þriðjudagur, október 04, 2005

Æðruleysi í umferðinni


Ég gerði æðruleysi að umtalsefni hérna fyrir skömmu og mig langar, ef ég má að fá að höggva aðeins í sama knérunn í dag. Það er nefnilega einu sinni svo að nú er ein mesta ferðahelgi ársins í uppsiglingu og umferðin hefur einhvern veginn þá náttúru að vera stanslaust skyndipróf í æðruleysi, jafnvel á venjulegum dögum, hvað þá um mestu ferðahelgi ársins – ég tala nú ekki um ef vörubílstjórar gera alvöru úr þeirri hótun sinni að valda umferðartöfum.
Það er ekki svo ýkja langt síðan ég var sannfærður um að í Reykjavík væru starfandi fjölmenn samtök áhugafólks um að gera mér lífið leitt í umferðinni með því að standa með reglulegu millibili fyrir því sem ég kallaði "Þvælast-fyrir-Davíð-Þór-dagurinn". Mér fannst hreinlega ekki einleikið hvað aðrir bílstjórar virtust stundum leggja sig í mikla framkróka við að tefja för mína um götur borgarinnar, einkum þá daga sem mikið var að gera hjá mér og þá alveg sérstaklega ef ég hafði í þokkabót asnast til að vera fullseinn af stað að sinna erindum mínum. Það gat að mínu mati ekki farið á milli mála að þarna væri um þrælskipulagt samsæri að ræða, einhvers staðar væru höfuðstöðvar þar sem aðalillmennið væri í stöðugu símasambandi við fjölda bílstjóra, fylgdist með ferðum mínum og gæfi skipanir á borð við: "Hann ætlar að beygja inn Lönguhlíðina, bílar 93 – 111, strax inn á Lönguhlíð, munið að aka löturhægt hlið við hlið. Bílar 55 – 73, stillið upp öngþveitinu við gatnamótin á Skipholtinu."
Óþarfi er að taka fram að þeir sem stjórnuðu umferðarljósunum í borginni voru þátttakendur í samsærinu.
Ég er tiltölulega nýfarinn að gera mér grein fyrir því að sennilega var þetta hugarburður, að sennilega hefðu allar þessar hræddu konur á allt of stóru jeppunum sínum og allir aldurhnignu herramennirnir með hattana á eldgömlu Skódunum sínum margt þarfara við líf sitt að gera en að eyðileggja mitt sér til skemmtunar og að umferðarljós borgarinnar væru sennilega ekki stillt á að verða rauð um leið og staðsetningartækið sem laumað hafði verið í bílinn minn án minnar vitundar nálgaðist þau. Það var talsverður léttir fyrir mig í því fólginn að skilja að "Þvælast-fyrir-Davíð-Þór-dagurinn" var hvergi haldinn hátíðlegur nema í bílnum hjá mér. Í bílnum á undan mér var "Þvælast-fyrir-Jóni-dagurinn" og í bílnum á eftir mér var "Þvælast-fyrir-Gunnu-dagurinn." Ég skal ekki draga fjöður yfir það að um leið voru ákveðin vonbrigði í því fólgin að láta sér loksins skiljast að maður væri alls ekki nógu merkilegur pappír til þess að tugir, ef ekki hundruð, Reykvíkinga tæku sig til og helguðu líf sitt og vilja því einu að hrekkja mig, að lífið væri ekki brandari á minn kostnað – að sennilega kæmi ég ekki einu sinni við sögu í brandaranum og að þeim sem sagði brandarann stæði líklega hjartanlega á sama um það hvort mér þætti hann fyndinn eða ekki eða hvort ég yfirhöfuð fattaði hann.
En eins og þessi uppgötvun var mikill léttir fyrir mig kemst hann þó varla í hálfkvisti við þann létti sem það var fyrir farþega mína að ég skildi loksins átta mig á þessu. Andrúmsloftið í bifreiðinni lagaðist samstundis til mikilla muna og í stað þess að það eina sem ég hefði til málanna að leggja væri að setja út á aksturslag annarra og að býsnast yfir því að kerfisfræðingarnir sem stilltu umferðarljósin hefðu líklega aldrei ekið bíl um Reykjavík á háannatíma og skildu því ekki eðlilegt umferðarflæði um helstu stofnæðar gatnakerfisins gat ég farið að ræða um daginn og veginn, hvernig hefði verið í skólanum, hvað við ættum að hafa í kvöldmat og hvort við ættum að fara í bíó um helgina og á hvaða mynd. Þá sjaldan sem það gerðist að bílstjórinn á undan mér gaf ekki stefnuljós var ástæða þess ekki lengur sú að það var ég sem var á eftir honum heldur sú að hann var bara ekki betri bílstjóri en þetta, greyið, og væri yfirhöfuð minnst á það að honum hefði láðst að sýna mér þá eðlilegu tillitsemi að gefa mér til kynna hvert hann stefndi var það gert í hálfkæringi en ekki heilagri vandlætingu yfir því að hann skyldi sýna mér, prívat og persónlega, þessa lítilsvirðingu. Ég fór jafnvel að gefa því séns að hugsanlega væri stefnuljósið hjá honum bilað án þess að hann væri búinn að átta sig á því.
Ástæða þess að ég er að deila þessu með ykkur er sú að ég vona að þið verðið sem flest fyrir þessari sömu andlegu reynslu og upplifið þann létti að skilja að það er engin persónuleg höfnun í því fólgin að þið skulið ekki vera leikstjórarnir í lífi allra í kringum ykkur. Bíltúrinn út á land verður miklu þægilegri ef þið hafið eftirfarandi þrjú atriði í huga.
1. Bílstjórinn á undan þér veit ekki einu sinni hvað þú heitir, hvað þá að það sé honum eitthvað sérstakt metnaðarmál að koma þér í sem mest uppnám með aksturslagi sínu.
2. Gremja þín í garð annarra bílstjóra hefur engin áhrif á aksturslag þeirra.
3. Þér í sjálfsvald sett hvort þú færð blæðandi magasár af því hvernig aðrir bera sig að í umferðinni eða hvort þú lætur andlegt sem líkamlegt heilbrigði sjálfs þín og andlega líðan farþega þinna njóta forgangs.
Að lokum vil ég óska landsmönnum öllum góðrar skemmtunar um verslunarmannahelgina og öryggis í umferðinni um leið og ég vona að sem fæstir drekki meira brennivín en þeir ráða við og að engum verði nauðgað.
(pistill fluttur á Rás 1 22. júlí síðastliðinn)

Engin ummæli: