóðleg mannréttindasamtök hafa látið í ljós efasemdir um að orðalag þessa Evrópuráðssamnings standist alþjóðlegar mannréttindakröfur og tryggi rétt fólks til lögmætrar andstöðu við stjórnvöld sem er varin af alþjóðlega viðurkenndum mannréttindareglum. Nýlegir atburðir hérlendis sýna hve brýnt það er að ráða bót á þessu, en lög hafa einmitt verið brotin í þeim tilgangi að þrýsta á stjórnvöld að „gera eitthvað“ (að lækka álögur á eldsneyti) eða „láta eitthvað ógert“ (að virkja fljót).
Við Íslendingar erum heppnir. Við þurfum sennilega ekki að hafa áhyggjur af því að stjórnvöld misbeiti þessum lagabókstaf, skilgreini vörubílstjóra og umhverfisverndarsinna sem hryðjuverkamenn og hafi þá á bak við lás og slá eins lengi og þeim sýnist án dóms og laga, án þess að birta þeim kæru eða gefa þeim kost á málsvörn, eins og sums staðar væri gert. En hvað með rússnesk, georgísk, aserbaídsjönsk eða moldavísk stjórnvöld, svo ég nefni fjögur aðildarríki Evrópuráðsins þar sem lýðræðishefðin er veik, en hefðin fyrir valdníðslu og pólitískri spillingu þeim mun sterkari?

þriðjudagur, apríl 22, 2008

Níðst á Irni?

„Verða þættir þeirra með óbreyttu sniði frá því sem verið hefur og hvíla á herðum þeirra Pálma Gestssonar, Karls Ágústs Úlfssonar, Sigurðar Sigurjónssonar og Örns Árnasonar.“
Fréttablaðið, 22. apríl 2008, bls. 30.

mánudagur, apríl 21, 2008

Í svefnrofunum

Mér finnst ég oft á einhverju skemmtilega undarlegu vitundarsviði þegar ég er á milli svefns og vöku. Þessi hugmynd að glæpasögu eða spennumynd kom til mín í svefnrofunum í morgun:

HÚÐFLÚRRÆNINGINN

Hann rændi konum og skildi þær eftir á víðavangi. En áður hafði hann húðflúrað þær svo að þær féllu saman við umhverfið. Þannig að enginn sá þær framar.

(Ykkur er frjálst að nota hana, ekki mun ég gera neitt úr henni.)

þriðjudagur, apríl 15, 2008

2020


Árið er 2020. Ég átti erindi austur á land og er á leiðinni heim til höfuðborgarinnar með flugi. Ég geng frá borði í Vatnsmýrinni um rana beint inn í nýlega, glæsilega flugstöð sem af einhverjum ástæðum gengur ekki undir nafninu flugstöð heldur „samgöngumiðstöð“. Það er vegna þess að héðan er hægt að taka strætó og leigubíl, rétt eins og það gildi ekki um flugstöðvar almennt.
Það er vissulega lúxus að hafa flugstöð svona nálægt gamla miðbænum. Hún er í göngufjarlægð frá honum – ef gengið er þvert yfir flugbrautina. Vegna staðsetningar stöðvarinnar austan fluvallarins tekur fólk hins vegar undantekningarlaust leigubíl niður í gamla miðbæinn. Mun fleiri eiga þó auðvitað erindi í nýju miðborgina í Smáranum. Þannig að í raun er flugstöðin ekki í göngufjarlægð frá neinu nema Hótel Loftleiðum. Flugvöllurinn er reyndar í útjaðri byggðarinnar, þungamiðja hennar er í Mjóddinni.
Á Reykjavíkurflugvelli er fólk á fleygiferð, enda er hann stór vinnustaður. Hér er flugþjónusta fyrir alls konar hópa ferðafólks og kaupsýslumanna, flugskólar og einkaþotuskýli. Fyrir rúmum áratug þótti nefnilega ljóst að hvergi á láglendi á suðvesturhorni landsins væri hægt að æfa snertilendingar nema einmitt í hjarta miðborgarinnar.
Ég sest upp í bílinn minn og keyri heim til mín, upp á Kjalarnes eða í Úlfarsárdal eða Kjós, sem er eini staðurinn á höfuðborgarsvæðinu þar sem hægt var að koma fyrir nýrri byggð. Ferðin tekur óratíma, enda umferðin þung og aðeins um tvær samgönguæðar að ræða milli vesturhluta borgarinnar og austurhluta hennar. Lega flugvallarins kemur í veg fyrir fleiri. Umferðin er líka þung vegna þess að dreifing byggðarinnar upp á heiðarnar umhverfis borgarlandið lengir allar vegalendir borgarbúa á milli heimilis, vinnu og annarrar þjónustu. Flugvallarsvæðið hefði getað orðið heimili 15000 Reykvíkinga.
Af hverju er þetta svona? Jú, skipulag borgarinnar tók ekki mið af þörfum borgarbúa heldur þægindum flugkennara og kröfum þeirra 20% landsmanna sem eru háðir flugsamgöngum með ferðir til höfuðborgarinnar. Á sama tíma og annars staðar í álfunni var unnið að því að minnka ægivald einkabílsins í miðborgunum var ákveðið að í miðborg Reykjavíkur skyldi fólkið víkja fyrir einkaþotunni.
Bakþankar í Fréttablaðinu 13. 4. 2008

