miðvikudagur, desember 21, 2005

Fjölskyldumyndir

Ég var búinn að lofa að setja fjölskyldumyndir hér inn um leið og það væri orðið tímabært. Það er reyndar löngu orðið tímabært en sakir leti og dugleysis hefur ekki orðið af því fyrr en nú.
Hér eru fjórir kurteisir og kassavanir, sjö vikna kettlingar. Einn þeirra er búinn að fá gott heimili og á eftir að gleðja lítinn dreng á aðfangadag. Hinir þrír óska allir eftir heimili.

Kisa (mamman) á góðum degi í sumar.

Systkinahópurinn allur.

Móri (einlitur grár högni) snyrtir sig fyrir myndatöku ...

... og núna er maður orðinn sætur.

Zorró (einlitur kolsvartur högni) óskar eftir góðu heimili.

Jólakötturinn í ár, Gustur (grár og hvítur högni), hefur þegar fengið heimili.

Er Læða fallegasti köttur í heimi?

Það skal tekið fram að þótt þetta séu einkar vel upp aldir og þægir kettlingar þá gegna þeir ekki nafni þótt þeir hafi fengið eins konar "vinnuheiti" hjá mennskum fjölskyldumeðlimum. Þeir sem hafa áhuga á að deila heimili með einhverjum þeirra þriggja sem enn er óráðstafað geta haft samband við mig hér á þessari síðu eða í heimasímann minn – 551 6302.

fimmtudagur, desember 15, 2005

Júbí og Djeibí


Júbí

Þá er hún Unnur Birna okkar (eða Júbí eins og hún kallar sig núna) orðin Ungfrú heimur. Sjálfur er ég enginn aðdáandi fegurðarsamkeppna og fylgdist ekki með þessu. Hins vegar er varla nokkrum blöðum um það að fletta að hún hlýtur að hafa staðið sig þokkalega, stelpan, hvað svo sem segja má um réttmæti þess sem hún var að standa sig í.
Mér finnst varla nein ástæða til að fetta fingur út í það að henni sé óskað til hamingju með þetta. Það fellur varla undir starfslýsingu forsætisráðherra að fella dóma um réttmæti fegurðarsamkeppna. Hins vegar fellur það að sönnu undir starfslýsingu hans að senda fólki hamingjuóskir sem nær árangri í nafni þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Reyndar blæs ég á allt þetta tal um að í Júbí sé einhver landkynning fólgin. Ég hef alla vega ekki enn hitt neinn sem veit hverrar þjóðar ein einasta alheimsfegurðardrotting hefur verið síðastliðin tíu til fimmtán ár. Keppnin verður ekkert merkilegri en hún hefur verið bara af því að Íslendingur vann í ár.
Ég er ekki heldur neinn aðdáandi hnefaleika og finnst þeir draga upp úrelta mynd af karlmennsku, að hún gangi út að vera flinkur að lumbra á öðrum. Hins vegar þætti mér eðlilegt ef Íslendingur yrði heimsmeistari í hnefaleikum að forsætisráðherrann óskaði honum til hamingju með það, jafnvel þótt íþróttin sé bönnuð á Íslandi og mér finnist hún lágkúruleg. Fegurðarsamkeppnir eru að minnsta kosti ekki ólöglegar.
Vissulega má til sanns vegar færa að það sé niðurlægjandi fyrir konur að spranga um á bíkíníi og láta leggja mat á sig eins og hvern annan hlut. Það er þó ekki niðurlægjandi fyrir neinar aðrar konur en þær sem sjálfar taka þá ákvörðun að taka þátt í því, og að mínu mati ekki næstum því eins niðurlægjandi og að standa á Arnarhóli með skilti sem á stendur: Niður með Sverri Stormsker.
Einhvern veginn finnst mér hnefaleikar ekkert niðurlægjandi fyrir mig þótt mér finnist þeir vera það fyrir þá sem taka þátt í þeim, að láta etja sér saman eins og hönum fyrir peninga.

Djeibí

Gaman að endurkomu Jóns Baldvins. Hann talar þannig að maður nennir að hlusta á hann, pólitík gengur ekki bara út á debet og kredit þegar hann opnar á sér munninn. Hins vegar veit ég ekki hvaða erindi hann á í stjórnmálabaráttuna aftur, þótt vissulega yrði það ánægjulegt að sjá Samfylkinguna ná jafnmiklu fylgi og Alþýðuflokkurinn sálugi fékk undir stjórn hans á sínum tíma.
En það vakti athygli mína að hann sagðist vera orðinn vinstrisinnaðri en hann var. Mér fannst það dálítið á skjön við það sem hann hefur sagt áður og nánast merki um að hann sé að viðurkenna að hann sé að ganga í barndóm eða verða fyrir elliglöpum. Hann er nefnilega einn hinna fjölmörgu sem haldið hefur því fram að sá sem ekki sé róttækur um tvítugt sé illa innrættur, en sá sem sé það um fertugt sé illa gefinn. Þar vitnar hann í fleyg orð höfð einhverjum þýskum tæknikrata sem ég kann ekki að nefna.
Það er að vísu gleðilegt ef honum er loksins að skiljast að það að glata æskuhugsjónum sínum og eldmóði er ekki þroskamerki heldur hrörnunarmerki. Þegar manni fer með aldrinum að verða sama um göfugari tilgang þess sem maður er að fást við og hugsar einvörðungu um hvernig það getur þjónað betur þeim tilgangi að hlaða sem mýkstum sessum undir rassgatið á manni sjálfum er maður að verða fyrir því sem kallað er kulnun í starfi og er ekki eitthvað sem maður á að stæra sig af eða réttlæta með því að kalla það þroska, jafnvel þótt einhver þýskur pólitíkus hafi einhvern tímann í fyrndinni getað kreist smávegis hlátur út á það í einhverju kokteilpartíinu.
Þegar mér er orðið skítsama um þig er það ekki vegna þess að ég hafi öðlast heilbrigða sjálfsvirðingu heldur af því að ég hef glatað mannúð minni. Það væri gaman að heyra hvað hinum nýja og vinstrisinnaða Djeibí finnst um þessa speki í dag og hvort hann vill biðja þá sem haldið hafa í hugsjónina um frelsi, jafnrétti og bræðralag þrátt fyrir að árin hafi færst yfir þá afsökunar á að hafa kallað þá fávita hérna í fyrndinni.
Sjálfur er ég nefnilega orðinn fertugur og verð stöðugt róttækari eftir því sem skítalyktin úr spillingarfjósi alheimskapítalismans verður stækari allt í kring um mig. Guð forði mér frá því að verða nokkurn tímann samdauna henni og telja það til marks um að lyktarskyn mitt sé orðið þroskaðara en það var.

fimmtudagur, desember 08, 2005

Leyfi til að hræsna


Hinn geðþekki leikari Roger Moore bættist nýverið í ört stækkandi hóp Íslandsvina. Hann kom hingað til að láta gott af sér leiða og vekja máls á þeirri skelfilegu staðreynd að dag hvern deyja 40.000 börn úr hungri hér á reikistjörnunni. Gott verk og þarft. Mér skilst að karlinn hafi boðið af sér góðan þokka í hvívetna og heyrði ekki betur en að hann léti býsna vel af kynnum sínum af landi og þjóð. Ég sá viðtal við hann í Kastljósinu þar sem hann fór fögrum orðum um galakvöldverðinn sem haldinn var og hve mikið fé safnaðist þar handa bágstöddum. Gott ef hann lét ekki í ljós sérstaka aðdáun á því að jafn fámenn þjóð og Íslendingar gæti snobbað á heimsmælikvarða.
Reyndar hafði ég frétt af þessu partíi og uppboði sem þar var haldið, meðal annars seldist ómálað málverk á 21 milljón og einhver borgaði nokkrar milljónir fyrir að fá að segja veðurfréttir í sjónvarpinu. Ég ætla ekki að draga það í efa að þessir peningar muni koma að góðum notum í baráttunni gegn hungri og vosbúð í fátæku löndunum. En eitthvað við þetta allt saman gerði það nú samt að verkum að mér varð óglatt.
Vandamálið er nefnilega misskipting auðsins. Þeir sem slett geta fram tugum milljóna fyrir málverk upp á von og óvon um hvort þeir eigi eftir að fíla það og finnst sniðugt að flagga ríkidæmi sínu með því að borga árslaun verkamanns fyrir að sjást í sjónvarpi ... þeir eru með öðrum orðum vandamálið – EKKI lausnin.
Það er eitthvað ferlega ógeðfellt við það að vestræn efnishyggja haldi óhófi sínu veglegan fögnuð til styrktar fórnarlömbum sínum. Það ber siðferðisvitund þjóðarinnar ekki fagurt vitni að enginn skuli sjá tvískinnunginn sem þarna tröllríður húsum, að frá þessu sé sagt eins og sniðugri, jafnvel svolítið sætri og krúttlegri sérvisku ríka fólksins sem undir niðri er svo vel innrætt að það vill láta gott af auðlegð sinni leiða.
Enn ógeðfelldara er þó að með þessu er þeim sem feitustum hesti ríða frá nauðgun þriðja heimsins, frumforsendu vestrænnar velmegunar, stillt upp sem einhverjum mannkynslausnurum og þeim veittur stimpill upp á göfugt innræti. Ógeðfelldast er þó þegar gefið er í skyn að deyjandi börn kúgaðra þjóða standi í einhverri þakkarskuld við þetta pakk. Það má líkja þessu við að taka ránmorðingja í dýrlingatölu fyrir að láta brotabrot af þýfinu renna til aðstandenda fórnarlambsins.
Sá sem vill slá sjálfan sig til riddara með því að rétta fátækum manni brauð og er svo ósmekklegur að finnast við það tilefni vera við hæfi að hlaða á sig skartgripunum sínum (hverra andvirði gæti brauðfætt meðalstórt þorp í eitt ár) á ekki skilið hól heldur löðrung. Þessi kvöldstund var hátíð til dýrðar vandamálinu, ekki lausninni. Það þarf einhverja óskiljanlega siðblindu til að geta ruglað þessu tvennu svona gjörsamlega saman.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Kitl

Rétt áður en ég byrjaði að blogga reið eitthvað æði yfir netheima sem kallað var klukk og var í því fólgið að fólk þurfti að greina frá einhverju persónulegu. Ég slapp við það. Nú er hins vegar ný bylgja að ganga yfir sem nefnist "kitl". Sá sem er "kitlaður" þarf að gera sjö lista með sjö atriðum. Þórunn Gréta kitlaði mig í síðustu viku og hér eru listarnir mínir:

7 frægar sem ég hef (einhvern tímann) verið skotinn í:
1. Jodie Foster (í Bugsy Malone)
2. Olivia Newton-John (í Grease)
3. Agnetha Fältskog, söngkona
4. Vigdís Gunnarsdóttir, leikkona
5. Linda Pétursdóttir, fegurðardrottning
6. Katrín Jakobsdóttir, stjórnmálamaður
7. Cameron Diaz, Íslandsvinur
7 hlutir sem ég get:
1. Ort
2. Eldað mat
3. Skipt um dekk á bíl
4. Smíðað millivegg
5. Sagt brandara
6. Tengt rafmagnsklær
7. Talið upp það sem ég get
7 hlutir sem ég get alls ekki (þetta var erfitt):
1. Haldið bókhald
2. Haldið lagi
3. Haldist á peningum
4. Kosið Sjálfstæðisflokkinn
5. Horft á dagskrárkynningar fyrir Fólk með Sirrý án þess að fá aulahroll
6. Náð meira en 475% í Civilization II (hættur að reyna, kominn með Civ III)
7. Orðið skotinn í heimskum stelpum (mér finnst það alltaf svo mikið "turnoff" þegar stelpurnar í Girls of the Playboy Mansion opna á sér munninn)
7 atriði sem ég segi oft:
1. Mig langar, ekki mér langar! (við börnin mín)
2. Ég hlakka til, ekki mig hlakkar til! (sömuleiðis við börnin mín)
3. Barþjónn, einn kaffi! (miklu oftar nú en áður)
4. … eða þannig. (þetta bentu börnin mín mér á)
5. Hvar er fjarstýringin?
6. Og það er slæmt af því að … ?
7. Stveláetta. (eina orðið í íslensku sem byrjar á stv)
7 gallar í fari mínu sem ég á erfitt með að forðast (þetta var enn erfiðara):
1. Besserwiss
2. Hroki/Stolt
3. Leti/Frestunarárátta
4. Kvíði/Áhyggjur
5. Gremja
6. Að svara einfaldri spurningu með löngum fyrirlestri
7. Að skítnýta snooze takkann á útvarpsvekjaraklukkunni minni
7 hljómsveitir sem ég hef séð live og einkenna mig sem manneskju:
1. Babatunde Tony Ellis
2. Human League
3. Utangarðsmenn
4. Purrkur Pilnikk
5. Stuðmenn
6. Sviðin jörð
7. Geirfuglarnir
7 hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey (þetta var erfiðast):
1. Verða skuldlaus
2. Láta hverjum degi nægja sína þjáningu
3. Verða gráhærður
4. Verða gráskeggjaður
5. Nota gleraugu
6. Hafa farið suður fyrir miðbaug
7. Verða afi (reyndar er það mál ekki lengur í mínum höndum, ég hef nú þegar lagt allt sem í mínu valdi stendur af mörkum til þess að svo geti orðið)

Að lokum á að kitla sjö manns í viðbót. Ég kitla Huldu, Ísold, Núma, Mömmu, Danna, Jakob og Pétur.

mánudagur, desember 05, 2005

Það sem ég lærði af sjónvarpinu í síðustu viku


1. Þegar ég var yngri var rómantík tilfinning á milli karls og konu. Hún spurði ekki um stað og stund, stétt eða (fjárhags)stöðu. Núna er rómantík búin til úr egypskri bómull og seld í rúmfataverslun við Grensásveg. Það þarf ekki einu sinni konu. (Þessi þróun hefur auðvitað augljósa kosti.)

2. Ef geimfarar drekka orkudrykk þegar þeir eru á sporbaug um jörðina verður hræðilegt slys, flaugin fer eitthvað út í geiminn og ekkert spyrst til hennar framar.

3. Ef maður notar tannkrem sem verndar viðkvæmar tennur og gerir þær hvítari fer maður að tala þannig að varahreyfingarnar passa ekki við það sem maður segir.

4. Að syngja með jafndrepleiðinlegri hljómsveit og INXS hlýtur að láta hvern mann á endanum grípa til örþrifaráða til að stytta sér stundir ef ekki aldur.

5. John Lennon hafði gaman af "drikkju". (Ég á hins vegar eftir að komast að því hvað það er.)

6. Allir geta fengið Avis kort og losnað þannig við að standa í biðröð. (Hvernig þeir ætla að leysa biðraðavandann þegar allir eru komnir með Avis kort er mér hins vegar enn hulin ráðgáta.)

7. Dag hvern svelta 40.000 börn í hel. Til að berjast gegn því er af einhverjum ástæðum skynsamlegra að éta fjórréttaðan galakvöldverð og eyða 21 milljón í málverk sem maður hefur ekki einu sinni séð heldur en að gefa 21 milljón plús andvirði fjórréttaðs galakvöldverðar til hjálparstarfs.

8. Til er kjöthitamælir fyrir gæðinga. Ég sem hélt að þeir væru yfirleitt ekki étnir.

9. Skjár 1 getur ekki boðið upp á dagskrá allan sólarhringinn því þá þyrftu þeir að endursýna hvern einasta þátt 30 sinnum, en eins og allir vita er 20 sinnum hæfilegt.

10. Það er svo mikið af peningum í bókaútgáfu að það er eðlilegasti hlutur í heimi að rithöfundur láti farga allri fyrstu prentun bókar sinar rétt áður en hún fer í dreifingu af því að hann fær þá flugu í höfuðið á síðustu stundu að hún mætti vera styttri. (Einhver góðhjartaður maður mætti benda Hallgrími Helgasyni á þetta.)

þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Frægi karl vikunnar

Mig langar að biðja lesendur mína afsökunar á því að vegna anna hef ég ekkert mátt vera að því að blogga undanfarna viku. Hvernig skyldi Stefán Pálsson fara að þessu? Ætli hann sé með mann í vinnu hjá sér? Til að minna á að ég er hvorki hættur né (heila)dauður ákvað ég að deila með ykkur ljóði sem ég orti í síðustu viku, svona frekar en að setja ekki neitt hingað inn dögum og vikum saman.

Frægi karl vikunnar

Ég veit þetta eitt: Að þú eldist, svo deyrðu.
Á endanum hverfurðu sýnum
og sést ekki framar í Séðu og heyrðu
í samkvæmisfötunum þínum.

Þú heldur að þá beygi alþýðan af
af því að þú sért svo dáður
og síðan farist himinn og haf,
en heimurinn snýst eins og áður.

Og þú verður gleymdur Pétri og Páli
og pöplinum horfinn úr minni
og allt það sem skipti þig einhverju máli
mun eyðast í gröfinni þinni.

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

... eins og ofn hlýju!

Merkilegt hvernig hægt er að horfa langtímum saman á ósjálfbjarga kettlinga iða eins og orma og sjúga móður sína. Karfan hennar Kisu er komin í staðinn fyrir sjónvarpstæki á heimilinu. Svo gerir hún annað. Hún miðlar friðsemd og ró um stofuna eins og ofn hlýju og fyllir heimilið einhverju jafnvægi sem er erfitt að lýsa með orðum. Einhverri "svona á lífið að vera" tilfinningu. Læða opnaði augun í nótt en bræður hennar eru enn staurblindir. Set ofurkrúttlegar myndir af þeim á netið um leið og þau hætta að líta úr eins og rottuungar og verða sætir hnoðrar með stór, blá augu. Heimili óskast fyrir jól.

mánudagur, nóvember 14, 2005

Athugasemdir velkomnar

Þakka viðbrögðin. Nú hef ég farið að ráðum Þorbjarnar og opnað fyrir athugasemdir frá öllum eins og mér skildist á athugasemd hans að ætti að bera sig að við það. Ég vona að ég hafi farið rétt að. Látið mig endilega vita ef ég hef klúðrað þessu. Og segið ykkar álit.

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Opið bréf til biturra vinstrimanna


Ég vil taka öllum mönnum vara við að blogga. Það skyldi enginn gera af léttúð og ábyrgðarleysi. Orð sem blogguð eru verða ekki aftur tekin, þau eru ekki eins og skraf í góðra vina hópi, orð sem fara út í bláinn, höfða til ákveðinnar stemningar og skiljast í ljósi þess hvernig þau eru sögð og að hverjum viðstöddum. Það sem einu sinni er bloggað er komið á veraldarvefinn, fyrir sjónir allra og verður ekki aftur tekið. Blogg skilst í ljósi þeirrar stemningar sem hver netverji er í þegar hann sér það og er sagt eins hver og einn kýs að lesa það. Þannig geta vinsamlegar orðahnippingar og skens skilist sem sárindi og gremja ef maður gætir sín ekki. Fyrir rest getur maður lent í bullandi vörn á sinni eigin heimasíðu og nánast þurft að réttlæta veru sína í sínu eigin partíi.
Þannig var með mína síðustu bloggfærslu. Hún hefur vakið viðbrögð sem ég sé mig eiginlega knúinn til að bregðast við. Mér finnst einhver sögufölsunarkeimur af því að leiðrétta eða ritskoða færslur eftir á þannig að ég læt það ógert þótt ég, eftir á að hyggja, hefði kannski átt að orða ýmislegt þar öðruvísi en ég gerði enda sumt af því sem þar var sagt og linkað að mínu mati verið misskilið, rangtúlkað og útlagt á versta veg.
Sjálfur er ég vinstrimaður og hef fengið mig alveg gjörsamlega fullsaddann af þeim viðbrögðum hægrimanna við málefnalegri gagnrýni okkar að við séum bara bitrir og fúlir og á móti öllu. Ég nenni ekki einu sinni að fara nánar út í þá sálma og ætla mér sko ekki að bætast í hóp þeirra rökþrota asna sem afgreiða alla sem þeim eru ekki sammála sem "bitra vinstrimenn".

Hollywood Íslands

Stundum finnst mér þó að okkur sjáist ekki fyrir í gagnrýni okkar á íhaldið, allt í fari þess fer í taugarnar á okkur og þannig getum við freistast til að finna að ýmsu í fari þess sem við álítum sjálfsagt og eðlilegt í fari okkar sjálfra. Þannig finnst mér til dæmis skondið þegar fólk, sem ætti að vita það af eigin raun (hér stilli ég mig um að linka á nokkra manneskju) hvað það er lítið glamúröst við það að vera frægur á Íslandi, talar um pólitíska andstæðinga sína sem Hollywood-frambjóðendur: "Fræga fólkið styður Gísla Martein!" Það er jafnmálefnalegt og að kalla þá bitra.
Staðreyndin er einfaldlega sú að Hollywood Íslands er hvergi til nema í slúðurblöðum og hugarheimi þeirra sem af einhverjum ástæðum telja sig ekki tilheyra þeim hópi, jafnvel þótt þeir ættu þegar að er gáð að uppfylla öll inntökuskilyrðin. Þannig virðist vera eitthvað Hollywoodlegra að vera Sjálfstæðismaður og stjórna spjallþætti í Sjónvarpinu en að vera Vinstrigrænn og stjórna umræðuþætti á Skjá 1. Eða tilheyrir maður kannski ekki Hollywood fyrr en einkalíf manns prýðir forsíður Séð og heyrt og Hér og nú? ... Úps.
Það gerir engan að verri frambjóðanda að hafa verið í sjónvarpi (og þarafleiðandi viðfangsefni slúðurblaða). Þvert á móti má færa rök fyrir því að það geri menn á ýmsan hátt hæfari. Almannatengsl eru sífellt stærri þáttur í starfi stjórnmálamanna í nútímasamfélagi og haldgóð reynsla og þekking á fjölmiðlum hlýtur því að vera kostur. Auðvitað vega þó aðrir kostir þyngra (s. s. heiðarleiki, gott hjartalag, réttlætiskennd o. s. frv.).
Það er ekki heldur neitt óeðlilegt við það að frambjóðendur fái þá sem þekkja þá og treysta og hafa unnið með þeim til að lýsa yfir stuðningi við sig. Þá er gott að sem flestir viti hverjir þessir menn eru. Auðvitað höfðar það til fleiri að margverðlaunaður leikstjóri og menningarspútnikk, svo dæmi sé tekið, lýsi yfir stuðningi heldur en að lyftaramaður hjá Eimskip geri það. Ekki af því að menningarvitinn sé óhjákvæmilega betri manneskja eða hæfari í sínu starfi heldur af því að fólki er eðlislægt að taka meira mark á þeim sem það veit að eru að gera góða hluti heldur en þeim sem það veit ekkert um – jafnvel þótt þeir geti verið að gera alveg jafngóða hluti í sínu starfi, flutningafyrirtækjum er til dæmis gríðarlegur akkur í góðum lyftaramönnum.

Um fokkíng breik

Einnig hefur orðasambandið "fokkíng breik" farið fyrir brjóstið á vinum mínum. Kolbeinn Proppé hittir naglann á höfuðið á heimasíðu sinni þegar hann segir: "Það er leitun að íslenskum stjórnmálamanni sem hefur verið gefið jafnmikið fokkíng breik og Gísla Marteini Baldurssyni. Á sama tíma og vinstri menn voru ekki ráðnir á fréttastofu sjónvarpsins vegna tengsla sinna við vinstri flokka (sumir höfðu reyndar bara tengsl við fólk í öðrum flokkum), fékk Gísli Marteinn að valsa þar um að eigin vild. Fyrst á fréttastofunni, síðan í Dagsljósinu og loks eigin þátt á laugardagskvöldum. Yfir því er í sjálfu sér ekkert að kvarta, Gísli er vinsæll sjónvarpsmaður og laginn við margt sem fylgir því starfi, þó hann sé ekki allra. Það hefur hins vegar verið morgunljóst í mörg ár að Gísli Marteinn ætlaði sér frama í pólitík. Síðasta kjörtímabil hefur hann meira eða minna starfað sem borgarfulltrúi og vel var ljóst að hann mundi ætla sér meira á þeim vettvangi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur m.ö.o. hlaðið undir Gísla Martein, gert hann að sjónvarpsstjörnu sem lið í því ferli að gera hann að pólitískum leiðtoga."
Ég get tekið undir hvert orð. En til þess ber að líta að þessi viðleitni íhaldsins skilaði þeim ekki leiðtoga heldur þriðjasætiskandídat sem ætti að gleðja allt fallega innrætt fólk og skoðast sem lítill sigur.
Til hins ber þó mun fremur að líta að við erum að tala um Sjálfstæðisflokkinn. Við hverju bjuggust þið? Sjálfstæðismanni með hreint siðferðisvottorð? Við ykkur sem væntið slíks get ég aðeins sagt: Vaknið og finnið kaffiilminn! Og látið mig endilega vita þegar þið finnið vammlausan Sjálfstæðismann því hann á skilið að fá Thule!
Þetta er nákvæmlega það sem ég var að segja. Gísli Marteinn er bæði betri og verri en gengur og gerist um Sjálfstæðismenn og þarafleiðandi hvorki betri né verri þegar upp er staðið. Þegar ég tala um að gefa honum "fokking breik" á ég bara við að við ættum að hætta að einblína svona á persónu hans, hve mjög sem hún annars kann að fara undir skinnið á okkur, af því að þessi fókus á hana beinir sjónum okkar frá hinum raunverulega óvini – sem er ekki Gísli Marteinn Baldursson heldur alheimskapítalisminn!

P. S.

Ég er slíkur netskussi að ég kann ekkert á uppstillingu bloggsíðna. Getur einhver útskýrt það fyrir mér hvernig ég á að opna fyrir athugasemdir frá öðrum en þeim sem sjálfir blogga á blogspot?

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Lifi Gísli Marteinn!

Þessa fyrirsögn á ekki að taka of bókstaflega. Ég komst nefnilega að því að bloggið mitt hefur verið "rassað" og valdi þess vegna fyrirsögn sem myndi gera fólk forvitið og vilja lesa það sem ég hef að segja um Gísla Martein.
Það fer nefnilega svolítið í taugarnar á mér hvað Gísli Marteinn fer upp til hópa í taugarnar á pólitískum skoðanasystkinum mínum. Ég er ósammála, mér finnst Gísli Marteinn hvorki betri né verri en gengur og gerist um fólk, svona á heildina litið. Að vísu verð ég að viðurkenna að það er svolítið sérstakt með Gísla Martein að mér finnst hann ýmist betri eða verri en gengur og gerist um fólk, hann hefur kosti og galla.
Í fyrsta lagi hef ég ekkert álit á Gísla Marteini sem stjórnmálamanni. Ég er ósammála honum um nánast allt. Reyndar sýna skoðanakannanir að ég er ósammála 80 – 85% þjóðarinnar í pólitík, þannig að hugsanlega er það ekki að marka. Að ganga í gegn um lífið í hnút af gremju í garð allra sem deila ekki stjórnmálaskoðunum manns er ekki einasta heimskulegt – fyrir mig er það hreinlega lífshættulegt (ekki bara út af því hvað þeir eru margir). Auk þess hef ég ekki orðið var við að Kjartan Magnússon, svo dæmi sé tekið, valdi jafnmiklum taugatitringi meðal vinstrimanna og Gísli Marteinn. Kannski veldur því einhver munur á stjórnmálaskoðunum þeirra þótt ég hafi ekki komið auga á hann. Mig grunar að Kjartan Magnússon fari ekki eins mikið undir skinnið á mínu fólki og Gísli Marteinn vegna þess að hann er ekki sjónvarpsmaður.
Í öðru lagi finnst mér Gísli Marteinn ekki góður sjónvarpsmaður. Það er Hemmi Gunn, svo dæmi sé tekið, ekki heldur að mínu mati. Ég verð hins vegar ekki var við að Hemmi Gunn fari eins ofboðslega í taugarnar á fólki fyrir það að vera sjónvarpi og Gísli Marteinn, þótt Gísli sé sem sjónvarpsmaður skilgetið afkvæmi Hemma. Líklega geldur Gísli þess að vera í pólítik.
Það er með öðrum orðum í lagi að vera Sjálfstæðismaður ef maður er ekki leiðinlegur sjónvarpsmaður og það er í lagi að vera leiðinlegur sjónvarpsmaður ef maður er ekki Sjálfstæðismaður. Er ég sá eini sem finnst þetta ósanngjarnt?
Persónleg samskipti mín við Gísla Marteini hafa öll verið hin þægilegustu. Það sama gildir um Hemma Gunn. Þeir eru báðir afbragðsmenn við viðkynningu. Ég reyni að dæma fólk ekki af því sem ég heyri heldur af því sem ég veit af eigin reynslu.
Þegar við Jakob Bjarnar stjórnuðum útvarpsþættinum Górillu á sínum tíma hringdi stundum í okkur strákur sem var sundlaugavörður og gantaðist í okkur. Hann átti það til að æpa í hátalarakerfið eitthvað á borð við: "Hættið að hanga í snúrunni!" hlustendum Aðalstöðvarinnar til afþreyingar, jafnvel þótt enginn væri að hanga í snúrunni. Smám saman fórum við Jakob að hlakka til að heyra í sundlaugaverðinum, vini okkar, því það var einatt uppskrift að skemmtilegu og spontant spjalli fullu af glettni. Þessi ungi piltur var Gísli Marteinn.
Í samskiptum mínum við Gísla Martein hef ég aldrei fundið fyrir kala frá honum eða fyrirvara gagnvart mér þótt honum og restinni af íslensku þjóðinni megi vera fullljóst að fyrr myndi ég naga af mér hægri höndina en að kjósa stjórnmálaflokkinn sem hann tilheyrir. Það er meira en ég get sagt um marga Sjálfstæðismenn. Hví skyldi ég þá koma öðruvísi fram við Gísla? Víst á hann það til að virka fleðulegur og tilgerðarlegur, en samkvæmt minni reynslu er það ekki leikaraskapur. Gísli er einfaldlega "næs gæi" að upplagi, jafnvel einum of "næs" til að "næsheitin" séu tekin trúanleg. Í huga fólks, einkum biturra vinstrimanna, hlýtur svona ofboðslega "næs" náungi að vera að þykjast.
Kæru bræður og systur. Slakiði aðeins á. Gefið drengnum fokkíng breik! Ég er ekki að segja að hann sé eitthvað yfirmáta merkilegur pappír, en af hverju ætti manni að vera eitthvað meira í nöp við Gísla Martein en aðra sem ekki eru neitt merkilegri pappírar en hann?
Þegar upp er staðið er Gísli Marteinn bara strákur sem er að reyna að lifa lífi sínu eins og hann kann best og gera eitthvað úr því. Sé tekið tillit til borðleggjandi staðreynda (tekna, hjúskaparstöðu, sjónvarpsáhorfs, niðurstöðu prófkjörs) verður ekki hjá því litið að honum hefur bara tekist allvel upp. Og því meir sem hann fer í taugarnar á vinstrimönnum, þeim mun betur hefur honum tekist upp.
Sem er enn ein ástæða þess að gefa drengnum fokkíng breik!

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Parsifal schmarsifal

Á sunnudaginn sýndi Sjónvarpið upptöku af óperunni Parsifal. Mér fannst þetta allt saman mjög sorglegt. Þarna var flott leikmynd, flottir búningar, flottir söngvarar, hljómsveit með strengjum og lúðrum og öllu tilbehöri, meira að segja japönskum stjórnanda með fáránlegt hár – og svo var útkoman þessi ævintýralegu leiðindi. Þótt ég ætti að vinna mér það til lífs gæti ég ekki rifjað upp eina sönglínu úr þessum ósköpum í huganum. Af hverju í ósköpunum datt engum í hug að segja einhvern tímann í miðjum klíðum: "Hei, krakkar, fyrst við erum búin að hafa svona ofboðslega mikið fyrir þessu, af hverju gerum við þá ekki frekar eitthvað skemmtilegt?"

Sjálfstæðisflokkurinn schmjálfstæðisflokkurinn

Mér finnst mjög ánægjulegt að reykvískir Sjálfstæðismenn skyldu hafa þá ógæfu til að bera að setja gamla skarfinn í fyrsta sætið frekar en yngri mann sem hefði borið með sér ferskan andblæ og gert listann pínulítið aðlaðandi og spennandi fyrir þá sem er skítsama um málefnin og kjósa listann sem "lúkkar" best. (Auðvitað eru þeir tveir alveg nákvæmlega sami gambrinn, bara í misgömlum belgjum.) Jú, það er fréttnæmt hvernig þetta prófkjör fór, en fyrr má nú samt rota en dauðrota. Þetta voru ekki kosningar heldur prófkjör eins ákveðins flokks. Ég á við að það er góðra gjalda vert að fylgjast með þessu og greina frá niðurstöðum eftir því sem þær liggja fyrir þegar fréttir eru sendar út á annað borð. En þeir sem vildu vera vakandi og sofandi yfir talingunni notuðu til þess aðra miðla en kvikmyndirnar í Sjónvarpinu á laugardagskvöldið. Á tíu mínútna fresti var nýjustu tölum rúllað yfir skjáinn. Það verður erfitt fyrir Sjónvarpið að segja frá niðurröðun annarra flokka á sína lista án þess að míga yfir allar hlutleysiskröfurnar sem til þess eru gerðar.

Nýju fjölskyldumeðlimirnir

Kettlingarnir hennar Kisu hafa verið kyngreindir og gefin nöfn til bráðabirgða, svona til þess að geta talað um þá öðruvísi en sem "kettlingana" eða "þennan gráa" svo dæmi sé tekið. Reyndust þetta vera þrjú fress og ein læða. Eftir mikla umræðu og lýðræðislegt ákvarðanatökuferli með aðkomu allra mennskra fjölskyldumeðlima fengu fressin nöfnin Móri (grár), Gustur (grár og hvítur) og Zorró (svartur), en læðan heitir Læða (svört og hvít). Ég ítreka að jólagjöfin í ár (lítill, kassavanur hnoðri með stór, blá augu og rauðan borða um hálsinn) verður tilbúin til afhendingar á aðfangadag. Áhugasamir setji sig í samband við mig í gegn um þessa síðu eða á netfangið mitt.

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Fjölgun á heimilinu


Þá eru það fréttir af heimilislífinu. Í gærkvöld varð fjölgun á heimilinu. Hún Kisa varð þá léttari og gaut fjórum myndar- kettlingum, enda tímabært – hún hefði sprungið í loft upp ef þetta hefði dregist mikið lengur, hún var orðin svo ofboðslega, ofboðslega ólétt (ég veit að læður verða ekki óléttar heldur kettlingafullar, en hún var orðin svo geigvænlega kaskettlingafull að mér finnst "ólétt" eiginlega lýsa því betur). Faðirinn er hafnfirskur eðalfressköttur sem kom hingað í heimsókn fyrir nokkrum vikum, öskugrár og glæsilegur, kelinn og blíður, Jan Olaf að nafni. Ég veit að þetta er hvorki hafnfirskt né glæsilegt nafn, en kötturinn er glæsilegur þótt smekkur eigenda hans á kattanöfnum sé það ekki. Lundarfar og líkamsbygging katta erfist hins vegar, þannig að hér eru á ferðinni fjórir eðalkettir undan tveim fyrirtaks heimilisköttum sem svo heppilega vill til að verða akkúrat orðinir sjö vikna gamlir og kassavanir um jólin og farnir að leita sér að nýju heimili.
Kettlingur 1: Grár, einlitur (lifandi eftirmynd föðurins).
Kettlingur 2: Grár og hvítur (hvítur á kvið, loppum og trýni með samhverfa (symmitríska) blesu upp á hvirfil).
Kettlingur 3: Svartur, einlitur.
Kettlingur 4: Svartur og hvítur (hvítur á kvið, loppum og trýni með vinstrisinnaða blesu upp á enni (ósamhverfur í andliti), svartur blettur á höku).
Þannig að ef einhvern langar að deila heimili með fyrsta flokks ketti og taka við honum um jólin þá er byrjað að taka við pöntunum hér á þessari síðu. Ég á eftir að kyngreina þá, það er erfitt þegar þeir eru svona nýfæddir, en ég skal gera grein fyrir kyni kettlinganna um leið og trúverðugar upplýsingar um það liggja fyrir. Ég á von á sveitastelpu sem ég þekki mjög vel í heimsókn á laugardaginn til að skoða þá og kyngreina, en hún er sérfræðingur í svoleiðis.

Dagbókarfærsla

Nú er komin rúm vika síðan ég setti síðast eitthvað inn á þessa síðu. Ég stefni í að verða einn af þessum lélegu bloggurum sem dúkkar upp hálfsmánaðarlega á síðunni sinni til þess eins að segja að ekkert merkilegt hafi gerst í lífi hans síðan síðast. Reyndar hafði ég ekki hugsað mér að þessi síða ætti að vera eitthvað yfirlit yfir það hvað ég aðhefst frá degi til dags heldur vettvangur til að deila pælingum mínum og hugðarefnum með heimsbyggðinni. Helst áttu þetta að vera uppbyggilegar pælingar á jákvæðum nótum (ég er nefnilega að leggja mig í líma við að vera jákvæður og uppbyggilegur þessa dagana) en svo uppgötva ég mér til mikillar skelfingar þegar ég les það sem ég hef sett hingað inn nýlega og eins þegar mér dettur eitthvað í hug til að fabúlera um hérna að pælingar mínar eru alls ekki eins jákvæðar og uppbyggilegar og mér finnst að þær ættu að vera. Í gær fór ég til dæmis á foreldrafund í ónefndum grunnskóla og hitti þar tvo kennara eins afkvæma minna sem báðir voru þágufallssjúkir ("... þegar þeim langar að gera eitthvað ..."). Um þetta ætlaði ég að blogga í löngu máli og leggja út frá því þegar ég fór að kaupa ísskáp hérna um árið og enginn ísskápasölumannanna og –kvennanna réð við að fallbeygja orðið "frystir" ("... þá er svo gott að geta bara sett það í frystirinn ...") og eins þegar ég keypti nýjan rafgeymi í bílinn minn hjá rafgeymaþjónustu í Hafnarfirði og rafgeymatæknirinn, sem ekki gerir nokkurn skapaðan hlut allan liðlangan daginn nema mæla rafgeyma, selja rafgeyma og skipta um rafgeyma í bílum sagðist ætla að mæla hjá mér "geymirinn". En hvað er uppbyggilegt og jákvætt við það? Einkum þegar það bætist við eintómt gremjublogg út af málfari? Þessi síða átti ekki að vera "Davíð Þór eipar yfir málfari alþýðunnar" heldur "hinn djúpvitri Davíð Þór veitir alþýðunni hlutdeild í lausninni við lífsgátunni af yfirvegaðri mildi sinni". Einbeiti mér að því framvegis.

mánudagur, október 24, 2005

Fjölmiðlarýni: Helgarblað DV

Nei, mig langar ekkert til agnúast út í það hvernig DV tekur á þjóðfélagsmálum og fjallar um þau, á Íslandi er töluvert meira en nóg til af siðprúðum kverúlöntum sem nenna því. Að kvarta yfir subbulegum efnistökum í DV er í mínum huga álíka gáfulegt og að kaupa sér Andrésblað og hneykslast á því að hann sé berrassaður. Ég hef nefnilega sjálfur stundum lúmskt gaman af subbulegum efnistökum og les DV auðvitað með þeim fyrirvara að ég sé með yfirlýstan senseisjonalisma í höndunum og tek því sem í blaðinu er þarafleiðandi sem slíku.
Þar sem þeir á Fréttablaðinu hafa fyrir allnokkru fengið þá snilldarhugmynd að bera blaðið ekki út til mín festi ég kaup á DV núna um helgina, svona til að hafa eitthvað að lesa annað en Tinna og verð að segja að ég varð sármóðgaður með það sem í blaðinu var.
Í fyrsta lagi er fyrirsögnin "Söru Birnu hlakkar til að sjá Sölku" (bls. 43) ófyrirgefanleg. Ég kaupi DV til að lesa subbuleg efnistök, ekki subbulega íslensku. Hafi þessi fyrirsögn átt að þjóna þeim tilgangi að ganga fram af fólki eins og mér með því sem hún segir tókst það. Hún segir nefnilega: "Fólk getur fengið vinnu sem blaðamenn á DV án þess að kunna íslensku."
Í öðru lagi er stór hluti blaðsins uppspuni frá rótum. Ég sá á forsíðu að í blaðinu er fjallað um það að Þórey Edda Elísdóttir, stangarstökkvarinn knái, kynþokkafulli og vinstri-græni, þarf ekki að hafa fjárhagsáhyggjur lengur. Þetta þóttu mér góðar fréttir. Verra þótti mér þó að helsta átórítetið um framtíðarhorfur Þóreyjar var spilastokkurinn hennar Ellýar Ármannsdóttur. Að stuttu viðtali við Þóreyju loknu eru birtar myndir af tarotspilum og út frá þeim endurtekið það helsta sem kom fram í viðtalinu; að hún sé meðvituð um líðan sína, að hún viti hver hún er í raun og veru, að henni er ráðlegast að halda fast í drauma sína og óskir um að allt fari eins og plön hennar segja til um, hún veit hvert hún ætlar sér í lífinu, jada jada jada ... m. ö. o. útjaskaðar vitaskuldir á útjaskaðar vitaskuldir ofan. Svo kemur heil opna um fræga fólkið, Védís Hervör, Guðlaugur Þór, Þorgerður Katrín og Rúni Júl eru líka tarotuð og stjörnuspekjuð sundur og saman.
Hver er útkoman? Jú. Védís Hervör getur tjáð tilfinningaorku sína bæði jákvætt og neikvætt. (Hver getur það ekki?) Þorgerður Katrín er siðfáguð, aðlaðandi, félagslynd og fjölmargt annað sem hver maður getur sagt sér sjálfur án þess að skoða stjörnukortið hennar. Rúni Júl elskar konuna sína. (Þessi fullyrðing væri auðvitað mjög vafasöm ef tarotspilin hennar Ellýar styddu hana ekki.) Bergþór Pálsson er fullur af lífi og vilja til að skara fram úr. (Þetta varð mér að vísu ljóst um leið og ég hitti hann, en Ellý þurfti þess ekki einu sinni – bara að vita afmælisdaginn hans.)
Það sem ég er sárhneykslaður á er þetta: Fyrst það er á annað borð verið að segja manni eitthvað um fræga fólkið sem ekki þarf að rökstyðja með öðru en spilastokki og himintunglunum hlýtur að vera hægt að láta sér detta eitthvað í hug sem ekki er himinhrópandi augljóst án þessara hjálpartækja, eitthvað aðeins áhugaverðara en þetta: "Þegar þú (Guðlaugur Þór) ákveður að byrja á að takast á við veröldina eins og hún er en ekki eins og þú vilt að hún sé þá nærðu áttum svo sannarlega." (bls. 38) – Ef þessi fullyrðing á ekki við um einhvern af tegundinni maður, vinsamlegast látið mig vita.
Nei. Ég skal segja ykkur sannleikann um allt þetta fólk samkvæmt þeim fræðum, spekjum, stúdíum og dulargáfum sem ég hef lagt ríka stund á undanfarin ár og kynnt mér í þaula og eru jafnmarktæk og þessi þvættingur. Innbyrðis afstaða sviptivinda í Grafarvogi bendir einfaldlega til þess að Guðlaugur Þór sé ekkert annað en drykkfelldur ofstopamaður. Skjálftavirkni á Reykjanesi tekur ennfremur af öll tvímæli um að Védís Hervör er þungt haldin af brókarsótt á háu stigi. Mynstrið sem droparnir mynduðu á baðherbergisgólfinu þegar ég pissaði í morgun sýna svo ekki verður um villst að Þorgerður Katrín svíkur undan skatti og hvað Rúna Júl og frú varðar bera fæst orð minnsta ábyrgð ef marka má kapalinn sem ég lagði í tölvunni minni áðan.
Væri ekki skemmtilegra að lesa eitthvað svona? Af hverju er ekki eitthvað svona skrifað í DV fyrst það byggir á alveg jafnáreiðanlegum heimildum? Fyrst þeir á DV hafa ekkert þarfara við síður blaðsins að gera en að leggja þær undir bull, af hverju finna þeir sér þá ekki bullara sem hefur ímyndunarafl til að bulla eitthvað sem hver maður getur ekki sagt sér sjálfur, eitthvað sem ekki er bara ömurlega óintressant sóun á pappír og prentsvertu?