þriðjudagur, apríl 01, 2008

Salernishreinsiefnaauglýsingafárið


Konan mín vann einu sinni á spítala. Af þeim sökum virðast því lítil takmörk sett hve ítarlega samræðurnar við kvöldverðarborðið geta fjallað um síðari stigu meltingarkerfisins, iðrastarfsemi og líkamsvessa án þess að hún missi matarlystina. Ég er viðkvæmari. Sem betur fer sýnir hún mér þó tillitssemi í þessum efnum þegar ég fer þess á leit við hana. Þessi viðkvæmni háir mér stundum, einkum þegar vinnudagurinn hefur dregist á langinn og ég freistast til að snæða kvöldverðinn fyrir framan sjónvarpið. Sjónvarpsauglýsingarnar sýna mér nefnilega alls ekki sömu tillitssemi og betri helmingurinn.
Þegar umræðan um það hvort leyfa ætti áfengisauglýsingar eða ekki blossaði upp hér um árið, heyrði ég fullyrt að áfengisauglýsingar stuðluðu ekki að aukinni áfengisneyslu heldur færðu þær fyrst og fremst neysluna á milli tegunda. Þetta finnst mér sennilegt. Þetta kemur nefnilega heim og saman við kynni mín af drykkjuskap. Umhverfið hafði lítil áhrif á það hvort ég drakk – hins vegar gat það haft úrslitaáhrif á það hvað ég drakk. Ég held að þessu hljóti að vera svipað farið með ýmsan annan varning. Til dæmis dömubindi.
Ég á erfitt með að ímynda mér að annað hafi áhrif á sölu dömubinda en fjöldi kvenna sem hefur á klæðum. Þetta ætti þó að mega staðfesta með tölfræði, því fyrir nokkrum árum dundi á þjóðinni slík bylgja dömubindaauglýsinga að engu var líkara en að þau væru orðin helsta neysluvara landsmanna. Þennan varning hafði ég aldrei séð auglýstan fyrr, þeir sem á honum þurftu að halda vissu einfaldlega hvar hann var að finna. Einhver einn framleiðandi reið hins vegar á vaðið og auglýsti sitt vörumerki með þeim afleiðingum að allir aðrir þurftu að fylgja í kjölfarið til að halda velli.
Og nú er komið að salernishreinsiefnum. Það mætti hreinlega halda að einhver hvimleiður meltingarfaraldur hafi laggst á hálfa þjóðina. Önnur hver auglýsing sýnir manni ofan í viðbjóðslegt skítaklósett. Ekki gott áhorf yfir kjötbollum í brúnni sósu!
Ég sá í sjónvarpinu um daginn að það er víst afar óhollt að borða kvöldmat yfir sjónvarpinu. Það hvarflar því að mér að lýðheilsustöð standi á bak við þessar auglýsingar. Þær hafa nefnilega gert það að verkum að ég er nánast steinhættur þeim ósið.

Bakþankar í Fréttablaðinu 30. mars 2008.