miðvikudagur, október 19, 2005

Hvort er hann í Reykjarvík eða Hafnafirði?

Ég geri ekki mikið af því að lesa fasteignaauglýsingar, en ég hef þó hnotið um það nokkrum sinnum undanfarna daga að fasteignasali hér í borg hefur hvað eftir annað auglýst til sölu eign við Laugarveg. Ég veit ekki með ykkur, en ekki dytti mér í hug að kaupa fasteign af fasteignasala sem getur ekki einu sinni stafsett heiti götunnar sem fasteignin er við, einkum og sér í lagi ef hún er við sjálfan Laugaveginn. Er ég stafsetningarnörd og málfarsfasisti eða ætti svona lið ekki að fá sér vinnu við eitthvað annað?

föstudagur, október 14, 2005

Hann-sem-ekki-má-nefna


Ég er mikill aðdáandi Harry Potter bókanna. Ég er ekkert yfir það hafinn að viðurkenna að ég les þær sjálfum mér til mikillar ánægju og veigra mér ekki við að standa í biðröð í bókabúðum að næturþeli til að verða mér úti um nýjustu bókina í ritröðinni áður en hún selst upp. Þessar bækur eru einmitt gott dæmi um fyrirtaks barnaefni, en eitt helsta einkenni þess er einmitt að fullorðnir hafa gaman af því líka. Boðskapurinn er líka í anda allra góðra barnabóka: Dyggðir eins og hugrekki, réttsýni, staðfesta og sönn vinátta eru meira virði en skilyrðislaus hlýðni, undirgefni og virðing fyrir yfirvaldinu.
Illmennið í Harry Potter bókunum er Voldemort, en af honum stafar slík ógn að hann gengur alla jafna undir nafninu Hann-sem-ekki-má nefna. Voldemort er allt sem Harry er ekki. Valdagræðgi hans nær út yfir gröf og dauða, hann óttast ekkert eins mikið og einmitt dauðann og gleymskuna og til að ná sínu fram beitir hann kúgunum, ofbeldi og huglausum handbendum sem uppfylla allar hans óskir af ótta við reiði foringjans og afleiðingum þess að óhlýðnast honum, því þeim sem ekki makka rétt er jafnan refsað grimmilega. Sjálfstæð hugsun er dauðasök í þeim félagsskap.
Það er reyndar merkilegt að svona starfsaðferðir virðast einmitt einkenna leiðtoga sem ekki má nefna, en eins og alþjóð er orðið kunnugt hefur fráfarandi formaður Sjálfstæðisflokksins einmitt gengið undir nafninu Hann-sem-ekki-má-nefna á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins um allnokkra hríð.
Ég er viss um að Hann-sem-ekki-má-nefna hefur lesið Moggann í gær með blendnum tilfinningum. Þegar ég sá það fyrst fann ég fagnaðarbylgju fara um mig, því aukablöð á borð við það sem fylgdi honum í gær eru nefnilega yfirleitt ekki gefin út nema um dauða menn. En við lestur kom í ljós að hann er enn á lífi og sparkandi og ekkert skárri í skapinu, eins og sást best á skítafýlubombunni sem hann startaði landsþingi sinna manna með í gær.
Auðvitað er það þrúgandi kvöl að vera undir foringja af þessu tagi, að stjórnast af ótta við reiði að ofan, að vera viljalaust verkfæri geðvonsku og duttlunga leiðtogans. Þess vegna fagna fáir því meira en einmitt dyggustu fylgjendur hans þegar hann loksins hverfur af sjónarsviðinu. Þeir gefa jafnvel út heil aukablöð með lofrullu um hann strax og hann kveður ... óþreyjan eftir því að losna undan ægivaldi hans er orðin slík að frelsinu verður að fagna strax. Það er ekki hægt að bíða þess að gröfin gleypi hann áður en skrifuð er minningargrein, öfugt við það sem gert er í þeim tilfellum þegar fólk elskaði leiðtogann og dáði en óttaðist hann ekki bara og skelfdist.
Nú verður gaman að sjá hvort Sjálfstæðismenn geti aftur um frjálst höfuð strokið og farið að hugsa sjálfstætt eða hvort ógnarvald Hans-sem-ekki-má-nefna nái út yfir pólitíska gröf og dauða, hvort íhaldið finni sér önnur pólitísk markmið en þau að klekkja á þeim sem feita fíflinu er persónulega í nöp við, hvort stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins einkennist á næstunni af almennum borgaralegum sjónarmiðum eða hvort hún verði áfram einvörðungu listi yfir það sem ekki þjónar undir hégómleika ónefnds einstaklings, persónulegur gremjulisti Hans-sem-ekki-má-nefna.

fimmtudagur, október 13, 2005

Forvarnalimra

Mislukkaðasta ljóð sem ég hef ort er að öllum líkindum Fornvarnalimra sem ég orti í fyrra eða hitteðfyrra. Það fattaði hana enginn. Mér var bent á það að markhópurinn skildi alls ekki málfarið. Til að geta gert eitthvað við hana langar mig því að leyfa netlesendum mínum að skoða hana og dæma, hún verður víst ekki - úr því sem komið er - vopnið sem læknar æskulýðinn af ólifnaðinum eins og upphaflegur tilgangur hennar var.

Forvarnalimra

Að reykja og drekka og dópa
er della og sport fyrir glópa
og ennfremur er
það ávallt hjá mér
í samkvæmum sannkallað faux-pas.

þriðjudagur, október 11, 2005

Ó, að allt væri alltaf eins og það var þegar það var best!

Ég var að hlusta á útvarpið í dag, nánar tiltekið á Helga Björns syngja með miklum ágætum eitthvað lag eftir Magnús Eiríksson. Í því kom fyrir setningin: "Hvenær verður allt eins og áður?" eða eitthvað á þá leið. Fínt lag og tiltölulega aulahrollslaus texti eins og yfirleitt úr þeirri átt. En Magnús er alls ekki eina skáldið sem ort hefur eitthvað á þessa leið. Svo virðist vera að sú hugmynd að draga ánægjustundir lífsins eins mikið á langinn og kostur er sé eftirsóknarverð í hugum ótrúlegra margra. Ég vil leyfa mér að vera ósammála, ekki bara á forsendunum: "... ef það væru alltaf jólin ..." o. s. frv.
Það er eðli lífsins að það heldur áfram. Það líður og það sem leið er og verður liðið. Jafnvel mesti ánægjudagur lífsins yrði að "Groundhog Day" kvalræði ef maður þyrfti að ganga í gegn um hann nokkurhundruð sinnum í röð. Ekki vildi ég að "allt yrði eins og áður" jafnvel þótt þetta "áður" vísaði til mestu gleðistunda lífs míns. Ef allt yrði aftur eins og það var þá ... þá gæti ég ekki minnst þeirra stunda, hlýnað um hjartaræturnar og fyllst þakklæti fyrir að hafa fengið að upplifa þær.
Allt sem lifir tekur breytingum. Reyndar heldur það líka áfram að taka breytingum eftir að það deyr en þá er það dautt svo það nær ekki að verða vitni að þeim. Ef lífið væri alltaf eins og það var þegar það var best væri það ekki líf. Það væri ekki einu sinni dauði. Það væri einhvers konar steingervingur með meðvitund ... örlög verri en dauðinn!

Kannski er ekki að marka mig og auðveldara fyrir mig en flesta að vera laus úr viðjum fortíðardýrkunarinnar, en ég bý við það að fortíð minni hefur verið mokað upp á vörubílspalla og dreift um byggðir landsins.
Ég var í sveit á hverju sumri fram að fermingu hjá afa mínum og ömmu á Stóru-Fellsöxl í Skilmannahreppi. Þar voru iðjagræn tún, kýr á beit, mjór malarvegur fram hjá bænum og urð og melar fyrir ofan bæinn alveg upp í fjall. Gömlu hjónin voru nítjándualdarfólk, fædd í torfbæjum löngu fyrir vélvæðingu sveitanna. Þau urðu vitni að meiri samfélagsbreytingum en nokkur önnur kynslóð Íslendinga. Á bænum var farið með rímur, kveðist á og afi minn kenndi mér ferskeytlur og undirstöðuatriði bragfræðinnar. Á haustin fór ég síðan heim í Vesturbæinn í Reykjavík. Ég ólst með öðrum orðum upp í skáldsögu eftir Ármann Kr. Einarsson. Nema Ármann hefði líklega ekki haft hugmyndaflug til að setja malagryfju í jaðarinn á heimatúninu.
Þegar ég var lítill var malargryfjan bara lítil hola þar sem skurðgröfur náðu öðru hverju í vörubíl og vörubíl af möl þegar einhvers staðar vantaði möl í nágrenninu. Einhvern tímann á unglingsárum mínum gerðist það hins vegar að ákveðið var að reisa járnblendiverksmiðju í landi næsta bæjar, Klafastaða. Hún gengur í dag undir nafninu Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga. Þetta kostaði miklar vegaframkvæmdir, mikla möl.
Síðar var ákveðið að bora göng undir Hvalfjörðinn og leggja Hringveginn í gegn um þau, með þeim afleiðingum að nú liggur hann um túnin hans afa míns, þar sem áður var mjór malarvegur með þriggja stafa númeri (afleggjari af afleggjaranum út á Akranes). Í það þurfti líka mikla, mikla möl.
Gömlu hjónin brugðu búi, húsið lenti fljótlega í niðurníðslu og hefur nú verið rifið. Þegar maður ekur um Þjóðveg 1 undir Akrafjalli má sjá skrýtinn trjálund uppi í hlíðinni, litlu norðan við Fellsenda, lítinn reit með undarlega háum trjám. Þetta er garðurinn sem áður var við bæinn Stóru-Fellsöxl. Á ferðum mínum um landið renni ég stundum upp að gamla bæjarstæðinu og labba þar um, svona til að jarðtengja mig og muna hvaðan ég kem (einhvern veginn finnst mér það hjálpa mér að átta mig á því hver ég er að minna mig á það hvaðan ég er).
Stundum labba ég út fyrir jaðarinn á heimatúninu og skoða gömlu malarnámuna. Hún er horfin. Reyndar er allt horfið, melarnir og móarnir sem ég rak kýrnar um í gamla daga ... horfið. Þarna er eitt gapandi tóm. Megninu af jörðinni hans afa míns hefur verið mokað burt, margir hektarar (að því er mér finnst) af æskuslóðum mínum eru horfnir, farnir – þar er nú laust loft og margir metrar niður á fast land sem er bara sandur og sviðin jörð eins langt og augað eygir. Landið þar sem ég steig bernskunnar spor er horfið og í staðinn er komið gat ofan í jörðina, margra metra djúpt og nokkrir hektarar að flatarmáli.
Ekki er einasta að landið sem ég rak kýrnar um sem ungur drengur sé horfið. Kýrnar eru horfnar, bærinn er horfinn, sveitabragurinn er horfinn, afi og amma eru horfin og ungi drengurinn er líka horfinn. Hann varð að manni og heimurinn varð að ... þessu.
Það er erfitt að fyllast fortíðarþrá þegar fortíðin er svona gjörsamlega horfin ... ekki bara í merkingunni liðin, dáin og grafin - heldur bókstaflega rifin niður, mokað upp á vörbílspalla og ekið burt.

fimmtudagur, október 06, 2005

Skemmtilegar fréttir

Ég heyrði dálítið mjög skemmtilegt í fréttum í gær (nema það hafi verið í fyrradag). Svo virðist sem afkoma útflutningsfyrirtækja í sjávarútvegi sé óviðunandi. Það gladdi mig að heyra þetta. Ég hélt nefnilega að orðskrípin "ásættanlegt" og "óásættanlegt" væru alfarið búin að útrýma orðunum viðunandi og óviðunandi úr íslensku máli. Mér þótti gott að heyra þetta hljómfagra orð á öldum ljósvakans aftur, svolítið eins og að heimtan gamlan vin úr helju.

miðvikudagur, október 05, 2005

Tónleikar gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum

Mig langar að vekja athygli lesenda minna á tónleikum sem verða annað kvöld á Gauknum. Ég var beðinn að vera kynnir á þeim og gat auðvitað ekki skorast undan, málefnið er þess eðlis að aðeins hreinræktuð hrakmenni eru ekki reiðubúin til að leggja því lið. Maður verður stundum að minna sig á að það er forréttindi að geta gefið góðu málefni tíma sinn og vinnu. En hvað getur maður gert ef maður er ekki að kynna eða spila eða hafa sig á einhvern hátt í frammi? Svar: Mætt! - Auk þess eru tónlistaratriðin ekki af verri sortinni þannig að það er ekki einasta hægt að skemmta sér heldur gera gagn í leiðinni. Þessum málstað veitir ábyggilega ekki af hverri krónu. Fram koma: Ragnheiður Gröndal, Buff, Ske, Hera, Lokbrá, Hot Damn, Smack, Solid iv, Mínus, Dr. Spock og Ensími.

þriðjudagur, október 04, 2005

Um ótta


Ég reyki. Ég veit að það er stórhættulegt og að árlega deyr fjöldi Íslendinga af völdum reykinga. Ég reyki sem sagt ekki vegna fáfræði um afleiðingarnar heldur af því að ég er haldinn nikótínfíkn, sem lýsir sér í því að þegar mig vantar nikótín fyllist ég vanlíðan, ég verð eirðarlaus, skapstyggur og óánægður. Mér dettur ekki í hug að afsaka það og skynsemi mín býður mér að þessum ósið verði ég að sigrast á – einhvern tímann.
Einn góður vinur minn reykir líka. En hann hefur komið sér upp þeim sið að áður en hann kveikir í sígarettunni hitar hann endann á filterinu með kveikjaranum. Ég spurði hann einhvern tímann að því hvers vegna í ósköpunum hann væri að þessu og svarið var að með þessu móti brenndi hann fyrir lausa bómullarþræði í filterinu sem hann öðrum kosti myndi soga ofan í lungu, bómullarþræðir þessir væru stórhættulegir og því væri þetta gert af heilsufarsástæðum. Hugsanaferlið á bak við þessa athöfn er með öðrum orðum eitthvað á þessa leið: "Nú ætla ég að soga tjöru, koltvísýring, blásýru og fjöldann allan af krabbameinsvaldandi efnum sem árlega valda dauða hundruð Íslendinga ofan í lungun á mér, en fjandinn fjarri mér að ég ætli að storka örlögunum og ógna heilsu minni með því að anda að mér bómullarþráðum." Þetta finnst mér hljóma álíka gáfulega og að fara yfir götu á rauðu ljósi og hafa meiri áhyggjur af því að verða fyrir eldingu en bíl. Það sem kemur mér á óvart er að þetta er alla jafna skynsemispiltur, svona eins og ég.
Einhvern tímann var mér sagt að gallinn við almenna skynsemi væri að hún væri hvorugt. Það er hvorki almenn né skynsemi og við félagarnir, jafn vel gefnir og við nú erum, erum sennilega lýsandi dæmi um sannleiksgildi þessarar fullyrðingar.
Mannsheilinn virðist nefnilega hafa eitthvað alveg sérstakt lag á að brengla raunveruleikaskynið til að fylla okkur öryggiskennd, að leiða hjá sér rauverulegar hættur og blása aðrar upp úr öllu valdi í staðinn svo við höfum nú eitthvað að óttast, eitthvað viðráðanlegt. Þetta mætti kalla "flug og bíll" heilkennið, með vísan til þeirrar alkunnu staðreyndar að mun fleiri eru hræddir við að fljúga en að ferðast með bíl, jafvel þótt öll tölfræði sýni að mun líklegra er að deyja eða slasast alvarlega í bílslysi en flugslysi.
Það er skemmtilegt að bera saman það sem fólk óttast, svo sem sjúkdóma, ofbeldi, hættuleg áhöld og skaðræðisskepnur svo eitthvað sé nefnt, og það sem fólki raunverulega stafar ógn af. Þannig sýna tölur til dæmis að það er þrjátíu sinnum líklegra að verða fyrir eldingu en að smitast af HIV veirunni við blóðgjöf. Í Bandaríkjunum deyja ár hvert þrisvar sinnum fleiri úr inflúensu en úr alnæmi. Við höfum meiri áhyggjur af því að verða fyrir ofbeldi á götum úti en að slasast heima hjá okkur þótt öll tölfræði sýni að margfalt fleiri slasist á hnífum, svo dæmi sé tekið, af eigin völdum í eldhúsinu heima hjá sér en af annarra völdum. Í Bandaríkjunum slasast ár hvert tæplega 30.000 manns við að iðka hnefaleika eða íshokkí samanlagt, en á sama tíma slasast 45.000 manns við að iðka dans og 56.000 manns við að spila golf. Þrettán sinnum fleiri Bandaríkjamenn slasa sig ár hvert á stólum en á keðjusögum. Í Bretlandi slasast tvöfalt fleiri á eyrnapinnum en á rakvélablöðum. Tölur frá sama landi sýna að fleiri slasa sig á skrúfjárnum en nokkurn tímann á logsuðutækjum, borvélum, öxum, keðjusögum eða hjólsögum. Árlega deyja um 200 Bandaríkjamenn við að keyra á dádýr á meðan þess er ekki eitt dæmi í sögu landsins að skaðræðisskepnan úlfur hafi orðið manni að bana. Og í heiminum deyja árlega margfalt fleiri af völdum leikfangabangsa en raunverulegra bjarndýra.
Auðvitað er þessi brenglaða skynjun á hættu nauðsynlegt sjálfsvarnarviðbragð. Það er ekkert líf að ganga um í hnút af áhyggjum yfir öllu sem við höfum raunverulega ástæðu til að óttast, að þora ekki að taka til hendinni eða eiga sér tómstundagaman af ótta við að fara sér að voða, að þora ekki yfir götu af ótta við að verða fyrir bíl, að þora ekki út á meðal ókunnugra af ótta við að verða fyrir ofbeldi, að þora jafnvel ekki að mynda tilfinningatengsl við aðrar manneskjur af ótta við að vera særður.
Hins vegar virðumst við hafa meðfædda þörf fyrir ótta og þess vegna finnum við okkur eitthvað nógu ólíklegt til að óttast. Líf nútímamannsins væri undirlagt af angist ef hann óttaðist bifreiðar en hins vegar flýgur hann akkúrat nógu sjaldan til að geta óttast það og fengið sinn nauðsynlega skammt af skelfingu með reglulegu millibili án þess að lífið allt verði gjörsamlega óbærilegt. Það væri erfitt að miða allt sitt líf við að komast aldrei í tæri við leikfangabangsa, en það er auðvelt að halda sig í hæfilegri fjarlægð frá raunverulegum bjarndýrum, rétt eins og það er auðveldara að forðast keðjusagir en stóla.
Og ef maður er nikótínifíkill er miklu auðveldara og þægilegra að óttast bómullina en blásýruna.
(pistill fluttur á Rás 1 2. september síðastliðinn)

Lífið er auðvelt


Mig langar til að deila með ykkur uppgötvun sem ég er tiltölulega nýbúinn að gera og mér finnst alveg stórmerkileg. Ég geri mér grein fyrir því að þessi uppgötvun á eftir að verða umdeild, enda gengur hún þvert á viðteknar skoðanir á viðfangsefninu og gæti valdið uppþoti meðal þeirra fjölmörgu sem helgað hafa líf sitt því að vera öndverðrar skoðunar, hafa jafnvel hagað lífi sínu gagngert þannig að það sanni hið gagnstæða. Þessi merka uppgötvun er á þessa leið: Lífið er auðvelt.
Já, ég veit að þetta hljómar eins og hroki og sjálfumgleði. Einhverjir kunna að hugsa sem svo: "Það má vera að þitt líf sé auðvelt, en þú ættir nú að fara varlega í svona alhæfingar, vinur minn. Þú veist sko ekki hvernig það er að vera ég." Því er rétt að ég útskýri þetta betur. Lífið er auðvitað ekkert auðvelt ef maður vill ekki hafa það þannig. Ef maður gengur um hokinn af þeirri sannfæringu að lífið sé ein þrautaganga um dimman táradal þá bregst það auðvitað ekki, þá munu eymd og erfiðleikar blasa við manni hvert sem litið er. Hvert verk sem þarf að vinna verður auðvitað mun erfiðara ef maður gengur til þess með því hugarfari að þetta verði nú ljóti þrældómurinn sem ósanngjarnt sé af lífinu að leggja á mann. Það er því kannski rétt að bæta aðeins við fullyrðinguna svo hún verði ekki misskilin. Lífið er auðvelt þegar maður hættir að gera sér það erfitt.
Á Skjá einum er um þessar mundir verið að sýna þætti sem heita Worst Case Scenario, sem útleggja mætti sem "Það versta sem getur gerst". Þessi þáttur er sérhannaður fyrir vænisjúka ameríkana og gengur út á að leiðbeina fólki um það hvernig það getur bjargað lífi sínu þegar allt fer í hund og kött. Þarna er fólki meðal annars kennt að henda sér út úr bifreið á ferð, að bregðast rétt við því þegar brjálaður bílstjóri reynir að þvinga það út af veginum og hvað það á að gera ef bremsurnar bila þegar það er einmitt á fleygiferð niður í móti eftir þröngum og kræklóttum vegarslóða. Sjálfsagt eru þetta allt þarfar og góðar upplýsingar og gott að búa að þessari þekkingu þegar maður lendir í þessum aðstæðum. En þegar líf manns er orðið eitt Worst Case Scenario ætti maður kannski að hugsa sinn gang aðeins. Við megum ekki gleyma því að líkurnar á því að maður lendi í þessum kringumstæðum eru hverfandi. Og þegar maður getur ekki farið í bíltúr án þess að vera ávallt viðbúinn því einhver reyni að þvinga mann út af veginum, bremsurnar hætti að virka á lífshættulegum stað og maður verði að vera tilbúinn til að fleygja sér út úr bílnum á ferð ... þá er nú ánægjan af sunnudagsbíltúrnum orðin ansi lítil, ekki satt?
Það er nefnilega ekki það sama að vera viðbúinn hinu versta og að búast stöðugt við hinu versta. Það fyndna er að þegar í harðbakkann slær þá gerir það mann ekkert hæfari til að bregðast við að hafa verið í keng árum saman af áhyggjum yfir því að svo bregðist krosstré sem önnur og allt kunni nú enn að fara á versta veg. Eiginlega þvert á móti. Þeim sem helgað hefur líf sitt og vilja því að það sé kvalræði að vera til og bara tímaspursmál hvenær allt fari í kaldakol fellur allur ketill í eld þegar út af ber, þarna fékk hann kærkomna staðfestingu á því að hans versti ótti hafi verið á rökum reistur og það sé ekki til neins að ætla að stríða gegn beiskum forlögunum, á meðan sá sem er sannfærður um að lífið sé auðvelt áttar sig á því að þetta hefði nú getað farið miklu verr og það hljóti nú að vera hægt að kippa þessu í liðinn.
Þetta er ekki bara eitthvað innihaldslaust hamingjuþrugl í mér, ef þið haldið það. Nei, vísindalegar rannsóknir á heppni hafa leitt í ljós að heppið fólk er í raun ekkert heppnara en annað fólk. Það sem heppið fólk á meðal annars sameiginlegt er að það sér tækifæri þar sem aðrir sjá vesen og að það væntir góðs af lífinu og sú lífssýn skyggir á það sem aflaga fer, því auðvitað sleppur enginn alveg við óhöpp. Ennfremur treystir heppið fólk öðru fólki og er reiðubúið að taka áhættu. Eitt af því sem gerir lífið erfitt, eða öllu heldur: sem maður gerir líf sitt erfitt með, er nefnilega ótti við það hvað aðrir halda um mann. Þessar áhyggjur þjaka heppið fólk í minna mæli en ógæfumenn.
Það er gömul og góð speki að maður myndi hafa miklu minni áhyggjur af því hvað aðrir hugsa um mann ef maður gerði sér grein fyrir því hvað þeir gera það sjaldan. Það er nefnilega í raun alveg dæmalaus frekja að vera að gera sér í hugarlund hvað aðrir halda um mann, að ætlast til þess af öðru fólki að það sé að eyða tíma sínum og orku í að hafa á manni skoðun. Ennfremur er það hrein og bein mannfyrirlitning að ganga alltaf út frá því að fólk haldi hið versta um mann, þar með er maður ekki einasta svo sjálfhverfur að maður sé að gera öðru fólki upp áhuga á manni, heldur er maður aukinheldur að ætla því mannvonsku og illgirni. Eða svo ég vitni í þekkta dæmisögu þá er auðvitað erfitt að fá lánaðan tjakk ef það fyrsta sem maður segir við alla sem á annað borð gætu lánað manni tjakk er: "Eigðu þinn helvítis tjakk sjálfur!"
Nei, lífið er auðvelt. Og það yndislegasta við þessa fullyrðingu er að eftir því sem maður er sannfærðari um að hún sé sönn, þeim mun réttara hefur maður fyrir sér.
(pistill fluttur á Rás 1 26. ágúst síðastliðinn)

Um þakklæti

Framlag mitt til læknisfræðinnar er ekki neitt. Ég hef ekki fundið upp svo mikið sem plástur, hvað þá einhver lyf eða læknismeð- ferðir sem gert hafa líf einhverra bærilegra. Að ég hafi uppgötvað orsakir einhverra kvilla sem síðan hafi orðið til þess að hægt væri að lina þjáningar þeirra sem af þeim þjást er af og frá. Aðkoma mín að heilbrigðiskerfinu hefur alfarið einskorðast við hlutverk skjólstæðingsins og ekkert bendir til þess að á því verði breyting í þessu lífi.
Sama gildir um aðrar tækniframfarir, ég get ekki þakkað sjálfum mér neitt af þeim. Þar sem ég sit hér við tölvuna mína og sötra espressó í morgunsárið verð ég að játa að inniviðir bæði tölvunnar minnar og espressóvélarinnar eru mér jafnmikil ráðgáta og að eina ástæðan fyrir því að ég nýt góðs af þessari tækni er sú að hvort tveggja fæst úti í búð ásamt leiðbeiningum um notkun þessara tækja.
Það er með öðrum orðum ekki vegna neinna verðleika sjálfs mín sem ég nýt þeirra lífsgæða sem ég bý við heldur get ég einvörðungu þakkað það því að vera 21. aldar Íslendingur og satt best að segja rekur mig ekki minni til þess að það hafi verið upplýst ákvörðun hjá mér. Af þessu dreg ég í fyrsta lagi þá ályktun að ef ég hefði fæðst í árdaga mannkynsins hefði það sennilega ekki verið ég sem fann upp hjólið heldur einhver sem í dag er að finna upp plástur, tölvur eða espressóvélar og í öðru lagi að ástæða þess að ég fæddist ekki í árdaga mannkynsins heldur fyrir rétt rúmum fjörutíu árum hér uppi á Íslandi sé það sem á góðri íslensku er kallað hundaheppni.
Það má því að mínu mati færa gild rök fyrir því að það sé ekkert annað en helber hroki og tilætlunarsemi í mér að líta á aðgang minn að plástrum, tölvum og espressóvélum, svo fátt eitt af því sem gerir líf mitt þægilegra sé nefnt, sem sjálfgefinn og að á mér væri á einhvern hátt svindlað eða ég sviptur einhverju sem ég ætti rétt á, hefði unnið mér inn fyrir og verðskuldaði væri þetta tekið af mér.
Því er ég að hafa orð á þessu að það fer stundum í taugarnar á mér hvað við Íslendingar getum bölsótast út af þeim lúxusvandamálum sem við glímum við hverju sinni. Á sama tíma og það er helsta baráttumál íslenskra kvenna að njóta launajafnréttis eru konur víða um heim að berjast fyrir því að njóta meiri réttinda en húsdýr. Á sama tíma og það er helsta baráttumál íslenskra homma og lesbía að fá að ættleiða börn eru hommar og lesbíur víða um heim að berjast fyrir því að fá að ganga laus og þegar verst lætur að eiga ekki yfir höfði sér dauðarefsingu fyrir kynhneigð sína. Á Íslandi gengur erfiðlega að fá starfsfólk á elliheimili á sama tíma og víða um heim væri erfitt að fá vistmenn á elliheimili, væru þau yfirhöfuð til, vegna þess að meðalævilíkur fólks réttlæta einfaldlega ekki tilvist slíkra stofnana. Á Íslandi höfum við áhyggjur af offitu meðal barna á sama tíma og tugþúsundir barna deyja úr hungri annars staðar á hnettinum dag hvern. Á Íslandi þurfa þeir sem stjórnvöldum stafar ógn af að óttast um starfsframa sinn og atvinnuöryggi á sama tíma og þeir sem eru stjórnvöldum erfiður ljár í þúfu víða um heim hafa ástæðu til að óttast, ekki bara um líf sitt og limi heldur einnig ástvina sinna. Á Íslandi höfum við áhyggjur af nokkrum tugum vegalausra ungmenna sem leiðst hafa á glapstigu og eru á götunni á sama tíma og börn fæðast og eru alin upp á götunni í erlendum stórborgum þar sem stjórnvöld hafa gripið til þess ráðs að gera út vopnaðar sveitir manna til að útrýma þeim eins og um rottuplágu væri að ræða.
Nú má ekki skilja þessi orð mín sem svo að ég sé að gera lítið úr þessum vandamálum og halda því fram að allt sé í lukkunnar velstandi hér á Fróni. Mér dettur ekki í hug að gefa annað í skyn en að víða sé pottur brotinn hér á landi og margt megi betur fara. Auðvitað er það hið versta mál að konur eigi erfiðara uppdráttar í atvinnulífinu en karlar, að samkynhneigðir njóti ekki sömu réttinda og gagnkynhneigðir á öllum sviðum, að Íslendingar éti sér til óbóta frá blautu barnsbeini og forkastanlegt að stjórnvöld skuli með skjalafölsunum, kúgunum og atvinnurógi keyra í gegn stórkostleg, óafturkræf umhverfisspjöll þvert á landslög og allt almennt siðferði svo ekki sé minnst á þá skelfilegu ógn sem æsku landsins stafar af eiturlyfjavandanum. En ég held samt að við ættum öðru hverju að bera okkur saman við blákaldan raunveruleikann eins og hann blasir við öllum þorra þeirra manneskja sem við deilum reikistjörnunni með en ekki bara einhverja útópíska draumsýn sem hvergi er til nema í bókum og stefnuskrám stjórnmálaflokka.
Ef við gerðum það myndum við nefnilega uppgötva tilfinningu sem er stórkostlega vanrækt en er í senn falleg, göfgandi og bráðholl fyrir sálina og magasýrurnar. Þessi tilfinning nefnist þakklæti.
Íslenskar konur eru ekki að berjast fyrir því að fá launaumslög heldur þykkari launaumslög. Íslenskir stjórnmálamenn eru hreinir götustrákar miðað við þau siðblindu varmenni sem ráða ríkjum víða annars staðar. Við höfum margt til að vera þakklát fyrir, ekki bara tölvur og espressóvélar.
Það væri líka að mínu mati sjálfsögð tillitsemi við þá, sem víða um heim eru að hætta lífi sínu í baráttu fyrir mannréttindum, sem við Íslendingar erum farnir að líta á sem jafnsjálfsögð og súrefnið sem við öndum að okkur og tökum ekki eftir frekar en súrefninu sem við öndum að okkur, að eyða þó ekki væri nema broti af þeim tíma, sem við eyðum í gremju yfir því sem okkur vantar, í þakklæti fyrir það sem við höfum.
(pistill fluttur á Rás 1 19. ágúst síðastliðinn)

Um hamingjuna

Ég á það til að vorkenna sjálfum mér alveg óskaplega mikið. Stundum finnst mér það hreint ekki enleikið hvað forlögin hafa leikið mig grátt og hvað ég verðskulda að staða mín í lífinu sé miklu betri en hún er. Einkum á ég það til að láta hjúskaparstöðu mína valda mér eymd og fá það á tilfinninguna að væri hún skárri myndu öll mín vandamál einhvern veginn leysast af sjálfu sér á svipstundu, að ef ég aðeins gæti komið mér upp ungri, fallegri og hæfileikaríkri kærustu sem sæi ekki sólina fyrir mér þá færi lukkan kannski loksins að brosa við mér og hjól örlaganna að snúast mér í hag. En svo horfi ég á Newlyweds.
Fyrir þá sem ekki vita það er Newlyweds sjónvarpsþáttur á Sirkus, svokallaður rauveruleikasjónvarpsþáttur þar sem segir frá hveitibrauðsdögum hjónakornanna Jessicu Simpson og Nicks Lachleys en þau eru ungt tónlistarfólk í Bandaríkjunum. Nick þessi kemur nokkuð vel fyrir, hann virðist að flestu leyti vera ósköp venjulegur strákur, ekkert ofboðslega djúpur, svolítið massaðari en gengur og gerist og auk þess syngur hann eins og engill og er efnilegur upptökustjóri og útsetjari. Jessica eiginkona hans er vissulega ung, falleg og hæfileikarík, en þar með er eiginlega allt það jákvæða sem hægt er að segja um hana upp talið. Hún er í raun holdgervingur kattarins í sekknum.
Jessicu þessari líður svo illa í sínu eigin skinni að hverja mínútu sem hún nýtur ekki athygli eiginmanns síns óskiptrar líður henni eins og hún sé að hverfa. Hæfileikar hennar til mannlegra samskipta eru í stuttu máli sagt minni en engir og aðeins í því fólgnir að sjúga athygli og orku úr öllum nærstöddum. Í þessum þáttum hef ég meðal annars séð hana fara á límingunum yfir því að Nick greyið færði einhverjar mublur til á heimilinu, eins og ungra, framkvæmdasamra manna er háttur. Mublurnur voru hins vegar ekki eins og hún vildi hafa þær, án þess þó að hún gæti sagt neitt um það hvernig hún vildi hafa þær því hún væri jú ekki innanhússarkítekt. Jessica getur ekki farið út í búð og keypt sér bikíní án þess að uppgötva skömmu síðar að hún borgaði fyrir það tæplega þúsund bandaríkjadali og hringja í kærastann sinn í vinnuna, kjökrandi yfir því að hún hafi ekki vit á að líta á verðmiða, og eyðileggja fyrir honum daginn líka. Í einum þætti var verið að gera myndband við eitt laga Nicks og Jessica mætti á staðinn og eipaði yfir því að dansararnir í því ættu í raun og veru að snerta manninn hennar. Hún linnti ekki látum fyrr en búið var að breyta dansatriðinu og fór heim ánægð með sjálfa sig. Satt best að segja er ég farinn að bíða spenntur eftir því hvaða tittilingaskítur lætur heim Jessicu hrynja í næstu viku.
Þessir þættir hafa fært mér heim sanninn um það að maður skyldi fara varlega í að óska sér ungrar, fallegrar og hæfileikaríkrar kærustu sem sér ekki sólina fyrir manni. Það eitt er greinilega nóg til að gera líf manns að hreinu helvíti á jörð.
Jú, jú. Auðvitað gæti það verið gaman að því tilskyldu að maður væri heppnari en Nick Lachley og hún væri andlega heilbrigð. En maður verður þá líka að vera með það á hreinu til hvers maður vill hana. Ekki til að lappa upp á skaddaða sjálfsmynd eða af því að maður telur sjálfum sér trú um að þannig leysist öll manns vandamál. Slíkt er fyrirfram dæmt til að mistakast.
Ég á það nefnilega til að gleyma því að ég hef átt ungar, fallegar og hæfileikaríkar kærustur sem sáu ekki sólina fyrir mér. Þessar stúlkur eiga fátt sameiginlegt, en þó allar það að vera ekki kærusturnar mínar lengur. Með þeim átti ég dýrðlegar stundir, sem ég sé svo sannarlega ekki eftir, þar sem mér tókst jafnvel þegar best lét að gleyma öllum mínum vandamálum um stundarsakir. En þær leystu þau ekki. Ég er kannski fyrst núna að átta mig á því að ég verð að nota aðrar aðferðir til þess. Það er auðvitað ekkert annað en geðveiki að gera sömu tilraunina aftur og aftur og reikna alltaf með nýrri niðurstöðu. Fyrir utan það hvað það er ósanngjarnt að leggja það á aðra manneskju af holdi og blóði að gera hana að lausn allra sinna vandmála. Enginn rís undir slíku. Og ef kærastan skyldi nú taka upp á því að vilja hætta að vera kærastan manns þá situr maður eftir með allt það ósnert sem maður var að flýja í faðm hennar til að byrja með.
Það er hins vegar ekki geðveiki að læra af reynslunni. Þess vegna reyni ég núorðið í hvert sinn sem ég stend mig að því að vorkenna sjálfum mér vegna bágrar hjúskaparstöðu minnar að muna að það er ekki það sem maður fær sem gerir mann hamingjusaman og að það er ekki það sem maður missir sem gerir mann óhamingjusaman. Það sem ýmist gerir mann hamingjusaman eða óhamingjusaman er það hvernig maður fer með það sem maður hefur.
Og ég treysti því að því betur sem maður fer með það sem maður hefur, þeim mun meira muni manni hlotnast.
(pistill fluttur á Rás 1 12. ágúst síðastliðinn)

Allt í plati!


Mig langar að byrja á því að biðja ykkur afsökunar á því að í dag fáið þið ekki alvörupistil frá mér heldur meira einhvers konar platpistil. Ég veit að þið eruð alvöru hlustendur sem verðskuldið alvörupistil, en ég neyðist því miður til að svíkja ykkur um það í dag, vegna þess að ég heyrði það í fréttum í vikunni að ég væri ekki á alvörukaupi við að skrifa og flytja þessa pistla og mér finnst eðilegt að fyrir platkaup sé skilað platvinnu. Reyndar var það mér ákveðinn léttir að heyra þetta með alvörukaupið af því að mér fannst það útskýra svo margt fyrir mér, til dæmis þjónustustigið í hinum og þessum verslunum sem ég hef átt viðskipti við að undanförnu. Það er auðvitað ekki hægt að ætlast til þess að maður fái alvöruþjónustu hjá fólki sem er á platkaupi. Hvað um það. Hef ég þá lesturinn – ef mig skyldi kalla.
Ég er mikill aðdáandi stjörnuspáa. Ekki svo að skilja að ég taki eitthvað mark á þeim, frekar en við steingeiturnar almennt, en engu að síður geri ég mér alltaf far um að lesa þær, þótt ekki sé nema til að hneykslast með sjálfum mér á því að virðulegir fjölmiðlar skuli voga sér að koma fram við mig, sem lesanda, sem slíkan fæðingarhálfvita að ég láti telja mér trú um að dagurinn sem er í vændum muni verða keimlíkur, ef ekki alveg eins, hjá okkur öllum sem fædd erum þessar vikur sitt hvorum megin við áramótin og allt öðruvísi en hjá þeim sem fæddir eru á öðrum tímum ársins. Mér finnst það einhvern veginn of augljóst til að hafa orð á því að sennilega eru háralitur og skóstærð líklegri til að hafa áhrif á það hvernig dagurinn verður hjá manni heldur en afmælisdagurinn manns (nema náttúrulega á afmælisdaginn sjálfan) og í rauninni óskiljanlegt að í öllu nýaldarruglinu sem dunið hefur á manni, einkum hér fyrr á árum, skyldi engum hafa dottið í hug að reyna að hagnast á þekkingu sinni á því hvernig dagurinn yrði hjá ljósskolhærðu fólki eða þeim sem nota skóstærð 43, einkum ef haft er í huga hve margir hafa reynt að ráðskast með líf manns og skilgreina persónuleika manns út frá öðru sem jafnólíklegt er að hafi nokkur áhrif á nokkurn skapaðan hlut, s. s. feng shui, talnaspeki, kínverskri stjörnuspeki, augnlit, blóðflokki og líkamsgerð, svo fátt eitt sé nefnt.
Hvað um það. Nú á mánudaginn las ég stjörnuspána mína í Blaðinu (með stóru Béi, svo það fari nú ekki á milli mála um hvaða blað ég er að tala) og hún hófst á þessum orðum: "Þú ert með báðar fæturnar á jörðinni." Þetta þótti mér merkilegt. Ég vissi ekki einu sinni að ég ætti fóttur, hvað þá tvær fætur. Reyndar vissi ég ekki einu sinni hvað fóttir var og þar sem ég fann orðið ekki í neinni orðabók datt mér fyrst í hug að hér væri um prentvillu að ræða og þarna ætti að standa "báðar dæturnar" (F og D eru einmitt hlið við hlið á lyklaborðum flestra ritvéla) en dætur á ég einmitt tvær og þótti gott að heyra að ég væri með þær báðar á jörðinni, þótt ég verði nú reyndar að viðurkenna að það hafði ekki hvarflað að mér að ég gæti verið með þær einhvers staðar annars staðar. Önnur þeirra er að vísu á interrail-ferðalagi um Evrópu um þessar mundir, en síðast þegar ég vissi einskorðuðust slíkar ferðir við yfirborð reikistjörnunnar og ég hafði nú ekkert miklar áhyggjur af því að hún væri mér óafvitandi komin á mála hjá evrópsku geimferðastofnuninni, svo ég segi nú bara alveg satt og rétt frá.
En þá rann upp fyrir mér ljós. Ég hafði, eins og mér er tamt, verið að flækja hlutina fyrir mér. Málið var auðvitað miklu einfaldara, málfræðilega séð. "Fæturnar" er auðvitað ekki fleirtala orðsins "fóttir" heldur orðsins "fæta" og samkvæmt orðabókum merkir sögnin að fæta að glíma eða berjast. Nafnorðið fæta hlýtur þarafleiðandi að vera glíma eða barátta. Ég er með öðrum orðum með báðar glímurnar á jörðinni. Þarna opnuðust fyrir mér gáttir dýpri skilnings á lífinu og tilverunni. Barátta mín, bæði fyrir veraldlegum og andlegum verðmætum, er háð hér á jörðinni. Allt sem ég þarf til að lifa fullnægjandi lífi, jafnt andlega sem líkamlega, er hér allt í kring um mig. Ég þarf ekki að leita langt yfir skammt, það sem líkaminn þarf sér til viðurværis er í næstu búð og það sem sálin þarfnast til að halda heilsu er ekki einhver fjarlægur guð úti í blánum heldur er hann hér mitt á meðal okkar, hvar sem tveir eða þrír eru samankomnir í nafni hans. Báðar fæturnar eru á jörðinni
Það sem ég skil samt ekki er af hverju stjörnuspekingur Blaðsins þurfti að flækja þetta svona. Einna helst er ég á því að hann sé ekki á alvörukaupi, frekar en svo margir Íslendingar, og þar sem allar stjörnuspár eru eðli sínu samkvæmt bara plat, hafi hann ekki aðra leið til að réttlæta kjör sín en þá að hafa hana á plat-íslensku.
Mig langar samt að þakka honum fyrir að hafa sett þessi einföldu sannindi fram á þennan kryptíska hátt, því ekki er einasta að þetta hafi orðið til þess að auka orðaforða minn, heldur gaf þetta mér jafnframt tilefni til mjög flókinna og skemmtilegra vangaveltna við eldhúsborðið heima hjá mér, þar sem ég sat og pældi í þessu með hönd undir kinn. Gott ef ég var ekki fyrir rest hreinlega kominn með báða höndana undir kinn.
(pistill fluttur á Rás1 5. ágúst síðastliðinn)

Vonandi eru vitsmunaverur á öðrum plánetum því ekki eru þær á þessari


Á undanförnum árum hefur glæný tegund sjónvarpsþátta skotið upp kollinum hérlendis sem víðar. Hér á ég við svokallað raunveruleika- sjónvarp. Sjálfur er ég ekki mikill aðdáendi þessa sjónvarpsefnis, en ég er engu að síður þakklátur fyrir þessa þróun vegna þess að fyrir mér hefur hún varpað nýju ljósi á hugtakið raunveruleiki. Ég hélt nefnilega lengi vel að raunveruleikinn væri nokkuð klipptur og skorinn, hann væri aðeins einn og að annað hvort væru hlutir raunverulegir eða ekki. Í dag geri ég mér hins vegar grein fyrir því að hugtakið er miklu loðnara og að það sem aðrir upplifa sem raunveruleika á kannski ekkert skylt við það hvernig minn raunveruleiki er frá degi til dags.
Ég er miklu meira fyrir vandað, leikið sjónvarpsefni. Einkum er ég hrifinn af Star Trek. Ég myndi ekki ganga svo langt að segja að ég væri aðdáandi, eða svokallaður "Trekkie", en mér finnst þessir þættir yfirleitt skemmtileg ævintýri með jákvæðan boðskap. Það fer þess vegna dálítið í taugarnar á mér, þegar ég ræði þennan áhuga minn á Star Trek við fólk, hve lágt þessir þættir eru almennt skrifaðir sem sjónvarpsefni hjá öllum þorra manna. Fólk virðist einkum horfa á ytra útlit þáttanna og neita að taka boðskap þeirra alvarlega vegna þess hve óraunverulegar geimverurnar eru. Ég vil leyfa mér að vera á öðru máli. Ég held að sú staðreynd að geimverurnar í Star Trek eru einmitt raunverulegar en ekki tölvuteiknaðar geri það að verkum að fólk tekur þær ekki alvarlega. Nú má vel vera að raunverulegar geimverur líkist hvorki Vúlkönum né Klingonum, en mér vitanlega veit enginn lifandi maður hvernig geimverur líta út í raun og veru, þannig að mér fyndist eðlilegt að leyfa geimverunum í Star Trek að njóta vafans að minnsta kosti þangað til mannkynið uppgötvar eitthvað sem raunverulega kollvarpar þessum hugmyndum. Geimverurnar í Star Trek eru nefnilega ekki óraunverulegar, þær eru bara ekki alveg sams konar hugarburður og allur annar hugarburður um geimverur sem sem haldið hefur verið að okkur til þessa.
Þegar upp er staðið eru geimverurnar í Star Trek aðeins hverjar aðrar framandi vitsmunaverur, þótt þær líti ekki eins út og þær framandi vitsmunaverur sem hver maður þarf að eiga samskipti við dags daglega og kallaðar eru annað fólk. Boðskapur þáttanna er yfirleitt sá að með umburðarlyndi og hugrekki sé hægt að sigrast á ótta, hroka og hleypidómum sem aðeins valda angist og tjóni, bæði þeim sem haldnir eru þessum kvillum og þeim sem þeir beinast að. Það er ekkert óraunverulegt við það. Þvert á móti vil ég fullyrða að þessi boðskapur sé áþreifanlegur raunveruleiki, bæði í mínu lífi og fjölda annarra, og mun nær þeim raunveruleika sem ég þekki heldur en það sem fyrir augu ber í meintum raunveruleikaþáttum eins og Survivor eða Newlyweds.
Reyndar vil ég ganga svo langt að segja að í Star Trek sé raunveruleikinn, eins og hann birtist mér, skrumskældur og afbakaður í mun minni mæli en í þeim vinsælu og virtu leiknu sjónvarpsþáttum Staupasteini, eða Cheers upp á ensku. Áður en ég held áfram vil ég taka fram að mér finnst þættirnir um Staupastein frábærir, þeir eru fyndnir og skemmtilegir, vel skrifaðir og persónusköpunin hreint afbragð. Ég er ekki að gagnrýna þessa þætti. Hins vegar get ég ekki stillt mig um að benda á að þeir eiga ekkert skylt við raunveruleikann.
Sjálfur hef ég verið þaulsætinn á börum og þykist vita nokkuð vel hvernig lífið gengur fyrir sig á þannig stöðum. Og það get ég fullyrt að hefði ég einhvern tímann álpast inn á barinn Staupastein og ætlað að sitja þar að sumbli hefði ég látið mig hverfa eftir tvo þrjá bjóra og ekki látið sjá mig þar aftur – sama hve skemmtilegur félagsskapurinn hefði verið. Nú geri ég mér fulla grein fyrir því að Sam Malone, sá sem á og rekur barinn, á að vera óvirkur alkóhólisti en mér finnst það samt engin afsökun fyrir því að servera gestum það piss sem hann greinilega gerir og vogar sér að kalla bjór. Piss, segi ég, því þarna sitja menn og þamba þessar veigar, daginn út og inn, og aldrei sér vín á nokkrum manni. Minnist kannski einhver þess að í Staupasteini hafi einhver farið að drafa og orðið leiðinlegur, einhver dottið um stól eða borð, einhver farið að æpa samhengislaust rugl út í bláinn og farið að angra aðra gesti, einhver hætt að halda þræði, sagt sömu söguna þrisvar sinnum eða jafnvel sofnað fram á barborðið? Minnist þess einhver að þjónustustúlkurnar hafi orðið fyrir ósmekklegum kynferðislegum aðdróttunum ef ekki beinlínis líkamlegu áreiti, að barþjónarnir hafi orðið fyrir hótunum, að þurft hafi að henda einhverjum út eða jafnvel að slagsmál hafi brotist út? Allt er þetta daglegt brauð á öllum almennilegum börum, börum þar sem áfengi er haft um hönd. Ef taka ætti Staupastein trúanlegan er því alveg ljóst að þar er verið féfletta viðskiptavinina, það er verið að selja þeim eitthvað allt annað en bjór – eins og hann er í raunveruleikanum – og slíkur bar ætti einfaldlega enga fastakúnna. Menn sem mæta daglega á barinn, svona eins og Norm og Cliff, þeir eru ekki komnir þangað út af félagsskapnum heldur bjórnum. Með öðrum orðum: Geimverurnar í Star Trek gefa mun réttari mynd af framandi vitsmunaverum heldur en fastakúnnarnir á Staupasteini gefa af drykkjumönnum.
Raunveruleikinn er nefnilega ekki allur þar sem hann er séður. Það er hægt að gera raunveruleikann svo lygilegan að við afskrifum hann umhugsunarlaust og lygina svo raunverulega að við gleypum hana hráa.
(pistill fluttur Rás1 29. júlí síðastliðinn)

Æðruleysi í umferðinni


Ég gerði æðruleysi að umtalsefni hérna fyrir skömmu og mig langar, ef ég má að fá að höggva aðeins í sama knérunn í dag. Það er nefnilega einu sinni svo að nú er ein mesta ferðahelgi ársins í uppsiglingu og umferðin hefur einhvern veginn þá náttúru að vera stanslaust skyndipróf í æðruleysi, jafnvel á venjulegum dögum, hvað þá um mestu ferðahelgi ársins – ég tala nú ekki um ef vörubílstjórar gera alvöru úr þeirri hótun sinni að valda umferðartöfum.
Það er ekki svo ýkja langt síðan ég var sannfærður um að í Reykjavík væru starfandi fjölmenn samtök áhugafólks um að gera mér lífið leitt í umferðinni með því að standa með reglulegu millibili fyrir því sem ég kallaði "Þvælast-fyrir-Davíð-Þór-dagurinn". Mér fannst hreinlega ekki einleikið hvað aðrir bílstjórar virtust stundum leggja sig í mikla framkróka við að tefja för mína um götur borgarinnar, einkum þá daga sem mikið var að gera hjá mér og þá alveg sérstaklega ef ég hafði í þokkabót asnast til að vera fullseinn af stað að sinna erindum mínum. Það gat að mínu mati ekki farið á milli mála að þarna væri um þrælskipulagt samsæri að ræða, einhvers staðar væru höfuðstöðvar þar sem aðalillmennið væri í stöðugu símasambandi við fjölda bílstjóra, fylgdist með ferðum mínum og gæfi skipanir á borð við: "Hann ætlar að beygja inn Lönguhlíðina, bílar 93 – 111, strax inn á Lönguhlíð, munið að aka löturhægt hlið við hlið. Bílar 55 – 73, stillið upp öngþveitinu við gatnamótin á Skipholtinu."
Óþarfi er að taka fram að þeir sem stjórnuðu umferðarljósunum í borginni voru þátttakendur í samsærinu.
Ég er tiltölulega nýfarinn að gera mér grein fyrir því að sennilega var þetta hugarburður, að sennilega hefðu allar þessar hræddu konur á allt of stóru jeppunum sínum og allir aldurhnignu herramennirnir með hattana á eldgömlu Skódunum sínum margt þarfara við líf sitt að gera en að eyðileggja mitt sér til skemmtunar og að umferðarljós borgarinnar væru sennilega ekki stillt á að verða rauð um leið og staðsetningartækið sem laumað hafði verið í bílinn minn án minnar vitundar nálgaðist þau. Það var talsverður léttir fyrir mig í því fólginn að skilja að "Þvælast-fyrir-Davíð-Þór-dagurinn" var hvergi haldinn hátíðlegur nema í bílnum hjá mér. Í bílnum á undan mér var "Þvælast-fyrir-Jóni-dagurinn" og í bílnum á eftir mér var "Þvælast-fyrir-Gunnu-dagurinn." Ég skal ekki draga fjöður yfir það að um leið voru ákveðin vonbrigði í því fólgin að láta sér loksins skiljast að maður væri alls ekki nógu merkilegur pappír til þess að tugir, ef ekki hundruð, Reykvíkinga tæku sig til og helguðu líf sitt og vilja því einu að hrekkja mig, að lífið væri ekki brandari á minn kostnað – að sennilega kæmi ég ekki einu sinni við sögu í brandaranum og að þeim sem sagði brandarann stæði líklega hjartanlega á sama um það hvort mér þætti hann fyndinn eða ekki eða hvort ég yfirhöfuð fattaði hann.
En eins og þessi uppgötvun var mikill léttir fyrir mig kemst hann þó varla í hálfkvisti við þann létti sem það var fyrir farþega mína að ég skildi loksins átta mig á þessu. Andrúmsloftið í bifreiðinni lagaðist samstundis til mikilla muna og í stað þess að það eina sem ég hefði til málanna að leggja væri að setja út á aksturslag annarra og að býsnast yfir því að kerfisfræðingarnir sem stilltu umferðarljósin hefðu líklega aldrei ekið bíl um Reykjavík á háannatíma og skildu því ekki eðlilegt umferðarflæði um helstu stofnæðar gatnakerfisins gat ég farið að ræða um daginn og veginn, hvernig hefði verið í skólanum, hvað við ættum að hafa í kvöldmat og hvort við ættum að fara í bíó um helgina og á hvaða mynd. Þá sjaldan sem það gerðist að bílstjórinn á undan mér gaf ekki stefnuljós var ástæða þess ekki lengur sú að það var ég sem var á eftir honum heldur sú að hann var bara ekki betri bílstjóri en þetta, greyið, og væri yfirhöfuð minnst á það að honum hefði láðst að sýna mér þá eðlilegu tillitsemi að gefa mér til kynna hvert hann stefndi var það gert í hálfkæringi en ekki heilagri vandlætingu yfir því að hann skyldi sýna mér, prívat og persónlega, þessa lítilsvirðingu. Ég fór jafnvel að gefa því séns að hugsanlega væri stefnuljósið hjá honum bilað án þess að hann væri búinn að átta sig á því.
Ástæða þess að ég er að deila þessu með ykkur er sú að ég vona að þið verðið sem flest fyrir þessari sömu andlegu reynslu og upplifið þann létti að skilja að það er engin persónuleg höfnun í því fólgin að þið skulið ekki vera leikstjórarnir í lífi allra í kringum ykkur. Bíltúrinn út á land verður miklu þægilegri ef þið hafið eftirfarandi þrjú atriði í huga.
1. Bílstjórinn á undan þér veit ekki einu sinni hvað þú heitir, hvað þá að það sé honum eitthvað sérstakt metnaðarmál að koma þér í sem mest uppnám með aksturslagi sínu.
2. Gremja þín í garð annarra bílstjóra hefur engin áhrif á aksturslag þeirra.
3. Þér í sjálfsvald sett hvort þú færð blæðandi magasár af því hvernig aðrir bera sig að í umferðinni eða hvort þú lætur andlegt sem líkamlegt heilbrigði sjálfs þín og andlega líðan farþega þinna njóta forgangs.
Að lokum vil ég óska landsmönnum öllum góðrar skemmtunar um verslunarmannahelgina og öryggis í umferðinni um leið og ég vona að sem fæstir drekki meira brennivín en þeir ráða við og að engum verði nauðgað.
(pistill fluttur á Rás 1 22. júlí síðastliðinn)

Æðruleysi í útvarpinu


Það er óneitanlega merkilegt til þess að hugsa að þegar fólk hefur misst stjórn á lífi sínu skuli eina þekkta leiðin út úr ógöngunum meðal annars felast í því að biðja Guð um æðruleysi til að sætta sig við það sem maður fær ekki breytt, kjark til að breyta því sem maður getur breytt og vit til að greina þar á milli. Auðvitað má færa rök fyrir því að það segi sig sjálf að ekki sé til neins að ala með sér gremju og óánægju sem engu fær breytt – nema hugsanlega manns eigin heilsufari til sálar og líkama – en það er alveg ótrúlegt hve margir virðast eiga erfitt með að temja sér þetta einfalda lífsviðhorf, ekki bara fólk sem er að endurheimta líf sitt úr viðjum áfengis-, eiturlyfja-, fjárhættuspila- og matarfíknar, svo fátt eitt sé nefnt, heldur ekki síður fólk sem ekki virðist eiga við nein vandamál að stríða fyrr en það opnar á sér munninn. Það er alveg stórfurðulegt hve margir telja óánægju sína með það, sem þeir eðli málsins samkvæmt geta ekki haft nein áhrif á, eiga erindi til annarra. Reyndar er það aðallega bara fyndið.
Sjálfur hef ég til dæmis mest yndi af því að hlusta á útvarpsmann nokkurn tala í ríkisútvarpið fyrir hádegi á hverjum degi og fárast yfir því að umhverfi hans og jafnvel hegðun bláókunnugs fólks í útlöndum skuli ekki vera eftir hans höfði og lúta þeim lögmálum sem gilda myndu væri það hann sem væri almáttugur en ekki Guð. Mér finnst hreinlega ekki einleikið hvað hann nennir þessu og er farinn hafa mjög gaman af fullkomnum skorti hans á æðruleysi til að sætta sig við það sem hann fær ekki breytt.
Þannig man ég að eftir síðustu evrópusöngvakeppni hélt hann langa ræðu, fullur vanþóknunar á rúmenska framlaginu. Hann hreinlega náði ekki upp í nefið á sér af hneykslan yfir því að menn skyldu leyfa sér að spila á slípirokka og berja olíutunnur á þessum vettvangi án þess að bera það undir hann og engu líkara var á máli hans en að hann teldi rúmensku listamennina hafa tekið upp á þessu af hreinum ótuktarskap og illgirni í hans garð, persónulega. Að þeir sætu nú heima í Rúmeníu og það hlakkaði í þeim yfir vellukkuðu hrekkjabragði því að nú sæti íslenskur útvarpsmaður norður á Akureyri og það syði á honum af gremju yfir því að þrjár mínútur í alþjóðlegri sjónvarpsútsendingu skyldu ekki hafa verið honum að skapi, að eini tilgangurinn með uppátækinu hefði verið að skaprauna honum. Um leið varð ekki betur á honum skilið en að íslenska framlagið hefði verið beitt miklum órétti, sem þó var ekki hægt að skilja að væri í öðru falinn en því að þorri evrópubúa hafi annan tónlistarsmekk en hann.
Sjálfur gengur þessi útvarpsmaður á undan með góðu fordæmi og leikur eingöngu sín eigin uppáhaldslög í þættinum sínum, lög sem hann sjálfur þekkir og kann og hefur heyrt milljón sinnum áður – ekkert óvænt, ekkert sem þarf að venjast og laga sig að, ekkert sem slegið getur mann út af laginu. Lögin eiga það öll sameiginlegt að hafa fyrst komið fyrir hlustir almennings á áratugnum þegar hann sjálfur var unglingur, enda hefur hann margoft lýst því yfir að sá áratugur státi af muni betri tónlist en áratugirnir þegar einhverjir aðrir en hann sjálfur voru unglingar. Þessa tónlist hefur hann leikið daglega árum, ef ekki áratugum, saman og í raun gæti hann tekið sér frí frá störfum og endurflutt gamla þætti án þess að nokkur yrði þess var. Það væri þá helst að ósamræmis gæti gætt í veðurfarslýsingum.
Það er nefnilega ekki nóg með að tónlistarsmekkur annarra sé í huga þessa útvarpsmanns kaldrifjað samsæri til að gera heiminn að verri stað og eyðileggja daginn fyrir honum, heldur er hnattstaða Íslands honum gríðarlegur þyrnir í augum og veðrið óþrjótandi uppspretta svekkelsis yfir ráðsályktun almættisins. Nú veit ég ekki hvort þetta endalausa önuglyndi af veðurfarslegum ástæðum stafar einvörðungu af því að hann sendir þættina út frá óveðra- og rigningabælinu Akureyri eða hvort hann hafi einfaldlega ekkert til málanna að leggja annað en það hvernig veðrið er fyrir norðan, fyrir utan það hverjir spiluðu inn á plötur fyrir fjörutíu árum – en það er samt sem áður athyglisverð staðreynd að dagskrárgerð hans ræðst að verulegu leyti af hitastiginu á Akureyri hverju sinni.
Nú í vikunni hefur greinilega gert einhverja muggu í Eyjafirði, því síðast þegar ég hlustaði, en þá var sólskin og blíða í Reykjavík, lagði hann það til að landið yrði dregið einhverja þúsund kílómetra suður á bóginn til að laga veðurfarið að skapferli hans. Það að laga skapferli sitt að veðurfarinu virðist vera fáránlega langsótt hugmynd í hans huga og ekki þess virði að um hana sé rætt, jafnvel þótt hver maður ætti að geta sagt sér það sjálfur að minna mál sé að laga þarfir sínar að heiminum en að laga heiminn að þörfum sínum.
Það er skelfilegt til þess að hugsa hve margir þjást og bíða bana af völdum fíknisjúkdóma. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að temji maður sér æðruleysi til að sætta sig við það sem maður fær ekki breytt og kjark til að breyta því sem maður getur breytt – sem er í raun og veru aðeins hausinn á manni sjálfum – opnast leið út úr ógöngunum. Vondu fréttirnar eru þær að fjölmargir þjást ekki af neinum slíkum kvillum og telja sig því yfir það hafna að biðja um þetta æðruleysi og þennan kjark, með þeim afleiðingum að þeirra bíður aðeins magasár af ergelsi yfir því að heimurinn skuli voga sér að snúast um annað en rassgatið á þeim.
(pistill fluttur á Rás 1 15. júlí síðastliðinn)

Venjulegt fólk getur haft áhrif


"Flettið dagblaði, hvaða dag vikunnar sem er, og þar gefur að líta frétt einhvers staðar úr heiminum þar sem greint er frá því að einhver hafi verið fangelsaður, sæti pyntingum eða hafi verið tekinn af lífi af því að skoðanir hans eða trúarbrögð falla ekki kramið hjá stjórnvöldum. Lesandanum finnst hann magnvana gagnvart þessu, en ef fólk um allan heim sameinaðist í andúð sinni væri hægt að koma miklu til leiðar."
Það er sorglegt til þess að hugsa að þessi orð skulu eiga jafnvel við í dag og þegar þau voru rituð – fyrir 44 árum. Þetta eru upphafsorð greinar sem birtist í The Observer 28. maí 1961 sem hét The Forgotten Prisoners eða Gleymdu fangarnir. Greinin átti eftir að draga dilk á eftir sér en birting hennar er talin marka upphafið að stofnun mannréttindahreyfingarinnar Amnesty International. Í byrjun voru þau stofnuð sem eins árs herferð til lausnar sex samviskuföngum, en þeim hefur vaxið fiskur um hrygg og nú er Amnesty International stærstu mannréttindasamtök heims með meira en 1,8 milljónir félaga og stuðningsaðila í fjölda landa, þar af um 5000 á Íslandi. Höfundur greinarinnar var Peter Benenson, að öðrum ólöstuðum tvímælalaust einn mesti mannvinur 20. aldarinnar.
Peter Benenson sannaði að það er hægt að hafa áhrif. Erfitt er að ímynda sér víðtækari breytingar en þær sem orðið hafa á alþjóðlegum viðhorfum til mannréttinda á æviferli hans. Nú eru tæplega hundrað alþjóðlegir samningar um mannréttindi í gildi í heiminum. Meira en 90% af ríkjum veraldar hafa skuldbundið sig til að virða öll helstu mannréttindi þegna sinna. Réttindi kvenna, barna og minnihlutahópa hafa verið tryggð víða um heim með löggjöf. Þeir sem ábyrgir eru fyrir pyntingum og grófum mannréttindabrotum eiga hvergi öruggt skjól og hafa verið látnir sæta ábyrgð gjörða sinna og meirihluti ríkja heims hefur afnumið dauðarefsingu.
Mikið starf er þó enn eftir óunnið. Enn eru konur, börn og minnihlutahópar beittir harðræði og kúgun víða um heim – jafnvel í vestrænum löndum sem stært hafa sig af því að standa framarlega á sviði mannréttinda er mansal og kynlífsþrælkun ekki á neinu undanhaldi. Barnaþrælkun er plága í fjölda landa. Ríki eins og Bandaríkin, sem gjarna hreykja sér af því að vera í fylkingarbrjósti baráttunnar fyrir frelsi og lýðréttindum, beita enn þegna sína dauðarefsingu og pynta fanga, m. a. í Írak og Guantanamo. Það nægir að nefna staði eins og Rúanda og Srebrenica til að ískaldur hrollur fari um þá sem fylgst hafa með heimsfréttum síðastliðin ár.
Peter Benenson lést 26. febrúar síðastliðinn, 83 ára að aldri. Það er kaldhæðnislegt að hryðjuverkin í London í gær skyldu varpa skugga á minningarathöfn um hann sem fram fór í borginni sama dag. Fyrir vikið var kastljósi fjölmiðla beint að því sem enn er að, en ekki að því sem við þó höfum fengið áorkað, m. a. fyrir tilstilli manna eins og hans. Um leið minna atburðirnir okkur á mikilvægi þess að sem flestir fylki liði um þær hugsjónir sem hann stóð fyrir.
Irene Khan, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International, komst vel að orði þegar hún lét svo um mælt við andlát hans: "Líf Peters Benensons bar vitni um hugrekki í þágu þeirrar hugsjónar hans að berjast gegn óréttlæti um allan heim. Hann færði ljós inn í myrkvuð fangelsi, hrylling pyntingaklefa og hörmungar dauðabúða um víða veröld. Samviska hans skein skært í grimmri og hræðilegri veröld, hann trúði á mátt venjulegs fólks til að koma til leiðar ótrúlegum breytingum og með því að stofna Amnesty International gaf hann hverjum og einum tækifæri til þess að leggja sitt af mörkum."
Það lýsir persónu Peters Benensons kannski einna best að allir forsætisráðherrar Breta sl. 40 ár buðu honum að vera aðlaður en hann afþakkaði ávallt þann heiður og skrifaði þeim í staðinn bréf – sem hann vélritaði sjálfur eigin höndum allt þar til heilsan leyfði honum það ekki lengur – þar sem hann taldi upp þau mannréttindabrot sem Amnesty International var að fást við hverju sinni innan Bretaveldis og lagði til, án þess að tala undir rós, að ef ríkisstjórnin vildi heiðra ævistarf hans skyldi hún beina athygli sinni að því að lagfæra ástandið frekar en því að dilla honum.
Guð blessi minningu Peters Benensons. Guð blessi minningu þeirra sem fórust í hryðjuverkaárásinni í London í gær og veiti öllum líkn sem eiga um sárt að binda í kjölfar þeirra. Guð veiti okkur hinum styrk til að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að fleiri þurfi að líða af sömu sökum.
Ég skora á alla sem láta sig mannréttindi einhverju varða að taka þátt í starfi Amnesty á Íslandi. Venjulegt fólk getur haft veruleg áhrif.
(pistill fluttur á Rás 1 8. júlí síðastliðinn)